Setbergssel

Vestan við Kershelli sér niður á grassvæði. Þarna var selstaða Setbergs í Garðahreppi hinum forna (nú að mestu í Hafnarfirði).

Setbergssel

Í Setbergsseli.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur) gamla liggur niður um selstöðuna og áfram í gegnum hana uns hún sveigir að Þverhlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.
Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir, öðru nafni fyrrnefndur Ketshellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir, öðru nafni Selshellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Skammt sunnar má sjá hlaðinn stekk selstöðunnar. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir. Hamarkotsselsfjárhellir hægra megin.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Kershellir

Í Kershelli.

Um það bil 50 metrum austar og nær Smyrlabúðarhrauni, steinsnar frá Selvogsgötunni er hinn eiginlegi Kershellir í jarðfalli. Honum lýsti Ólafur Þorvaldsson á leið sinni um Selvogsgötuna.

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Hann gat réttilega um að menn úr félaginu Hvati hafi helgað sér hellinn laust eftir aldamótin 1900, sem varð til þess að margt manna lagði þangað leið sína til að skoða hann. Kölluðu þeir hann Hvatshelli, sem varð til þess að Kershellisnafnið féll í skuggann um árabil.

Kershellir

Kershellir. Setbergssel og Hamarkotssel fjær t.v.

Ólafur gefur eftirfarandi lýsingu: Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.

Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jafnframt skoða mikið á skömmum tíma.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Sveifluháls

Árið 2004 vann Sigrún Helgadóttir skýrslu fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs um fólkvanginn, upphaf hans, markmið og framtíð. Hér birtist útdráttur úr skýrslunni, sem er 43 bls. með margvíslegum fróðleik og tillögum.
Auk þess að lýsa Reykjanesfólkvangur - kortReykjanesfólkvangi getur höfundurinn um menningar- og samfélagsverðmæti hans m.t.t. sögu, minja og þjóðtrú, náttúrufegurð (hughrif), útivist og ferðamennsku, lista, náttúruvísindastarfa og fræðslu og umhverfismenntar. Árið 2005 varð fólkvangurinn 30 ára, en hann var stofnaður formlega með auglýsingu í Stjórnartíðindum 1. desember 1975 (520/1975).
„Stofnun Reykjanesfólkvangs er samofin sögu náttúruverndar á Íslandi. Framkvæmdir við Grænavatn í Krýsuvík áttu þátt í að menn áttuðu sig á mikilvægi þess að almenn náttúruverndarlög giltu í landinu. Hugmynd að stofnun fólkvangs á Reykjanesi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1969 og lögð áhersla á að land frá Elliðavatni til Krýsuvíkurbergs yrði gert að friðlýstu útivistarsvæði fyrir almenning. Fólkvangurinn var stofnaður 1. des. 1975.

Seltún

Í Seltúni.

Fólkvangar eru í umsjón sveitarfélaga ólíkt öðrum friðlýstum svæðum á Íslandi. Landið er í lögsögu Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Álftaness og Garðabæjar en vegna mikilla hagsmuna annarra þéttbýlisbúa standa Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík saman að fólkvanginum. Hvert sveitarfélag skipar einn fulltrúa í fólkvangsstjórn og fjárframlög eru í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnar. Frá 1981 hefur verið starfsmaður í hlutastarfi á sumrin til eftirlits.
Hellir í fólkvanginumSvæðið fellur ekki að íslenskum eða alþjóðlegum skilgreiningum á fólkvangi en er þjóðgarðsígildi og hluta þess mætti friðlýsa sem víðerni. Jarðfræði svæðisins er merkileg á heimsvísu en þar eru plötuskil með tilheyrandi eldstöðvum af ýmsum gerðum og gömlum og nýjum hraunum. Svæðið var byggt frá landnámi fram á síðustu öld og þar er mikið af minjum um lífshætti fólks á fyrri tímum til lands og sjávar.
Landið var vel gróið en hefur verið ofnýtt og gróður er nú mjög illa farinn, mikil ofbeit og landeyðing. Það er enn notað sem beitiland bæði er þar lausaganga búfjár og beitarhólf fyrir hross og sauðfé. Ýmsir áhugahópar hafa helgað sér svæðið m.a. til torfæruaksturs utan vega og er landið víða mjög illa farið af þeim sökum. Mikilvægt er að ná tökum á þessum vandamálum. Stefnt skyldi að friðun fólkvangsins fyrir beit og utanvegaakstri og leitast við að endurheimta fyrra gróðurfar (vistheimt).

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

Vegir í fólkvanginum eru að mestu malarvegir. Sumir þeirra eru illa færir fólksbílum. Verið er að undirbúa lagningu Suðurstrandarvegar þvert í gegn um fólkvanginn. Tilkoma vegarins mun auka mjög umferð um fólkvanginn og nauðsynlegt er að bregðast við auknum gestafjölda með merkingum, upplýsingum og annarri þjónustu. Þá þjónustu þarf að veita um allan fólkvanginn, fyrst og fremst þarf að merkja áhugaverða staði og stika fjölbreyttar leiðir.
Þegar borin eru saman fjárframlög og stuðningur við Reykjanesfólkvang og önnur útivistarsvæði í nágrenninu, s.s. Bláfjallafólkvang og Heiðmörk, sést að fólkvangurinn er mikið olnbogabarn.
Minjar í fólkvanginum - frá fyrstu tíð landnámsSvæðið verður þó sífellt mikilvægara til útivistar fyrir þéttbýlisbúa SV-lands. Það gæti einnig haft mikið aðdráttarafl fyrir þá erlendu ferðamenn sem sækjast eftir menningarlegri og fræðandi útivist. Það form ferðmennsku er nú í mikilli sókn. Sú sérstaða að hægt sé að upplifa víðernisáhrif á daginn en stunda menningarlíf og fá góða þjónustu í þéttbýli um kvöld og nætur er mikill styrkleiki fyrir nálæg sveitarfélög.
Árið 2005 verður Reykjanesfólkvangur 30 ára og vonandi verður það tilefni til átaks í málefnum hans.“

Sog

Í Sogum.

Á lofti eru bæði blikur og sól. Blikurnar felast bæði í áhuga orkufyrirtækja að virkja háhitasvæði innan og utan fólkvangsins með tilheyrandi háspennulínum og járnleiðslum þvers og kruss um landssvæðið svo og þeirri áráttu sveitarstjórnarfólks að heimila á því hömlulitla malarnámuvinnslu. Sólin er vonin um að vitsmunalegt fólk geri sér grein fyrir þeim verðmætum er felast í ósnortinni náttúru, möguleikum skipulegrar nýtingar til útivistar og ferðamennsku sem og mikilla möguleika ókominna kynslóða til enn frekari nýtingar í heimi þar sem slík svæði eru þegar orðin sjaldgæf – og í rauninni alveg einstök.

Heimild:
-Sigrún Helgadóttir – Reykjanesfólkvangur, upphaf, markmið og framtíð – skýrsla unnin fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs 2004.
Duldar minjar í fólkvanginum

Flatahraun

Gengið var frá Fjarðarkaup við Flatarhraun, framhjá Stekkjarlaut (þar sem sjá má tóft stekks) og inn á Flatarhraun skammt norðaustar. Ætlunin var að komast inn á Hraunsholtselsselstíg. Hann fannst fljótlega, enda vel greinlegur í hrauninu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Eftir að hafa fylgt Hraunsholtsselsstíg suður hraunið var komið að Hádegishól syðst í Flatahrauni (Vífilsstaðahrauni/Garðahrauni). Sunnan undir hólnum, sem eru landamerki og framhalda af Engidalsvörðunni (vörðunni vestan Hrafnistu og vörðunni við Balaklöpp) yfir í Miðdegishól, eru svokallaðar leifar selsins, en það hefur að mestu leyti verið skemmt vegna framkvæmda við iðnaðarhverfið í Garðabæ. Annars er það merkilegt hversu sumir láta sig litlu skipta menningarverðmæti, ef þau eru sannanlega í öðrum umdæmum, litlu skipta. Það hefði einhvern tímann verið kallað smáborgarahugsunarháttur. Tekið hefur verið úr hólnum að sunnanverðu, en þó má sjá votta fyrir selstóftunum ef vel er að gáð (6404906-2156032).

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur vestan hólsins, í lægðum í hrauninu og yfir að Hraunsholti. Norðan þess eru garðar og hleðslur á tiltölulega sléttu hrauni. Vestar er gamla þjóðleiðin um Engidal, Engidalsvegur, en enn sést hann greinilega á bak við fyrrnefnda verslun; Fjarðarkaup.
Sunnan undir Miðdegishól eru hleðslurnar undir fyrirhugaða járnbraut, sem til stóð að leggja frá Hafnarfirði og yfir hraunið skömmu eftir aldamót 1900. Brautin er svo til bein í gegnum hraunið, rétt áður en komið er yfir austurbrún þess. Hún lá áður svo til alveg niður í Hafnarfjörð, en nú stendur þessi spotti einn eftir sem dæmi um stórhug og hið mikla áræði umfram samtímann.
Veður var frábært – sól og logn. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Hraunsholt

Hraunsholt og Flatahraun.

Stakkavík

Í þessari ferð var 130. selið á Reykjanesi skráð (af ~400), en ekki er þó svo langt síðan að FERLIR flaggði á 100. selinu, sem skoðað var á svæðinu (Merkinesseli).

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Gengið var um “Hellisvörðustíg” vestan við Víðisand í Stakkavíkurhrauni, sunnan Hlíðarvatns. Stígurinn, sem er augljóslega mjög gamall, er varðaður á helluhrauninu og víða greyptur djúpt í klappirnar þar sem hann liggur skammt ofan við ströndina. Hraunið skammt vestar rann um 1350 og rann þá að hluta yfir stíginn vestan við Stakkavíkurhraunið. Stuttu áður en komið var að hraunkantinum skiptist stígurinn. Neðri stígurinn liggur á klöppunum skammt ofan við ströndina. Þar er hann einnig greyptur í bergið. Nýrri stígur, sá sem farinn var á síðari öldum, liggur ofar í gegnum nýrra hraunið og upp fyrir það milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur.

Fornagata

Fornagata.

Gamli stígurinn (Fornagata) í gegnum apalhraunið nýrra hefur þó legið alveg við ströndina, en sjórinn tekið hann að hluta. Þó má sjá hvar hann kemur undan sjávarbarningnum neðst í gróinni kvos skammt austan Mölvíkurtjörn og liggur síðan áfram úr henni áfram áleiðis að tjörninni. Þar eru víða minjar, bæði tóftir og hleðslur, s.s. byrgja og garða.
Frá nýrri hraunkantinum var gengið að Hlíðarvatni og áfram upp að Stakkavíkurborg. (Stakkavíkursvæðinu er lýst í annarri FERLIRslýsingu). Borgin er heilleg og fallega hlaðin og um hana er hlaðið gerði. Frá henni var gengið upp á Selstíginn ofan við Höfða. Neðar í höfðanum eru tóftir tveggja fjárhúsa frá Stakkavík. Í Höfðanum er Álfakirkjan, stór steinn, sem Stakkavíkurbræður hafa lýst og tengist draumi eins þeirra.
Upp frá Höfðanum liggur Selsstígurinn upp á brún Stakkavíkurfjalls. Gangan upp tók um stundarfjórðung.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Þegar upp var komið tók varða á móti göngufólkinu. Við hana greinist stígurinn, annars vegar til austurs að austurjarðri hraunbrúnarinnar og hins vegar áfram upp tiltölulega greiðfært apalhraun. Öllu hærra og úfnara hraun er þarna skammt vestar. Stígnum var fylgt áfram upp í gegnum hraunið eða þangað til stígarnir sameinuðust við hraunröndina. Stakkavíkurselstígnum var þá fylgt áfram upp með honum til norðurs. Efst á holti í fjarska sást í vörðu. Undir því átti Stakkavíkurselið að vera skv. lýsingu Þórarins á Vogsósum, en hann hafði bent á vörðuna og að nægilegt væri að stefna á hana til að finna selstöðuna.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

Stígnum var fylgt upp í Dýjabrekkur og áfram upp í Grænubrekkur. Þar var beygt út af stígnum til austurs og stefnan tekin á vörðuna. Fallegur stekkur er í brekkunum neðan við selið, sem er utan í grónum hól. Í því eru tvær tóftir og við þær holur hraunhóll með hlöðnum stekk framan við. Í hólnum er hin ágætasta vistarvera. Sennilega er hann ástæða þess að selstöðunni var valin þessi staður. Vestan selsins er hlaðin kví og nýlegra skotbyrgi refaskyttu. Ofar í holtinu er hlaðinn stekkur sem og hleðslur fyrir opi í klofinni hraunbólu.
Á leiðinni niður brekkurnar, vestan stekksins, var gengið fram á tóftir enn eldra sels, svo til fast við Stakkavíkurselstíginn., en hann liggur þarna áfram uppeftir og beygir síðan áleiðis að Vesturásum, að Hlíðarvegi (vetrarvegi Selvogsgötu). Við gatnamótin eru þrjár vörður. Þessar seinni tóftir eru greinilega mjög gamlar.

Nátthagi

Við op Nátthaga.

Frá selinu var gengið til suðvesturs yfir Selvogshraunið. Það er ekki auðgengið vegna þess hve grámosinn er þykkur og hraunið bugðótt og hólótt. Þegar komið var út úr því að vestanverðu var gengið hiklaust að neðra opi Nátthaga og það varðað. Síðan var gengið að efra opinu, stórtu jarðfalli og það einnig varðað. (Sjá aðra lýsingu af ferð um Nátthaga). Haldið var niður í jarðfallið og upp eftir hellinum vinstra megin. Hann var mjög víður og hár í fyrstu, en talsvert hrun er fremst í efri hluta hans. Neðri hlutinn er svipaður, en öllu umfangsmeiri. Rásinni var fylgt upp að rásmótum, Þar var beygt til hægri, niður með fallegri hrauná. Hellirinn víkkar aftur og liggur í boga að jarðfallinu. Nátthagi er fallegur hellir, sem er vel þess virði að skoða.
Á bakaleiðinni áleiðis niður Nátthagaskarð (næsta skarð vestan við Selskarð) var kíkt inn á “Annar í aðventu” sem og í Halla (Stakkavíkurhelli) ofan við skarðið að vestanverðu.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Sandakravegur

Gengið var um Skógfellaveg, beygt út af veginum skammt ofan við Stóru-Aragjá (Brandsgjá) og haldið upp Mosadal vestan við Kálffellið, upp fyrir Mosadalsgjá og áfram um sandsléttur norðvestan Nauthóla. Síðan var slóðinni fylgt suður með Fagradalsfjalli allt að Drykkjarsteinsdal. Þaðan var götu fylgt til vesturs yfir hraunið og komið inn á Skógfellaveg skammt norðan við Stóra-Skógfell.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Þegar farið var út af Skógfellaveginum ofan við Brandsgjá og haldið inn á tiltölulega slétt mosahraunið var erfitt að álykta hvar svonefndur Sandakravegur gæti hafa legið þar um.
Í hrauninu ofan við slóðann má sjá örla fyrir gömlum götum, en mosinn er víða búinn að færa þær í kaf. Þegar gengið var niður af brún Grindavíkurgjár var ekki auðvelt að sjá hvar gatan gæti hafa legið um, en þar er þó ekki erfitt að fara um, t.d. með hesta. Mosadalur ber nafn með réttu. Hann er nokkuð sléttur og greiðfær. Þegar komið var að Mosadalsgjá var leitað að hugsanlegri leið upp úr dalnum, en einnig þar var erfitt að greina hana við gjárbarminn. Ofar tekur við gróið hraun. Þar gæti vegurinn hafa legið svo til hvar sem er. Ekki var að sjá vörðubrot á þeirri leið. Enn ofar tekur við slétt sandslétta, alveg upp að Nauthólum. Þetta svæði ofanvert hefur verið vel gróið fyrrum, en mikil landeyðing hefur átt sér stað.

Dalssel

Dalssel.

Dalsselið kúrir þarna á grasbakka innst í Fagradal. Þegar dalnum sleppir er leiðjn nokkuð greiðfær milli Fagradalsfjalls og hraunsins vestan þess. Sums staðar í hrauninu, ofan við hraunbrúnina, mótar fyrir götum.
Vestan við Kastið sést gatan vel í hrauninu og einnig suðvestan við Einbúa. Þar sést hvar kastað hefur verið upp úr götunni á allnokkrum kafla.
Sumir segja, og hafa stutt það með seinni tíma kortum, að Sandakravegur hafi legið af Skógfellavegi rétt ofan við Brandsgjá, um Mosadali og Nauthólaflatir, með Sandholti innri, Sandhól, Kastið og Borgafjall og um Drykkjarsteinsdal. Aðrir segja að vegurinn liggi um Dalahraun, um Beinvörðuhraun norðan Hrafnahlíðar með stefnu í Drykkjarsteinsdal. Reyndar er gata þar yfir hraunið, mest áberandi vestan dalsins. Kemur hún inn á leið, sem sýnir Sandakraveg liggja til norðurs á kortunum.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Á kortum og í örnefnaskrám er, sem fyrr sagði, getið um Sandakraveg eða Sandakradalsveg. Sú leið er sögð í seinni tíð kljúfa sig út úr Skógfellaleiðinni á brún Stóru-Aragjár (Brandsgjár), sveigja til suðausturs áfram suður úr upp að Fagradal og Fagradalsfjalli að vestanverðu yfir í Drykkjarsteinsdal.
Einnig liggur gata frá Drykkjarsteinsdal yfir hraunið að Stóra-Skógfelli og kemur inn á Skógfellaveg skammt norðan við fellið. Hún hefur einnig verið nefnd Sandakravegur. Þar er varða á hraunbrún, auk þess sem reistar hafa verið upp sléttar hellur með götunni á kafla. Í raun hefur greiðasta leiðin með hesta af Skógfellavegi inn að Drykkjarsteinsdal og þar með gömlu þjóðleiðina austur til Krýsuvíkur, verið um Mosadalina, upp úr þeim um sandsléttuna norðvestan Nauthóla og síðan með Fagradalsfjalli áleiðis að Drykkjarsteinsdal. Á þessari leið er kastað duglega upp úr götunni og þar er gerði fyrir hesta eða fé sunnan Einbúa. Ekki sést þó móta fyrir götu upp úr Mosadölum, en hún ætti að sjást enn á brúnunum. Hins vegar er hin leiðin, af Skógfellavegi norðan Stóra-Skógfells, mun styttri og greiðfærari, t.d. fyrir fótgangendur. Þar, sem og á þessum hluta Sandakaravegar, er gatan mörkuð djúpt í klöppina á löngum kafla.
Sandakravegur hefur einnig verið nefndur Sandhalavegur. Skýringin er sennilega sú að hólar voru stundum nefndir „halar“ sbr. Hrísahali (Hríshólar) ofan við Garð. Sandhólar eru við Sandakraveg og gætu þeir hafa verið nefndir „Sandhali“.
Hvað sem öllu líður er ljóst að báðar þessar leiðir hafa verið farnar fyrrum, en hver nöfnin á þeim hefur verið, verður væntanlega seint vitað með vissu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gvendarsel

Ákveðið var að skoða a.m.k. þrjú sel á Reykjanesi. Fyrir valinu urðu Vífilsstaðasel, Gvendarsel og Flekkuvíkursel. Þessi sel eru ekki beinlínis hvert ofan í öðru, en eiga það öll sameiginlegt að tiltölulega stutt er að ganga í þau frá vegi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekið var upp línuveginn í Vífilsstaðahlíð og spölkorn inn fyrir háhæðina. Vífilsstaðaselið er skammt innan við Vífilsstaðahlíðina þar sem hún er hæst á milli og vestan við Grunnuvötn. Á kortum er það sýnt norðar og vinstra megin við línuveginn, en er í raun hægra megin í grasigróinni hvilft inni á milli holta, opinni til norðvesturs. Tóftirnar eru norðaustan undir holtinu. Svo virðist sem kví hafi verið sunnan við þær. Ofan og norðar við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Vel gróið er í hvilftinni. Selstígurinn lá frá Vífilsstöðum um Ljósukollulág þarna skammt norðvestan í hlíðinni. Þá má einnig sjá götu niður og norður frá Gunnuvötunum, í lægðinni milli Vífilsstaðahlíðar og Sandhlíðar að austanverðu.
Þá var haldið að Gvendarseli utan í Gvendarselshæðum suðaustan við Kaldársel. Ekið var eftir línuvegi frá Bláfjallavegi og inn með hæðunum að vestanverðu, ofan Undirhlíða. Gvendaselsgígar eru norðar.
Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, Um Slysadal, Leirdal og Fagradal.

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Þar mun hafa verið svonefndur Gvendarhellir. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta. Þeir, sem skrifað hafa um Gvendarsel, hafa álitið að þar hafi í rauninni aldrei verið sel, enda “engin merki þess.” Ef draga á ályktun af tóftunum er líklegt að annað hvort hafi staðið til að hafa þarna selstöðu eða að hún hafi verið þar í skamman tíma. Afstaða tóftanna er sú sama og í flestumöðrum seljum á Reykjanesskaganum. Talið er að nafngiftin sé Guðmundar Símonarsonar, bónda á Setbergi, fósturfaðir Guðmundar Tjörva Guðmundsssonar síðar bónda í Straumi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var haldið að Flekkuvíkurseli ofan við Hrafnhóla á Vatnsleysuströnd. Farið var eftir línuveginum vestan Afstapahrauns. Selið er undir og norðan við ás, Seláss eða Flekkavíkuseláss í u.þ.b. 5 mínútna gang frá línuveginum á móts við Bræðravörðurnar þar norðan við veginn. Þessar vörður eru hægra megin þegar línuvegurinn er ekinn til vesturs. Þetta eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Bræður sjást mjög vel ffá Reykjanesbraut þegar ekið er upp hæðina suður frá Kúagerði. Frá selinu eru vörðurnar í stefnu á Stóra-Hrafnhól en hann stendur rétt neðan við brautina (hægra megin). Um er að ræða miklar tóftir á nokkrum stöðum. Við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Ásinn greinist samkvæmt gömum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkuselás og Nyrði-Flekkuvíkurselsás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Vatnsstæðið er á ásnum ofan og norðan við þær. Norðan við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Austan við stekkinn er greinilega mjög gömul tóft. Enn austar, í hraunhólsbolla, eru hleðslur, líklega stekkur. Gæti verið frá gamla selinu, sem er þar skammt norðar. Talið er að síðast hafi verið haft í seli þarna um 1891 eða ’92. Líklegt er þó að selið hafi staðið upp enn um sinn og menn og fé leitað þar skjóls, eða þangað til það hrundi endanlega veturinn 1916.
Veður var frábært þennan dag – sól og blíða.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-Íslandskort 1942.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Askur

Í bók Önnu Sigurðardóttir um „Vinnu kvenna á Íslandi í 1100 ár„, sem var gefin út árið 1985, fjallar hún m.a. um selstöður til forna og störf í seli á seinni öldum og mjaltir og búverkin heima.
Hér verður gripið niður í nokkur atriði í hinum merku lýsingum Önnu. Þótt hún segi lítið um selstöðurnar á Reykjanesskaganum segir hún allmikið um vinnuna í seljunum fyrrum:

Á stöðli og í seli til forna
Vinna kvenna í 1100 árÞær voru sumar sjálfar í seli, sennilega hefir þeim fallið það betur en að vinna heima á bænum. Þórhildur Skinna-Bjarnardóttir var ein þeirra. Maður hennar, Ásgeir rauðfeldur, hafði „selför það sumar uppi í Vatnsdal; hafði kona hans þar umsýslu bús og smalaferðar.“ Frá þessu er sagt vegna þess að „sá atburður var, að hún varð léttari í smalaferðinni og fæddi sveina tvo í Vatnsdalshólum.“
Þórdís Skeggjadóttir húsfreyja í Tungu var jafnan í seli fram í Hrútafjarðardal og voru þó yngri synir hennar mjög ungir. Önnur húsfreyja hafði tvær ungar dætur með sér í selinu. Ekki er nafns þeirrar konu getið en maður hennar hét Þorsteinn Gíslason og fór kona hans heim til að sækja hreinar skyrtur handa feðgunum.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Ein af jarteiknasögum Jóns biskups helga segir frá konu, Arnfríði að nafni, sem var í seli ásamt nokkrum konum að heimta nyt af fé. Þetta orðalag að heimta nyt af fé kemur fyrir í kristinna laga þætti Grágásar þar sem talin eru upp þau verk sem vinna má á helgum degi og ekki eru helgidagsbrot: Menn skulu eiga að reka fé sitt heim og heiman, og eiga konur að heimta nyt af því, og bera heim hvert sem skal, að menn beri heim, eða ferja á skipi, eða á hrossi, ef vötn eru milli bæjar og stöðuls, og eiga konur að gera til nyt þá.
Að gera til nytina heitir líka að búverka. „Að mjalta, sía mjólkina og setja hana, að þrífa mjólkurílátin, að strokka rjómann, hnoða smjörið og hleypa skyr allt þetta hét að búverka. Fyrstu vikurnar eftir fráfærur varð oft einnig að sinna búverkum á kvöldin.“ Búverk hafa frá fyrstu tíð verið kvennastarf svo sem kristinna laga þáttur sýnir.

Fyrrum fóru búverkin aðallega fram í seli. Sel voru höfð þar sem góðir voru hagar, oft allfjarri bænum. Konur í seljum voru óánægðar ef „gerðist fé harla nytlétt“ eins og segir í Hænsna-Þóris sögu. Konurnar vildu að skipt væri um haga og töldu að myndi þá miklu betur mjólka. Ekki voru konur einar í selinu, smalar voru þar líka. Einn þeirra fer heim í Örnólfsdal með klyfjar úr selinu og biður heimasætuna, Jófríði Gunnarsdóttur, að taka ofan með sér. En gestur Jófríðar kemur til og tekur ofan klyfjar. Þess vegna er sagan sögð um heimflutning á hvítum mat úr selinu að gestur var hjá heimasætunni.

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Gunnar Hlífarson í Örnólfsdal „hafði selför, og var jafnan mannfátt heima.“ En ekki er þess getið hve margt manna var í selinu.
Í Búalögum eru ákvæði um hversu margar konur eigi að vera í seli með vissan fjölda ásauðar og kúa.
Um störf kvenna í selinu segir ekkert í Íslendingasögum nema hvað þær eru við mjaltir í kvíum. Hvernig farið er að vinna mjólkina í smjör, skyr og osta segir ekki. En Búalög geta um verð á ýmsum ílátum undir mjólkurmat en þau áttu að vera af löggiltri stærð, svo sem keröld, trog og búskjólur, og strokkur átti að vera „sígirtur af þriðjungurinn og eirseymd gjörð á botni.“ Í sögunum eru nefnd nokkur ílát, svo sem sýrukerald, skyrkerald og skyrkyllir. Skyrkyllar voru notaðir til að flytja skyrið heim úr selinu og sennilega geyma það í líka. Í Grettis sögu segir: Auðunn bar mat á tveim hestum og bar skyr á hesti, og var það í húðum og bundið fyrir ofan; það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af hestinum og bar inn skyr í fangi sér… .
Framhald sögunnar er m. a. um að yfirbandið gekk af og var síðan skyri slett enda þótt sekkbært væri.

Skyr

Skyr.

Verð á skyri var miðað við sekkbært skyr eða sekkbæra hvítu, þykkt skyr eða þykkva hvítu skv. mismunandi heitum í Búalögum. Þunna skyrið, sem stundum er talað um í sögunum, hefir ekki gilt sem söluvara. En venjulega er tekið fram að askarnir hafi verið stórir er menn drukku eða supu skyrið.
Verð var annað á sumarsmjöri en vetrarsmjöri („menn kalla Basalm“). Ostur hefir verið gerður á annan hátt en nú er gert eða var gert á seinni öldum. Verð á osti skv. Búalögum var miðað við að hann hafi haft þriggja daga þerri eða hann á að vera „þurr og gagnsær af þriggja daga þerri.“
Í sögunum er þess getið að menn höfðu „skyr og ost“ til kvöld- eða náttverðar og þótti það betri matur en grautur.

Í seli á seinni öldum og mjaltir og búverk heima

Færikvíar

Færikvíar.

Eftir því sem aldir líða virðist það hafa minnkað að hafa í seli og það svo mjög að það opinbera vildi snúa þróuninni við um miðja 18. öld. Þó getur Eggert Ólafsson um sei í Borgarfirði upp til fjalla. Venjulega eru það þrjú hús eða kofar. í einu er búið, í öðru er mjólkin geymd, en hið þriðja er eldhús. Selfólkið er smali, fullorðin stúlka og unglingsstúlka, en þær mjólka og vinna úr mjólkinni smjör, skyr, osta og sýru.
Þeir eru á ferðalagi um landið Eggert og Bjarni þegar gefin er út tilskipun sem átti að stuðla að því að bjarga landsmönnum frá hungri og annarri neyð sem þeir bjuggu við eða yfir þeim vofði. Af konunglegri náð átti t. d. að styrkja „innréttingar“ en jafnframt var mönnum gert skylt að koma á kornyrkju og garðrækt. Bændur áttu auk þess, að viðlagðri refsingu, að hafa búfé sitt í seli og geldfé á afrétti frá 9.—21. viku sumars, að undanteknum þeim hestum sem nota þurfti við búskapinn. Nánar er minnst á refsinguna ef ekki er farið eftir þessum ákvæðum um selstöðu og jarðrækt eða ef menn notuðu húsdýraáburð til eldsneytis.

Smali

Smali við færikvíar.

Klerkur einn, séra Guðlaugur Sveinsson (1731 — 1807), í Vatnsfirði skrifaði ritgerð í Rit hins íslenska lærdómslistafélags árið 1787: „Um selstöður og nytsemi þeirra.“ Þar bendir hann á nytsemi þess að hafa ær í seljum eða setrum að sumrinu svo sem títt hafi verið hér á landi til forna og enn sé mjög til siðs í Noregi. Nú sé „þessi gagnlega brúkun, ásamt fleiri nytsamlegum atburðum, mikinn part undir lok liðið.“ Telur séra Guðlaugur það illa farið, því að selstöður séu mjög nytsamar, einkum þar sem heimaland er hrjóstrugt og magurt. Hann
telur síðan upp aðalkostina við að hafa í seli og segir frá reynslu sinni af því. Guðrún Ólafsdóttir lektor rannsakaði selstöður í Grindavíkurhreppi. Sama ár og grein hennar birtist, 1979, kom út í Noregi á vegum stofnunar um samanburðarmenningarrannsóknir bók um sel eða rannsóknir til sögu selbúskapar á Íslandi frá landnámsöld. Fróðleg og áhugaverð bók fyrir margan Íslending en því miður ekki á íslensku.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

En frásagnir um sel á öldinni sem leið má trúlega víða finna. T.d. lýsir Ingibjörg Jónsdóttir frá Djúpadal selinu sem foreldrar hennar höfðu á árunum 1842-1862. En þau hjón giftust tvítug og dóu fertug. Þau eignuðust 12 börn, þeirra á meðal var Björn Jónsson ráðherra. Í æskuminningum sínum segir Ingibjörg m. a.: Að sumrinu var haft í seli fram á dal. – Ráðið, sem faðir minn hafði til að fjölga skepnunum, var það, að hann byggði beitarhús á selinu og ruddi nýjan veg upp snarbratta hlíð skammt frá selinu, svo að nota mætti slægjur, sem þar voru. Erfitt var það og svo bratt, að ef baggi datt af hesti efst í hlíðinni, þá staðnæmdist hann ekki fyrr en niðri í árgljúfri, og á hverju vori varð að ryðja þennan veg, og ég veit ekki til að það hafi verið gert nema í tíð föður míns, hvorki fyrr né síðar. Ég hugsa að hann hafi átt mjög erfitt fyrstu búskaparárin, en með framúrskarandi dugnaði yfirvann hann alla erfiðleika og átti síðustu árin gott bú. Fyrstu árin var móðir mín í selinu með börnin 3 og 4, en þegar þau fjölguðu meir, hætti hún, og Guðrún systir [föðursystir, en kölluð systir] var upp frá því selráðskona. — Skrýtnar voru færikvíarnar, þegar í selið kom, þær sem notaðar voru heima þóttu of fyrirferðarmiklar til að flytja þær, í þess stað voru hafðar hrískvíar, hrísið var bundið í smábagga og hlaðin úr því kví og færð til á þann hátt, að önnur hliðin og gaflinn var flutt til þegar þurfti, seinlegt var það, en ekki var um það fengist, þetta mátti nota og gerði sama gagn. Það var gott að mjólka í hrískvínni, ærnar voru rólegar við skógarilminn. Seltúnið spratt vel og gaf af sér töluverða töðu af þessum eina áburði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Það mun víða „ekki hafa þótt svara kostnaði að leggja fólk til“ að hafa í seli á öldinni sem leið. En fráfærur voru hins vegar víða. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi (1871-1952) nefnir ekki selstöður, en hún getur um fráfærurnar, t. d. hversu mjög hún vorkenndi litlu lömbunum að verða að yfirgefa mæður sínar og einnig um mjaltirnar og búverkin: Ýmsir erfiðleikar fylgdu fráfærum, sem nútímafólk þekkir ekki. Þá þurfti að þvo upp og þétta öll mjólkurílát, einnig stóra skyrsái. Tunnur voru ekki notaðar undir skyr; í þeim var geymd súrmjólk og drukkur, sem hafður var á slátur. Annars var lítið um tunnur á þeim árum, nema tvíbytnur, sáir voru miklu meira notaðir og fleiri til. Líka þurfti að þvo upp mörg trog, sem mjólkin var sett í; sumir höfðu mjólkina í trébyttum. Þá var fjöldi af upphleypudöllum, sem hafa þurfti við skyrgerðina. Allt var þetta þvegið fyrir fráfærurnar. Mjaltir í kvíum voru ekki gott verk; þó voru unglingar látnir mjólka alveg eins og fullorðnir. Hér voru fullorðnu stúlkurnar við heyvinnu á engjunum, en við unglingarnir vorum við heyþurrkinn og mjaltirnar. Oft var ég syfjuð á morgnana, þegar ég varð að fara á fætur klukkan sjö… . Út yfir tók þó að verða að fara í kvíarnar á sunnudagskvöldin, verða þá að fara úr sunnudagsfötunum, fyrr en aðrir, og klæða sig í kvíakastið og úlpuna; það voru óskemmtileg umskipti… . Á kvöldin var ofurlítil uppbót á mjaltirnar, að við fórum með mjólkurföturnar í bæjarlækinn og þvoðum þær þar. Yfir lækinn var byggt hús — brunnhús— inni í því þvoðum við föturnar. En þegar það var búið, fórum við út og settumst á brunnhúsvegginn.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Stundum voru þá komnar fleiri stúlkur að læknum, svo að samtölin urðu oft fjörug og stundum nokkuð löng. Þarna var skrafað og skeggrætt um framtíðina og fleira. Hvað er eðlilegra, en að æskuna dreymi framtíðardraum, enda þótt þeir rætist aldrei. . . . Við byggðum vonahallir, sem hrundu áður en þær voru fullgerðar.
Steinunn Jósefsdóttir rifjar upp bernskuminningar um Miðhópssel enda þótt hún hefði sjálf ekki verið selstúlka en ánægjulegt þótti henni að vera send þangað til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um heima. Selráðskonan var með dóttur sína og ein eldri kona var þar og smali. Miðhópssel var byggt úr torfi og grjóti. „Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þurrkuð. Pað hét að hlóðarbaka trogin. Selstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar, en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan dag til tvo daga.“ Síðan lýsir Steinunn hvernig rennt var úr trogi, rjómi strokkaður og smjörið saltað, hnoðað og pressað í skinnbelgjum, hvernig undanrennan var flóuð og kæld fyrir skyrgerðina, mjólkurostur og mysuostur var gerður og seyddur ostur úr draflanum. Sýran var flutt heim í kvartelum og geymd heima í tunnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Í handritum Sigurlínu Sigtryggsdóttur frá Æsustöðum, sem birtust á prenti 1953 í Göngum og réttum, eru líka mjög skilmerkilegar lýsingar á meðferð mjólkur og mjólkuríláta í Eyjafirði, bæði heima við og í seli. Þar er þess getið að húsin í Hvassafellsseli hafi verið baðstofa og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr.
Pétur Jónsson frá Stökkum segir að venjulega hafi einni mjaltakonu verið ætlaðar 30-40 ær að mjalta, stundum þó allt að 50 en sjaldan yfir það. Víðast hvar hafi verið „tekið eftir“ sem kallað var að allar ærnar voru mjólkaðar aftur og þurrtottaðar.
Hér er ekki minnst á hversu lengi konurnar voru að mjólka þennan fjölda, en Sigurður Sigurðsson ráðunautur hefir það eftir reyndum og vönum mjaltakonum, að meðalkvenmaður mjólki 40-50 ær á klukkutíma, ef það eigi að vera viðunandi af hendi leyst.
Guðríður Guttormsdóttir sagði að þegar fært var frá í Stöð, fyrir aldamót, hafi stúlkurnar sem áttu að mjólka farið dálítið fyrr heim úr heyskapnum en hitt fólkið. En þó var mjöltum og mjólkurhirðingu stundum ekki lokið fyrr en undir miðnætti.
Jósef á Svarfhóli man eftir því að fært var frá á æskuárum hans 60—70 ám en kýrnar voru 6-8: Þennan pening mjólkuðu tvær stúlkur, kvölds og morgna. Heldur voru til þess valdar þær, sem liðléttari þóttu. Var það talin hvíld frá heyvinnu að fara heim að mjólka. Kannski hafa þær sem kraftmeiri voru og kjarkbetri afþakkað hvíldina þá og mjaltirnar og búverkin á eftir. „Talið var… . til þess voru valdar“ segir höfundur, en ekki að stúlkurnar hafi óskað þess að fá að sinna mjöltum og búverkum.

Nessel

Nessel – uppdráttur. Dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaga; eldhús, búr og baðstofa.

Sigríður Björnsdóttir frá Miklabæ segir m. a. svo frá í kafla um fráfærurnar í minningum sínum: Mjaltir á sauðfé þótti frekar vond vinna og var ekki eftirsótt meðal kvenþjóðarinnar, en auðvitað kom það eingöngu niður á henni. Þá tíðkaðist ekki að karlmenn önnuðust mjaltir. Það hefði þótt hneysa fyrir karlmenn að gera slíkt kvenmannsverk.
Það var víðar en í Skagafirði sem það þótti hneisa fyrir karlmenn að mjólka. Hreppstjóri einn á Suðurlandi var sárhryggur og grét þegar sonur hans — hreppstjórasonurinn — fór að mjólka kýrnar fyrir konu sína sem gekk með 12. barnið. Sonardóttir hreppstjórans sagði mér þetta en hún var í hópi eldri barnanna.
Það var liðið langt á 20. öldina þegar karlmenn töldu sér ekki lengur vansæmd að mjólka kýr en eftir það var fljótlega farið að mjólka með vélum.
Árið 1954 kom út ritgerðasafn sem ber heitið: Enginn matur er mjólk betri. Þar segir m. a. að það færist í vöxt að mjólka með mjaltavélum. Þar er talað um að „meðferð mjólkur sé í höndum bænda.“ (Karlmenn fóru líka að vefa þegar dönsku vefstólarnir komu).
Bergsteinn Kristjánsson skrifar um ýmsa þjóðhætti liðinna tíma í bókinni Fenntar slóðir. Í kafla sem heitir „Ull í fat og mjólk í mat“ segir hann frá mjöltum: Handmjaltir á kúm eru enn með svipuðu lagi og alltaf hefur tíðkast. Sá er einn munur að hinar svokölluðu togmjaltir eru lagðar niður, en nýtt og betra mjaltalag upptekið… .

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Ær voru alltaf mjólkaðar í opnum kvíum… . Þegar ærnar fóru að venjast mjöltunum og spekjast, röðuðu þær sér með veggjunum, og gat þá mjaltakonan gengið á röðina og mjólkað; hún stóð aftan við ána með fötu sína og mjólkaði annan spenann í einu… . Mjaltir í kvíum voru mjög óþrifalegt verk, einkum ef rigningar gengu og ærnar voru blautar og óhreinar, og geta má nærri, að erfitt hefur verið að halda mjólkinni hreinni. Við ærmjaltirnar fóru konur í hlífðarföt, sem geymd voru við kvíarnar (kvíaföt). Þetta batnaði nokkuð, þegar færigrindur voru uppteknar, því að þá voru þær settar upp á hreina jörð, og mátti altaf færa þær til, er völlurinn óhreinkaðist… .
Þegar mjólkin hafði verið sigtuð, var hún sett upp sem svo var kallað, það er að hún var látin í trog og byttur. Trogin voru grunn ílát með höllum hliðum og göflum, og þekkjast víða enn. Bytturnar voru einnig mjög grunnar og víðar, kringlóttar og gyrtar með vanalegu gyrði, en gat neðarlega á einum stafnum og tappi í. í þessum ílátum var mjólkin látin standa, minnst einn sólarhring, en stundum í þrjú dægur, en að þeim tíma liðnum átti rjóminn að vera sestur ofan á mjólkina. Þar, sem mikil var mjólk, þurfti mjög mikið af þessum ílátum, og hreinsun þeirra var mikið verk og krafðist mikillar vandvirkni og hreinlætis… .

Trog

Trog.

Þegar mjólkin hafði staðið áðurnefndan tíma, var rennt undan, sem svo var kallað, það er að undanrennan var látin renna úr ílátinu, en rjóminn var eftir. Úr byttunum var þetta auðvelt, því að þar var tappinn tekinn úr gatinu á stafnum og undanrennan látin renna þar úr. Úr trogunum var þetta dálítið erfiðara, en þá var undanrennan látin renna úr einu horni trogsins og þess varnað með hendinni að rjóminn rynni með.
Þá fer höfundur nokkrum orðum um það hvernig rjóminn var strokkaður: Þá sem nú þurfti rjóminn að vera í vissu hitastigi, ef smjörgerðin átti að ganga eðlilega fljótt og vera í fullu lagi, en þá var ekki hægt að grípa til hitamælis, svo að matseljan varð að finna það með fingri sínum, hvort strokkurinn var mátulega heitur; sömuleiðis heyrði hún á hljóðinu í strokknum, hvað langt var komið smjörgerðinni. Af því er komið hið alkunna máltæki um hljóð í strokknum, . . .

Rjómatrog

Rjómatrog.

Það er líka fróðlegt að heyra með hverju mjólkurílátin voru hreinsuð á þeim slóðum sem Bergsteinn var kunnugur: Til að þvo mjólkurílát voru notaðar þvögur, en þær voru ýmist úr fíngerðum rótum undan melgrasi eða úr hrosshári. Pottar voru fægðir með vikri eða sandi. Vikurs og melgrasróta var oft aflað í fjall- eða skógarferðum, því að óvíða var það að fá nærri bæjum.
Nýja mjaltalagið sem Bergsteinn segir að hafi verið tekið upp var kallað Hegelundsmjaltalag. Sigurður Pórólfsson kenndi það veturinn 1902—1903 í Reykjavík á allmörgum námskeiðum sem þar voru haldin á vegum Búnaðarfélags Íslands. Guðjón Guðmundsson búnaðarráðunautur kenndi ýmislegt um kýrnar og meðferð mjólkur. Mjaltaæfingarnar fóru fram í þrem bestu fjósum bæjarins. 8—10 stúlkur voru á hverju námskeiði sem stóð í tvær vikur. Margar þeirra voru í hússtjórnarskólanum og kvennaskólanum og var meirihluti þeirra úr sveit.

Mjólkurtrog

Mjólurtrog.

Trúlegt er að G.A., kona sem Halldóra Bjarnadóttir leitar til um upplýsingar um ostagerð í Austur-Skaftafellssýslu, hafi þekkt þvögur úr melgrasrótunum. En hún segir frá því hvernig móðir hennar hafði kennt henni að búa til osta:… . Það var notaður heimatilbúinn hleypir af kálfsvinstur, sem fyrst var blásin upp, hert, bleytt síðan upp í saltvatni. — Fyrst var mjólkin hituð, en ekki meira en svo, að maður þoldi vel niðri í henni með hendinni, þá var hleypirinn látinn út í og hrært vel í um leið. Þegar vel var hlaupið, var þetta vandlega hrært sundur með hendinni, síðan var hlaupið látið setjast á botninn, en því mesta af mysunni ausið ofan af, og osturinn tekinn saman með höndunum og látinn í mátulega stórt ílát og það mesta kreist úr honum af mysunni, og osturinn síðan pressaður t. d. eina nótt. Svo er hann tekinn úr pressunni og látinn í saltpækil (það má líka strá salti á hann, snúa honum, þegar saltið er runnið á efra borðinu, og salta þá hitt). Síðast er osturinn þurrkaður í hjalli í nokkra mánuði. Þess verður að gæta að láta ekki sól skína á ostana, snúa þeim oft við og færa þá til, og þvo þá úr saltvatni, ef skán sest á þá, sem helst vill verða í óþurrkatíð. — Ostarnir urðu góðir og jafnir í gegn með þessari aðferð.

Mjólurfata

Mjólkurfata.

Önnur orð eru til fyrir hleypi, lyf og kæsir. Viktoría Bjarnadóttir kemst svo að orði: Til skyrgerðar var notaður kæsir, en hann var búinn til úr innihaldi magans úr nýslátruðum kálfi. Var tekið úr kálfsmaganum strax og kálfinum hafði verið slátrað, og blandað saman við þetta volgri mjólk í nokkra daga og hrært saman og bundið yfir krukkurnar með þessu í. Síðan var þetta notað eftir tilsettan tíma. Reyndist þetta furðu gott efni til skyrgerðarinnar. Trúlega hefir hann verið þessu líkur kæsirinn sem verðlagður er í Búalögum hálfum eyri.
Viktoría talar um þá miklu vinnu sem er við mjólkina, hvernig trogin voru þvegin, sem notuð voru áður en skilvindur komu á bæina, og um búrin þar sem mjólkurtrogin stóðu. Smjör- og skyrgerð hafi verið mikil á þeim bæjum sem mörgu fé var fært frá því ólíkt meira fengist af smjöri og skyri úr sauðamjólk en kúamjólk. Og hún bætir við: „Hefi ég aldrei farið með búdrýgri mat en sauðamjólkina.“

Strokkur

Strokkur.

Hér á árum áður var landfrægt skyr sem kallað var Hvanneyrarskyr. Kristjana Jónatansdóttir ráðskona á Hvanneyri, sem átti heiðurinn að því skyri, segir frá skyrgerð sinni í Hlín árið 1934. Hún segist reyndar hafa lært hana sem unglingur heima og síðan af 30 ára reynslu.
Sem myndarleg húsfreyja hleypti Herdís Andrésdóttir í skyr og helti á grind, eins og hún orðar það í kvæði sínu, og strokkaði rjóma og breytti smjöri í sköku.
Mesta og besta vitneskju um skyrgerð veitir 5 blaðsíðna grein eftir Hólmfríði Pétursdóttur frá Arnarvatni í 19. júní árið 1960. Greinin er skrifuð af slíkri nákvæmni að vart verður betur gert. Hólmfríður segir ekki aðeins frá því hvernig best tekst að gera skyr heldur einnig frá ýmsu sem veldur því að skyrgerðin mistekst og hvernig þá er reynt að bæta úr. Mörg orð og orðatiltæki, sem fjöldi fólks hefir nú ekki hugmynd um hvað þýðir, koma að sjálfsögðu fyrir í greininni. Hólmfríður lýkur grein sinni með þessum orðum: Íslenska skyrgerðin er arfur frá liðnum kynslóðum íslenskra kvenna, kvenna, sem með hugkvæmni, skynsamlegri athugun og kostgæfni gerðu skyrið að þeirri kostafæðu, sem raun hefur á orðið, og lögðu um leið mikilvægan skerf til varðveislu hreysti og viðnámsþróttar íslenska kynstofnsins á liðnum öldum. Nú hafa íslenskar konur skilað þessum arfi af höndum sér.
Réttara væri þó að segja, að breyttir atvinnu- og þjóðlífshættir hefðu hrifið hann úr höndum þeirra. Vonandi ber þó þjóðin gæfu til að varðveita hann enn um aldir fram.“

Heimild:
-Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Anna Sigurðardóttir 1908 – 1996, útg. 1985, bls. 236-240 og 243-252.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Eimuból

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru.

Áni

Áni – fjárhellir.

Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina). Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin er að skoða þær síðar. Þá lýsti hann landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, sem hingað til hafa ekki verið merktir inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vita hvar eru.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir leiðarlýsingu Snorra með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum.
Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel ranglega verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg

Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru litlar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Svo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.“ Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.“ Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.“

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stórhöfðastígur

Skoðaður var Stórhöfðastígur í Stórhöfðahrauni. Stígurinn liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrennishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brunntorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en við nánari gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Nú var ætlunin einungis að skoða stíginn þar sem hann liggur frá Stórhöfða og í gegnum Selhraunið. Í fyrstu er stígurinn vel greinilegur og auðvelt að fylgja honum í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Þegar komið er á móts við og austan athafnasvæðis refabús, sem þar var reist og var nothæft í skamman tíma, hallar stígurinn meira til vesturs, en beygir síðan aftr til suðurs sunnan þess. Þar er yfir úfnara hraun að fara en stígurinn er gróinn og kastað hefur verið úr honum á kafla. Áður en komið er að háum kletti má sjá hvar stígurinn liggur niður í hraunbolla, sunnan línuvegarins. Þar hefur hann verið lagaður. Eftir það tekur við eyðilegging mannanna handa; búið að grafa hraunið út þvers og kruss. Þarna mun vera “ör” Skógræktar ríkisins á landi, sem ekki hentaði til skógræktar og var því “yfirborðslandið” selt til flutnings. Það eru ekki bara verndarnir á Miðnesheiði, sem hafa fengið keypt land og fundið hefur verið að. Margur mætti líta sér nær í þeim efnum (áminning til þeirra, sem telja sig bera umhyggju fyrir landinu).

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Sunnan við námusvæðið sést Stórhöfðastígurinn á ný. Vörður eru við hann og auðvelt er að fylgja honum yfir brunahaft, námusvæðið á ný og síðan yfir ósnert gróið hraunsvæði að Krýsuvíkurvegi, og áfram upp í gegnum kjarrið sunnan vegarins. Vörður eru á hæðunum upp af Brunntorfum, en þær segja ekki til um legu Stórhöfðastígs heldur leið að meintu fjárskjóli í norðaustanverðum Brunntorfum.
Stígurinn liggur þarna skammt ofar. Við hann er m.a. fallega hlaðið gerði, væntanlega frá Ási, enda innan marka þess.
Ofan og austan við stíginn sunnan vegarins gegnt Bláfjallavegi eru hleðslur í hraungjá undir gamla girðingu á mörkum Straumslands. Hleðslan hefur einnig þjónað því hlutverki að vera brú yfir gjána. Um er að ræða mjög fallegt mannvirki skammt frá veginum. Landamerkjastaur Straums er þar skammt frá.
Þrátt fyrir skemmdirnar er alveg þess virði að verja síðdegisstund til að ganga Stórhöfðastíginn á framangreindum kafla.
Frábært veður – Gangan tók eina klukkustund og eina mínútu.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.