Ásláksstaðahús – skilti
„Ásláksstaðahús“ eða Ásláksstaðir (Ytri-Ásláksstaðir) er á Vatnsleysuströnd, stendur nú yfirgefið millum Innri-Ásláksstaða (Sjónarhóls) og Móakots, sem einnig hafa verið yfirgefinn. Hvergi er nú búið á fyrrum bæjum í Ásláksstaðalandi, s.s. á fyrrnefndum bæjum eða í Atlagerði, Gerði, Fagurhól, Nýjabæ (Hallanda), Garðhúsum eða í öðrum ónefndum kotbýlum á jörðinni.
Á norðurvegg Ytri-Ásláksstaða er skilti. Þá því má lesa eftirfarandi:
„Ásláksstaðahús er elsta hús sveitarfélagsins Voga. Það var byggt á árunum 1883-1884 úr kjörviði úr Jamestown strandinu í Höfnum.
Húsið er friðað og í eigu Sögu- og minjafélags Vatnsleysustrandar.
Endurbætur og undirbúningur flutnings hefjast haustið 2025. Vinsamlega sýnuð verkefninu virðingu.“
Sögu- og minjafélagið fékk húsið gefins og er nú fyrirhugað að flytja það á minjasvæðið að Kálfatjörn, þangað sem gamla húsið í Norðurkoti var flutt á sínum tíma og endurgert.
Ytri-Ásláksstaðir (tvíbýli fyrir aldamót)
Ásláksstaðahúsið sem nú stendur var byggt um 1883-4 úr kjörviði sem seldur var á uppboði úr skipinu James Town, er strandaði í Höfnum og áður er getið um.
Um aldamótin bjuggu á Ytri-Ásláksstöðum Guðmundur Guðmundsson, bóndi, f. 1830 og kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 1833. Þau voru þar með tvær dætur sínar. Önnur hét Sigríður f. 1861, og var hennar maður Tómás er dó á besta aldri. Þau áttu eina dóttur, Guðbjörgu, f. 1894. Hin dóttir Guðmundar og Ingibjargar var Guðrún, f. 1866. Hún hóf búskap á Ásláksstöðum með Guðjóni J. Waage. (sjá Stóru-Voga). Dóttir þeirra var Ingibjörg Waage, en hún var sjúklingur meiri hluta ævinnar.
Árið 1912-13 voru systurnar, Sigríður og Guðrún Guðmundsdætur, á loftinu á Ásláksstöðum með dætrum sínum, Guðbjörgu og Ingibjörgu, en niðri munu hafa búið leiguliðar, Guðlaugur Hinriksson og kona hans, Guðrún Þórðardóttir. Einnig voru þar hjónin Sigurður Magnússon og kona hans, Kristín.
Fyrir 1920 voru Ásláksstaðir fá ár án búsetu, en þeir voru þá til sölu og var Gísli Eiríksson í Naustakoti umboðsmaður jarðeigenda. Árið 1920 kom kaupandi, Davíð Stefánsson frá Fornahvammi í Borgarfirði og kona hans, Vilborg Jónsdóttir frá Innri-Njarðvík. Höfðu þau búið fáein ár í Fornahvammi.
Davíð var hálfbróðir Sigurjóns í Nýjabæ eins og áður er sagt. Hann var búmaður, enda fyrrverandi bóndi í Fornahvammi sem var blómlegt bú þegar best lét. Ekki mun Davíð hafa verið fyrir sjómennsku, en þeim mun meira fyrir landbúnaðinn. Vilborg, kona hans, var dugmikil kona og ráðdeildarsöm. Hún var mjög eftirsótt vegna handavinnu sinnar, en hún hafði numið karlmannafatasaum og lék allt í höndum hennar. Davíð og Vilborg eignuðust 9 börn og urðu flest þeirra fljótt vinnusöm og vel nýt til hvers sem var. Ekki komust þau öll til fullorðinsára. Börn þeirra voru: 1) Steingrímur Axel (lést tveggja ára), 2-3) Friðrik Fjallstað, tvíburi, hinn lést í fæðingu, 4) Guðmundur Lúðvík. Pessi börn fæddust í Fornahvammi, en að Ásláksstöðum fæddust: 5) Margrét Helga, (lést tveggja ára), 6) Helgi Axel, 7) Hafsteinn, rafvirki (látinn), 8) Þórir, rafvirki, 9) Marinó.
Eftir lát Davíðs árið 1959 bjó Vilborg áfram með þeim sonum sínum sem ekki voru þá farnir að heiman, en það voru Lúðvík og Friðrik. Mörg síðustu árin var Vilborg sjúklingur á spítala og lést árið 1985. Bræðurnir hafa haldið við jörð og húsum í eigu dánarbúsins. Nú eru Atlagerði, Móakot og Nýibær komin í eigu Ytri-Ásláksstaða, eins og þeir bæir munu hafa verið fyrr á tímum.















