Gullbringuhellir

Gengið var frá Herdísarvíkuvegi að Geitahlíð og síðan áfram norður með henni að Vegghamri. Hamrabeltið er bæði fagurt og skjólsælt. Grösugt er undir veggjunum, en hvergi bar þar á minjum eða tóftum.

Vegghamar

Vegghamrar.

Þegar yfir hálsinn norðan Vegghamars var komið tóku við “tunglummyndað” umhverfi. Þangað komu t.a.m. til æfinga fyrstu bandarísku geimfararnir er stigu fæti á tunglið og þarna var tekin íslensk kvikmynd í árdaga innlendrar kvikmyndaleikgerðar er gerast átti að hluta til á tunglinu. Í henni eru m.a. myndskeið þar sem börn flækjast í kóngulóarvef og dýrið, risastórt, sækir að þeim. Enn má sjá slitrur úr “vefnum”, sem var úr girni, á móbergsklöppunum við einn skútann.

Kálfadalir

Kálfadalir – Víti t.h.

Kálfadalir tóku við eftir skamma göngu. Þeir skiptast í tvennt. Á milli þeirra er þröngt gil, sem auðvelt er að ganga um. Niður í syðri dalinn hefur runnið mikil og myndarlegur hraunfoss niður Kálfadalahlíðarnar að austanverðu og skipt þeim hluta dalsins svo til í tvennt. Hraunið kom úr gígunum norðan við Æsubúðir, en þeir eru nokkrir þarna uppi á hraunsléttunni austan við dalina. Gróðurrönd er með hlíðinni að vestanverðu, en annars fyllir hraunið syðri dalinn að mestu leyti. Nyrst er hann þó grósugur, enda hraunið ekki náð þangað. Þegar komið var í gegnum gilið tók við nyrðri hluti Kálfadala, gróðurvænn og skjólgóður.

Víti

Víti.

Framundan blasti Gullbringan við (eins og hún er merkt á landakortum) austan við Kleifarvatnið. Aðrir segja að Gullbringa sé heiti á hlíðinni austan og ofan við sandfjallið, sem ber þetta nafn. Nafnið hafi komið til vegna þess þegar sólin er að setjast á bak við Sveifluhálsinn slái stundum gylltum roða á hlíðina alla. FERLIRsfélagar hafa nokkrum sinnum orðið vitni af því í kvöldferðum sínum um svæðið.

Gullbringa

Gullbringa í Krýsuvík.

Þegar upp á Gullbringu var komið sáust vel verksummerki eftir jarðskjálftan 17. júní árið 2000. Stórum steinum hafði verið kastað upp á kollinum og þeir snúist við á leið niður. Mosinn, sem eitt sinn hafði verið ofan á steinunum var nú ýmist undir þeim eða á hlið. Sólin var að setjast á bak við Hádegishnúk og bjarma sló á hlíðina að baki. Hárnákvæm tímasetning á toppnum. Kleifarvatn spegilslétt fyrir neðan.

Gullbringa

Gullbringa að baki.

Gengið var niður af Gullbringu að norðanverðu og kíkt ofan í helli, sem þar er (Gullbringuhelli). Í honum er hlaðið bæli. Rás liggur lengra inn eftir, en þrengist. Svo virðist sem hún víkki á ný þegar innar dregur. Hún var ekki skoðuð nánar að þessu sinni. Hellisopið er við gömlu þjóðleiðina frá Krýsuvík yfir Hvammahraunið (Hvannahraun). Götunni var fylgt yfir úfið hraunið á kafla, en hún er vel greinileg þangað til yfir er komið. Handan þess gerist hún ógreinileg vegna jarðvegseyðingar. Gengið var framhjá veglegum kletti, sem hafði margsprungið við skjálftann.

Fagridalur

Fagridalur.

Haldið var norður með hlíðinni og síðan haldið upp á háhæðina ofan við Vatnshlíðarhornið og stefnan tekin á Fagradal. Yfir grjótbarinn berangur er að fara sem og mosaþembur á stangli. Gatan niður hlíðina er í breiðum hraunfossi, sem runnið hefur þar niður í Fagradal. Fagradalsmúlinn er handan við, en leiðin niður liggur í hlykkjum og er nokkuð greiðfær. Þegar niður í dalinn var komið tók við gróið sléttlendi og síðasti spölurinn að endastöðinni því vel greiðfær yfirferðar.
Frábært veður. Sól og kyrrviðri. Gangan tók 7 klst og 21 mín.

Víti

Víti í Kálfadölum. Geitahlíð t.h.

Litluborgir

Í skýrslu Umhverfisstofnunar; „Litluborgir – Hafnarfjarðarbær, Stjórnunar- og verndaráætlun“ frá árinu 1022 er fjallað um Litluborgir í Þríhnúkahrauni ofan Helgafells. Þar segir m.a.: „Leiðarljós fyrir stjórnun náttúruvættisins Litluborga er að standa vörð um sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Hið friðlýsta svæði

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Mörk náttúruvættisins eru sýnd á korti í viðauka ll og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi. Stærð svæðisins er 10,6 ha.
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.

Tengsl við áhrifasvæði og aðkomuleiðir

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir eru innan Reykjanesfólkvangs. Svæðið er í næsta nágrenni við vinsælt útivistarsvæði við rætur Helgafells. Erfitt er fyrir ókunnuga að finna svæðið þar sem það lætur lítið fyrir sér fara í hrauninu og auðvelt að ganga fram hjá því. Hægt er að komast að því gangandi með því að fylgja línuvegi sem liggur við jaðar svæðisins. Við jaðar svæðisins er Búrfellslína 3b. Línan er innan afmarkaðs beltis fyrir háspennulínur í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun

Litluborgir

Litluborgir.

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Litluborga hófst í nóvember 2020. Áætlunin er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er hún sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stjórnunar- og verndaráætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal sem lýsir framtíðarsýn og þeim grundvallarsjónarmiðum sem höfð eru til hliðsjónar um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins. Áætlunin er unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Eignarhald og umsjón

Litluborgir

Litluborgir – loftmynd 2023.

Litluborgir eru í upplandi Hafnarfjarðarbæjar og er sveitarfélagið landeigandi. Umsjón og rekstur náttúruvættisins er í höndum sveitarfélagsins Hafnarfjarðar samkvæmt samningi á milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem staðfestur var af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2015 og gildir til tíu ára, sjá samningur. Umsjón og rekstur felst m.a. í því að sveitarfélagið sér um að svæðið líti vel út, fjarlægir rusl, hefur eftirlit með því að verndargildi svæðisins rýrni ekki, bregst við raski o.s.frv. Málefnum sem upp kunna að koma og kalla á sérstakar ráðstafanir eða stjórnvaldsákvarðanir ber að vísa til Umhverfisstofnunar.

Lagalegur og stjórnsýslulegur rammi

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Náttúruvættið Litluborgir er innan Reykjanesfólkvangs sem var friðlýstur árið 1975 með auglýsingu nr. 520/1975. Starfsmaður Umhverfisstofnunar er áheyrnarfulltrúi í stjórn fólkvangsins og upplýsir stjórnina um umsjón og rekstur náttúruvætta innan
Reykjanesfólkvangs.
Hluti svæðisins er grannsvæði vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bannaðar á grannsvæðinu sjá vatnsverndarsvæði og reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Verndargildi og verndarflokkur

Litluborgir

Í Litluborgum.

Verndargildi Litluborga felst fyrst og fremst í sérstæðum jarðmyndunum. Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags, skal, skv. b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013,stefnt að því að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Eldhraun, gervigígar og hraunhellar njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. sömu laga. Þá eru dropsteinar í hellum landsins friðlýstir sérstaklega sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina nr. 120/1974. Verndun Litluborga stuðlar auk þess að verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sbr. 2. gr. laga um náttúruvernd.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir flokkast sem náttúruvætti skv. 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 þar sem segir að friðlýsa megi einstakar  náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Þetta geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.

Náttúruminjar; jarðminjar og lífríki

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar í Þríhnúkahrauni sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Í Litluborgum er að finna hella og skúta með viðkvæmum hraunmyndunum.
Megin vistgerð svæðisins er mosahraunavist og er mosategundin hraungambri ríkjandi en vistgerðin er fátæk af æðplöntum. Þeir fuglar sem algengt er að sjá í þeirri vistgerð eru heiðlóa, spói, þúfutittlingur, steindepill og rjúpa. Svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Menningarminjar
Engar skráðar menningarminjar eru innan friðlýsta svæðisins.

Ferðaþjónusta, útivist og fræðsla

Litluborgir

Litluborgir – sérstök gróðurmyndun.

Þar sem Litluborgir eru ekki mjög áberandi í hrauninu þá hafa fáir heimsótt þær í gegnum tíðina en það er að breytast með aukinni umferð útivistarfólks. Svæðið er hins vegar mjög viðkvæmt utan stíga.

Helstu ógnir
Svæðið hefur ekki verið mjög fjölfarið í gegnum tíðina enda lítið og úr alfaraleið. Engar skilgreindar gönguleiðir liggja um svæðið og því var ekki unnt að stýra umferð fólks frá viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir. Vísbendingar eru um að efni frá möstrum geti haft neikvæð áhrif á gróður en þess sér merki í mosa á svæði í námunda við náttúruvættið.

Sérstakar reglur um umferð og dvöl

Litluborgir

Litluborgir – göngustígur frá Helgafelli 2020.

Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í náttúruvættinu Litluborgum sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:
1. Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki raska jarðminjum, gróðri eða dýralífi innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og viðburðir eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimilt er að setja skilyrði um t.d. fjölda þeirra sem kom að viðburðinum, umgengni og aðstöðu þegar slík leyfi eru veitt.
2. Heimilt er að hjóla á skilgreindum hjólreiðastígum séu þeir til staðar.
3. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“

Litluborgir

Í Litluborgum 2010.

Ýmislegt í framangreindri skýrslu er annað hvort ekki rétt eða ranglega með farið. Ekkert er t.d. minnst á verksummerki akstursslóða girðingar- og rjúpnaveiðimanna við borgirnar, afmarkaða og nauðsynlega stígagerð áhugafólks að borgunum vegna áhugaleysis Umhverfisstofnunar og stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á upplandi bæjarins. Í skýrslunni kemur fram að ágangur á svæðið hafi aukist 2022 með tilheyrandi mosaskemmdum. Það er rangt, líkt og svo margt annað, sem ekki verður farið nánar út í hér. Svo virðist að fæst það fólk er kom að skýrslugerðinni hafi haft hið minnsta vit á viðfangsefninu! Verður það að þykja miður…

Heimild:
-Litluborgir, Hafnarfjarðarbær – Stjórnunar- og verndaráætlun, desember 2022, Umhverfisstofnun.

Litluborgir

Gengið að Litluborgum 2010.

Litluborgir

Ofan Helgafells, skammt ofan línuvegarins nálægt einu háspennulínustaurnum, er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Litluborgir

Litluborgir – skilti.

„Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Stærð náttúrvættsins er 10,6 ha.
Markmiðið með friðlýsngu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Litluborgir eru smágerðar hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa þegar hraun frá Tvíbollum rann yfir stöðuvatn fyrir um þúsund árum. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir er undraheimur fíngerðra hraunmyndana. Líkja má þeim við minnkaða útgáfu af Dimmuborgum í Mývatnssveit. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér úr fjaska, en þegar inn í það er komið og við skoðum nærumhverfið blasa við okkur heillandi hraunskútar, steinbogar og alls kyns form sem hraunið hefur tekið á sig þegar það flæddi hér yfir um, var undir því sauð og af urðu gufusprengingar sem tættu yfirborðið og mótuðu alls kyns kynjamyndir.“

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Fossárrétt

Alls eru 224 fjárréttir þekktar á Reykjaneskaganum. Þá eru meðtaldar einstakar rúningsréttir utan selja.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Fjárréttir, eins og við þekkjum þær, þekktust ekki á Skaganum fyrr en í lok 19. aldar. Áður var fjárbúskapur útvegsbændanna takmarkaður við mjólkandi ær og þær voru því jafnan tiltölulega fáar á sérhverjum bæ. Ærnar voru á sumrum hafðar í seljum þar sem selsmatseljan réð ríkjum. Hún mjólkaði þær og vann afurðir úr mjólkinni; áfir, rjóma, skyr og ost. Sú hafði sér til stuðnings smala er gætti fjárins að næturlagi og skilaði því til mjalta morguns og síðdegis frá 6. til 16. viku sumars ár hvert að jafnaði. Ef eitthvað bar út af var honum refsað með því að láta hann „eta skattinns sinn“, sem væntanlega hefur verið vísir af hinni landlægu skattheimtuárát hér á landi fyrr á öldum.

Bæjarfellsrétt

Bæjarfellsrétt í Krýsuvík.

Þegar seljabúskapnum lauk endanlega um og undir árið 1900 stækkuðu innskagabændur fjárbú sín og byrjað var að „reka fé á fjall“. Sá háttur hefur verið viðhafður allt til þessa dags.

„Eftirfarandi upplýsingar um Þórkötlustaðarétt eru fengnar úr minni Sigurðar Gíslasonar frá Hrauni við Grindavík, 84 ára (f: 05. maí 1923).

Þórkötlæustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Siggi á Hrauni, eins og hann er jafnan nefndur, þekkir manna best austurumhverfi Grindavíkur. Hann man tímana tvenna og hefur ávallt verið reiðubúinn að miðla öðrum fróðleik um liðna tíð. Siggi fylgdi FERLIRsfélögum að réttinni í Þórkötlustaðahverfi, sem lítið hefur verið vitað um – fram að þessu.

“Þórkötlustaðaréttin, sú sem nú er, var komin, óbreytt að stærð og lögun, þegar ég man fyrst eftir mér. Faðir minn sagði að hún hefði verið hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að einhverju leyti úr Vatnsheiðinni og Efra-Leiti, auk þess sem einstaka grjót kom upp úr túnsléttun í hverfinu og áreiðanlega hefur einhver hraunhella verið þarna umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt fyrir nokkrum árum. Efnið í endubótina var fengið í landi eigenda Þórkötlustaða, að þeim forspurðum. Réttin hefur þó ávallt þótt góð til síns brúks.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Fyrrum var fé Grindvíkinga, vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til, ofan við réttina, greiddist heldur úr þrengslunum.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Réttin var hlaðin um 1890, en hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustöðum upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.
Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar. Hvergi er minnst á réttir í frásögnum þeirra bræðra.

Stóri-Hamradalur

Rúningsrétt í Stóra-Hamradal.

Réttirnar í fyrrum landnámshólfs voru til margra nota, s.s. heimarétt, almenningsrétt, skilarétt og rúningsrétt, auk „útdráttarétta“ einstakra bæja. Margar þeirra eru enn heillegar, enda ekki um fornar fornleifar að ræða. Fjárrétt er í raun framhald afréttar. Réttir hafa verið misstórar. Bæði þær sem og staðsetning þeirra hafa jafnan tekið mið af notagildi á hverjum tíma.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1963 fjallar Guðjón Jónsson um „Kambsrétt“, dæmigerða slíka á þeim tíma. Hér verður gripið niður í greinina á nokkrum stöðum: „Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú. Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað, eftir því sem við á og þurfa þykir.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt á Vörðufelli.

Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frásögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútímamenn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Þótt sameiginlegar byggðarsafnsréttir hafi verið notaðar víða um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr á tímum. Meðan engar girðingar voru til að hindra rennsli fjárins og það flakkaði viðstöðulaust bæja og byggða á milli, kom margt fé í skilaréttir.“

Margar hinu merkilegustu fjárrétta á Reykjaneskaga, s.s. Fossárréttin gömlu í Kjós, hafa verið friðlýstar, þrátt fyrir að hafa síðan orðið skógræktaráhugafólki að bráð….

Fossárrétt

Fossárréttin í Kjós var friðlýst 2011 (friðuð). Fornleifar klæddar skógi.

 

Hnúkasel

Ísland er skv. skriflegum heimildum sagt hafa verið numið af norrænum mönnum árið 874. Segjum svo hafa verið. En á 1.150 árum hlýtur margt að hafa breyst í gegnum tíðina, bæði hvað varðar búskaparhætti og landnýtingu.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Tökum dæmi: Seljabúskapur fluttist hingað með landnámsfólkinu. Sá búskapaháttur var stundaður nánast óbreyttur í u.þ.b. 996 ár. Að honum loknum tóku við miklar breytingar í aðdraganda mikilla þjóðfélagsbreytinga. Fólk var að flytjast úr sveitum í nýmynduð þorpin allt umleikis landið. Fiskveiðar, sem reyndar höfðu verið stundaðar í útverum á síðustu árum selsbúkaparins, tóku mið af þróuninni.
Útvegsbændur á Reykjanesskaganum þráuðust við þegar vinnufólkinu tók að fækka; færðu „selstöður“ sínar nær bænum, enda tilgangur þeirra ekki lengur eins mikilvægur og fyrrum, þ.e. að tryggja með tilvist þeirra vitund annarra á eignarrétti landsins.
Helsta breytingin og þar með viðbrögð bænda í lok 18. aldar var að selstöðurnar fyrrum urðu að stekkjum, mun nær bæjunum. Stekkirnir, sem oft voru nefndir eftir þjónustum sínum, höfðu nánast sama tilgang og selin fyrrum, en til að þjónusta þá þurfti bæði minni mannskap og nánast engan húsakost því þangað var bæði hægt að ganga fram og til baka á skömmum tíma, án þess að þurfa að gista. Í selin fyrrum hafði meðalstalsselsstígurinn verið ca. 6 km., eða um þriggja klukkustunda gangur aðra leiðina, en í stekkina var gangurinn ekki nema ca. 20 mínútur.

Hvassahraun

Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.

Síðustu leifar seljabúskaparins má finna næst bæjunum, stekkina nánast við túngarðinn og fjárréttirnar í framjhaldinu.
Í byrjun 19. aldar byrjuðu bændur að byggja hús yfir fénað sinn, bæði heima við bæ og í beitarhúsum upp frá þeim, í göngufæri. Áður höfðu þeir nýtt fyrirhlaðin hraunsskjól og upphlaðnar fjárborgir til bjargar fénu yfir vetrarmánuðina.
Þegar lesnar eru opinberar fornleifaskráningar virðast nánast aldrei vera gerður munur á minjum eftir þróun búskaparhátta í tíma. Í þeim hefur því engin samfelld saga myndast í fræðigreininni, sem verður að þykja miður….

Árnastekkur

Árnastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

 

Úlfarsfell

Nafn fellsins, Úlfarsfell, kemur fyrst fram í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 og svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Líklegast má telja að nafnið sé komið frá mannanafninu Úlfar. Fellið er 296 metra hátt og er afar vinsælt til gönguferða en einnig nýtir svifdrekafólk sér fellið í sína iðju.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Grímur Norðdahl segir frá örnefnum í landi Úlfarsfells árið 2002: „Um jörðina Úlfarsfell: Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Ein elsta heimild um Úlfarsfell er Vilkinsmáldagi, en þar segir: „Þollaks kirkia ad Reykiumm a land ad Wlfarsfelli.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. að Úlfarsfell hafi verið kirkjueign bóndajarðar Suður-Reykja, taldist hún 10 hundraða jörð og kostarýr.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslaonar fyrir Lágafell sgeir m.a.: „Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Undir hömrunum er fjárhús eða beitarhús frá Lágafelli…

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhús.

Langholt er holtið nefnt, sem er norður af Hulduhólum. Mýrin, þar sem nú er risin byggð, heitir Sauðhúsmýri. Innar eru Lágafellsmýrar, og Norðurmýri er norðanvert við túnið á Lágafelli. Börð aðskilja Sauðhólsmýri frá Skarhólamýrinni. Ofar eru Hvammar meðfram Úlfarsfelli, og Lágafellshamrar heita utan í því. Beint á móti bæ og uppi eru tveir hnúkar, sem heita Litlihnúkur og Stórihnúkur.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – hlaðið byrgi á Stórahnúk.

Byrgið er steinhlaðið úr grjóti sem er um 20-30 cm á lengd og 10-15 cm á breidd. Hæð veggja er um 60-65 cm, op í norðvestur, aðeins er hrunið í opið en samt vel greinilegt. Byrgið er hlaðið norðvestan í lítinn grjóthól ofan á klöpp, lítill gróður er á svæðinu. Austur og uppaf um 3 m frá er varða (258-63).

Í lýsingu Freyju Jónsdóttur í Dagur/Tíminn 1996 lýsir hún Úlfarsfelli. Þar getur hún um fjárhús frá bænum í Myrdal á Úlfarsfelli: „Neðan við Mýrdalsmýri er lítið fjárhús með heytóft“.

Úlfarsfelll

Úlfarsfell – fjárhús í Mýrdal.

Hvergi í Fornleifaskráningum vegna framkvæmda á og við Úlfarsfell, Fornleifaskráningum fyrir Mosfellsbæ eða Fornleifaskráningu fyrir Úlfarsfell er minnst á fjárhústóftina undir Lágafellshömrum, fjárhústóftina í Myrdal á Úlfarsfelli eða fjárborg á bökkum Úlfarsár í landi Úlfarsfells.

FERLIRsfélagar leituðu uppi og skoðu minjarnar árið 2025.

Lágafellshamrar

Lágafellshamrar – fjárhústóft.

Fjárhústóftin frá Lágafelli undir Hömrunum er óvenju stór, hlaðin að hluta og að hluta til grafinn inn í brekku. Hún er nánast orðin jarðlæg en er samt sem áður vel greinileg.

Fjárhústóftin í Mýrdal á grónu svæði syðst í dalnum. Hún er vel greinanleg, snýr dyrum mót suðri og að baki hennar er hlaðin heytóft.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárborg.

Fjárborgin suðaustan bæjarins að Úlfarsfelli er ofan bakka Úlfarsár. Hún er hringlaga og að mestu byggð úr torfi. Í fjarlægð lítur hún út fyrir að vera gróinn hóll, en þegar nánar er að gáð fer ekki á milli mála að um fjárborg hefur þar verið um að ræða.

Heimild:
-Dagur/Tíminn, 195. tbl. 12.10.1996, Úlfarsfell, Freyja Jónsdóttir, bls. 11.
-Úlfarsfell. Grímur Norðdahl, Magnús Guðmundsson 2002 (2002).
-Ari Gíslason – Örnefnalýsing fyrir Lágafell.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – fjárhústóft í Mýrdal.

Skófir

Í Skarhólamýri við Skarhólabraut, gegnt húsi nr. 4, er skilti á upphafsleið göngustígs á Úlfarsfell (Hamrafell) neðan Lágafellshamra. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:

Skarhólamýri

Skarhólamýri – skilti.

„Héðan liggur gönguleið á Úlfarsfell. Fyrst er gengið eftir vegslóða að brekkurótum og þaðan liggur stikuð leið upp fjallshlíðina uns komið er upp undir norðurbrún fjallsins. Þá er stefnt vestur fyrir Stórahnúk og sveigt til austurs síðasta spölin á tindinn.
Þegar tindinum er náð getur göngufólkið valið um að fara sömu leið til baka eða halda vestur evtir fjallinu, að skógræktarsvæðinu í Hamrahlíð og síðan aftur hingað í Skarhólamýri. Einnig er hægt að ganga héðan vestur með fjallinu að skógræktarsvæðinu í Hamrahlíð, síðan eftir stikaðri leið á Úlfarsfell og loks aftur hingað.

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leirvogur

Leirvogur (MWL).

Leirvogur gengur inn úr Kolafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ, Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímannsfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem eru friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, varma og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistaka á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir. seljarúsir og aðrar sögulegar minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði

Stardalshnúkur

Stardalshnúkur.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýsskeiði, en í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslumvið virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður

Borgarkot

Skófir á Úlfarsfelli.

Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðinni, upp dalina og fellin. Odan til eru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjarfil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið mektar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.“

Skarhólamýri

Skarhólamýri – skilti.

Rikki

Fjölmargar bloggsíður frá fyrri tíð lifa enn góðu lífi í „kosmósinu“, þökk sé innlendum varðveislumiðlum.

Ríkarður Ríkarðsson

Ríkarður Ríkarðsson (1961-2022).

Þessar síður voru forverar vorra fánýtu nútíma samfélagsmiðlasíðna. Að baki þeim lá veruleg vinna og mikil upplýsingasöfnun, sem engin ástæða er til að kasta fyrir róða.
Ríkarður Ríkarðsson starfaði sem lögreglumaður, síðast í Kópavogi. Hann fæddist á Húsavík 24. september 1961, en lést 20. nóvember 2022 eftir erfið veikindi. Fjölskyldan hefur reynt að leyta leiða til að viðhalda vefsíðunni til lengri framtíðar.
Rikki var frábær drengur og góður samstarfsfélagi.
Rikki hafði mikið dálæti á fuglum og bátum fyrri tíðar, líkt og sjá má á eftirlifandi bloggsíðu hans.
HÉR má sjá ávísun á bloggsíðu Rikka – https://rikkir.123.is/.

Úði á Vatnsleysutrönd

Úði á Vatnsleysuströnd.

Náttúruminjasvæði

Í Víkurfréttum árið 1988 má lesa eftirfarandi um „Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá„. Hafa ber þó í huga að í raun nær hugtakið „Suðurnes“ einungis yfir svæðið frá Hvassahrauni yfir byggðirnar austan og vestan Stapa á norðanverðum Reykjaneskaganum vestast. Grindavíkursvæðið er, og hefur verið, þar undanskilið.

Náttúruminjaskrá 1988

Forsíða Náttúruminjarskrár 1988.

„Út er komin á vegum Náttúruverndarráðs náttúruminjaskrá 1988. Bókin er með öðru sniði en fyrri útgáfur og fylgir litprentað kort af Íslandi, þar sem merktir eru staðir sem eru á náttúruminjaskrá eða eru friðlýstir.
Ellefu staðir hér á Suðurnesjum heyra undir náttúruminjaskrána en þeir eru:
(Skýringar við texta: Þar sem talan (1) stendur framan við texta er átt við hvar mörk svæðis eru skilgreind en þar sem talan (2) stendur er talað um náttúruverndargildi, t.d. sérkenni eða sérstöðu svæðis og gildi þess almennt og fræðilega séð.)

1. Keilir – Höskuldarvellir – Eldborg við Trölladyngju, Grindavík, Vatnsleysustrandarhr., Gull.

Keilir

Keilir.

(1) Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólksvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffei! í Keili. (2) Mikið gígasvæði vestan í Vesturhálsi, liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólksvangs. Norðan undir Trölladyngju er einstakur gígur, Eldborg, myndaður á sögulegum tíma. Á vesturmörkum svæðisins gnæfir móbergsfjallið Keilir.

Katlahraun

Katlahraun.

2. Katlahraun við Selatanga, Grindavík.
(1) Austurmörk fylgja mörkum Reykjanesfólksvangs að þjóðvegi, eftir honum að hlíðum Höfða, þaðan suður í Mölvík. (2) Stórbrotið landslag, hrauntjarnir og hellar. Friðaðar söguminjar við Selatanga.

Festisfjall

Festisfjall.

3. Hraunsvík og Festarfjall, Grindavík.
(1) Fjaran í Hraunsvík frá Hrauni að Lambastapa, ásamt kríuvarpi á Hraunssandi vestan Hrólfsvíkur. Suðurhluti Festarfjalls. (2) Snotrir sjávarhamrar og brimrofin eldstöð, Festarfjall. Fjölbreytt sjávarlíf. Fjölsóttur náttúruskoðunarstaður.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

4. Sundhnúksröðin – Fagridalur, Grindavík.
(1) Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól, um Hagafell, Sundhnúk, hluta StóraSkógfells, 3,5 km norðaustur í átt að Kálffelli, ásamt 400 m breiðu svæði beggja vegna gígaraðarinnar og Fagradal sem gengur austur af enda gígaraðarinnar. (2) Tæplega 9 km löng gígaröð sem kennd er við Sundhnúk. Snotrar hrauntraðir í suðvesturhlíð Hagafells. Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni. Fagridalur er grösugt dalverpi við norðvesturhorn Fagradalsfjalls. Söguminjar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst.

5. Strandsvæði vestan Grindavíkur, Grindavík.
(1) Strandlengjan frá Litlubót, ásamt Gerðavallabrunnum, vestur að Vörðunesi. (2) Fjölbreyttur strandgróður, fjölskrúðugt fuglalíf. Djúpar vatnsfylltar gjár, snotur hraunkantur með sjávartjörnum.

Eldvörp

Eldvörp.

6. Eldvörp – Reykjanes – Hafnaberg, Grindavík, Hafnahr., Gull.
(1) Mörk liggja úr Mölvík, nokkru austan Vatnsstæðis, 500 m austan Eldvarpagígaraðarinnar, norðaustur fyrirgíginn Lat, að borholu Hitaveitu Suðurnesja, HSK-10 við Lágar, í Þórðarfell, þaðan bein lína í veg fyrir botni Stóru-Sandvíkur, norðvestur með honum niður að Lendingamel, eftir Hafnabergi að eyðibýlinu Eyrarbæ. (2) Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi,sem er gliðnunarbelt á mótum tveggja platna. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna.
Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn.
Hafnarberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort; ÓSÁ.

7. Ósar, Hafnahr., Miðneshr., Gull.
(1) Vogurinn með strandlengju, fjörum og grunnsævi austan línu sem dregin er á milli Hafna og Þórshafnar. (2) Mikið og sérstætt botndýralíf, fjölbreyttar fjórur, vetrarstöðvar ýmissa fuglategunda.

8. Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, Miðneshr., Gerðahr., Gull.
(1) Fjörur og sjávarfitjar frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi, m.a. Sandgerðistjörn, Gerðasíki, Miðhúsasíki og Útskálasíki. (2) Fjölbreyttur strandgróður og ýmsar fjórugerðir. Lífauðugar sjávartjarnir og mikið fuglalíf.

Snorrastaðatjarnir

Við Snorrastaðatjarnir.

9. Seltjörn, Snorrastaðatjarnir og hluti Hrafnagjár, Njarðvík, Vatnsleysustrandarhr., Gull., Grindavík.
(1) Svæði frá Seltjörn til Snorrastaðatjarna, ásamt skógarreitum. Einnig syðsti hluti Hrafnagjár. (2) Gróskumikill gróður í Snorrastaðatjörnum. Gróðursælir skógarreitir undir Háabjalla og í Sólbrekkum. Mikilvægur áningarstaður farfugla vor og haust. Kjörið útivistarsvæði. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðatjörn – Ásláksstaðir og Sjónarhóll.

10. Tjarnir á Vatnsleysuströnd, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Síkistjórn, Vogatjörn, Mýrarhústjörn, Gráhella, tjarnir við Hlöðunes, Ásláksstaðatjörn, Sjónarhólstjörn, Knarrarnestjörn, Landakotstjörn, Kálfatjarnartjörn og Bakkatjörn, ásamt nánasta umhverfi. (2) Lífríkar tjarnir með fjölbreyttu fuglalífi.

Fagravík

Fagravík.

11. Látrar við Hvassahraun, Vatnsleysustrandarhr., Gull.
(1) Fjaran ogstrandlengjan frá Fögruvík að Stekkjarnesi suðuraðþjóðvegi ásamt ísöltum tjörnum og Hvassahraunskötlum sunnan vegar. (2) Sérstætt umhverfi með miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Sjávartjarnir með mismikilli seltu. Katlarnir eru regluIegar hraunkúpur, e.k. gervigígar, á sléttri klöpp í Hvassahrauni. Útivistarsvæði með mikið rannsókna- og fræðslugildi í nánd við þéttbýli.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þá er einn staður hér á Suðurnesjum, Eldborgir undir Geitahlíð við Grindavík, sem lýstur hefur verið náttúruvætti. Þá er Eldey friðlýst með lögum 1940, en friðlýst land 1960.“

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði. Jónsbúð í umdæmi Gindavíkur, gæti seint verið talin til Suðurnesja.

Eins og kom fram í upphafi lýsingarinnar er í umfjölluninni all frjálslega farið með hugtakið „Suðurnes„. Vestanverður Reykjanesskaginn nefndist jafnan Útnes og Romshvalanes utan þess, þ.e. Garður og Sandgerði. Saman hafa svæðin á stundum verið nefnd „Suðurnes“. Grindavík hefur hins vegar aldrei í fyrri tíma heimildum verið talin til „Suðurnesja“. Ruglingurinn virðist því fyrst og fremst vera hugarbrengsl ritstjóra Víkurfrétta í viðleytni hans til að útvíkka markaðshugtakið.

Heimild:
-Víkurfréttir, Suðurnes – Ellefu staðir á náttúruminjaskrá, fimtudaginn 29. september 1988, bls. 15.

Eldey

Eldey.

Selhraun

Í Náttúrufræðingnum 1965 má lesa um „Forn eldvörp í Selhrauni“ eftir Jón Jónsson, jarðfræðing.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

„Ekki alllangt sunnan við Straum í Garðahreppi [nú Hafnarfirði] og skammt vestan við Kapelluhraun eru forn eldvörp. Þar hefur Vegagerð ríkisins tekið rauðamöl til ofaníburðar í vegi, og það er mest þeirri starfsemi að þakka, að hægt er nú að fullyrða að hér er um eldvörp að ræða.
Ekki er mér kunnugt um, hvernig þarna leit út áður en byrjað var að taka þar efni, en svo lítið ber á þeim hluta gíganna, sem enn er eftir óhreyfður, að líklegt má teljast, að þeim hefði alls ekki verið veitt eftirtekt, hefði þarna ekki verið grafið með stórvirkum tækjum. Nú er þarna umrót mikið og ýmislegt fróðlegt að sjá.
Gígir þeir, sem hér er um að ræða, eru á línu með stefnu NA—SV, eins og gígaraðir á Reykjanesi yfirleitt eru.
Yngri hraun hylja nú þetta svæði nær alveg, og hafa þau fært hina fornu gígaröð að mestu í kaf. Þau hraun eru komin sunnan að af svæðinu milli Sveifluháls og Vesturháls.

Selhraun

Selhraun – loftmynd.

Af því að yngri hraun hafa runnið yfir umhverfi gíganna, verður ekki með vissu sagt, hversu mikið hraun hefur frá þeim komið. Það er þó ljóst að eitthvað hraun hefur runnið í þessu gosi, og er það auðþekkt frá hraununum í kring. Það er peltspat-ólivín-porfyritiskt basalthraun með ólivínkristöllum, sem eru 1,5—2 mm í þvermál, og með einstaka allt að 3 cm stórum og allmiklu af 0,5—1 mm stórum feltspatkristöllum. Bæði stærri og minni feltspatkristallarnir virðast vera eins eða a. m. k. mjög líkir að samsetningu. Ljósbrot þeirra reyndist vera nWl 1.574, en samkvæmt Tröger (1959) er það An 70, en það eru mörkin milli labradorit og bytonit. Taldar voru steintegundir í tveim þunnsneiðum, samtals 2970 punktar. Útfrá því reyndist samansetning hraunsinsvera:
Plagioklas 45,4 %
Pyroxen 36,5 %
Ólivín 7,3 %
Ógegnsætt (opaque) 10,8 %

Selhraun
Hið síðastnefnda er að nokkru svart, ógegnsætt gler, en að mestu málmur, seguljárn og títanjárn.
Mikill fjöldi hnyðlinga er í þessu hrauni og sumir þeirra nokkuð stórir, eða um 5—7 cm í þvermál. Þeir virðast líkir þeim, sem áður hefur verið getið í þessu riti (Jónsson 1963). Slíkir hnyðlingar hafa nú fundizt víða um land, m. a. í Skaftáreldahrauni frá 1783, Fonti á Tungnáröræfum (heimild Elsa Vilmundardóttir), í Þórsmörk, við Grindavík og nú alveg nýlega fann Jens Tómasson, jarðfræðingur, hnyðlinga í Surtsey.
SelhraunÍ gígnum í Selhrauni fannst ennfremur stór feltspatkristall, sem reyndist vera ólígóklas (An 30). Hann var mjög illa farinn, sennilega mest vegna hita, og liggja jafnvel hárfínar basaltæðar í gegnum hann. Oligóklas á ekki heima í basalthrauni eins og þessu og verður því að telja líklegast, að um sé að ræða kristall, sem brotnað hefur úr eldra bergi nokkuð ólíku þessu að samsetningu og borizt með hrauninu á leið þess upp á yfirborð. Þess má geta að Jens Tómasson fann líka einn ólígóklaskristall í Surtsey.

Hraunið, sem runnið hefur umhverfis gígina og að nokkru leyti yfir þá, hefur ekki runnið fyrr en nokkru eftir, kannske löngu eftir að þeir gusu, því sums staðar má sjá að gjallið í þeim hefur verið farið að veðrast dálítið. Telja má víst, að þeir hafi verið orðnir mosagrónir, og á einstaka stað vottar fyrir jarðvegsmyndun. Víða í hólunum má greinilega sjá að hraunið hefur orðið fyrir snöggri kælingu, t.d. finnur maður á nokkrum stöðum þunnar basaltæðar í gjallinu og eru þær með svartri glerhúð. Einnig vottar fyrir hólstramyndun á stöku stað. Þetta vekur grun um, að hér hafi gosið í vatni, og við nánari athugun kemur í ljós að svo hefur verið.

Selhraun

Bergstandur í Selhrauni,

Á a. m. k. tveim stöðum í stálinu má sjá að hraunið hefur brotist upp í gegnum leirlög, sem nú eru sem vænta má mjög umturnuð og brennd hið næsta hrauninu, er brotizt hefur í gegnum þau. Aragrúi af skeljum hefur verið í leirnum og tekur það af allan efa um að hér hefur gosið í sjó. Sjálfar eru skeljarnar farnar veg allrar veraldar, en mótin eftir þær eru afar greinileg. Það er augljóst, að um allmargar mismunandi tegundir hefur verið að ræða, en mjög erfitt er nú að greina þær með vissu, því allt er þarna í einum hrærigraut og svo laust í sér að það fellur sundur ef við er komið.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Í Þorbjarnastaða-Rauðamel.

Örugglega má þó þarna greina leifar af hrúðurkörlum (Balanus). Smyrslingur (Mya truncata) er þarna líka og líklega rataskel (Saxicava arctica), og nokkrar fleiri tegundir. Diatomeur (kísilþörunga) má og finna í leirnum, en sama máli gegnir um þá, að skeljarnar eru mjög illa farnar og örðugt að ákvarða þær með vissu. Aðeins sárafáar heilar skeljar hefur tekizt að finna. Langmest ber á brotum úr Coscinodiscus og nokkrum öðrum sjávartegundum. Örugglega má ákvarða Biddulphia aurita og Navicula peregrina, en báðar lifa í söltu vatni.
Af ferskvatnstegundum reyndist mögulegt að ákvarða Eunotia sp., Pinnularia sp. og Tabellaria feneslrata.

Rauðamelur

Stóri-Rauðamelur – núverandi námusvæði.

Það virðist því líklegt, að þarna hafi gosið í sjó, en líklega hefur það verið nálægt strönd og hafa ferskvatnstegundirnar borizt út í sjó með lækjum.
Skammt vestan við Straum er Rauðimelur, en þar hefur rauðamöl verið tekin í mörg ár, og er nú búið að grafa þar niður fyrir grunnvatnsborð. Vafalaust er Rauðimelur leifar af eldvarpi, sem líka hefur myndazt í sjó á sama hátt og e.t.v. á svipuðum tíma og eldvörpin í Selhrauni.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.05.1965, Forn eldvörp í Selhrauni, Jón Jónsson, bls. 1-4.

Selhraun

Selhraun – berggangur.