Ásustrandið við Grindavík 1926
Í Þjóðmálum, 2. hefti 01.06.2015, er fjallað um „Ásustrandið 1926“ utan við Járngerðarstaði í Grindavík, en það mun hafa verið upphafið að endalokum Duus-verslunar í Keflavík. Enn í dag má sjá ketilinn úr togaranum á fjöru í Stórubót, auk þess enn má bera augum skipsbjölluna sögulegu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.
„Peter Duus og kona hans, Ásta Tómasdóttir Beck, stofnuðu útgerðar- og verslunarfélagið H.P. DUUS árið 1848. Það var starfrækt í Keflavík til ársins 1920 þegar starfsemin var flutt til Reykjavíkur. Árið 1904 keypti H.P. Duus, eða Duusverslun, tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10. október 1917. Þrátt fyrir erfið skilyrði bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón.
Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku.
H.P. Duus lét óhappið ekki slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland en fékk nú nafnið Ása. Hann var var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip.
Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram að því að Ása strandaði á Víkurflúðum undan Malarrifi í desember 1925. Togarinn eyðilagðist á strandstað en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og gerðist þegar kútterinn Ása strandaði við Hvalsnes. Rétt eins og þá var það var talið sérstakt happ að áhöfnin skyldi sleppa ósködduð úr strandi á þessum stað í slæmu veðri.
Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus-verslun. Hún átti í byggingu nýjan togara í Englandi hjá skipasmíðastöðinni Smiths Dock Co. Ltd. Þrátt fyrir að strand Ásu við Malarrif skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og og var nýi togarinn sjósettur í febrúar 1926. Mánuði síðar kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása RE 18, þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni.
Duus-verslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips. Það var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta og best búna skip togaraflotans. Skipið fór í sínu fyrstu veiðiferð á svonefndum Grunnhalla á Selvogsbanka. Þar fékkst fullfermi og upp úr miðnætti 2. apríl 1926 var haldið af stað til Reykjavíkur.
Klukkan að ganga fjögur um morguninn varð fólk í Grindavík þess vart að skip var strandað á Flúðum austan Járngerðarstaðahverfis. Skipverjar sendu belg í land með orðsendingu þess efnis að þeir myndu halda kyrru fyrir í skipinu uns fjaraði út. Með orðsendingunni fengu Grindvíkingar að vita um hvaða skip var um að ræða.
Um hádegisbil lét áhöfn Ásu björgunarhring með línu reka í land. Björgunarmenn drógu síðan togvír á línunni og festu í landi. Áhöfnin sagaði í sundur tunnu og útbjó björgunarstól og einnig bjuggu skipverjar til dragreipi.
Á þessum tímum voru ekki komin björgunartæki sem nú eru til, enda var erfitt að koma á sambandi milli skips og lands. Það var álandsvindur á suðaustan og nokkur stormur en í land var löng leið því að þarna er útgrynni. Fyrst vildi línan festast í botni þar til haft var nógu stutt á milli flotholta á henni, þá fékkst hún til að reka vestur á Stórubót. Á lága sjónum var hægt að fara á bát út á Bótina og ná þannig í belginn. Þá var eftir að bera línuna þangað sem styst var í land frá skipinu en það var í Eystri-Hestaklettinum. Eftir að það hafði tekist var fljótlega gengið frá tækjum svo að hægt væri að draga mennina í land. Það gekk vel og allir björguðust.
Þar sem hér var um nýtt skip að ræða var mikið gert til að ná því út aftur. Meðal annars var fengið til þess danskt björgunarskip, Uffe. Það mun hafa verið í maímánuði sem Uffe byrjaði á björgunarstarfinu og var við það nokkuð fram í júnímánuð. Mestur tíminn mun hafa farið í að létta Ásu og steypa í göt sem komin voru á botninn og einnig að slétta fjöruna sem draga átti skipið eftir.
Þegar þessum undirbúningi var lokið var á stórstraumsflóði farið að taka í skipið og var það dregið 2–3 lengdir sínar út. Af einhverri ástæðu var þá hætt að draga skipið þannig út, með afturendann á undan, og farið að snúa því þarna í fjörunni. En þegar skipið var komið nokkurn veginn þversum, þ.e. lá flatt fyrir sjónum, hreyfðist það ekki meira — og þannig var skilið við það litlu seinna. Það hélt margur hlutlaus áhorfandinn að hægara hefði verið að snúa skipinu þegar það hefði verið komið á flot en að gera það meðan það lá í fjörunni.
Fyrstu dagana í júlí gerði storm og brim. Á einu flóðinu hvarf Ása algerlega svo að ekkert sást eftir nema brak í fjörunni og ketillinn þar sem skipið hafði verið. Svo virðist að það verki eins og dínamítsprengja þegar brimsjór fellur ofan í skip með opnar lúgur, krafturinn er svo mikill á sjónum ásamt því að samþjappað loft er inni í skipinu. Jafnvel þótt um járnskip sé að ræða geta þau tæst í sundur undan nokkrum sjóum.
En þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja, eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterk að þótt allt annað hverfi standa þau af sér stórsjóina til áratuga og verða eins konar minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél Ásu RE 18 sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur.
Vel má gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiferð. Það hafði aldrei verið landað afla úr skipinu en það var að fara í land, sem fyrr segir, með fullfermi úr sinni fyrstu veiðiferð.
Sú saga gekk á sínum tíma manna á meðal að upphaf endaloka Duus-verslunar hafi verið þegar hún hóf byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík árið 1917. Þar sem húsið átti að standa var fyrir hóll. Þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Hún bað stúlkuna að fara til Duus og segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annars staðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt. En hún talaði fyrir daufum eyrum. Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duus-verslunar.
Hvort sem marka má drauminn eður ei reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun upp frá þessu og þrjá skipstapa á nokkrum árum — síðast strand hinnar nýju Ásu — þoldi fyrirtækið ekki.
Eitt af því sem varðveittist í Ásu-strandinu við Grindavík 1926 var skipsbjallan. Líklega hefur Einar Einarsson, útgerðarmaður og stórkaupmaður í Grindavík, eignast bjölluna eftir strandið. Næstyngsti sonur Einars, Hlöðver Einarsson, seldi bjölluna síðar Davíð Sch. Thorsteinssyni iðnrekenda og athafnamanni. Haustið 2014 gaf Davíð Jóhannesi Einarssyni, einum af yfirmönnum Cargolux í Lúxemborg, síðar ræðismanni Íslands í Mónakó, bjölluna, en Jóhannes er yngri sonur Einars Sigurjóns Jóhannessonar sem var fyrsti vélstjóri á Ásu.“
Bjallan framangreinda hangir nú á veitingastaðnum Bryggjunni við höfnina í Grindavík þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.
Heimild:
-Þjóðmál. 2. hefti 01.06.2015 – Ásu-strandið 1926, bls. 52-55.