Beðasléttur

Elliðakot

Beðasléttur eru tegund ræktunarminja frá því um miðja 19. öld þar til um 1920 þegar vélvæðingin ryður sér til rúms á Íslandi, sbr. „beðslétta kv“, [skilgr.] Tún, sléttur með reglulegum beðum eða kúfum, [skýr.]

Guðmundur Ólafsson

Guðmundur Ólafsson (1825–1889).
Guðmundur kom 26 ára gamall frá námi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um miðja 19. öld. Þá ríkti hér á landi mikil tregða eða beinlínis andstaða gagnvart nýjum hugmyndum. Það mátti engu breyta.
„Þetta er í sjálfu sér áhugavert í ljósi þeirrar nýjungagirni sem ríkir á okkar dögum en samtími Guðmundar var afar íhaldssamur og hreint ekki móttækilegur fyrir þeim nýjungum sem hann vildi koma á. Framlag hans til ræktunarbóta og búnaðarfræðslu varð þó, þrátt fyrir þetta, mikilvægur hlekkur í framfaraátt í því staðnaða landeigendaveldi sem hér ríkti, fram yfir hans daga, eða allt fram undir aldamótin 1900.“
Guðmundur var við nám á árunum 1847–51 og var tvímælalaust meðal mest menntuðu manna sinnar tíðar hér á landi. Guðmundur var alþingismaður Borgfirðinga 1874–1880.

Árið 1874 kom Guðmundur Ólafsson frá Fitjum í Skorradal fram með þá hugmynd að menn ristu ofan af ósléttum túnum, mokuðu moldinni upp í beð og legðu þökurnar aftur yfir.
Hugmyndin á bak við þessar svokölluðu beðsléttur var að beðin eða kúfarnir kæmi í veg fyrir að pollar mynduðust í túninu og drægi þannig úr hættunni á svellkali.

Í „Leiðbeiningum“ Minjastofnunar Íslands um „Beðasléttur – Viðhald og varðveisla fornleifa“ frá árinu 2025 segir m.a.:
„Beðasléttur eða beðatún eru hluti af menningarlandslagi fyrri tíðar. Þessar minjar eru sýnishorn inn í fornar ræktunaraðferðir sem kynntar voru hér á landi um miðja 19. öld þegar námsmenn sneru aftur heim með nýja verkþekkingu í farteskinu, aðferð sem ætluð var til að efla og auðvelda fóðurframleiðslu. Um er að ræða mjög stutt tímabil í sögu túnræktar sem rennur sitt skeið með aukinni vélvæðingu um 1920. Markmið með beðasléttum var að fá slétt land til heyskapar og hindra að vatn sæti uppi á landinu en það getur valdið vetrarkali túngróðursins.
Fyrstu lýsingar á beðasléttugerð eru sennilega frá árinu 1874. Ásýnd þessara minja svipar mjög til annarra gerða minja, akurgerða, en þær eru mun eldri, eða frá miðöldum.

Aðferð við gerð beðasléttna
Grasvörðurinn var ristur ofan af jarðveginum, oftast með undirristuspaða og kastað til hvorrar hliðar. Jarðvegurinn á milli þeirra var plægður eða stunginn og borið í hann lífrænn áburður. Ávalir teigar voru mótaðir með rennum á milli og fyrir endanum á teigunum. Rennurnar tóku á móti vatninu sem kom af teigunum og veittu því burtu. Lengd, breidd og hæð teiga var mismunandi og fór þá helst eftir veðurfari svæðisins og hversu raklend jörðin var. Breidd teiganna var þó sjaldan meiri en svo að auðvelt væri að bera eða kasta torfþökunum til hvorrar hliðar.

Bjarni Guðmundsson

Bjarni Guðmundsson.

Teigar voru oftast látnir stefna undan halla landsins og þeir voru gjarnan nokkrir saman í syrpum/sléttu. Við jarðvinnsluna var yfirborð beðsins mótað ávalt/bungulaga og torfunum, sem ristar höfðu verið ofan af landinu, raðað yfir teiginn/beðið að nýju.“

Í Frey árið 2004 mátti lesa grein um „Beðasléttur – brot af búsetulandslagi“ eftir Bjarna Guðmundsson:
„Verktækni við ræktun túna hefur breyst mikið frá upphafi ræktunarbyltingarinnar. Langur vegur er frá handverkfærum til þeirrar öflugu verktækni sem nú tíðkast. Langstærstur hluti þeirra túna, sem í dag eru heyjuð, hafa verið unnin með vélum, flest á síðustu fimm áratugum eða svo. Minjar um eldri jarðrækt hafa víða verið máðar út. Nokkur dæmi má þó enn finna, ekki síst á eyðibýlum og hér og hvar heima við bæi, þar sem eldri túnsléttugerð hefur verið látin halda sér.

Beðasléttur

Óskot Mosfellsbæ – beðasléttur.

Einn er flokkur þessara minja sem hér og hvar má enn sjá en það eru beðasléttumar svonefndu er auka skyldu uppskeru túna og létta og flýta heyskap. Í snjóföl eftir léttan skafrenning sjást þær einna best, svo og í gróandanum. Þá koma regluleg beðin, sem einkenna þær, hvað gleggst í ljós; oft í brekkum og öðrum þurrlendishöllum nálægt bæjum.
En hvað er beðaslétta, vegna hvers voru þær gerðar og hvaðan er þessi verktækni hugsanlega komin? Orðið beðaslétta er ekki skráð í Íslenskri orðabók. Hins vegar er þar talað um beðatún sem tún þakið beðum líkt og í matjurtagarði (t.d. vegna handsléttunar).

Beðasléttur

Vilborgarkot – beðasléttur.

Þúfurnar voru „landsins forni fjandi” í yfirfærðri merkingu. Þær voru víðast einkenni þeirra litlu túna er til voru og þær takmörkuðu afköst við slátt og heyvinnu. Álitið er að bændur hafi fyrr á öldum haft áþekka aðferð við ræktun túna og akra, það er að pæla landið, og að það hafi fyrst verið eftir miðja 18. öld sem farið var að slétta tún og þá líklega eftir erlendum verkfyrirmyndum.
Þaksléttuaðferðin var algengasti hátturinn við túnasléttun lengi vel. Illa gekk að beita hestaplógi á gróinn íslenskan svörð; því varð oftast að rista ofan af áður en beita mátti jarðvinnsluverkfærum. Svipaðri jarðvinnslutækni munu bændur á Suðureyjum við Skotland m.a. hafa beitt.

Beðsléttur

Elliðakot – beðasléttur.

Guðmundur Ólafsson (1825-1889), jarðræktarmaður, löngum kenndur við Fitjar í Skorradal, skrifaði grein um þúfnasléttun sem birtist í ritinu tímaritinu Andvari árið 1874 (4). Þar lýsir hann, sennilega fyrstur manna opinberlega, beðasléttugerðinni án þess þó að nefna hana því nafni. Hann segir: „Til þess, að vatn geti ekki staðið á sléttunum, þurfa þær að vera í ávölum teigum, með rennum eður ræsum á milli. Teigarnir skulu vera því hærri og mjórri, sem jörðin er raklendari og liggur lægra, og eptir því, sem héraðið er rigningasamara. Fyrir endunum á teigunum skulu og vera rennur, eins og á milli þeirra. Bæði þessar rennur og þær, sem era á milli teiganna, eru til þess að taka á móti vatninu, sem kemur ofan af sjálfum teigunum, og því, er að þeim kann að koma annarstaðar frá.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Meðal-teigsbreidd mundi vera 4-5 faðmar, að lengd 15-20 faðmar, en hæð 1 alin, það er að segja: teigurinn skal vera þetta hærri í miðjunni en í rennunum, sem eru í kríngum hana. Rennurnar skulu vera ávalar, eins og teigarnir, en ekki snarbrattir, lítur þá öll sléttan út eins og ávalar öldur í röð. Svo sem þegar var sagt, verður stærð og hæð teiganna að fara eptir landslagi og veðráttufari. Sé jörðin blautlend, og vatn renni af henni, þá þarf að leggja lokræsi í rennumar milli teiganna”…
Rök Guðmundar fyrir aðferðinni vom þau að losna við yfirborðsvatnið af ræktunarlandinu.

Beðasléttur

Bændaskólinn á Hvanneyri um 1937. Beðasléttur í brekku og áveituvatn fremst á
myndinni. Ljósm. Ólafur Magnússon.
Ásýnd beðasléttna í landslaginu minnir á ávalar öldur og helst má greina þær á túnum
eftir nýfallin snjó, léttan skafrenning eða við ljósaskipti sem dregur fram ávalt yfirborð
túnsins. 

„Vatnið er aðal-orsökin til þess, að jörðin þýfíst eður verður ójöfn. Menn sjá, að þar sem vatnið náir að standa annaðhvort á eður í jörðinni, þar kemur laut”, skrifar hann, og ennfremur „Það þarf nefnilega að slétta svo, að ekkert vatn geti staðnæmzt á sléttunni … Sléttur þurfa því að hafa þá lögun, að vatn geti hvorki staðið í þeim né á”. Guðmundur bendir á að þessi sléttunaraðferð sé seinvirk með þeim verkfærum og aðferðum sem þá tíðkuðust. Til sléttunarinnar þurfi hver bóndi að eiga áhöld sem hann tilgreinir og lýsir: „plógur, ristuspaði, akreka, pörnplógur, aurbrjótur og valti”.

Til þess að móta hinar ávölu öldur, beðin, var nauðsynlegt að flytja jarðveginn nokkuð til. Að vissu marki mátti gera það með plógnum eftir að grasrótin hafði verið rist ofan af landinu með því að „plægja það síðan um í teiga”.

Beðasléttur

Ólafsdalur – beðasléttur.

Guðmundur mælti með tvíplægingu hið minnsta og skrifaði í grein sinni: …,,því optar, sem hver teigur er plægður þannig, því hærri og brattari verður hann, eins og gefur að skilja … Ein plæging nægir ekki til að gjöra teigana nógu háfa og aflenda, eða til að gefa þeim þá lögun, er þeir eiga að hafa”. Að nokkurri vinnslu lokinni mátti síðan færa jarðveginn til með ak-rekunni, áhaldi sem síðar var þekkt undir nafninu hestareka. Breidd beðanna virðist hafa verið nokkuð mismunandi en 4 faðmar (um 7,5 m) sýnist hafa verið algeng breidd.

Beðasléttur

Beðasléttur.

Verkleg kennsla búnaðarskólanna íslensku snerist fyrstu árin (1880-1905) ekki síst um jarðrækt. Þar mun nemendum m.a. hafa verið kennt að búa til beðasléttur, og á skólajörðunum, t.d. Hvanneyri, má enn sjá allglöggar minjar um þær. Síðan beittu hinir brautskráðu búfræðingar kunnáttunni heima í sínum sveitum og verklagið breiddist út.
Hver sá sem slegið hefur gamla beðasléttu með nútíma sláttuvél kannast við að það er ekki skemmtilegt verk; ýmist ristir sláttuvélin í svörð niður eða skilur eftir óslegna mön, að ógleymdum veltingi dráttarvélarinnar.

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél.

Skrifarann grunar að tilkoma hestasláttuvéla hafí á sínum tíma dregið úr vinsældum beðasléttnanna – að ekki hafi þótt eftirsóknarvert að slá beðasléttumar með þeim heldur. Fór enda svo að beðasléttugerðin lagðist að mestu af á fyrstu tveimur áratugum 20. aldarinnar.
Ef þú, ágæti lesandi, ræður yfir landi þar sem enn má sjá leifar gamalla beðasléttna skaltu halda yfír þeim hlífiskildi. Þær eru angi af menningarlandslagi fyrri tiðar, dæmi um nýja verkmenningu sem kynnt var til þess að efla og auðvelda fóðurframleiðslu búanna sem var lífsnauðsyn til þess að efla matbjörg þjóðarinnar þannig að hún gæti losað um vinnuafl til annarra starfa í verkaskiptu samfélagi – brotist fram til sjálfstæðis.“

Hestasláttuvél

Hestasláttuvél – framfarartæki þess tíma.

Beðasléttur voru ekki óalgengar um tíma á Reykjanesskaganum, s.s. að Elliðakoti, Óskoti, Vilborgarkoti og Laugarnesi. Telja má að þær hafi verið mun víðar, en nútíma landbúnaðartæki hafi smám saman afmáð þær af yfirborði túna, einfaldlega vegna þess að þeirra tíma tilurð hentuðu ekki framförunum í landbúnaði, s.s. sléttun og framræðslu túnanna til auðveldunar vélvæðingunni.

Heimildir:
-Aðalskrá Þjóðhættir – Undirskrá Spurningaskrár – Svör Sent/Móttekið 30.6.1977.
-https://issuu.com/bjgudm/docs/hvanneyrar_pistlar_22_loka/s/17165427
-Leiðbeiningar Minjastofnun Íslands – Beðasléttur; Viðhald og varðveisla fornleifa, 2025.
-Freyr, 5. tbl. 01.06.2004, Beðasléttur – brot af búsetulandslagi, Bjarni Guðmundsson, bls. 4-5.

Beðasléttur

Á korti Samúels Eggertssonar af Laugarnesi  og Kirkjusandi 1910 eru merktar inn 4 beðasléttur. Beðaslétturnar voru suðvestur af bænum. Beðasléttur voru einnig oft nefndar teigasléttur, en þessi heiti voru höfð um tún sem gerð voru með sléttunaraðferð Guðmundar Ólafssonar búfræðings og alþingismanns. Beðasléttur voru gerðar þannig að rist var ofan af túninu, jarðvegurinn plægður upp í beð í því skyni að vatn sæti ekki í honum og þar sem þess var þörf voru gerð lokræsi milli beðanna til að veita því burt. Síðan voru torfurnar lagðar yfir beðin.