Bláa lónið – Skipsstígur – Reykjavegur – Árnastígur – Húsatóftir
Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu „Af stað“ til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.
Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.
Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.
Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.
Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.
Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.
Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.
Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.
Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.
Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.
Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.
Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.
Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.
Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.
Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.
Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).
Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“
„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.
Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“.
Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.
„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.
Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.
Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).
Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.
Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.
Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.
Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.
Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.
Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.