Brunatorfur (Brunntorfur-Brundtorfur)

Þorbjarnarstaðaborg

Það er stundum gaman að velta fyrir sér örnefnum og tilurð þeirra, brenglunum og misvísunum er verða til með tímanum. Eitt dæmið er örnefnið „Brunntorfur„.

Brunatorfur

Brunatorfur (Brunntorfur) – kort.

Eftir að Nýjahraun rann á tímabilinu frá 1151 til 1180 var það á meðal íbúana í Hraunum jafnan nefnt „Bruninn“. Síðar, eftir að mannvistarleifar fundust neðst í hrauninu við hina fornu Alfaraleið og Kristján Eldjárn, ásamt öðrum, grófu þær upp um 1950 og túlkuðu sem kapellu, var hraunið nefnt Kapelluhraun.

Þegar skoðaðar eru seinni tíma örnefnalýsingar má m.a. sjá eftirfarandi:
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Straum segir; „Stórhæðir taka svo við þegar kemur upp fyrir Straumssel, þar til austurs efst er Fremstihöfði. Ofan við Straumsel heitir Gamlaþúfa og í henni er gren sem heitir Gömluþúfugren. Þar austur af er holt sem heitir Hafurbjarnarholt, á því vestarlega voru merki móti Straumi. Svo er þar ofar Fremstihöfði, þá snúum við við á Brunntorfur, þaðan í Gjásel. Norður af því eru Hrauntungur.“

Brunntorfur

Brunatorfur – loftmynd.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Straum er ekki minnst á Brunntorfur.

Í örnefnalýsingu Gísla um Þorbjarnarstaði segir hins vegar; „Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Áður hefur verið getið um mosatekju í Kapelluhraun.
Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum. Nær miðju var Kapellan, húsnefna hlaðin úr grjóti uppi á hól. Var hún 2×2 metrar að ummáli, og sneru dyr í vestur. Kapella þessi var helguð heilagri Barböru, sem var verndari ferðamanna og gegn hvers konar háska af eldsvoða.

Brunatorfur

Gerði í Brunatorfum.

Síðan liggur leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá Brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum.“

Í örnefnalýsingu Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar fyrir Hafnarfjörð segir; „Brunntorfur (Brundtorfur) eru sunnan við Gjásel og vestan Snókalanda.“
Hér fer höfundur svolítið villu vega; Svæðið sunnan Gjásels er Hafurbjarnaholt í Almenningi. Hins vegar eru Brunatorfur réttilega sagðar vestan Snókalanda.

Brunntorfuskjól

Brunatorfuskjól.

Eftir að Bjarni Bjarnason, skólastjóri og ábúandi Straums, ánafnaði Skógrækt ríkisins hluta Straumslands og með nýjum skógræktarlögum árið 1955 var skógræktarstjóra heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að leigja einstaklingum, félögum eða stofnunum lönd á erfðafestu innan girðingar Skógræktarinnar gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landinu samkvæmt fyrirmælum skógræktarstjóra og samningi við leigutaka. Allur skógur í landinu skyldi verða eign leigutaka en meðferð hans og grisjun háð fyrirmælum skógræktarstjóra.

Brundtorfur

„Brundtorfuhellir.“

Fljótlega eftir að lögin tóku gildi, hófust ræktunartilraunir á afmörkuðu svæði í Straumi, og um eða upp úr 1960 gerðu fjórir félagar samning við Skógræktina um leigu á landi til skógræktar í „Brunntorfum“. Það er hins vegar ekki að sjá að þeir hafi nokkru sinni leitt hugan að nafngiftinni, enda uppteknir af skógræktinni.

Segja má það sama um þá tvo fyrrnefndu. Í fyrsta lagi er enginn brunnur í nefndum „Brunntorfum“ og í öðru lagði var „hrútum aldrei hleypt til ánna þar forðum daga“. Það stóð reyndar til á tímabili, í kringum 1900, en sú varð hins vegar aldrei raunin.

„Bruninn“ hét hraunið sannanlega sem rann þarna fyrrum. Því er öllu skilmerkilegra, að öllu framangreindu sögðu, að nefna mosagrónar gróðurtorfurnar þar í austanverðum Almenningi „Brunatorfur„.

Brunatorfur

Brunatorfur (Brunntorfur) – kort.