Brunnastaðir – Fornistekkur – Guðmundarstekkur – Nafnlausistekkur
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir m.a. um svæðið neðan Arnarbælis í landi Brunnastaða:
Gamlivegur.
„Nú förum við niður og vestur fyrir Arnarbæli en þar er stekkur í lágri grasbrekku sem snýr í norðvestur og heitir Fornistekkur. Stekkurinn er á milli Skjaldarkotslága og Arnarbælis.
Brunnhóll heitir hóll með vörðu á og er hann suðvestur af Fornastekk en suður af Skjaldarkotslágum, u.þ.b. 200 m fyrir ofan Gamlaveg. Neðan og norðan við hólinn, rétt fyrir ofan fjárgirðinguna, er lítið vatnsstæði í klöpp og annað ofar og aðeins vestan við hólinn. Heimildir eru til um tvo Brunnhóla á þessum slóðum, Efri-Brunnhól og Neðri-Brunnhól og það gæti verið að þessi tvö vatnsstæði tengdust umræddum hólum. Vestan undir Brunnhóli er gamall nafnlaus stekkur.“
Hlöðunes – Fornistekkur.
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaði segir: „Ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur.“
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ er getið um Fornastekk: „Fornistekkur er um 1,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Stekkurinn er um 50 m norðaustan við núverandi landamerki á móti Hlöðunesi og kann því að hafa tilheyrt þeirri jörð.
Brunnastaðir – Nafnlausistekkur.
Stekkurinn er í aflíðandi brekku í norðvestanverðu holti. Uppgræddur mói er til norðvesturs. Tóftin er um 10×5,5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún skiptist í tvö hólf og er sigin og gróin. Hólf I er í norðausturhluta tóftarinnar. Það er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á því.
Hólf II er í suðvesturenda tóftar. Það er um 4 m á lengd og 2-3 m á breidd, breiðast í suðausturenda. Op er á hólfi II í norðurhorni.
Nafnlausistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Tóftin er að mestu leyti grjóthlaðin en torf hefur líklega einnig verið í hleðslum í hólfi I í norðausturhlutanum. Mesta hleðsluhæð er 0,3 m, ekki sést fjöldi umfara í hleðslum sem eru allar hrundar. Um 4 m suðaustan við tóftina og ofar í brekkunni er þýfð þúst sem er um 3×3 m að stærð og 0,3 m á hæð. Þar kunna frekari mannvirki að leynast undir sverði.“
Um nafnlausa stekkinn í Brunnhól segir: „Stekkurinn er í grasi gróinni, aflíðandi brekku til norðvesturs. Allstórt, flatlent og grösugt svæði er norðvestan við stekkinn í annars fremur hrjóstrugum hraunmóa.
Stekkjartóftin er grjóthlaðin og skiptist í 3 hólf. Hún er um 6×6 m að stærð. Hólf I er í suðvesturhluta tóftarinnar. Það er um 0,5×1,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er á því til norðvesturs.
Brunnhóll – stekkur.
Hólf II er í austurhorni tóftar og er um 1×1 m að innanmáli. Ekki sést skýrt op á því. Hólf III er fast norðvestan við hólf II og er um 2×1 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Ekki er veggur fyrir norðvesturhlið hólfsins og það því opið til þeirrar áttar. Frá norðurhorni tóftarinnar liggur aðrekstrargarður til suðvesturs og er um 6 m að lengd og 0,5 m á breidd. Tóftin er gróin í suðvesturhluta. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m og mest sjást 3 umför.“
Reyndar eru leifar þriggja fornra stekkja í og við Brunnhól, auk smalabyrgis og refaskyttuskjóls. „Brunnurinn“ er þar skammt frá. „Nafnlausi“ stekkurinn er ólíkur hinum, þ.á.m. Guðmundarstekk og Fornastekk, að í honum eru þrjú afmörkuð hólf. Heimastekkir höfðu jafnan tvö hólf líkt og stekkir í seljum (þar voru líka kofar fyrir búr, baðstofu og eldhús), en „millistekkir“, þ.e. á millum seljanna í heiðinni og bæja, höfðu þessi þrjú hólf, en voru án fyrrnefndra kofa. Aukahólfið var notað til skammtímageymslu afurðanna. Nafnlausistekkur ber því keim af heimaseli.
Brunnhóll – stekkur.
Í „Örnefni og göngleiðir“ er Guðmundarborg lýst: „Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar og var honum lýst hér á undan. Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti.
Fast upp af Stekkholti eru tveir Presthólar, Efri-Presthóll og Neðri-Presthóll, og sagt var að þar væri mikil huldufólksbyggð. Sigurjón Sigurðsson (1902—1987) frá Traðarkoti segir í örnefnalýsingu af Brunnastaðalandi: „Sagt er, að þeir dragi nafn sitt afþví, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn og sést inn í hann (þá) og haft prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari. “
Brunnhóll – vatnsstæði.
Milli Presthóla liggur Almenningsvegurinn og er mjög greinilegur þar og því tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir honum frá hólunum og suður í Voga. Gatan hefur verið vel vörðuð á þessum kafla íyrrum en nú standa aðeins lágreistar grjóthrúgur eftir. Sumstaðar hverfur hún alveg í grjótmela og moldarflög en annarstaðar, t.d. austan við Presthóla, sjást djúp hófaför í klöppum.“
Í Örnefnalýsingunni fyrir Brunnastaði segir: „Austan Lúsaborgar er hóll með vörðu á, upp af Grænhól, sá heitir Lambskinnshóll. Og þar upp af eru tveir hólar, allstórir klapparhólar, mjög líkir og skammt á milli þeirra. Þeir heita Presthólar, sunnan þeirra er varða sem er á merkjum. Í Presthólum er allt iðandi af lífi, það er huldufólkslífi. Milli Lambskinnshóls og Presthóla er stekkur, Guðmundarstekkur, stekkur þessi var frá Neðri-Brunnastöðum.“
Brunnhóll – refaskyttuskjól.
Guðmundarstekk er lýst í fornleifaskráningunni: „Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól og 390 m suðvestan stekk. Stekkurinn er um 1,72 km sunnan við bæ.
Stekkurinn er norðan undir hlíðum lágs hóls eða holts sem er norðvestur af Presthólum. Umhverfis stekkinn er allgróið en annars er hraunmóinn í kring gróðurlítill.
Brunnastaðir – Guðmundarstekkur.
Stekkurinn er grjóthlaðinn og skiptist í þrjú hólf. Hann er um 11×9 m að stærð og snýr norður-suður. Hólf I er um 4×7 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á því í norðurenda. Innan þess er lítið hólf II sem er um 2×2 m að stærð og snýr NNV-SSA. NNV-endi þess er óskýr og kann það að hafa náð lengra í þá átt. Ekki er veggur fyrir þeim enda. Mögulega var op úr hólfi II til austurs inn í hólf III sem er um 2,5×1,5 m að innanmáli og snýr nálega norður-suður. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og sjást mest 3 umför. Suðvesturhornið er mjög gróið og óskýrt.“
„Ekki fjarri stekknum eru Neðri- og Efri-Presthóll, sem oft eru aðeins nefndir Presthólar. Presthólar eru 1,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 100 m suðaustan við Guðmundarstekk.
Framangreindir stekkir eru nokkurn veginn í línu í skjóli fyrir austanáttinni til norðnorðausturs frá Prestshól að Brunnhól.
Guðmundarstekkur – uppdráttur ÓSÁ
Presthólar eru allháir hraunhólar í móa sem er að nokkru leyti uppblásinn. Varða er á Neðri-Presthól og hleðsla er á Efri-Presthól. Minjarnar eru á svæði sem er um 145×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Varðan A á Neðri-Presthóli er norðvestast á svæðinu. Hún er um 1,2×1,2 að grunnfleti. Varðan er nokkuð ferköntuð að lögun og eru hleðslur hennar hrundar. Hún er um 0,5 m á hæð og sjást 3 umför í henni en þau eru illgreinanleg. Ekki er vitað í hvaða tilgangi varðan var hlaðin en hún kann að hafa vísað á Almenningsleið/Alfaraleið sem lá á milli Presthólanna.
Hleðsla B á Efri-Presthól er suðaustast á svæðinu. Hún er á háhólnum í grunnri sprungu sem liggur eftir hólnum. Hleðslan er útflött og gróin. Hún er um 1,5×2 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hæð hleðslunnar er 0,3 m og 2 umför sjást á einum stað. Hlutverk hleðslunnar er ekki þekkt en þarna kann að hafa verið vatnsstæði.“
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir 2007.
-Örnefnalýsing fyrir Brunnastaði – Ari Gíslason.
-Ragnar Ágústsson – Ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Guðmundarstekkur.