Bragginn á Krýsuvíkurheiði
Þegar FERLIR-357 gekk slóðann áleiðis niður að Selöldu sást móta fyrir undirstöðum bragga skammt vestan hans. Svör lágu ekki á lausu um tilvist byggingar á þessum stað.
Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þarna á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.
Þeir feðgar, sem voru á ferðalagi um Skagann, höfðu komið við hjá vini þeirra Guðmundi í Nesi í Grindavík og fengið hjá honum tvær landaflöskur. Daginn eftir fóru þeir til Hlínar í Herdísarvík. Á leiðinni heim komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvík, sem benti þeim á útlendingana í heiðinni.
Ameríkönunum var gefin önnur landaflaskan við komuna. Í staðinn fylltu þeir hnakktöskur aðkomumanna með appelsínum, en slíkt höfðu þeir ekki séð fyrr. Eftir að hafa drukkið úr flöskunni varð tilefni til að gefa þeim hina flöskuna einnig. Var þá tekið til við að steikja beikon, en það mun hafa verið fyrsta sinni er það bar á góma aðkomumanna. Varð ferðin einstaklega minnistæð þeim bræðrum.
Enn sést móta fyrir hleðslum utan um fyrrum bragga sem og ryðgaðar járnlektur á heiðinni þar sem hana ber hæst ofan við Selöldu, fast vestan við slóðina. Þaðan er ágætt útsýni yfir hafið svo langt sem augað eygir, allt til Eldeyjar í vestri. Vestari hluti Selöldunnar skyggir þó á að hluta. Þarna er einnig mjög gott útsýni til austurs og vesturs um Krýsuvíkurheiðina sem og upp til bæja og fjalla.
Magnús Ólafsson hafði nauðugur verið sendur í vist 18 ára gamall til Árna sýslumanns Gíslasonar, í kringum 1895. Ætlunin var að senda Magnús í verbúiðir sem að Árni sýslumaður átti í Herdísarvík. Enn Magnúsi var ekki um sjóin gefið og vonaðist eftir starfi í Krýsuvík, betur fór en áhorfðist og fékk Magnús fjárhirðastöðu í Krýsuvík á Nýjabæ. Enn má sjá nokkur mannvirki í Krýsuvíkurheiði, sem tengjast veru Magnúsar í Krýsuvík.
Magnús var síðasti ábúandinn í Krýsuvík. Stóri Nýibær hafði lagst síðastur í eyði í Krýsuvík árið 1938, en eftir það varð þó ekki alveg mannlaust þarna. Einn maður, fyrrnefnur, varð eftir og bjó í kirkjunni í Krýsuvík þegar allir höfðu flúið af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp þraukaði fjarri mannabyggðum aleinn og ósveigjanlegur og barðist þar áfram uns yfir lauk.