Á hvítasunnudag var gengið í Krýsuvíkurhraun. Farið var um Bálkahelli, sem er víð u.þ.b. 500 metra löng og rúmgóð hraunrás. Hægt er að ganga eftir henni og koma upp um 300 metrum neðar í hrauninu. Þá var gengið um Klofninga og síðan að Arngrímshelli, fjárhelli, sem notaður var um aldir af bóndanum á Læk ofan við Krýsuvíkurbjarg (um 1700). Við Arngrím er kennd þjóðsagan um Grákollu, þá einu á, sem af lifði hrakningarveðrið mikla aðdragandavetur 18. aldarinnar. Síðar (um 1830) nýtti Krýsuvíkur-Gvendur hellinn í sama tilgangi.
Vegna þess hve veður var gott var ákveðið að ganga um Lat að aldagömlu sæluhúsi í hrauninu sunnan hans.
Þaðan var haldið í Óbrennishólma þar sem skoðaðar voru yfir 1000 ára gamlar minjar, eða allt frá því fyrir að Ögmundarhraun rann árið 1151. Jón Jónsson, jarðfræðingur, telur aldur Ögmundarhrauns hins vegar vera C14 945 ± 85. Samkvæmt því mun hraunið hafa runnið 1005. Efst í hólmanum eru hlaðnir veggir, sem hraunið staðnæmdist við, neðst í honum eru veggir af gamalli rétt við hraunkantinn og efst eru leifar gamallar fjárborgar, þeirrar stærstu á Reykjanesi. Skammt austar er tóft fjárborgar eða topphlaðins húss. Vestan stóru borgarinnar sést móta fyrir jarðlægum garði er liggur upp í hólmann.
Heimild m.a.: J.J. ´81.