Langihryggur

Leifar flugvéla frá stríðsárunum má sjá á 33 slysstöðum á Reykjanesskaganum, utan flugvalla. Bæði rákust flugvélarnar á fjöll og brotlentu vegna bilana eða voru skotnar niður. Síðastnefnda hópnum tilheyra leifar tveggja þýskra flugvéla sem hingað hafði verið flogið frá Noregi. Aðrar vélar tilheyrðu bandamönnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – flugslys.

Í raun eru slysstaðirnir minjastaðir um þá er létust á vettvangi. Þess vegna ber að virða þá sem slíka.
Á öllum stöðunum má enn sjá ummerki, mismikil, rúmlega 80 árum eftir að atburðirnir gerðust. Af ljósmyndum, sem teknar voru á slysavettvangi, má yfirleitt sjá mikið brak, sem bæði vindur og vatn hefur síðan fært úr stað. Heillegir hlutir voru margir fjarlægðir skömmu eftir óhöppin, en mest hefur þó verið fjarlægt af ferðalöngum sem komið hafa og skoðað staðina á umliðnum árum. Ferðalangarnir hafa gjarnan tekið með sér hluti af staðnum til minningar um komu þeirra sjálfra á vettvang. Þeir hlutir hafa síðar smáms saman farið forgörðum enda til lítils yndis og engum til gagns í heimahúsum þar sem þeir hafa ekki verið í neinum tengslum eða samhengi við atvikin hverju sinni.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Leifar flugvélanna á vettvangi eru einu vísu staðfestingarnar hvar atburðurnir áttu sér stað. Þegar sérhver einn af hverjum 10 ferðalöngum taka með sér einn hlut er ljóst að ummerkin verða fljót að hverfa, eins og raunin hefur verið á. Horfnar leifar verða þeim sem á eftir koma hvorki til vitundar um staðsetninguna né staðfesting á því sem þar gerðist. Dæmi eru um að óheill hafi fylgt þeim, sem fjarlægt hafa hluti af vettvangi slysa.
Vettvangurinn – og allt sem á honum á að vera – er í rauninni, líkt og áður sagði, minningarummerki, bæði um atburðinn og þá sem þar annað hvort létu lífið eða, í sumum tilvikum björguðust. Það er því mikilvægt að fólk er þangað kemur láti alltaf allt þar óhreyft sem fyrr.

Bláfjöll

Gamla Grána – Brak á slysstað 1960.

Tvö stórtækari dæmi má nefna hér um hluti, sem fjarlægðir hafa verið af vettvangi flugslysa. Annað er hreyfill úr Bresku Gránu sem nauðlenti í Bláfjöllum 1945 og hitt er hreyfill úr Hudson-vél sem fórst í Kistufelli sama ár. Báða þessa hreyfla sótti Arngrímur Jónsson, flugstjóri, og félagar hans á slysavettvang og færðu að flugskýli á Tungubökkum í Mosfellssveit. Þar hafa hreyflarnir legið utan dyra undanfarin ár – engum til gagns.
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.

Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið. Lýsing: „Stjörnuhreyfill sést vel á vettvangi sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga.“ Ekki var síðar að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Arngrímur og félagar tóku hinn stjörnuhreyfilinn og færðu, því miður, á fyrrnefndan stað.

Kastið

Kastið – gripur, sem hirtur var úr flugvélaflakinu.

Dæmi um ófarnað ferðalangs sem fjarlægði hlut af vettvangi má nefna sögu manns er heimsótti Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma. Í einni ferðinni þangað vildi Ferðalangurinn ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Reynt var telja hann frá því þar sem bölvun hvíldi á hverjum þeim er það reyndi. Hann þráaðist við og ákvað að taka með sér hlut úr flugvélabrakinu. Á bakleiðinni uppgötvaðist að hann hafði týnt gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann ákvað að fara til baka og skila hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann væntanlega að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Framangreind dæmi vekja upp þá hugsun hvort ekki eigi að ríkja friðhelgi á vettvangi flugslysa hér á landi. Sú hlið, sem snýr að þessum málum, er og hefur verið í hálfgerðu lamasessi, a.m.k. hingað til…

Huldur

Brak úr flugvélinni í Huldum á Sveifluhálsi.

Minnisstæðir eru tveir atburðir er tengjast erlendum afkomendum þeirra er fórust í flugslysunum. Annars vegar var um að ræða fólk er vildi leita uppi torfinnanlegan slysstað í Núpshlíðarhálsi og hins vegar afkomendur þeirra er létust í flugslysinu í Sveifluhálsi oafn Ytri-Stapa.
Gat leiðbeint báðum hópunum á slysstaðina, en þá var þar fátt að sjá, en ummerki þó. Í síðarnefnda tilvikinu tók frumkvöðull hópsins fram hnapp, sem verið hafði á einkennisbúningi forvera hans, rétti mér hann og sagði: „This is the only remains we have of him“.
Við grófum hnappinn saman í jörð slysstaðarins – til minningar um þann og þá er þar fórst með félögum sínum – fyrir 82 árum…

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um „Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd„.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi.

Brunnastðahverfi

Í Brunnastðahverfi – Suðurkot t.v. og Efri-Brunnastaðatir t.h.

Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.“

-Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
„1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
Landakot1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“

Landakot

Landakot 2020.

„Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu.
Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS.

Landakot

Gata.

„Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“

Landakot

Gata.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. “ Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1928 kvæntist Guðni Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt.

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti:

Landakot

Landakot – túngarður.

„Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd“.

Í „Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd“ eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
„Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru „kreppuárin“ farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.“

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík neðan Vegghamars. Gamli vegurinn liggur áfram upp Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar og þaðan niður í Kerlingardal og áfram um hraunið til Herísarvíkur. Hér var hins vegar vent af leið miðsvæðis millum Krýsuvíkurbæjanna og Stóru-Eldborgar og haldið áleiðis upp í Kálfadali ofan við Vegghamar.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur, gamli Krýsuvíkurvegurinn að Herdísarvík.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.

Víti

Víti í Kálfadölum og nágrenni.

Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghamri. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar þar á minjum eða tóftum.

Vegghamar

Vegghamrar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kálfadalir

Kálfadalir – Víti t.h.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Víti

Víti.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Gullbringa

Gullbringa í Krýsuvík.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Víti

Víti í Kálfadölum. Geitahlíð t.h.

Litluborgir

Í skýrslu Umhverfisstofnunar; „Litluborgir – Hafnarfjarðarbær, Stjórnunar- og verndaráætlun“ frá árinu 1022 er fjallað um Litluborgir í Þríhnúkahrauni ofan Helgafells. Þar segir m.a.: „Leiðarljós fyrir stjórnun náttúruvættisins Litluborga er að standa vörð um sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Hið friðlýsta svæði

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Mörk náttúruvættisins eru sýnd á korti í viðauka ll og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi. Stærð svæðisins er 10,6 ha.
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.

Tengsl við áhrifasvæði og aðkomuleiðir

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir eru innan Reykjanesfólkvangs. Svæðið er í næsta nágrenni við vinsælt útivistarsvæði við rætur Helgafells. Erfitt er fyrir ókunnuga að finna svæðið þar sem það lætur lítið fyrir sér fara í hrauninu og auðvelt að ganga fram hjá því. Hægt er að komast að því gangandi með því að fylgja línuvegi sem liggur við jaðar svæðisins. Við jaðar svæðisins er Búrfellslína 3b. Línan er innan afmarkaðs beltis fyrir háspennulínur í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun

Litluborgir

Litluborgir.

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Litluborga hófst í nóvember 2020. Áætlunin er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er hún sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stjórnunar- og verndaráætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal sem lýsir framtíðarsýn og þeim grundvallarsjónarmiðum sem höfð eru til hliðsjónar um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins. Áætlunin er unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Eignarhald og umsjón

Litluborgir

Litluborgir – loftmynd 2023.

Litluborgir eru í upplandi Hafnarfjarðarbæjar og er sveitarfélagið landeigandi. Umsjón og rekstur náttúruvættisins er í höndum sveitarfélagsins Hafnarfjarðar samkvæmt samningi á milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem staðfestur var af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2015 og gildir til tíu ára, sjá samningur. Umsjón og rekstur felst m.a. í því að sveitarfélagið sér um að svæðið líti vel út, fjarlægir rusl, hefur eftirlit með því að verndargildi svæðisins rýrni ekki, bregst við raski o.s.frv. Málefnum sem upp kunna að koma og kalla á sérstakar ráðstafanir eða stjórnvaldsákvarðanir ber að vísa til Umhverfisstofnunar.

Lagalegur og stjórnsýslulegur rammi

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Náttúruvættið Litluborgir er innan Reykjanesfólkvangs sem var friðlýstur árið 1975 með auglýsingu nr. 520/1975. Starfsmaður Umhverfisstofnunar er áheyrnarfulltrúi í stjórn fólkvangsins og upplýsir stjórnina um umsjón og rekstur náttúruvætta innan
Reykjanesfólkvangs.
Hluti svæðisins er grannsvæði vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bannaðar á grannsvæðinu sjá vatnsverndarsvæði og reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Verndargildi og verndarflokkur

Litluborgir

Í Litluborgum.

Verndargildi Litluborga felst fyrst og fremst í sérstæðum jarðmyndunum. Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags, skal, skv. b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013,stefnt að því að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Eldhraun, gervigígar og hraunhellar njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. sömu laga. Þá eru dropsteinar í hellum landsins friðlýstir sérstaklega sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina nr. 120/1974. Verndun Litluborga stuðlar auk þess að verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sbr. 2. gr. laga um náttúruvernd.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir flokkast sem náttúruvætti skv. 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 þar sem segir að friðlýsa megi einstakar  náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Þetta geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.

Náttúruminjar; jarðminjar og lífríki

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar í Þríhnúkahrauni sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Í Litluborgum er að finna hella og skúta með viðkvæmum hraunmyndunum.
Megin vistgerð svæðisins er mosahraunavist og er mosategundin hraungambri ríkjandi en vistgerðin er fátæk af æðplöntum. Þeir fuglar sem algengt er að sjá í þeirri vistgerð eru heiðlóa, spói, þúfutittlingur, steindepill og rjúpa. Svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Menningarminjar
Engar skráðar menningarminjar eru innan friðlýsta svæðisins.

Ferðaþjónusta, útivist og fræðsla

Litluborgir

Litluborgir – sérstök gróðurmyndun.

Þar sem Litluborgir eru ekki mjög áberandi í hrauninu þá hafa fáir heimsótt þær í gegnum tíðina en það er að breytast með aukinni umferð útivistarfólks. Svæðið er hins vegar mjög viðkvæmt utan stíga.

Helstu ógnir
Svæðið hefur ekki verið mjög fjölfarið í gegnum tíðina enda lítið og úr alfaraleið. Engar skilgreindar gönguleiðir liggja um svæðið og því var ekki unnt að stýra umferð fólks frá viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir. Vísbendingar eru um að efni frá möstrum geti haft neikvæð áhrif á gróður en þess sér merki í mosa á svæði í námunda við náttúruvættið.

Sérstakar reglur um umferð og dvöl

Litluborgir

Litluborgir – göngustígur frá Helgafelli 2020.

Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í náttúruvættinu Litluborgum sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:
1. Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki raska jarðminjum, gróðri eða dýralífi innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og viðburðir eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimilt er að setja skilyrði um t.d. fjölda þeirra sem kom að viðburðinum, umgengni og aðstöðu þegar slík leyfi eru veitt.
2. Heimilt er að hjóla á skilgreindum hjólreiðastígum séu þeir til staðar.
3. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“

Litluborgir

Í Litluborgum 2010.

Ýmislegt í framangreindri skýrslu er annað hvort ekki rétt eða ranglega með farið. Ekkert er t.d. minnst á verksummerki akstursslóða girðingar- og rjúpnaveiðimanna við borgirnar, afmarkaða og nauðsynlega stígagerð áhugafólks að borgunum vegna áhugaleysis Umhverfisstofnunar og stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á upplandi bæjarins. Í skýrslunni kemur fram að ágangur á svæðið hafi aukist 2022 með tilheyrandi mosaskemmdum. Það er rangt, líkt og svo margt annað, sem ekki verður farið nánar út í hér. Svo virðist að fæst það fólk er kom að skýrslugerðinni hafi haft hið minnsta vit á viðfangsefninu! Verður það að þykja miður…

Heimild:
-Litluborgir, Hafnarfjarðarbær – Stjórnunar- og verndaráætlun, desember 2022, Umhverfisstofnun.

Litluborgir

Gengið að Litluborgum 2010.

Litluborgir

Ofan Helgafells, skammt ofan línuvegarins nálægt einu háspennulínustaurnum, er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Litluborgir

Litluborgir – skilti.

„Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Stærð náttúrvættsins er 10,6 ha.
Markmiðið með friðlýsngu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Litluborgir eru smágerðar hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa þegar hraun frá Tvíbollum rann yfir stöðuvatn fyrir um þúsund árum. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir er undraheimur fíngerðra hraunmyndana. Líkja má þeim við minnkaða útgáfu af Dimmuborgum í Mývatnssveit. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér úr fjaska, en þegar inn í það er komið og við skoðum nærumhverfið blasa við okkur heillandi hraunskútar, steinbogar og alls kyns form sem hraunið hefur tekið á sig þegar það flæddi hér yfir um, var undir því sauð og af urðu gufusprengingar sem tættu yfirborðið og mótuðu alls kyns kynjamyndir.“

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Fossárrétt

Alls eru 224 fjárréttir þekktar á Reykjaneskaganum. Þá eru meðtaldar einstakar rúningsréttir utan selja.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Fjárréttir, eins og við þekkjum þær, þekktust ekki á Skaganum fyrr en í lok 19. aldar. Áður var fjárbúskapur útvegsbændanna takmarkaður við mjólkandi ær og þær voru því jafnan tiltölulega fáar á sérhverjum bæ. Ærnar voru á sumrum hafðar í seljum þar sem selsmatseljan réð ríkjum. Hún mjólkaði þær og vann afurðir úr mjólkinni; áfir, rjóma, skyr og ost. Sú hafði sér til stuðnings smala er gætti fjárins að næturlagi og skilaði því til mjalta morguns og síðdegis frá 6. til 16. viku sumars ár hvert að jafnaði. Ef eitthvað bar út af var honum refsað með því að láta hann „eta skattinns sinn“, sem væntanlega hefur verið vísir af hinni landlægu skattheimtuárát hér á landi fyrr á öldum.

Bæjarfellsrétt

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Þegar seljabúskapnum lauk endanlega um og undir árið 1900 stækkuðu innskagabændur fjárbú sín og byrjað var að „reka fé á fjall“. Sá háttur hefur verið viðhafður allt til þessa dags.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Fyrrum var fé Grindvíkinga, vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Réttin var hlaðin um 1890, en hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar. Hvergi er minnst á réttir í frásögnum þeirra bræðra.

Stóri-Hamradalur

Rúningsrétt í Stóra-Hamradal.

Réttirnar í fyrrum landnámshólfs voru til margra nota, s.s. heimarétt, almenningsrétt, skilarétt og rúningsrétt, auk „útdráttarétta“ einstakra bæja. Margar þeirra eru enn heillegar, enda ekki um fornar fornleifar að ræða. Fjárrétt er í raun framhald afréttar. Réttir hafa verið misstórar. Bæði þær sem og staðsetning þeirra hafa jafnan tekið mið af notagildi á hverjum tíma.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1963 fjallar Guðjón Jónsson um „Kambsrétt“, dæmigerða slíka á þeim tíma. Hér verður gripið niður í greinina á nokkrum stöðum: „Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú. Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað, eftir því sem við á og þurfa þykir.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt á Vörðufelli.

Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frásögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútímamenn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Þótt sameiginlegar byggðarsafnsréttir hafi verið notaðar víða um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr á tímum. Meðan engar girðingar voru til að hindra rennsli fjárins og það flakkaði viðstöðulaust bæja og byggða á milli, kom margt fé í skilaréttir.“

Margar hinu merkilegustu fjárrétta á Reykjaneskaga, s.s. Fossárréttin gömlu í Kjós, hafa verið friðlýstar, þrátt fyrir að hafa síðan orðið skógræktaráhugafólki að bráð….

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós var friðlýst 2011 (friðuð). Fornleifar klæddar skógi.

 

Hnúkasel

Ísland er skv. skriflegum heimildum sagt hafa verið numið af norrænum mönnum árið 874. Segjum svo hafa verið. En á 1.150 árum hlýtur margt að hafa breyst í gegnum tíðina, bæði hvað varðar búskaparhætti og landnýtingu.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Tökum dæmi: Seljabúskapur fluttist hingað með landnámsfólkinu. Sá búskapaháttur var stundaður nánast óbreyttur í u.þ.b. 996 ár. Að honum loknum tóku við miklar breytingar í aðdraganda mikilla þjóðfélagsbreytinga. Fólk var að flytjast úr sveitum í nýmynduð þorpin allt umleikis landið. Fiskveiðar, sem reyndar höfðu verið stundaðar í útverum á síðustu árum selsbúkaparins, tóku mið af þróuninni.
Útvegsbændur á Reykjanesskaganum þráuðust við þegar vinnufólkinu tók að fækka; færðu „selstöður“ sínar nær bænum, enda tilgangur þeirra ekki lengur eins mikilvægur og fyrrum, þ.e. að tryggja með tilvist þeirra vitund annarra á eignarrétti landsins.
Helsta breytingin og þar með viðbrögð bænda í lok 18. aldar var að selstöðurnar fyrrum urðu að stekkjum, mun nær bæjunum. Stekkirnir, sem oft voru nefndir eftir þjónustum sínum, höfðu nánast sama tilgang og selin fyrrum, en til að þjónusta þá þurfti bæði minni mannskap og nánast engan húsakost því þangað var bæði hægt að ganga fram og til baka á skömmum tíma, án þess að þurfa að gista. Í selin fyrrum hafði meðalstalsselsstígurinn verið ca. 6 km., eða um þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina, en í stekkina var gangurinn ekki nema ca. 20 mínútur.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Síðustu leifar seljabúskaparins má finna næst bæjunum, stekkina nánast við túngarðinn og fjárréttirnar í framjhaldinu.
Í byrjun 19. aldar byrjuðu bændur að byggja hús yfir fénað sinn, bæði heima við bæ og í beitarhúsum upp frá þeim, í göngufæri. Áður höfðu þeir nýtt fyrirhlaðin hraunsskjól og upphlaðnar fjárborgir til bjargar fénu yfir vetrarmánuðina.
Þegar lesnar eru opinberar fornleifaskráningar virðast nánast aldrei vera gerður munur á minjum eftir þróun búskaparhátta í tíma. Í þeim hefur því engin samfelld saga myndast í fræðigreininni, sem verður að þykja miður….

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Úlfarsfell

Nafn fellsins, Úlfarsfell, kemur fyrst fram í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 og svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Líklegast má telja að nafnið sé komið frá mannanafninu Úlfar. Fellið er 296 metra hátt og er afar vinsælt til gönguferða en einnig nýtir svifdrekafólk sér fellið í sína iðju.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Grímur Norðdahl segir frá örnefnum í landi Úlfarsfells árið 2002: „Um jörðina Úlfarsfell: Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslaonar fyrir Lágafell sgeir m.a.: „Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Undir hömrunum er fjárhús eða beitarhús frá Lágafelli…

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhús.

Langholt er holtið nefnt, sem er norður af Hulduhólum. Mýrin, þar sem nú er risin byggð, heitir Sauðhúsmýri. Innar eru Lágafellsmýrar, og Norðurmýri er norðanvert við túnið á Lágafelli. Börð aðskilja Sauðhólsmýri frá Skarhólamýrinni. Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Beint á móti bæ og uppi eru tveir hnúkar, sem heita Litlihnúkur og Stórihnúkur.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – hlaðið byrgi á Stórahnúk.

Byrgið er steinhlaðið úr grjóti sem er um 20-30 cm á lengd og 10-15 cm á breidd. Hæð veggja er um 60-65 cm, op í norðvestur, aðeins er hrunið í opið en samt vel greinilegt. Byrgið er hlaðið norðvestan í lítinn grjóthól ofan á klöpp, lítill gróður er á svæðinu. Austur og uppaf um 3 m frá er varða (258-63).

Í lýsingu Freyju Jónsdóttur í Dagur/Tíminn 1996 lýsir hún Úlfarsfelli. Þar getur hún um fjárhús frá bænum í Myrdal á Úlfarsfelli: „Neðan við Mýrdalsmýri er lítið fjárhús með heytóft“.

Úlfarsfelll

Úlfarsfell – fjárhús í Mýrdal.

Hvergi í Fornleifaskráningum vegna framkvæmda á og við Úlfarsfell, Fornleifaskráningum fyrir Mosfellsbæ eða Fornleifaskráningu fyrir Úlfarsfell er minnst á fjárhústóftina undir Lágafellshömrum, fjárhústóftina í Myrdal á Úlfarsfelli eða fjárborg á bökkum Úlfarsár í landi Úlfarsfells.

FERLIRsfélagar leituðu uppi og skoðu minjarnar árið 2025.

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhústóft.

Fjárhústóftin frá Lágafelli undir Hömrunum er óvenju stór, hlaðin að hluta og að hluta til grafinn inn í brekku. Hún er nánast orðin jarðlæg en er samt sem áður vel greinileg.

Fjárhústóftin í Mýrdal á grónu svæði syðst í dalnum. Hún er vel greinanleg, snýr dyrum mót suðri og að baki hennar er hlaðin heytóft.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárborg.

Fjárborgin suðaustan bæjarins að Úlfarsfelli er ofan bakka Úlfarsár. Hún er hringlaga og að mestu byggð úr torfi. Í fjarlægð lítur hún út fyrir að vera gróinn hóll, en þegar nánar er að gáð fer ekki á milli mála að um fjárborg hefur þar verið um að ræða.

Heimild:
-Dagur/Tíminn, 195. tbl. 12.10.1996, Úlfarsfell, Freyja Jónsdóttir, bls. 11.
-Úlfarsfell. Grímur Norðdahl, Magnús Guðmundsson 2002 (2002).
-Ari Gíslason – Örnefnalýsing fyrir Lágafell.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárhústóft í Mýrdal.