Ásvarða – Ólafur Þorvaldsson
Eftirfarandi skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Verndun fornminja – Ásvarða“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1948 um Ásvörðu ofan Hafnarfjarðar segir:
„Skammt suður frá Hafnarfirði er hæð nokkur eða fell, sem Ásfjall heitir. Fjall þetta má að vísu telja til hinna smærri fjalla, þó tekur það yfir nærliggjandi holt og hæðir þar í grend. Þótt fjall þetta láti lítið yfir sjer, hefur það þó nokkra þýðingu, og var oftar umtalað en allar aðrar hæðir um þessar slóðir.
Börn og fullorðnir töluðu um Ásfjall sem mesta berjaland í grennd Hafnarfjarðar, á sumrum, en sjómenn kringum sunnan verðan Faxaflóa, sem mið meira og minna allt árið. Á norður hæð f jallsins var ævaforn grjótvarða. Fram undir síðustu aldamót var hún ekki hærri en 4—5 álnir. Árið 1897 eða ’98 sjer heimafólk að Ási, sem stendur undir fjallinu, hvar maður er kominn að vörðunni, og hefst þar nokkuð að, með fyrirgangi miklum. Móðir mín, sem þá var orðin ekkja, en bjó enn að Ási, vildi vita hvað hinn aðkomni maður hygðist fyrir. Móðir mín, sem vissi hvaða þýðingu varðan hafði á þessum Stað, vildi koma í veg fyrir að hún yrði rifin niður, eða færð úr stað, ef það væri meining þessa aðkomumanns.
Saga Ásvörðu, eins og umrædd varða var allt af kölluð, er aldagömul saga, sennileg jafngömul sögu áraskipanna við Faxaflóa, eftir að skipin stækkuðu svo að mönnum óx svo fískur um hrygg, að þeir gátu gert skip sín svo úr vör, að viðlit var að fara á þeim til hinna djúpu fiskimiða. Þegar nú annað tveggja fisk þraut á grunnmiðum, eða hann kom ekki á þau þetta eða hitt árið og sjómenn fóru að leita út á djúpið, hafa þeir komist fljótt að því, að ekki var sama hvar eftir fiski var leitað. —
Þegar svo kom þar sem nægur fiskur var undir, var áríðandi að tína ekki þeim bletti aftur. Fóru menn þá að miða staðinn, og var það gert með því að horfa til lans taka einskonar lengdar- og breiddar-mæling, gert að eins með athugulum augum, því að annað sem til má nota var þá ekki fyrir hendi. Voru þá venjuleg fjöll og önnur kennileiti á landi notuð sem mið. Allt af urðu miðin að vera fjögur, tvö og tvö, sem báru saman í hvorri átt, samsvarandi lengdar og breiddar línunni.
Venjulega voru há fjöll eða hlutar þeirra, sem hátt báru, höfð að yfirmiði, en aftur önnur, sem oft voru nær sjó og lægra, lágu, að undirmiði. Kölluðu svo menn þessa staði, sem þannig var búið að miða sig niður á, á sjónum, mið eða slóðir. Þannig varð Ásvörðuslóð til, mjög fisksælt mið á Suður-Sviði f Faxaflóa. Var Ásvarða undirmið en Valahnjúkur venjulega yfirmið. Á þetta fisksæla mið hafa margar kynslóðir sótt, og fært þaðan þjóðarbúinu mikla björg. Þessi góðu, gömlu fiskimið urðu því vinsæl, og umræður um þau oft fljettaðar inn í samtöl fólks þess er við sjóinn bjó. Nú mun tími gömlu fiskimiðanna að mestu liðinn, því ekki mun standa eins glöggt nú, hvar línu eða botnvörpu sje í sjóinn kastað frá borði, samanborið við það, þegar að eins um handfæri var að ræða á opnum skipum.
Vík jeg nú aftur að manni þeim, sem kominn var að Ásvörðu 1897 eða ’98. Móður mín bað vinnumann fara og vita hvað hann \æri þar að aðhafast, og fór jeg með sem forvitinn krakki. Þegar að vörðunni kom, er þar fyrir stór og þrekinn maður, gengur hann móti okkur með miklu málæði og handapati, skildist okkur strax að hjer var kominn danskur maður.
Mikið vildi maðurinn við okkur tala, en heldur gekk það samtal báglega, því hvorttveggja var, að við vorum ekki sterkir í dönskunni og jeg held hann þó enn linari í íslenskunni. Þó skildist manninum, sem með mjer var, að sá danski meinti að stækka þyrfti vörðuna, og helst vegna innsiglingar til Hafnarfjarðar. Meðan mennirnir voru að berjast við að gera sig skiljanlega hvor fyrir öðrum og bar þar stórum meira á orðaforða þess danska, fór jeg að forvitnast um húfu og jakka, eða flík þá sem var þeim danska í jakka stað. Þar eð heitt var í veðri hafði hann úr þeirri flík farið og lagt á stein allnærri, sá jeg þá að á húfunni stóð með gylltum bókstöfum „Heimdal“. Við hjeldum nú heim við svo búið og sá danski litlu seinna.
Nokkrum dögum síðar kemur stór hópur manna enn að vörðunni og voru þar komnir all-margir skipverja, bæði yfir- og undirmenn af danska eftirlitsskipinu Heimdalli, sem á þeim árum
var nokkuð hjer við land og var þá oft tíður gestur á Hafnarfírði. Menn þessir taka til og bera grjót að hinni gömlu vörðu og er hún á skömmum tíma orðin bæði há og gild. — Þessar tiltektir ljetu menn sjer vel líka, varðan sást bara betur utan af Sviði eftir en áður. Svo líða yfir fjörutíu ár, sem þessi varða stendur, öllum að meinlausu, en mörgum til gagns. — Varðan hefur máske lokið sínu dagsverki, sem ekki skipti dögum eða árum, heldur öldum. Þó er ekki lokið fyrir það skotið, að sjómenn leiti enn fisks á Ásvörðuslóð — en varðan gamla er horfin. Hún var afmáð sem kennileiti á fyrsta eða öðru hernámsári hjer, en þar sem hún var áður, er nú byrgisrúst, engum til gagns eða leiðbeiningar, en brún fjallsins til óprýði. —
Varðan var afmáð sem leiðarvísir, af útlendum höndum, sennilega í allt öðrum tilgangi, en þegar aðrar útlendar hendur stækkuðu hana — eða þá í algjöru tilgangsleysi. Heyrt hefi jeg það, að eldri sjómenn sakni vörðunnar, og telji sig einum fornvin fátækari við hvarf hennar, og þar hafi fallið, eða verið fellt gamalt minnismerki um oft harða cg frækilega baráttu þeirra manna, sem sóttu sjó á opnum áraskipum langt á haf út. Nú spyr jeg: Eru til lög, sem ætlað er að vernda þetta, eða önnur slík fornvirki og ef svo er, hverjum ber að sjá um framkvæmd þeirra laga?
Kringum árið 1930 skrifaði þáverandi vitamálastjóri, Th. Krabbe, Guðmundi Jónssyni, bónda í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík og bað hann sjá um endurbyggingu á vörðu á Æsubúðum á Geitahlíð, gegn fullu gjaldi. Varða þessi var farin að falla af, bæði fyrir tímans tönn og jarðskjálftar flýtt þar fyrir. Þarna var ekki að ræða um innsiglingar- eða sundmerki — en við hana var oft miðað af sjó, sem gott fiskimið. Krabbe taldi að hún mætti þess vegna ekki falla í rúst. Á Ásvarða ekki sama rjett?
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. tbl. 13.06.1948, Verndun fornminja, Ásvarða, Ólafur Þorvaldsson, bls. 296-297.
Ef svo er, vona jeg að vitamálastjóri sjái sjer fært að fá mann eða menn til að reisa Ásvörðu úr“ rúst, og um leið afmá tóft þá eða rúst, sem nú umlykur sæti hennar; hið forna, enda mundi grjót það sem í rústinni er, að mestu ganga upp í vörðuna.
Gömlu fiskimiðin kringum landið eru að týnast, verði ekki bráðlega undið að því að bjarga því sem enn er hægt að bjarga, og virðist mjer að endurbygging Ásvörðu væri liður í þeirri viðleitni, og sjálfsögðu skyldu að reyna að vernda frá glötun nöfn á þessum fornu kennileitum, og þau sjálf þar sem þau eru á þeim stað, sem hægt er að koma því við, og þar með lengt lífið í fornum fiskimiðum, svo sem hjer um ræðir: Ásvörðuslóð.
Einhverjum finnst ef til vill, að hjer hafi of mörgum orðum verið farið um gamla grjótvörðu. Jeg mundi ekki hafa tekið þetta efni til meðferðar, ef jeg teldi ekki að hér stæði sjérstaklega á, t.d. vörðu sem einhver hefði hrófað upp einhvers staðar í algjöru meiningarleysi. En Ásvörðu eða öðrum fornum merkjum hvar sem eru, sem minna á atvinnuhætti horfinna kynslóða, sem við eigum flest að þakka, höfum við ekki efni á að glata.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 21. tölublað (13.06.1948) – Verndun fornminja – ÁSVARÐA -eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 297-298.