Festisfjall

Festirfjall (Festarfjall/Festisfjall) er skammt austan við Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála.

Festarfjall

„Festin“ í Festisfjalli neðst.

Um er að ræða einstaklega „myndrænt“ fjall, eða fell öllu heldur ef taka á mið af öðrum nærliggjandi fellum. Það er þverhnípt að sunnanverðu, fram við Hrólfsvíkina, en aflíðandiað norðanverðu, inn til landsins. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. Önnur saga segir að tröllkonan í Festisfjalli sé systir tröllkonunnar í Katlahrauni og hafi þær tíðum heimsótt hvora aðra. Heimilisaðstæðum sé þó ólíkt saman að jafna þar sem fyrirfast fjallið er annars vegar og Ketillinn hins vegar, með bergstöndum sínum og hellum.

Göngusvæðið

Festisfjall og nágrenni.

Ófáir eru sagðir hafa séð tröllsystur þessar, en þó hefur lifað sú saga á Ísólfsskála, sem þær hafa þurft að klofa yfir í heimsóknum sínum, að þaðan hafi útsýnið loftleiðis á stundum þótt kynlegt.
Festarfjall er í raun brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er sorfin burt. Ef vel er að gáð á lágsævi má sjá hinglaga bergstanda utar í Hrólfsvíkinni. Þar mun gígur eldstöðvarinnar hafa verið fyrrum. Hafa ber í huga að þarna er um 11.000 ára gamla jarðmyndun að ræða, sem Ægir hefur herjað á jafn lengi með öllum látum. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu ofanvert við bergið og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu, bæði ofan við Ægissand og í fellinu sjálfu.

Festarfjall

Festisfjall – sjávarhellir.

Bæði í sunnanverðu Festisfjalli og í Lyngfelli má sjá bergganga kvikurásarinnar forðum daga steypta í hlíðar þeirra. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll, og á Hraunssandi mikið kríuvarp. Skjólgóð strönd er neðan Festarfjalls.
Festarfjall og nágrannafjöllin eru brimsorfin eldstöð. Í lágfjöru má sjá hringlaga gígstöplana í Hraunsvíkinni. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu undir berginu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í því. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll og á Hraunssandi er mikið kríuvarp.

Heimild m.a.:
-grindavik.is

Hraunsvík

Reykjanesviti

Utan við nýuppgerða upplýsingamiðstöð á jarðhæð vitavarðarbústaðarins á Vatnsfelli á Reykjanesi eru tólf skilti. Á þeim eru upplýsingar um jarðfræði Reykjaness, vitann og nágrenni. Reyndar eru upplýsingarnar misvísandi og í einstaka tilfellum beinlínis rangar, en á skiltunum má lesa eftirfarandi fróðleik:

Heimili vitavarða

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Íbúðarhús vitavarða stóð alltaf hér á þessum stað frá því að fyrsti vitinn var reistur á Valahnúk árið 1878.

Núverandi hús var reist árið 1947 en hér stóð áður burstabær úr timbri og þar áður torfbær sem reistur var samhliða fyrsta vitanum. Það var langur spölur að fyrsta vitanum sem reistur var a Valahnúk. Enn síst héðan hlaðinn gönguleið vitavarðanna eftir hraunbreiðunni til suðvesturs að Valahnúk.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Þangað þurftu þeir að ganga í öllum veðrum til að halda ljósinu lifandi. Þeir vissu hvað var í húfi ef ljósgeislinn brást. Þegar vitinn var reistur hér á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] árið 1907 voru gerðar tröppur upp frá vitavarðarhúsinu að vitanum, sem enn eru nothæfar.

Það þurfti hetjudug til að búa á Reykjanesi og gæta vitans, víðs fjarri mannabyggð, þegar enginn vegarspotti lá yfir hraunbreiðuna í att að næstu samfélögum í Grindavík og Höfnum (15 km). Hvorki vegir né sími. Hér í vitavarðarhúsinu er skyggnst inn í sögu vitavarðanna.“

Gunnuhver

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Gunnuhver; skilti.

Gunnuhver er staðsettur austan við Reykjanesvita [og] er mikið jarðhitasvæði, eitt af mörgum á Reykjanesi.

Gunnuhver er þekktasti hverinn. Gunnuhver er talinn vera stærsti leirhver á Íslandi með gígop sem er 20 metrar í þvermál. Mikið gufuútstreymi er á háhitasvæðinu með fjölda gufu- og leirhvera sem hafa myndast. Gufan leitar til yfirborðsins í gufuaugum og hvínandi gufuhverum en þéttist líka í yfirborðsvatni og myndast með því leirhveri.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

„Gunnuhver“ mun draga nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til að tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn.

Jarðhitasvæðið er á hreyfingu. Á árinu 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði þáverandi akveg og göngupalla. Nú hafa verið teknir í notkun nýri göngu- og útsýnispallar.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Á svæðinu hafa dætur síðasta vitavarðarins sinnt hefðum vitavarðafölskyldna sem hafa í 140 ár grafið brauð í leirinn og bakað gott rúgbrauð. Hver veit nema þær eigi eitthvað til að smakka hér inni í vitavarðarhúsinu.“

Reykjanes Jarðvangur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðvangur; skilti.

Í Reykjanes „Jarðvangi“ er að finna margar merkilegar jarðminjar og eru sumar þeirra einstakar í sinni röð.

Þar er m.a. að finna fjölmargar tegundir eldstöðva í a.m.k. fjórum aðskildum gosreinum, með hundruðum opinna sprunga og misgengja. Hið einstaka nábýli íbúa jarðvangsins við náttúruna hefur mótað þá og lifnaðarhætti þeirra síðan land byggðist. Víða má finna ummerki um fornar minjar tengdar samgöngum, sjósókn og landbúnaði. Þá leynast víða kennileiti sem tóku á sig ýmsar myndir í myrkri og þoku sem urðu uppsprettur sagna sem lifa enn með íbúum svæðisins.

Reykjanes

Gunnuhver.

Í Reykjanes jarðvangi er að finna talsverðan jarðhita. Jarðhitinn er jarðsjór sem streymir gegnum funheitt berg og kólnandi kvikuinnskot innan gosreina. Íbúar svæðisins hafa gegnum aldirnar notið góðs af honum og er hann í dag m.a. nýttur til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Samspil jarðhitans, gufu-, vatns- og leirhvera, veðurfars, gróðurs og gróðurleysis skapar einstaka litadýrð sem yndi er á að horfa, þó rétt sé að gæta varúðar inni á sjóðandi hverasvæðum.

Jarðfræði

Gunnuhver

Gunnuhver.

Reykjanesskagi er framhald af Reykjaneshryggnum sem rís úr sæ yst á Reykjanesskaganum og liggur gegnum landið frá suðvestri til norðausturs.

Rekja má jarðsögu svæðisins nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann en flest jarðlög eru yngri en 100-200 þúsund ára. Síðasta goshrina á Reykjanesi hófst um árið 1000 og lauk um 250 árum síðar. Tíminn mun leiða í ljós hvort ný goshrina sé hafin þegar gaus í Fagradalsfjalli árið 2021 og 2022.

Móberg

Móberg.

Í Reykjanes jarðvangi má finna móbergsfjöll og móbergshryggi sem mynduðust í gosum undir jökli en einnig gígaraðir og stórar skjaldlaga dyngjur frá nútíma. Víða eru bergstaflar af hraunum sem mynduðust í sprungugosum þegar mikið magn hrauns kom upp úr gígum á sprungum. Gosum á Reykjanesi fylgir sjaldnast öskufall nema þar sem gossprungur lentu í vatni eða sjó.

Jarðskjálfar eru tíðir á svæðinu sökum landreks, en koma gjarnan upp í skjálftahrinum sem geta tekið nokkur ár. Flestir eru þeir smáir en stöku sinnum finnast þeir greinilega um allan Reykjanesskagann.“

Valahnúkur

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valahnúkur; skilti.

Valahnúkur er samsettur úr móbergstúfflögum, bólstrabergi og bólstrabrotabergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en sýnir mismunandi ásýndir í virkni gossins. Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn.

Móbergstúff
Sambland af hraunmolum og harðnandi gosösku sem finnst í Valahnúk nefnist túff. Túff myndast þegar 1200°C heit bráð kólnar snögglega í vatni. Þá verður til glersalli þar sem kristallar hafa ekki tíma til að vaxa. Sallinn ummyndast fljótt í móberg.

Bólstrar

Bólstri.

Bólstrabrotaberg

Neðarlega í Valahnúk má sjá hallandi lag af bólstrabrotabergi. Bólstarbrotaberg myndast þegar gjall eða gjóska mynda skálaga hlíðar. Einstaka bólstrar eða brot úr þeim renna þá niður hallann, umlykjast gjóskusalla og mynda hið svokallað bólstabrotaberg.

Bólstaberg

Reykjanesviti

Valahnúkur.

Bólstraberg er algengasta hraunmyndun jarðarinnar þar sem hún er algengasta hraunmyndun úthafsskorpunnar. Þessir sérkennulegu bólstrar myndast í gosi undir vatni eða jökli. Oft er um að ræða gos þar sem þrýstingur er of mikill til að gufusprengingar verði. Einnig geta bólstrarnir myndast þegar lítið eða ekkert gas er í kviku sem þrýstir sér hratt út úr flæðandi hraunmassa. Þar sem kvikan kólnar snögglega myndast svört glerhúð utan á bólstrunum.

Oft eru þeir nokkrir metrar á lengd en einungis 10-30 sentimetrar í þvermál. Þegar horft er á klettavegg með þversnið af bólstrunum þá lítur hver bólstri út eins og bolti eða koddi. Bólstrabergið í Valahnúk hefur að öllum líkindum orðið til í gosi undir jökli.“

Vitagata

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vitagata; skilti.

„Þegar vitinn stóð á Valahnúk bjó vitavörðurinn við Bæjarfell [á að vera Vatnsfell], þar sem Reykjanesviti stendur í dag. Vitavörðurinn hlóð veg frá bústað sínum að vitanum.

Vegurinn var lagður í beinni stefnu frá bænum að turninum en þegar komið var að Valahnúk lá hann í krákustíg að turndyrunum,

Þeir sem þekkja íslenska veturinn vita að erfitt getur verið að fylgja slóðum í versu veðrum, sér í lagi þegar gengið er um hraun og sprungið væði.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Veginum var ætlað að auðvelda vitaverðinum að komast í vitann hvenær sem var sólarhrings og í hvaða veðri sem var.“

Eldey

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldey; skilti.

„Eldey er 77 metra há og þverhnípt gígey úr lagskiptu móbergi um 15 kílómetra frá landi. Eyjan myndaðist í gjóskugosi á Mið-Atlantshafshryggnum, en er mikið rofin og er í dag 0.03 km2. Eldey er jafnframt innsta skerið í skerjaklasa sem nær 95 km frá landi. Eldey var friðuð árið 1940 og síðan lýst friðland árið 1974 samkvæmt náttúruverndarlögum.

Fuglalíf í Eldey
Öldum saman var Eldey mikil matarkista. Þar er að finna bjargfugla í talsverðum mæli svo sem ritu, langvíu og stuttnefju, að ógleymdri súlunni sem stundum er nefnd drottning Atlantshafsins.

Eldey

Eldey.

Er horft er til Eldeyjar sést að hún er ljós í kollinn. Yfirborð eyjarinnar er þéttsetið af súluhreiðrum og milli þeirra er jörðin þakin gráleitu gúanói. Um 16.000 súlupör verpa í eyjunni sem gerir hana að einni stærstu súlubyggð við Atlantshafið.

Súlan er tignarlegur fugl og stærst sjófugla við Ísland. Hún heyrir ættbálki árfeta og hennar nánust ættingjar hér er skarfurinn. Súlan verpir einu eggi í apríl, útungun tekur 44 daga og er undinn í hreiðrinu í um 90 daga. Þeir yfirgefa eyjuna á hausti þegar þeir svífa fram af brúninni og þurfa að sjá um sig sjálfir þan í frá.“

Karlinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Karlinn; skilti.

„Karlinn (Karl) er um 50-60 metra hár klettur eða forn gígtappi sem stendur tignarlegur í hafinu úti fyrir Valahnúk þar sem sjávaraldan hefur rofið klettinn í áranna rás.

Hann [er] mikilfenglegur og sérstaklega þega aldan skellur á með miklum ofsa. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leita til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“

Valbjargargjá – siggengið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Valbjargargjá; skilti.

„Mið-Atlantshafshryggurinn er rekhryggur sem rís úr sæ hér á Reykjanesi. Stórar plötur sem nefnast jarðskorpuflekar skiljast að um rekhrygginn. vegna togkrafta og gliðnunar við plötuskrið myndast opnar gjár og misgengi (siggengi) á Reykjanesskagnum. Hér hefur að líta eitt þeirra, Valbjargargjá. Í gjánni er m.a. að finna frumstæða sundlaug frá 1930.

Við vestari enda gjárinnar rís Valahnúkur sem samsettur er úr móbergstúff[f]lögum, bólstrabergi og bólstrabrotsbergi. Hnúkurinn myndaðist í einu gosi en samsetning han sýnir ólíka virkni gossins á meðan það stóð yfir.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Móbergstúffið myndaðist við sprengivirkni í gosinu en bólstrabergið við hraunrennsli í vatn. Hnúkurinn hefur myndast í sjó við hærri stöðu hans undir lok síðasta jökulskeiðs. Upp að Valahnúk hefur runnið hraun sem nefnist Yngra-Stampahraun og er eitt af hraunum Reykjaneselda sem stóðu yfir frá 1210 til 1240.

Neðan við Valahnúk er að finna Valahnúksmöl, 420 metra langa stórgrýttan sjávarkamb sem liggur þvert á siggengið. Mölin er 80 metra breið og 10 metra há. Flestir hnullungarnir sem mynda kambinn eru 30 til 90 sentimetrar í þvermál. Uppruna grjótsins er ap finna í sjávarklettum milli kambsins og Reykjanestáar. Ströndin hér um slóðir er brimsöm og ber skýr merki um þunga úthafsöldunnar.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Gígurinn sem rís í fjarska nefnist Skálafell og hefur hann gosið a.m.k. fjórum sinnum á nútíma eða á síðustu 10.000 árum. Yngsta hraunið er um 3.000 ára gamalt út toppgígnum sm er eldborg, byggð úr hraunkleprum. Elsta hraunið er yfir 8.000 ára gamalt. Misgengin úr eldstöðinni marka austurjaðar sprungusveimsins á Reykjanesi, þ.e. þyrpingu af samsíða sprungum, en 5-6 km vestar marka siggegnin við Kinn hinn jaðarinn. Þar hefur verið reist táknræn göngubrú yfir eitt misgengið.“

Jarðskorpuflekar

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Jarðskorpuflekar; skilti.

„Jarðskorpan skiptist í sjö stóra fleka og rúman tug smærri fleka. Flekarnir hafa móta yfirmorð jarðar frá árdögum hennar. Flekarnir er um 50-200 kílómetra þykkir og fljóta ofan á möttlinum.

Ísland er að hluta til á svokölluðum Norður-Atlantshafsfleka og að hluta til að svokölluðum Evarsíufleka Á Norður-Atlantshafsflekanum er heimsálfan Norður-Ameríka en á Evrasíuflekanum heimsálfurnar Evrópa og Asía. Það má því segja að hér skiljir að austur og vestur.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

Flekarnir reka í gagnstæða átt, um 2 sentimetra á ári eða 2 metra á 100 árum. Þar sem flekarnir reka í sundur verða til rekbelti. Þessum átakasvæðum fylgja jarðskjálftar, myndun sigdala og fellingafjalla, eldgos og misgengi.

Flekaskil eru flest á botni úthafanna og mynda úthafshryggi, fjallgarða sem eru 2.000-4.000 metra háir og alls um 70.000 kílómetrar á lengd. Einn þessara hryggja, Mið-Atlantshafshryggurinn, rís úr sæ á Reykjanesi. Aðeins hér á Ísandi og í Austur-Afríku má sjá flekaskil á landi.“

Eldstöðvarkerfi

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Eldstöðvarkerfi; skilti.

„Gosbeltið á Reykjaneskaga er beint framhald Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á land. Á skaganum eru fjögur eldstöðvakerfi og verða eldgos þar í eldgosahrinum á um 1.000 ára fresti. Hver hrina stendur í 200-350 ár.

Vestast eldstöðvakerfið nefnist Reykjaneskerfið. Það ær frá vestanverðu Reykjanesi að Grindavík í suðri og þaðan norðaustur yfir skagann með fram Vogum að Kúagerði. Kerfið er um 35 km langt á landi (40-45 kílómetrar með neðansjávarhluta) og 5-15 km breitt, breiðast í suðri. talið er að kerfið nái 5-10 km til suðvesturs á sjávarbotni.

Reykjanesviti

Reykjanessveimar.

Reykjaneseldar voru síðasta gos í kerfinu og stóðu þeir yfir frá 1210 til 1240. Síðustu gos þar á undan urðu fyrir 1.500-1.800 árum.

Á milli 40 og 50 goseiningar finnast í kerfinu úr nokkrum rek- og goshrinum, auk 14 dyngja og dyngjuhvirfla. Merktar gönguleiðir liggja að Háleyjabungu og Skálafelli. Við fyrrnefndu dyngjuna má m.a. finna píkrit, fágætt frumstætt basaltafbrigði sem líkist þeirri frumbráð sem verður til í möttli jarðar.

Myrkur um miðjan dag
Veturinn 1226-1227 er nefndur í Sturlungu og sumum annálum „sandvetur“ og mikill „fellivetur“. Þá gaus í sjó úti fyrir Reykjanesi og var öskufall svo mikið að sums staðar er sagt hafa verið myrkur um miðjan dag. Fjöldi búfjár á Íslandi féll, ma. á sagnaritarinn Snorri Sturluson að hafa misst hundrað naut sem hann átti í Svignaskarði í Borgarfirði. Í þessu gosi myndaðist Karlinn, 51 metra hár sjódrangur úti fyrir Reykjanesi.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

„Reykjanesviti er einn elsti viti landsins sem nú stendur við Íslandsstrendur. Vitill var reistur árið 1907 og tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði út steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Reykjanes

Reykjanesviti á Reykjanesi. Bæjarfell t.v., Vatnsfell t.h. og Valahnúkar framundan. Eldey við sjóndeildarhringinn.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta var snúningstæki, knúið ag lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða stari sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.

Clam

Clam á strandsstað.

Hannes Sigfússon skál var aðstoðarmaður vitavarðar á Reykjanesvita um skeið og skrifaði þar skáldsöguna „Strandið“ sem byggir á mannskæðu strandi olíuflutningaskipsins Clam árið 1950 austan við Valahnúk. Hannes kom þá að björgun skipverja ásamt vitaverðinum Sigurjón Ólafsson.“

Fyrsti ljósavitinn

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Fyrsti ljósvitinn; skilti.

„Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 6.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. Ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með kopar-hvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaði á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Reykjanes - valahnúkar

Gamli vitinn á Valahnúk.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar o speglar í vitanum féllu í gólfið. Næstu nótt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn. Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum að brúninni. Þá var ákveðið að reisa nýjan vita á Bæjarfelli [á að vera Vatnsfelli] og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908. Grjótið neðan Valahnúks eru leifar gamla vitans.“

Vélarhúsið

Reykjanesviti

Reykjanesviti – Vélarhúsið; skilti.

„Vélarhúsið, (Radíóvitinn) er elsta húsið á svæðinu fyrir utan vitann sjálfan. Húsið var byggt árið 1936 sem radíóviti en hefur gegnt ýmsum hlutverkum einnig, m.a. fyrir ljósavélar og rafhlöður til að tryggja rafmagn fyrir vitann. Þar er enn þá virk ljósavél ef rafmagn fer af svæðinu. Í húsinu var einnig aðstaða fyrir veðurathuganir sem vitaverðir sáu um fyrir Veðurstofuna.

Skipsströnd og mannskæð sjóslys voru forðum óhugnanlega tíð hér við strendur Reykjaness og Íslands í heild. Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa farist á sjó í gegnum aldirnar og sjómenn eiga skilið að þeirra fórna sé minnst. Þessi saga er bæði hrikaleg og erfið að meðtaka. Hér í Vélarhúsinu hefur verið sett upp sýning sem veitir innsýn í sögu sjóslysa og uppbyggingar á vitanum til að auka öryggi sjófarenda.“

-ÓSÁ tók saman.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti við upplýsingamiðstöðina.

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.
SjónarhólshellirSjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „
Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“ Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: „Markaklettur [er] Hausthellirá innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.“
Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.“
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: „Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.“ Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni. Sjá meira
HÉR. Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. 

Grænhólsskjól

Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og uppgjöf. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Tófan kann að hafa verið þarna að verki (enda búandi greni í hraunhól skammt frá). Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
SkotbyrgiAugljósasta skýringin kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og „hvopsaði“ áður en hann hvarf inn aftur. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið – órólegur.

Sjónarhólshellir-2

Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
Í örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: „Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður (sjá meira
HÉR).“
Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Þegar nágrenni „Haustshellis“ var skoðað betur kom í ljós enn eitt fjárskjólið; vandlega hlaðin fyrirhleðsla með ágætu rými fyrir innan. Opið sneri mót austri (sem þótti ónentugt að vetrarlagi). Gólfið var gróið og sjá mátti þar rekavið er benti til þess (sem reyndar þykir sjálfsagt) að reft hafi verið yfir milli fyrirhleðslunnar og þakveggjar hraunsins. Fjárskjól þetta er hvergi getið í örnefnalýsingum né hefur þess verið getið í fornleifaskráningum af svæðinu – ekki frekar en lambaskjólið ofar í hrauninu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

 

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Þórshöfn
Staðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi.

En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði.
Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð.

Flankastaðir

Flankastaðir.

Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Bærinn Sandgerði

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri.

Sandgerði

Sandgerði.

Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Sandgerði

Sandgerði.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.

Sandgerði

Sandgerði – sundlaug.

Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.

Höfnin

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.


Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Gálgar

Gálgar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.

Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði

Básendar

Básendar – festarhringur.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga.

Býjaskersrétt

Býjaskersrétt.

Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Þórshöfn

Þórshöfn.

Leiðarendi

Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – Brennisteinsfjöll.

FERLIR hefur safnað og skráð heimildir um brennisteinsnám í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Safnið er 68 blaðsíður þar sem getið er bæði um sögu brennisteinsnámsins og sögu.

1. Inngangur

Uppdráttur af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Verkefnið var unnið sem áfangi í fornleifafræðinámi við Háskóla Íslands í samráði við skoraformann í sagnfræði- og heimspekideild, Steinunni. J. Kristjánsdóttur.

Meginviðfangsefnið er að gefa sögulegt yfirlit um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fylgiskjöl auk korta). Fylgt var leiðbeiningum Fornleifaverndar ríksins um fornleifaskráningu.

Í Krýsuvík er svæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879 til 1883 og hins vegar Baðstofusvæðið ofan fyrrverandi bústjórnarhúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þær sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll eru námusvæðin í Krýsuvíkurlandi.

Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðunum allt frá 12. öld. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns það var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.
Ritgerð – brennisteinsnam III

Heimildir:
-Fornleifaskráning. Skráningarstaðlar og leiðbeiningar. Fornleifavernd ríkisins 2008 – http://www.fornleifavernd.is/files/8/20080609105155104.pdf
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.
-Ólafur Olavius. Ferðabók, landshagir í norðvestur, norður- og norðaustursýslum Íslands 1775-1777, ásamt ritgerðum Ole Henchels um brennistein og brennisteinsnám og Christian Zieners um  surtarbrand, 1965, bls. 259-274.
-Ari Gíslason. Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ).
-Gísli Sigurðsson. Örnefnalýsingi fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Ólafur Þorvaldsson, Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir, sérrit úr Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 36 bls.
-Sveinn Þórðarson. Auður úr iðrum jarðar, saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, 1998, bls. 113-127.
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Krýsuvík

FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;

Krýsuvík

Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.

 „Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.

,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“

Krýsuvík

Tóft neðan Baðstofu.

Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu. 

Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.

Krýsuvík

Krýsuvík; brennisteinsnámur – Ólafur Olavius (1741-1788). Tóftir eru merkar b og c. á uppdráttinn.

„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“

Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.

Seltún

Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“

Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.

Krýsuvík

Það hlaut að koma að því!. HS-orka hefur hafið framkvæmdir við borstæði í Krýsuvík undir Hettu og Baðstofu og byrjaði á því, að venju, að ganga um svæðið á „skítugum skónum“.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Fyrsta fórnalambið var, að venju, ein fornleif af tveimur frá 18. öld, eða jafnvel þeirri 17., þegar Krýsuvíkurbóndi flutti út brennistein úr námunum til tekjuauka. Stórvirkri vinnuvél hafði einfaldlega, af óskiljanlegri ástæðu, verið ekið rakleitt yfir sögulega tóftina, líkt og jafnan er gert við upphaf stærri framkvæmda á Reykjanesskaganum. Þetta virðist vera það fyrsta sem framkvæmdaraðilum dettur í hug við þegar þeir mæta á vettvang. Akstur vinnuvélarinnar nákvæmlega þarna er með öllu óskýrður. Svar hlutaðeigenda verður eflaust sem og svo oft áður við slíkar aðstæður; „Sorry, gröfustjórinn vissi ekki betur„. Fulltrúi Byggðasafns Hafnarfjarðar mun að öllum líkindum, líkt og vanalega, sverja af sér alla vitneskju um minjarnar þrátt fyrir að hafa, greinilega með mistækum árangri, talið sig hafa fornleifaskráð svæðið opinberlega. Þessar tilteknu minjar, þrátt fyrir skráðar fyrirliggjandi heimildir af svæðinu sem og vitneskju um þær, fóru bara, að venju, milli „skips og bryggju“ hlutaðeigandi yfirvalda.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Ef að líkum lætur mun Minjastofnun ekkert aðhafast vegna þessa, þrátt fyrir að vitað var um minjarnar eftir opinberlega birta ritgerð um brennisteinsnám á Reykjanesskaga frá 2011 á vefsíðunni ferlir.is sem og útgefna sérstaka sjálfstæða fornleifaskráningu af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum, Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík frá árinu 2014 að frumkvæði fornleifafyrirtækisins Antikva, auk þess sem fulltrúi HS-orku, BÓF, hafði áður verið kvaddur á svæðið, honum bent sérstaklega á minjarnar, og hann beðinn, með fullri vinsemd, um að gæta þess að fornleifunum þeim yrði hlíft ef og þegar að kæmi að aðkomu stórtækra vinnuvéla.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Þrátt fyrir allar ábendingarnar var ekki talin ástæða, að mati ráðandi aðila, í aðdragandanum, að fornleifaskrá framkvæmdarsvæðið sérstaklega, sem verður nú að teljast einstaklega ámælisvert. Þarna hafa kjörnir fulltrúar ríkis, sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans augljóslega sofið á verðinum. Talandi um „græna vegginn“ í Mjóddinni??!!

Eyðileggingin er dæmigerð fyrir sofandahátt þeirra, sem fá greitt fyrir að eiga að vinna vinnuna sína, en virðast því miður vera allt of uppteknir við eitthvað allt annað en það sem þeim er ætlað….