Utan við nýuppgerða upplýsingamiðstöð á jarðhæð vitavarðarbústaðarins á Vatnsfelli á Reykjanesi eru tólf skilti. Á þeim eru upplýsingar um jarðfræði Reykjaness, vitann og nágrenni. Reyndar eru upplýsingarnar misvísandi og í einstaka tilfellum beinlínis rangar, en á skiltunum má lesa eftirfarandi fróðleik:
Heimili vitavarða
Reykjanesviti – skilti.
„Íbúðarhús vitavarða stóð alltaf hér á þessum stað frá því að fyrsti vitinn var reistur á Valahnúk árið 1878.
Núverandi hús var reist árið 1947 en hér stóð áður burstabær úr timbri og þar áður torfbær sem reistur var samhliða fyrsta vitanum. Það var langur spölur að fyrsta vitanum sem reistur var a Valahnúk. Enn síst héðan hlaðinn gönguleið vitavarðanna eftir hraunbreiðunni til suðvesturs að Valahnúk.
Reykjanesviti.
Þangað þurftu þeir að ganga í öllum veðrum til að halda ljósinu lifandi. Þeir vissu hvað var í húfi ef ljósgeislinn brást. Þegar vitinn var reistur hér á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] árið 1907 voru gerðar tröppur upp frá vitavarðarhúsinu að vitanum, sem enn eru nothæfar.
Það þurfti hetjudug til að búa á Reykjanesi og gæta vitans, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir hraunbreiðuna í att að næstu samfélögum í Grindavík og Höfnum (15 km). Hvorki vegir né sími. Hér í vitavarðarhúsinu er skyggnst inn í sögu vitavarðanna.“
Gunnuhver
Reykjanesviti – Gunnuhver; skilti.
Gunnuhver er staðsettur austan við Reykjanesvita [og] er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi.
Gunnuhver er þekktasti hverinn. Gunnuhver er talinn vera stærsti leirhver á Íslandi með gígop sem er 20 metrar í þvermál. Mikið gufuútstreymi er á háhitasvæðinu með fjölda gufu- og leirhvera sem hafa myndast. Gufan leitar til yfirborðsins í gufuaugum og hvínandi gufuhverum en þéttist líka í yfirborðsvatni og myndast með því leirhveri.
Gunnuhver á Reykjanesi.
„Gunnuhver“ mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn.
Jarðhitasvæðið er á hreyfingu. Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði þáverandi akveg og göngupalla. Nú hafa verið teknir í notkun nýri göngu- og útsýnispallar.
Reykjanesviti.
Á svæðinu hafa dætur síðasta vitavarðarins sinnt hefðum vitavarðafölskyldna sem hafa í 140 ár grafið brauð í leirinn og bakað gott rúgbrauð. Hver veit nema þær eigi eitthvað til að smakka hér inni í vitavarðarhúsinu.“
Reykjanes Jarðvangur
Reykjanesviti – Jarðvangur; skilti.
Í Reykjanes „Jarðvangi“ er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar í sinni röð.
Þar er m.a. að finna fjölmargar tegundir eldstöðva í a.m.k. fjórum aðskildum gosreinum, með hundruðum opinna sprunga og misgengja. Hið einstaka nábýli íbúa jarðvangsins við náttúruna hefur mótað þá og lifnaðarhætti þeirra síðan land byggðist. Víða má finna ummerki um fornar minjar tengdar samgöngum, sjósókn og landbúnaði. Þá leynast víða kennileiti sem tóku á sig ýmsar myndir í myrkri og þoku sem urðu uppsprettur sagna sem lifa enn með íbúum svæðisins.
Gunnuhver.
Í Reykjanes jarðvangi er að finna talsverðan jarðhita. Jarðhitinn er jarðsjór sem streymir gegnum funheitt berg og kólnandi kvikuinnskot innan gosreina. Íbúar svæðisins hafa gegnum aldirnar notið góðs af honum og er hann í dag m.a. nýttur til húshitunar og raforkuframleiðslu.
Samspil jarðhitans, gufu-, vatns- og leirhvera, veðurfars, gróðurs og gróðurleysis skapar einstaka litadýrð sem yndi er á að horfa, þó rétt sé að gæta varúðar inni á sjóðandi hverasvæðum.
Jarðfræði
Gunnuhver.
Reykjanesskagi er framhald af Reykjaneshryggnum sem rís úr sæ yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs.
Rekja má jarðsögu svæðisins nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann en flest jarðlög eru yngri en 100-200 þúsund ára. Síðasta goshrina á Reykjanesi hófst um árið 1000 og lauk um 250 árum síðar. Tíminn mun leiða í ljós hvort ný goshrina sé hafin þegar gaus í Fagradalsfjalli árið 2021 og 2022.
Móberg.
Í Reykjanes jarðvangi má finna móbergsfjöll og móbergshryggi sem mynduðust í gosum undir jökli en einnig gígaraðir og stórar skjaldlaga dyngjur frá nútíma. Víða eru bergstaflar af hraunum sem mynduðust í sprungugosum þegar mikið magn hrauns kom upp úr gígum á sprungum. Gosum á Reykjanesi fylgir sjaldnast öskufall nema þar sem gossprungur lentu í vatni eða sjó.
Jarðskjálfar eru tíðir á svæðinu sökum landreks, en koma gjarnan upp í skjálftahrinum sem geta tekið nokkur ár. Flestir eru þeir smáir en stöku sinnum finnast þeir greinilega um allan Reykjanesskagann.“
Valahnúkur
Reykjanesviti – Valahnúkur; skilti.
Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.
Móbergstúff
Sambland af hraunmolum og harðnandi gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.
Bólstri.
Bólstrabrotaberg
Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstarbrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallað bólstabrotaberg.
Bólstaberg
Valahnúkur.
Bólstraberg er algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennulegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum.
Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentimetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.“
Vitagata
Reykjanesviti – Vitagata; skilti.
„Þegar vitinn stóð á Valahnúk bjó vitavörðurinn við Bæjarfell [á að vera Vatnsfell], þar sem Reykjanesviti stendur í dag. Vitavörðurinn hlóð veg frá bústað sínum að vitanum.
Vegurinn var lagður í beinni stefnu frá bænum að turninum en þegar komið var að Valahnúk lá hann í krákustíg að turndyrunum,
Þeir sem þekkja íslenska veturinn vita að erfitt getur verið að fylgja slóðum í versu veðrum, sér í lagi þegar gengið er um hraun og sprungið væði.
Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.
Veginum var ætlað að auðvelda vitaverðinum að komast í vitann hvenær sem var sólarhrings og í hvaða veðri sem var.“
Eldey
Reykjanesviti – Eldey; skilti.
„Eldey er 77 metra há og þverhnípt gígey úr lagskiptu móbergi um 15 kílómetra frá landi. Eyjan myndaðist í gjóskugosi á Mið-Atlantshafshryggnum, en er mikið rofin og er í dag 0.03 km2. Eldey er jafnframt innsta skerið í skerjaklasa sem nær 95 km frá landi. Eldey var friðuð árið 1940 og síðan lýst friðland árið 1974 samkvæmt náttúruverndarlögum.
Fuglalíf í Eldey
Öldum saman var Eldey mikil matarkista. Þar er að finna bjargfugla í talsverðum mæli svo sem ritu, langvíu og stuttnefju, að ógleymdri súlunni sem stundum er nefnd drottning Atlantshafsins.
Eldey.
Er horft er til Eldeyjar sést að hún er ljós í kollinn. Yfirborð eyjarinnar er þéttsetið af súluhreiðrum og milli þeirra er jörðin þakin gráleitu gúanói. Um 16.000 súlupör verpa í eyjunni sem gerir hana að einni stærstu súlubyggð við Atlantshafið.
Súlan er tignarlegur fugl og stærst sjófugla við Ísland. Hún heyrir ættbálki árfeta og hennar nánust ættingjar hér er skarfurinn. Súlan verpir einu eggi í apríl, útungun tekur 44 daga og er undinn í hreiðrinu í um 90 daga. Þeir yfirgefa eyjuna á hausti þegar þeir svífa fram af brúninni og þurfa að sjá um sig sjálfir þan í frá.“
Karlinn
Reykjanesviti – Karlinn; skilti.
„Karlinn (Karl) er um 50-60 metra hár klettur eða forn gígtappi sem stendur tignarlegur í hafinu úti fyrir Valahnúk þar sem sjávaraldan hefur rofið klettinn í áranna rás.
Hann [er] mikilfenglegur og sérstaklega þega aldan skellur á með miklum ofsa. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leita til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“
Valbjargargjá – siggengið
Reykjanesviti – Valbjargargjá; skilti.
„Mið-Atlantshafshryggurinn er rekhryggur sem rís úr sæ hér á Reykjanesi. Stórar plötur sem nefnast jarðskorpuflekar skiljast að um rekhrygginn. vegna togkrafta og gliðnunar við plötuskrið myndast opnar gjár og misgengi (siggengi) á Reykjanesskagnum. Hér hefur að líta eitt þeirra, Valbjargargjá. Í gjánni er m.a. að finna frumstæða sundlaug frá 1930.
Við vestari enda gjárinnar rís Valahnúkur sem samsettur er úr móbergstúff[f]lögum, bólstrabergi og bólstrabrotsbergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en samsetning han sýnir ólíka virkni gossins á meðan það stóð yfir.
Valahnúkar og Valahnúkamöl.
Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn. Hnúkurinn hefur myndast í sjó við hærri stöðu hans undir lok síðasta jökulskeiðs. Upp að Valahnúk hefur runnið hraun sem nefnist Yngra-Stampahraun og er eitt af hraunum Reykjaneselda sem stóðu yfir frá 1210 til 1240.
Neðan við Valahnúk er að finna Valahnúksmöl, 420 metra langa stórgrýttan sjávarkamb sem liggur þvert á siggengið. Mölin er 80 metra breið og 10 metra há. Flestir hnullungarnir sem mynda kambinn eru 30 til 90 sentimetrar í þvermál. Uppruna grjótsins er ap finna í sjávarklettum milli kambsins og Reykjanestáar. Ströndin hér um slóðir er brimsöm og ber skýr merki um þunga úthafsöldunnar.
Skálafell á Reykjanesi.
Gígurinn sem rís í fjarska nefnist Skálafell og hefur hann gosið a.m.k. fjórum sinnum á nútíma eða á síðustu 10.000 árum. Yngsta hraunið er um 3.000 ára gamalt út toppgígnum sm er eldborg, byggð úr hraunkleprum. Elsta hraunið er yfir 8.000 ára gamalt. Misgengin úr eldstöðinni marka austurjaðar sprungusveimsins á Reykjanesi, þ.e. þyrpingu af samsíða sprungum, en 5-6 km vestar marka siggegnin við Kinn hinn jaðarinn. Þar hefur verið reist táknræn göngubrú yfir eitt misgengið.“
Jarðskorpuflekar
Reykjanesviti – Jarðskorpuflekar; skilti.
„Jarðskorpan skiptist í sjö stóra fleka og rúman tug smærri fleka. Flekarnir hafa móta yfirmorð jarðar frá árdögum hennar. Flekarnir er um 50-200 kílómetra þykkir og fljóta ofan á möttlinum.
Ísland er að hluta til á svokölluðum Norður-Atlantshafsfleka og að hluta til að svokölluðum Evarsíufleka Á Norður-Atlantshafsflekanum er heimsálfan Norður-Ameríka en á Evrasíuflekanum heimsálfurnar Evrópa og Asía. Það má því segja að hér skiljir að austur og vestur.
Brúin milli heimsálfa.
Flekarnir reka í gagnstæða átt, um 2 sentimetra á ári eða 2 metra á 100 árum. Þar sem flekarnir reka í sundur verða til rekbelti. Þessum átakasvæðum fylgja jarðskjálftar, myndun sigdala og fellingafjalla, eldgos og misgengi.
Flekaskil eru flest á botni úthafanna og mynda úthafshryggi, fjallgarða sem eru 2.000-4.000 metra háir og alls um 70.000 kílómetrar á lengd. Einn þessara hryggja, Mið-Atlantshafshryggurinn, rís úr sæ á Reykjanesi. Aðeins hér á Ísandi og í Austur-Afríku má sjá flekaskil á landi.“
Eldstöðvarkerfi
Reykjanesviti – Eldstöðvarkerfi; skilti.
„Gosbeltið á Reykjaneskaga er beint framhald Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á land. Á skaganum eru fjögur eldstöðvakerfi og verða eldgos þar í eldgosahrinum á um 1.000 ára fresti. Hver hrina stendur í 200-350 ár.
Vestast eldstöðvakerfið nefnist Reykjaneskerfið. Það ær frá vestanverðu Reykjanesi að Grindavík í suðri og þaðan norðaustur yfir skagann með fram Vogum að Kúagerði. Kerfið er um 35 km langt á landi (40-45 kílómetrar með neðansjávarhluta) og 5-15 km breitt, breiðast í suðri. talið er að kerfið nái 5-10 km til suðvesturs á sjávarbotni.
Reykjanessveimar.
Reykjaneseldar voru síðasta gos í kerfinu og stóðu þeir yfir frá 1210 til 1240. Síðustu gos þar á undan urðu fyrir 1.500-1.800 árum.
Á milli 40 og 50 goseiningar finnast í kerfinu úr nokkrum rek- og goshrinum, auk 14 dyngja og dyngjuhvirfla. Merktar gönguleiðir liggja að Háleyjabungu og Skálafelli. Við fyrrnefndu dyngjuna má m.a. finna píkrit, fágætt frumstætt basaltafbrigði sem líkist þeirri frumbráð sem verður til í möttli jarðar.
Myrkur um miðjan dag
Veturinn 1226-1227 er nefndur í Sturlungu og sumum annálum „sandvetur“ og mikill „fellivetur“. Þá gaus í sjó úti fyrir Reykjanesi og var öskufall svo mikið að sums staðar er sagt hafa verið myrkur um miðjan dag. Fjöldi búfjár á Íslandi féll, ma. á sagnaritarinn Snorri Sturluson að hafa misst hundrað naut sem hann átti í Svignaskarði í Borgarfirði. Í þessu gosi myndaðist Karlinn, 51 metra hár sjódrangur úti fyrir Reykjanesi.“
Reykjanesviti
Reykjanesviti – skilti.
„Reykjanesviti er einn elsti viti landsins sem nú stendur við Íslandsstrendur. Vitill var reistur árið 1907 og tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.
Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði út steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.
Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.
Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta var snúningstæki, knúið ag lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.
Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða stari sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.
Clam á strandsstað.
Hannes Sigfússon skál var aðstoðarmaður vitavarðar á Reykjanesvita um skeið og skrifaði þar skáldsöguna „Strandið“ sem byggir á mannskæðu strandi olíuflutningaskipsins Clam árið 1950 austan við Valahnúk. Hannes kom þá að björgun skipverja ásamt vitaverðinum Sigurjón Ólafsson.“
Fyrsti ljósavitinn
Reykjanesviti – Fyrsti ljósvitinn; skilti.
„Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 6.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. Ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með kopar-hvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaði á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.
Gamli vitinn á Valahnúk.
Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar o speglar í vitanum féllu í gólfið. Næstu nótt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn. Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum að brúninni. Þá var ákveðið að reisa nýjan vita á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908. Grjótið neðan Valahnúks eru leifar gamla vitans.“
Vélarhúsið
Reykjanesviti – Vélarhúsið; skilti.
„Vélarhúsið, (Radíóvitinn) er elsta húsið á svæðinu fyrir utan vitann sjálfan. Húsið var byggt árið 1936 sem radíóviti en hefur gegnt ýmsum hlutverkum einnig, m.a. fyrir ljósavélar og rafhlöður til að tryggja rafmagn fyrir vitann. Þar er enn þá virk ljósavél ef rafmagn fer af svæðinu. Í húsinu var einnig aðstaða fyrir veðurathuganir sem vitaverðir sáu um fyrir Veðurstofuna.
Skipsströnd og mannskæð sjóslys voru forðum óhugnanlega tíð hér við strendur Reykjaness og Íslands í heild. Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er bæði hrikaleg og erfið að meðtaka. Hér í Vélarhúsinu hefur verið sett upp sýning sem veitir innsýn í sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitanum til að auka öryggi sjófarenda.“
-ÓSÁ tók saman.
Reykjanesviti – skilti við upplýsingamiðstöðina.