Borgarhús – Símonarhellir

Villingavatn

Í fornleifaskráningu „Fornleifar í Grafningi“ frá árinu 2008 er m.a. fjallað um Borgarhús í landi Bíldfells í Grafningi og Símonarhelli að Villingavatni, auk heymkumls á hólnum Einbúa í því landi. Heimildinar eru m.a. byggðar á örnefnalýsingum.

Um jörðina Bíldsfell segir:

Bíldsfell

Bíldsfell.

„42 2/3 hdr. 1847, óþ. 1706. Skálholtskirkjujörð. „Þorgrímr bíldr, bróðir Önundar bílds nam lönd öll fyrir ofan Þverá ok bjó at Bíldsfelli. Hans leysingi var Steinröðr, son Melpatrix af Írlandi; hann eignaðisk öll Vatnslönd ok bjó á Steinröðarstöðum.“ Landnámabók, ÍF I, 388, 390.
Kirkju í Bíldsfelli er getið í máldaga frá um 1220, DI I, 409 og í Vilchinsmáldaga DI IV, 93.
Bæjar eða fjalls er getið í Harðarsögu – ÍF XIII, 50.
1539 er Sveinn Þorvaldsson búandi á Bíldsfelli, landseti Skálholtsstóls, meðal þeirra sem drápu Diðrik van Minden og fylgjara hans í stofunni í Skálholti – Bsk II, 270.
1712 er Ólafur Þórðarson bóndi á Bíldsfelli, AÍ X, 67. Jarðardýrleiki óviss 1706, eign Skálholtsstóls, jörðinni fylgja tveir vatnshólmar. „Jörðin var í eyði þegar Jón Sigurðsson flutti þangað 1788.“ Ö-Bíldsfell, 10.

Bíldsfell

Bíldsfell um 1950.

1706: „Túninu spilla leirskriður úr fjalli, sem jeta sig niður í dældir og gjöra jarðföll, ítem stórgryti, sem hrapar úr fjallinu. Engið felur mjög í hrjóstur og fer til
þurðar.“ JÁM II, 384.
1839: „Heyskaparlítið, útigangur góður.“ SSÁ, 182. 1918: tún 7,9 ha sléttað, garðar 1454 m2. „Eftir Jón Sigurðsson varð Ögmundur sonar hans ábúandi.
Keypti hann jörðina af systkinum sínum og bætti hana mjög, sléttaði túnið og stækkaði og girti sæmilega.“ Ö-Bíldsfell, 10. „Skitpist hún aðallega í lyngmóa, heiðar, mýrardrög, fjallendi og melaöldur. Hagar eru að mestu leyti grónir og skjólgóðir. Vetrarbeit er góð því nokkuð er um kjarr og lyng en hefur ekki verið notuð í seinni tíð.“ SB III, 268.
Ný tún tekin í notkun og sléttuð um og eftir 1970.“

Borgarhús – fjárhústóft

Borgarhús

Borgarhús – uppdráttur ÓSÁ.

„Norðan til í Hamrabrekkunni er Hamralág. Eftir henni liggur heygatan upp í Lönd. Suður af Hömrunum eru Láguhamrar. Þar sem þeir byrja byggðu synir Jóns Sigurðssonar geysimikla fjárborg úr feiknastórum björgum. Hefir hún verið byggð snemma á 19. öld. Síðar byggði Ögmundur Jónsson þar fjárhús, er nefndust Borgarhús og tók smærra grjótið ofan af borginni og hafði í húsin. Voru þar hýstir sauðir á vetrum, en stekkatún á vorum“, segir í örnefnalýsingu.
Fjárhúsin eru um 40 metra norðvestur af Sakkagilinu, og um 6-800 metra vestur af sumarbústaðnum undir Hömrunum á þýfðum grasbala.
Syðst er garðbútur sem liggur í norðvestur og er smávegis sveigja á honum og svo beygir hann til norðvesturs alls um 42 m langur.  Rétt vestur af honu er  beitarhúsatóftin um 6×10 að utanmáli, 9×4 að innanmáli og opast hún til suðvestur og er enginn veggur á þeirrri hlið.  Heystæðið gæti verið litla hólfið norður af beitarhúsatóftinni.

Um Villingavatn segir:

Villingavatn

Villingavatn.

„20 hdr. 1706, c. 1500. Úlfljótsvatnskirkjujörð.
Fyrst getið 1397, DI IV, 93. 13.6.1703 telja eigendur að jörðinni Úlfljótsvatni … sextíu hundruð að dýrleika, hvar með fylgir kirkjueignin Villingavatn, tuttugu hundruð að dýrleika, en hefur verið þessi kirkjueign sett fyrir xc til arfaskipta í fastaeign, hvað enn nú stendur sem fyrri.’ JÁM XIV, 62.

Villingavatn

Villingavatn – túnakort 1918.

14.6.1703 telur Magnús Magnússon ’20c af Úlfljótsvatni, bóndaeign, heyra mér …. Kirkjujörð, … heitir Villingavatn, að dýrleika 10c að aftekturn. Tilheyrir mér hún hálf. Landskuld til mín, x aurar, gelst í landarum. Kirkjukúgildi 6, þar af eftir 3 betalast prestinum 6 fjórðungar smjörs eða í landaurum, peningum eður þvílíku.’ JÁM XIV, 63 nm.
„Allstór fjallajörð. Liggur móti norðaustri og á land frá Þingvallavatni og út í Ölfusmörk.“ SB III, 266, 1918: Tún 5,7 ha. Matjurtagarðar 695 m2.
1839: „heyskapur gnægur, útbeit og silungsveiði, hættujörð af graflækjum.“ SSÁ, 182. 1977: Tún 39,7 ha. „Víða góð skjól og beitiland gott þar til mýið var drepið 1959. Þurrlend móajörð með melum á milli upp til fjallsins en mýrarsund nær bænum og kringum tjörnina. Valllendisblettir eru víða.“ SB III, 266. Flest túnjarðarinnar sléttuð með stórvirkum vinnuvélum um og eftir 1970.“

Símonarhellir – fjárhellir/fjárskýli

Villingavatn

Villingavatn – Símonarhellir.

„Símonarhellir: Í berginu við vesturendann á Langapalli. Frá Símonarhelli útað fjárhellinum er kallaði í daglegu tali með Björgunum […]. Fjárhellir: Í daglegu tali nefndur Hellirinn. Tekur 120 fjár með heykumli“, segir í örnefnalýsingu.
„Fjárhellir er við Þingvallavatn, notaður frá ómunatíð.“ Hellirinn er upp í bergið, um það bil 80 metra suður af bökkum Þingvallavatns. Frá hellinum niður að vatnsbakkanum er hallandi túnbali. Í hellisopinu eru trésperrur sem afmarka opið. Austan við það hefur verið hlaðið milli tveggja stórra bjarga og gæti það verið heykuml er að mestu fallið ofan í tóftina en hún hefur verið 10×4 að utanmáli og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar.

Einbúakuml – tóft/heystæði

Villingavatn

Villingavatn – Einbúakuml.

Um 40-50 metra suðaustur af Einbúanum og 100 metra austur af Hringatjörnum er Einbúakumlið. Þýfður melur, blettur í annars uppblásinni urðinni. Heytóftin er vel heilleg, opnast til norðurs. Hún er alls 6×4 að utanmáli en 4×2 að innanmáli. Hleðslur eru enn vel greinilegar, alls 5 umför þar sem suðausturveggurinn er hæstur.

Heimild m.a.:
-Fornleifar í Grafningi; Nesjar, Hagavík, Krókur, Villingavatn, Bíldsfell, Tunga, Hlíð, Stóri-Háls, Litli-Háls og Torfastaðir, Orri Vésteinsson & Sædís Gunnarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík, 1998.
-Örnefnalýsing fyrir Bíldsfell. Ögmundur Sigurðsson, Hafnarfirði 10. júlí 1921.
-Örnefnalýsing fyrir Villingavatn. Sigurður Hannesson fæddur að Stóra-Hálsi 1.6.1926, kom að Villingavatni árið 1948.
-Örnefnalýsing fyrir Villingavatn. Þorgeir Magnússon skráði 1970 (1896-1983).

Villingavatn

Villingavatn – í Símonarhelli.