Askur

Í bók Önnu Sigurðardóttir um „Vinnu kvenna á Íslandi í 1100 ár„, sem var gefin út árið 1985, fjallar hún m.a. um selstöður til forna og störf í seli á seinni öldum og mjaltir og búverkin heima.
Hér verður gripið niður í nokkur atriði í hinum merku lýsingum Önnu. Þótt hún segi lítið um selstöðurnar á Reykjanesskaganum segir hún allmikið um vinnuna í seljunum fyrrum:

Á stöðli og í seli til forna
Vinna kvenna í 1100 árÞær voru sumar sjálfar í seli, sennilega hefir þeim fallið það betur en að vinna heima á bænum. Þórhildur Skinna-Bjarnardóttir var ein þeirra. Maður hennar, Ásgeir rauðfeldur, hafði „selför það sumar uppi í Vatnsdal; hafði kona hans þar umsýslu bús og smalaferðar.“ Frá þessu er sagt vegna þess að „sá atburður var, að hún varð léttari í smalaferðinni og fæddi sveina tvo í Vatnsdalshólum.“
Þórdís Skeggjadóttir húsfreyja í Tungu var jafnan í seli fram í Hrútafjarðardal og voru þó yngri synir hennar mjög ungir. Önnur húsfreyja hafði tvær ungar dætur með sér í selinu. Ekki er nafns þeirrar konu getið en maður hennar hét Þorsteinn Gíslason og fór kona hans heim til að sækja hreinar skyrtur handa feðgunum.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Ein af jarteiknasögum Jóns biskups helga segir frá konu, Arnfríði að nafni, sem var í seli ásamt nokkrum konum að heimta nyt af fé. Þetta orðalag að heimta nyt af fé kemur fyrir í kristinna laga þætti Grágásar þar sem talin eru upp þau verk sem vinna má á helgum degi og ekki eru helgidagsbrot: Menn skulu eiga að reka fé sitt heim og heiman, og eiga konur að heimta nyt af því, og bera heim hvert sem skal, að menn beri heim, eða ferja á skipi, eða á hrossi, ef vötn eru milli bæjar og stöðuls, og eiga konur að gera til nyt þá.
Að gera til nytina heitir líka að búverka. „Að mjalta, sía mjólkina og setja hana, að þrífa mjólkurílátin, að strokka rjómann, hnoða smjörið og hleypa skyr allt þetta hét að búverka. Fyrstu vikurnar eftir fráfærur varð oft einnig að sinna búverkum á kvöldin.“ Búverk hafa frá fyrstu tíð verið kvennastarf svo sem kristinna laga þáttur sýnir.

Fyrrum fóru búverkin aðallega fram í seli. Sel voru höfð þar sem góðir voru hagar, oft allfjarri bænum. Konur í seljum voru óánægðar ef „gerðist fé harla nytlétt“ eins og segir í Hænsna-Þóris sögu. Konurnar vildu að skipt væri um haga og töldu að myndi þá miklu betur mjólka. Ekki voru konur einar í selinu, smalar voru þar líka. Einn þeirra fer heim í Örnólfsdal með klyfjar úr selinu og biður heimasætuna, Jófríði Gunnarsdóttur, að taka ofan með sér. En gestur Jófríðar kemur til og tekur ofan klyfjar. Þess vegna er sagan sögð um heimflutning á hvítum mat úr selinu að gestur var hjá heimasætunni.

Stekkur

Smali og selsmatsselju við stekk.

Gunnar Hlífarson í Örnólfsdal „hafði selför, og var jafnan mannfátt heima.“ En ekki er þess getið hve margt manna var í selinu.
Í Búalögum eru ákvæði um hversu margar konur eigi að vera í seli með vissan fjölda ásauðar og kúa.
Um störf kvenna í selinu segir ekkert í Íslendingasögum nema hvað þær eru við mjaltir í kvíum. Hvernig farið er að vinna mjólkina í smjör, skyr og osta segir ekki. En Búalög geta um verð á ýmsum ílátum undir mjólkurmat en þau áttu að vera af löggiltri stærð, svo sem keröld, trog og búskjólur, og strokkur átti að vera „sígirtur af þriðjungurinn og eirseymd gjörð á botni.“ Í sögunum eru nefnd nokkur ílát, svo sem sýrukerald, skyrkerald og skyrkyllir. Skyrkyllar voru notaðir til að flytja skyrið heim úr selinu og sennilega geyma það í líka. Í Grettis sögu segir: Auðunn bar mat á tveim hestum og bar skyr á hesti, og var það í húðum og bundið fyrir ofan; það kölluðu menn skyrkylla. Auðunn tók af hestinum og bar inn skyr í fangi sér… .
Framhald sögunnar er m. a. um að yfirbandið gekk af og var síðan skyri slett enda þótt sekkbært væri.

Skyr

Skyr.

Verð á skyri var miðað við sekkbært skyr eða sekkbæra hvítu, þykkt skyr eða þykkva hvítu skv. mismunandi heitum í Búalögum. Þunna skyrið, sem stundum er talað um í sögunum, hefir ekki gilt sem söluvara. En venjulega er tekið fram að askarnir hafi verið stórir er menn drukku eða supu skyrið.
Verð var annað á sumarsmjöri en vetrarsmjöri („menn kalla Basalm“). Ostur hefir verið gerður á annan hátt en nú er gert eða var gert á seinni öldum. Verð á osti skv. Búalögum var miðað við að hann hafi haft þriggja daga þerri eða hann á að vera „þurr og gagnsær af þriggja daga þerri.“
Í sögunum er þess getið að menn höfðu „skyr og ost“ til kvöld- eða náttverðar og þótti það betri matur en grautur.

Í seli á seinni öldum og mjaltir og búverk heima

Færikvíar

Færikvíar.

Eftir því sem aldir líða virðist það hafa minnkað að hafa í seli og það svo mjög að það opinbera vildi snúa þróuninni við um miðja 18. öld. Þó getur Eggert Ólafsson um sei í Borgarfirði upp til fjalla. Venjulega eru það þrjú hús eða kofar. í einu er búið, í öðru er mjólkin geymd, en hið þriðja er eldhús. Selfólkið er smali, fullorðin stúlka og unglingsstúlka, en þær mjólka og vinna úr mjólkinni smjör, skyr, osta og sýru.
Þeir eru á ferðalagi um landið Eggert og Bjarni þegar gefin er út tilskipun sem átti að stuðla að því að bjarga landsmönnum frá hungri og annarri neyð sem þeir bjuggu við eða yfir þeim vofði. Af konunglegri náð átti t. d. að styrkja „innréttingar“ en jafnframt var mönnum gert skylt að koma á kornyrkju og garðrækt. Bændur áttu auk þess, að viðlagðri refsingu, að hafa búfé sitt í seli og geldfé á afrétti frá 9.—21. viku sumars, að undanteknum þeim hestum sem nota þurfti við búskapinn. Nánar er minnst á refsinguna ef ekki er farið eftir þessum ákvæðum um selstöðu og jarðrækt eða ef menn notuðu húsdýraáburð til eldsneytis.

Smali

Smali við færikvíar.

Klerkur einn, séra Guðlaugur Sveinsson (1731 — 1807), í Vatnsfirði skrifaði ritgerð í Rit hins íslenska lærdómslistafélags árið 1787: „Um selstöður og nytsemi þeirra.“ Þar bendir hann á nytsemi þess að hafa ær í seljum eða setrum að sumrinu svo sem títt hafi verið hér á landi til forna og enn sé mjög til siðs í Noregi. Nú sé „þessi gagnlega brúkun, ásamt fleiri nytsamlegum atburðum, mikinn part undir lok liðið.“ Telur séra Guðlaugur það illa farið, því að selstöður séu mjög nytsamar, einkum þar sem heimaland er hrjóstrugt og magurt. Hann
telur síðan upp aðalkostina við að hafa í seli og segir frá reynslu sinni af því. Guðrún Ólafsdóttir lektor rannsakaði selstöður í Grindavíkurhreppi. Sama ár og grein hennar birtist, 1979, kom út í Noregi á vegum stofnunar um samanburðarmenningarrannsóknir bók um sel eða rannsóknir til sögu selbúskapar á Íslandi frá landnámsöld. Fróðleg og áhugaverð bók fyrir margan Íslending en því miður ekki á íslensku.

Hraunssel

Hraunssel – tilgáta.

En frásagnir um sel á öldinni sem leið má trúlega víða finna. T.d. lýsir Ingibjörg Jónsdóttir frá Djúpadal selinu sem foreldrar hennar höfðu á árunum 1842-1862. En þau hjón giftust tvítug og dóu fertug. Þau eignuðust 12 börn, þeirra á meðal var Björn Jónsson ráðherra. Í æskuminningum sínum segir Ingibjörg m. a.: Að sumrinu var haft í seli fram á dal. – Ráðið, sem faðir minn hafði til að fjölga skepnunum, var það, að hann byggði beitarhús á selinu og ruddi nýjan veg upp snarbratta hlíð skammt frá selinu, svo að nota mætti slægjur, sem þar voru. Erfitt var það og svo bratt, að ef baggi datt af hesti efst í hlíðinni, þá staðnæmdist hann ekki fyrr en niðri í árgljúfri, og á hverju vori varð að ryðja þennan veg, og ég veit ekki til að það hafi verið gert nema í tíð föður míns, hvorki fyrr né síðar. Ég hugsa að hann hafi átt mjög erfitt fyrstu búskaparárin, en með framúrskarandi dugnaði yfirvann hann alla erfiðleika og átti síðustu árin gott bú. Fyrstu árin var móðir mín í selinu með börnin 3 og 4, en þegar þau fjölguðu meir, hætti hún, og Guðrún systir [föðursystir, en kölluð systir] var upp frá því selráðskona. — Skrýtnar voru færikvíarnar, þegar í selið kom, þær sem notaðar voru heima þóttu of fyrirferðarmiklar til að flytja þær, í þess stað voru hafðar hrískvíar, hrísið var bundið í smábagga og hlaðin úr því kví og færð til á þann hátt, að önnur hliðin og gaflinn var flutt til þegar þurfti, seinlegt var það, en ekki var um það fengist, þetta mátti nota og gerði sama gagn. Það var gott að mjólka í hrískvínni, ærnar voru rólegar við skógarilminn. Seltúnið spratt vel og gaf af sér töluverða töðu af þessum eina áburði.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – tilgáta – ÓSÁ.

Það mun víða „ekki hafa þótt svara kostnaði að leggja fólk til“ að hafa í seli á öldinni sem leið. En fráfærur voru hins vegar víða. Guðbjörg Jónsdóttir frá Broddanesi (1871-1952) nefnir ekki selstöður, en hún getur um fráfærurnar, t. d. hversu mjög hún vorkenndi litlu lömbunum að verða að yfirgefa mæður sínar og einnig um mjaltirnar og búverkin: Ýmsir erfiðleikar fylgdu fráfærum, sem nútímafólk þekkir ekki. Þá þurfti að þvo upp og þétta öll mjólkurílát, einnig stóra skyrsái. Tunnur voru ekki notaðar undir skyr; í þeim var geymd súrmjólk og drukkur, sem hafður var á slátur. Annars var lítið um tunnur á þeim árum, nema tvíbytnur, sáir voru miklu meira notaðir og fleiri til. Líka þurfti að þvo upp mörg trog, sem mjólkin var sett í; sumir höfðu mjólkina í trébyttum. Þá var fjöldi af upphleypudöllum, sem hafa þurfti við skyrgerðina. Allt var þetta þvegið fyrir fráfærurnar. Mjaltir í kvíum voru ekki gott verk; þó voru unglingar látnir mjólka alveg eins og fullorðnir. Hér voru fullorðnu stúlkurnar við heyvinnu á engjunum, en við unglingarnir vorum við heyþurrkinn og mjaltirnar. Oft var ég syfjuð á morgnana, þegar ég varð að fara á fætur klukkan sjö… . Út yfir tók þó að verða að fara í kvíarnar á sunnudagskvöldin, verða þá að fara úr sunnudagsfötunum, fyrr en aðrir, og klæða sig í kvíakastið og úlpuna; það voru óskemmtileg umskipti… . Á kvöldin var ofurlítil uppbót á mjaltirnar, að við fórum með mjólkurföturnar í bæjarlækinn og þvoðum þær þar. Yfir lækinn var byggt hús — brunnhús— inni í því þvoðum við föturnar. En þegar það var búið, fórum við út og settumst á brunnhúsvegginn.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Stundum voru þá komnar fleiri stúlkur að læknum, svo að samtölin urðu oft fjörug og stundum nokkuð löng. Þarna var skrafað og skeggrætt um framtíðina og fleira. Hvað er eðlilegra, en að æskuna dreymi framtíðardraum, enda þótt þeir rætist aldrei. . . . Við byggðum vonahallir, sem hrundu áður en þær voru fullgerðar.
Steinunn Jósefsdóttir rifjar upp bernskuminningar um Miðhópssel enda þótt hún hefði sjálf ekki verið selstúlka en ánægjulegt þótti henni að vera send þangað til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um heima. Selráðskonan var með dóttur sína og ein eldri kona var þar og smali. Miðhópssel var byggt úr torfi og grjóti. „Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þurrkuð. Pað hét að hlóðarbaka trogin. Selstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar, en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan dag til tvo daga.“ Síðan lýsir Steinunn hvernig rennt var úr trogi, rjómi strokkaður og smjörið saltað, hnoðað og pressað í skinnbelgjum, hvernig undanrennan var flóuð og kæld fyrir skyrgerðina, mjólkurostur og mysuostur var gerður og seyddur ostur úr draflanum. Sýran var flutt heim í kvartelum og geymd heima í tunnum.

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Í handritum Sigurlínu Sigtryggsdóttur frá Æsustöðum, sem birtust á prenti 1953 í Göngum og réttum, eru líka mjög skilmerkilegar lýsingar á meðferð mjólkur og mjólkuríláta í Eyjafirði, bæði heima við og í seli. Þar er þess getið að húsin í Hvassafellsseli hafi verið baðstofa og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr.
Pétur Jónsson frá Stökkum segir að venjulega hafi einni mjaltakonu verið ætlaðar 30-40 ær að mjalta, stundum þó allt að 50 en sjaldan yfir það. Víðast hvar hafi verið „tekið eftir“ sem kallað var að allar ærnar voru mjólkaðar aftur og þurrtottaðar.
Hér er ekki minnst á hversu lengi konurnar voru að mjólka þennan fjölda, en Sigurður Sigurðsson ráðunautur hefir það eftir reyndum og vönum mjaltakonum, að meðalkvenmaður mjólki 40-50 ær á klukkutíma, ef það eigi að vera viðunandi af hendi leyst.
Guðríður Guttormsdóttir sagði að þegar fært var frá í Stöð, fyrir aldamót, hafi stúlkurnar sem áttu að mjólka farið dálítið fyrr heim úr heyskapnum en hitt fólkið. En þó var mjöltum og mjólkurhirðingu stundum ekki lokið fyrr en undir miðnætti.
Jósef á Svarfhóli man eftir því að fært var frá á æskuárum hans 60—70 ám en kýrnar voru 6-8: Þennan pening mjólkuðu tvær stúlkur, kvölds og morgna. Heldur voru til þess valdar þær, sem liðléttari þóttu. Var það talin hvíld frá heyvinnu að fara heim að mjólka. Kannski hafa þær sem kraftmeiri voru og kjarkbetri afþakkað hvíldina þá og mjaltirnar og búverkin á eftir. „Talið var… . til þess voru valdar“ segir höfundur, en ekki að stúlkurnar hafi óskað þess að fá að sinna mjöltum og búverkum.

Nessel

Nessel – uppdráttur. Dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaga; eldhús, búr og baðstofa.

Sigríður Björnsdóttir frá Miklabæ segir m. a. svo frá í kafla um fráfærurnar í minningum sínum: Mjaltir á sauðfé þótti frekar vond vinna og var ekki eftirsótt meðal kvenþjóðarinnar, en auðvitað kom það eingöngu niður á henni. Þá tíðkaðist ekki að karlmenn önnuðust mjaltir. Það hefði þótt hneysa fyrir karlmenn að gera slíkt kvenmannsverk.
Það var víðar en í Skagafirði sem það þótti hneisa fyrir karlmenn að mjólka. Hreppstjóri einn á Suðurlandi var sárhryggur og grét þegar sonur hans — hreppstjórasonurinn — fór að mjólka kýrnar fyrir konu sína sem gekk með 12. barnið. Sonardóttir hreppstjórans sagði mér þetta en hún var í hópi eldri barnanna.
Það var liðið langt á 20. öldina þegar karlmenn töldu sér ekki lengur vansæmd að mjólka kýr en eftir það var fljótlega farið að mjólka með vélum.
Árið 1954 kom út ritgerðasafn sem ber heitið: Enginn matur er mjólk betri. Þar segir m. a. að það færist í vöxt að mjólka með mjaltavélum. Þar er talað um að „meðferð mjólkur sé í höndum bænda.“ (Karlmenn fóru líka að vefa þegar dönsku vefstólarnir komu).
Bergsteinn Kristjánsson skrifar um ýmsa þjóðhætti liðinna tíma í bókinni Fenntar slóðir. Í kafla sem heitir „Ull í fat og mjólk í mat“ segir hann frá mjöltum: Handmjaltir á kúm eru enn með svipuðu lagi og alltaf hefur tíðkast. Sá er einn munur að hinar svokölluðu togmjaltir eru lagðar niður, en nýtt og betra mjaltalag upptekið… .

Bjarnastaðasel

Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).

Ær voru alltaf mjólkaðar í opnum kvíum… . Þegar ærnar fóru að venjast mjöltunum og spekjast, röðuðu þær sér með veggjunum, og gat þá mjaltakonan gengið á röðina og mjólkað; hún stóð aftan við ána með fötu sína og mjólkaði annan spenann í einu… . Mjaltir í kvíum voru mjög óþrifalegt verk, einkum ef rigningar gengu og ærnar voru blautar og óhreinar, og geta má nærri, að erfitt hefur verið að halda mjólkinni hreinni. Við ærmjaltirnar fóru konur í hlífðarföt, sem geymd voru við kvíarnar (kvíaföt). Þetta batnaði nokkuð, þegar færigrindur voru uppteknar, því að þá voru þær settar upp á hreina jörð, og mátti altaf færa þær til, er völlurinn óhreinkaðist… .
Þegar mjólkin hafði verið sigtuð, var hún sett upp sem svo var kallað, það er að hún var látin í trog og byttur. Trogin voru grunn ílát með höllum hliðum og göflum, og þekkjast víða enn. Bytturnar voru einnig mjög grunnar og víðar, kringlóttar og gyrtar með vanalegu gyrði, en gat neðarlega á einum stafnum og tappi í. í þessum ílátum var mjólkin látin standa, minnst einn sólarhring, en stundum í þrjú dægur, en að þeim tíma liðnum átti rjóminn að vera sestur ofan á mjólkina. Þar, sem mikil var mjólk, þurfti mjög mikið af þessum ílátum, og hreinsun þeirra var mikið verk og krafðist mikillar vandvirkni og hreinlætis… .

Trog

Trog.

Þegar mjólkin hafði staðið áðurnefndan tíma, var rennt undan, sem svo var kallað, það er að undanrennan var látin renna úr ílátinu, en rjóminn var eftir. Úr byttunum var þetta auðvelt, því að þar var tappinn tekinn úr gatinu á stafnum og undanrennan látin renna þar úr. Úr trogunum var þetta dálítið erfiðara, en þá var undanrennan látin renna úr einu horni trogsins og þess varnað með hendinni að rjóminn rynni með.
Þá fer höfundur nokkrum orðum um það hvernig rjóminn var strokkaður: Þá sem nú þurfti rjóminn að vera í vissu hitastigi, ef smjörgerðin átti að ganga eðlilega fljótt og vera í fullu lagi, en þá var ekki hægt að grípa til hitamælis, svo að matseljan varð að finna það með fingri sínum, hvort strokkurinn var mátulega heitur; sömuleiðis heyrði hún á hljóðinu í strokknum, hvað langt var komið smjörgerðinni. Af því er komið hið alkunna máltæki um hljóð í strokknum, . . .

Rjómatrog

Rjómatrog.

Það er líka fróðlegt að heyra með hverju mjólkurílátin voru hreinsuð á þeim slóðum sem Bergsteinn var kunnugur: Til að þvo mjólkurílát voru notaðar þvögur, en þær voru ýmist úr fíngerðum rótum undan melgrasi eða úr hrosshári. Pottar voru fægðir með vikri eða sandi. Vikurs og melgrasróta var oft aflað í fjall- eða skógarferðum, því að óvíða var það að fá nærri bæjum.
Nýja mjaltalagið sem Bergsteinn segir að hafi verið tekið upp var kallað Hegelundsmjaltalag. Sigurður Pórólfsson kenndi það veturinn 1902—1903 í Reykjavík á allmörgum námskeiðum sem þar voru haldin á vegum Búnaðarfélags Íslands. Guðjón Guðmundsson búnaðarráðunautur kenndi ýmislegt um kýrnar og meðferð mjólkur. Mjaltaæfingarnar fóru fram í þrem bestu fjósum bæjarins. 8—10 stúlkur voru á hverju námskeiði sem stóð í tvær vikur. Margar þeirra voru í hússtjórnarskólanum og kvennaskólanum og var meirihluti þeirra úr sveit.

Mjólkurtrog

Mjólurtrog.

Trúlegt er að G.A., kona sem Halldóra Bjarnadóttir leitar til um upplýsingar um ostagerð í Austur-Skaftafellssýslu, hafi þekkt þvögur úr melgrasrótunum. En hún segir frá því hvernig móðir hennar hafði kennt henni að búa til osta:… . Það var notaður heimatilbúinn hleypir af kálfsvinstur, sem fyrst var blásin upp, hert, bleytt síðan upp í saltvatni. — Fyrst var mjólkin hituð, en ekki meira en svo, að maður þoldi vel niðri í henni með hendinni, þá var hleypirinn látinn út í og hrært vel í um leið. Þegar vel var hlaupið, var þetta vandlega hrært sundur með hendinni, síðan var hlaupið látið setjast á botninn, en því mesta af mysunni ausið ofan af, og osturinn tekinn saman með höndunum og látinn í mátulega stórt ílát og það mesta kreist úr honum af mysunni, og osturinn síðan pressaður t. d. eina nótt. Svo er hann tekinn úr pressunni og látinn í saltpækil (það má líka strá salti á hann, snúa honum, þegar saltið er runnið á efra borðinu, og salta þá hitt). Síðast er osturinn þurrkaður í hjalli í nokkra mánuði. Þess verður að gæta að láta ekki sól skína á ostana, snúa þeim oft við og færa þá til, og þvo þá úr saltvatni, ef skán sest á þá, sem helst vill verða í óþurrkatíð. — Ostarnir urðu góðir og jafnir í gegn með þessari aðferð.

Mjólurfata

Mjólkurfata.

Önnur orð eru til fyrir hleypi, lyf og kæsir. Viktoría Bjarnadóttir kemst svo að orði: Til skyrgerðar var notaður kæsir, en hann var búinn til úr innihaldi magans úr nýslátruðum kálfi. Var tekið úr kálfsmaganum strax og kálfinum hafði verið slátrað, og blandað saman við þetta volgri mjólk í nokkra daga og hrært saman og bundið yfir krukkurnar með þessu í. Síðan var þetta notað eftir tilsettan tíma. Reyndist þetta furðu gott efni til skyrgerðarinnar. Trúlega hefir hann verið þessu líkur kæsirinn sem verðlagður er í Búalögum hálfum eyri.
Viktoría talar um þá miklu vinnu sem er við mjólkina, hvernig trogin voru þvegin, sem notuð voru áður en skilvindur komu á bæina, og um búrin þar sem mjólkurtrogin stóðu. Smjör- og skyrgerð hafi verið mikil á þeim bæjum sem mörgu fé var fært frá því ólíkt meira fengist af smjöri og skyri úr sauðamjólk en kúamjólk. Og hún bætir við: „Hefi ég aldrei farið með búdrýgri mat en sauðamjólkina.“

Strokkur

Strokkur.

Hér á árum áður var landfrægt skyr sem kallað var Hvanneyrarskyr. Kristjana Jónatansdóttir ráðskona á Hvanneyri, sem átti heiðurinn að því skyri, segir frá skyrgerð sinni í Hlín árið 1934. Hún segist reyndar hafa lært hana sem unglingur heima og síðan af 30 ára reynslu.
Sem myndarleg húsfreyja hleypti Herdís Andrésdóttir í skyr og helti á grind, eins og hún orðar það í kvæði sínu, og strokkaði rjóma og breytti smjöri í sköku.
Mesta og besta vitneskju um skyrgerð veitir 5 blaðsíðna grein eftir Hólmfríði Pétursdóttur frá Arnarvatni í 19. júní árið 1960. Greinin er skrifuð af slíkri nákvæmni að vart verður betur gert. Hólmfríður segir ekki aðeins frá því hvernig best tekst að gera skyr heldur einnig frá ýmsu sem veldur því að skyrgerðin mistekst og hvernig þá er reynt að bæta úr. Mörg orð og orðatiltæki, sem fjöldi fólks hefir nú ekki hugmynd um hvað þýðir, koma að sjálfsögðu fyrir í greininni. Hólmfríður lýkur grein sinni með þessum orðum: Íslenska skyrgerðin er arfur frá liðnum kynslóðum íslenskra kvenna, kvenna, sem með hugkvæmni, skynsamlegri athugun og kostgæfni gerðu skyrið að þeirri kostafæðu, sem raun hefur á orðið, og lögðu um leið mikilvægan skerf til varðveislu hreysti og viðnámsþróttar íslenska kynstofnsins á liðnum öldum. Nú hafa íslenskar konur skilað þessum arfi af höndum sér.
Réttara væri þó að segja, að breyttir atvinnu- og þjóðlífshættir hefðu hrifið hann úr höndum þeirra. Vonandi ber þó þjóðin gæfu til að varðveita hann enn um aldir fram.“

Heimild:
-Vinna kvenna á Íslandi í 1100 ár, Anna Sigurðardóttir 1908 – 1996, útg. 1985, bls. 236-240 og 243-252.

Mjólkurfata

Mjólkurfata.

Eimuból

Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru.

Áni

Áni – fjárhellir.

Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina). Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin er að skoða þær síðar. Þá lýsti hann landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, sem hingað til hafa ekki verið merktir inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vita hvar eru.

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var eftir leiðarlýsingu Snorra með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.

Þorkelsgerðissel

Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum.
Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel ranglega verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel.

Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.

Hlíðarborg

Hlíðarborg

Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru litlar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Svo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Jón forseti

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1967 má lesa eftirfarandi um strand Jóns forseta við Stafnes. Það er einn skipverjanna, Gunnlaugur Jónsson, sem segir frá:

Morgunblaðið birti veðurhorfur á sunnudeginum 26. febrúar, 1928: Snarpur sunnan og suðaustan. Hlókuveður.
Niðamyrkur var og stríð gola úr landsuðri. Jón forseti hefur verið tvo sólarhringa á veiðum í Jökuldjúpi og stefnir nú fyrir Reykjanesskaga.
Jon forseti - 221— Ég á vakt klukkan þrjú um nóttina, og halla mér því eftir kvöldsnæðing. Eftir fjögurra stunda væran svefn vakna ég snögglega við feiknlega skruðninga og bresti. Skipið nötrar, og skerandi málmhljóð nístir merg og bein. Mér verður þegar ljóst, að við höfum steytt á rifi. Ég snarast fram úr kojunni, þríf stígvélin og kemst í þau með erfiðismunum. Allt hrikktir og skipið skelfur, svo að varla er stætt. Í óðafári böðlast ég upp á dekk og sé, að skipið er við klettótta strönd og skammt undan klýfur vitageisli myrkrið. Allt um kring rísa og falla ógnvænlegir boðar, lemja utan skipið og kasta því til á grjótinu. Ég sé ekki yfir sjóina, og er þó lágfjara.
Ég staulaðist aftur þilfarið, og við áhafnarmenn tökum tal saman í brúnni. Skipið hefur rekizt á svonefnt Stafnesrif. Ljósgeislarnir koma frá vitanum í Stafnesi, en til lands eru um það bil þrjú hundruð og fimmtíu faðmar. Fyrir innan rifið er hyldjúpt lón, Hólakotsbót, og er þar stilltur sjór, þótt rifið sjálft sé umleikið hvæsandi brimgarði. Allir erum við vongóðir um að ná landi, komi björgunarsveitir fljótt á vettvang. Sent hefur verið neyðarkall, og er nú ekki um annað að ræða en að bíða, herða upp hugann og vera bjartsýnn.
Skipið er alónýtt. Fyrsti meistari segir mér, að stórt bjarg hafi skorizt inn í vélarúmið og megi geta nærri, hvað fylgt hafi á eftir. Nokkrir skipverja láta þau orð falla, hvort ekki sé reynandi að setja út bjargbátinn, og þykir mönnum sjálfsagt að fara til þessa. En þá er fjarað svo út, að báturinn lendir í urðargrjóti og spænist sundur undan boðunum. Megum við lofa guð og lukkuna, að enginn skyldi álpast strax í bátinn, því það hefði orðið hvers manns bani.
— Segðu mér Gunnlaugur, hvers vegna strandaði Jón forseti við Stafnes í hægu veðri og tiltölulega góðu skyggni?
— Þar voru óheilladísir að verki. Maðurinn við stýrið tók stefnu beint í klettana og hefur trúlega haldið, að Stafnesviti væri Reykjanesviti. Mér dettur engin önnur skýring í hug.
— Var skipstjóri ekki í brúnni?
— Nei. Magnús blundaði í klefa sínum, en hásetar á vakt höfðu sagt honum af Garðskagavita, og hann var í þann veg að fara upp. Að vísu er skipstjórans að tilkynna stefnubreytingu, en maðurinn við stýri átti að þekkja siglingaleiðina fyrir Reykjanesskaga svo vel, að hann gerði ekki skyssu eins og þessa. Ég man ljóslega, að Magnús sagði við okkur í brúnni: „Ég skil ekki í manninum.“ Hann var fátalaður eftir það.

Stafnes

Stafnes.

Jón forseti tók niðri um klukkan eitt á mánudagsnóttina tuttugasta og sjöunda febrúar, og barst váfregnin þegar til fjölmargra skipa, er á siglingu voru undan Suðvesturlandi. Tryggvi gamli, skipstjóri Kristján Schram, var næstur slysstaðnum, og kom hann þangað fyrstur klukkan sex um morguninn. Áhöfn Tryggva gamla sá þó ekki Jón forseta fyrr en klukkan hálf átta, og þá virtust engir vera þar ofan þilja. Hallaðist skipið mikið á bakborða og dundu á því sjóirnir.
Óheillatíðindi fara sem eldur á akri, og leið ekki langur tími, unz stjórnarmönnum h.f. Alliance í Reykjavík var tilkynnt um strandið. Þegar í stað byrjaði björgunarsveit undir forystu Halldórs Kr. Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar ferð sína að Stafnesi. Var komizt á bifreiðum til Fuglavíkur, en þaðan var drjúg klukkustundar reið í Stafnesfjörur og torleiði mikið. Lauk ferðinni árla morguns hjá Stafnesi, og voru þá fyrir utan rifið þessi skip: Tryggvi gamli sem áður getur, Ver og Hafsteinn, og skömmu síðar komu Þór og Gylfi.
Veðurlag hélzt óbreytt, sunnanátt og hláka. Í Jóni forseta er vistin slæm. Enn grúfir vetrarmyrkrið yfir, og nú fellur að. Æsist brimrótið. Nær helmingur skipverja er í lúkarnum, en hinir standa í brúnni, þeirra á meðal Gunnlaugur.
— Ég er ekki rór, hvað sem veldur, og sný mér því að skipstjóranum og segi í hugsunarleysi: Ég held ég fari fram í til karlanna. Honum hnykkir við þessi orð. Hann lítur á mig hvasseygur og svarar þykkjuþungur: Nei, Gunnlaugur, þú verður hér kyrr. Ég fyrirbýð ykkur að brjótast á milli. Boðarnir eru svo slæmir. Mér þykir illt að hlýða banni Magnúsar, en læt þó talið niður falla og þoka mér frá honum. Er ég kominn að brúardyrunum, þegar mér heyrist rödd hvísla í síbylju: Þú ferð, þú ferð, þú ferð, þú ferð, . . . , og ég læðist út, í senn fífldjarfur og hikandi. Sjóirnir hafa magnazt, þrymja, svella og brotna á þilfarinu. Skipinu hallar, og er enginn hægðarleikur að beita sér til gangs. Ég gríp báðum höndum í ljósastagið, og með herkjum get ég þannig þumlungað mig fram í lúkarinn. Í lúkarnum er líðan allra góð. Þar er þurrt, og karlarnir í óða önn að búa um föggur sínar niður í poka og bera þá upp á hvalbak. Ég fer að dæmi þeirra. Nú birtir af degi. Komið er háflóð. Við verðum nauðugir að hreiðra um okkur á hvalbaknum og sláum þar utan yfir okkur trossu. Nokkrir fara í reiðann, en af þeim, sem eftir voru í brúnni, hafast þrír við uppi á stýrishúsinu. Brimið er geigvænlegt. Við á hvalbaknum erum betur settir en brúarmenn, þar eð við sjáum, hvað brotunum líður. Þeir snúa hins vegar í þau bökum og horfa gegnt okkur.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Líður svo af morguninn. Um klukkan tíu æðir válegur boði og feiknmikill að skipinu, og við öskrum til brúarmanna, að þeir skuli vera reiðubúnir, gefum bendingar og pötum út í loftið. Ef til vill hafa þeir ekki haft auga með okkur. Sjórinn brotnar tvisvar áður en hann skellur á skipinu, og ekki að síður rífur hann skorsteininn hálfan af, mélar brúna og tekur sjö menn út. Frá okkur hrekur einn mann, en við náum honum aftur inn. Þessi atburður dregur úr mörgum kjark um stund, og lífsvon, sem okkur hefur fylgt fram til þessa, virðist stunum jafnvel skopleg bjartsýni. Ég hugsa sem svo, að nú sé annað hvort líf eða dauði á næsta leyti og valið sé ekki mitt, en ég geti reynt að þrauka. Að þrauka og þrauka, að vilja ekki deyja, að þrauka, það er okkar hlutur. Sökum boðafalla er óhægt að dveljast lengur á hvalbaknum, og raða menn sér í reiðann. Er hann þröngskipaður svo hátt sem komizt verður. Förin í reiðann er flestum sæmilega greið, nema hvað þann, sem lestina rekur, hrifsar holskefla útbyrðis, og getum við enga hjálp honum veitt. Þetta er harðger maður, flugsyndur, og grípur hann þegar sundtök í átt til lands, en svo er straumur í Bótinni stríður, að félaga okkar hrekur andviðris á haf út, og eru dagar hans taldir.
Stafnes - 221Skipið sígur nú að framan og vagar á grjótinu. Stundum leggst reiðinn niður í urðina, og allir hljótum við einhver meiðsli. Ber ég þessa enn merki í andliti. Sérhvert skipti, sem reiðinn sígur, tauta ég við sjálfan mig: Nú fer mastrið, nú fer það, og þú ert dauður, karl minn, steindauður. — En Forsetinn reisir sig ætíð upp milli brotanna, og ekki lætur mastrið undan sjóganginum.
Nú tekur að falla út. Lægir brimrótið. Við sjáum tvo menn liggja á brúarvængnum, og þeir ríghalda sér, unz sjódrykkja ríður þeim að fullu. Greipar opnast, og tveimur skolar út í kalda röstina. Við hinir eigum að þrauka, og við skulum þrauka. Skip, sem á vettvangi voru, gátu lítið gert til björgunar. Hellt var niður lýsi og olíu í sjóinn, en brimið var meira en svo, að þessi austur kæmi nokkrum að haldi. Tóku þá skipverjar að slæða eftir líkum þeirra, sem útbyrðis höfðu fallið af Jóni forseta. Björgunarsveitin í landi fékk léðan áttæring og tvær skektur frá Stafnesi. Skyldi áttæringurinn liggja í landfestum, en smábátarnir notast sem dragferjur, ef takast mætti að koma línu út í hið strandaða skip. Tilraunir í þá átt báru þó engan árangur, og um hríð var lítil bjargvon. Strandfregnin birtist í glugga Morgunblaðsins árla dags, og dreif þangað múg manns. Sló óhug á Reykvíkinga við þessi sorgartíðindi, og í veðursæld vetrarins sáust engir brosa, nema börn. Var mánudegi þessum líkt við sjöunda apríl, árið nítján hundruð og sex, þegar drukknuðu nær sjötíu menn í Faxaflóa, tuttugu þeirra fyrir augum bæjarbúa hjá Engey og Viðey. Nú var Jón forseti, minnsta skip íslenzka togaraflotans, ofarlega í allra huga, og milli vonar og ótta biðu menn nýrra fregna af ættingjum, ástvinum og kunningjum, nýrra tíðinda frá Stafnesi.
Miðdegi. — Í reiðanum sjáum við, að áttæringur liggur fyrir landi, hjá honum tveir smábátar, og hafa björgunarmenn bundið átta lóðabelgi á aðra skektuna. Líður og bíður, og lánast þeim ekki að senda út línu til okkar í flakinu. Höfum við flestir glatað nær allri von um björgun úr landi. Þykir okkur einsætt, að viljum við lifa hljótum við að varpa okkur til sunds, kafa undir ólögin og reyna þannig að komast í ládeyðu. Að vísu skortir suma næga sundfimi en við erum þá dauðir hvort sem er. Ekki dettur mér í hug nokkurt líf, en ég er eigi að síður rólegur, og engin flýgur að mér hræðsla.

Jón forseti

Jón forseti.

Meðan við ráðgumst um þetta okkar á milli, rek ég augun í baujuræfil, sem hangir við mastrið. Eru af baujunni bæði sköftin, en kaðalhönkin virðist mér óröskuð. Ég lít upp til næsta manns og spyr, hvort ekki sé unnt að koma út baujunni í þeirri von að hana beri að bátunum inn á lónið. Nú sé fjara, brimrótiS stilltara en fyrr um daginn, og straumur ekki landstæður. Með aðgæzlu megi fikra sig að borðstokknum og fleygja út baujunni. Tillögu þessari er slælega tekið í fyrstu. En eftir stundarkorn kallar einhver til mín: Gunnlaugur, við skulum reyna þetta með baujuna. — Er hinar hafizt handa, og innan varpa ég baujunni út fyrir, hverfur og henni skýtur upp. Á baujunni hefur enginn augun, þar sem hana hrekur að lóninu og eftir fylgir visin líftaug þrettán manna. Fjöregg mitt er gúmmíbelgur, eymdarlegur gúmmíbelgur. Öldurnar henda honum milli sín, og stundum eins og þær vilji spotta mennina í reiðanum, geri leik að því að færa baujuna á kaf og halda henni þar lengi, svo að dauðans angist grípur alla. — Skorðast hún föst í grjótinu — Slitnar reipið? —Ber brimið hana til baka? — Skyldi reipið rekjast sundur á enda?
— Nær það nógu langt? — Tekst það? — Eða?
Enginn er til svars. í reiðanum ríkir þögn, og ekkert hljóð berst okkur til eyrna utan hryglandi hvæs boðanna. Það tekst. Ég setti líf mitt að veði fyrir einn gúmmíbelg, og aldrei hefur mér þótt jafn vænt um nokkurn dauðan hlut og þennan vesæla belg, þegar björgunarmennirnir slæða hann til sín í bátana. Nú birtir yfir svip okkar. Við höfum þraukað, og þetta eru launin. Í reipið er bundin taug, taugin fest í skektuna með lóðabelgjunum átta, og drögum við hana svo nærri flakinu sem vogandi þykir. Og þá er komið að hinum fyrstu að fara í bátinn. Einn okkar skipsfélaga i reiðanum er fátækur barnamaður, og finnst öllum miklu varða, að hann nái landi heilu og höldnu. Við segjum honum að varpa sér fyrstum í skektuna, en hann þvertekur fyrir það og svarar þrásinnis: „Ég fer næst, ég fer næst. Mér þykir ennþá af mikil ólga.“ Ég legg fast að manninum að yfirgefa flakið, en hann skeytir því engu og neitar sem áður. Ekki dugir að þjarka um þetta lengi, og annar maður hendir sér fyrstur útbyrðis. Hann er vel syndur, kafar undir
ólögin og kemst í bátinn. Næsti maður hverfur í brimið, hefur trúlega fengið krampa, og þá hikum við hinir um stund, svo að skektan er dregin strax að áttæringnum. Klukkan er fjögur. Lánast hefur að bjarga einum. Aftur togum við kænuna til okkar, en hún ee oftast í kafi og þung í drætti. Fara nú þrír úr reiðanum í skektuna, en þá brotnar stefnið við skipshlið, og slitnar samtímis taugin, sem höldum við í hinir. Björgunarmenn sjá þegar, hvað orðið hefur, og draga bátinn rösklega að landi, en við, skipsfélagar, sem eftir eru, hefjum leit að öðru dufli að binda við kaðalreipið og láta það reka inn á lónið. Að drjúgri stundu liðinni ber leitin árangur, og sagan endurtekur sig. Við togum til okkar nýja skektu, og komast nú fimm menn frá flakinu, þeirra á meðal ég sjálfur. Ég hef drukkið mikinn sjó og er vinglaður, svo að ég veiti því tæpast athygli, þegar björgunarmenn lyfta mér úr bátnum og ég er leiddur upp ströndina, en þar bíður okkar Helgi Guðmundsson, læknir í Keflavík og gerir að sárum manna.
Nú rökkvar óðum, enda liðið á sjötta tímann. Eru þrír skipverja eftir í reiðanum, og gengur þeim illa að draga skektuna að flakinu og halda henni þar kyrri í brimrótinu, sem æsist fremur en stillist. Fer svo að lokum, að dráttartaugin brestur, og er þá öll bjargvon úti, nema þessum þremur takist að synda í land. 

Jón forseti

Jón forseti á strandstað.

Tveir varpa sér fyrir borð, en hinn fátæka barnamann, sem áður kom við sögu, skortir áræði til sunds, og verður hann um kyrrt í reiðanum. Mennirnir tveir synda hins vegar lengi og knálega, og kemst annar í skektuna, og er hún dregin að áttæringnum. Náð er hinum nokkru síðar, og er þá svo af honum dregið, að hann deyr, þrátt fyrir lífgunartilraunir læknis. Vonlaust er nú talið, að bjarga megi þeim, sem í flakinu dvelur, og lætur sveitin af frekari björgunartilraunum. Henni eiga tíu menn líf sitt að launa, og er björgun þeirra mikið þrekvirki við slíkar aðstæður sem hjá Stafnesi.
Um kvöldið sigldu öll skip frá slysstaðnum, nema hvað strandgæzluskipinu Óðni var haldið í námunda við rifið um nóttina. Beindu skipverjar kastljósum að mastrinu á Jóni forseta, en þar lét hinn fátæki barnamaður fyrir berast og hreyfði sig hvergi. Klukkan tíu á mánudagskvöld kom Tryggvi gamli með lík fimm manna til Reykjavíkur. Þeim var þegar ekið í líkhús og um þau búið sem hæfa þótti.

Jón forseti

Jón forseti.

Nóttin hin næsta varð mörgum beizk og bitur, og mun þarflaust að lýsa hér tilfinningum þeirra, sem á bak sáu nánustu samferðamönnum og ástvinum. Svo er ritað í grein í Morgunblaðinu hinn fyrsta marz: En Reykvíkingar sýndu sorgbitnum samúð þá, og svo hygg jeg að enn muni verða. Því svo er háttað með okkur hjer í borginni, að þó við aðra stundina rífumst og bítumst, sem gráir seppar eða gaddhestar um illt fóður, þá kennum við samúðar hver með öðrum, þegar þungar raunir steðja að bræðrum vorum og systrum. Sýna Reykvíkingar þá oft í orði og verki, að það er sannur vitnisburður um þá, að þeir mega ekkert aumt sjá eða bágt heyra. Skipbrotsmenn sofa í Stafnesbænum þessa döpru nótt.
— Ég vakna árla morguns, og er þá vonlega velktur mjög og blámarinn innanvert á lærunum, en get þó skreiðzt á fætur. Geislarnir frá Óðni lýsa upp svefnstofuna, og kemur mér þá félagi okkar, barnamaðurinn, í hug. Þykir mér sjálfsagt að reyna að klöngrast niður að ströndinni og kanna, hvernig honum reiði af i flakinu. Förum við tveir, en hinir átta geta sig lítið hreyft sökum meiðsla. Vindur er snarpari en daginn áður og hafrótið meira. Þegar við göngum ofan í klettana, sjáum við félaga okkar í mastrinu. Lítur svo út, sem hann hafi bundið sig, því hann hreyfir einungis höfuðið og bifast hvergi, þótt flakið vagi á rifinu, Óefað er honum ekki lífs auðið. Í flæðarmálinu r

ekumst við á lík af einum skipverja. Hann hefur verið ásamt okkur í þrjá daga, og við þekkjum hann lítið.
Um klukkan átta stöndum við aftur hjá Stafnesbænum, og sjáum þá, að holskefla liðar flakið sundur, mastrið fellur, og innan stundar, sleikir hrá dagskíma bera klöppina.

Jón forseti

Jón forseti.

Hinn tuttugasta og áttunda febrúar birtust í Morgunblaðinu nöfn og heimilisföng þeirra, sem björguðust:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum.
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96.
Pétur Pétursson, Laugavegi 76.
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum.
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum.
Steingrímur Einarsson, Framnesvegi.
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi.
Steinþór Bjarnason, Ölafsvík.
Frímann Helgason, Vík, Mýrdal.
Ólafur I. Árnason Bergþórugötu 16.
Fimmtán menn fórust á Stafnesrifi, og var hinn elzti fjörutíu og sjö ára að aldri, en tveir hinir yngstu sautján ára. Sjö hinna látnu voru kvæntir, og létu þeir eftir sig þrjátíu og fjögur börn, en bryti á Jóni forseta drukknaði ásamt átján ára syni sínum, sem var elztur níu systkina. Í Reykjavík var þegar efnt til samskota að styrkja föðurlaus heimili, og var fyrsta framlagið frá h.f. Alliance, fimmtán þúsund krónur.
Hinn áttunda marz voru tíu skipverja bornir til grafar, en þá voru fimm lík enn ófundin. Var útför allra gerð frá Fríkirkjunni, og mun það vera fjölmennust helgiathöfn á Íslandi fyrr og síðar. Sóttu hana sex til sjö þúsund manns, og náði líkfylgdin frá kirkjunni sjálfri í miðja Suðurgötu. Í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík biðu níu opnar grafir. Hin níunda beið föður og sonar – jöm.“

Sjá umfjöllun RÚV af strandi Jóns forseta HÉR.

Heimild:

-Tíminn Sunnudagsblað, 2. júlí 1967, bls. 564-569.

Stafnes

Á Stafnesi.

Stórhöfðastígur

Skoðaður var Stórhöfðastígur í Stórhöfðahrauni. Stígurinn liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrennishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brunntorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en við nánari gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Nú var ætlunin einungis að skoða stíginn þar sem hann liggur frá Stórhöfða og í gegnum Selhraunið. Í fyrstu er stígurinn vel greinilegur og auðvelt að fylgja honum í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Þegar komið er á móts við og austan athafnasvæðis refabús, sem þar var reist og var nothæft í skamman tíma, hallar stígurinn meira til vesturs, en beygir síðan aftr til suðurs sunnan þess. Þar er yfir úfnara hraun að fara en stígurinn er gróinn og kastað hefur verið úr honum á kafla. Áður en komið er að háum kletti má sjá hvar stígurinn liggur niður í hraunbolla, sunnan línuvegarins. Þar hefur hann verið lagaður. Eftir það tekur við eyðilegging mannanna handa; búið að grafa hraunið út þvers og kruss. Þarna mun vera “ör” Skógræktar ríkisins á landi, sem ekki hentaði til skógræktar og var því “yfirborðslandið” selt til flutnings. Það eru ekki bara verndarnir á Miðnesheiði, sem hafa fengið keypt land og fundið hefur verið að. Margur mætti líta sér nær í þeim efnum (áminning til þeirra, sem telja sig bera umhyggju fyrir landinu).

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Sunnan við námusvæðið sést Stórhöfðastígurinn á ný. Vörður eru við hann og auðvelt er að fylgja honum yfir brunahaft, námusvæðið á ný og síðan yfir ósnert gróið hraunsvæði að Krýsuvíkurvegi, og áfram upp í gegnum kjarrið sunnan vegarins. Vörður eru á hæðunum upp af Brunntorfum, en þær segja ekki til um legu Stórhöfðastígs heldur leið að meintu fjárskjóli í norðaustanverðum Brunntorfum.
Stígurinn liggur þarna skammt ofar. Við hann er m.a. fallega hlaðið gerði, væntanlega frá Ási, enda innan marka þess.
Ofan og austan við stíginn sunnan vegarins gegnt Bláfjallavegi eru hleðslur í hraungjá undir gamla girðingu á mörkum Straumslands. Hleðslan hefur einnig þjónað því hlutverki að vera brú yfir gjána. Um er að ræða mjög fallegt mannvirki skammt frá veginum. Landamerkjastaur Straums er þar skammt frá.
Þrátt fyrir skemmdirnar er alveg þess virði að verja síðdegisstund til að ganga Stórhöfðastíginn á framangreindum kafla.
Frábært veður – Gangan tók eina klukkustund og eina mínútu.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Sól og skuggar

Kynningarfundur var haldinn á bæjarskrifstofunum í Grindavík fimmtudaginn 20. nóvember 2008.
Á fundinum kynntu fulltrúar Hitaveitu Suðurnesja (HS) hugmyndir sýnar um boranir og jarðvarmaorkuver í SvartsengiEldvörpum. Júlíus Jón Jónsson, forstjóri, Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri og Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðfræðingur HS, kynntu áfromin. Þá kynnti fulltrúi VSÓ ferli og formsatriði slíkrar mannvirkjagerðar, bæði hvað varðar undirbúning, framkvæmd einstakra liða, öflun nauðsynlegra leyfa (sem eru 19 talsins) og gerð deili- og aðalskipulags fyrir svæðið. Hér á eftir er meginefni fundarins rifjað upp, auk þess sem getið er nokkurra mótvægisábendinga því hafa ber í huga, kannski af eðlilegum ástæðum, að málflutningur fulltrúa HS snýst einungis um möguleika á nýtingu Eldvarpasvæðisins til jarðhitanýtingar en ekkert annað þrátt fyrir að aðrir nýtingamöguleikar þess eru bæði margvíslegir og gætu gefið af sér margföld verðmæti umfram þau, sem reifuð voru á fundinum.
HS hefur nýtingarrétt á umræddu svæði næstu 70 árin (ca.), en ríkið á landið þótt það sé innan lögsagnarumdæmis Grindavíkur. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki nýtingarleyfi. Fram kom þó að HS telji sig hafa rannsóknarleyfi bæði í Svartsengi og Eldvörpum, en skv. upplýsingum viðkomandi ráðuneytis virðist ekki vera um gilt leyfi í Eldvörpum að ræða.
Þar var boruð ein hola fyrir u.þ.b. 28 árum (vegurinn þangað var lagður fyrir u.þ.b. 30 árum), en hún hefur ekki verið nýtt þótt hún gefi ágætlega af sér. SprungusveimarÁ óvart hefði komið að holan reyndist vera á sama jarðhitasveim og Svartsengi, þ.e. að glögg vökvatengsl eru á milli vinnslusvæðisins í Svartsengi og geymisins í Eldvörpum (órofa jarðhitageymur). Nýting í Eldvörpum kemur því til með að bæta tiltölulega litlu við núverandi möguleika Svartsengissvæðisins.
Hafa ber í huga að Stefán Árnason, jarðfræðiprófessor við HÍ, telur nýtingarhlutfall Reykjanesvirkjunnar allt of mikla. Þar er verið að ganga stórlega á vatnsforða, sem safnast hefur upp á síðustu 10.000 árum. Hlutfallið ætti að vera um 130 wmw en er nú um 1000 wmw, sem mun að öllu óbreyttu þurrka upp forðann á skömmum tíma. Vegna ofnotkunnar og lítillar niðurdælingar hefur land á vikrjunarsvæðunum sigið. Hingað til hefur ekki verið skilgreint hversu mikið vatn og/eða gufu má nýta á hverjus væði, líkt og nú er t.d. gert á Nýja-Sjálandi. Viðbótarvirkjun á Svartsengissveiminn, þ.e. í Eldvörpum, mun stuðla að hinu sama. Tillögur eru og uppi að skábora holur norðan við Svartsengisfjall og í Arnarsetri. Þær holur eru þó fyrst og fremst hugsaðar til að skoða áhrif frekari orkuvinnslu á jaðar svæðisins. Hafa ber í huga að skáborun getur dregið u.þ.b. einn km út frá borstæðinu sjálfu, þ.e. ef lengd holunnar er nálægt 3 km.
Í Eldvörpum er fyrirhugað athafnasvæði HS Svæðiðgeysistórt, umfram það sem nú er í Svartsengi, eða um 750 hektarar. Til samanburðar má geta þess að Reykjanesvirkjunarsvæðið er um 150 he og Svartsengissvæðið er svipað að stærð. Svæðið, sem um ræðir, nær frá suðvestanverðum Þorbirni og vestur fyrir Eldvörp að sunnanverðu, upp í Sandfellshæð að norðvestanverðu, áleiðis upp í Sandfell að norðvestanverðu og austur fyrir Rauðhól að norðaustanverðu (í Illahrauni), þ.e. nánast að mörkum Svartsengissvæðisins (sjá gula svæðið á myndinni. Rauði reiturinn er tillaga að iðanaðarsvæði, m.a. í tengslum við orkuiðnaðinn). Í heildina er svæðið margfalt stærra en allt núverandi þéttbýlissvæði Grindavíkur. Innan þess er gert ráð fyrir fjórum borteigum, hverjum um 3500m2. Hver teigur á að bera fjórar borholur. Þær verða því sextán alls, skv. þessum fyrstu hugmyndum. Áætlað er að þær gefi af sér um 50 mw. Fróðir menn telja þó að svæðið í heild geti gefið allt að 200 mw, ef vel er leitað. Það myndi þýða 48 borholur til viðbótar á Eldvarpasvæðinu á 12 borteigum. Vel má ímynda sér hvernig svæðið muni líta út eftir þær framkvæmdir allar ef tekið er mið af fenginni reynslu annars staðar á virkjunarsvæðum! Virkjunin sjálf er hugsuð í sléttu Blettahrauni, vestan við Lágar og austan við Sundvörðuhraunið norðaustanvert. Þar er Árnastígur markaður í hraunhelluna, forn þjóðleið milli Húsatófta og Njarðvíkur, sem fulltrúi HS kallaði „göngustíg“.
Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að á þessum fundi var einungis fjallað og rætt um eina auðlind svæðisins, jarðvarmann. Ekkert var t.d. minnst á aðrar auðlindir, s.s. ósnerta náttúru og nýtingu hennar fyrir sívaxandi atvinnugrein, ferðamennskuna. Sá, sem sat fundinn, og hafði útsýni umfram „kassann“, gerði sér vel grein fyrir tvennu; þarna sat fólk, sem hugsaði einungis um eitt, en ljóst mátti vera sæmilega upplýstu fólki að möguleikar þessa einstaka náttúruminjasvæðis (er á náttúruminjaskrá) eru miklu mun meiri ósnortið til lengri tíma litið. Hafa ber í huga að líftími jarðvarmaorkuvers er takmarkaður við einn eða tvo mannsaldra.

Gígur

Ósnortið umhverfi, líkt og er í Eldvörpum, hefur ótakmarkaða nýtingu fyrir þær komandi kynslóðir, sem munu hafa vit á að nýta þær skynsamlegar en nú er áætlað. Hitt er svo annað mál að hófsöm nýting á núverandi jarðvarmaorku getur vel gengið, og er reyndar mikilvæg nútíma fólki, ef þess er sérstaklega gætt að raska alls ekki meiru en nauðsynlegt er á hverjum stað.
Ljóst mátti vera, að fulltrúar HS, gáfu þau svör, sem þeir töldu að viðstaddir vildu heyra. Við spurningunni um hina gífurlegu stærð vinnslusvæðisins var því svarað til að varlega væri farið af stað, ekki yrði neitt gert nema með samþykki bæjaryfirvalda og að sérhver framkvæmd þyrfti að fara í gegnum „nálaraugað“ áður en hafist yrði handa. Ekki var minnst á að að jarðýtur HS fóru um ósnortin mosahraun neðan við Sogaselsgíg fyrir örfáum misserum án vitneskju þeirra er samþykkja áttu slíkt og borvinnsla hófst þar án þess að tilskilin leyfi lágu fyrir frá hlutaðeigandi sveitarfélagsstjórn. Nú stendur þar eftir ónýtt borstæði með varanlegu sári í einu litskrúðugasta umhverfi Reykjanesskagans, Sogin.
Í máli Guðmundar Ómars kom það helst fram sem þegar er vitað um jarðfræði Reykjanesskagans; mörg nútímahraun, jarðvarmasveimir á rekbeltum og að grunnvatnsrennsli taki mið af legu berglaga og kælingu grunnvatns m.v. nýtingu, annars vegar án niðurdælingar upptökuvatns og hins vegar með niðurdælingu.
Nýjar upplýsingar fólust þó í tíðni eldgosatímabila (2000 ár) og færslu þeirra um Skagann. KynningGoshrinurnar hafa í gegnum árþúsundin færst vestar og óvíst hvar þær kunni að bera niður næst, þ.e. eftir eða innan ca. 100 ára. Ef sæmilega skynsamur maður skoðar annars vegar kort af goshrinunum og hins vegar staðsetningu þeirra má telja mjög líklegt að næsta samfellda goshrina á Reykjanesskaganum verði vestast eða vestan við Reykjanesið og, ef um myndarlega hrinu verður að ræða, stækka það á haf út.
Albert sagðist myndi verða stuttorður, en kunnugir vita að það orð þekkir sá ekki, enda varð raunin allt önnur á svo stuttum fundi, sem ætlunin var að halda. Orðum sínum fylgdi hann þó eftir með skriflegum drögum að „Undirbúningi virkjunar í Eldvörpum“.
Þá fjallaði Albert um „Auðlindagarða á Reykjanesskaga“ er eiga að snúast um heitt vatn og rafmagn. Albert virðist hafa fest höfuðið í einni borholunni því hann virtist hvorki sjá aðrar auðlindir á svæðinu eða hvernig mætti nýta þær til framtíðar.

Jarðmyndun

Ljóst er að deyjandi Svartsengisvirkjun sárvantar vara- og neyðarafl fyrir þjónustusvæði sitt, einkum Reykjanesbæ. Fyrirhuguð er bygging nýrrar dælustöðvar í Svartsengi til að mæta því. Um bráðaframkvæmd er að ræða. Þrátt fyrir að virkjunarmenn telji sig jafnan þurfa að horfa áratug fram í tímann hvað úrræði og kosti varðar, virðist einhverjir þeirra hafa sofið á verðinum, a.m.k. hvað varðar næstu framtíð.
Möguleikar jarðvamaorkuvers í Eldvörpum felst m.a. í framleiðslu metanols. Tiltölulega litla jarðvarmaorku þarft til slíkrar framleiðslu, sem líklega verður einn af orkumgjöfum framtíðarinnar. Nálægð slíkrar framleiðslu við hugsanlegt iðnaðarsvæði vestan Grindavíkur gæti gefið mikla möguleika á ýmsum orkutengdum iðnaði. Hafa ber í huga, að þetta lag hefur áður verið kyrjað, bara með öðrum texta á öðrum tíma.
Spurt var svolítið óþægilegar spurninga, s.s. um loftmengunarlag virkjunarsvæðisins? Svarið var stutt: „Ekki komið svo langt“. Spurt var; „Hvað um sjónmengun af gufunni frá borholum líkt og í Svartsengi?“ Svar: „Hún verður engin.“ Eldri Grindvíkingar vita þó að gufa sást einungis í Svarsengi þegar kaldast var, en í dag sést hún jafnvel á heitasta degi ársins – og það mikil. Ekki er óeðlilegt að bæjarbúar vilji vita hver ásýndin muni verða frá bænum. Spurt var: „Munu mannvirkin sjást frá bænum?“ Svar: „Nei, hæðardrag ber á milli“. Hvaða hæðardrag?
ÁrnastígurBorteigarnir verða vestan við Eldvörp, allt frá því móts við núverandi borholu til norðausturs að Lat, eða u.þ.b. 1.5-2.0 km leið. Það svæði er tiltölulega sléttlent, en ægifagurt í samhengi sprungureinarinnar og gígraðarinnar, sem þar er. Eina raskaða svæðið í Eldvörpum er í kringum núverandi borholu. Til gamans má geta þess að helstu rök virkjunarsinna fyrir ákvörðunum sínum eru jafnan þau að benda á að afsakanlegt sé að fara inn á slík svæði vegna þess að þeim hafi þegar verið raskað. Spurningin er hvort röskunin fyrir 30 árum hafi verið gerð vegna fyrirhugaðra framkvæmda síðar – og þá með hvaða heimild í upphafi? Minna má að hraun er runnið hafa á sögulegum tíma njóta sérstakrar verndar.
Fram kom að fyrirhugað virkjunarsvæði sé á vatnsverndarsvæði skv. gildandi skipulagi. Slíkt mun fela í sér mjög miklar takmarkanir til athafna. Sumir munu vilja minnka verndarsvæðið í þeim tilgangi að auka möguleika á virkjun. Þetta atriði, eitt sér, mun eflaust kost bæði orðsins átök og efnisleg, þ.e. í framkvæmd.
Í máli fulltrúa VSÓ kom m.a. fram lýsing á málsmeðferð rannsóknarborana á jarðvarmasvæðum. Beyta þarf deiliskipulagi í Grindavík, ef nýta á svæðið skv. óskum HS, ákveða og afgreiða þarf framkvæmdarleyfi og breyta þar aðalskipulagi. Líklegt má telja, m.v. undanfarna vakningu í umhverfismálum, að bæjaryfirvöldum muni verða það mjög torsótt. Allt þetta, og meira til, þarf að gera áður en byrjað verður að bora í Eldvörpum. Beiðni um þetta ferli frá HS hefur þegar borist bæjaryfirvöldum í Grindavík.
FornminjarÁ fundinum var verið að hluta til verið að fjalla um ómetanlega náttúruauðlind Eldvarpanna. Framsetning fulltrúa HS á umleitan þeirra verður því að taka með mikilli varúð.
Þess má geta í lokin að vitað er um marga fornminjastaði við eldvörpin og ljóst má vera að enn fleiri mannvistarleifar kunna að leynast í og við Eldörpin. Ekki eru t.d. liðin nema 3 ár síðan FERLIR fann áður óþekkt byrgi á svæðinu. Þau bíða rannsóknar. Að fenginni reynslu er líklegt að enn fleiri minjar séu þarna. Fornleifaskráning mun ekki upplýsa um þær allar, hversu kostnaðarsöm sem hún verður. Sem dæmi má nefna Suðurstrandarveginn svonefnda. Eftir að fornleifaskráningarskýrslu um svæði hans var skilað, bentu kunnugir á að um þriðja tug minja (sögu- og náttúruminja) vantaði í skrána. Ef ekki hefði orðið fyrir þeirra glöggskyggni má ætla að ýmis ómetanleg verðmæti gætu þar hafa farið forgörðum. Vonandi munu bæjarfulltrúar, skipulagsfulltrúi, byggingarfulltrúi og aðrir embættismenn Grindavíkurbæjar bera gæfu til að meta heilstætt öll þau verðmæti og auðlindir, sem svæðiið býr yfir, ekki einungis til næstu framtíðar heldur og til enn legri framtíðar.
HÉR má sjá nákvæma fornleifaskráningu fyrir Eldvörp.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

 

Arneshellir

Frægasti útlegumaður hér á landi, fyrir utan Fjalla-Eyvind, var Arnes Pálsson.

Arneshellir

Myndir með textanum eru teknar á Þorrablóti FERLIRs í Arneshelli.

FERLIRsfélagar fengu tækifæri til að berja hann augum þar sem þeir voru við þjóðkræsingar í Hraunsholtshelli eitt síðdegið á þorranum. Arnes birtist þá þar skyndilega í “ímynd” sinni. Á broddstaf í annarri hendi hafði hann dauða gæs, en öxi í hinni. Var hann greinilega að sækja í sjóð þann er hann hafði falið í hellinum um fjórðungsárþúsindinu fyrr. Hann komst þó undan við glettur og hvarf út í hríðina, enn einu sinni.
Arnes þessi Pálsson gerðist sekur fyrir endurtekna stórfellda þjófnaði og var að lokum dæmdur af stiftamtmanni til ævilangrar tugthúsvistar. Í bréfabók stiftamtmanns þeirra tíma var Arnes titlaður „den störste af alle Forbrydere i det islandske Tugthus“, eða mestur allra glæpamanna í hinu íslenska fangelsi. Sakaskrá Arnesar Pálssonar var löng og er á henni, rétt eins og á lífi hans öllu, mikill þjóðsagnablær.
Árið 1765 komst Arnes undir manna hendur og við réttarhöld sagðist hann vera fæddur á Seltjarnarnesi og hafa alist upp á Kjalarnesi. Hann væri 37 ára og því fæddur árið 1728. Arnesi Pálssyni er líst svo í sakamannalýsingu Arnórs Jónssonar sýslumanns Borgfirðinga sem hann birti á Alþingi árið 1756: „…smár vexti, smá-og snareygur með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur með litla hári vaxna vörtu neðarlega á kinnbeini, gjörnum á að brúka það orðtak: – Karl minn.
Arnes á að hafa brotist inn í Brautarholtskirkju og stolið þaðan 50 ríkisdölum.
Arneasarhellir Arnes fékk fyrsta dóminn fyrir slæðuþjófnað frá vinnukonu, síðan bættust við sauðir, fiskar o.fl. Úr Brautarholtskirkju rændi hann peningum (krónum og spesíudölum), en þá átti Þorvarður lögréttumaður Einarsson. Faldi Arnes peningapokann (í helli) í Garðahrauni (nálægt Hofstöðum), og sótti í hann þegar með þurfti. Var hann þar undir verndarvæng Þorkels bónda á Hofstöðum, sem seinna komst í bölvun fyrir aðstoðina og var dæmdur til kaghýðingar, brennimerkingar og þrælkunnar ævilangt í Brimarhólmi.
Armes þótti óþýður og grimmur í skapi og fégjarn mjög, grobbinn. Hann hafði stórt ör á kinn eftir klaufhamar. Hann var útilegumaður í 9 ár, en hafði þó athvarf víða á bæjum, t.d. í Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslum. Var hann í “yfirhilmings lausamennsku” eins og sagt var. Var Arnes í vinnumennsku í 3 ár hjá Fjalla-Eyvindi og Höllu þegar þau bjuggu í Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Eftir afbrot á Kjalarnesi og Akranesi stakk hann svo af til Vestfjarða en kom þaðan aftur og hafðist við í helli í Akrafjalli og svo í nokkrum kotum þar sem nú er Innri-Akraneshreppur. Á daginn hafðist Arnes við í helli sínum í fjallinu og stundaði hann sauðaþjófnað og stal auk þess af bæjunum í kring. Um nætur hafðist hann hvað mest við á bænum Másstöðum og svo í Móakoti og gerði hann heimilisfólkið að Móakoti meðsekt sér. Fræg er sagan þar sem bændur í grennd við Akrafjall söfnuðu liði til þess að fanga Arnes.
„Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit.
En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.“

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Nóttina eftir kúrði Arnes í klettaskoru og bjó hann sig svo til brottfarar um morguninn. Þá var ferðinni heitið inn í Hvalfjörð, nánar tiltekið Botnsdal. Nokkrir bæir á þessum slóðum eru nefndir til sögunnar sem næturgriðarstaðir Arnesar, s.s. Botn í Botnsdal, Skorhagi í Brynjudal og Brekka og Sjávarhólakot á Kjalarnesi. Nokkuð ævintýralegri dvalarstaður Arnesar er einnig nefndur, en það er hellir nokkur í norðaustur hlíðum Hvalfells. Þar gengur höfði fram í vatnið og heitir þar Arnesarhellir. Segir sagan að í þessum helli hafi Arnes haft vetursetu og eiga að hafa fundist þar bæði rúmbálkur, kambur og leifar gamalla beina.
Eftir þetta flæktist Arnes norður á Strandir, en þar notaði hann dulnefnið Jón Árnason. Þar hitti hann þau Fjalla-Eyvind og Höllu, ásamt útilegumanninum, Abraham Sveinsson. Eftir að hann hafði dvalið með þeim í nokkurn tíma kom upp misklíð í hópnum sem endaði með áflogum og fékk Arnes stórt sár á annan fótinn, að eigin sögn.
Arneasarhellir Arnes Pálsson komst loks undir mannhendur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi á dómþingi á Esjubergi. Einnig var bætt við brennimarksdómi en Arnes slapp við þann dóm. Arnes hafði lag á að hafa hlutina eftir sínu höfði og í tugthúsinu naut hann forréttinda og hafði löngum sína hentisemi. Í tugthúsinu var hann m.a. dyravörður, eins konar verkstjóri hinna fanganna, að ógleymdu því hlutverki sem hann fékk, að fræða samfanga sína um kristindóm. Fyrir þetta fékk hann þóknun og ýmiss fríðindi. Arnes eignaðist þrjú börn í lausaleik á tugthúsárum sínum, en hann sat inni í 26 ár. Hann var þá látinn laus samkvæmt konungsúrskurði og varð síðan niðursetningur og dó árið 1805 í Engey og jarðaður í kirkjugarðinum við Surðurgötu, 86 ára gamall.

Arnesarhellir

Arnesarhellir í Akrafjalli.

Sagan af Arnesi er dæmigerð íslensk útilegumannasaga. Söguhetjan er sveipuð hetjuljóma, sleppur ævintýralega frá leitarmönnum og lifir hættulegu lífi fram á ystu nöf. Sök Arnesar var þjófnaður, og hann var nokkuð stórtækur í þeim efnum. Ekki er neitt minnst á kvennafar hans nema á seinni árum þegar hann var kominn í tugthúsið. Í þeim heimildum sem við lásum um Arnes, er honum ekki lýst sem óþokka og glæpamanni. Þó væri rangt að segja að um hann væri fjallað á hlutlausan hátt, því ekki er laust við að um hann sé fjallað á ofangreindan hátt, þ.e.a.s. sem hugrakka hetju. Fyrr á tímum var fólki oft refsað fyrir þjófnað þó svo að þjófnaður hafi oft verið algjört örþrifaráð fólks. Margir bjuggu við sára fátækt og oft stóð valið á milli þess að svelta heilu hungri eða stela og þurfa þá jafnvel að taka afleiðingunum. Það er hvergi minnst á hag Arnesar áður en hann lagðist út, en að öllum líkindum hefur hann ekki verið upp á marga fiska. Kannski hefur ævi Arnesar Pálssonar ekki verið jafn dramatísk og lýst er í sögubókum. Og þó, það er oft erfitt að greina á milli þjóðsagna, munnmæla og sögulegra heimilda.

Af http://www.fva.is/~isl703/dhs/arnes.html

Heimildir:
-Frásagnir – Árni Óla – 1955
-Kristján Jóhannsson -Innsveitir Hvalfjarðar – Höfundur gefur út Reykjavík 1989
-Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar – Jón Helgason -Ferðafélag Íslands – Reykjavík, 1979
-Söguferð – bæ frá bæ um Borgarfjörð – Samantekt efnis: Ingibjörg Bergþórsdóttir
-Ferðamálasamtök Mýra- og Borgarfjarðarsýslu – Reykjavík, 1994

Arneshellir

Í Arneshelli.

 

Stórhöfðastígur

Skoðaður var Stórhöfðastígur í Stórhöfðahrauni. Stígurinn liggur frá suðurhorni Stórhöfða, með norðanverðum hraunkanti Óbrennishólabruna og til suðurs í gegnum Selhraun og áleiðis upp í Almenninga austan við Brunntorfur. Þaðan virðist stígurinn óljós en við nánari gaumgæfni má vel lesa sig eftir honum að Hraunhól norðan Fjallsins eina.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Nú var ætlunin einungis að skoða stíginn þar sem hann liggur frá Stórhöfða og í gegnum Selhraunið. Í fyrstu er stígurinn vel greinilegur og auðvelt að fylgja honum í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Þegar komið er á móts við og austan athafnasvæðis refabús, sem þar var reist og var nothæft í skamman tíma, hallar stígurinn meira til vesturs, en beygir síðan aftr til suðurs sunnan þess. Þar er yfir úfnara hraun að fara en stígurinn er gróinn og kastað hefur verið úr honum á kafla. Áður en komið er að háum kletti má sjá hvar stígurinn liggur niður í hraunbolla, sunnan línuvegarins. Þar hefur hann verið lagaður. Eftir það tekur við eyðilegging mannanna handa; búið að grafa hraunið út þvers og kruss. Þarna mun vera “ör” Skógræktar ríkisins á landi, sem ekki hentaði til skógræktar og var því “yfirborðslandið” selt til flutnings. Það eru ekki bara verndarnir á Miðnesheiði, sem hafa fengið keypt land og fundið hefur verið að. Margur mætti líta sér nær í þeim efnum (áminning til þeirra, sem telja sig bera umhyggju fyrir landinu).

Brunatorfur

Gerði í Brunatorfum við Stórhöfðastíg.

Sunnan við námusvæðið sést Stórhöfðastígurinn á ný. Vörður eru við hann og auðvelt er að fylgja honum yfir brunahaft, námusvæðið á ný og síðan yfir ósnert gróið hraunsvæði að Krýsuvíkurvegi, og áfram upp í gegnum kjarrið sunnan vegarins. Vörður eru á hæðunum upp af Brunntorfum, en þær segja ekki til um legu Stórhöfðastígs heldur leið að meintu fjárskjóli í norðaustanverðum Brunntorfum.
Stígurinn liggur þarna skammt ofar. Við hann er m.a. fallega hlaðið gerði, væntanlega frá Ási, enda innan marka þess.
Ofan og austan við stíginn sunnan vegarins gegnt Bláfjallavegi eru hleðslur í hraungjá undir gamla girðingu á mörkum Straumslands. Hleðslan hefur einnig þjónað því hlutverki að vera brú yfir gjána. Um er að ræða mjög fallegt mannvirki skammt frá veginum. Landamerkjastaur Straums er þar skammt frá.
Þrátt fyrir skemmdirnar er alveg þess virði að verja síðdegisstund til að ganga Stórhöfðastíginn á framangreindum kafla.
Frábært veður – Gangan tók eina klukkustund og eina mínútu.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Steinröðarstaðir

Landnáma getur ýmissa manna sem land námu á svæðinu og er Ingólfur Arnarson þar fyrstur nefndur til sögunnar og spannaði landnám hans land „milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út.“ 

Steinrodarstadir-2

Þorgrímur bíldr er talin hafa byggt í landnámi Ingólfs, nánar tiltekið öll lönd fyrir ofan Þverá og byggði að Bíldsfjalli. Leysingi Þorgríms Steinröðr nam síðan öll Vatnslönd og bjó að Steinröðarstöðum. Þá skal getið Hrolleifs Einarssonar Ölvissonar sem nam lönd til móts við fyrrnefndan Steinröð fyrir utan Öxará.“
En hvar voru nefndir „Steinröðarstaðir“? Í Árbók fornleifafélagsins 1899 reynir Brynjúlfur Jónsson að svara spurningunni:
II. Steinrauðarstaðir (?); Svo segir í Landn. V. 13. »Hann (Steinröðr) eignaðist öll Vatnslönd, ok bjó á Steinrauðarstöðum«. Nafnið Steinröðarstaðir er nú týnt, og vant að gizka á, hvar bærinn hefir verið. Það eitt er víst, að hann hefir staðið við vatnið, því kringum það nam Steinröður land. Liggur nærri að hugsa, að það sé hann, sem nú ber nafnið Þingvellir, og hafi þar strax verið aðalbærinn við vatnið. Það mun þó ekki hafa verið, því af Íslendingabók má ráða að áður en alþíngi var sett, hafi bærinn Þingvellir heitið: Í Bláskógum.

Kleifarsel-8

Og þar sem Landn. segir að Hrolleifr »nam lönd til móts við Steinröð öll fyrir utan Laxá ok bjó i Heiðarbæ, þá virðist það benda til að Steinröðarstaðir hafi verið sama megin við vatnið sem Heiðarbær, eða vestan við það.
Á því svæði mundi því helzt að leita rústa Steinröðarstaða. Og fornar rústir eru þar á 3 stöðum, i Nesjalandi:
1. Vatnsbrekka heitir fögur brekka við vatnið í útnorður frá Nesjum. Hún liggur suðaustan i aflöngum ás, sem þar er langs með fjallshlíðinni. Milli ássins og hlíðarinnar er dalmyndað undirlendi, er heitir Nesjakleyf; breikkar það til suðurs, en mjókkar til norðurs unz það þrýtur og verður að einstigi. Er þar gata frá Nesjum til Heiðarbæjar. Vatnsbrekka snýr eigi að Kleyfinni heldur að vatninu. Hún er skógi vaxin ofan til, og kvað öll hafa verið skógi þakin fyrir eigi alllöngu. En nú er talsvert af henni notað til slægna. Hún nemur góðri túnstærð að víðáttu. Syðst er nyrðri brún hennar við vatnið nokkuð há, en lækkar austur með því. Þar eru rústir skamt upp frá vatninu. Vestast er mesta tóftin, nál. 10 fðm. ibng og nær 4 fðm. breið út fyrir veggi. Miðgafl virðist hafa verið um 4 al. frá vesturenda.

Steinrodarstadir-3

Þar litlu austar er líkast að dyr hafi verið á suðurhliðvegg, þó verður það eigi ákveðið. Og öll er tóftin svo fornleg og niðursokkin, að gætu þarf til að átta sig á henni. Þó virðist auðsætt, að það sé bæjartóft. Við austur enda hennar er önnur tóft, litil og full af grjóti. Þá er hin þriðja austast og er sú glöggust og nýlegri en hinar. Gæti það verið fjárhústóft, er síðar hefði verið sett t. a. m. í fjóstóftina. Þar austan við vottar fyrir leifum af tóft, ef til vill heystæði, og má vera að úr henni hafi verið tekið efni í fjárhússveggina, — því ekki hefir fjárhúsið verið sett þar fyr en bærinn var aflagður, er virðist hafa verið allsnemma. Bak við rústirnar liggur djúp laut er lítur út fyrir að hafa verið ræsi, til að verja húsin fyrir vatnsuppgangi undan brekkunni. Litlu ofar er girðing, aflangt kringlótt, nál. 5X6 fðm. innanmáls. Þar á sjást engar dyr, því hefir það varla verið gjafahringur (»gaddur«), og tilheyrt fjárhúsinu, en líklegra að það hafi verið akur eða hvanngarður, og tilheyrt bænum. SkSteinrodarstadir-4yldi eg nokkurs geta til um Steinröðarstaði, þá þætti mér líklegast, að þeir hefði verið hér. Vatnsbrekka er fegursti staðurinn sem til er við vatnið, og þar er hægt til skógarhöggs, útbeitar og veiðiskapar, svo að eigi mundi annarstaðar betra.
2. Setbergsbalar heita uppi undir hlíðinni, þar sem undirlendið er farið að breikka, og eru kenndir við klett einn i hlíðinni þar upp undan, er Setberg heitir. Djúp og mjó laut er milli balanna og hlíðarinnar, og einnig er lægð niður frá bölunum bakvið ásinn, sem Vatnsbrekka er hinum megin í. Á Setbergsbölum eru allmiklar rústir og misgamlar. Hin vestasta er miklu nýlegust, og skal eg láta ósagt, hvort það hefir verið kot eða sel, tel hið fyrra þó líklegra. Hún er 8 fðm. löng og 4 fðm. breið um miðjuna. Dyr eru á miðri suðausturhlið, og þar fyrir innan 2 tóftir, sín til hvorrar handar og hin þriðja beint innúr. Vestast er sérstök tóft, opin mót vestri. Sérstök tóft gengur og suður úr norðausturendanum, líklega fjárrétt. Litlu austar er sú rústin sem fornust sýnist. Hún sést ógjörla nema vel sé að gáð. Hún virðist vera skift í 3 tóftir, og er hin vestasta stutt og breið og eins hin austasta, en miðtóftin löng og mjó. Dyr virðast hafa verið á vesturenda. Enn litlu austar er hin þriðja rúst, lítið glöggvari, 6 fðm. löng og 4 fðm. breið, meðdyr í suðausturhorni og afhlaðna innitóft í norðausturhorni. Fleiri rústir óglöggar, eru þar. Þessi staður er eigi lengra frá Vatnsbrekku en svo, að ganga má á 10 mínútum, og næstum þar uppundan, en örskammt milli vatns og fjalls. Þykir mér því fremur ólíklegt, að hér sé um tvær aðskildar jarðir að ræða, heldur sé alt sama jörðin, Steinröðarstaðir; hafi þar snemma verið tvíbýli og annar bærinn settur uppi á Setbergsbölum. Sá er þar bjó hafi síðar lagt Vatnsbrekkubæinn undir sig og sett þar fjárhús, en bygð haldist lengi á Setbergsbölum, þar til skriða má hafa tekið af vatnsbólið, sem líklega hefir verið í hinni djúpu laut. Nú er hvergi vatnsból hjá Setbergsbölum.“

Steinrodarstadir-5 uppdrattur

Við leit ofan Vatnsbrekku (nóv. 2011) var engar minjar að sjá. Svæðið er nú þakið ca. 30 ára greni og barrtrjám, auk birkiskógarins.
Í örnefnalýsingu fyrir Nesja segir m.a. um svæðið: „F
arið var yfir örnefnaskrá Nesja í Grafningi með Guðmanni Ólafssyni, Skálabrekku, 18. febrúar 1982, en hana skráði Jónína Hafsteinsdóttir eftir Jónasi S. Jónassyni.
Hluti Nesjalands er kjarri vaxinn, kallaður Nesjaskógur. Takmarkaðist hann af Jórukleif að ofan, náði austur að Heiðarbæjarmörkum og suður undir Jórutind, suðaustur að Krummum og niður að Hestvíkurbotni. Annað skóglendi er ekki á Nesjum.
Í Nesjaskógi var ítak frá Nesjavöllum áður. Um það segir í landamerkjabréfi frá 1890: „Þess skal getið, að Nesjar eiga ítak til slægna í Nesjavallalandi í Botnadal og vestan megin Illagils, en Nesjavellir skógarítak í Jórukleif frá stóra steininum norðvestan á Vatnsbrekkunni, brekkum (svo?) norður að Skriðu og niður að götu.“ Þarna eru Vatnsbrekkur nefndar Vatnsbrekka. Guðmann hefur aðeins heyrt nafnið í eintölu.
Skógurinn hefur eyðzt mjög á þessari öld, en e.t.v. síður seinni árin. Fyrri hluta þessarar aldar var hann mjög mikið nýttur, notaður til eldsneytis og mjög til beitar.“
Þá segir í annarri örnefnalýsingu: „Jórukleif heitir langt klettabelti, sem liggur frá suðvestri til norðausturs. Að norðan endar Jórukleif í Sigríðarkleif, sem er syðst í Heiðarbæjarlandi, skammt norður af Vatnsbrekkum. Gróinn stallur er í Jórukleif, um miðja kleifina, sem heitir Setberg, og undir því er Setbergsból. Þar var búið, var síðast einsetumaður. Þar sést fyrir tóftum og túnskækli, og munu þær minjar hafa verið friðlýstar fyrir mörgum árum. Tóftarbrot eru líka í Vatnsbrekkum, og mun einnig hafa verið þar býli.“
Bæði af heimildum að dæma sem og vettvangsferðum má ætla að fornbýlið Steinröðarstaðir hafi verið þar sem síðar hefur verið nefnt Setbergsból og Kleifarsel. Þar eru allnokkrar minjar, sumar allfornar.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Nesjar í Grafningi
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899, Rannsókn sögustaða í Grafningi í maímán. 1898. Eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 3-5.

Nesjar

Svæðið.

Oddagerðisnes

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (Kbh. 1923—24, III, 296) segir svo „um Oddageirsnes“, þegar lokið er lýsingu Grafarkots í Mosfellssveit, er síðar var lagt undir Gröf, núverandi Grafarholt: „Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit og enginn maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúka nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrir því, að tún öll, sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.“

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes ofan Elliðavatnsengja.

Engar aðrar heimildir eru til um eyðibýli þetta, svo að mér sé kunnugt. Líklega hefur bærinn staðið upp í holtinu vestan Borgarmýrar, þar eru nú leifar gamalla fjárborga.
Samkvæmt frjórannsóknunum hefur Oddageirsnes byggzt á 10. öld. Fyrstu ábúendur virðast hafa verið búhöldar góðir, og auk túnræktar hafa þeir ræktað malurt og mjaðarlyng. Eins og víðar hefur illgresi innreið sína með byggðinni. Kornyrkja hefur ekki verið stunduð að neinu ráði í Oddageirsnesi.
Í þéttbýlinu á Innnesjum hefur snemma farið að gæta uppblásturs. Fyrir lok 15. aldar er Oddageirsnes farið í eyði. (Í öllum heimildum fyrir 1550 er bærinn óþekktur, hvort sem hann væri með nafnforminu Oddgeirsnes, Oddageirsnes eða Geirsnes. Oddgeirsnafn var fátítt, svo að sennilegasti frumbyggi jarðarinnar mundi vera sá tengdasonur Ketils í Gufunesi, sem lengst bjó síðan í Oddgeirshólum í Hraungerðishreppi. B. S.).“
Fyrirspurn um fyrrum staðsetningu Oddageirsness var send á Árbæjarsafn, en svar hefur enn ekki borist – nú sex árum síðar.

Oddgeirsnes

Oddgeirsnes.

Í jarðabókinni segir: ,,Oddageirsnes, forn eyðijörð og hefur í auðn verið það fram yfir allra þeirra manna minni, sem nú eru á lífi. Dýrleikann veit engin maður. Eigandinn er kóngl. Majestat. Landskuld er engin og hefur aldrei verið í manna minni, en grasnautn til beitar og slægna brúkar nú bæði Grafar ábúendur og Árbæjar; meina menn ómögulega aftur að byggja fyrir því að tún öll sem að fornu verið hafa, eru uppblásin og komin í mosa, en engi mjög lítið og landþröng mikil.” Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, III: bls. 296.
Í örnefnaskrá Björns Bjarnarsona segir: ,,Þar [á Norðlingaholti] voru margir götutroðningar. Þá er Oddgerðisnes. Þar var byggð, og eru rústirnar suðvestan undir Skyggningum, sem fyrr er getið.“ Örnefnaskrá Ara Gíslasonar yfir Grafarholt (Ö. Graf.1), 14. ,,Nú er hluti þess svæðis, sem ýmist hét Oddgerðisnes, Oddageirsnes, Oddi eða Bugðunes, undir vatni.“ Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 22. ,,Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur Lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur meðfram honum og myndar þannig langt og eigi breitt nes eða odda. Syðst í oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefur bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnes. [Á því byggði Benedikt heitinn Sveinsson í fyrstu flóðastíflu sína til að veita á Elliðavatnsengjarnar, en hún sprakk og braut um leið af nesinu; var svo byggt ofar.] Þvert yfir nesið er afar forn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnir inn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suðvestan undir Skyggningum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegast að býlið hafi heitið Oddagerði [af garðinum yfir Oddann?], og hefi ég hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafnfornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.” Örnefnaskrá Björns Bjarnarsonar yfir Grafarholt (Ö. Graf 2), 31.

Oddagerðisnes

Oddagerðisnes – loftmynd.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914 skrifar Björn Bjarnsaon um örnefni í Gröf og nágrenni. Þar nefndir hann m.a. Oddagerði (Oddgeirsnes):
„Oddagerði (Oddgeirsnes?) o. s. frv. Hér virðist reik og ruglingur kominn á örnefni. Oftast nefnt »suður í nesi« eða Odda. Í afskrift sem eg hefi af jb. Á.M. frá 1704 stendur: Oddageirsnes, forn eydi jörd, og hefur í auðn verið fyrir allra manna minni sem nú eru á lífi … . Meina menn ómögulegt aftur að byggja fyrer því að tún öll sem að fornu hafa verið eru upp blásin og komin í mosa«.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Frá Klapparholtsmóum gengur þarna mishæðóttur lyngmóahryggur suður í flatlendið, sem Elliðavatnsengjar eru á, og beygist Bugða fyrir hann, rennur fram með honum, og myndar þannig langt og eigi breytt nes eða odda. Syðst á oddanum er stór hóll eða holt, en í lægð norðan við hann hefir bær verið og fleiri byggingar. Eru þær rústir mjög fornlegar. Vestur frá þessu aðalnesi gengur lítið nes, slægnablettur, sem enn er nefnt Oddagerðisnesi).
Þvert yfir nesið er afarforn girðing, frá Bugðu austan við Skyggnirinn, vestur yfir norðanvert við hann, lítið eitt á ská til norðurs og vestur í ána aftur fyrir norðan Oddagerðisnes. Bæjarrústirnar standa suð-vestan undir Skyggninum upp frá Oddagerðisnesi. Er líklegt að býlið hafi heitið Oddagerði (af garðinum yfir Oddann?), og hefi eg hér ritað örnefnin að nokkru leyti samkvæmt því. Mannvirkin þarna eru jafn-fornleg eins og á þingstaðnum við Elliðavatn.“

Vitað er að hluti af þessu svæði er nú undir vatni en árið 1924-1928 var gerð jarðvegsstífla með flóðgáttum í Dimmu og Bugðu. Árið 1977-1978 var síðan gerð ný stífla vestar. Með þessari framkvæmd hurfu Elliðavatnsengjar og Vatnsendaengjar (og þar með tóftir Oddgeirsness) undir vatn og Elliðavatn stækkaði um helming að flatarmáli. Helgi M. Sigurðsson, Elliðaárdalur, land og saga, 100.

Heimildir m.a.:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 7. árg. 1886, bls. 234.
-Saga, 3. árg. 196-1963, bls. 465-466.
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – Megintexti (01.01.1914) – Um örnefni – eftir Björn Bjarnarson, bls. 15.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jarðfræði

Meginhálsar Reykjaneskagans eru tveir; Vesturháls og Austurháls, öðrum nöfnum Núpshlíðarháls og Sveifluháls. Báðir eru afurðir gosa á sprungureinum Norður-Atlantshafshryggjarins er ísaldarjökull þakkti landið. Meiri „hryggjarleifar“ eru á Reykjanesskaganum eftir gos á sprungureinum undir jökli, s.s. hluti Brennisteinsfjalla (Sandfell og Vörðufell) og Fagradalsfjall (og Vatnsfellin, Litli-Keilir og Keilir).

Sog

Í Sogum.

Hér er ætlunin að gefa svolitla mynd af Núpshlíðarhálsi. Syðsti hluti hans er einstakur hvað varðar gosmyndanir eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Tvær gígaraðir á gossprungum liggja upp eftir honum í NA, allt inn að Djúpavatni austanverðu. Sjá má gígana utan í móbergshlíðunum. Ennþá áhugaverðara er að ganga eftir þeim og berja augum hinar einstöku jarðmyndanir og litbrigði. Gígarnir sunnan Vigdísarvalla eru einstaklega formfagrir, Slaga er austan Vallanna og gígur skammt norðaustar á sprungureininni virðist líkt og teygja sig út úr Fögruflatarhorni. Ketill austan Traðarfjalla og Djúpavatns er hluti af gígaröðinni.
Selsvellirnir vestan við Núpshlíðarháls eru eins og vin í eyðimörk, og þar var og er eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Við austanverða og suðvestanverða Vellina eru miklar tóftir frá selstöðunum.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar, sunnan Einihlíða og Mávahlíða.
Núpshlíðarháls-loftmynd Spölkorn suðvestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu sunnan við hann, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann með umferð ökutækja og er það sorglegt dæmi um virðingarleysi í umgengni okkar við náttúruna. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun nýrra er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt. Jarðhiti er á svæðinu á milli Sandfells og Oddafells.
Austan í sunnanverðum Núpshlíðarhálsi er gígaröð á sprungurein sem fyrr er lýst. Nær hún langleiðina upp fyrir Djúpavatn austanvert. Syðst er röðin tvískipt. Í henni austanverðri eru einstaklega fallegar gosmyndanir með mikilli litadýrð. Undir einum gíganna er hellir.
Alls hafa fundist tæplega 200 tegundir blómaplantna og byrkninga (burknar, elftingar, jafnar) í Reykjanesfólkvangi. Flestar tegundirnar eru algengar um land allt, en einstaka eru bundnar við Suðurland, t.d. grástör og gullkollur.
Við fyrstu sýn virðist svæðið hrjóstrugt á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum eins og t.d. í Ögmundarhrauni og setur hann óneitanlega mikinn svip á landið. Grámosi(gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberjalyng, sortulyng og beitilyng. Lítið er um kjarrlendi í Reykjanesfólkvangi.  Kjarrgróður er einkum norðanmegin á svæðinu, en ljóst er að núverandi kjarr eru leifar víðáttumeira kjarrlendis. Einna vöxtulegastur trjágróður er umhverfis Búrfell og Smyrlabúð. Birki er aðaltrjátegundin sem myndar kjarr, en á stöku stað má sjá allstóra gulvíðirunna. Undirgróðurinn er einkum lyng og grös, s.s. hálíngresi, ilmreyr, bugðupuntur, svo og blómplöntur, t.d. blágresi, brennisóley og hárdepla. Burnirót má finna í hlíðunum.

NúpshlíðarhálsStór hluti fjallgarðsins eru sandberg, bólstraberg, melar og bersvæði. Gróður er mjög strjáll á slíku landi og einungis harðgerðar tegundir þrífast þar, t.d. melskriðublóm, holurt, geldingahnappur og lambagras.
Þéttur valllendisgróður liggur víða undir fjallshlíðum með ríkjandi grastegundum; týtulíngresi, hálíngresi og blávingli. Flest eru valllendin tún fornra bæja eða selja eins og örnefnin gefa til kynna: Selvellir, Seltún og Vigdísarvellir.
Mýrargróður er helst að finna undir austanverðum hlíðunum miðjum, í Krókamýri. Þar vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa, engjarós, mýrardúnurt og horblaðka.
Eitt af sérkennum í Núpshlíðarhálsi eru jarðhitasvæðin og þar eru nokkrar einkennisplöntur. Fjölskrúðugastur er gróðurinn á jarðhitasvæðinu í Sogunum og Sogadal. Þar vaxa tegundir svo sem laugasef, lindasef og lækjadepla. Einnig er margbreytilegur gróður í volgrunni sem rennur um norðanverða Selsvelli, t.d. sefbrúða og laugabrúða. Af sjaldgæfari tegundum má nefna ýmsar blómplöntur, t.d. fjalldalafífil. skógfjólu, geithvönn og jarðaberjalyng, sem einnig finnast í Geitahlíð.
GrænavatnseggjarFjallgarðurinn er á miðju virka gosbeltinu, sem liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum. Gossaga skagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin hefur verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin og virðast koma í hrinum sem koma á um 1000 ára fresti og stendur yfir í u.þ.b 200 ár. Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos. Það elsta eru Bláfjallaeldar sem hófust árið 930 og stóðu yfir í u.þ.b. 100 ár. Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151. Í gosinu opnaðist um 25 km löng sprunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan myndaðist Ögmundarhraun í þessu gosi en að norðan rann Nýjahraun sem flestir nefna Kapelluhraun. Í þriðju goshrinunni urðu Reykjaneseldar sem stóðu yfir frá 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó þar sem Eldey reis upp úr sjónum.

Eldvirkni raðar sér á svokallaðar sprungureinar þar sem eru gosstöðvar og opnar gjár. Oft eru sigdalir eftir endilöngum Hrútaberjalyngsprungureinunum og gígaraðir. Sprungureinarnar eru yfirleitt 25-50 km langar og 5-7 km breiðar. Ein þeirra fer um Hálsana, þ.e Krýsuvíkurrein sem liggur frá suðvestri í norðaustur yfir Reykjanesskagann. Háhitasvæði er á sprungureinuninni, þ.e. í Sogunum og nágrenni við þau.
Jarðlögin í og utan við Núpshlíðarháls eru grágrýtishraun frá síðustu hlýskeiðum ísaldar, móberg og bólsturberg sem hafa myndast undir jöklum síðustu jökulskeiða og hraun runnin eftir að jökull hvarf af svæðinu. Í Núpshlíðarhorni, og þar suður af allt til sjávar, er grágrýti sem jöklar hafa sorfið og skafið. Austar eru væntanlega leifar af fornum dyngjum og hafa líklega myndast á síðasta hlýskeiði sem lauk fyrir 120 þúsund árum. Geitahlíð er t.d. gömul grágrýtisdyngja og grágrýtishella er líka vestan og austan af hálsinum. Sunnan, vestan og norðan Kleifarvatns er móberg og líkt og Núpshlíðarháls er Sveifluháls móbergshryggur sem hafa hlaðist upp undir jökli. Segja má að þessi jarðmyndum sé eitt af sérkennum Íslands. Á Reykjanesskaganum er þessar myndanir hvað mest áberandi, þar sem Norður-Atlantshafshryggurinn „gengur á land“. Landið gliðnar og meginlandsflekarnir, Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn, og fjærjaðrarnir færast hægt og rólega frá hvorum öðrum. Á millum þeirra alast upp afkvæmi herra Elds og frú Kviku.

Heimildir m.a.:
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/
-http://www.utivist.is/greinar/
-http://www.umhverfisstofa.is/reykjanesfolkvangur/natturuf.htm

Sogin