Bessastaðarannsókn II

Bessastaðir

Í skýrslu Þjóðminjasafns Íslands 2013, Guðmundar Ólafssonar, um Bessastaðarannsókn II – Kirkjugarður og miðaldaminjar,uppgraftarsvæði 12-15, má lesa eftirfarandi niðurstöðu:
Bess II-2„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar árið 1988 eru þær að undir bílaplaninu norðan Bessastaðastofu á svæðum U12-U14, reyndist vera þykkur öskuhaugur frá 17., 18. og 19. öld. Þar voru fá mannvirki en nokkuð fannst þar af leirkera-, krítarpípu- og glerbrotum. Undir heimreiðinni á svæðum U14-U15, voru grafnar fram 75 grafir og þar kom í ljós að kirkjugarðurinn hafði náð mun lengra til norðurs á 18. og 19. öld en nú er.
Norðurveggur hans fannst undir miðri núverandi heimreið.
Áhugaverðar mannvirkjaleifar fundust einnig frá miðöldum á svæði U12. Þar reyndust vera mörg byggingarskeið sem erfitt var að greina á milli en þau höfðu skipt margsinnis um hlutverk. Hleðslubrotin voru svo mörg að byggingarnar virtust líka hafa verið endurnýjaðar mjög oft.
Enda þótt minjarnar væru aðeins rannsakaðar að hluta var ljóst út frá afstöðu gjóskulaga að á suðurhelmingi svæðisins höfðu staðið mannvirki allt frá síðari hluta 10. aldar eða byrjun 11. aldar. Kolefnisgreining á klæðisbút (Þjms 1988-213-224) styður þessa aldursgreiningu. Flest mannvirkin á svæðinu voru komin úr notkun um 1500. Elsta mannvirkið var hugsanlega leifar af garðlagi. Ofan á eða við þá hleðslu voru síðan reist hús sem af viðarkolablettum að dæma gætu upphaflega hafa verið íveruhús, þó að þau virtust fljótlega hafa fengið annað hlutverk.
Vonir standa til Bess-II-3þess að þegar úrvinnslu fleiri svæða hefur verið lokið, verði hægt að tengja þessar minjar betur við aðrar miðaldaminjar. Skordýraleifar bentu til þess að þarna hafi um tíma verið kamar, útihús eða úrgangur frá slíkum húsum en varðveisluskilyrði lífrænna minja á þessu svæði voru sérlega góð. Af áhugaverðum minjum má t.d. nefna leifar af kjól og tveimur skinnskóm frá þessum tíma og skordýraleifar, eins og elstu kóngulóarbjöllu sem fundist hefur hér á landi.

Nokkrir gripir undirstrikuðu sérstöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs á Íslandi. Þar má nefna brot úr þremur til fjórum kakalofnum frá 16.-17. öld, sem sýna að hér var ekkert venjulegt heimili, þegar haft er í huga að á Íslandi öllu var talið að aðeins sjö til átta býli byggju þá við slíkan munað (Kålund, 1916:60). Tuttugu og sex brot úr passaglösum eru líka margfalt fleiri en þekkist annars staðar á Íslandi. Á biskupssetrinu á Hólum hafa fundist fáein brot og í Skálholti hefur aðeins fundist eitt brot úr passaglasi. Einn óvæntasti fundur þessa árs voru samt vínberjakjarnarnir sem fundust í miðaldalagi á svæði U12. Þeir vitna um stöðu Bessastaða sem höfðingjaseturs ásamt fleiri gripum, eins og t.d. passaglösunum og kakalofnunum, sem sýna að yfirstéttin á Íslandi reyndi eftir bestu getu að halda í við yfirstéttina í Norður-Evrópu og fygja siðum þeirra og lífsstíl“.
Í dag er uppgraftarsvæðið undir heimreiðinni (frá kirkjuhliðinu) að Bessastöðum.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson, Bessastaðarannsókn II. Kirkjugarður og miðaldaminjar, uppgraftarsvæði 12-15 – skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2013.

Bessastaðir

Bessastaðir.