Austurvegur – sunnan Lyklafells
Ætlunin var að reyna að rekja syðri Austurleiðina (Hellisheiðargötuna) frá Elliðakoti upp fyrir sunnanvert Lyklafell að austan. Nyrðri leiðin var rakin nýlega, en bæði skv. heimildum og gömlum kortum lá gata einnig niður í Lækjarbotna frá gatnamótum Dyravegar norðaustan Lyklafells um svonefndan Strangarhól.
Gatan liggur upp sneiðing Elliðakotshlíða og liðast síðan upp heiðina með stefnu suður fyrir Stangarhól. Þar liggur gatan suður fyrir hólinn og ofan við hóla suðaustan við hann. Við Stangarhól koma nokkrar fjárgötur ofan af heiðinni með stefnu niður að Fóelluvötnum. Gatan liggur síðan norðan við Fóelluvötn með stefnu á suðaustanvert Lyklafell, norðan Lyklafellsáar. Þar skammt ofar sameinast hún Dyraveginum. Gatnamót eru bæði norðaustan við fellið og önnur skammt austar.
Gatan er vel greinileg, en greinilega hefur gróið yfir hana á köflum. Vörðubrot eru við götuna á nokkrum stöðum.
Á leiðinni var ástæða til að rifja upp fróðleik um Fóelluvötn sem og jarðsögu svæðisins.
„Efri- og Neðri-Fóelluvötn eru sunnan við Lyklafell og austan við Vatnaás í núverandi landi Kópavogs, samsafn smátjarna og polla í grennd við Sandskeið, kringum þjóðveg 1 ofan við Reykjavík. Vatnasvæðið virðist hafa tilheyrt Vilborgarkoti og Helliskoti (Elliðakoti) samkvæmt Jarðabók Árna og Páls en báðar þessar jarðir eru þar skráðar í Mosfellssveit. Í Jarðabókinni er talað um óvissu í þessum efnum, sérstaklega varðandi Vilborgarkot sem þá, í byrjun 18. aldar, hafði lengi verið í eyði. Ábúendur Helliskots (Hellirskots) í Mosfellssveit og Hólms í Seltjarnarneshreppi höfðu þá lengi nýtt land Vilborgarkots. Frá þessum tíma er því ruglingurinn kominn um nýtingu Vilborgarkotslands. Í Jarðabókinni er sagt að jörðin Vilborgarkot gæti aftur byggst upp og þyrfti þá greinilega að skoðast hve vítt landeign þessarar jarðar verið hefði sem kunnugir menn meina að ekki hafi verið alllítið (Jarðabók III:287-288).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir vötnin Fóelluvötn. Hann segir malar- og grjótfleti þar myndaða af vatnsrásum frá Lyklafelli. Fóelluvötn flæða yfir stórt svæði í leysingum en á sumrin er þar oftast þurrt. Sæluhús var byggt við Fóelluvötn um 1835 af Jóni hreppstjóra á Elliðavatni upp á eigin kostnað en síðan var skotið saman 50 ríkisdölum því til viðhalds (Þorvaldur Thoroddsen 1958 I:125). Tryggvi Einarsson frá Miðdal nefnir vatnið Tóhelluvatn (sjá örnefnalýsingu Elliðakots í Örnefnastofnun Íslands).
Í Jarðabók Árna og Páls er Fóhölluvot nefnd (ritháttur óviss). Þar segir að engjar séu nær engar heima við bæinn Hólm í Seltjarnarneshreppi en útheyjaslægjur brúkaðar þar sem heita Fóhölluvot (Jarðabók III: 283). Aftur á móti nefnir Hálfdán Jónsson Fóelluvötn í lýsingu Ölfushrepps 1703.
Fóella er fuglsheiti, oftast kölluð hávella (Clangula hyemalis). Þessi mynd orðsins kemur fyrst fyrir á 17. öld í fuglaþulu: „Fóellan og hænan, hafa öndina væna.“ (Íslenzkar gátur, skemtanir vikivakar og þulur IV 1898:243). Aðrar myndir þessa orðs eru fóerla (Jónas Hallgrímsson), fóvella (Skýrslur Náttúrufræðifélagsins) og e.t.v. fleiri af svipuðum toga. Uppruni er óljós, e.t.v. ummyndun á hávella. Hugsanlegur er einnig skyldleiki við fó- eins og í fóarn. Kjörlendi fóellunnar er votlendissvæði og heiðavötn. Líklegt er því að vötnin séu kennd við fuglinn þótt hann sé þar ekki áberandi lengur. Myndin Tóhelluvatn er að líkindum afbökun, tilkomin sem skýringartilraun á nafni sem hefur annars þótt torkennilegt.
Sömu sögu er að segja um Fóhölluvot. Sú þjóðtrú er enn lifandi að há vatnsstaða í Fóelluvötnum að vori boði mikið rigningasumar. Einnig er til sú sögn að til forna hafi runnið á mikil úr Þingvallavatni og hafi hún átt leið um þar sem Fóelluvötn eru nú og náð sjó á Reykjanesi. Kaldá mun eiga að vera leif af þeirri á.
Á Deildará í Múlahreppi A-Barð. er til Fóelluhólmi, einnig skrifað Fóetluhólmi. Fóellutjörn er til í Selvoginum.“ Við Fóelluvötn eru tóftir (sjá meira HÉR).
„Þegar gengið er um Miðdals- og Mosfellsheiði vakna óneitanlega spurningar um hvernig landið myndaðist upphaflega og mótaðist í kjölfarið. Á þessu svæði rís Esjan hæst svo nærtækast er að skoða myndun hennar.
Þegar gengið var um svæðið var kjörið tækifæri að taka Esjuna og nágrenni sem dæmi um myndun þess. Öll vötn og allar ár (lækir) í heiðinni voru þurrir.
„Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Einfaldaðar skýringarmyndir, sem sýna hvernig Esja hefur hlaðist upp við eldgos ýmist á hlýskeiðum (þá runnu hraun) eða á jökulskeiðum (þá mynduðust móbergsfjöll við gos undir jöklum). Á fyrstu myndinni renna hraun á þurru landi. Svörtu strikin tákna bergganga, sem eru aðfærsluæðar hraunanna. Eldstöðvarnar eru vestarlega (til vinstri) og lárétt hraunlög hlaðast upp. Á annarri mynd hefur gosvirknin færst austur, jökulskeið er gengið í garð og í stað láréttra hrauna hleðst nú upp móberg í geil í ísnum. Á næsta hlýskeiði hafa eldstöðvarnar enn færst austar. Lárétt hraunlög renna upp að móberginu frá næsta jökulskeiði á undan. Jarðlagastaflinn byrjar að hallast undan þunganum.
Enn kemur jökulskeið (4. mynd) og nýtt móbergsfjall hleðst upp. Á næsta hlýskeiði ná hraun að renna yfir móbergsfjöllin. Á 6. mynd sést að nú gýs ekki lengur, en rof af völdum ísaldarjökla og veðrunar hefur mótað Esju.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela.
Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Star-dalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum.
Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Ef skoðuð er brot af jarðsögu svæðisins má í stuttri samantekt sjá eftirfarandi:
10 000 ár – Nútími
Sjávarmál fellur úr +40m í –5m (a.m.k.). Land sígur eftir það. Leitahraun og Búrfellshraun renna.
120 000 ár – Síðasta kuldaskeið
Jökull er jafnan í 400-500 m hæð í hlíðum Esju. Jökuljaðar yst á Reykjanesi og úti í Faxaflóa. Móbergsfjöllin á Reykjanesi myndast. Sveiflukennd hlýnun í lokin og sjór flæðir á land.
130 000 ár – Síðasta hlýskeið
Dyngjugos á Mosfellsheiði og í Heiðmörk myndar grágrýti í Mosfellsbæ, Breiðholti, Garðabæ, Kópavogi og víðar.
200 000 ár – Næst síðasta kuldaskeið
Móbergsfjöll sem nú eru utan gosbeltisins myndast (t.d. Lyklafell) ásamt jökulbergi (t.d. undir Höfðabakkabrú í Elliðaárdal).
210 000 ár – Næst síðasta hlýskeið
Í upphafi tímabilsins myndast setlög í Elliðavogi og víðar. Nokkur dyngjugos (e.t.v. á Valhúsahæð, Engey, Skólavörðuholti og Öskjuhlíð) mynda Reykjavíkurgrágrýtið ofan á setinu.“
Í leiðinni var leitað götu sunnar í heiðinni, frá Stangarhól áleiðis niður í Lækjarbotna. Vænlegar götur fundust á tveimur stöðum. Verða tengsl þeirra skoðuð fljótlega. Eða eins og maðurinn sagði: „Róm verður ekki skoðuð á einum degi“.
Ætlunin er og að skoða Dyraveginn á næstunni; frá Dyrafjöllum að Lyklafelli. Vegurinn sá mun torfarinn réttleiðis.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-visindavefurinn.is
-arnastofnun.is