Brennisteinsfjöll friðlýst

Rjúpa

Brennisteinsfjöll voru þann 24. apríl 2020 friðlýst gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd og sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Verndarsvæðið er 123.131 km² að stærð.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Í mbl.is 25.4.2020 segir: „Brennisteinsfjöll friðlýst„.
„Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag á Degi umhverfisins, friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Guðmundur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Tekið er fram að verndarsvæðið sé 123 ferkílómetrar að stærð og liggi í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um sé að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir sé í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna megi ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám, en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Drottning.

„Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu. Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að friðlýsing háhitasvæðis Brennisteinsfjalla gegn orkuvinnslu sé hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018.
„Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.“

Í Fréttablaðinu 25. apríl 2020 segir:

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Háhitasvæði Brennisteinsfjalla friðlýst á degi umhverfisins
„Háhitasvæði Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga var í dag friðlýst af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, á sérstökum „degi umhverfisins“. Svæðið er það sjöunda sem ráðherrann friðlýsir.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnáma í Brennisteinsfjölllum.

Friðlýsingin er í samræmi við ákvörðun Alþingis um rammaáætlun frá árinu 2013 en rétt er að taka fram að friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu. Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar og liggur á milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Svæðið er stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og má þar finna gosminjar og minjar um brennisteinsnám sem þar var stundað í nokkur ár milli 1876 og 1883.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fór af stað með friðlýsingarátak árið 2018 og er þetta sjöunda svæðið sem hann friðlýsir síðan. „Mér er bæði ljúft og skylt að friðlýsa Brennisteinsfjallasvæðið gegn orkuvinnslu á degi umhverfisins,“ segir ráðherrann.
„Við þessa friðlýsingu verður mér sérstaklega hugsað til þeirra forréttinda fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins að eiga ennþá óbyggð víðerni í nágrenni svæðisins. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er á þessum víðernum. Í þessu felast ómæld verðmæti og þeim fylgir ábyrgð sem við rísum undir í dag með þessari friðlýsingu,“ segir Guðmundur loks.“

AUGLÝSING um verndarsvæði á Reykjanesskaga – háhiti Brennisteinsfjallasvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – verndarsvæðið.

1. gr.
Um friðlýsinguna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll í Grindavíkurbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Sveitarfélaginu Ölfusi gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Verndarsvæðið er 123 km² að stærð.

Ferlir

Í FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.
Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll gegn orkuvinnslu, sbr. 1. gr.

3. gr.
Mörk verndarsvæðisins.
Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á korti og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I, sem birtur er með auglýsingu þessari.
Afmörkun jarðhita er dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og yfir gíga og nýlega eldvirkni í nálægu landslagi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

4. gr.
Mannvirkjagerð og orkurannsóknir.
Orkuvinnsla varmaafls með uppsett varmaafl 50 MW eða meira innan marka svæðisins er óheimil. Ekki er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og að undangenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að stunda yfirborðsrannsóknir á verndarsvæðinu.

5. gr.
Viðurlög.
Brot gegn friðlýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

6. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Heimildir:
-https://www.ust.is/nattura/fridlysingar/fridlyst-svaedi-a-rammaaaetlun/brennisteinsfjoll-rammaaaetlun/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/04/25/brennisteinsfjoll_fridlyst/
-https://www.frettabladid.is/frettir/hahitasvaedi-brennisteinsfjalla-fridlyst-degi-umhverfisins/
-https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=b2f53425-a55c-4918-a2bc-5e99284b1cdd

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.