Blómsturvellir í landi Húsatófta

Húsatóftir

Í „Staðhverfingabók“ Gísla Brynjólfssonar segir m.a. um „Blómsturvelli„, fyrrum þurrabúð við Hústóptir í Grindavík:

Staðhverfingabók

Staðhverfingabók.

„Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fyrst nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.
BlómsturvellirEn árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.
BlómsturvellirNæstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð ur, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.“

Pétur Kristinsson

Pétur Kristinsson.

Pétur Kristinsson er afkomandi Blómstursvallafólksins. Hann sendi vefsíðunni eftirfarandi fróðleik:
„Blómsturvellir: 17. teigur á Hústóftavelli – Saga af mannfólki mikilla sæva:
Eyðibýlið Blómsturvellir í Staðarhverfi í Grindavík, 3116 fm lóð með um 100 ára gömlum hlöðnum húsgrunni. Land þetta hef ég leigt Golfklúbbi Grindavíkur og er þar nú rauður 17. teigur Hústóftavallar.
Á þriðjudaginn, 16. júlí 2013, fórum við Sonja ásamt vinahjónum okkar, Ingibjörgu og Óla, á Húsatóftavöll til að leika þar golf – og við Sonja þar í fyrsta sinn í þeim erindagjörðum.
Í móttökunni í golfskálanum kynnti ég mig sem Pétur frá Blómsturvöllum – og var það eins og um var samið; ég boðinn velkominn til leiks ásamt gestum mínum. Hitti ég þar fyrir Harald varformann Golfklúbbsins og gat ég frætt hann nokkuð um lands- og atvinnuhætti þar á staðnum á fyrri hluta síðustu aldar.

Húsatóftir

Húsatóftir fyrrum – efri bærinn (Austurbærinn). Teikning Kristinn Reyr.

Hófst nú leikurinn á 1. teig þar sem fyrstu 9. teigarnir og brautirnar raða sér uppeftir og inneftir hrauninu, snyrtilega aðlagaðir hrauninu. Þó þessi ferð ætti að heita golfleikur þá fór fljótlega á stað annar leikur í höfðinu á mér: Minningar. Hér höfðu forfeður mínir í föðurætt lifað og starfað. Þarna á Húsatóftum stóð ég væntanlega á tóftum húsa langafa míns og ömmu, Árna Jónsonar (f. 1850) og Vilborgar Guðmundsdóttur (f. 1852), sem fluttu að Húsatóftum árið 1907 með sjö börnum sínum, 13-25 ára, en þau fluttu frá Krýsuvík þar sem þau höfðu búið sjö árin þar á undan og verið með allt að þúsund fjár þar. Þar áður höfðu þau búið að Sperðli í Landeyjum þar sem Ágústa amma mín fæddist (f.1891) og systkini hennar.

Krýsuvík

Krýsuvík – Suðurkot um 1900; tilgáta.

Það sem lokkaði langafa í Staðarhverfið frá rolluskjátunum í Krýsuvík var útræðið þaðan; útgerðin heillaði – og nóg var af sonunum til að gera út – en það varð langafa og ömmu dýrkeypt.
Kristinn Pétursson ReyrGolfið hélt áfram með góðum tilþrifum á stundum og minningarnar hlóðust inn sem truflaði einbeitinguna í sveiflunni – en hvað með það: Var ég ekki á ættargrund og þarf maður alltaf að fara í gegnum lífið sem þota hugsandi aldrei um úr hverskonar efnivið maður er sorfinn ?
Þannig að ég lét hugann áfram reika samhliða sveiflunni.
Í Arfavík, á 13. og 14. braut, þar sem brimaldan brotnar var útræði mikið og sjórinn stundaður af miklu kappi í tíð langafa. Þarna stóð hún langamma mín þann 8. apríl 1915 og horfði út í gráðið þar sem veðrið gekk upp smám saman og él setti niður um kring. Þar úti á sjó átti hún þrjá syni sem allir fórust þar ásamt sjö öðrum bátsverjum á tíæringi.
Hann faðir minn, Kristinn Reyr, orti þessi þrjú síðari erindi um frændur sína, þá Magnús, Árna og Ólaf:

„Þann apríldag.
…..Og enginn sá
hvað afa mínum
innifyrir bjó
þann apríldag
– er átti hann
syni tvo á landi
og syni þrjá
í sjó.“

Kristinn Pétursson

Kristinn Pétursson Reyr.

Já, svona er sagan hjá mannfólki mikilla sæva. Maður nánast lítur í sand við þessum örlögum forfeðra sinna.
En eins manns dauði er annars brauð: Þegar á 17. teig er komið hefst saga afa og ömmu, þeirra Ágústu Árnadóttur og Péturs Jónssonar (f. 1889) frá Hópi í Grindavík. Langafi hafði útmælt lóð, 1914, fyrir syni sína, þá Ólaf og Árna sem drukknuðu. Við fráfall þeirra gefur langafi ömmu lóð þessa, Blómsturvellir, þar sem þau hefja búskap með pabba, þá á öðru ári, árið 1916. Við lát ömmu, 1969, eignast ég svo Blómsturvelli. Þarna stóð ég nær hundrað árum seinna með golfkylfu í hönd á ættaróðalinu, húsatóftum, hlöðnum kjallara sem enn stendur að hluta og þar útundan hlaðinn grjótgarður sem afmarkaði kálgarðinn við húsið sem afi reisti á húsgrunninum, 4,60 x 5,20 metrar, krossþiljað þar sem gengið var inn í eldhús úr útiskúr, 3,30 x 3,30.

Blómsturvellir

Blómsturvellir, teikning Kristins Reyrs.

Úr eldhúsinu var gengið í hring í herbergin þrjú. Þessi húskynni voru því alls um 34 fermetrar auk eldiviða- og matvælakjallara og rislofts sem skinnklæði voru geymd. Á vetravertíðum bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – þá nefndir útgerðamenn – og urðu þá tveir að deila með sér sömu rekkju. Ekki veit ég hvernig henni Sonju minni myndi líka þess háttar búskaparlag nú!
Af 17. teig sló ég með fjarkanum mínum vænt högg og er ég viss um að pabbi, afi og amma hafi verið þar með mér í liði.

Blómsturvellir

Húsatóftir – loftmynd.

Húsatóftavöll kvaddi ég svo að sinni, glaður og hreykinn í senn að vera kominn í heimahaga forfeðrana. Á Húsatóftavöll kem ég aftur – og beztu þakkir til Golfklúbbsins þar.
Blómsturvellir, útskorið í kápu á gestabók eftir teikningu pabba. Einnig er þar merki Staðhverfingarfélagsins – einnig áður útskorið af honum.
Staðhverfingarfélagið gaf pabba gestabókina á sjötugsafmælinu hans.

Vindheimar

Vindheimar við Húsatóftir, teikning eftir Kristinn Reyr.

En þar er ekki sagan öll – því næstu hundrað árin fléttast svo saga þessara forvera minna og okkar systur minnar, Eddu, í Reykjavík, á Grettisgötu 49, sem lauk í janúar 2013 með því að það ættaróðal var selt:
Eftir hið mikla sjóslys og sonamissi er langafa og langömmu brugðið; þau höfðu árið 1911 útmælt sér lóð úr Húsatóftalandi, ein þriðja úr sínum parti sem þau nefndu Vindheima þar sem þau höfðu væntanlega ætlað að njóta efri áranna umvafin börnum sínum allt í kring og með útræðið til fengsælla fiskimiða við bæjardyrnar.

Grettisgata 49

Grettisgata 49.

Vorið 1919 flytjast þau til Reykjavíkur og kaupa hús á Grettisgötu 49. Þar búa þau fyrst en síðan í Björnshúsi á Grímsstaðaholti. Þar stundaði langafi grásleppuveiðar ásamt afadrengjum sínum og ók aflanum á hestvagni til sölu í bænum en einnig notaði hann hestvagninn til vöru- og búslóðaflutninga fyrir aðra í bænum. Vorið 1931 bregða þau svo búi sökum hrumleika. Langafi fór til Vilmundar sonar síns á Löndum í Staðarhverfi og lézt þar um haustið en langamma fluttist til Ágústu-ömmu á Grettisgötu 49 og andaðist þar í hárri elli 1940. Ágústa-amma lézt 1969, en hjá henni bjó ég oft í lengri og skemmri tíma á mínum uppvaxtarárum. Eftir lát ömmu tók Edda systir mín við búsforæðum á Grettisgötunni. Segja má að Grettisgata 49 hafi í tæp hundrað ár (1917-2013) verið griðastaður fjölskyldu minnar frá langafa og langömmu, ömmu, pabba, okkur Eddu systur, börnum okkar og barnabarnabörnum Eddu – eða í sjö ættliði samtals. Blessuð sé minning Grettisgötu 49. – Ritað hefur Pétur Kristinsson frá Blómsturvöllum.

Húsatóptir

Húsatóftir – örnefni og minjar; ÓSÁ.

Heimilda var leitað í Staðhverfingabók. Kristinn Reyr og Sigurður V. Guðmundsson komu ásamt Gísla Brynjólfssyni að ritun og hönnun bókarinnar ásamt fleirum.
Hér kemur svo skýringin á því af hverju langafi og hans fjölskylda fluttu frá Sperðli :
Fleiri blaðsíður eru í myndasafni mínu frá 3. sept 2015 og svo bókin sjálf á Bókasafninu í Hveragerði.
Tilurð þessara upplýsinga er að á árunum 2012-14, kynntist ég Stefáni Ólafssyni sem starfar hjá Fasteignum Ríkisins og Framkvæmdasýslunni vegna landamerkjadeilna við Kristinn Björnsson í Grindavík, sem á landskika þarna, en Stefán er frá Eystra Hóli, næsta bæ við Sperðil, og benti hann mér á bókina.
Blómsturvellir mínir eru númer 23 á meðfylgandi uppdrætti:
Þessi landamerkjadeila varð til þess að Fasteignir Ríkisins ákváðu við uppmælingu umdeildra landskika að „rúna af“ um 600 FM og bæta við Blómsturvallarland. Þökk sé Ríkinu fyrir það!“

Heimildir m.a.:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók; Gísli Brynjólfsson, 1975, bls. 97-99.
-Pétur Kristinsson.

Húsatóftir

Staðarhverfi – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ. Blómsturvellir eru nr. 23 á uppdrættinum.