Camp Lambton
Ýmsar herminjar eru í landi Sólvalla og Reykjalundar í Mosfellsbæ. Raunar er aðeins einn braggi enn þá uppistandandi en auk hans má sjá 31 vel varðveitta braggagrunna, bílagryfju, vatnsból og veg.
Braggarnir tilheyrðu Camp Lambton Park sem var eitt fjölmargra braggahverfa sem komið var upp í Mosfellssveit fljótlega eftir komu hersins til Íslands árið 1940. Að norðvestan rann Camp Lambton Park saman við Camp Clayton Park og voru samtals 144 braggar í þessum tveimur hverfum þegar mest var. Þarna höfðu fyrst Kanadamenn og síðan Bandaríkjamenn aðsetur. Í þeim hluta Camp Lambton Park sem hefur varðveist voru liðsforingjabúðirnar.
Auk braggahverfa til íbúðar risu á nokkrum stöðum braggasjúkrahús. Eitt þeirra var Álafoss Hospital, staðsett skammt frá Camp Lambton Park og Camp Clayton Park. Þegar spítalinn hóf starfsemi voru þar 250 sjúkrarúm en í neyðartilvikum var hægt að taka við allt að 550 sjúklingum. Starfsmenn voru tæplega 200. Spítalinn var staðsettur þar sem Reykjalundur er nú og er því horfinn en minjar í nágrenninu minna á hann.