Bæjarsker – Grásteinn
Bæjarsker við Sandgerði hefur gengið undir ýmsum orðmyndunum í gegnum tíðina.
Hítardalsbók frá 1367 greinir frá kirkju Ólafs konungs helga á Bæjarskerum. Jarðakaupabréf frá 1444 segir að Skúli Loftson hafi selt Hallsteini Höskuldssyni jörðina Þingnes i Borgarfirði í sextíu hundraða en Skúli leggur til á móti hálft Bæjarsker á Rosmhvalnesi, Hraunhafnarbakka á Snæfellsnesi og þar til fjögur kúgildi. Í ágúst 1488 segir í Bíaskersbréfi gert á Mel í Miðfirði, að Guðmundur prestur Skúlason selji Ólafi biskup og heilagri Hólakirkju jörðina Bíasker á Rosmhvalnesi fyrir fjóra tugu hundruð í lausafé. Í júní 1489 er á Hólum er skráður vitnisburður Snjólfs Sigurðssonar prests um lokagreiðslu á andvirði Bíaskerja til handa Guðmundi Skúlasyni presti frá Ólafi biskup sem áður keypt hafi jörðina. Á Býjaskerjum 1490 er “Dómr Diðriks Pínings fóveta og höfuðsmanns yfir alt Ísland um skuldir Norðlendinga við Sunnlendinga, og um það, hve nær skuli vera vorvertíðarlok.”
Að Hólum í júlí 1491 lýsir Snólfur Sigurðsson prestur því yfir að hann hafi fyrir hönd Ólafs biskups lokið greiðslu til séra Guðmundar Skúlasonar fyrir jörðina Býasker með þeim greiðslu sem sem í bréfinu greinir.
Í Viðey í apríl 1517 lætur Ögmundur ábóti í Viðey Hannes Eggertsson fá til fullrar eignar jarðirnar Kirkjuból í Selárdal, Suðureyri og Tungu í Tálknafirði, fyrir jarðirnar Býjasker og Þórisstaði í Rosmhvalnesi.
Þá er á Býjaskerjum í september 1539 kveðinn upp 12 manna dómur sem skipaður var af Erlendi Þorvarðarsyni lögmanni vegna yfirgangs enskra manna á Íslandi.
Árið 1550 eru taldar upp jarðir Hólastóls sem seldar hafa verið í tíð Jóns biskups, þar á meðal er hálf Býjasker, xx, c.
Í Fógetareikningum frá 1547-1548 er getið um gjöld Beeraskeeriom (Býjaskers) til kirkju- og landskuldar.
Í Jarðabók frá 1703 segir um Biarskier (Bæjarsker) að jarðadýrleiki á jörðinni sé óviss og hún tíundist engum. Jörðin er í konungseign. Ábúandinn Runólfur Þórðarson lögréttumaður. Landskuld 2 hundruðustu, 60 álnir greiðist með 14 vættum fiska í kaupstað á Básendum, eftir að það var legit út, en áður greitt heim til Bessastaða. Við (timbur) til húsabótar leggur ábúandi til. Kúgildi eru fimm. Leigur greiðist með fiski í kaupstað. Kúgildið uppyngir ábúandinn fram að þessu, annars vonar hann að umboðsmaðurinn muni bæta upp það sem þarf að lóga sökum elli. Kvaðir eru um mannslán um vertíð. Kvikfénaður er fjórar kýr og eitt ungneyti. Heimilsmenn eru átta. Skóg til kolagerðar notar jörðin í almenningnum. Torfrista og stunga engin nema í sendinni jörðu, varla nýtandi. Fjörugrastekja nokkur. Murukjarnar og söl eru notað sem gjaldmiðill. Heimræði er árið um kring og lending slæm, önnur langt frá flæðihólma og þar fyrir utan bæði hættuleg og erfið fyrir skip.
Hér ganga skip ábúananda eftir hentugleikum. Tún ganga mjög af sér vegna sands og sjávargangs. Engjar eru engar. Land graslítið mestallt grjót og sandur. Flæðihætta mikil. Eldiviðartak ekkert nema af fjöruþangi. Vatnsból slæmt og þrýtur stundum. Býjasker er sagt hafa níu nafngreindar hjáleigur og að auki tvær sem eru farnar í eyði fyrir löngu og nafn á þeim er ekki vitað síðan.
Á Bæjarskerjum eru tveir álagablettir. Annar er um 10 m í suðurtúni Bæjarskers. Þetta er grasivaxin steinaþúfa, um 0.80 m í þvermál, og hæðin er um 0.40 m. Einar Bergsson í Sandgerði sagði að við þúfuna mátti ekki vera með ólæti eða raska henni á nokkurn hátt.
Hinn álagabletturinn er Grásteinn. Staðsetningin er n64°01.662 V22°42.401. Grásteinn er nú í hættu vegna fyrirhugaðra nýbygginga. Hann er í um 320 m í suður frá bæjarstæði Bæjarskers, út við landamerkjagirðingu Hólakots og Bæjarskers í smá brekku á móti norðri. Steinninn er náttúrusteinn og er um 1.60×1.20×0,70 m. Í örnefnskrá Magnúsar Þórarinssonar segir: „Í túninu sunnan við bæ þar í brekku er Grásteinn. Þann stein má ekki hreyfa. Þetta er í átt að Hólshúsum. Svo er túnið áfram brekka upp að grjóti.“
Heimild m.a.:
-Önefnaskrá fyrir Bæjarsker