Býjasker – Bæjarsker?

Býjaskersrétt

Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon „Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?

„Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Býjasker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.

Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin „Frá Suðurnesjum„, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
Frá SuðurnesjumEn svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-“ í stað „Bæjar-„. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, „að hafa býjarbyggð“, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-“ kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …“. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker“, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).

Býjasker

Býjasker – loftmynd 2020.

Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker“. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker“. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum“ 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.

Býjasker

Býjaskershverfi – túnakort 1919.

Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.

Býjasker

Býjasker – loftmynd 1954.

Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.“ – Skúli Magnússon

Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:

Býjasker

Býjasker – Jón Jónsson.

„Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: „Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
BýjaskerÁrið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.

Býjasker
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.

Býjasker
Þ
egar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.

Býjasker

Býjasker – sjóbúð.

Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.

Býjasker

Býjasker – fjárhús.

Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.

Býjasker

Býjaskersrétt 1983.

Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.

Býjaskerstétt

Býjarskersrétt-uppdráttur.

Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Þórarinn Snorrason
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.“ – Halldóra Thorlacius

Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Býjasker