„Borgin“ í Selbrúnum – Víkursel – Árnakróksrétt og Litla-sel við Selvatn

Selbrúnir

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006„, skráða af Þjóðminjasafni Íslands, segir eftirfarandi um sögu Miðdals:

Miðdalur

Miðdalur – kort 1908.

„Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Mið­dalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 1938-57 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal.
Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalkot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögu­legur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefna­lýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonuns á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).“

Í „Örnefnalýsingu fyrir Miðdal„, skráð af Tryggva Einarssyni Miðdal, segir um svæðið norðan og austan Selvatns:

Litla-sel

Tóft ofan við Litlu-Selsvík.

„Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Víkursel

Víkursel.

Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin. Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norðvestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norðvestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur. Sá konunglegi dalur, árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.

Selbrúnir

„Borg“ í Selbrúnum.

Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur. Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir. Norðvestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lykklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots. Suðaustur af Urriðarlágarbotninum (svo) eru Vörðhólar. Vestan undir Vörðhólum er allstór dalur er Vörðhóladalur (heitir. Sunnan við Vörðhóla er greni með fallegu skotbyrgi. All langt norður af Lyklafelli eru Klettabrúnir sem Klettabelti heita, spölkorn austur af Klettabeltum er jarðfastur bergstöpull sem Litli-Klakkur heitir. Nokkru austar er stærri bergstöpull sem Stóri-Klakkur heitir.“

Selvatn

Selvatn – málverk Ásgríms Jónssonar 1956. Sjá myndina fyrir neðan.

Tryggvi Einarsson getur ekki um fjárborg í Selbrúnum. Borgarmynd er þó þarna í dag, árið 2021, ca. 15 metra frá sumarbústað, sem þar hefur verið byggður, allhrörlegur. Fjárborgin þessi kemur heldur ekki fram í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006. Í Þjóðminjalögunum frá 2001 sagði í 11. grein: „Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Fjárborgin hefur ekki verið friðlýst. Hennar er heldur ekki getið í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006“, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.

Selvatn

Selvatn – steinn Ásgríms Jónssonar.

Í Minjalögum frá 2012 segir hins vegar í 22. grein: „Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið“. Sumarbústaðurinn hefur væntanlega verið byggður fyrir 2012.
Líklegasta skýringin á vanskráningu „fjárborgarinnar“ að hún hafi verið hlaðin eftir 2006. Handbragðið á hleðslunum bendir m.a. til þess. A.m.k. sést hún ekki á loftmynd af svæðinu frá 1954.

Árnakróksrétt

Árnakróksrétt.

Tryggvi Einarsson frá Miðdal skráði „Örnefni í landi Elliðakots í Mosfellssveit“. Þar getur hann um aðra fornleif skammt sunnar, þ.e. Árnakróksrétt: „Landamörk Elliðakots að norðan eru þar sem Dugguós rennur í Hólmsá.
Svo Dugguós í vesturenda Selvatn. Skammt vestan við mitt Selvatn eru stórgrýtisklettar, sem Veiðiklettar heita. Nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur.
Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og vakað alla réttanóttina.“ Í „Aldaskil“ eftir Árna Óla, á bls. 243, er minnst á tilurð nafnsins Árnakrókur. „Þarna fannst maður úr Laugardalum helfrosinn í Króknum svokallaða sem aftur breyttist í Árnakrók“.

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna  tók við af Hafravatnsrétt fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna haustið 1986 eftir að Hafravatnsrétt hafði verið lögð niður en hún hafði verið lögrétt allt frá 1902 þegar Árnakróksrétt, skammt frá Selvatni, var aflögð (skömmu eftir aldarmótin 1900).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Þjóðminjalög 2001 nr. 107 31. maí.
-Minjalög frá 2012.

Selbrúnir

„Fjárborg“ í Selbrúnum.