Búrfellshraun – aldur I
Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um „Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð„:
„Skilgreining og nafngift.
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:
„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.
Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.
Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.
Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.
Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.
Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.
Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.
Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.
Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.
Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.
Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.
Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.
Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.
Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.
Búrfellsgjá
Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga“ þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.
Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.
Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.
Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.
Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.
Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.
Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin“ tæmdist að meira eða minna leyti.
Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.
Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni“, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.
Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.
Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.
En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.
Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.
Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.