Bátsendar – Jón Thorarensen

Básendar

Í Faxa árið 1948 eru skrif séra Jóns Thorarensens um „Bátsenda„:

„Bátsendar hjá Stafnesi eiga sér einkennilega sögu. Þeir hafa eflaust á fyrri öldum verið notaðir til útróðra, en nafnkunnastir voru þeir fyrir hina dönsku einokunarverzlun, sem rekin var þar í þrjár aldir, frá 1484—1799.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Fyrst er getið um enska kaupmenn á Bátsendum. Árið 1484 gerði fulltrúi Danakonungs upptækt skip og vörur af Englendingum á Bátsendum, en þeir vildu hafa íriðsamlega verzlun við Íslendinga.

Árið 1491 sló í harða brýnu á milli Englendinga og Þjóðverja útaf Bátsendum, og 1506 eru Englendingar þar í friði með verzlun sína samkvæmt leyfi, er Þorvarður lögmaður Erlendsson í Selvogi gaf þeim.

En 1518 var friðurinn úti milli Þjóðverja og Englendinga út af Bátsendum, Grindavík og Hafnarfirði, og varð bardagi loks milli þeirra í Hafnarfirði, sem endaði með því að Þjóðverjar héldu velli og náðu þessum verzlunarstöðum af Englendingum. Eftir þennan bardaga voru Þjóðverjar öllu ráðandi á Bátsendum, og þegar þýzka útgerðin var mest, höfðu Þjóðverjar þar syðra 45 fiskiskip.

En Kristján þriðji lét gera einn eldhúsdag að þessu öllu og ræna öllum skipum af Þjóðverjum 1543, og 20 árum síðar rændi konungur eða sló eign sinni á allar útvegsjarðir kringum Bátsenda, og öllum afla var upp frá því í tvær aldir rúmlega skipað að Bátsendum, í sjóð konungs. En þrátt fyrir það, að Danir rændu hinum þýsku skipum tókst þeim seint að ná Bátsendum frá Þjóðverjum, því um miðja 16. öld höfðu þeir tuttugu skip þar syðra, en Danir einungis tvö.
Árið 1548 ætlaði danskt skip að sigla inn til Bátsenda, en þýzkt skip var þar fyrir, og flæmdu þeir það danska burt.

Bátsendar

Bátsendar 1083. Garðar fremst. Fjærst má sjá tóft torfbæjarins.

Árið 1640 byrja svo Danir einokunarverzlun sína með fullum krafti á Bátsendum, og þar varð aðalverzlun danska valdsins á þessum slóðum, þar til sjórinn batt enda á allt saman þann 9. jan. 1799, en þá gekk fárviðri með stórflóðum um aJlt Suðuriand, og eyðilögðust þá nótt 187 skip á Suðurlandi. Kirkjan á Hvalsnesi fauk, og skemmdir urðu miklar víðar. Á Eyrarbakka týndust 9 nautgripir, 63 hross og 58 kindur. Seltjarnarnes varð að eyju í flóðinu svo ekki varð komizt tíl Reykjavíkur. Og á Bátsendum eyðilagðist allt. Allur kaupstaðurinn eyðilagðist, en kona ein drukknaði.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726. Keflavíkurhöfn ofar.

Þær byggingar, sem eyðilögðust voru þessar. Sölubúðin; íbúðarhús danska kaupmannsins; lýsisbúðin; lifrarbræðslan; íslenzkur torfbær, sem var 5 kofar litlir og urðu þeir allir ein grjóthrúga eftir flóðið; stórt vöruhús, og svo hrundu að mestu vörugeyrnsla, lítið fjós, hlaða og skemma, auk þesss tapaði kaupmaður 6 manna fari, 4ra manna fari, 2ja manna fari og norskri skektu. Sjórinn komst 164 faðma upp fyrir efsta húsið á Bátsendum.

Hinrik Hansen hét síðasti kaupmaðurinn á Bátsendum. Hann segir frá því í skýrslu, sem hann gaf, að um nóttina, aðfaranótt þess 9. jan., hafi hann, kona hans, 4 börn og vinnukona vaknað við það að brakaði í öllu verzlunarhúsnu, og skellir heyrðust eins og grjóti væri kastað á húsið, og þegar hann fór á fætur og lauk upp útidyrum, brauzt sjór inn á þau með afli og fyllti öll herbergi. Flýðu þau þá upp á loft og hírðust þar til kl. 7 um morguninn, að þau brutu þakgluggann og óðu upp að fjósinu, sem hærra stóð. Óðu þau í gegn um borðvið, planka, búsáhöld og vörur, sem allt flaut þar í einum graut. En þegar þau komu að fjósinu hrundi það litlu síðar, þá flýðu þau til hlöðunnar, en um líkt leyti sópaðist þakið af henni. Þá lagði þetta fólk af stað hálf nakið í roki og kulda í áttina heim að Loddu sem var næsta hjáleiga, og komst það þangað eftir mestu þrautir.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömul kona, er var í íslenzka torfbænum á Bátsendum fórst í flóðinu.

Hinrik Hansen var kaupmaður á Bátsendum frá 1788 og til þess síðasta. Hann kom ungur til Íslands, 16 ára, og eignaðist íslenzka konu. Hann átti íbúðarhús á Bátsendum, sem eg hefi minnst á og bjó þar allt árið, hann var orðinn efnaður maður, en missti aleigu sína á einni nóttu og allt óvátryggt eins og geta má nærri. Bar hann sig upp við kóng, en fékk bæði sein og vond svör.

Hinrik Hansen dó í Keflavík 11. okt. 1802, 53 ára gamall, og var jarðsunginn að Útskálum 18. s.m. Þó að Hinrik Hansen væri danskur einokunarkaupmaður, þá hafði hann það það fram yfir aðra starfsbræður sína, sem fyrr höfðu verið þar, að hann kvæntist íslenzkri konu, og var á Bátsendum allt árið, en danskir kaupmenn voru oft vanir að fara á haustin til Danmerkur og loka verzlunarhúsunum og láta sér á sama standa, þó að Íslendingar yrðu að svelta heilu hungri á vetrum.

Básendar

Básendar 1983. Stafnesbærinn fjærst. Garður við Kaupmannshúsið.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að einkennilegar tilfinningar vakni hjá mönnum, er þeir koma suður fyrir Stafnes, þar sem Bátsendakaupstaðurinn stóð.

Fyrir 148 árum var þar kaupstaður, sem sopaðist burtu á einni nóttu. Eg held, að enginn blettur á Íslandi eigi sér jafn einkennilega sögu. Þar sem nú eru berar klappir og brimbarðir hnullungar, þar á sama stað var einu sinni líf og fjör og fjögur tungumál: íslenzka, danska, enska og þýzka, hafa verið töluð þar fyrr á tímum. Mörg verzlunarhús voru þar og útvegsbændur komu í stórum hópum að leggja inn fisk sinn og taka út. Ungar og fallegar heimasætur að kaupa sér silkiefni í skrauttreyjur við upphluti og skautbúning.

Básendar

Básendar – Brennitorfuvík.

Karlarnir drukku þar brennivín bjartar jónsmessunætur og báru saman hjá hver öðrum vertíðaraflann, og hresstu sig eftir fiskflutningana og uppskipunina. Þangað kom líka oft maður einn, sem var stór, þrekinn og kraftalegur, með stórgert og svipmikið andlit, svartur á brún og brá og bað um úttekt. Þetta var sóknarpresturinn á Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson. En það var hvorttveggja, að hann gat ekki stært sig af búskap og af því að leggja miklar afurðir inn, og svo var líka hitt, að sýslumaðurinn á Stafnesi var óvinur hans, sem spillti fyrir honum á Bátsendum, svo hann hefur eflaust oft farið þaðan með þungum hug. Þess vegna sagði hann:
Mannleg aðstoð er misjafnt trygg
margir fá slíkt að reyna,
trúskaparlundin laus og stygg
leið gengur eigi beina.
Veltur á ýmsa hlið um hrygg
hamingjulánið eina.

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Já, það mátti segja, á Bátsendum, þar valt hamingjan oft um hrygg fyrir Íslendingum. En í frægustu bók heimsins standa þessi orð: Þeir síðustu munu verða fyrstir. Suðurnesin, sem áður voru heimkynni einokunar og kúgunar, hafa orðið fyrir gjörbreytingu og endurreisn. Frá þeim streymir nú árlega ógrynni auðs í þjóðarbúið, og flestir aðrir landshlutar munu hverfa í skugga þeirra stórfelldu mannvirkja og framkvæmda í sambandi við atvinnulífið, sem þar verða að veruleika á komandi tímum.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Bátsendar – séra Jón Thorarensen, bls. 3-4.

Básendar

Frá Básendum.