Hólmsborg

Selin á Reykjanesskaganum, mannvirki þeim tengdum og leiðir að þeim teljast til fornleifa.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands á Netinu er m.a. fjallað um fornleifar. Þar segir að “fornleifar séu efnislegar minjar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðirnar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?

Húshellir

Í Húshelli.

Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.

Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t. d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur.

Garðastekkur

Garðastekkur – fjárborg.

Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina komu hefðir og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiskonar. Allt þetta er falið í fornleifunum.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju.

Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti”.

Hvaleyrarvatn

Beitarhús í Húshöfða við Hvaleyrarvatn.

Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum. Jófríðarstaðir áttu t.d. beitarhús í Húshöfða við norðanvert Hvaleyrarvatn, mjög fjarri Jófríðarstaðarlandi. Tóftin er enn vel greinanleg sunnan í Höfðanum. Önnur beitarhústóft er í Hólmshrauni austan við Hólmsborgina.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur við Þrívörður.

Í Ísafold árið 1883 er fjallað um umhirðu búfjár og þar eru nefndir ´einhölukofar´ en slíkir kofar tóku við af fjárborgunum „ þ.e. mjó hús með einni jötu langsetis öðrum hliðarveggnum.“ Seinna voru svo byggð ´tvístæðuhús´, sem voru með jötum til beggja hliða, og loks ´garðahúsin´ eins og við þekkjum þau. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar skoðaðar eru tóftir þó svo að vísast séu fáar svona einhölukofatóftir til því menn hafa líklega notað grjótið í nýrri byggingar. Þessi hús þurfa auðvitað ekki að vera gömul, út af fyrir sig, því fjárhús voru yfirleitt ekki byggð fyrr en á 18. öldinni”.

Hin mörgu hlöðnu fjárskjól á Reykjanesi virðast hafa verið “milligerð”, þ.e. skjól þangað til sérstök hús voru byggð yfir féð. Hlaðið var fyrir skúta eða hraunbólu og þannig myndað betra skjól fyrir veðrum og vindum.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi.

Sjá má dæmi þessa víða á Reykjanesi, bæði í og við selin sem og víðar. Þannig eru hlaðin fjárskjól bæði vestan við Óttarstaði og Lónkot (hafa ekki verið skráð fyrr en nú), ofan við Hvassahraun, í Katlahrauni (skjól frá Vigdísarvöllum (hlaðið um 1910 af fólki frá Vigdísarvöllum) ), í Ögmundarhraunsgígum sunnan Vigdísarvalla, Efri-hellar og Neðri hellar við Gerðisstíg, Kolbeinshæðaskjól, Straumssel Efri-hellar, Straumssels Neðri-hellar, Óttarstaðafjárskjólin (Sigurðarskúti, Sveinsskúti, Norðurskúti, Tóhólaskúti og Rauðhólsskúti) og við Lónakotssel, auk fjárskjóla í Álfakirkju og í Kálfelli.

Eyri

Eyri – tóft.

Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum.

Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa út um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar, er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019. Nú horfið.

Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar. Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar.

Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning. – ÓSÁ

Vigdísarvellir

Fjárskjól við Vigdísarvelli.

Eldvörp

Margir hafa sótt Selatanga heim, eina þekktustu verstöð Reykjanesskagans fyrrum.

Fiskgeymsluhús á Selatöngum

Færri vita að svipaðar minjar má finna nokkrum öðrum stöðum í nágrenni Grindavíkur, s.s. mikla þurrkgarða, -byrgi og ekki síst – fískgeymslur. Vegna þess hversu fáir vita af öðrum mannvirkjum hafa þau að mestu fengið að vera í friði og því varðveist nokkuð vel. Mannvirkin á Selatöngum hafa látið á sjá í seinni tíð af tveimur ástæðum; ágangi sjávar annars vegar og manna hins vegar. Sjórinn hefur nú tekið til sín öll elstu mannvirkin og er á góðri leið með að hirða það sem eftir er. Mannfólkið hefur ekki látið sér nægja að berja minjanar augum heldur hefur það þurft að príla upp á sumar þeirra svo þær hafa orðið fyrir skemmdum.

Selatangar

Selatangar – fiskgarðar.

Á  þurrkgarðana var flattur fiskurinn lagður og hann þurrkaður. Einnig hausar og annað er nýta mátti af fiskinum. Auk garða má á nokkrum stöðum sjá þurrkbyrgi, sem fiskurinn hefur verið geymdur í milli þurrkálagninga. Slík byrgi má bæði sjá í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, vestan Húsatófta, við Nótarhól austan Ísólfsskála svo og á Selatöngum. Einnig austan við Herdísarvík.
Þegar bátar komu úr róðri var aflinn færður á skiptivöll, þar sem skipt var í hluti. [Einn slíkan óskemmdan má enn sjá neðan við Klöpp í Þórkötlustaðahverfi].
Fiskgeymsluhús í SundvörðuhrauniÞví næst var gert að, á skiptivellinum ef aðstæður þar leyfðu, annars á öðrum hentugum stað. Í Grindavík mun vísast hafa verið gert að á skiptivelli. Á vetrarvertíð, þegar ekki var þerrisvon, var fiskurinn lagður í kös, eða kasaður sem kallað var. Það var gert eftir sérstökum reglum. Fiskurinn var lagður þannig í kösina, að dálkurinn sneri niður, svo að blóð sem síga kynni úr honum færi síður í hinn helminginn; fiskurinn var kýttur, en það var gert með því móti að beygja hann saman í hnakkann, svo að fiskurinn fyrir framan dálk myndaði ¼ úr hring. Næsta lag var svo sett ofan á það, sem fyrir var, þannig að hnakkinn af þeim fiski læki móts við gotraufina á þeim, sem undir var, og með sama hætti koll af kolli. Helzt þurfti kösin að vera á sléttum halla, svo að ekki sæti vatn í henni. Að lokum myndaðist hringur og komu sporðar allra neðstu fiskanna saman. Kösin stóð misjafnlega lengi, stundum svo vikum skipti, þar sem sjaldnast viðraði vel fyrr en undir vor. Í frosti skemmdist kasarfiskurinn ekki að ráði, en ef skiptist á vætutíð og frost vildi hann vera maltur, jafnvel grútmaltur.
Þegar komið var fram á vor og veður fór batnandi, var fiskurinn tekinn úr kösinni og byrjað að þurrka hann. Fyrst var hann þveginn og himnudreginn, en síðan breiddur á garða, möl eða grjótghryggi, og var roðinu snúið niður á daginn en upp á nóttunni. 

 

Fiskgeymslur í Sundvörðuhrauni - flugmynd

Á meðan á þurrkuninni stóð, var fiskinum snúið hvað eftir annað, en er hann þótti orðinn hæfilega þurr, var honum hlaðið í stakka og þeir fergðir, svo að sléttaðist úr fiskinum. Þegar þurrkur var, var fiskurinn síðan breiddur úr stökkunum, uns hann var orðinn sprekaður, en þá þótti loks fært að vigta hann og flytja.
Nokkur tími gat jafnan liðið frá því fiskur var fullþurkkaður og þar til hægt var að flytja hann, og reið þá á miklu í stórum verstöðvum, þar sem margir gerðu út, að ekki ruglaðist fiskurinn. Af þeim sökum höfðu menn sérstök fiskmerki, og umsvifamiklir aðilar höfðu sérstakt brennimark.
Fiskbyrgi við EldvörpOg þá er komið að megininntaki þessarar umfjöllunar. Á meðan fiskurinn beið flutnings, var hann tíðast geymdur í fiskbyrgjum. Þau voru hlaðin úr grjóti, strýtu- eða stróklaga, en þannig var best að verja fiskinn gegn vætu. Á sumum jörðum í Grindavík munu einnig hafa verið sérstök fiskgeymsluhús, en ekki er ljóst hvernig þau voru byggð. Frá 17. öld eru heimildir um slík hús frá Hópi, sem voru í eigu Skálholtsstaðar. Þá var hús á Þórkötlustöðum, sem gekk undir nafninu “staðarhúsið”, og var það sýnilega fiskgeymsluhús í eigu Skálholtsstóls. Hugmyndir eru uppi um að einu fiskgeymsluhúsin, sem varðveist hafa í Grindavík, megi finna undir rótum Sundvörðuhrauns, svonefnd “Tyrkjabyrgi”. Fleiri slík byrgi má finna í upplandi bæjarins, ósnert með öllu. Staðsetning kemur vel heim og saman við heimildir þess efnis að annar aðalútflutningsstaður Grindvíkinga um tíma var frá Básendum.

Húsatóftir

Húsatóftir – fikibyrgi.

Fiskgeymslur voru staðsettar í hverfum Grindavíkur meðan miðstöð útflutningsverslunarinnar var þar, en færðist síðan út fyrir þau þegar verslunin færðist að Básendum er verslunin færðist frá Grindavík árið 1639.  Þær geymslur, sem sjá má í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru mjög nálægt gömlu þjóðleiðinni milli Grindavíkur og Hafna, sem lá áfram um Ósa og út á hinn gamla verslunarstað Þórshöfn og loks að Básendum. Einnig leifar hinna mörgu fiskgeymslubyrgja ofan Húsatófta.

Ekkert fiskgeymsluhús hefur varðsveist í Grindavík, en fiskgeymsluhúsin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp hafa varðveist með ágætum.
Skjól fiskivarða við EldvörpÁstæðan er tvíþætt; annars vegar eru þau yngri og auk þess hafa þau gleymst eftir að notkun þeirra lauk um 1800 eða skömmu eftir Básendaflóðið mikla 1799. Það var ekki fyrr en síðla á 19. öld að byrgin í Sundvörðuhrauni fundust á ný og Eldvarpabyrgin fundust ekki fyrr en árið 2006.
Öll geymslubyrgin í Sundvörðuhrauni og við Eldvörp eru svo til að sömu stærð, hvort sem varðar breidd, lengd eða hæð. Þau eru gisin til að loft gæti leikið um varningin, sléttar þunnar hellur voru lagðar yfir sem þak svo auðveldara væri að koma fyrir og fjarlægja varninginn og auk þess voru settar upp hlaðnar refagildrur í nágrenninu ef vargurinn skyldi ásælast matvöruna í byrgjunum.
ÁhugiVakt hefur verið við báða staðina. Ummerki um varðmannskjól eru í Sundvörðuhrauni og einnig við Eldvörp. Þar eru mannvistarleifar í hellum á tveimur stöðum, örskammt frá geymslunum.
Allnokkur umgangur hefur verið um Sundvörðubyrgin í seinni tíð, en engin um Eldvarpabyrgin. Þau gætu því verið kærkomin rannsóknarvettvangur þeirra fornleifafræðinga er áhuga fengju á viðfangsefninu (sem reyndar gæti orðið einhver bið á m.v. núverandi áherslur minjavörslunnar í landinu).

Eldvörp

Eldvörp – hlaðin refagildra við fiskbyrgin.

Auðvitað er ávallt “leiðinlegt” að svipta hulunni af jafn dulúðlegum stöðum og Sundvörðubyrgin hafa verið um langa tíð. Þau hafa hingað til ýmist verið talin felustaður útilegumanna eða flóttamannabúðir fyrir Grindvíkinga er þyrftu að flýja undan “Tyrkunum” í skyndi, minnunga komu þeirra til þorpsins í júnímánuði 1627 er tólft þorpsbúar voru dregnir til skips og aðrir þrír limlestir. Til varnaðar má segja að enn hafi ályktun þessi ekki verið fullsönnuð því vísindaleg fornleifarannsókn hefur enn ekki farið fram á mannvistarleifunum – hvað svo sem tefur.
Líklegast má þó telja, þrátt fyrir að hver hafi apað upp eftir öðrum hingað til, að umrædd byrgi hafi þjónað öðrum tilgangi en hingað til hefur þótt sagnakennt.
Sjá meira um byrgin HÉR og HÉR.

Tyrkjabyrgi

Byrgin í Sundvörðuhrauni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Keflavík

Eftirfarandi frásögn frú Mörtu Valgerðar Jónsdóttur um “fyrstu ár Keflavíkur” má lesa í Faxa 1947: “Blaðið hefur tryggt sér nokkrar greinar um ýmsan gamlan fróðleik af Suðurnesjum, og birtist fyrsta greinin í þessu blaði. Er það frú Marta V. Jónsdóttir sem þessar greinar ritar. —

Keflavik 1833 - 2

Frú Marta Valgerður Jónsdóttir er fædd 10. jan. 1889, að Landakoti á Vatnsleysuströnd. Voru foreldrar hennar Guðrún Hannesdóttir og Jón Jónsson, bæði Rangæingar að ætt, annáluð gáfu og merkishjón. Frú Marta fluttist til Keflavíkru árið 1898 og dvaldist hér með foreldrum sinum þar til hún giftist Birni Þorgrímssyni verzlunarmanni. Þau bjuggu í Keflavík til ársins 1920. — Frú Marta er af kunnugum talin fjölgáfuð kona, og vel menntuð. Hún á mikið og vandað bókasafn, og er víðlesin. Á seinni árum hefur hún lagt mikla stund á íslezkan fróðleik fornan, einkum ættfræði. — Þess má geta að frá Marta stofnaði hér fyrsta kirkjukórinn, og var organisti við kirkjuna frá því að kirkjan var byggð og þangað til skömmu áður en þau hjón fluttust til Reykjavíkur.
V. G.
Keflavik 1908-222Í æsku minni heyrði ég gamalt fólk, er alið hafði aldur sinn í Keflavík og mundi langt, rifja upp eitt og annað um hyggð og bæ, er það hafði numið í sinni æsku. Mér er einna minnisstæðast, er ég heyrði, að Keflavík hefði, endur fyrir löngu, verið einn einasti bóndabær og ekkert annað byggt ból alla leið inn í Ytri-Njarðvíkur. Þetta átti að hafa verið um það leyti, er Tyrkir rændu í Grindavík og í tíð séra Hallgríms skálds Péturssonar, en gamla fólkið gleymdi aldrei að minnast þess, að hann hafði eitt sinn dvalið á þessum slóðum. Bærinn Keflavík átti að hafa staðið sunnan á hrygg þeim eða höfða, er reis upp og suður af Grófinni, en næst var Berginu. Var höfðinn hæstur að austanverðu næst sjónum og snarbrattur upp frá sjó, en hallað svo niður aftur að sunnanverðu og myndaði þar aðra gróf. Þar var Keflavíkur vör, átti þar að hafa verið uppsátur frá ómunatíð. Sú vör er ennþá notuð. Þar fyrir sunnan og ofan tók við vítt og mikið land alla leið’ upp til heiða og suður að Nástrandargröf, sem svo var nefnd, er ég heyrði þessar sögur. En þar er nú Tjarnargata. Átti það land að hafa verið grasi vafið, en breyst smátt og smátt í uppblástursland. Um miðbik höfðans, sem fyrr er nefndur, var hóll. Þar sunnan undir hólnum átti bærinn að hafa staðið, en túninu hallaði til suðurs, vesturs og norðurs.

Keflavik 1908- 224

Þegar fyrsta íbúðarhúsið í Keflavík var byggt — Gamla Duushúsið, sem enn stendur —, var það reist nokkru neðar en bærinn, en við sama hólinn. Stóð þá bærinn ennþá og var notaður til íbúðar. Til sannindamerkis um bæjarstæðið sunnan við hólinn, var greint frá því, að þar hefðu fundist greinilegar minjar um byggt ból, er túnið var sléttað í tíð eldra Duus.
Sögur voru einnig sagðar um landspjöll af völdum sjávar. Bakkarnir meðfram höfninni áttu að hafa verið hærri og skagað lengra fram til sjávar og undirlendi nokkurt fyrir neðan bakkana, en sjórinn brotið það land allt og bakkarnir hrunið að framan smátt og smátt. Landið milli Ytri- og Innri-Njarðvikurjarða var nefnt Fitjar og heitir svo enn. Þaðan voru sögð hvað mest landspjöll af landsigi og sjávarágangi. Þar átti að hafa verið byggt ból endur fyrir löngu og landgæði nóg, en allt það land var talið liggja á sjávarbotni. Þannig sagðist gamla fólkinu frá.

Keflavik-batsbryggja-229

Skal nú vikið að gömlum heimildum um Keflavíkurjörð. Árið 1703, síðari hluta sumars, eftir alþing, ferðuðust þeir Árni Magnússon assessor og Páll Vídalín lögmaður um Suðurnes. Hafði konungur skipað þá árið 1702 til þess að virða upp allar jarðir landsins og lýsa högum bænda og búenda. Fóru þeir um landið árin 1702 til 1707 til þess að gera nýja jarðabók yfir allt landið „og athuga hver að væri meðöl til að afkoma þeim ýmsum ósiðum, er innsmognir væru” segir Páll Vídalín sjálfur í annál sínum. Erindi þeirra þetta síðsumar um Suðurnes var því að skrá jarðir þessara byggða og kynna sér hagi bænda. Riðu þeir um með fylgdarmönnum og skrifara og höfðu mikinn útbúnað, tjöld og hesta. Þeir lögðu upp frá Bessastöðum þann 12. ágúst, fóru um Hafnarfjörð og þaðan suður hið efra með fjalli til Grindavíkur. Þaðan fóru þeir niður í Hafnir, út á Hvalsnes, til Útskála og svo innúr um Njarðvíkur og Vatnsleysuströnd allt inn til Sunda. Auðséð er af annálum, er skráðir voru þessi ár, að ferðir þeirra um landið hafa vakið athygli og þótt mikill og mestur viðburður í lífi þjóðarinnar. 

Keflavik-1895-4

Þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín settust venjulega um kyrt á prestssetrunum, reistu þar tjöld sín og bjuggu um sig sem bezt. En bændum var gert að skyldu að koma til þeirra heim á prestssetrin. Keflavíkurbóndinn ,sem þá var, hefur því orðið að taka sér ferð á hendur, um miðjan september, út að Útskálum til þess að lýsa jörðinni og högum sínum. Keflavíkurjörð er þannig lýst: „Hér er fyrirsvar ekkert. Jarðardýrleiki óviss. Eigandinn Kongl. Majestat. Ábúandinn Halldór Magnússon. Landskuld XXV álnir betalast I vætt og II fjórðungum fiska í kaupstað í reikning umboðsmannsins á Bessastöðum. Við til húsabótar leggur ábúandinn. Kúgildi ekkert. Kvaðir eru mannslán, en fellur niður Keflavík 1908. Gömlu Duushúsin sjást fremst á myndinni. fyrir bón kaupmannsins í Keflavík fyrir vöktun búðanna. Kvikfénaður I kýr, I hross, I foli þrevetur. Fóðrast kann I kýr naumlega. Heimilismenn VI. Skóg til kolagerðar hefur jörðin í almenningum. Torfrista og stunga víðsæmandi. Lyngrif í heiðinni nokkuð. Fjörugrastekja nægileg. Eldiviðartak af fjöruþangi hjálplegt. Rekavon lítil. Hrognkelsafjara varla reiknandi. Skelfiskfjara nokkur. Heimræði er hér árið um kring og ganga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip eru hér engin. Lending slæm. Engjar öngvar. Utihagar í betra lagi. Vatnsból í allra lakasta lagi sumar og vetur. Kirkjuvegur langur og margoft ófær um vetrartíma”.
Af þessari lýsingu Keflavíkurjarðar sjáum við, að Keflavík hefur ekki verið stór jörð, heldur miklu fremur kotbýli, þó er greinilegt, að jarðarlandið hefur verið ólíkt grasgefnara en þekkst hefur um
 langan aldur.

Keflavik-ornefni-231-

Torfrista og stunga, sem talin eru viðsæmandi, talar sínu máli. Grasvöxtur hefur þá verið mikilj og er af því auðsætt, að uppblástur hefur eytt jarðvegi og gróðri á þeim 243 árum, sem liðin eru síðan jarðarmatið fór fram. Enda sáust greinilegar leifar af uppblæstri ennþá um síðustu aldamót. Uppi á Melunum fyrir ofan kauptúnið voru þá enn eftir, hingað og þangað, nokkrar torfur, eins og dálitlar eyjar á berum sandmelnum. Á þessum torfum var þéttur grassvörður; af þeim mátti og greinilega sjá jarðlagið og þykkt moldarinnar, er var vel mannhæð. Er vindar blésu og jörð var þurr, mátti sjá mórauða mekki bera víð loft yfir Melunum. Þar voru að hverfa út í veður og vind hinar síðustu leifar gróðurmoldarinnar, er eitt sinn, fyrir ævalöngu, hafði þakið Keflavíkurjörð. En þessar minjar eru nú löngu horfnar. Kvaðir um mannslán mun láta undarlega í eyrum nútímamanna, en svo sem kunnugt er, hafði konungsvaldið eða umboðsmenn þess á Bessastöðum, lagt á herðar manna hinar þyngstu skyldur, er þeir urðu að inna af hendi kauplaust, auk þess urðu þeir venjulega að fæða sig sjálfir. Bændur voru skyldugir að leggja til menn á skip Bessastaðamanna, er þeir höfðu í aflabeztu verstöðvunum, verka fisk þeirra og skila þurrum og óskemmdum í kaupstað, vinna að húsagerð og landbúnaðarstörfum, bera fálka og margt fleira. T. d. voru sumir Innnesjamenn skyldir að bera fálka frá Bessastöðum til Keflavíkur og Bátsenda, þegar þaðan voru sendir lifandi fálkar með verzlunarskipunum til Danmerkur. Allar þessar kvaðir lágu sem þungt farg á landsmönnum og voru orðnar nær óbærilegar, er þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín sömdu jarðabókina.
Keflavíkurbóndinn hefur veríð laus við allar þessar kvaðir, en í staðinn hefur hann verið þjónn Keflavíkurkaupmannsins og gætt verzlunarbúða hans á vetrum, er kaupmaður var brottsigldur. Njarðvíkurbændur hafa, sem aðrir, yfir mörgu að kvarta. Bóndinn í Innri-Njarðvík kvaðst verða „að gegna gisting þeirra frá Bessastöðum, umboðsmannsins, sýslumanns og þeirra fylgdarmanna, hvenær sem þá aðber” og hvað fjölmennir sem þeir eru. Segir hann þá hafa „næstu 16 ár með sjálfskyldu þegið” allan beina fyrir sig og hesta sína, svo lengi, er þeir sjálfir óski. Þar að auki séu þeir, Njarðvíkurbændur, skyldir að fylgja Bessastaðamönnum innan sýslu og margoft utan. Sé allt þetta endurgjaldslaust.
Bóndinn í Ytri-Njarðvík kveðst þurfa að sjá um og flytja farangur vermanna, er þeir komi um hávetur innan frá Bessastöðum og Sundum til sjóróðra á kóngsskipin, er gengu frá Stafnesi. Ef vetur var harður og vermenn treystu ekki hestum sínum lengra en að Sundum, urðu bændur, er bjuggu meðfram veginum til Suðurnesja, að flytja þá bæ frá bæ út að Ytri-Njarðvík. Þar tók bóndinn við og flutti þá ásamt farangri suður yfir heiði, að Stafnesi. Allt var þetta bótalaust.
Keflavik-241Sami bóndi segir frá því, að komið hafi verið með bát suður í Ytri-Njarðvík í nafni umboðsmannsi
ns á Hessastöðum „í fyrstu með bón og síðar með skyldu, tveggja manna far, sem ganga skyldi um vertíð, en ábúandinn að vertíðarlokum meðtaka skipsábata, verka hann og vakta til kauptíðar, ábyrgjast að öllu og flytja í kaupstað”.

Þá er að minnast tveggja eyðijarða í Njarðvíkurlandi, sem getið er í Jarðabókinni 1703. Er um þær báðar hið sama að segja, að þá vissi enginn, hve lengi þær hefðu í eyði verið. Önnur jörðin var Hjallatún. Voru þá tún uppblásin í mel, lyng og hrjóstur, en girðingar stóðu þá enn, en jarðarlandið löngu lagt undir Ytri-Njarðvík. Þótt svo langt sé síðan býli þetta lagðist L eyði, að enginn, er var á lífi 1703 kunni skil á hvenær þar hefði byggð verið, hefur nafn þessarar heiðarjarðar aldrei gleymst. Rétt eftir síðustu aldamót voru haldnar skemmtisamkomur í Hjallatúnum nokkur sumur. Var það að tilhlutun Ágústs Jónssonar hreppstjóra í Höskuldarkoti, er ævinlega vildi alla hluti vel gjöra. Mættust þá Njarðvíkingar og Keflvíkingar í Hjallatúnum einn glóbjartan sunnudag, einu sinni á sumri, og gerðu sér þar glaðan dag. Var farið upp eftir með margskonar farangur; vatn í kaffi, kökur og annað góðgæti og mikið af áhöldum og borðbúnaði.
Allir fóru gangandi og bar hver sem betur gat. Gott var að hvílast í grasi grónum brekkunum, er upp eftir var komið. Margt varð til gleði, ræður haldnar og mikið sungið. Svo voru byggðar hlóðir uppi undir klettabeltinu og hitað kaffi, lagt á borð hingað og þangað um lautir og bala, gengið á milli búa og góðgerðir þáðar á víxl.
Keflavik-245Þegar leið á daginn fór unga fólkið í leiki og er kvölda tók, var gengið heim. Vegir skiftust og hóparnir héldu niður í Njarðvíkur og út í Keflavík. Í logniblíðu kvöldsins kváðu við léttir söngvar og gleðiómar, allir voru glaðir og ánægðir eftir góðan dag og komu heim í sólskinsskapi löngu eftir sólarlag. Hin eyðijörðin var Fitjakot milli Ytri- og Innri-Njarðvíka. Hefur hún legið að sjó. Þar eru nú Fitjar. Er svo sagt 1703, að lítil merki sjáist þar fornra girðinga, en almenn sögn, að býli hafi verið. Var það mál manna, að jörðin hafi í eyði lagst af örtröð. Hinar tíðu lestaferðir austan- og norðanmanna, er sóttu sér björg í bú til hinna aflasælu verstöðva um Suðurnes, eru taldar drýgsti þáttur í eyðingu jarðarinnar. Þar var ævinlega áð og að vetri munu ferðamenn hafa haft þarna náttstað áður en lagt var suður í Hafnir, út á Nes, Garð, Leiru og Keflavík. Er svo sagt í jarðabókinni, að ferðamenn megi ómögulega missa þennan afangastað. Þá er og greint frá því, að sjór brjóti landið að framanverðu í stórkostlega ósa, en vatnsrásin úr heiðinni flytji fram aur og grjót. Á þessum slóðum eru byrjaðar framkvæmdir að hafnarmannvirkjum, er verður einn liður í fyrirhugaðri landshöfn Keflavíkur og Njarðvíkur.
Ábúendur í Keflavík fyrr á öldum, kann ég fáa að nefna. Í fornum annálum er þess getið, að Grímur Hergsson, bóndi í Keflavík, hafi orðið bráðkvaddur árið 1649. Setbergsannáll kann best skil á þessum atburði, enda var höfundur annálsins Gísli Þorkelsson að móðurætterni af Suðurnesjum, dóttursonur séra Þorsteins Björnssonar, er prestur var á Útskálum 1638—1660. Þar segir svo: „Þann 8. janúar andaðist Grímur Bergsson í Keflavík skyndilega í sinni heytótt á kvöldtíma”. Grímur hafði fyrrum (1632) verið sýslumaður í Kjósarsýslu og síðar lögréttumaður á Suðurnesjum. Hann bjó á Kirkjubóli á Miðnesi, síðar í Ytri-Njarðvík og síðast í Keflavík.
Fyrri kona hans var Matthildur Árnadóttir, dótturdóttir séra Einars, prests á Útskálum (1581—1605) Hallgrímssonar. Seinni kona Gríms var Rósa Ásgeirsdóttir frá Fitjum í Skorradal. Dóttir þeirra var Oddný kona Gísla Bjarnasonar frá Stokkseyri. Þau bjuggu á Skarði á Landi. Frá þeim er komin merk ætt er rekja má til núlifandi manna. Nefni ég hér á eftir nokkra kunna niðja þe
irra, en þeir eru ýmist 8. eða 9. maður frá Grími.

Keflavik-321

Frú Ásdís Rafnar, prestskona á Útskálum, nú á Akureyri, Soffía Guðlaugsdóttir systir hennar, leikkona í Rvík, frú Matthildur Finnsdóttir, kennari í Gerðum í Garði, Finnur Jónsson, faðir hennar, fræðimaður á Kjörseyri, Magnús Jónsson, bróðir hans, bóndi í Junkaragerði í Höfnum, frú Torfhildur Hólm, skáldkona, frú Guðrún Briem, kona Sigurðar Briem póstmeistara, frú Karolína Ísleifsdóttir, kona Guðm. Hannessonar prófessors, og Halldór Kiljan Laxness skáld. Grímur Bergsson hefur verið drengskaparmaður. Það sést bezt, er litið er á þátt þann, er hann átti í því að liðsinna Hallgrími skáldi Péturssyni, er hann kom frá Kaupmannahöfn vorið 1637, félaus og vinafár, með konuefni sitt Guðríði Símonardóttur. Komu þau út í Keflavík sagt á verzlunarskipi. Hafði Hallgrímur hætt námi til þess að fylgja Guðríði út til Íslands. Hefur hann án efa vel séð, hver kjör biðu sín hér, er hann kaus þennan kost.
Sýnir hinn fagri ferðasálmur, er hann orti áður en lagt var í haf, hve örugglega hann hefur falið sig Guðs handleiðslu. Grímur bjó þá í Ytri-Njarðvík. Hann tók Guðríði á heimili sitt og fæddi hún þar fyrsta barn þeirra Hallgríms það sama sumar. Reyndist Grímur þeim hinn bezti vinur. Mun Guðríður hafa dvalið í Ytri-Njarðvík í umsjá Gríms og konu hans, þar til hún giftist. En Hallgrímur vann eyrarvinnu hjá Keflavíkurkaupmanni um sumarið.
Grími bónda hefur auðsýnilega verið áhugamál að hjálpa þeim enn betur. Hinn 19. maí 1638 ritaði hann bréf til þess að leita samskota til handa Hallgrími í fjársektina, er hann var fallinn í. Bað hann „góða menn á Suðurnesjum gefa honum 1, 2, 3 fiska eftir því sem Guð blési sérhverjum í brjóst”. Grímur komst í mál út af bréfí þessu vegna þess, að hann hafði ritað, að hirðstjórinn, Pros Mundt, hafi gefið í sitt vald barnssektina og ætlaði að láta nægja 8 vættir fiska í stað 18 vætta. Er Grímur kom fyrir Kálfatjarnarþing hið sama haust, gat hann ekki sannað mál sitt, kvað vitni sigld. Var hann því dæmdur fjölmælismaður og bréfið nefnt lygabréf, „hugðu þó flestir að hann mundi satt mæla” segir í ævisögu séra Hallgríms. (Gestur Vestfirðingur V. árg.). Mál þetta kom fyrir alþing 1639. Var Grímur þar. dæmdur í 20 dala sekt til fátækra og Kálfatjarnardómur staðfestur. Voru þó margir er lögðu honum líknarorð. Þannig voru launin fyrir að greiða veg þess manns, er átti eftir að verða einn hinn mesti skáldsnillingur Íslendinga og hefur svo löngum farið. Um samskotin í sektargjaldið er ekki vitað, en hitt er víst, að það hefur verið greitt, því annars hefðu þau Hallgrímur og Guðríður ekki getað gifst. Er sennilegt að hinir fátæku bændur á Suðurnesjum hafi lagt þar til sinn skerf. En Grímur bóndi í Njarðvík hefur enn sem fyrr verið þeim hliðhollur. Eftir giftingu þeirra bjuggu þau í Baulufæti (Bolafæti), sem var hjáleiga frá Ytri-Njarðvík og rétt við túnfótinn. Hafa þau eflaust verið þar í skjóli Gríms.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Munnmæli, er lifðu enn syðra um síðustu aldamót heyrði ég um dvöl þeirra í Bolafæti. Áttu þau að hafa búið þar nokkur ár. Sagt var að Hallgrímur hefði á sumrum unnið hjá Keflavíkurkaupmanni, en gengið heim og heiman kvölds og morgna.
Nálega 250 árum síðar bjó niðji þeirra, séra Hallgríms og Guðríðar, í Bolafæti um mörg ár. Það var Magnús smiður Árnason, hinn mesti atorku- og sæmdarmaður, faðir Vigfúsar skipasmiðs í Veghúsum í Keflavík. En Magnús var sjöundi maður frá séra Hallgrími.
Árið 1703, um vorið, var manntal á Íslandi skráð í fyrsta sinn. Þá var heimilisfólk í Keflavík eftirtaldir 6 menn: Halldór Magnússon sem þar býr 52 ára. Hallgerður Árnadóttir kona hans 42 ára. Jakob Halldórsson sonur þeirra 22 ára. Þorbjörg Nikulásdóttir dótturbarn þeirra 8 ára.
Guðríður Þorsteinsdóttir vinnukona 32 ára. Gunnhildur Þorgeirsdóttir tómthúskona 52 ára.
Um ætterni Halldórs er ég ekki fróð, en Hallgerður kona hans hefur án efa verið dóttir Arna bónda á Stóra-Hólmi í Leiru Jakobssonar, (Árni býr þar 1703, 82. ára) en hann var sonur Jakobs bónda á Þorkötlustöðum í Grindavík, Helgasonar. Þorbjörg litla, dótturbarn þeirra Keflavíkurhjóna, var frá Stóru-Vogum. Þar voru foreldrar hennar húshjón (1703) þau Auðbjörg Halldórsdóttir og maður hennar Nikulás Þóroddsson. Þar er einnig skráð Þorbjörg dóttir þeirra, sögð vel 3. ára. Getur hvorttveggja verið að telpan sé sú hin sama og skráð er í Keflavík, eða að dæturnar hafi verið tvær með sama nafni.
Sá siður var algengur fyrrum, að foreldrar létu börn sín, tvö eða þrjú, heita sama nafni. Mun sá siður hafa átt rót sína að rekja til hins mikla og ægilega barnadauða, er þá lá eins og mara á þjóðinni. En áhersla var lögð á það, að þau nöfn ættarinnar lifðu, er mest voru í heiðri höfð.”

Heimild:
-Faxi, 7. árg., 6. tbl., frú Marta Valgerður Jónsdóttir: Fyrstu ár Keflavíkur, bls. 1-4.

Keflavik-229

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Almenningsskógur er gamalt heiti hraunasvæðisins suður og vestur af Straumsvík. Þetta var úthagi Hraunajarðanna sem voru í eigu kirkjunnar en komust í konungseign við siðaskiptin 1550. Þessar jarðir voru allar seldar um og eftir 1830 og eftir það voru þær í eigu bænda þar til búskapur lagðist að mestu af u.þ.b. 100 árum seinna.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

Á meðan jarðirnar voru í eigu kirkjunnar og konungs gátu íbúar á suðvesturhorni landsins nýtt Almenningsskóg til beitar og þeir fóru þangað til að höggva skóg til kolagerðar. Þegar litla ísöld gekk í garð upp úr 1450 tók að kólna verulega á Íslandi og víðar í norðurhöfum og hratt gekk á skóglendi þar sem viðar- og skógarhögg jókst til muna. Þegar fram í sótti var ekki mikið um stærri tré því þau voru tekin fyrst og með tímanum var lítið annað eftir en nýgræðingur og hverskonar runnagróður, sem var jafnan nefndur einu nafni hrís.

Almenningur

Í Almenningi ofan Straums.

Gegndarlaust hrístaka og skógarhögg gekk nærri gróðrinum í Almenningi og var svo komið um 1700 að varla var lengur hægt að tala um að hrís væri nægjanlegt og skógurinn sem svo hafði verið kallaður var að mestu eyddur. Samt sem áður var haldið áfram að ganga á takmörkuð gæði landsins með sauðfjárbeit og kolagerð. Fyrir kom að tré og runnar voru rifin upp með rótum, sérstaklega næst bæjum en ekki síður upp til fjalla þar sem mest hætta var á uppblæstri. Hirðstjóri konungs lagði álögur á alla bændur sem bjuggu nærri Bessastöðum og þurftu þeir að skaffa einn til tvo hríshesta á ári hverju og stærri jarðirnar þurftu auk þess að útvega einn eða tvo stórviði árlega.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Meginhluti hraunmassans ofan Hraunabæjanna er kominn frá Hrútagjárdyngju, nefndur Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru með fram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur (Fornaselsstígur) í Hraunum..

Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuðu bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Straumssel

Gengið um Straumssel.

Þegar Hraunajarðirnar voru seldar hver af annarri úr konungseign voru heimalönd þeirra skilgreind og miðuðust við landsvæði sem náði þó nokkuð suður fyrir selin. Eigendur jarðanna lögðu ríka áherslu á að verja heimalönd sín og bönnuðu hverskonar nytjar svo sem veiði, hrísrif og beit í úthaganum í löndum sínum.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Ekki fóru allir eftir þessu og töldu sumir að sú hefð að sækja hrís í Almenning og að beita sauðfé þar væri ofar eignarréttinum. Gengu klögumál á víxl þar til sýslumaður kynnti vilja konungs í þessu efni. Landsmenn áttu að leggjast á eitt um að verja þá skóga sem eftir voru í landinu en ekki halda áfram að eyða þeim. Skógarhögg og hrísrif mátti aðeins stunda samkvæmt sérstöku leyfi og undir eftirliti umsjónarmanna skógarhöggs sem konungur lét skipa víða um land.

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

Guðmundur Guðmundsson bóndi var skipaður umsjónarmaður skógarhöggs í Álftaneshreppi um miðja 19. öld. Guðmundur bjó ásamt Katrínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni í Straumsseli og átti fremur auðvelt með að fylgjast með því sem fram fór í Almenningi. Sýslumaður undirritaði reglur um skógarhögg í vitna viðurvist á manntalsþingi í Görðum og skipaði Guðmund í embættið á sama tíma.

Straumssel

Efri-Straumsselshellar.

Guðmundur keypti Straum og hálfa Óttarsstaði árið 1849 með gögnum og gæðum og ítökum og öllum herlegheitum sem jörðunum fylgdu og höfðu og fylgt til sjós og lands. Guðmundur kaus að byggja sér bú í Straumsseli og lýsa staðinn lögbýli. Straumur var í ábúð og leiguliðinn mótmælti því harðlega að Guðmundur gerði Straumssel að lögbýli sínu. Áður hafði Guðmundur átt Lambhaga og hluta Þorbjarnarstaða en seldi hvoru tveggja 31. maí 1848 til Eyjólfs Péturssonar. Guðmundur fékk sínu framgengt en sat ekki Straumssel lengi heldur byggði það leiguliðum og settist að á Setbergi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri.

Guðmundur skógarvörður varð ekki langlífur. Hann lést 44 ára gamall árið 1855 að Setbergi. Guðmundur Tjörvi sonur hans var aðeins fimm ára gamall, en tók eignir föður síns í arf eftir. Katrín móðir Guðmundar Tjörva og ekkja Guðmundar skógarvarðar giftist stuttu seinna Guðmundi Símonarsyni og bjuggu þau fyrst á Setbergi. Þau tóku við búskap í Straumi þegar jörðin losnaði úr ábúð og bjuggu myndarbúi fram undir aldamótin 1900. Að þeim látnum tók Guðmundur Tjörvi við jörðinni, en hann hafði í raun réttri verið bóndi þar um árabil enda móðir hans og fósturfaðir komin nokkuð við aldur er þau féllu frá.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga.

Guðmundur Tjörvi var dugnaðarbóndi, sem átti um hundrað fjár og stækkaði túnin umhverfis Straum. Hann fór í mikla útgræðslu, byggði fjárhús í Fjárhússkarði við Brunntjörn, hljóð Tjörvagerði nálægt Þýskubúð og Gerðið suður af Straumsseli. Þegar ellin fór að gera vart við sig ákvað hann að bregða búi þar sem hann átti enga afkomendur og systur hans höfðu ekki heldur komið neinum börnum á legg, enda gengu þær ekki allar heilar til skógar. Hann seldi Bjarna Bjarnasyni Straum árið 1918. Tveimur árum seinna keypti Bjarni Þorbjarnarstaði ásamt Stóra- og Litla Lambhaga til að eiga möguleika á að fá nægan heyfeng fyrir bústofn sinn.

Bjarni Bjarnason

Bjarni Bjarnason.

Þegar gamli Straumsbærinn brann árið 1925 var ráðist í að reisa nýtt og veglegt hús úr steinsteypu. Þetta var með stærri húsum á landinu og var það tilbúið árið 1926 og stendur enn. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem er í svipuðum stíl og Korpúlfsstaðir og Héraðsskólahúsið á Laugavatni.

Bjarni var íþróttakennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar frá 1912 en tók við skólastjórn 1915. Hélt hann þeirri stöðu til 1929 er hann var skipaður skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni. Bjarni var maður framfara og var annálaður dugnaðarforkur. Hann átti eina af fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og ók daglega milli Straums og Hafnarfjarðar. Bjarni átti drjúgan þátt í að ákveðið var að byggja veglegt steinsteypt skólahús í Hraungerðistúninu við Hamarskotslæk árið 1927 þar sem Barnaskólinn (Menntasetrið við Lækinn var til húsa þar til hann flutti í nýtt hús á Hörðuvöllum.

Straumur

Straumur.

Þegar Bjarni var fluttur alfarinn austur að Laugarvatni reyndi hann að selja Straum, Lambhaga og Þorbjarnarstaði. Það gekk ekki og er sennilegasta ástæðan sú að kreppa skall á um þessar mundir og á sama tíma voru búskaparhættir að breytast verulega hér á landi.

Straumur

Straumur 1930.

Bjarni ákvað því að halda búskapnum í Straumi óbreyttum um sinn og fékk bústjóra til að flytja í Straum og annast búreksturinn. Þegar mæðuveiki kom upp á suðvesturhorni landsins um 1937-38 varð að fella bústofn Bjarna og þar með var engin þörf lengur fyrir bústjóra. Þorbjörg Þorkelsdóttir eiginkona Bjarna leigði KFUK í Reykjavík Straumshúsið fyrir lágt verð sumarið 1938. Næstu árin fékk KFUK húsið til afnota og hélst þessi tilhögun til ársins 1946. Straumur var sumardvalarstaður fyrir stúlkur á vegum KFUK en Vindáshlíð tók við þessu hlutverki árið 1949.

Kapelluhraun

Skógrækt ríkisins fór illa með lfyrrum land Straums í Kapelluhrauni.

Bjarni leitaði stöðugt að kaupanda að Straumi, Þorbjarnarstöðum og Lambhaga en lítið þokaðist, enda voru Hraunin farin í eyði áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á. Hann leitaði til ýmissa aðila, þar á meðal Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra sem þótti koma til greina að Skógrækt ríkisins eignaðist jörðina, en vildi lítið sem ekkert greiða fyrir hana.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.

Sumarið 1944 var bundist fastmælum að Skógrækt ríkisins keypti nokkurn hluta af löndum Straums og Þorbjarnarstaða, en staðreyndin var sú að Bjarni gaf því sem næst þennan hluta jarðar sinnar. Samkvæmt frétt sem birtist í Vísi 14. desember 1944 var um kjarri vaxin hraun að ræða sem ætlunin var að kaupa fyrst og fremst til þess að sjá hversu miklum þroska trjágróður gæti náð á þessum stað. Reykjanesskaginn var illa farinn vegna óhóflegrar beitar og voru miklar vonir bundnar við að auka mætti gróður til verulegra muna með því að friða landið að hluta eða öllu leyti.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Vorið 1948 var gengið frá jarðakaupum Skógræktar ríkisins á 600 ha landi í Almenningi úr landi Straums og Þorbjarnarstaða. Sama vor plöntuðu starfsmenn Skógræktarinnar út 1000 sitkagreniplöntum í Almenningi í upplandi Þorbjarnarstaða í um 50 metra hæð yfir sjávarmáli nærri Fornaseli (ofan við Brunntorfur). Vorið 1954 var landsvæðið girt af með 6 km langri girðingu til að vernda barrtrén sem búið var að gróðursetja og til að sjá hvernig sjálfgræðslu lands í hrauninu miðaði ef það væri beitarfriðað.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Bjarni Bjarnason afsalaði Skógrækt ríkisins landinu sem hann seldi árinu áður með bréfi sem var dagsett 16. febrúar 1949. Þar segir: ,,…Þann hluta …sem liggur milli þjóðveganna til Krýsuvíkur og Keflavíkur, frá norðurbrún Nýjahrauns og að landamerkjum Straums og Óttarsstaða, með gögnum og gæðum og án allra kvaða. – Undanskilið gjöfinni er norðausturhorn landsins (neðsti hluti Nýjahrauns), frá vörðu vestarlega á Rauðamelshólum og línum dregnum frá henni, annars vegar hornrétt á Krýsuvíkurveg, en hins vegar í beina stefnu á Reykjanesbraut á hábrún Nýjahrauns, ofan Þorbjarnarstaða og Litla-Lambhaga.

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Sama dag seldi Bjarni landspilduna sem hann undanskildi til Hákons Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins. Spildan markaðist af ,,Reykjanesbraut að vestan, að norðan af landamerkjum Hvaleyrar og áðurnefndra jarða, og að öðru leyti af línum dregnum úr vörðu á Rauðamelshólum, eins og nánar er tiltekið í afsali mínu til Skógræktar ríkisins, dagsettu í dag.”
Hákon Bjarnason gaf Landgræðslusjóði þessa landspildu til eignar 7. febrúar 1967, að undanskildu túni Þorbjarnarstaða og 100 metra spildu í allar áttir frá túngarðinum.

Árið 1955 gerði Hafnarfjarðarbær makaskiptasamning við Skógrækt ríkisins um viðbótarhluta úr landi Straums. Þann 7. apríl 1994 afsalaði Landgræðslusjóður öllu landi sínu í Straumi til Hafnarfjarðar en það var 223,6 ha að stærð. Ríkissjóður, fyrir hönd Skógræktar ríkisins, seldi Íslenska álfélaginu Straumi, austan Reykjanesbrautar, u.þ.b. 220 ha, 30. nóvember 2001. Undanskilið var í sölunni land Tjarnarhóls, Gerðis og Þorbjarnarstaða.

Brunntorfur

Skógrækt í Brunntorfum.

Vorið 1956 tóku nokkrir einstaklingar við skógræktarsvæðinu í Almenningi og var litið á þetta sem tilraunareit. Landsvæðið sem var lagt undir verkefnið spannaði 140 ha. hrauns, annarsvegar ágætlega gróið beitiland í Almenningi og hinsvegar brunahraun sem var hluti Nýjahrauns sem rann um 1151. Hafist var handa við að girða landið og hófst útplöntun um 1960. Þeir sem tóku stærsta hluta svæðisins í fóstur voru Björn Þorsteinsson sagnfræðingur, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor, Broddi Jóhannesson skólastjóri Kennaraskólans og Marteinn Björnsson. Fengu þeir plöntur og áburð frá Skógrækt ríkisins en önnuðust sjálfir útplöntun með fjölskyldum sínum og vinum. Á næstu árum bættust Kristinn Skæringsson frá Landgræðslu ríkisins og Arngrímur Ísberg í hópinn. Þessir menn kölluðu sig Landvinningarflokkinn sín á milli.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta ÓSÁ.

Gróskumikill barrskógur er nú á þessu 50 ha landi og víða orðinn svo þéttur að full ástæða er til að ráðast í grisjunarvinnu. Sjálfsánar furur og greni er víða að sjá og landið nánast sjalfbært að þessu leyti. Kjarrlendi í Almenningi hefur jafnframt tekið verulega við sér eftir að sauðfjárbeit var að mestu útrýmt á þessum slóðum. Víðáttumiklir birki- og víðiflákar breiða úr sér og inn á milli má finna stór birkitré. Allvíða eru einirunnar en lynggróður og mosi þekja stærsta hluta Almennings. Þetta er fyrirtaks útivistarsvæði og spennandi gönguland með miklu meiri gróðri en hægt er að ímynda sér og ótrúlega margbreytilegum hraundröngum, klettum, hæðum, hólum, flatlendi, kötlum, gjótum og jarðföllum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – tilgáta.

Minjar frá þeirri tíð þegar búskapur var stundaður á Hraunabýlunum finnast út um allan Almenning. Gjásel, Fornasel, Straumssel, Óttarstaðasel og Lónakotssel eru í Almenningi miðjum og allt um kring eru grjóthleðslur sem voru fyrrum stekkir, kvíar, fyrirhlaðnir fjárhellar og skjól, eða skotbyrgi, réttir, vörður og hvaðeina sem tilheyrði gamla bændasamfélaginu. Þessutan liggja þarna þvers og kruss fornar götur, alfaraleiðir og innansveitarleiðir, smalaslóðar og fjárgötur sem enn markar fyrir þó svo að gróðurinn sé í óða önn að fela forðum gengin spor.

Heimild m.a.:
http://www.hraunavinir.net/almenningur/#more-1075

Straumssel

Straumssel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnir

Bæjarsamfélagið Hafnir á Reykjanesi (Reykjanesskaga) gefur heilstæða mynd af búsetu- og atvinnuháttum íbúanna allt frá landnámi til þessa dags. Fjölmargar fornleifar á svæðinu endurspegla hvorutveggja, auk þess sem hús og önnur nútímamannvirki sýna þróun byggðarinnar á liðinni öld.

Hafnir

Hafnir fyrrum.

Nú er meginbyggðin umleikis Kirkjuvog og Kirkjuvogskirkju. Áður náði hún í vestri að Kalmannstjörn (Junkaragerði) og Merkinesi innar (og um tíma enn lengra vestur, að Skjótastöðum og gömlu Hafnabæjunum (Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyri (Eyrarhöfn)).
Í austri, handan Ósa, var Gamli Kirkjuvogur ásamt útstöðvum Hafnabæjanna, bæði við Djúpavog og Seljavog. Uppi í Hafnaheiðinni má enn sjá leifar Kirkjuvogssels, Merkinessels eldra og yngra, auk Möngusels. En þrátt fyrir að langmestu mannvistarleifarnar séu í og við Hafnir hefur sáralítið verið skrifað um mannlífið þar í gegnum aldirnar. Jón Thorarensen reyndi að bæta úr því og má sjá frásagnir hans í Rauðskinnu.

Hafnir-4

Í Höfnum má í dag sjá allnokkur gömul hús, s.s. Kirkjuból, Sjónarhól, Kotvog og Vesturhús. Vestar í byggðinni eru greinilegar tóftir annarra bæja, sem áhugasömu fólki um fyrri tíð er gert nánast ómögulegt að staðsetja með ákveðinni vissu. Ekki er vitað til þess að fornleifaskráning hafi farið fram í Höfnum, en sérstaklega miklilvægt er að það verði gerst sem og að svæðið í heild verði teiknað upp m.t.t. minja og örnefna. Slíkar upplýsingar þarf síðan að gera augljósar öllum þeim er heimsækja Hafnir.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni. Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Ekki liggur ljóst fyrir hvort af þessari skráningu hefur orðið eða hvort henni hafi verið lokið. Ef svo er myndi FERLIR fúslega fjárfesta í slíku eintaki því ætlunin er að teikna upp allt svæði svo fljótt sem auðið er.

Hafnir-5

Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í
lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi.
Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Hafnir-6Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli “Vágs ok Reykjaness”, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara
tengsla við orðið “vágr” og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir-7

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis.
Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í lj
ós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins.

Hafnir-10

Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil “hús” austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og
norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skála ns til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir-11

Í lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar í Merkinesi um Hafnir (Hafnahrepp) kemur eftirfarandi fram um byggðakjarnan: “Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri.  Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri.  Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Hafnir-12

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar.  Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.

Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á.  Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).

Hafnir-13

Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu.  Verður næsta hús Höfn,  þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll.
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét  Búðabakki.  Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Hafnir-15Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.

Hafnir-15

Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús.  Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast  enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vin
stri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð.  Lítið eitt fjær veginum Nýlenda (246) og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu 

Hafnir-16Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson.  Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus.  Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.  Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir voru jafnaðar út.
HafnirÞar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið.  Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.”
Réttin í Höfnum var notuð fram til 1969. Þá gerði þar mikið óveður um veturinn og skemmdi sjórinn hana að hluta. Braut hann niður varnargarða og ýmsar minjar. Þrátt fyrir það má enn sjá móta greinilega fyrir réttinni – norðvestan við byggðakjarnan.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði.
-Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, Byggðasafn Reykjanesbæjar.

Ketill

Í Höfnum.

Grindavík

Fjórða eldgosið ofan Grindavíkur, á milli Sundhnúkagígaraðarinnar og Stóra-Skógfells, hófst kl. 20:23 þann 16. mars 2024. Þetta er sjöunda hrinan í röð eldgosa á þessum sveimi síðan 2021.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024 og þriðja 8. febrúar 2024. Fyrri goshrinurnar voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, en líklegt er að þessi verði svolítið langlífari í tíma, þótt einnig skammvinn verði, að mati sérfræðinga. Eitt er þó víst – við getum átt von á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum möguleikum.

Sprungan að þessu sinni er 3-4 km löng. Hraun rennur mestmegnis til suðvesturs á þessu stigi, en einnig til suðausturs í átt að Hrauni og Sloka. Bjarminn sést víða í kvöldhúminu á Suðvesturhorninu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars. 2024.

Fyrirvari að aðdraganda gossins að þessu sinni var u.þ.b. ein mínúta.
Um er að ræða stórkostlegt sjónarspil náttúruaflanna þar sem þau sýna ofurmátt sinn gagnvart okkur mannfólkinu.

Gosið er nokkrun veginn á sömu slóðum og gosið sem varð 18. desember. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu. Fyrstu klukkustundirnar munu þó skera úr um það. Hraunið er óvenjuþunnfljótandi og rennur því hratt undan hallandi landinu s.s. fyrr er lýst.

Goshrinunni að þessu sinni lauk þann 9. maí sama ár – eftir 54 daga dugnað…

Sjá myndir úr eldgosunum fjórum við Sundhnúk.

Grindavík

Grindavík – eldgos 16. mars 2024.

Camp Hopkins

Skammt norðan Nesvegar millum Reykjaness og Reykjanesbæjar hefur tveimur tilbúnum vörðum fyrir komið; nokkurs konar minnismerkjum.  Á sitthvorri vörðunni er skilti þar sem á má lesa eftirfarandi texta:

Varða við Nesveg

Vestari varðan, minnismerki um Camp Hopkins.

Á þeirri vestari; “Bandaríski herinn á Íslandi

Vorið 1941 kom Churchill forsætisráðherra Breta fram með þá tillögu við Fanklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, að bandarískur her leysti sveitir Breta af. Roosevelt var tregur til að senda hermenn án þess að ósk um slíkt kæmi frá íslenskum stjórnvöldum. Engu að síður þá var snemma í júní tekið til við að udnirbúa för bandarísks herliðs til Íslands. Bandarískar könnunarsveitir voru sendar til landsins til að skoða hugsanlega staði fyrir eftirlitsflugvelli og safna gögnum um húsnæði og lífskjör; loftvarnir, varnir við ströndina og við hafnir; og ástand hernaðarmannvirkja.
Bandaríkjamenn fengu formlegt boð frá Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra Íslands, í júlí 1941. Þann sama dag tilkynnti bandaríkjaforseti þinginu um ráðstöfun sveita úr loft-, land- og sjóher til Íslands.

Bandarískir sjóliðar fyrstir á staðinn

Camp Hopkins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Fyrsta stórfylki sjóhersins, undir stjórn John Marston, hershöfðingja, var fyrsta bandaríska herliðið sem kom til Íslands. Það lenti við Reykjavíkurhöfn 7. júlí og fékk brátt liðsauka frá flugher, flota og landher.
Sjóliðarnir bjuggu upphaflega til bráðabirgða í Nissenskálum sem bresku hersveitirnar höfðu reist og hófust brátt handa við að byggja nýjar herbúðir. Victoria Park og Camp MacArthur, tvær samliggjandi herbúðir í Mosfellssveit norðaustur af Reykjavík, voru teknar í notkun af fyrsta herfylki. Annað herfylki kom sér fyrir í Camp Baldurshagi. Þriðja herfylki tók yfir breskar búðir, Camp Brautarholt, sem voru staðsettar á klettanesi nálægt innsiglingunni í Hvalfjörð. Þetta voru litlar ókláraðar búðir án rafmagns eða pípulagna. Hlöðu hafði verið breytt í matsal yfirmanna. Fimmta varnarherfylki, loftvarnasveit, var dreift í nokkrar búðir nálægt höfninni og fyrir austan borgina. Stórskotaliðið sá um að manna byggingarflokka sem reistu marga Nissenskála og önnur herbúðarmannvirki og byssustæði.

Camp Hopskins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Sjötta sjóliðasveit sem var hreyfanleg sveit, fékk það verkefni að byggja nýjar herbúðir til að hýsa sveitir landhersins. Litlar búðir með Nissenskálum höfðu áður verið reistar af Bretum, en pípu- og raflagnir og aðra aðstöðu átti enn eftir að útbúa. Sjóliðarnir reistu þess bráðabirgðaskála með hraði sem svefnskála, spítala, kirkjur, matsali, bíósali, vöruhús og skrifstofur. Í janúar 1942 fékk Sjóherinn skipun um að láta Landhernum eftir herbúðir sínar og snúa aftur til Bandaríkjanna þar sem þeim yrði fengin önnur verkefni. Í mars höfðu stórar sveitir bandaríska flotans. landhersins og flugsveita landhersins (AAF) komið sér fyrir á Íslandi.”

Á þeirri austari; “Bandaríkjaher tekur við stjórninni

Varða norðan Nesvegar

Austari minnisvarðinn um Camp Hopkins norðan Nesvegar…

Í apríl 1942 var skiptingunni frá bresku herliði yfir í bandaríkst herlið að mestu lokið. 22. apríl tók Bandaríkjaher við yfirstjórn herliðsins á Íslandi, undir stjórn Charles H. Bonesteel majórs. Boonesteel setti upp aðalstöðvar í Camp Tadcaster (sem var endurskírður Camp Pershing) við Elliðaár í Reykjavík, og var þá 3 km fyrir utan borgina og 1.5 km fyrir austan fyrrum höfuðstöðvar breska hersins í Camp Alabaster.
Hersveitirnar voru dreifðar um fjöldan allan af herbúðum innanbæjar, fyrir austan borgina, í Hafnarfirði í suðri og í Mosfellsbæ í norðaustri. Aðalstöðvar bandaríska flotans voru staðsettar í Camp Knox í norðvesturhluta Reykjavíkur og flugstöðvar flotans tóku yfir tvær stórar herbúðir við norðurströnd Fossvogs nálægt flugvellinum sem Bretar höfðu byggt. Flestar þessara búða hafa nú horfið vegna stækkunar borgarinnar. Þær fáu byggingaleifar sem enn standa eru vel varðveittar steinhleðslur, skorsteinar, vegir, stígar og stöku virki.

Herbúðabyggingar og herbúðalíf

Camp Norflok

Uppbygging braggabyrgðar

Liðsafli verkfræðisveita sem áttu að sjá um byggingu herbúða var lítill og var oft aukinn með mönnum frá öðrum sveitum auk innlendra verkamanna. Verkið sóttist seint vegna óblíðs veðurfars og upp komu alvarleg tæknileg vandamál. Aðflutningar byggingarefnis voru mikið vandamál þar sem Ísland var langt frá birgðastöðvum hersins.
Stórskotalið sem áttu að byggja fleiri herbúðir sendu vinnuflokka á valda staði til að reisa Nissenskála undir verkstjórn fárra manna úr sveit konunglegra verkfræðinga. Ekki var óalgengt að mennirnir ynnu 16 stundir á sólarhring og fjöldinn allur af herbúðum var reistur á nokkrum vikum. Hópur sex eða fleiri manna gat reist skála á nokkrum klukkustundum. Hóparnir luku 16 skálum á dag.

Camp hopkins

Camp Hopkins.

Nissenskálarnir var einfaldur í smíði. Endar hvers skála voru gerðir úr þremur viðareiningum sem mhægt var að setja saman á nokkrum mínútum. Klæðningin að innanverðu var gerð úr viðarplötum á 4×2 stálgrind. Bogadregnir veggirnir og þakið voru klæddir bárujánsplötum. Tvö lög að málmplötum voru sett neðst í hliðarnar en þakið var með einfaldri klæðningu. Byggingunni var haldið uppi af sveigðum burðarbitum (T-bitum) úr stáli. Hverjum skála fylgdi fullkomið sett af verkfærum og tækjum. Það eina sem þurfti að gera á staðnum var að útbúa grunn úr steinsteypu eða hraunkubbum.”

Fyrrnefndir braggar voru nefndir eftir hönnuðinum, Bjorn Farlein Nissen, en hann fæddist í Gjorvik nálægt Osló 1863, fluttist til Ameríku og starfaði þar við hönnun.

Camp Hopkins

Camp Hopkins -uppdráttur.

Keflavík

Dr. Fríða Sigurðsson skrifaði árið 1972 í Sunnudagsblað Tímans um upphaf þéttbýlis, “Tvær aldir í Keflavík”:
Keflavik -221“Í Keflavík hafði öldum saman aðeins verið bóndabær. Víkin hafði reyndar verið notuð sem höfn, ef ekki fyrr, þá að minnsta kosti með vissu síðan í byrjun 16. aldar, en enginn kaupmaður hafði þar fast aðsetur á undan Holger Jacobæus. Því hefur reyndar verið haldið fram, að Christen Adolph, sonur Holgers, hafi fæðzt í Keflavík, og hefði það þá verið árið 1766 eða 1767, en ekki hef ég getað fundið sannanir fyrir byggð í Keflavík á timabilinu á undan 1772. Heldur ekki í manntali frá 1816 finnst nokkurt fólk, sem sagt er fætt í Keflavík á þessu tímabili, og hefði manneskja, fædd 1766, þá þó ekki verið eldri en um fimmtugt!

Keflavík

Keflavík 1877.

Því þykir mér rétt að álíta árið 1772 fæðingarár Keflavíkurbyggðar, og var stundin sú, þegar Holger Jacobaeus ásamt fjölskyldu sinni og fylgdarliði steig í land í Keflavík, sennilega einn góðan vordag í júni 1772.
Í byrjun 16. aldar vitum við um Englending, Robert Legge frá Ipswich, sem árið 1540 kvaðst hafa stundað Íslandssiglingar í 26 eða 27 ár og lent þar meðal annars í Keblewyckey. (Björn Þorsteinsson: Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld, bls. 94). Og það muna allir, að Hallgrímur Pétursson kom út 1637 á Keflavíkurskipi. En byggð var þar ekki nema eitt lítið kotbýli. Þó að Hallgrímur hafi ef til vill verið púlsmaður í sjálfri Keflavíkinni, þá bjó hann á Bolafæti i Njarðvíkurlandi! Og enn var aðeins einn bóndabær í Keflavík 125 árum seinna, þegar manntal var tekið 1762.

Keflavík

Frá Keflavík.

Þéttbýlið og mannfjöldinn voru í Leirunni, í Garðinum, á Rosmhvalanesi og í Kirkjuvogi, en fjölsetnasta hverfið var Stafnes með hjáleigum sínum. Þar hafði konungsútgerðin bækistöð sína, þar sat fyrsti íslenski landfógetinn, Guðni Sigurðsson. Og þegar Skúli Magnússon hafði tekið við þessu embætti, var Stafnes sýslumannssetur í tvö ár. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. Og í nánustu nánd við útvegsstaðinn Stafnes voru verzlunarstaðirnir, Þórshöfn, á 18. öld ekki lengur notuð, og Bátsandar, eins og þessi staður var skrifaður þá, síðan 1640 hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum.
Þetta gerbreyttist, þegar konungsútgerðin var tekin af. Eftir því sem útgerðin á Stafnesi og með henni verzlunin á Bátsöndum minnkaði færðist byggðin til og Keflavík reis úr ómerkilegu kotbýli, þangað til hún varð höfuðstaður Suðurnesja.

Stafnes

Á Stafnesi.

Konungsútgerðin hafði lengi barizt í bökkum, og margt heilræði hafði verið reynt, en þegar rentukammer reiknaði loksins út, að kostnaðurinn við kost, föt og laun þeirra manna, sem stöðugt varð að hafa við útgerðina (ráðsmann, smið, fjóra vinnumenn, tvær stúlkur, einn dreng), nam nærri 250 ríkisdölum meira en hvað allt fiskiríið með innstæðubátum fimmtán færði inn, þá fékkst konungurinn til að afnema konungsútgerðina með lögum þann 12. desember 1769. Bátarnir fimmtán og sjóbúðirnar þrjár voru seldar og fasta starfsfólkið sent heim. Varð það endirinn á hinu illræmda mannsláni og að upphafi Keflavikurbyggðarinnar!

Keflavík

Keflavík 1901.

Eftir að hætt var að gera út frá Stafnesi, lögðust fyrst hjáleigurnar, hinir svokölluðu Refshalabæir, í eyði. Á Stafnesi sjálfu hélt bóndinn, Magnús Jónsson, áfram að búa, og eftir hans andlát 1784 ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, þá orðin 73 ára gömul. 1786 eru aðeins þrir menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað,1790 jafnvel bara tveir, hjón ein. Þau tolldu þar fram undir aldamót og ólu á þessum árum nokkur börn, en þegar þau fóru burtu, lagðist Stafnes í eyði. Tók þessi þróun ekki nema þrjátíu ár. Með útveginum á Stafnesi hnignaði einnig verzlunin á Bátsöndum. Frá því að konungsútgerðin var afnumin 1769, sat enginn kaupmaður á Bátsöndum þangað til Dýnus Jespersen kom 1777.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

1778 var enn einu sinni nítján manns búsett þar. 1789 tekur Hinrik Hansen við af Jespersen, síðasti kaupmaðurinn á Bátsöndum. Þegar flóðið fræga braut húsin varð hann að yfirgefa staðinn. Hann fékk fyrst húsaskjól á Loddu, en hreiðraði þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi”. Þar dvelst kaupmannsfólkið enn, þegar manntal er tekið árið 1800, en 1801 flyzt það, eins og kunnugt er til Keflavíkur. Simon Hansen hlýtur að hafa áttað sig á því að ekki var hægt að snúa vísi tímaklukkunnar til baka. Hann hlýtur að hafa gert sér ljóst, að verzlunarstaðurinn hafði verið á niðurleið síðustu þrjátíu árin, og átti sér ekki viðreisnar von. Að flóðið setti bara punktinn yfir i-ið, sem skrifað hafði verið 1769. Þess vegna settist hann að í Keflavík, þó að þar væri annar kaupmaður fyrir. Því einnig í Keflavík höfðu tímarnir breytzt. Þar sem 1762 höfðu aðeins búið nokkrar sálir, var tíu árum seinna risinn vísir að byggð.

Keflavík

Í tveimur greinum í Faxa, blaði Suðurnesjamanna, hef ég skýrt frá því, að þegar árið 1772 hljóti fleiri menn að hafa búið í Keflavík en bóndinn og hans fjölskylda. Í jólablaðinu 1969 hef ég sagt frá því, að snemma árs 1773, áður en vorskipin komu út, hafi einhver borgarafrú Brickers dáið í Keflavík, augsýnilega erlend kona, sem ekki tilheyrði Keflavíkurkotinu, og barn eitt fæðzt, Gottfrede Elisabeth, dóttir kaupmannshjónanna Jacobæus, og hljóta hjónin að hafa dvalizt í Keflavik árið áður. En guðfeðginin við skírnina voru þrír Danir. Ályktaði ég af þessu, að allt þetta fólk hafi búið i Keflavík þegar árið 1772, rúmum tveimur árum eftir að konungsútgerðin hafði verið tekin af með lögum þann 12 desember 1769. Eftir var þá að leysa fyrirtækið upp. Salan gekk treglega, og getur vel hafa dregizt fram á árið 1771, og var það sennilega þar af leiðandi, að kaupmaður settist að í Keflavík. Í maíblaði 1970 hef ég þá fært sönnur fyrir þessari tilgátu minni um byggð í Keflavík árið 1771 með því að benda á „Suðurnesjabókina gömlu”, eins og ég nefndi hana, skattabók Rosmhvalaneshrepps fyrir árin 1772 til 1778. En sá hreppur náði á þeim tima alla leið frá Bátsöndum um Miðnes, Garðinn og Leiruna til Keflavíkur. Hefur bók þessi verið í öruggri geymslu að Útskálum þangað til 1901. Þegar hún komst á þjóðskjalasafnið var gert við hana, og er hún nú í öruggu bandi og tættu blaðkantarnir festir á pergament. Hún er fallega skrifuð og auðlæsileg. Þessi gamla hreppsbók byrjar nú einmitt á þessu sama ári, 1772, og staðfestir hún, að 1772 hafi verið tveir „kaupstaðir” í hreppnum, Bátsandar og Keflavík, og í Keflavík hefur þá setið kaupmaður, undirkaupmaður, „annað þeirra þjónustulið” og „búlausir menn”. Var signor kaupmaður Jacobæus skatthæsti einstaklingurinn í hreppnum, en „Keflvíkingar” hafa á þessu ári 1772 borið nærri því helminginn opinberra gjalda!

Keflavík

Kaupmannssetrið á Bátsöndum hélzt enn um 25 ára skeið við hliðina á hinu nýja kaupmannssetri í Keflavík, en um aldamótin lagðist það niður eins og kunnugt er, og einnig byggðin á Stafnesi fór þá i eyði, en báðir þessir staðir höfðu verið i mestum blóma meðan konungsútgerðin var og hafði aðsetur sitt á Stafnesi og höfn á Bátsöndum.
Ekkert hef ég fundið, sem bendir til þess, að byggð hafi risið í Keflavík fyrr en 1772, svo við megum víst líta á þetta ár sem fæðingarár Keflavíkurkaupstaðar. Ekki vitum við, á hvaða degi vorskipin komu út árið 1772 með Holger Jacobæus ásamt fjölskyldu og fylgdarliði hans innanborðs, en þegar hann einhvern góðan veðurdag, sennilega í júní, steig í land í Keflavík með barn og buru, þá fæddist Keflavík, og mega Keflvíkingar því í vor halda upp á tvö hundruð ára afmæli byggðar sinnar!”

Keflavíkurbærinn

Keflavíkurbærinn.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 23. apríl 1972, bls. 331-332.

Urriðakotshraun

Spor Jóhannesar Sveinssonar Kjarval liggja víða í hraununum umhverfis Garðabæ og Hafnarfjörð, en hann átti sér nokkra uppáhalds staði og þangað kom hann oftar en einu sinni.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun-beitarhús.

Sumarið 1966 fékk Kjarval leigubílstjóra til að aka sér í áttina að Vífilsstöðum en hann málaði stundum myndir í Vífilsstaðahrauni, en í þetta sinn lá leiðin aðeins lengra. Bílstjórinn ók svokallaðan Flóttamannaveg, eða Elliðavatnsveg eins og hann heitir réttu nafni. Þegar komið var á móts við Urriðakotsholt beygði bílstjórinn út af veginum. Hann ók eftir vallgrónum vegslóða sem lá að löngu yfirgefinni herstöð [Camp Russel] sem Bretar komu sér upp í jaðri Urriðakotshrauns á stríðsárunum. Á þessum slóðum er núna golfvöllur sem félagar í Oddfellow reglunni á Íslandi létu útbúa á sínum tíma og ruddu í leiðinni herstöðva tóftunum í burtu.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – fjárrétt Kjarvals; beitahús frá Urriðakoti.

Kjarval fór út úr leigubifreiðinni og gekk af stað með trönur sínar, liti og striga upp í hraunið, sem nefnist á þessum slóðum Bruni, en heildarnafn þessa hluta Búrfellshrauns er Svínahraun, þó svo að Urriðakotshrauns nafnið sé oftast notað í dag.

Urriðakotshraun

Kjarval – Urriðakotshraun.

Kjarval fann sér stað á þægilega sléttum bala og horfði norður í áttina að Vífilsstöðum, sem sjást ekki frá þessu sjónarhorni þar sem norðvesturendi Vífilsstaðahlíðar skyggir á húsið. Þarna málaði hann sprungna hraunkletta og virðist hafa komið nokkrum sinnum frá vori og frameftir sumri á þennan sama stað því það eru til nokkur málverk sem hann málaði frá þessu sama sjónarhorni.

Einhverju sinni hefur hann ákveðið að snúa málartrönum sínum í hina áttina og horft til suðurs í átt til Reykjanesfjalla.

Urriðakot

Fjárhús frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Beint fyrir framan hann blasti við reglulega löguð hleðsla, þrír veggir úr hraungrjóti, lítil og vel hlaðin rétt sem var opin í norðurátt. Hleðslan er þannig löguð að vel má hugsa sér að þarna hafi verið ætlunin að útbúa lítið fjárhús eða smalaskjól. Þessa fjárrétt sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi og í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd hér að ofan. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega Fjárrétt.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun.

Gísli Sigurðsson og Svanur Pálsson tóku saman örnefnalýsingu sem fjallar um land Urriðakots og er lýsing Svans dagsett 30. mars 1988. Móðir hans, Guðbjörgu Guðmundsdóttur, fæddist í Urriðakoti árið 1906 og bjó þar til 1939. Guðmundur Jónsson, bónda í Urriðakoti, fæddist þar 1866 og bjó í Urriðakoti til 1941. Foreldrar hans settust að í Urriðakoti árið 1846, þannig að þessi fjölskylda bjó á jörðinni í allt að eina öld. Hluti upplands Urriðakots er nú gjörbreyttur frá fyrri tíð.

Heimild m.a.:
-http://www.hraunavinir.net/fjarrett-kjarvals-i-svinahrauni/#more-1739

Urriðakotshraun

Fjárréttin í Urriðakotshrauni.