Kistufellsgígur

Í síðustu FERLIRsferð um Brennisteinsfjöll var gengið fram á op á þykkri hraunhellu í Kistufellshrauni, nokkru vestan Kisufellshraunshellanna (KST). Gatið var um 4 m í radíus, hringlaga. Dýptin niður á botn var um 10 metrar. Þar sást niður í rás, um 6 metra breiða. Stórt gróið jarðfall er nokkuð ofar, en ekkert að sjá neðar. Til að komast niður þurfti um 6 m langan stiga niður á hrunið eða góðan kaðal. Ætlunin var að kanna undirniðrið sem og annað op í hliðarrás við hrauntröðina miklu norðvestan Kistufells.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp úr Fagradal með stiga og sléttri hellu Kistuhraunsins fylgt inn að hrauntröðinni. Í rauninni mætti neðsti hluti hraunsins hafa sæmdarheitið “Reipahraun” því slík eru hraunreipin á kafla að fá önnur hraun geta af státað nokkru sambærilegu. Reipaflekarnir taka á sig hinar ótrúlegustu myndir, auk þess sem sjá má þarna sýnishorn af flestum reipagerðum, sem til eru.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi.
Í hluta hraunsins, einkum neðanverðu, eru lágir hólar með gróningum á milli. Þegar yfirborðsskánin þykknar brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins.
BrennisteinsfjöllEfri hlutinn er mjög sléttur, enda runnið yfir sléttveðrað Kistufellshraunið, sem sjá má norðan hraunstraumsins. Vestan hans er Eldborgarhraunin, úfin apalhraun. Apalhraun [aa] nefnast úfin hraunin sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður.
Brennisteinsfjöll Skammt norðvestan við hrauntröðina miklu liggja þrjár hraunrásir, samliggjandi. Þrjú jarðföll er þarna á einni þeirra á stuttu svæði. Eitt þeirra er einstaklega vænlegt. Stiga eða kaðal þarf til að komast niður í rásina. Það var ekki gert að þessu sinni því snjór hafði fyllt hana, auk þess sem stiginn var einnota. Hún verður því skoðuð síðar. Jarðfallið var nefnd KST-17.
Þegar komið var upp að hrauntröðinni miklu var henni fylgt spölkorn til vesturs en síðan haldið upp að Kistufellshellunum. Í opið var kominn snjótappi jafnhár yfirborðinu, en einungis í miðju þess. Nú sást vel til hinna miklu jarðfalla er geyma Kistufellshellanna. Opið, sem opnast hefur tiltölulega nýlega, er greinilegahluti af þessu hellakerfi. Gróin hrauntröð er skammt neðar og liggur hún að hrauntröðinni miklu. Neðarlega er stórt jarðfall í henni, nú nær fullt af snjó, líkt og önnur slík á svæðinu.
Veður var eins og best var á kosið, logn og sól. Því var ákveðið að ganga upp í Kistufellsgíginn sjálfan og berja hann augum áður en hafist yrði handa við opið fyrrnefnda.
Kistufellsgígurinn skartaði sínu fegursta. Í bakagöngunni var komið við í Jökulgeimi, einum Kistufellshellanna. Þrátt fyrir mikinn snjó framan við opið var hægt að nýta hann til að komast niður í geiminn. Grýlukerti þöktu loft og jökullinn þakti gólf.
Brennisteinsfjöll Þá var hafist handa við að reyna að komast niður í opið, sem fengið hafði nafnið KST-16.
Með hjálp stigans var hægt að komast niður með snjótappanum og forfæra stigann síðan áfram niður með honum. Það er jafnan ekki auðvelt að kanna undirheimana, en með góðum undirbúningi og útsjónarsemi geta þeir orðið ótrúlega greiðfærir. Í ljós kom að þarna var um að ræða svipað fyrirbæri og hina Kistufellshellana, en minna þó. Þarna hafði kvika safnast saman á leið um rásina, sem nú myndar grónu hrauntröðina. Hraunhellan (þakið) hafði nú rofnað yfir hólfinu. Ekki er ólíklegt að rás kunni að liggja áleiðis að hinum Kistufellshellunum, en snjór hindraði frekari könnun á þeim möguleika. KST-16 var nefnd “Hróarskelda” í tilefni dagsins.
Þá var bara að finna opið á rásinni norðvestan við hrauntröðina miklu. Með því að rekja hana eins og áður hafði verið gert, þegar opið fannst tókst að staðsetja það (KST-19). Nú var opið fullt af snjó, en með löngum göngustaf var hægt að opna gat niður í rásina. Hún er um þriggja metra breið og um einn og hálfur meter á hæð, en lækkar eftir því sem innar dregur. Hlutinn til norðurs er um 30 metrar, en til suðurs um 5 metrar. Þessi hluti rásarinnar er því um 40 metrar að heildarlengd.
Nokkru norðvestar er stórt op með víðum og háum helli (KST-18), u.þ.b. 30 m langur. Tvö op eru á honum. Þessi hellir er líklega hluti af sömu hraunrás og sá fyrrnefndi.
Líklegt má telja að fleiri rásir séu enn ókannaðar á þessum slóðum. T.a.m. höfðu tvö til viðbótar sést á loftmynd, en ekki vannst tími til að finna og kanna þau að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 7 klst og 7 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.mr.is/~gk/jfr/ordskyr/index.html

Í Kistufellshellum