Krýsuvík

Það hlaut að koma að því!. HS-orka hefur hafið framkvæmdir við borstæði í Krýsuvík undir Hettu og Baðstofu og byrjaði á því, að venju, að ganga um svæðið á „skítugum skónum“.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar 2024.

Fyrsta fórnalambið var, að venju, ein fornleif af tveimur frá 18. öld, eða jafnvel þeirri 17., þegar Krýsuvíkurbóndi flutti út brennistein úr námunum til tekjuauka. Stórvirkri vinnuvél hafði einfaldlega, af óskiljanlegri ástæðu, verið ekið rakleitt yfir sögulega tóftina, líkt og jafnan er gert við upphaf stærri framkvæmda á Reykjanesskaganum. Þetta virðist vera það fyrsta sem framkvæmdaraðilum dettur í hug við þegar þeir mæta á vettvang. Akstur vinnuvélarinnar nákvæmlega þarna er með öllu óskýrður. Svar hlutaðeigenda verður eflaust sem og svo oft áður við slíkar aðstæður; „Sorry, gröfustjórinn vissi ekki betur„. Fulltrúi Byggðasafns Hafnarfjarðar mun að öllum líkindum, líkt og vanalega, sverja af sér alla vitneskju um minjarnar þrátt fyrir að hafa, greinilega með mistækum árangri, talið sig hafa fornleifaskráð svæðið opinberlega. Þessar tilteknu minjar, þrátt fyrir skráðar fyrirliggjandi heimildir af svæðinu sem og vitneskju um þær, fóru bara, að venju, milli „skips og bryggju“ hlutaðeigandi yfirvalda.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Ef að líkum lætur mun Minjastofnun ekkert aðhafast vegna þessa, þrátt fyrir að vitað var um minjarnar eftir opinberlega birta ritgerð um brennisteinsnám á Reykjanesskaga frá 2011 á vefsíðunni ferlir.is sem og útgefna sérstaka sjálfstæða fornleifaskráningu af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum, Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík frá árinu 2014 að frumkvæði fornleifafyrirtækisins Antikva, auk þess sem fulltrúi HS-orku, BÓF, hafði áður verið kvaddur á svæðið, honum bent sérstaklega á minjarnar, og hann beðinn, með fullri vinsemd, um að gæta þess að fornleifunum þeim yrði hlíft ef og þegar að kæmi að aðkomu stórtækra vinnuvéla.

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar.

Þrátt fyrir allar ábendingarnar var ekki talin ástæða, að mati ráðandi aðila, í aðdragandanum, að fornleifaskrá framkvæmdarsvæðið sérstaklega, sem verður nú að teljast einstaklega ámælisvert. Þarna hafa kjörnir fulltrúar ríkis, sveitarfélagsins og framkvæmdaraðilans augljóslega sofið á verðinum. Talandi um „græna vegginn“ í Mjóddinni??!!

Eyðileggingin er dæmigerð fyrir sofandahátt þeirra, sem fá greitt fyrir að eiga að vinna vinnuna sína, en virðast því miður vera allt of uppteknir við eitthvað allt annað en það sem þeim er ætlað….
Fuglavíkursel

Friðþór Eydal leiðsagði hópnum um varnarliðssvæði Keflavíkurflugvallar og nágrennis árið 2004.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Í maí s.l. (2004) voru liðin 53 ár frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Meðmælendur samningsins segja hann eina mikilvægustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda á seinni tímum og eina þá heillavænlegustu. En hún átti sér nokkurn aðdraganda.
Alvarleg staða heimsmálanna á seinni hluta síðustu aldar hafði áhrif á íslensk stjórnvöld, m.a. valdataka kommúnista í Tékkóslóvakíu 1948, fyrsta kjarnorkusprenging Sovétríkjanna í september 1949 og upphaf Kóreustríðsins í júni 1950. Árið 1949 gerðist Ísland stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og var varnarsamningurinn við Bandaríkin gerður á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Honum er ætlað að tryggja varnir Íslands og stuðla að friði og öryggi áþví svæði sem samningurinn tekur til.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – framkvæmdir.

Varnarliðið samanstendur af mörgum aðskildum starfseiningum innan Bandaríkjahers, en þar starfa einnig hermenn og fulltrúar frá Hollandi, Noregi, Danmörku og Kanada. Um 750 Íslendingar starfa fyrir varnaliðið (en þeim fer fækkandi). Varnarliðið rekur ratsjárstöðvar, annast skipa- og kafbátaeftirlit, flugvallarekstur, þyrlubjörgunarflug, fjarskipti og landvarnir.
Það var árið 1941 að Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning. Samningurinn batt í raun endi á þáverandi hlutleysisstefnu Íslands. Sama ár komu fjögur þúsund landgönguliðar til landsins.

Winston Churhill

Winston Churchill í Reykjavík.

Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands kom til landsins, en að því tilefni var haldin stærsta hersýning, sem um getur. Árið 1943 var bandaríski heraflinn á Íslandi hvað fjölmennastur, eða um 45.000 manns. Þá voru hér á landi um 50.000 hermenn (einnig frá Bretlandi og Kanada), eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum tók að fækka í heraflanum.

Keflavíkurflugvöllur var lagður af bandaríkjaher í heimstyrjöldinni síðari. Skömmu eftir hernám landsins hófu Bretar flug frá Kaldaðarnesi á bökkum Ölfusár og sumarið 1941 hófst flug þeirra frá Reykjavíkurflugvelli, þrátt fyrir að gerð hans væri ekki að fullu lokið. Jafnframt voru sléttaðir lendingarstaðir á nokkrum stöðum er nota mátti í neyð. Einn slíkur neyðarflugvöllur var útbúinn á Garðskaga og voru það fyrstu flugvallarframkvæmdir á Suðurnesjum.

Winston

Winston á Vellinum.

Bandaríska herráðið áætlaði lagningu stórs flugvallar fyrir sprengju- og eftirlitsflugvélar á suðvesturhorni landsins ásamt minni flugvelli fyrir orrustuflugsveit er þar höfðu aðsetur. Beindust augu Bandaríkjamanna strax að Suðurnesjum, enda Bretar þegar með vísi að flugvelli á Garðskaga og svæðið nánast hindrunarlaust til flugs.
Ljóst var að flytja þyrfti mikinn fjölda flugvéla frá Bandaríkjunum til Bretlands til þátttöku í styrjöldinni í Evrópu. Lagning flugvallanna tveggja, Patterson á Njarðvíkurfitjum og Meeks á Háaleiti hófst snemma árs 1942.
WinstonVar Patterson flugvöllur tilbúinn til takmarkaðrar umferðar strax um sumarið er flugvélum 8. flughersins bandaríska var flogið til Bretlands með viðkomu á Grænlandi og Íslandi. Meeks flugvöllur, er við þekkjum nú sem Keflavíkurflugvöll, var tekinn í notkun í apríl 1943 og framkvæmdum við flugvellina lokið þá um haustið.

Patterson flugvöllur þjónaði orrustuflugvélum Bandaríkjamanna sem önnuðust loftvarnir á suðvesturhorni landsins til stríðsloka, en Meeks var áningarstaður í millilandaflugi eins og æ síðan. Einu umsvif Breta á Keflavíkurflugvelli (Meeks) voru starfsemi Liberator flugvéla, sem flogið var til stuðnings skipalestum og aðgerðum gegn þýskum kafbátum. Þessar flugvélar, sem aðsetur höfðu í Reykjavík, voru stórar og þungar til að geta athafnað sig þar fullhlaðnar við allar aðstæður. Lögðu þær því gjarna upp í eftirlitsflug frá Keflavík, þar sem þær höfðu aðsetur í Geck flugskýlinu, en lentu í Reykjavík að ferðinni lokinni þar sem áhafnirnar höfðu aðsetur.

Keflavíkurflugvöllur

Braggar við Pattersonflugvöll.

Rekstri Pattersen flugvallar var hætt að styrjöldinni lokinni sumarið 1945, en fámennt herlið annaðist rekstur Meeks flugvallar til ársins 1947, en bandarískir borgarlegir starfsmenn tóku við rekstrinum samkvæmt Keflavíkursamningnum, sem gerður var milli Íslands og Bandaríkjanna haustið 1946. Nafnið á vellinum kom frá flugmanni, sem hafði farist í flugi frá Reykjavíkurflugvelli. Vél hans flæktist í vírum við brautarendann og skall í Skerjafjörðinn (SJ). Flugvöllurinn hlaut þá nafnið Keflavíkurflugvöllur og varð alþjóðaflugvöllur í eigu Íslendinga.

Keflavíkurflugvöllur

Minnismerki á Keflavíkurflugvallarsvæðinu.

Það var árið 1946 sem íslensk stjórnvöld höfnuðu beiðni Bandaríkjamann um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Keflavíkursamningurinn var undirritaður og ákveðið að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram tiltekin afnot af Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn var síðan afhentur Íslendingum. Árið eftir yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir svæðið.
Árið 1949 gerast Íslendingar stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Aðildin veldur innanlandsdeilum og óeirðum við Alþingishúsið.

Keflavíkurflugvöllur

Herstöðin á Miðnesheiði.

Fyrstu hersveitir Bandaríkjahers koma til landsins 7. maí 1951 og setja upp bækistöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þær voru undir stjórn hershöfðingja í landhernum, sem laut stjórn Atlantshafsherstjórnar NATO og Atlantshafsherstjórnar Bandaríkjanna. Vallarsvæðið og nágrenni verður meginathafnasvæði varnarliðsins. 1955 var fjarskiptastöðin Broadstreet við Seltjörn flutt til Grindavíkur.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Húsnæði varnarliðsins var mjög takmarkað í fyrstu. Þúsundir hermanna höfðu búið í braggahverfum í námunda við flugvöllinn á styrjaldarárunum, en flestar þessara bráðabirgðabygginga voru rifnar eða gengu úr sér á árunum eftir stríð. Þá þurfti flugvöllurinn, sem upphaflega var með þeim stærstu í heimi, allmikla endurbóta við.
Varnarliðið hefur allnokkrum sinnum komið við sögu björgunarmála. Má þar t.d. nefna Vestmannaeyjagosið 1973 og Goðastrandið 1994. Árið 2001 fékk þyrlubjörgunarsveitin viðurkenningu fyrir björgun um 300 mannslífa frá því að hún kom til landsins árið 1971.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í upphafi fimmta áratugar síðustu aldar var Háaleiti fyrir ofan Keflavík einungis sorfinn jökulruðningur. Efst á honum trjónaði háreist gígopið (þar sem flugstjórnarturninn á Keflavíkurflugvelli stendur nú). Norðan þess stóð Kalka, hvítkölkuð stór varða, áberandi landamerki og kennileiti á Miðnesheiði.
Allnokkrar minjar eru innan varnarsvæðisins. Má t.d. nefna Fuglavíkursel, gömlu Hvalsnesleiðina, Stafnessel, Gamla-Kirkjuvog, tóftir við Djúpavog og á Selhellu, Kaupstaðagötuna, Hansakaupmannaverslunarstaðinn við Þórshöfn og Kirkjuvogssel, auk þess sem svæðið sker í sundur Skipsstíginn, hina gömlu þjóðleið milli Njarðvíkur og Grindavíkur.

Varnarsvæði

Varnarsvæði Keflavíkurflugvallar – fylgir Tilkynningu frá ríkisstjórninni 21. maí 1942.

Mikilvægt er fyrir stolt okkar Íslendinga að endurheimta það svæði, u.þ.b. 50 metra breytt þar sem hitaveitulögnin liggur í gegn, sem fyrst. Bandaríkjamenn ættu að hafa skilning á því að ávallt er mikilvægt að halda þjóðleiðunum opnum, jafnvel á stríðstímum.
Annars hafa minjar innan svæðisins verið ágætlega varðveittar án þess að það hafi beinlínis verið ásetningur þeirra, sem með það höndla.
Þess má geta að lokum, til fróðleiks, að í aðalstjórnstöð NATO á Keflavíkurflugvelli hangir stórt spjald með tveimur myndum undir yfirskriftinni Wanted Dead and Alive; annars vegar er mynd af Bin Laden (dead) og hins vegar (alive) er mynd af hvíthærðri FERLIRsálfkonu. Svo virðist sem hermönnunum sé meira í mun að ná hinni síðarnefndu – alive.

-Upplýsingarnar eru m.a. úr riti um 50 ára afmæli varnarsamningsins 2001 og frá Friðþóri Eydal.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleiðin innan varnarsvæðisins að Hvalsnesi.

Hörðuvallastöð

Þann 18. desember 2024 var sýningin „Köldu ljósin“ opnuð undir búnni á Lækjargötu við Hörðuvelli í Hafnarfirði.
Sýningin var tileinkuð starfi Jóhannesar Reykdal sem sannarlega var einn af þeim sem setti sitt mark á Íslandssöguna og sögu Hafnarfjarðar með skapandi hugsun sinni og framkvæmdagleði.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal (1874-1946).

Jóhannes Reykdal var einna þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í rafvæðingu á Íslandi en þó þekktur í Hafnarfirði fyrir margt annað og fyrir að hafa rutt veginn á svo marga vegu. Hann var fæddur 1874 og lést 1946.

Sýningin „Köldu ljósin“ fjallar um tímamótin þegar fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1904 og fyrstu húsin þá raflýst. Síðan eru liðin 120 ár. Talið er að fyrsta raflýsingin í desember 1904 hafi náð til fjögurra ljósastaura og rafmagn hafi verið leitt í 16 hús. Í sýningarrýminu er búið að endurskapa trésmiðju Jóhannesar og með gagnvirkum og táknrænum hætti verður kveikt á fyrstu húsunum sem fengu rafmagnið í Hafnarfirði árið 1904. Forsagan er að Jóhannes flutti inn rafal frá Noregi þetta sama ár til að rafvæða trésmiðju sína og fékk í framhaldinu færa menn til að leggja einnig rafmagn í nokkur hús.

Hörðuvallastöð

Hörðuvallastöð Jóhannesar Reykdals.

Jóhannes Jóhannesson Reykdal reisti þessa stöð við Hörðuvelli. Hann reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909. Þá keypti Hafnarfjarðarbær rafstöðina.
Sýningin „Köldu ljósin“ verður aðgengileg alla daga ársins allan sólarhringinn og er það snjöll og skemmtileg að gestirnir sjá sjálfir um að virkja sýninguna með því að toga í spotta og tendra virknina. Gangandi og hjólandi umferð um þessar sögulegu slóðir er mikil og ég sannfærð um að sýningin mun gleðja gesti og gangandi og festa söguna um merkan frumkvöðul enn frekar í sessi.

Á fjórum skiltum á sýningunni má lesa eftirfarandi:

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin

Hörðuvalastöðin – skilti.

„Snemma árs 1905 var orðið ljóst að rafstöðin við Austurgötu gæti ekki annað mikilli eftirspurn eða þjónað bænum öllum. Réðst Jóhannes þá í það verk að reisa nýja rafstöð hér á Hörðuvöllum. Hann fékk lán úr viðlagasjóði og samdi við Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóðarleigu undir stíflu, stöðvarhús og íbúð fyrir vélstjóra „ofanvert við Hörðuvelli í Garðakirkjulandi, norðan við Hafnarfjarðarlæk, og fylgja lóðinni rjettindi til að nota, með slíkum umbúnaði, sem ar er nú niðurkominn, vatnsafl úr læknum til að hreifa vjelarnar í stöðvarhúsinu.“ Eins og sagði í samningnum.

Hörðuvallastöð

Sýningin „Köldu ljósin“.

Hörðuvallastöðin var gangsett laugardaginn 6. október 1906 og var hún gerð fyrir 37 kw. en vegna vatnsleysis náðist aldrei meira úr henni en 22 kw. en talið er að Hörðuvallastöðin hafi verið fyrsta sjálfstæða rafstöðin hér á landi. Í frétt dagblaðsins „Fjallkonan“ af gangsetningu stöðvarinnar sagaði m.a.: „Frá þessari stöð er rafmagninu veitt ofan í bæinn eftir eirþræði, sem liggur á staurum. Nú er lýst með rafmagni 44 hús, og eftir eru 8, sem ætla að fá lýsingu í vetur. Auk þess eru á aðalgötu bæjarins 7 ljósker, 4 sem bærinn leggur sér til sjálfur, og 3 sem kaupmenn hafa sett fyrir framan búðir sínar/…/ Húseigendur kosta rafmagnsveitu um húsin, en Reykdal að þeim. /…/ Gamla stöðin er nú eingöngu notuð handa einu húsi, fundarhúsi Goodtemplara. Þar eru samkomur oft fram á nætur, og fyrir því þykir hentugra að þurfa ekki að nota stóru stöðina handa því húsi.“

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes Reykdal seldi Hafnarfjarðarbæ báðar rafstöðvarnar árið 1909 og var starfsemi þeirra eldri hætt tíu árum síðar. Upp úr 1920 var orðið ljóst að Hörðuvallastöðin næði ekki að anna þeirri eftirspurn sem var eftir rafmagni í bænum og var þa samið við fyrirtækið Natan & Olsen um að setja upp díselrafstöð í bænum. Frá árinu 1922 sá sú stöð um rafmagnsframleiðslu fyrir notendur vestan Hamarskotslækjar en Hörðuvallastöðin fyrir íbúa sunnan lækjar. Þetta dugði þó ekki lengi og fljótlega kom í ljós að Hörðuvallastöðin gat ekki staðið undir þeirri rafmagnsframleiðslu sem nauðsynleg var. Var þá samið við við eigendur „Nýju stöðvarinnar“ um rafmagnssölu fyrir allan Hafnarfjörð. Í þeim samningi kom fram að frá 10. ágúst 1926 næði einkaleyfissvæðið yfir allan Hafnarfjarðarkaupstað og frá sama tíma var kaupstaðnum óheimilt að framleiða rafmagn með vatnsaflsstöð bæjarins. Jóhannes Reykdal keypti þá tæki Hörðuvallastöðvarinnar og nýtti fyrir trésmíðaverkstæði sitt á Setbergi og til eigin þarfa.“

Fyrsta almenningsrafveitan

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Fyrsta almenningsrafveitan – skilti.

„Til er áhugaverð lýsing á upphafi rafvæðingar Íslands eftir Gísla Sigurðsson sem hann ritaði eftir frásögn Árna Sigurðssonar, fyrsta rafvirkja landsins. Þar segir m.a.: „Kvöld nokkurt fyrst í desember 1904 var óvenju mikið um mannaferðir um stígana í Hafnarfirði. Þar voru á ferð fólk á öllum aldri, menn og konur, karla og kerlingar, strákar og stelpur. Allt átti þetta fólk brýnt erindi að litlum skúr er var áfastur „Timbursmiðju“ Jóh. J. Reykdals er stóð ofanvert við Moldarflötina sunnan Hafnarfjarðalækjar. Allur stóð þessi skari framanvert við skúrinn og þrengdi sér í dyrnar. En á gólfinu stóð eins margt manna og inn gat komist og raðaði sér umhverfis sérkennilegan hlut: „Fyrstu rafljósavélina er hingað kom til Íslands“. /…/ Rafallinn átti að vera í sambandi við vatnshjól það, er verksmiðjan var rekin með. Svo var vatnshjólið sett í gang. Þá var tekið í sveif og reim færð yfir á skífu og um leið fór rafallinn að snúast, og um leið skeði undrið mikla. Í lítilli glerkúlu er hékk úr lofti skúrsins tóku að birtast logandi þræðir, daufir í fyrstu en smá skýrðust þar til þeir loguðu með hinni skærustu birtu.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal við rafalinn.

Forsaga þessa máls var sú að um sumarið 1904 sigldi Jóhannes Reykdal til Noregs og keypti þá 9 kw. rafal sem hann tengdi við ás hverfilsins sem hann hafði notað við trésmíðavélarnar. Jóhannes fékk nýútskrifaðan rafmagnsfræðing, Halldór Guðmundsson, til að hafa umsjón með verkinu og lagningu rafmagnslína til valinna hús í bænum en Árni Sigurðsson, trésmiður, og síðar fyrsti rafvirki landsins, annaðist raflagnir innanhúss. Heimildir eru nokkuð á reiki um fjölda þeirra húsa sem fengu rafmagn í desemberbyrjun árið 1904, sumar heimildir segja að að settir hafi verið upp fjórir ljósastaurar og rafmagn leitt í 16 hús en aðrar telja að húsin hafi verið eitthvað færri.

Jóhannes Reykdal

Sýningin „Köldu ljósin“ – vatnshjólið.

Notendur greiddu fyrir ákveðinn fjölda ljósa, oftast tvö ljós en ljósastæðin voru þó fleiri í hverju húsi og perurnar þá flutta á milli herbergja eftir þörfum. Jóhannes seldi perurnar sjálfur gegn því að hinum ónýtu væri skilað og hafði hann þannig stjórn á fjölda ljósanna. Hver og einn mátti láta loga meðan rafallinn var í gangi en það var frá því að skyggja tók á kvöldin til kl. 12 á miðnætti og á morgnanna frá kl. 6 þar til vinnubjart var orðið inni við. Í samtíða frétt sagði um rafvæðinguna: „Hafnfirðingar eru mjög vel ánægðir með raflýsinguna, þykir hún þægileg, handhæg og ódýr, og þeir mega með réttu vera stoltir að hafa orðið fyrstir til þess að innleiða hana á Íslandi.“

Trésmíðaverkstæðið

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Trésmíðaverkstæðið – skilti.

Eftir að Jóhannes Reykdal flutti til Hafnarfjarðar árið 1902 hóf hann þegar að stunda iðn sína í bænum. Hann sami þetta sama ár við hreppsnefnd Garðahrepps um byggingu barnaskóla við Suðurgötu og í kjölfarið risu einnig bæði Arahús og Svenborg en það var upphafi af umfangsmiklum húsbyggingum hans í Hafnarfirði. Árið 1903 samdi hann við séra Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóð undir trésmíðaverksmiðju og afnotarétt að Hamarskotslæk.
Jóhannes ReykdalHann fékk lán frá landsjóði upp á 8.000 kr til framkvæmdarinnar en lán þetta var með 4% vöxtum og afborgunarlaust í þrjú ár en greiddist þá upp á 12 árum. Trésmíðaverksmiðja þessi var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í kjölfarið birti hann eftirfarandi auglýsingu á dagblaðinu Ísafold: „Nýtt maskínuverkstæði. Ég undirritaður fæ nú í vor nýjar maskínur á snikkaraverkstæði mitt, fullkomnar til að vinna að bygginga- og möblusmíði og alt sem renna þarf. Tveir nemendur geta fengið pláss strax. Vinnan óvanalega létt.“

Hann sigli erlendis til að kaupa vélar í verksmiðjuna og kom með gufubátnum Skálholti frá Kaupmannahöfn til Hafnarfjarðar annan í páskum árið 1903 með átta trésmíðavélar.
Jóhannes ReykdalVélar verksmiðjunnar voru knúnar áfram með fallorku bæjarins en Jóhannes lagði níu metra langa rennu úr læknum í vatnskassa við húshliðina og var fallhæð vatnsins í kassanum tæpir fjórir metrar. Þar var að finna 11 kílóvatta hverfil og frá honum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu. Frá öxlinum lágu reimar upp í gegnum gólfið í svokallaða hreyfivél sem svo knúði trésmíðavélarnar áfram. Vélarnar sem Jóhannes keypti þetta vor, voru rétthefill ætlaður til að taka bugður og vending af fjölum, þykktarhefill sem tók við af þeim fyrri, tveir strikheflar, borvél, hjólsög, bandsög og rennibekkur. Vélar þessar voru nýjungar sem þekktust ekki hér á landi og sem dæmi um það er til skemmtileg lýsing úr frétt af opnun verksmiðjunnar þar sem sagði ma.: „Þó að vér tölum hér um hefla, það er það ekki að öllu leyti rétt kveðið að orði. Það, sem vér köllum hér svo, eru í rauninni vélar, sem hefla og sem ekki geta gert sér rétta hugmynd um nema menn sjái þær.“

Jóhannes rak trésmíðaverkstæði þetta allt til ársins 1911 en í árslok það ár seldi hann það tólf Hafnfirðingum sem stofnuðu sameignarfélag undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverslun Hafnarfjarðar, Flygering & co.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; „Köldu ljósin“ – skilti.

Það var sunnudaginn 18. janúar 1874 sem hjónunum í Vallakoti í Þingeyjarsýslu, Jóhannesi Magnússyni og Ásdísi Ólafsdóttur, fæddist þeirra 15. barn. Það var drengur sem síðar hlaut nafnið Jóhannes Jóhannesson Reykdal. Jóhannes ólst upp í Eyjafirði, Fnjóskadal og á Seyðisfirði við lítil efni. Þegar hann var kominn á fullorðinsár fór hann til Akureyrar og lærði þar smíðar hjá Snorra Jónssyni. Á Akureyri var hann um tíma en árið 1098 hélt hann til Kaupmannahafnar til að stunda frekar nám í iðn sinni og dvaldi hann ytra í tvö og hálft ár. Hann kom til Íslands aftur vorið 1901 og var í Reykjavík í eitt ár en flutti þá til Hafnarfjarðar og settist þar að.

Jóhannes Reykdal

Þórunn Böðvarsdóttir.

Jóhannesi hefur verið lýst á eftirfarandi hátt: „Hann var kvikur á fæti og snöggur í fasi, hljóp oft við fót þegar hann var á ferð og var mikið niðri fyrir þegar hann talaði. Hann var ótrauður til verka og gekk í hvað sem var ef honum þótti seint ganga eða óhönduglega að staðið. Hann gat tekið ákvarðanir fyrirvaralaust og þótt þær gætu verið umdeilanlegar var hann maður til að standa við þær svo að ekki hlaust skaði af.“

15 maí 1904 kvæntist Jóhannes Þórunni Böðvarsdóttur og eignuðust þau 12 börn en móðir Jóhannesar var alltaf með honum og sá hann fyrir henni síðustu árin. Hann stofnaði trésmíðaverkstæði og síðar rafveitu í Hafnarfirði en eftir að hafa selt þessi fyrirtæki hof hann búskap á Setbergi ofan við Hafnarfjörð árið 1911, síðar byggði hann nýbýlið Þórsberg þar skammt frá og bjó þar til dauðadags 1946.
HafnarfjörðurVið Setberg reisti hann rafstöð og þar var hann með ýmsar nýjungar í búrekstrinum, keypti dráttarvél 1927 sem hægt var tengja ýmis heyvinnutæki við og þá tók hann í notkun mjaltavél á búi sínu, einna fyrstur manna hér á landi. Árið 1920 reisti hann nýtt trésmíðaverkstæði á landareign sinni og sex árum síðar reis þar einnig íshús sem þjónustaði útgerðina í bænum.

Eins og áður segir fluttist Jóhannes Reykdal til Hafnarfjarðar árið 1902 og upp frá því má segja að saga hans og bæjarins hafi tvinnast þétt saman. Auk fjölda húsa sem hann byggði í bænum settu trésmíðaverkstæði hans og síðar farveitan mark sitt á bæinn. Auk þessa var Jóhannes einn af stofnendum Vatnsveitufélags Hafnarfjarðar, hann var varamaður á lista til fyrstu bæjarstjórnarkosninga í bænum 1908, fyrsti slökkviliðsstjóri bæjarins og fyrsti formaður í stjórn Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.“

-ÓSÁ tók saman.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; sýningin „Köldu ljósin“. Í forgurnni má sjá upplýst húsin í Hafnarfirði á fyrstu árum rafvæðingarinnar.

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir landamerkjavörðum eða skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.

Gamlabúð

„Bryggjuhúsið fékk nýtt hlutverk eftir að nýjir eig. tóku við Duus-eigninni 1920. Þurrkun saltfisks hófst þar (um 1930?) og þá var reikst ketilshús úr steypu sunnan við, hvítt að lit. Húsið var brotið nál. 1969 – 1970. Myndin tekin eftir lagningu Vesturbrautar nálagt 1941. Skífur úr steini á þaki gömlu búðar og bryggjuhúss. Skífur af bryggjuhúsi rafnar af og fleygt niður í fjöruna líkl.1968-1970 þegar ketilhúsið var rifið og þakið járnklætt í fyrsta sinn.“

Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.
Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Keflavík – listaverk.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Njarðvík

Minnismerki um Thorkelli í Innri-Njarðvík.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.

Kotvogur

Kotvogur.

Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Hafnarétt

Ekki er minnst á Hafnarétt í örnefnalýsingum, en hún er þó augljós á loftmyndum frá árinu 1954, auk þess sem minjar hennar sjás enn vel í dag norðvestan við Réttargötu í Höfnum.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Byggð hefur lagst þétt að réttinni, en þess hefur verið gætt að forða henni frá eyðileggingu. Sjórinn er þó smám saman að eta landið undan henni.

Hafnarrétt

Hafnarrétt 2021.

Sköflungur

Gengið var til norðurs norðan Nesjavallavegar skammt fyrir vestan Dyradal vestan Nesjavalla, um Folaldadali og Sköflung. Sköflungur er reyndar gamalt nafn á vegi milli Hafnarfjarðar og Þingvalla (sjá aðra lýsingu).

Sköflungur

Sköflungur.

Lagt var í’ann frá veginum skammt ofan við Dyradal, sem fyrr segir.
Línuveginum var fylgt til að byrja með þar sem hann liggur í norðaustur meðfram háspennulínu í nágrenninu. Þegar slóðinn fer að halda meira í austurátt var farið út af honum og gengið meðfram girðingu sem þar er, um hálsana í átt að tveimur stæðilegum tindum, Hátind og Jórutind.
Þar sem girðingin tók krappa beygju var farið yfir hana og fór þá að halla nokkuð undan fæti. Gengið var meðfram gili sem varð í veginum og það haft á vinstri hönd og því fylgt niður í Folaldadali.

Sköflungur

Sköflungur.

Gengið var þvert yfir dalina í átt að Sköflungi, sem rís nokkuð bratt upp úr dölunum, og ráðist til uppgöngu á hann. Ágætt er að miða á skarð sem er á milli tveggja tinda þar sem Sköflungur er hæstur.

Þegar upp er komið kom í ljós að Sköflungur er nokkuð mjór og brattur hryggur og ekki mikið svigrúm til að skrippla með góðu móti utan í honum. Ofan á honum er hins vegar dálítið grýtt og ekki mjög fljótfarið. Af Sköflungi er í öllu falli fallegt útsýni yfir Mosfellsheiðina og næsta nágrenni. Eftir hryggnum var síðan gengið til suðurs uns komið var aftur að Nesjavallaveginum þar sem gangan hófst.
Gangan var fremur auðveld, en útsýnið var margbrotið – fyrir augað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Dyradalur

Dyradalur.

Gvendarhellir

 Arngrímur hefir maður heitið Bjarnason, Arngrímssonar hins lærða. Skólagenginn var hann, staðarráðsmaður í Skálholti og síðast lögréttumaður. Hann bjó í Krýsivík frá 1717 til dánardægurs, 9. ágúst 1724.
Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

„Vestanundir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrimshellir-231

Í Arngrímshelli (Gvendarhellir).

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og alþiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur. Neðar er greið leið niður í Keflavík (Kirkjubás), en þangað sóttu Krýsvíkingar löngum rekavið.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg., 1930-1931, bls. 76
-Blanda VI 187

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).

Brunnastaðasel

Eftirfarandi er úr erindi ÓSÁ um sel og selstöður á Vatnsleysustrandarheiði, sem flutt var á Sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju 19. janúar 2006:

Gjásel

Gjásel.

„Ætlunin er að reyna að gefa svolitla innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina á innan við 20 mínútum. Stikklað verður á stóru.
Byggðin á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Bændur stærri og landmeiri bæja höfðu fé sitt í seli yfir sumarið. Selin voru í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem almennt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist fyrst og fremst um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu. Erfiðara var að ganga að fiskinum vísum.

Arasel

Ara(hnúka)sel.

Á Reykjanesi, sem telur í dag um 168 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin tímabundar nytjaútstöðvar útvegsbændanna með ströndinni.
Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.
Mjög lítið hefur verið skrifað um sel og selsbúskap hér á landi og nær ekkert á þessu svæði. Ástæðan er fyrst og fremst sú að yfirleitt var ekki skrifað um það sem þótti bæði eðlilegt og sjálfsagt í daglegu lífi fólks. Þannig var t.d. ekki skrifað um það hvernig hin fornu handrit, hin dýrmæta arfleið, voru gerð eða hvað þurfti að gera til að koma texta á bókfell.

Pétursborg

Pétursborg.

Eftir standa ósögð orðin og lýsingarnar – líkt og selstóftirnar í heiðinni. Á sama hátt skiptu afurðir seljanna meiru en hvernig þær urðu til. Við vitum líka hverjar afurðinar voru og ef seljabúskapurinn stæði okkur ekki svo nálægt í tíma og raun ber vitni væri harla fátt vitað um hvernig hann hafi verið í framkvæmd. Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur beint við þá gömlu búskaparhætti, sem þar tíðkuðust í gegnum aldir.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.
Fé yfirleitt haft í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo.
Selja er stundum getið í örnefnalýsingum, s.s. þessi af Hvassahraunsseli: “Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Stígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðrunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það.”
Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo árið 1703: ”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni á þessum tíma. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Oft bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík og Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni o.s.frv. Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg og Selsvallasel af Selsvöllum, eða öfugt, þ.e. örnefnin er tilkomin vegna seljanna.
Í örnefnaslýsing segir og um Flekkuvíkursel: „Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur”.
Auk þess sem flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum má sjá nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, á gömlum kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.
Stekkur í Brunnastaðaseli – Á Reykjanesskaganum var selið og önnur mannvirki í seli oftast í skjóli fyrir austanáttinni, rigningaráttinni, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót vestri.

Selsvellir

Selsvellir.

Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og sennilega fleiri selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandar-bæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.

Það virðist vera ríkjandi viðhorf meðal fólks að “minjar hér á landi séu bæði óskýrar og óskiljanlegar. En er það svo í raun?
Í ljóðinu fylgd eftir Guðmund Böðvarsson er getið um sel; “En frammi á fjöllum háum – fjarri sævi bláum – sefur gamalt sel”. Þessar línur geta vel átt við selin á Vatnleysustrandarheiðinni.
Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað um Innnesin og Útnesin. Ekki fóru allir Almenningsleiðina.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Sigurlín Sigtryggsdóttir lýsir í handritinu “Upp til selja” lífi smala í seli í Eyjafirði:
“Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. Vantaði á fékk smalinn að eta skömmina.
Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Smalastarfið var erfitt, en samt minnast þeir margir hverjir starfans með lotningu og telja það jafnvel ánægjulegustu reynslu lífs síns.

Breiðagerðissel

Breiðagerðissel.

“Áhugi fólks á minjum kviknar fyrst eftir að grafið hefur verið í þær”. “Rannsóknir virkja staði” sagði kennari minn í fornleifafræði við Háskólann okkur í tíma í gær. Þetta er að sumu leyti rétt, eins og dæmin sanna.
Sagt hefur verið að til þess að áhugi annarra á menningu svæðis vakni þurfi áhugi heimamanna á henni að vera fyrir hendi.
Þegar staðið er í tóftum fornra selja og horft á húsin, stekkinn, kvína, vatnsbólið, nátthagann og gömlu göturnar má vel sjá selsráðskonuna mjólka ærnar og vinna mjólkina, smalann færa féð frá og að seli kvölds og morgna, bóndann koma með viðurværi og færa nytjarnar til bæjar, heyra hávært jarmið við fráfærurnar og ímynda sér kyrrðina í heiðinni á fögrum og björtum sumarkvöldum.

Knarrarnesel

Knarrarnessel – stekkur.

Sagt hefur verið um hin fornu handrit: “Þessar minjar á að umgangast með tilhlýðilegri virðingu og hátíðlegu fasi, helst í sparifötunum”. Hvers vegna ekki minjarnar líka?
Í og við hvert sel má sjá selsstíg, selsvörðu, þrískipt hús (eldhús-íverustað og búr, stekk, kví, skjól, vatnsstæði/brunn, nátthaga, fjárskjól og mikinn gróanda.
Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. Klukkustundar langur, stundum styttri, stundum lengri. Stundum markaður í klöppina.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ágætt dæmi um draugagang í seli er Rauðhólssel. Í lýsingu þess segir að fyrir hafi komið að horfið hafi verið fyrr úr selinu en ætlað var vegna draugagangs, en líklegt er þó að vatnsskortur aðallástæðan.
Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. „Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd sem og víðasthvar annars staðar. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, en nú koma stærri skip. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“ Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Síðast mun hafa verið haft í seli á Skaganum árið 1914. Í dag má sjá móta fyrir 43 selstöðum í 26 seljum í heiðinni. Sum þeirra eru mun eldri en frá 1703.
Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki um hið liðna – fortíðina – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Kannski verður einhvern tímann grafið í selstóftir í Strandarheiðinni og áhugi fólks vakinn á tilvist og hlutverki þeirra í fyrrum búskaparháttum svæðisins – fornleifin virkjuð, eins og kennarinn sagði. Hver veit?“

[Erindið byggðist upp á myndasýningu].

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að „um [Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … „Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.“ Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hrútargjá

Hríðarbylur var þegar lagt var af stað í fylgd jeppamanna á stórum dekkjum um Djúpavatnsveg að Hrútargjárdyngju.

Húshellir

Við Húshelli.

Ætlunin var að skoða Húshelli og Maístjörnuna, tvo af fallegri hellunum hér á landi. Talsverður snjór var á veginum sem og mikill skafrenningur til að byrja með. Reyndar sást enginn vegur. Ekið var þar um sem vegstæðið hafði verið síðast þegar vottaði fyrir því. Þurftu jeppamennirnir að hafa mikið fyrir því að komast hvert hið stysta fet því fyrir sérhver tvö áfram þurfti að aka eitt aftur á bak; eitthvað sem fótgangendur áttu ekki vana til, nema kannski í bröttustu skriðum.

Annars er betra að nefna ökutæki þessi meirivagna, en ökumennina jeppa, sbr. seppa, serpa eða lappa. Þaðan gæti verið, við seinni tíma skýringar, komið orðatiltækið “menn að meiri”. Við slíkar aðstæðir jeppast þeir áfram, beintengjast bæði vél og vagni – verða hluti af farartækinu – allt verður að einni samstæðu. Minnivagnar eru þá hinir dæmigerðu fólksbílar. Annars skiptir stærð ökutækisins engu máli. Það eina, sem skiptir máli, er hvaða augum eigandinn lítur á það og hverju það getur áorkað að hans áeggjan.

Húshellir

Í Húshelli.

Miklu máli skiptir þó að búa meirivagnanna nægilega stórum dekkjum, bæði til þess að hægt sé að hleypa úr þeim notuðu lofti og til að bæta í þau nýju þegar komið er í ómengað umhverfið. Allt er þetta spurning um heilsusamlegt og náttúrulegt líferni, bæði fyrir mann og meirivagn.
FERLIRsfólkið tók lífið með stóískri ró meðan jepparnir lifðu sig inn í tækið og tæknina, það naut umhverfisins – lágrenningsins og órjúfanlegt samspils fannar og fjalla. Það tók fram stellið, hellti kaffi í bolla, hallaði sér aftur, nartaði í nestið og skiptist á upplýsingum. Jepparnir voru á meðan ýmist að festa eða losa, úti eða inni, slíta tóg eða hleypa út notuðu lofti. En þrátt fyrir fyrirhöfnina virtust jepparnir alls ekki síður hafa gaman að því sem þeir voru að gera.

Húshellir

Í Húshelli.

Þegar komið var á áfangastað brast skyndilega á hið ákjósanlegasta gönguveður, eins og lofað hafði verið – sól og stilla. Gengið var niður með dyngjunni austanverðri og til norðurs milli gjáa hennar og Sandfells. Stefnan var tekin á Fjallið eina. Þegar komið var út fyrir dyngjuna var stefnan tekin til norðvesturs. Snjór hafði fokið í öll op og sprungur, en ekkert þeirra gat leynst fyrir GPS-tækinu.

Jepparnir voru orðnir þreyttir eftir u.þ.b. 17 mín. langa göngu, enda á ómynstruðum skóm og í ofurkuldasamfestingum í hitanum.

Maístjarnan

Op Maístjörnunnar.

Minnsti maðurinn, sem átti stærsta meirivagninn, hafði líka gengið nokkrum sinnum upp úr skónum sínum á leiðinni. Reyndust þeir alltof stórir – til gönu a.m.k. Svo heppilega vildi til að annar jeppi var í skóm nokkrum númerum of litlum. Hann hafði fjárfest í nr. 38, sömu stærð og dekkinn voru í tommum undir meirivagninum hans. Munurinn var bara sá að ekki var hægt að rýmka skóna með loftdælingu. Hann hafði talið þetta númer henta honum best við þessar aðstæður, líkt og dekkin, en féllst nú á, að fenginni reynslu, að skipta á sínum skóm við minni manninn á stærri skónum. Að því búnu var hægt að hefjast handa við að moka hópinn niður í jörðina.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Eftir stutt stund var leiðin inn í hellana greið. Þegar inn var komið voru jepparnir á heimavelli – útsýnið þar var mun skárra en í svartasta hríðarkófi upp á jökli. Þeir voru góðir í að þrengja sér um torfærur, þrengsli og hliðarrásir, en áttu erfitt með að taka því þegar hverfa þurfi frá vegna hruns eða allt varð ófært framundan. Og fyrst skoðunin gekk svo vel sem raun ber vitni var ákveðið að kíkja einnig í Aðventuna. Öllum þessum hellum er lýst í öðrum FERLIRslýsingum svo það verður eigi gert hér.
Í ferðinni kom berlega ljós hversu jepparnir geta verið margbrotnir, enda komu fáir þeirra alveg óbrotnir til baka. Þurfti að styðja suma, en aðrir voru bara látnir liggja – eftir að bíllyklarnir höfðu verið teknir af þeim. Þeir verða sóttir næsta vor.
Frábært veður. Gangan tók 34 mín, en skoðunin heldur lengri tíma.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.