Urriðakotshraun

Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun-beitarhús.

Sumarið 1966 fékk Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg, eða Elliðavatnsveg eins og hann heitir réttu nafni. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð [Camp Russel] sem Bretar komu sér upp í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa á sínum tíma og ruddu í leiðinni herstöðva tóftunum í burtu.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárrétt Kjarvals; beitahús frá Urriðakoti.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag.

Urriðakotshraun

Kjarval – Urriðakotshraun.

Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni.

Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla.

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin rétt sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa fjárrétt sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd hér að ofan. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega Fjárrétt.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun.

Gísli Sigurðsson og Svanur Pálsson tóku saman örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er lýsing Svans dagsett 30. mars 1988. Móðir hans, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Guðmundur Jónsson, bónda í Urriðakoti, fæddist þar 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld. Hluti upplands Urriðakots er nú gjörbreyttur frá fyrri tíð.

Heimild m.a.:
-http://www.hraunavinir.net/fjarrett-kjarvals-i-svinahrauni/#more-1739

Urriðakotshraun

Fjárréttin í Urriðakotshrauni.

Setbergssel

Kershellir er við Selvogsveg (Suðurferðavegs) norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli á fremur stuttri hraunrás. Hraunið er úr Búrfelli fyrir um 7400 árum. Á svæðinu eru einnig nokkrir styttri hellar.

Hamarskotshellir

Hamarskotshellir.

Kershellir er nyrstur og austastur þeirra. Inn af honum er svonefndur Hvatshellir. Suðvestar er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín. Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.

Ketshellir-222Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna. Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Kershellir-223

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu. Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir.

Kershellir-224

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og  máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni  7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:
„Hann er 152 fe
t á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hvatshellir-222

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hvatshellir-223Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“
Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd  og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:

Hvatshellir

Í Hvatshelli – sagan rifjuð upp.

„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.
Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu,  er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.
Hvatshellir-224Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.
Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti: Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.”

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir  komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum. Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir  lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Hvatshellir-225

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

Setbergssel

Setbergssel. Helgafell fjær.

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli.
Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða.

Setberg

Setberg 1772 – Joseph Banks.

Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í fáu 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Ketshellir

Tröllið í “Síðasta bænum í dalnum” við Ketshelli.

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð.
Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli. Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur splölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svomeð gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“
Þess má geta að íslen
ska kvikmyndin “Síðasti bærinn í dalnum” var að hluta til tekinn í Ketshelli.

Heimildir:
-Jónatan Garðason.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, Ólafur Þorvaldsson, Grindarskarðavegur (Selvogsleið), bls. 96-107
-Reykjavík, 7. árg. 1906, bls. 162
-Fjallkonan  7. september 1906, bls. 161
-Þjóðólfur, 56. árg 1906, bls. 164
-Æskan, 9. árg. 1905-1906, bls. 93
-Frjáls verslun, 4. árg. 1942, bls. 4
-Þjóðhvellur, 1. árg. 1906-1908, bls. 1

Munnleg heimild:
-Þórður Reykdal.
-Friðþjófur Einarsson, Setbergi.

Kershellir-221

Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd.
Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni.

Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels.

Stafnessel

Stafnessel.

Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna. Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur.

Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. Fengið var góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Göm þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kafl í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi.
Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslunni. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipun er ekki hægt að greina. Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – rústir á bæjarhólnum.

Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – Kaupstaðagatan.

Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.

Gengið var eftir stígnum upp Illaklif, eftir rudda götuhlutanum og áfram götuna fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á.
Sjá MYNDIR.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – bæjarhóllinn.

Þingvellir

Árið 1993 rak Þórarinn Þórarinsson arkitekt augun í áletrun í klöpp á Þingvöllum, þar sem gengið er út á Spöngina sem er á milli Flosagjár og Nikulásargjár. Áletrunin var uppljómuð í kvöldsólinni en reyndist þó skófum vaxin og máð og gekk því illa að lesa úr stöfunum.

Blomkvist

Þingvellir – áletrun.

Mynd sem sýnir sykri stráða áletrunina á Spönginni. Giskað hefur verið á að stafirnir séu verk ferðamanna, hugsanlega frá 19. öld. Hægt er að smella á myndina til að skoða stærra eintak af henni. Myndasmiður: Einar Á.E. Sæmundsen.

Fundurinn vakti töluverða athygli. Í fyrstu voru uppi getgátur um að áletrunin kynni að vera frá fyrsta skeiði þinghalds og gæti jafnvel tengst lögréttu sem sumir telja að hafi verið á Spönginni. Þetta var stutt með því að einhver hefði lagt mikið á sig til að slétta klöppina og höggva svo letrið í.

Þingvellir

Spöngin á Þingvöllum.

Spöngin er skammt ofan og hægra megin við miðja mynd, einhvers konar hraunrimi milli tveggja gjáa.
Sagan segir að rútubílstjóri nokkur hafi tekið sig til, stráð sykri í áletrunina og letrið þá orðið læsilegt. Í ljós kom að tvö nöfn höfðu verið höggvin í klöppina: Gulin og Blomkvist. Listfræðingurinn og rithöfundurinn Björn Th. Björnsson taldi líklegast að þarna hefðu skandinavískir ferðamenn verið að verki, sænskir Finnar, hugsanlega um eða eftir 1870, en á þeim tíma var kenningum um lögréttu á Spönginni fyrst haldið á lofti og má ætla að fleiri hafi lagt leið sína þangað í kjölfarið.

Spöng

Spöngin – áletrun.

Jafnvel var talið að um ástarjátningu gæti verið að ræða, að par hefði ákveðið að meitla heit sín í klöppina.

Áletrunin er máð, bæði hefur hún veðrast en einnig er hún fótum troðin af þúsundum ferðamanna sem hafa lagt leið sína út á Spöngina. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um uppruna áletrunarinnar er í það minnsta líklegra að kenna hana við ástfangna Finna en Íslendinga við þingstörf fyrir mörg hundruð eða þúsund árum.

Heimild:
-DV 14. júní 1993 á Tímarit.is.
-Mynd af áletruninni: Einar Á.E. Sæmundsen.

Þingvellir

Þingvellir. Spöngin er fyrir miðri mynd.

Fiskaklettur

Á skilti framan við Fiskaklett í íbúðarbyggðinni við norðurhöfnina í Hafnarfirði má lesa eftirfarandi texta á skilti, sem þar er:

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2024.

“Þegar Hafnarfjarðarhraun rann frá Búrfelli í miklum jarðhræringum fyrir um 7000 árum myndaðist norðurströnd Hafnarfjarðar þar sem hraunið rann til sjávar. Þessar hamfarir urðu, ásamt öðru, til þess að höfnin myndaðist og varð frá náttúrunnar hendi ein besta höfn landsins og sú besta á Suður- og Vesturlandi um aldir. Fiskaklettur var í raun ysti oddi hraunsins við höfnina þar sem hann lá út í sjó og við hann var mjög aðdjúpt. Fiskigöngur áttu það til að lóna við klettinn og myndaðist þannig við hann allgóður veiðistaður en þaðan dregur hann nafn sitt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – uppdráttur H.E. Minor frá 1778.

Á árunum 1776-78 teiknaði sjóliðsforinginn H.E. Minor uppdrátt af Hafnarfirði sem sýndi hús bæjarins ásamt þeim kennileitum og örnefnum sem markverðust þóttu. Þar er Fiskaklettur merktur vestan við verslunarhúsin þar sem hann afmarkar höfnina frá norðri og vestri að vissu leyti. Árið 1900 voru tveir vitar reistir í Hafnarfirði, annar uppi á hrauninu ofan við bæinn en hinn niðri við höfnina, austan Fiskakletts. Árið 1913 var neðri vitinn færður upp á Fiskaklett en sá efri hækkaður nokkuð þar sem hin nýbyggða Fríkirkja skyggði á hann. Neðri vitinn var þá breytt í svokallaðan blossavita.

Hafnarfjörður

Vitinn á Fiskakletti.

Fram undir aldamótin 1900 hafði hver kaupmaður eða útgerðarmaður komið sér upp litlum bryggjum á sínum svæðum við höfnina en árið 1909, þegar fyrsta hafnarreglugerðin fyrir Hafnarfjarðarhöfn tók gildi, hófst skipulag og vinna að almennilegri hafnargerð í fyrsta sinn. Fyrsta skref framkvæmdanna var hafskipabryggjan sem tekin var í notkun árið 1913 en þróun hafnarinnar og framkvæmdir hér voru miklar allt frá stofnun hennar. Miklar landfyllingar voru gerðar, bólvirki hlaðin, bryggjur stækkaðar, þeim breytt og þær færðar til, auk þess sem fiskverkunar- og vöruhús af öllum stærðum og gerðum voru byggð á svæðinu á næstu árum og áratugum.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur t.v. – útvörður.

Það var svo um 1960 að nýr viðlegukantur var útbúinn þegar rúmlega 170 m. langt stálþil var sett niður við norðurhöfnina og í kjölfarið enn meiri landfylling í átt að hafnargarðinum. Það var þá sem Fiskaklettur komst endanlega á þurrt. Alla tíð var þó passað upp á að hrófla ekki við honum. Þegar norðurhöfninni var breytt úr hafnarsvæði í íbúðarsvæði var kletturinn friðaður í deiliskipulagi sem sögulegur staður.”

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

Selatangar

Þór Magnússon skrifaði um Seltanga í Lesbók Morgunblaðsins árið 1976:

Selatangar

Verbúðartóftir á Seltatöngum.

“Selatangar eru undarlegt ævintýraland og óvíða munu jafnskemmtilegar minjar um útræði hér á landi og einmitt þar, þótt staðurinn hafi verið litt þekktur fyrr en nú á síðustu árum.
Selatangar eru um það bil miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, nokkru austan við Ísólfsskála. Þarna hefur Ögmundarhraun gengið í sjó fram og myndað tanga ng er þar sæmileg lending. Hana hafa menn hagnýtt sér og smám saman myndazt þarna verstöð, sem harla lítið er þó vitað um úr rituðum heimildum. Hins vegar vitna rústirnar um það, sem þarna hefur farið fram.

Selatangar

Selatangar.

Hér er fjöldinn allur af fiskbyrgjum og nokkrar verbúðir, sem hægt er að greina, og er þetta listilega vel hlaðið úr hraunhellum og stendur allvel, þótt tímans tönn hafi unnið á sumu.
Síðast er talið, að róið hafi verið frá Selatöngum 1884. Fyrir mun hafa komið, að menn lentu á Selatöngum síðar ef lending var ófær annars staðar, en síðasti vermaður af Selatöngum mun hafa verið Einar bóndi í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, Einarsson, afi Þorvaldar Þórarinssonar lögfræðings.

Selatangar

Selatangar – rekagatan um Katlahraun.

Ruddur vegur liggur af þjóðveginum, Ísólfsskálavegi, gegnum hraunið og niður á Selatanga, en hann er illfær litlum bílum. En fjarlægðin er ekki meiri en svo, að þeir, sem röskir eru til gangs fara það á stuttri stundu og er vissulega ástæða til að hvetja þá, sem áhuga hafa á minjum sem þessum, að kynnast þessum einkennilega minjastað.
Erfitt er nú að sjá, hverju hlutverki hver og ein rúst hefur gegnt, enda eru þær mjög misgamlar og hinar elztu nokkuð ógreinilegar. Þó má yfirleitt greina verbúðirnar af bálkunum, sem sofið hefur verið á, og sumar eru skiptar með vegg. Uppsátrið sést einnig allglöggt, en rústirnar ná yfir talsvert stórt svæði með sjónum.
Vestan við rústirnar er sandfjara og í hraunjaðrinum þar vestan við er hellir, Nótarhellir, sem hægt er að komast í um fjöru. Hann mun draga nafn sitt af því, að Hraunsmenn í Grindavík geymdu þar selanætur sínar.”

Sjá meira um Selatanga HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 24. tölublað (27.06.1976), Þór magnússon; Þjóðminjar – Verbúðarrústir á Selatöngum, bls. 12.

Selatangar

Tóftir á Selatöngum.

Reykjavíkurflugvöllur

Í “Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsveg” árið 2019 segir m.a. um nokkra uppistandandi bragga og hús ofan Nauthólsvíkur:

Braggi 1

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 100.

“Þyrping húsa við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Um er að ræða nokkur sambyggð, steinsteypt og hlaðin hús ásamt áföstum bragga.
Þessi hús, ásamt stökum bragga norðar á lóðinni (sjá mhl. 10), voru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “Transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.

Reykjavíkurflugvöllur

Herkampar við Reykjavíkurflugvöll og Nauthólsvík.

Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. Um skeið (1947-1948) var reksturinn í höndum einkaaðila og hótelið þá nefnt Hótel Ritz. Árið 1948 tók Ferðaskrifstofa ríkisins við rekstri hótelsins sem var eftir það kallað Flugvallarhótelið og var starfrækt til 1951, þegar því var lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn. Árið 1971 fékk Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, aðstöðu í hluta bygginganna og er þar enn í dag (2019). Í júlílok 2008 skemmdist austurhluti húsanna í eldi. Húsin voru í umsjón Flugmálastjórnar Íslands til 2010 en þá urðu þau eign Reykjavíkurborgar.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1946.

Frá 1998 var svæðið ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri
stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að húsaþyrpingin yrði hverfisvernduð.
Árið 2016 fékkst leyfi til að taka niður braggann austast í þyrpingunni sem dæmdur var ónýtur og byggja nýjan í sömu mynd og innrétta þar veitingastað, einnig endurbyggja og lyfta þaki svokallaðs náðhús norðan við braggann og innrétta þar fyrirlestrarsal, sem og endurbæta áfasta skemmu vestan við braggann og innrétta þar frumkvöðlasetur, auk þess að byggja nýja tengibyggingu milli húsanna í stað eldri millibyggingar. Breytingarnar hafa verið framkvæmdar að hluta (2019).”

Braggi 2

Nauthólsvík

Braggi að Nauthólsvegi 100.

“Stakur braggi af gerðinni BUTLER (bandarísk gerð), matshluti 10 á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Þessi braggi, ásamt húsaþyrpingu sunnar á lóðinni, var upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum, eins og þessum, sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í syðri húsunum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o fl.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 15. 10. 1942. Þarna er ekki búið að reisa “Camp Transit”.

Eftir stríð var rekið þarna flughótel á vegum flugmálastjórnar og seinna Ferðaskrifstofu ríkisins (Flugvallarhótelið) en árið 1951 var hótelinu lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn.
Af loftmyndum má sjá að bragginn hefur upphaflega verið um helmingi lengri en hann er í dag. Í honum munu hafa verið átta herbergi og gangur eftir honum endilöngum. Einhvern tíma á tímabilinu 1954-1965 hefur vesturhelmingur hans verið fjarlægður. Ekki er ljóst hvort þá var komið fyrir stórum skúrdyrum sem eru á vesturgafli. Að öðru leyti virðist bragginn að mestu óbreyttur að ytra byrði. Á stríðsárunum voru reistir mörghundruð braggar af þessari gerð í Reykjavík. Í dag (2019) stendur þessi braggi eftir sem eini upprunalegi bragginn af þessari gerð á svæðinu.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1942.

Svæðið sem bragginn stendur á var frá 1998 ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að þetta hús ásamt húsaþyrpingunni á lóðinni yrði hverfisverndað.
Bragginn hefur undanfarin ár hýst félagsheimili víkingafélagsins Einherja. Við braggann stendur dreifistöðvarskúr, byggður 1990-1995.”

Braggi 3

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 99.

“Tveir samsíða braggar við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 99. Þessi braggar voru reistir af breska setuliðinu og eru af gerðinni Nissen. Annar þeirra, sá sem stendur sunnar, virðist sjást á loftmynd sem tekin var í október 1942 og báðir sjást á loftmynd sem tekin var sumarið 1943 (en byggingarár skv. Fasteignaskrá er 1945). Þeir hýstu meðal annars skósmíðaverkstæði og saumastofu hersins á stríðsárunum. Eftir stríð var þarna lengi aðstaða fyrir Flugbjörgunarsveitina.

Nauthólsvík

Flugröst.

Braggarnir eru nú (2019) í eigu ríkissjóðs. Í öðrum þeirra hefur í mörg ár verið félagsheimili starfsmanna Flugmálastjórnar Íslands sem kallað er Flugröst. Hinn (mhl. 02) er skráður sem vörugeymsla (Fasteignaskrá 2019).

Sportkafarafélagið

Nauthólsvík

Nauthólsvegur 100a.

Timburhús við Nauthólsvík, með staðfangið Nauthólsvegur 100a. Um er að ræða hús sem Sportkafarafélag Íslands reisti sem félagsheimili á árunum 1989-1990. Félagið fékk leyfi fyrir byggingu bráðabirgðahúss á lóðinni í júlí 1989, með þeirri kvöð að húsið yrði rifið borgarsjóði að kostnaðarlausu, þegar krafist yrði. Húsið teiknaði Einar Ingimarsson arkitekt.
Um byggingu hússins segir á vefsíðu félagsins:
„Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað.

Nauthólsvík

Merki Sportkafarafélags Íslands.

Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum. Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og fékk félagið úthlutaða lóð í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið við haldið af natni síðan“ (www.kofun.is: Um SKFÍ – Sagan, sótt í mars 2019).
Árið 2004 fékk húsið staðfangið Hlíðarfótur 81a en árið 2010 var götuheitinu breytt og húsið fékk þá staðfangið Nauthólsvegur 100a.
Húsinu virðist ekki hafa verið breytt að ráði frá því að það var byggt.

Braggi  við Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur – braggi.

Þyrping húsa við Reykjavíkurflugvöll. Húsin eru öll skráð undir heitinu Flugvöllur 106748 í Fasteignaskrá en tölunar vísa í landnúmerið. Elsta húsið er byggt árið 1941 en það yngsta árið 1997. Flest eru þau byggð frá 1941-1960. Í dag (2013) eru húsin notuð sem flugskýli, tækjageymsla, fjarskiptastöð, spennistöð, geymslur, skrifstofur og fleira.
Bragginn var upphaflega einn fjögurra sambyggðra skemmubragga. Bragginn var upphaflega notaður af setuliðinu en eftir að flugvöllurinn komst í eigu íslenskra flugmálayfirvalda var hann í fyrstu notaður sem geymsla en síðan flutti slökkvilið flugvallarins aðsetur sitt í braggann.

Reykjavíkurflugvöllur

Bragginn við Reykjavíkurflugvöll.

Árið 1962 brunnu hinir þrír braggarnir. Við suðurhlið braggans hefur verið hlaðin viðbygging og settur steinsteyptur umbúnaður fyrir akstursdyr. Ekki er finna heimildir um hvenær það var gert.
Síðustu áratugi hefur bragginn verið notaður sem vélageymsla flugvallarins.”

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá fimmta áratug síðustu aldar hefur bröggum, stríðsminjunum, ofan við Nauthólsvík og við Reykjavíkurflugvöll fækkað svo um munar.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2013.

Reykjavíkurflugvöllur

Nauthólfsvík 1946 – braggahverfið.

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

“Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.”

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

“Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni “The Lost Bird Project”. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.”

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Brú milli heimsálfa

Við “Brú milli heimsálfa” á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).”

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).”

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.