Brunatorfur – leiðir
Þegar gengið var frá þorbjarnarstaðaborginni og yfir hæðina er varða fremst á henni. Fjárborgin var hlaðin af börnunum á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Líklega hefur hún átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en þaðan var einmitt faðir þeirra ættaður (Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Móðirin var Ingveldur Jónsdóttir, Guðmundssonar, hreppstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Álfstöðum á Skeiðum (Haukadal og Tortu). Bróðir hans bjó á undan þeim á Þorbjarnarstöðum). Lagið á fjárborginni bendir til þess. Sjá má helluhrauka við borgina og miðgarðurinn í henni hefur líkleg átt að vera stuðningur undir mitt þakið. Hætt hefur verið við hleðsluna af einhverjum ástæðum í miðjum klíðum. Hún hefur að öllum líkindum ekki verið notuð fyrir fé því ekki er gróið í kringum hana. Hún gæti hins vegar verið ferða- og leitarmönnum gott skjól og þess vegna hafi leiðin að henni verið vörðuð. Aðgengilegt er að ganga niður og norður með brún Háabruna inn á Hrauntungustíg eða áfram niður Gerðarstíg.
Vörðunum á vesturleiðinni (til suðausturs) var fylgt áfram. Hún endaði við stóra vörðu á Stórhöfðastíg. Gengið var m.a. framhjá Brunatorfuhella (Brundtorfuhella/Brunntorfuhella), sem eru fyrrum sauðahellar Hraunamanna. Þeir eru í einu jarðfalli. Í því eru hlaðnir gangar er leiddu féð í tvö skjól. Hellarnir eru vandfundir. Stórhöfðastígurinn hefur valdið mörgum miklum heilabrotum því menn virðast vera tala um fleiri en einn stíg þegar komið er upp fyrir hornið á skógræktargirðingunni. Ólafur Þorvaldsson lýsir þeim hluta svona: „Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.“
Þarna virðast vera styttingar, annars vegar niður í Þorbjarnastaðaborg og hins vegar inn á Stórhöfðastíginn. Greina má götur á stöku stað milli varða, en mosinn er víða kominn yfir þær eða búið að planta trjám því svæðið er innan umráða Skógræktar ríkisins. Það er í raun ágætt dæmi hversu varlega þarf að fara þegar trjám er plantað á gömul minjasvæði.
Ásbjörn „garpur“ hefur gert vörðukort af Almenningi. Á því má sjá að hinar gömlu leiðir eru merktar ónákvæmt inn á kort. Ef vörðum er hins vegar fylgt má vel sjá hvernig leiðir hafa legið um Almenning sem og hvernig varðaðir stígar hafa víða legið á milli þeirra.