Breiðholt – tóftir
Lítið er nú eftir af bænum Breiðholti, sem samnefnt hverfi í Reykjavík dregur nú nafn sitt af. Gamla bæjarstæðið var friðlýst árið 1981. Í Friðlýsingaskránni frá 1990 segir eftirfarandi um Breiðholt. „Hið gamla bæjarstæði Breiðholts, ásamt kirkjutóft og kirkjugarði, um 15-30 m norður frá húsinu Grjótaseli 21. Skjal undirritað af ÞM 28.07. 1981. Þinglýst 28.08.1981.“
Þegar leifarnar af bæjarstæðinu eru skoðaðar núna sjást einungis leifarnar af kirkjunni og að öllum líkindum hefur kirkjugarðurinn verið umhverfis hana. Byggt hefur verið allt um kring, svo vandlega að aðrar minjar eru nú horfnar með öllu. Er Breiðholtið bar á góma var það jafnan sett í samhengi við heilstæðar tóftaleifar. Nú er orðið „menningarlandslag“ notað um efnið. Með hugtakinu menningarlandslag er átt við það landslag eða umhverfi sem maðurinn hefur mótað með búsetu sinni hverju sinni. Í Reykjavík hafa fundist minjar um búsetu allt frá því á 9. öld og ber því fornleifum saman við ritheimildir um að hingað hafi fluttst fólk á þeim tíma sem nefnt er landnámsöld.
Nesið sem borgin stendur á hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið. Það umhverfi sem við þekkjum í dag er því manngert að miklu leyti. Þar má sjá margvísleg merki um búsetu; leifar bygginga, staði þar sem fanga hefur verið aflað og leiðir milli staða, líkt og sjá mátti í Breiðholti,en annað er falið í jörðu.
Meðal annarra minjastaða í Reykjavík þar sem sjá má menningarlandslag má nefna Laugarnes, Kvosina í miðbæ Reykjavíkur, Skildinganes við Skerjafjörð, eyjarnar á Kollafriði, Elliðárdal, Þingnes við Elliðárvatn og aðrar jarðir í austurhluta borgarinnar, Keldur, Grafarholt og Reynisvatn.
Hvorki er að sjá upplýsingar um býlið Breiðholt á vettvangi né er það sérstaklega merkt sem friðlýsingarstaður. Í því sambandi má gjarnan geta þess að í Þjóðminjalögum er kveðið á um skyldu Fornleifaverndar ríkisins að sjá til þess að friðlýstar fornleifar skuli merktar. Þar segir m.a. í 11. gr. laganna: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands…
Fornleifavernd ríkisins skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjasvæði séu merkt með sérstökum merkjum. Tilkynna skal landeiganda og ábúanda með sannanlegum hætti um friðlýsinguna. Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Um stærra svæði skal leita samþykkis landeiganda. Friðlýstar fornleifar skulu færðar á skipulagskort. Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu njóta friðlýsingar áfram.
Fornleifavernd ríkisins getur afturkallað friðlýsingu og skal afturköllunin auglýst með sama hætti og friðlýsingin.“ Viðurlagaákvæði er m.a. í 27. gr. laganna þar sem segir að brot á ákvæðum 11. gr. varði sektum.
Síðan framangreint var sett inn á vefsíðuna hefur verið sett upp upplýsingaskilti nálægt þar sem Breiðholtsbærinn stóð – sjá meira HÉR. Er það til mikillar fyrirmyndar.
Heimildir m.a.:
-Minjasafn Reykjavíkur.
-Þjóðminjalög nr. 107/2001 gr. 11.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.