Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var með Ósunum að Gamla-Kirkjuvogi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.

Áhugi er nú að láta rannsaka rústirnar, en Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á sextándu öld. Þá var Kirkjuvogur fluttur suður fyrir Ósa, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Til aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur Gamli-Kirkjuvogur, en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur.
Bæjarhóllinn er óspilltur. Skammt vestan hans er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Við bæjarhólinn má sjá leifar af því er virðist vera kirkjugarður. Kirkjuvogsselið er austar í heiðinni, austan Ósa.
Við Ósana er einnig Stafnessel, en á milli þess og Gamla-Kirkjuvogs fundu FERLIRsfarar mjög gamla tótt og garð, sem hvorki hefur verið minnst á né verið settur á kort. Greinilega er um mjög gamla tótt að ræða. Önnur stærri stendur þar við víkurbotn. Garðurinn liggur út í Ósinn og má sjá í hann undir yfirborði sjávar. Landið hefur lækkað þarna nokkuð og tekið breytingum frá því sem var. Gamla þjóðleiðin frá Hvalsnesi liggur skammt ofan við tóttirnar. Innan við Djúpavog eru tóftir a.m.k. tveggja óþekktra selja.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – gerði.

Brynjúlfur Jónsson segir í lýsingu sinni árið 1902 að “Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Innst skiftast Ósarnir í smávoga og kallast þeir Ósabotnar. Þar sem bærinn var er rústbunga mikil. Þar er allt nú blásið hrauhn, þó er rústin að nokkur leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.