Krýsuvík

Mánudaginn 12. marzmánaðar var kveðinn upp dómur í máli bóndans á Litla-Nýjabæ í Krýsuvík; nr. 3/1906: Réttvísin gegn Sigurði Magnússyni.
Krysuvik-loftmynd-221„Dómur – Mál þetta var í héraði höfðað gegn ákærða, sem þá var bóndi í Litla-Nýjabæ í Krýsuvík, fyrir að hafa dregið óleyfilega undir si gull af kindum, er aðrir áttu, en hann rúði fyrir þá óbeðið, eins og alltítt er að bændur geri í Krýsuvík við kindur utansveitarmanna, er þar hittast órúnar.
Var málið dæmt í aukarétti Gullbringu- og Kjósarsýslu 25. okt. f. á. þannig, að refsing fyrir brot það, er ákærði áleizt sekur um og heimfært var af héraðsdómaranum undir 259. gr. alm. hegningarlaga, var látin niður falla, en ákærði dæmdur til að greiða kostnaðinn, er af málinu leiddi. En þessum dómi hefir stjórnarráðið skotið til yfirdómsins.
Það er sannað í málinu með játningu ákærða og öðrum skýrslum, að vorið 1904 rúði hann í Krýsuvíkurrétt meðal annara kinda svarta á tilheyrandi Halldóri bónda Halldórssyni á Setbergi, en skilaði ekki ullinni eigandanum, heldur tók hana til sín og hagnýtt sér hana. Ákærði hefir fært sér það til afsökunar, að hann hafi verið í óvissu um, hver kindina átti, vegna óglöggs eyrnamarks á henni. Ákærða var þó skýrt frá því í réttinni, hver eigandi kindarinnar væri, og hún var með réttu horna- og brennimarki þess manns, er hún var eignuð, og þar sem ákærði lét þó ullina saman við sína eigin ull, án þess að grenslast nokkuð eftir eiganda kindarinnar, verður að álíta, að hann hafi sviksamlega dregið sér hana.

Krýsuvíkurrétt

Krýsuvíkurrétt.

Það hefir verið borið í málinu, að ákærði hafi einnig dregið undir sig ull af 2 öðrum kindum, er hann hafi rúið, aðra vorið 1903, en hina vorið 1904, en ákærði hefir neitað því, að hafa rúið og tekið ull af kindum þessum, og hefir ekki fengist full lagasönnun til að hnekkja þessari neitun hans.
Þá er það og upplýst í málinu, að ákærði sumarið 1904 lagði inn í kaupstað miklu meiri ull en hann gat hafa fengið af kindum þeim, er hann átti sjálfur, og að vísu er sú skýring hans á þessu atviki harla ósennileg, að hann hafi fundið alla þá ull, um eða yfir 70 pd., í haganum sumarið 1903 og vorið 1904, sem innlegg hans nam meiru en ullinni af hans eigin kindum.
Hinsvegar sést það af málinu, að aðrir menn hafa fundið á sama hátt ull svo tugum punda skifti, einkum sumarið 1903, og virðist því ísjárvert að telja það sannað, að ákærði hafi verið óráðvandlega kominn að ullarinnleggi sínu eða nokkru af því.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Það verður þannig eigi álitið, að ákærði hafi gerst sekur i öðru refsingarverðu athæfi en ullartöku þeirri af kind Halldórs Halldórssonar, er fyr er nefnd, og er rétt að heimfæra það brot ákærða, eins og héraðsdómarinn hefir gert, undir 259. gr. alm. hegningarlaga, en þar sem ákæruvaldið hefir eigi viljað sleppa málsókn fyrir brotið, verður ákærði að sæta refsing fyrir það, er þykir hæfilega ákveðin 8 daga einfalt fangelsi. Ákærða ber að greiða allan kostnað, er leitt hefir af málinu, bæði í héraði og fyrir yfirrétti, þar með talin málflutningslaun sækjanda og verjanda fyrir yfirdóminum, er ákveðast 10 kr. til hvors þeirra.
Það vottast, að rekstur málsins í héraði hefir verið vitalaus og málsfærslan fyrir yfirdóminum lögmæt.
Því dæmist rétt vera:
Ákærði Sigurður Magnússon á að sæta 8 daga einföldu fangelsi, og greiða allan kostnað málsins, bæði í héraði og fyrir yfirdómi, þar með talin málflutningslaun skipaðs sækjanda og skipaðs verjanda við yfirdóminn, yfirréttarmálaflutningsmannanna Odds Gíslasonar og Guðm. Eggerz, 10 kr. til hvors þeirra. Dóminum að fullnægja með aðför að lögum.“

Heimild:
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar úr íslenskum málum, 7. árg 1909, bls. 212-214.

Kind

Kind virðir fyrir sér kvöldsólina.

Drumbdalastígur

Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík. Hér lýsir hann Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…

Bæjarfell

Bæjarfell.

“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Krýsuvík

Krýsuvík – Arnarfell (t.v.) og Bæjarfell.

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.

Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1931 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af Hinu íslenska bókmenntafélagi”.

Bæjarfell

Bæjarfell – tóft.

Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar, kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Straumsvík

Í Vísi árið 1965 var fjallað um Straumsvík, Hrólfsvík og fyrirhugaða byggingu álvers á svæðinu – „Kyrrláta Straumsvíkin„:
straumsvik 1965„Allt útlit er fyrir það, að stórir atburðir fari að gerast hér suður með sjó, á stað þeim sem heitir „í Straumi“. Þetta er einn fallegasti og hlýlegasti staðurinn á allri strandlengjunni frá Hafnarfirði og suður að Vogum. Og meðan ferskt vatn skortir á Vatnsleysu-ströndinni eins og nafnið ber með sér er mikið af fersku streymandi vatni í Straumi, eins og nafnið ber líka með sér. Þarna á nú að fara að reisa risastór aluminium—verksmiðju, ef samningar takast milli íslenzku ríkisstjórnarinnar  og hins svissneska málmbræðsluhrings, en samningar um það mál standa yfir í Reykjavík og eru á lokastigi; þannig að nú verður að segja af eða á, hvort verða skal úr þessu. Þessi staður hefur verið valinn fyrst og fremst vegna hafnarskilyrðanna, en hvergi á öllu Reykjanessvæðinu eru hafnarskilyrði eins góð og þarna: nema ef vera skyldi í Hafnarfirði sem er góð höfn frá náttúrunnar hendi. Sætir það jafnvel furðu, að ekki skuli fyrir löngu risið upp þarna fiskihöfnÞannig hagar til, að þarna rennur hraun í sjó út. Svo virðist á ytra borði, að hraun þetta sé flatt og aflíðandi og gætu menn dregið þá ályktun af því að þar út af hlytu að vera langar grynningar. En svo er ekki, því að þarna koma mikil skil og hraunbrúnin er snarbrött niður í sjóinn og þar inni á Straumsvíkinni er 10 metra dýpi, nægilegt fyrir stærstu skip. Þarf lítið annað að gera en steypa sléttan hafnarbakka framan á hraunbrúnina og e. t. v. að leggja varnargarð gegn útnyrðingnum, sem er þó sjaldgæf átt hér um slóðir. Áður fyrr skildu menn, að Hraunsvík var afbragðshöfn og virðist sem þýzkir og enskir kaupfarar sem hingað komu á miðöldum hafi ýmist siglt á Hafnarfjörð eða Straumsvík, báðar voru jafngóðar til skipa lægis. Einu sinni á það m.a. að hafa skeð þegar stríð var milli enskra kaupmanna og Hansamanna, að Englendingar fóru í land í Straumsvík, læddust svo að Hafnarfirðí landveg, komu Hansamönnum að óvörum, sigruðu þá og hertóku.

Straumsvik-223

Síðari saga Straums er sú, að Bjarni Bjarnason átti jörðina fyrir 1930 og byggði þá íbúðarhús það og fjárhús sem burstastíl, en síðan fór Bjarni og gerðist skólastjóri á Laugarvatni. Síðan bjó Sigurður Þorgilsson bóndi, faðir sr. Bjarna á Mosfelli lengi á jörðinni eða yfir stríðsár. Eigendur hafa verið bræðurnir Jens og Ingólfur kaupm. í Ljósafossi og síðan Bjarni í Matarbúðinni í Hafnarfirði og bróðir hans Kristinn. Var þá tekið til við að reka þar svínabú og hafa rekið það m. a. Blomsterberg og nú Sölvi Magnússon.
Núna á þessari öld – framfara, fór mönnum í bæjunum brátt að verða ljós náttúrufegurð þessa staðar í hraunkvosum og smákjarri við streymandi lindina undan hrauninu, og fóru menn að sækjast eftir að eignast þar sumarbústaði. Einna fyrst reisti Þórarinn Egilsson í Hafnarfirði sér þar lítinn sumarbústað fyrir sunnan veginn þar sem heitir í Gerði, síðar eignaðist Ólafur Johnson stór kaupmaður Gerðið og bjó þar lengi á sumrum með fjölskyldu sinni. Þann sumarbústað á nú Ragnar Pétursson kaupfélags stjóri í Hafnarfirði. Sumarbústaðurinn í Gerði sést ekki á myndinni er talsvert lengra til hægri. En úti á tanganum þar sem Aluminiumverksmiðjan á að risa þar sem heitir Lambhagi sjást sumarbústaðir. Stærstur þeirra er sumarbústaður Lofts Bjarnasonar hins athafnamikla útgerðarmanns í Hafnarfirði. Má vera að honum þyki gerast þröng fyrir sínum dyrum, að fá í nábýli við sig stærsta mannvirki og verksmiðju á landinu. Að öðru leyti skýrir myndin sig sjálf með þeim áletrun um sem þar eru. Þarna sést aðeins í gamla Keflavíkurveg inn og sá nýi liggur sléttur og glansandi í sveig um landið. Nálægt miðri mynd sést á hið um deilda tollskýli við nýja veginn og í fjarlægð má greina hvíta byggðina í Hafnarfirði en Esjuna í baksýn, Esjan er nefnilega ekki aðeins fjall Reykvíkinga, hún setur svip sinn á út sýnið frá Strönd og Vogum.“

Heimild:
-Vísir, 2. desember 1965, bls. 3 og 6.

Stóri-Lambhagi

Tóftir Stóra-Lambahaga við Straumsvík.

Hlöðunessel

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er getið um öll sel, sem þar er að finna.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vantsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. Árið 1703 var búfénaður á Brunnastöðum sem hér segir: 10 nautgripir, 27 kindur ásamt lömbum, 29 sauðir og 4 hestar. Heimilsfólk var 14 talsins. Hjáleigurnar voru 5 og þar 8 kýr og 7 kindur. Því má ætla að um aldamót 1700 hafi 10-12 kýr verið í Brunnastaðaseli og 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
[Þess skal geti að höfundur hefur gengið mikið með Sesselju um selin ofan Vatnsleysustrandar og orðið margs áskynja. Eitt af merkilegri seljum þar er Gjásel. Það er undir Stóru-Aragjá og er sennilega eitt fyrsta “raðhúsið” hér á landi. Í einni keðju eru a.m.k. 7-8 hús undir gjárveggnum og tveir stekkir. Þarna hefur greinilega verið um einhvers konar samyrkjubúskap að ræða, sem fróðlegt væri að reyna að fá gleggri upplýsingar um].

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Í upphafi voru líklega bæði kýr og kindur hafðar í seli hér í hreppnum og afurðirnar, jafnvel ullin, unnar á staðnum. Selfarir lögðust trúlega endanlega af hér og víðar á landinu upp úr miðri nítjándu öldinni, og þá á bilinu 1850-1880. Selstæðin voru kennd við höfuðbýlin en hjáleigubændurnir höfðu líka afnot af þeim og víða voru því 4-6 búendur á sama selstæðinu.
Í heimildum um seljabúskap í Dalasýslu er sagt að sumir bæir hafi átt tvö sel og þrjú sel og notað a.m.k. tvö sama sumarið, þ.e. flutt búpeninginn á milli selja þegar beit var uppurin í því sem fyrst var flutt í. Ekki er getið um kýr í seljum þar vestra á 19. öldinni, aðeins kindur. Í ritinu segir: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Vogasel

Vogasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Líklega hefur seljabúskapurinn hér verið með svipuðu sniði og fyrir vestan en ekki er vitað til þess að býli hafi átt tvær selstöður. Hér í hreppi hefur verið meiri nauðsyn á að hafa kýr í seli en í Dölunum vegna þess hve heimahagarnir vorur rýrir.
Vatnsskorturinn í heiðinni er tíundaður í Jarðarbókinni 1703 og er sagt þar að fólk hafi þurft að flytja hem úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimidlir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til sömu nota. Það sama hefur eflaust gilt hvað varðar selstöðurnar hér og víðar þegar þurrviðrasamt var. Við nokkur selin í heiðinni eru smá vatnsstæði í klöppum og gamlar heimildir eru til um vatnsból við önnur en þau hafa ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

[Selin á Vatnsleysustrandarheiði eru öll ofan Reykjanesbrautar]. Norðaustur og upp frá Pétursborg [á Huldugjárbarmi] en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegn um einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel enda engar húsarústir sjáanlegar. [Minjarnar í og við hólana benda til þess að þarna hafi verið sel. Ekki er útilokað að tjaldað hafi verið yfir gjána, en í henni eru hleðslur veggja].

Undir Arahnúk [þar sem Stóra-Aragjá rís hæst] er Arahnúkasel eða Arasel. Ekki er vitað við hvern þennan Ara selið er kennt við, en getgátur hafa verið uppi um það, sem ekki verður fjallað nánar um hér. Selið dæmigert fyrir selin á Reykjanesskaganum; í skjóli fyrir austanáttinni.

Arasel

Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
[Þess ber að geta framangreindu til staðfestingar, að við leit að vatnsstæðum og vatnsbólum við sel á Reykjanesi sumrin 2002 og 2003 kom í ljós að sum þeirra höfðu þornað alveg upp miðsumars, enda um óvenjuhlý sumur að ræða.]

Fjárborgir eru margar hér enda hreppslandið talið gott sauðfjárland. Skúli Magnússon segir í landlýsingu sinni árið 1785 að Strandarheiðin sé “….eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar það sem ég hefi séð á Íslandi….”.
Merki um 10 fjárborgir eru sjánlegar og eru þær mismunandi heillegar, allt því að vera svo til óskemmdar niður í illgreinanlegar hringlaga grjóthrúgur.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Um síðustu aldarmót var t.d. setið yfir tugum sauða í Kálffelli [sunnarlega í Vogaheiðinni]. [Þar má bæði sjá hleðslur við fjárskjól á a.m.k. tveimur stöðum, stekk og hlaðið gerði. Auk þess er þar að finna helli Odds frá Grænuborg, en hann hélt til í honum um aldarmótin 1900]. Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d: 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.

Oddshellir

Oddshellir.

Oddshellir er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið neðan dyranna. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

[Nýjasel er austanvið Snorrastaðatjarnir. Þar mótar fyrri nokkrum tóftum og stekk undir lágreistum bjalla. Snorrastaðasel er norðan við Snorrastaðatjarnir. Um eina tóft er að ræða. Í hana hefur, af öllum stöðum, verið plantað grenitré. Talið er að Snorrastaðasel hafi verið kúasel].

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Nokkurn spöl vestan við [svonefnda] Viðaukahóla er nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan við Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel. Víst er að Þórunafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en í því átti að satnda höfuðból með átján hurðir á hjörum. Engar rústir eru sjánlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað, en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð.
[Rétt er að geta þess að þarna skammt vestar er gróinn hóll. Í honum má sjá marka fyrir hleðslum í klofi hans. Utan með er það gróið og enn utar það mikil eyðing, að erfitt er að sjá hvor þar geti verið hægt að finna heilleg mannvirki. Þó er það ekki útilokað]. Ein sögn er til að Þórusel hafi verið um tíma í Fornuseljum í Sýrholti.

Kvíguvogasel - SnorrastaðirUtan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar sjást þrjár gamalgrónar tóftir og ein nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 17003 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel.
[Í brekkunni suðaustan við Gömlu-Vogasel má sjá tóftir Nýju-Vogaselja. Þær eru nokkrar á a.m.k. tveimur stöðum; aðrar undir klapparhól og hinar skammt neðar utan í grónum hól. Ofar er stekkur og fleiri hleðslur].
Frá Gamla-Vogaseli, austur af Vogaholtinu, er Brunnastaðasel undir Brunnastaðaselsgjá og er um 15 mín. gangur á milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru um Brunnastaðaselsvansstæði ofan við og sunnan selsins en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggnirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.

Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og liggur um Gjásel og Brunnastaðasel.
Undir Hlöðunesskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel og þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikill þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðunesi sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.[Þegar Hlöðunessel var skoðað komu í ljós mjög gamlar tóftir á tveimur stöðum á torfu þeirri, sem enn er heil, en í kringum selið er mikill uppblástur, eins fram hefur komið, en þarna er greinilega um mjög gamalt sel að ræða, sem erfitt er að koma auga á].

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðarbókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni.
Selið sést vel frá Skrokkum og er stutt ganga að því. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt fyrir ofan hólinn að austanverðu er smá vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á legnd, um 2 m á breidd með grjóthleðslu í kring.
Fyrir ofan fornasel liggur Línuvegurinn. Ofan hans blasir Klifgjá við og framundan er bergveggur hennar hár og mikill, en lækkar til austurs og vesturs þegar fjær dregur.
Yfir gjána á þessum slóðum eru tveir stígar með nokkru millibili; Knarranesselstígur og Auðnaselsstígur nokkurn spöl norðaustar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan við Klifgjá og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selsstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnstæðið sem er um 100 m neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Næst er Auðnasel, en það er norðaustur af Knarranesseli innan við [Breiðagerðisslakka]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól. [Við leit að vatnsstæðinu sumarið 2003 kom í ljós að það er niðurgrafið undir nefndum klapparhól, skammt norðan vestustu tóftanna].
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræsluflug. [Við skoðun á Sýrholti og Fornuseljum sumarið 2002 komu í ljós tóftir á tveimur stöðum. Tóftir eru norðvestan í holtinu. Þá eru tóftir nokkru norðar. Norðan þeirra, í gjá, er hlaðin kví].

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts, en norðan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.

Flekkuvíkursel

Selsvarða við Flekkuvíkursel.

Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-
Flekkuvíkurás og Nyrðri-Flekkuvíkurás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Þórustaðastígurinn liggur milli Selshálsins og Sýrholtsins, síðan yfir Grindarvíkurgjána og áfram upp í heiðina.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan Flekkuvíkursels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman og heita Bræður.
Undir norðaustanverðum Rauðhól er Rauðhólssel, en það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból. Upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði liggur Rauðhólsselsstígur, eða Rauðhólsstígur, upp í selið.
Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur frá Brennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel. Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tvennar tóftir af kofayrpingu, en kvíin er vestarlega í seltúninu. Austarlega á Selásnum er há varða sem sést víða að.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum, en hún lifði líklega fram á anna tug þessarar aldar”.

Arasel

Ara(hnúks)sel – Uppdráttur ÓSÁ.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel fram á 19. öldina; það eru Hvassahraun og Flekkuvík. Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð nýlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir eins og [áður] er getið um.
Hvassahraunsselstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina. Líklega eru örnefnin Selskrínshæð og Hálfnaðarhæð við stíginn og þá Hálfnaðarhæðin fast hægra megin við hann sé gengið upp eftir. Örnefnið Selskrínshæð gefur til kynna að þangað hafi selfólkið farið með selskrínunarr og þær síðan verið sóttar á hæðina af heimafólki og eða skipt um ílát þar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur úr Hafnarfirði um Óttarstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn: Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðhólsstígur eða Óttarstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargatan og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir geta um vatnsból við Hvassahraunssel og þá undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það. Nokkur leit hefur verið gerð að vatnsstæðinu, en það hefur ekki fundist. [Gerð var leit að því sumarið 2003 og fannst það á nefndu stað skammt fyrir ofan selið. Þar eru nokkrir hraunbollar og í einum þeirra var greinilegt vatnsstæði undir].
Næst er fallegasta gróðursvæðið á öllum Reykjanesskaganum, en það eru Selsvellirnir, sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænuvatnseggjum af smá dalverpi eða gili, en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd, en aðeins rúmlega 0.2 km á breidd.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir í lýsingunni að Selsvellir séu “í Strandamannalandi eður fyrir norðan Grindavíkurlandamerkin”. Þrátt fyrir þess heimild og fleiri hafa bændur í Grindavíkurhreppi eignað sér Selsvellina í tugi ára og á kortum Landmælinga Íslands er línan alltaf Grindvíkingum í hag þó svo hún sé að vísu einatt skráð sem óviss mörk.
Tveir lækir, Selsvallalækir, ranna um sléttuna, en hverfa svo niður í hraunjaðarinn, sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili sunnan Kúalága, en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nokkuð nálægt Selsvallaseli.
Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Backmann, Staðapresti, til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. [Þess ber að geta til glöggvunar að eldri seltóftir eru austan Selsvalla skammt norðar. Á milli þeirra liggur greinilegur stígur að nýrri selstóftunum. Kemur hann inn á selstíginn yfir hraunið, áleiðis til Grindavíkur, vestan þeirra. Stígurinn, sem reyndar greinist í fleiri stíga, er djúpt markaður á kafla eftir lappir og fætur liðinna kynslóða.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Handan við hraunkantinn að vestanverðu er Hraunsels-Vatnsfell. Uppi á því austanverðu er gígur með vatni í; vatnsstæði. Það hefur greinilega verið mikið notað í gegnum aldirnar, ef marka má hinn markaða stíg, sem þarna liggur á millum].

Heimild:
-Selin í Vatnsleysustrandarheiði – eftir Sesselju Guðmundsdóttur – “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd”.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Kleifarvatn

Pálmi Hannesson skrifaði fróðlega grein um „Kleifarvatn“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Hér má sjá hluta hennar:

KLEIFARVATN

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Sumarið 1930 rannsakaði ég Kleifarvatn eftir tilmælum dr. Bjarna Sæmundssonar. Tilgangur rannsóknanna var sá að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar til skiptis, eins og kunnugt er, og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga. Í þennan tíma var eigi bílfært nema skammt eitt suður frá Hafnarfirði, og gat ég því eigi komið við þeim tækjum, er ég hefði helzt kosið. Ég keypti norskan bát, fjórróinn, og lét flytja hann suður að vatninu með allmiklum erfiðismunum. Á bátinn lét ég festa tvær litlar vindur (spil), aðra fyrir línu, til þess að mæla vegalengd frá landi, en hina fyrir lóðlínu.

DÝPT

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Höfuðverkefni mitt var það að fá vitneskju um dýpi vatnsins og botnlag, enda hafði hvorugt verið rannsakað áður, svo að kunnugt væri. Alls mældi ég dýpi á nálega 100 stöðum, og reyndist það býsna tímafrekt með þeim útbúnaði, er ég hafði, því að torvelt var að mæla, ef á vatninu var nokkur alda að ráði. Niðurstaðan af mælingunum er í stuttu máli þessi: Vatnið er yfirleitt mjög djúpt eftir stærð og víðast mjög aðdjúpt, einkum undir Sveifluhálsi. Megindýpið liggur eftir vatnsfætinum endilöngum, samhliða hálsinum og nærri honum. Er það þannig að skilja, að hlíð hans gengur niður undir vatnsflötdnn óbrotin af öðru en vagli því eða þrepi, sem öldurótið hefir skapað. Mest dýpi í vatninu, 87,5 m, mældist út frá Syðri-Stapa, aðeins 200 m frá landi. En þar er megindýpið mjóst, því að Stapinn þrengir að því sín megin, en frá hinu landinu gengur grunn lengra út en í mitt vatnið. Sunnan við þessa mjódd breiðist megindýpið út, og er vatnsbotninn suður þaðan nokkuð regluleg skál með jöfnu aðdýpi og þó allmiklu, allt suður undir Geithöfða. Þó verður þar um 50 m. hár hamar, er gengur suður frá Syðri-Stapa nokkuð úti í vatninu.
Kleifarvatn liggur þannig í lokuðum dal og fyllir dalbotninn. Vatnsflóturinn er um 9,5 km2, og er þá mælt eftir uppdrætti herforingjaráðsins danska, sem gerður er samkv. mælingu frá 1908, en þá var mjög hátt í vatninu. Árið 1930 var vatnið allmiklu minna. Þá var þurr fjara framan við Innri-Stapa, norður vík vatnsins, Lambhagatjörn, þurr með öllu, svo að hvergi sá þar vatn, en að sunnan vatnaði aðeins inn fyrir tangana, sem afmarka víkina, er gengur upp að Nýjalandi. Telst mér svo til, að þá hafi flatarmál vatnsins verið um 8,65 km2 eða nærri 90 ha minna en þá, er mest er í vatninu.

BOTN

Kleifarvatn

Kleifarvatn – botnhverir.

Í öllu megindýpi vatnsins er leirbotn og raunar víðast þar, sem dýpi er 15 m eða meira. Út frá Syðri-Stapa eru þó hamrar og stórgrýti að minnsta kosti niður á 40 m dýpi. Leirinn á vatnsbotninum er límkenndur og mislitur, víðast gráblár eða grár, en sums staðar þó svartur, rauðleitur eða mógulur. Hann reyndist að langmestu leyti ólífrænn, enda mun hann vera veðrað móberg og hafa borizt í vatnið með vindi og í leysingum. Ofan á sandinum er víðast mógrátt lag eða himna, og kveður þar mest að lífrænum efnum, rotleifum og eskilögnum. Í víkunum undir Sveifluhálsi er dökkur vikursandur, léttur og hvarflandi fyrir öldugangi. Við báða enda vatnsins og víkina sunnan við Lambhaga er kastmöl í fjörum og út þaðan í vatnið. Hefir öldurótið orpið henni upp í granda og malargarða.

FJARA
Við suðvesturlandið er fjaran víðast föst, og er þar víðast grjót, en sums staðar klappir.Svo er og við stapana báða, Lambatanga, Geithöfða og Lambhaga, nema hvað þar eru hamrar víðast. í víkunum beggja vegna við Syðri-Stapa er dökkur vikursandur mjög laus, en malarfjörur við vatnsendana, eins og áður getur.

HITI

Kleifarvatn

Hverir við Kleifarvatn.

Þá daga, er ég dvaldist við vatnið, neyndist yfirborðshiti þess um 10° C eða mjög hinn sami og meðalhiti loftsins í júlímán., enda breyttist hann með lofthitanum. Botnhiti á megindýpinu mældist 4,6° C, en á grunnunum tæp 9° C. Hitavarp (Sprungschicht) virtist eigi greinilegt, en þó lækkaði hitinn mest á 20 —30 m dýpi. Ekki var þó unnt að rannsaka þetta til hlítar né mæla botnhita á mesta dýpinu, því að mælitækin, sem raunar voru af vanefnum ger, ónýttust fyrir óhapp, er til vildi, áður en slíkt mætti verða.
Tveir hverir að minnsta kosti koma upp í vatninu, báðir í því sunnanverðu, er annar skammt norður frá Lambatanga, en hinn austan við Geithöfða, nærri landi. Virðast þeir hafa hlaðið um sig hóla á vatnsbotninum og kemur allmikið vatn upp úr þeim. Hita gætir þó eigi nema örskammt út frá þeim og aðeins í yfirborði, enda hafa þeir engin áhrif á hita vatnsins í heild. Sumarið 1930 vatnaði yfir hveri þessa, en þó eigi meira en svo, að bátur flaut ekki yfir þann eystri, og rauk þar upp úr vatninu, þegar loft var kyrrt og rakt. Árið 1932 voru þessir hverir komnir upp úr vatninu.

AÐRENNSLI OG VATNSKOSTIR

Kleifarvatn

Afrennsli í Kleifarvatn frá Seltúni og Hveradal.

Svæði það, er veitir vatni Kleifarvatns, er ca 30 km-, enda hefir vatnið ekkert fast aðrennsli ofan jarðar. Lækjarkorn eitt rennur þó að jafnaði sunnan í það, en sumarið 1930 þornaði þessi lækur upp áður en hann næði vatninu. Hann kemur frá hverasvæðinu hjá Seltúni og er nokkuð mengaður brennisteinssamböndum. Allt umhverfis vatnið má kalla gróðurleysur, nema að suðvestan, en þar liggja engjalönd frá Krísuvík. Mjög lítið af áburðarefnum, einkum köfnunarefni, mun því berast í vatnið, enda er það ófrjótt. Sjóndýpi mældist ca 8 m norðanvert í vatninu, en ca 4,5 í því sunnanverðu, og hygg ég, að þar kenni brennisteinssambanda (kclloida) frá hverunum.

GRÓÐUR OG DÝRALÍF
Botnfastur gróður í vatninu er nær einvörðungu bundinn við grunnin, en þar eru talsverðar græður af Chara allt út á 10 m dýpi. Annarra plantna gætir lítið. Allstórir blettir eru þó á víð og dreif gróðurlausar með öllu, og yfirleitt eru plönturnar heldur þroskalitlar, enda mun köfnunarefni skorta. Grunnin og þeir aðrir hlutar vatnsins, þar sem botngróður getur þrifizt, munu varla vera meira en ca 180 ha, þegar ekki eru taldar víkurnar við vatnsendana, er þurrar voru vorið 1930. Á grunnunum er allmikið um vatnabobba (Limnaea psregcr), einkum nærri landi, þar sem grýtt er. Mest virðist mér kveða að þeim sunnan til, og nálægt hverunum voru þeir mjög margir. Eigi fann ég önnur botndýr, en þó nokkuð af hömum og hýsum eftir skordýralirfur, bæði í vatninu sjálfu og vogrekum úr því. Aftur er mikil mergð hornsíla í vatninu og mörg stórvaxin. Mjög mörg þeirra voru með bandorm (schistccephalus), svo að ég hefi hvergi annars staðar slíkt séð. Veltust þau hundruðum saman við fjörurnar dauðvona með orminn hálfan út úr kviðnum. Heyrt hefi ég, að eitt sinn hafi lifandi silungur verið fluttur í vatnið, en hans sér nú engin merki. Svifdýr eru fá, einkum virðist einstaklingafjöldinn lítill í samanburði við önnur vötn, og eigi fann ég nema hinar algengustu tegundir svo sem Bosmiina obtusirostris, Cycliops strenuus og Diaptcmus glacialis. Fjörubeltið er tiltakanlega lífsvana, og veldur þar vafalaust miklu, að vatnið vex og minnkar frá vori til hausts og ári til árs. Nokkurt mý var við vatnið og fáeinar vorflugur. Sundfuglar dvöldust þar ekki að jafnaði, en nokkrar stokkendur komu þangað öðru hverju sem gestir.

VATNSHÆÐARMÆLINGAR

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Áður en ég fór til rannsóknanna fékk ég mér nokkur merki til þess, að unnt væri að mæla vatnshæðina og fylgjast með þeim breytingum, sem á henni verða. Eftir allmikla leit að hentugum stað, setti ég merki þess í klett í Syðri-Stapanum. Lítil vík gengur inn í stapann frá norðri, klettum kringd, og eru merkin utarlega við víkina að austan. Þau eru fimm naglar, sem reknir eru inn í móbergið og surhjir festir með brennisteini. Efst er járngaddur, laust fyrir ofan efstu sýnilgeg flóðmörk, þá eirfleinar tveir og neðst tveir járnnaglar.
Það er gamalt mál, að í Kleifarvatni gæti flóðs og fjöru og komi hvorttveggja á 40 ára fresti þannig, að vatnið vaxi í 20 ár, en minnki í önnur 20. Tvenn merki höfðu menn til þessa. Annað er það, að Krýsvíkingar fóru með kaupstaðarlestir sínar fram með vatninu, þegar þar var fært með hesta, en þar er ófært talið nema fara megi fjöru framan við Innri-Stapa. Hitt merkið er engiland frá Krýsuvík, sem liggur sunnan við vatnið og fer í kaf, þegar hæst er í því. Má gera ráð fyrir því, að Krýsuvíkurmenn hafi gefið gaum að þessum merkjum, og er því líklegt, að munnmælin um vatnið hafi við rök að styðjast. Guðmundur Jónsson, sem síðastur bænda bjó að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, sagði mér það, sem hér fer á eftir:

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason að Krýsuvík. Var vatnið þá talið minnkandi, en þó mikið. Engjarnar voru komnar upp, en fífugróður þar svo mikill, að á Nýjalandi „fékkst vel á engjalest“, og bendir gróðurfar þetta til þess, að engjarnar hafi verið komnar undan vatni fyrir nokkrum árum.
Árið 1895 fluttist Guðmundur að Nýjabæ. Var vatnið þá talið vaxandi, og ófært fyrir Stapann. Ekki vissi Guðmundur, hvenær vatnið hefði orðið minnst milli 1880 og 1895, en taldi þó, að það hafi alltaf verið fremur mikið á því tímabili og vafasamt, hvort þá hafi verið fært fyrir Stapann, enda var tíðarfar kalt og votviðrasamt á þeim árum.
Eftir 1895 óx vatnið jafnt og þétt, og fóru Krýsuvíkurengjar í kaf árið 1907 eða 1908. Telur Guðmundur, að vatnið hafi komizt hæst árið 1912, en tekið síðan að lækka, og árið 1916 komu engjarnar aftur upp úr. Eftir 1920, einkum eftir 1924, hyggur hann að mestu hafi munað um lækkunina, en ekki var þó farið fyrir stapann fyrr en 1929, en þá var komin þar allgóð fjara, svo að hann telur líklegt, að þar hafi verið fært 1—2 árum fyrr. Á uppdrætti herforingjaráðsins er vatnsborðið talið 135,00 m yfir sjó árið 1908, en ekki mun sú ákvörðun alls kostar nákvæm.
Eftir samanburðarmælingum, sem Jón Víðis hefir gert, stóð vatnið 132,44 m yfir sjó árið 1930, en 131,67 m árið 1932, þegar það var lægst. Samkvæmt þessu hefir vatnið staðið 3,33 m hærra árið 1908 en árið 1932, en eftir 1908 hækkaði það enn til 1911 eða 1912, og má því ætla, að munurinn á mestu og minnstu hæð þess hafi verið 4,0—4.5 m.
Árið 1926 tók Emil Jónsson, vitamálastjóri, mynd við vatnið, og mátti af henni marka hæð vatnsins þá með mikilli nákvæmni. En síðan 1930 hefir vatnshæðin verið mæld árlega og sum árin oftar en einu sinni. Mælingarnar annaðist Emil Jónsson frá 1932 —1938, en vegamálastjórnin eftir það. Það gefur að skilja, að þessar mælingar séu of fáar til þess, að af þeim megi draga miklar ályktanir um breytingar vatnsins, hversu þær gerist eða hve lengi hver umferð (cyclus) standi. Þó sýna þær, að vatnið hefir ekki vaxið jafnt hin síðari ár, heldur í stökkum með kyrrstöðu á milli eða jafnvel afturhvarfi. Þannig hækkaði vatnsborðið um 212 cm frá 1932—1934, stóð svo í stað til 1935, en lækkaði síðan á næsta ári um 107 cm. En heimildir þær, sem hér hefir verið getið, benda til þess, að hið síðasta breytingaskeið vatnsins hafi verið um 40 ár, eins og munnmælin herma, og má því ætla, að þau styðjist við athuganir. Að minnsta kosti má telja víst, að vatnið hafi orðið mest árið 1911 eða 1912, en farið síðan minnkandi til 1932.

ORSAKIR VATNSBORÐSBREYTINGA

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Ýmsar tilgátur hafa komið upp um það, hvað valda muni þessum breytingum á vatninu, og mun sú almennust, að það hafi afrennsli neðanjarðar gegnum gjár eða hella, er ýmist teppist eða lokist einhverra orsaka vegna. Sumir hugsa sér þetta afrennsli sem einhvers konar sogpípu, er taki að verka, þegar vatnið er hæst, en fyllist lofti, þegar í því lækkar. Ekki virðast mér þessar skýringar næsta sennilegar, og kennir þar raunar misskilnings á eðli stöðuvatna. Mun því rétt að ræða þetta mál nánar og freista þess að finna skýringu, er við megi hlíta, að minnsta kosti sem undirstöðu frekari rannsókna.
Kunnugt er, að Kleifarvatn vaxi á vetrum, en minnki á sumrum, hvað sem hinum langvarandi breytingum líður. Guðmundur í Nýjabæ sagði mér, að þegar bátt væri í vatninu, gengi það hærra á Krýsuvíkurengjar á vetur en sumar, og er fjara tæki. kæmu engjarnar upp úr að sumrinu aðeins, en hyrfu undir vatn á veturna fyrst í stað. Sumarið 1931 mældum við Emil Jónsson lækkun vatnsborðsins frá efstu fjörumörkum um vorið til 15. júlí, og nam hún 70 cm. Síðari mælingar sýna og, að vatnið minnkar frá vori til hausts. Þannig lækkar vatnsborðið um 20 cm frá 18. maí til 25. cm. árið 1938, en árið 1936 lækkar það um 20 cm frá 16. júlí til 16. ágúst, eða nærri því um 0,6 cm á sólarhring að meðaltali.
Kleifarvatn er ekkert einsdæmi að þessu leyti, heldur eiga öll afrennslislaus vötn sammerkt í því, og er munurinn á vatnsborðinu vor og haust sums staðar miklu meiri, t. d. í ýmsum smávötnum á hálendinu. Þar hefi ég mælt fulla 6 m frá vatni að efstu fjörumörkum ársins. Skýringin á þessum árlegu vatnshæðarbreytingum virðist mér í stuttu máli þessi:
Afrennslislaus stöðuvötn eru hluti af jarðvatninu og verða þar, sem jarðvatnið liggur ofar en yfdnborð jarðar. Vatnsborð þeirra er því raunar jarðvatnsborðið sjálft. Nú nærist jarðvatnið á úrkomum;, þeim hluta hennar, sem ekki gufar upp eða rennur fram ofanjarðar. Jarðvatnsborðið hækkar því í úrkomum, en lækkar í þurrkum. Sama máli gegnir þá um afrennslislaus vötn Þau hækka því að jafnaði yfir veturinn, en lækka yfir sumarið. Á hálendinu verður þessi árstíðamunur meiri en á láglendinu, því að þar geymist vetrarúrkoman að mestu sem snjór, er leysir á skömmum tíma á vorin. Vötnin verða því mest, er leysingum lýkur.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Hver er þá orsök hinna langvarandi vatnsborðsbreytinga? Samkvæmt þeirri skoðun, sem hér hefir verið lýst, verður að ætla, að þær stafi af langvarandi breytingum á úrkomu. Ekki er mér kunnugt um, að slíkar úrkomubreytingar hafi verið rannsakaðar hér á landi, en svo ber við, að erlendir fræðimenn hafa fært að því veigamikil rök, að þær eigi sér stað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Maður er nefndur Bruckner. Hann rannsakaði afrennslislaus vötn á meginlandi. Evrópu og komst að þeirri niðurstöðu, að þau tækju langvarandi breytingum líkt og Kleifarvatn. Þessar breytingar reyndust misjafnlega miklar á hinum ýmsu vötnum, þannig að sum hækkuðu og lækkuðu meira en önnur, en öll fylgdust þau að, og reyndust breytingaskeiðin um 35 ár að meðaltali. Jafnframt rannsakaði hann skýrslur um veðurfar og sýndi fram á, að frá því um 1700, er slíkar skýrslur hefjast, og fram undir síðustu aldamót hafa jafnan skipzt á þurr tímabil og rök. Reyndust þurrkatímarnir 17 ár að meðaltali og votviðraskeiðin 18, en umferðin öll 35 ár. Við samanburð kom í ljós, að vötnin fylgdu veðráttunni, uxu á votviðratímunum, en minnkuðu á þurrviðristímunum. En sagan er ekki fullsögð enn. Bruckner og aðrir héldu rannsóknunum áfram, og kom þá í ljós, að þessara breytinga gætti í öllum heimsálfum, ekki aðeins í afrennslislausum vötnum, heldur í öllum vötnum og ám, jöklum og jafnvel úthafinu sjálfu. Vitanlega hafa þessar rannsóknir verið vefengdar, en almennt eru þó niðurstöður þeirra taldar góð latína meðal jarðfræðinga. Verður því að ætla, að þær eigi við hér á landi sem annars staðar. Þess er þó að geta, að langvarandi vatnsborðsbreytingar eru ekki kunnar hér nema frá Kleifarvatni einu, en auðvelt er að færa rök að því, að menn hafi fremur veitt þeim athygli þar en annars staðar. Kleifarvatn liggur fast að byggð. Þegar það vex tekur það engjar af og alfaraveg, en er það lækkar, þorna allstór svæði við enda þess ibáða, og fær slíkt ekki dulizt fyrir kunnugum. Önnur afrennslislaus vötn eru aftur lítil flest eða fjarri byggðum, svo að þeim hefir verið minni gaumur gefinn. Hins er og að geta, að eftir munnmælunum eiga tjarnirnar hjá Straumi í Hraunum að hækka og lækka að sama skapi sem vatnið. Guðmundur í Nýjabæ kvaðst hafa tekið“ eftir því, að þetta væri rétt, ög auk þess taldi hann að vötnin hjá Krýsuvík, Grænavatn og Gestsstaðavatn, væru sams konar breytingum báð, en breytingarnar væru þar minni en í Kleifarvatni í sömu átt benda athuganir, sem ég hefi gert við Rauðavatn í Mosfellssveit. Árið 1931 setti ég þar merki, og næstu árin virtist vatnið breytast á sama hátt og Kleifarvatn, aðeins í minna mæli. En síðan 1937 hefi ég ekki getað fundið merkið, og mun það hafa verið tekið. Varð því ekki af mælingum eftir það.
Samkvæmt munnmælunum, er breytingaskeið Kleifarvatns 5 árum lengra en tímabil Bruckners, en ekki er ósennilegt, að þar skeiki munnmælunum, enda þótt þau séu rétt í meginatriðum, og telji þau breytingaskeiðið fremur í fullum áratug en hálfum. Ekki skiptir það heldur máli, þó að síðasta hækkunarskeið vatnsins hafi reynzt 20 ár, því að sumir votviðrakaflar Bruckners voru svo langir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Hér virðist því, að öllu athuguðu, fengin viðunandi skýring á breytingum Kleifarvatns. Vitanlega verður þó að halda rannsóknum áfram, unz úrskurður fæst, og þarf að mæla jöfnum höndum úrkomuog vatnshæð. Varla mun mega mæla sjaldnar en einu sinni í mánuði, enda er slíkt sæmilega auðsótt, þar sem ágætur vegur er kominn að vatninu.
Ekki er unnt að skiljast við þetta mál, án þess að geta um merkilega athugun, sem Ólafur Friðriksson hefir gert við Kleifarvatn. Árið 1938 kom hann að ósnum, sem verður milli aðalvatnsins og víkurinnar í norðurenda þess, Lambhagatjarnar. Sá hann þá, að straumur er í ósnum, og rennur úr vatninu inn í víkina. Ég hefi síðar gengið úr skugga um, að þetta er rétt, og er ósinn raunar lygn lækur eða stokkur. Af þessari athugun dró Ólafur þá ályktun, að í víkinni væri einhvers konar svelgur, er kyngdi jafnmiklu og inn streymdi um ósinn.
Árið 1930 var Lambhagatjörn þurr með öllu. Gekk ég þá um botn hennar allan. Það er sléttur leirbotn, og sér þar engin merki svelgs né annars afrennslis. Eftir það lækkaði vatnið enn í tvö ár, eins og áður segir, og hlýtur annað að hafa valdið þeirri lækkun en leki á botni Lambhagatjarnar. Ef menn fallast á þá skoðun, að Kleifarvatn sé hluti af jarðvatninu, er næsta ósennilegt, ef ekki óhugsandi, að hað hafi annað afrennsli en rennsli jarðvatnsins sjálfs, því að glufur og gjár, sem kynnu að vera í bergið undir því og umihverfis, hljóta að vera fullar af vatni upp að jarðvatnsborðinu, og gera verður ráð fyrir því, að rennsli jarðvatnsins sé mjög jafnt, nema hvað það hlýtur að vaxa eitthvað, ef jarðvatnið hækkar. Sogpípa kemur ekki til álita fyrir margra hluta sakir.

Kleifarvatn

Gengið um Litlu-Grindavík í Kleifarvatni þurrum fótum.

Kleifarvatn liggur í djúpri dalkvos milli bbrattra hlíða. Beggja vegna við það hlýtur því jarðvatnsiborðið að liggja allmiklu hærra en vatnsflöturinn og halla að honum. Jarðvatnið hlýtur því að streyma stöðugt til vatnslægðarinnar, en aðstreymi þess er ekki svo mikið, að það nægi til þess að fylla hana svo, að vatnið fái framrás ofanjarðar. Hins vegar hallar svo stóru svæði að vatninu, að óhugsanlegt er, að uppgufun frá vatnsfletinum hamli á móti aðrennslinu. Vatnið hlýtur því að hafa afrennsli neðan jarðar, og það afrennsli er rennsli jarðvatnsins. Nú getur jarðvatnið ekki fremur en annað vatn runnið þangað, sem hærra vatnsborð er fyrir, en þannig er háttað beggja megin við Kleifarvatn, eins og áður segir. Hæð Grænavatns og Gestsstaðavatns sýnir, að sama máli gegnir um lægðina suðvestur frá vatninu. Afrennsli vatnsins hlýtur því að vera til norðausturs, undir skarðinu, sem verður milli Lönguhlíðar og Sveifluháls. Í Kleifarvatni öllu er því straumur til norðausturs — straumur jarðvatnsins. Þegar vatnið er svo hátt, að Lambhagatjörn sé þurr. Liggur afrennslið undir botni hennar. En ef vatn er í tjörninni, rennur fyrst inn í hana úr aðalvatninu, en síðan aftur út úr henni um norðausturfjöruna. Í ósnum hlýtur straumurinn að vera mestur, og þar má mæla afrennslið. Mjög væri fróðlegt að fá úr því skorið, hvort þetta afrennsli er jafnt eða ekki. Í miklum þurrkum er trúlegt, að uppgufunin úr vatninu verði meiri en aðrennsli þess, og ætti þá að renna úr tjörninni inn í vatnið, að minnsta kosti ætti straumurinn í ósnum að verða mjög lítill. Í júlí 1930 mældi ég vatnshæðina daglega, og virtist mér bún fara mjög eftir veðri. Mest var lækkunin 0,9 cm á sólarhring, og var þá hinn glaðasti þurrkur. Samkvæmt því hafa á þessum tíma horfið úr vatninu um 778 500 smálestir og svarar það til nærri 9 m3 rennslis á sekúndu. Er næsta ótrúlegt, að aðrennslið nemi, svo miklu.
Jarðvatnsborðinu hallar alls staðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu. Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð og eykst því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er ekki ósennilegt, að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn.“

Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, 11. árg. 1941, 3.-4. tbl. bls. 156-168.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.

Víkingaskip

Í upphafi tveggja uppskrifaðra rita úr Landnámabók má lesa eftirfarandi texta um upphaf búsetu manna hér á landi:

Hauksbók

Landnáma

Landnáma.

Alldar fars bók þeiri er Beda prestr heilagr gerdi er getid eylandz þess er Thile heiter (ok) a bókum er sagt at liGi .vj. dægra sigling nordr fra Bretlandi. Þar sagdi hann ei koma dag a vetr ok ei nott a sumar þa er dagr (er) lengztr. Til þess  ætla vitrir menn þat haft at Island se Thile kallat at þat er vida a landinu at sól skinn vm netr þa er dagr er lengs. enn þat er vida vm daga at sol ser ei þa er nott er lengs. En Beda prestr andadist dccxxxv. arum epter holldgan vors herra Iesu Ghristi at þui er ritad er meir en c ara fyR Island bygdizt af Nordmonnum. En adr Island bygdizt af Nordmonnum voru þar þeir menn er Nordmenn kalla Papa. Þeir voru menn kristnir ok hyGia menn at þeir muni verit hafa vestan vm haf þvi at funduzt eptir þeim bækr irskar ok biollur ok baglar ok en fleiri luter þeir at þat matti skilia at þeir voru Vestmenn.  þat fanzt i Papey avstr ok i Papyli. er ok þers getid á bókum Enskum at i þann tíma var farit millim landana.

Sturlubók
Alldarfars bók þeirre er Beda prestr heilagr gerdi er getid eylanndz þess er Tili heiter ok sa bokum er sagt at ligi vj. dægra sigling i nordr fra Bretlanndi. þar sagde hann eigi koma dag aa. wetr ok ei nott aa sumar þa er dagr er sem leingstr. Til þess atla vitrir menn þat haft at Island sie Thile kallat at þat er vida sa landinu er sól skin vmm nætr þa er dagr er sem lengztr en þat er vida vmm daga er sól ser ei þa er nott er sem lengzt. En Beda prestr andadizt DCC.XXXV. arumm eptter hollgan Drottins vors at þvi er ritad er og meiR en hundrati ara fyR en Island bygdizt af Nordmonnumm. En adr Island bygdizt af Noregi voru þar þeir menn er Nordmenn kalla papa þeir voru menn Kristner og hyggia menn at þeir hafe verit vestan vm haf þvi at funduzt epter þeim bækr IRskar biollur ok baglar ok en fleire hlutir þeir er þat matte skilia at þeir voru Vestmenn. Enn er ok þess getit aa bókum Enskum at i þan tima var farit milli landana.

Melabók
Í Melabók er ekki að finna framangreindan texta.

Hauksbók

Hauksbók.

 

Eldvörp

Haldið var eftir gömlum skriðdrekaslóða norður eftir Bræðrahrauni með stefnu á Lat. Suðvestan hans er stærðarinnar hraundrýli, sem FERLIRsfélagar gengu fram á fyrir stuttu síðan. Það er um fimm metra hátt og op uppi í því miðju, en niður í það er u.þ.b. níu metra dýpi.

Hraundríli

Hraundrýli í Eldvörpum.

Gengið var með stiga síðasta áfangann. Drýlið er í einni gígaröðinni nyrst og skammt austan við Eldborgagígaröðina. Svo virðist að um gasuppstreymisop sé að ræða sem og klepragíg af innvolsinu að dæma. Að horfa niður er ekki ólíklegt að þar niðri kynnu að leynast göng, en tilgangurinn með þessari ferð var að skoða innviðina betur. Ekki eru mörg hraundrýlin hér á landi er bjóða upp á þessar aðstæður, en þó má finna slík á Reykjanesskaganum, s.s. í Hnúkunum (mjótt og um 6 m djúpt), á Strokkamelum í Hvassahrauni (minni) og Tröllabörnin undir Lögbergsbrekkunni við Suðurlandsveginn (breiðari). Þá má nefna Trinton við veginn milli Þingvalla og Laugarvatns.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hraundrýli myndast oft á yfirborðsþekju hrauna við uppstreymisop þar sem lofttegundir, einkum vetni (H2), streyma upp, brenna, og rífa með sér hraunslettur. Hraunsletturnar falla sem kleprar umhverfis opið og mynda þannig holan kleprahrauk sem oft líkist einna helst ofni, samanber erlenda heitið á þessum myndunum, hornito. Það mun vera komið úr spænsku og merkir ofn. Algengast er að hraundrýli myndist nálægt eldgígum t.d. á gígbörmunum umhverfis hrauntjarnir í dyngjum eins og Selvogsheiði. Hraundrýli mynduðust einnig við gosið í Surtsey. Hraundrýli eru nokkuð algeng í hraunum og þá jafnvel langt frá gígunum eins og t.d. Tröllabörn í Elliðaárhrauni (Leitahrauni) neðan Lækjarbotna og í Aðaldalshrauni. Skammt frá þessu tiltekna hraundrýli í Eldborgarhrauni er tiltölulega (m.v. jarðsögulegan mælikvarða) nýslökknaður gígur og virkt hverasvæði.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Stiginn var látinn síga niður í hraundrýlið. Hann náði niður á brún þess, ca. þremur metrum ofan botnsins. Þegar niður var komið sást vel hvernig barmarnir voru; líkir klepragíg að innan, en þó fínlegri. Fjölbreytileg litadýrð blasti við. Ljóst var af ummerkjum að dæma að þarna hafði ekki nokkur lifandi vera stigið fæti áður. Ótrúlegt að á jafnfjölmennu og fjölförnu svæði og Reykjanesskaginn er, skuli enn vera til svæði þar sem enginn virðist áður hafa stigið niður fæti. Í lotningu fyrir að slíkt skuli enn vera fyrir hendi var drýlið nefnt því einfalda, en samt margslungna nafni Ó.
Gjall myndast við kvikustrókavirkni í basískum gosum en hún stafar af miklu útstreymi lofttegunda úr kvikunni efst í gosrásinni.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Við loftbólumyndunina í kvikunni léttist hún snögglega og hröðun hennar upp á við eykst mjög þannig að kvikan nær að þeyta kvikustrók hátt til lofts. Nái sletturnar að storkna áður en þær falla mynda þær frauðkennt gjall. Séu sletturnar aðeins hálfstorknaðar fletjast þær út og hrúgast upp sem skánir úr kvikuslettum eða kleprahrúgöld. Í svokölluðum blandgosum er um báðar þessar myndanir að ræða og myndast þá gjall- og klepragígar. Vegna hraðrar storknunar er yfirborð gjalls og klepra mjög glerkennt og storkan er blöðrótt. Þessar myndanir fá oft rauðleitan blæ vegna oxunar járnsambanda í storkunni. (Bætt hefur verið inn á FERLIRsvefinn nýjum tengli; Jarðfræði – glósur, en á honum má finna hinar ýmsu skilgreiningar um jarðfræðileg álitamál).

Eldvörp

Eldvörp – útfelllingar í hraundríli.

Af syllunni, það sem stiganum sleppti, var hægt að fella stærðar stein niður í dýpið fyrir neðan. Með því að halda sér í stigann og stíga á steininn var hægt að komast niður á botn. Þar blasti dýrðin við; opið að ofan og stuttar rásir til hvorrar handar; “Paradís jarðfræðingsins”. Vegna þess að engu hafði verið raskað mátti sjá fallegar brennisteinsútfellingar og stórbrotnar kísilmyndanir á syllum. Þessar myndanir höfðu greinilega fengið að dafna þarna í friði um alllangan tíma. Með því að standa þarna og virða fyrir sér fyrirbærin mátti í raun lesa jarðmyndunarsöguna, án bókastafa.
Stuttar og litlar rásir eru beggja vegna. Í rauninni gleymdist uppopið um sinn þegar jarðmyndanirnar voru skoðaðar. Fjallað hefur verið um göng og stigaverk í Þríhnúkahelli. Hér dygði stuttur stigi til að virða fyrir sér það sama í minni mælikvarða.
Þegar upp úr hraundrýlinu var komið sáust ljósin við Bláa lónið við í austri. Snjór þakti jörð og Þorbjörninn var skyndilega orðinn “gráhærður”. Ljóst er að nýta má betur svæðið í kringum “Lónið”.
Haldið var til baka – með stigann og minningarnar um einstakt hraundrýli í Eldborgarhrauni (Bræðrahrauni).
Frábært veður (miðað við árstíma) – Gangan tók 5 mín, en skoðunin tók tíu sinnum fimm mínútur.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.

Knarrarnesholt

Í fyrri ferð um svæðið austan við Knarrarnesholt bar ýmislegt fyrir augu í skammdegisbirtunni. Nú var ætlunin að ganga um heiðina vestan við Knarrarnesholt að Brunnastaðalangholti, en svæðið þar fyrir vestan hafði áður verið skoðað.

Knarrarnesholtsvarða

Enn sem fyrr hékk náttúruleg skammdegisljósadýrðin yfir heiðinni. Gengið var niður um Djúpudali, „djúpa grasbolla sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra Knarrarnesi í tíð Ólafs Péturssonar bónda þar“.
Gróningarnir milli holtanna eru grasgefnir, enda hafa þeir verið hið ágætasta skjól í heiðinni. Drjúg leið er milli bæja og dalanna svo ætla mætti að einhvers staðar væri þar að finna smalaskjól, þótt lítið væri. Tveir staðir komu til greina, en þó annað öllu líklegra. Um var að ræða ferhyrnda gróna rúst í „anddyri“ dalanna. Sjá mátti grjót í veggjum, en ekki hefur afdrepið verið stórt, líkara varðskýli. Líklegt er að kýrnar hafi ekki leitað upp á holtin heldur ætlað heimleiðis um dalverpið þegar nóg var komið. Þá var skýlið vel staðsett. Leitað var að kúastekk á svæðinu, sem líklega er þarna einhvers staðar í eða við Djúpudali, en án árangurs að þessu sinni. Horfa til þess að skammdegisbirtan gaf ekki mikla möguleika eða kjörin tækifæri til uppgötvanna eftir að vinnu lauk þann daginn. Þá eru myndatökur með venjulegum tækjabúnaði við slíkar aðstæður mjög erfiðar.
KnarrarnesholtsvarðanNeðan og vestan við Djúpudali er Knarrarnesholt. „Þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá [Reykjanes]brautinni og á því er kubbslaga, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.“ Varðan er á áberandi stað, hvort sem horft er upp í heiðina heiman frá bæ eða niður hana af Knarrarnesselsstígnum þar skammt austar. Hæðin á vörðunni er ekki nema ca. 0,50 m, ferköntuð og fyllt í miðju. Ætla mætti að henni hafi verið ætlað að verða hærri (enda landamerkjavarða), en vegna þess hversu 
nægilega áberandi kennileiti hún var orðin svona lágreist hafi þetta verið látið duga. Skoðað var hvort varðan gæti einnig hafa verið ætluð sem refagildra, en engin merki þess sáust.
Afstapavarða„Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.“
Ásláksstaðaklofningar eru lágir klapparhólar og litlir m.v. nágranna þeirra, grónir á millum. Gróin varða er á þeim, en tilefnið virtist óljóst.
Í bakaleiðinni var staðnæmst við norðurenda Afstapahrauns, ofan Kúagerðis. Þar er varða, hvorki gömul né ný, að því er virðist. Hún er hlaðin á efsta (fremsta) brunahólnum í þessu úfna apalhrauni. Ætla mætti við fyrstu hugsun að hún hafi verið hlaðin til dundurs af vegagerðarmönnum er lögðu akveginn fyrsta sinni milli Innnesja og Útnesja í kringum 1910 (1906-1912).
AfstapavarðaÍ örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir hins vegar: 

„Markavarða við Fögruvík; úr Markavörðu í Afstapavörðu, úr Afstapavörðu í Snókafell, úr Snókafelli um Lambafell, úr Lambafelli í landamerkjalínu Krýsuvíkur norðan Mávahlíðar.“ Varðan sú virðist skv. þessu vera svonefnd Afstapavarða á merkjum Hvassahrauns og Stóru-Vatnsleysu. Sbr. framangreint ætti einnig að vera landamerkjavarða á Einihlíðum norðan Mávahlíða.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.”
LambafelLandamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við 

,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl”. Líklegt má telja að Afstapavarða hafi verið hlaðin við svonefnda Afstapaþúfu til áréttingar mörkunum. Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.

Knarrarnesheiði

Varða á Knarrarnesheiði.

Grindavíkurkirkja

Árið 1000, þegar kristni var lögtekin, bjó ein þjóð í landinu. Landnámsmenn voru mismunandi að uppruna, en flestir komu frá vesturströnd Noregs. Sumir komu frá Bretlandseyjum, jafnvel afkomendur norrænna manna, sem höfðu sezt þar að. Margir hinna keltnesku landnema komu af frjálsum vilja en aðrir sem hertekið fólk.

Skálholt

Skálholt.

Allt frá krisnitökunni hefur sama þjóðin búið í landinu og kirkjan verið hin sama fram undir hina síðustu áratugi. Menning landsins byggist á norrænum grunni og íslenzka tungan er, líkt og gríska eða latína, móðurtunga Norðurlanda nema Finnlands. Kristnin barst til Íslands eftir ýmsum leiðum, m.a. frá Norðurlöndum, meginlandi Evrópu, Englandi og Írlandi.
Fyrstu tvær til þrjár aldirnar eftir að kristni var lögtekin var kirkjan undir valdi höfðingja landsins en síðan varð hún hluti hinnar evrópsku og katólsku miðaldakirkju. Við siðaskiptin var kirkjan klofin í u.þ.b. einn áratug, því að siðbótin var lögtekin í Skálholtsbiskupsdæmi 1541 en ekki fyrr en 1551 í Hólabiskupsdæmi. Hin evangelísk-lúterska kirkja ríkti hér óáreitt fram á síðari hluta 19. aldar, þegar trúfrelsið var innleitt í stjórnarskránni, sem Kristján konungur IX færði Íslendingum 1874. Þá hóf katólska kirkjan starf sitt að nýju hérlendis auk ýmissa annarra trúarfélaga, sem hefur fjölgað stöðugt fram á okkar daga. Engu að síður teljast u.þ.b. 90% þjóðarinnar til lútersku þjóðkirkjunnar. Siðbótin á Íslandi var að mestu knúin fram með valdboði frá Dönum, enda var grundvöllur til slíkra breytinga ekki fyrir hendi úr öðrum áttum á þeim tíma.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Elztu og ítarlegustu frásögn af kristnitökunni er að finna í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar. Það er athyglisvert, hve krisnitakan fór friðsamlega fram og hvernig ákvörðunin var tekin. Ari samdi rit sitt að fyrirmælum biskupa Skálholtsstaðar og í samvinnu við þá og fleiri lærða menn. Þessu riti var lokið árið 1130. Ritöld hófst á Íslandi eftir að kristni var lögtekin. Eigna- og valdahlutföll í samfélaginu röskuðust, þegar kirkjur urðu auðugar og voru á valdi einstakra höfðingja, sem mökuðu krókinn á meðan öðrum þótti þeir vera afskiptir. Þessi þróun olli m.a. blóðugum átökum Sturlungaaldar. Kristnin í landinu hefur því tvímælalaust verið einhver mesti örlagavaldur þjóðarinnar.
Margir undrast fjölda íslenzkra kirkna úti á landi og velta fyrir sér ástæðum hans. Kirkjum hefur fækkað og fækkar enn. Samgöngur hafa batnað á tiltölulega skömmum tíma, fólki hefur fækkað í ýmsum byggðum og sóknir og sveitarfélög hafa verið sameinuð. Fyrrum var lögð áherzla á, að kirkjur væru innan seilingar fyrir fólkið í íslenzka bændasamfélaginu. Þær áttu að vera svo nærri, að kostur gæfist á að komast fram og til baka í messu á milli mjalta og heyrast átti til kirkjuklukkna næstu tveggja kirkna frá þeirri, sem var sótt. Á Reykjanesi fyrrum er víða getið um kirkjur og bænahús, s.s. á Vatnsleysu og á Óttarstöðum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Á Reykjanesskaganum eru enn margar áhugaverðar kirkjur. Má þar nefna Innri-Njarðvíkurkirkju í Njarðvíkurprestakalli. Hún hefur staðið í margar aldir í Innri-Njarðvík. Sú kirkja sem þar er nú var reist 1884-86. Kirkjur hafa staðið á Bessastöðum síðan árið 1000. Elztu heimildir um kirkju þar eru frá árinu 1200. Það tók u.þ.b. 20 ár að byggja núverandi kirkju og hún var vígð 1796. Hún er meðal elztu steinbygginga landsins. Byggingu turnsins lauk ekki fyrr en árið 1823 eftir að hætt var við að hafa þar útsýnisaðstöðu.
Garðakirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Í Garðasókn eru tvær kirkjur: Garðakirkja og Vídalínskirkja. Garðakirkja á Álftanesi er vegleg kirkja á sögufrægum stað. Hún hefur átt tímana tvenna kirkjan, sem þar er nú. Hún var reist 1879-80

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Sumarið 1913 var hafist handa við að reisa þessa fyrstu kirkju Hafnfirðinga, Fríkirkjuna, og sóttist verkið svo vel að kirkjan var vígð 14. desember sama ár.
Grindavíkurkirkja er í Grindavíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Frá fornu fari var kirkjustaður á Stað vestan við Járngerðarstaðahverfi. Árið 1909 var kirkja reist í Járngerðastaðahverfi og vígð 26. september. Hún var notuð allt þar til ný kirkja var vígð á horni Austurvegar og Ránargötu 26. september 1982.
Framkvæmdir við kirkjugrunn Hafnarfjarðarkirkju hófust haustið 1913 og lauk smíðinni á aðventu 1914. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann andaðist úr lungnabólgu um það
leyti sem smíði kirkjunnar lauk og var lík hans borið í kirkjuna á Þorláksmessu.
Kálfatjarnarkirkja er í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Kirkjuvogskirkja í Höfnum var byggð 1860-61.
Árið 1962 var Kópavogskirkja vígð á Borgarholtinu.
Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan, sem stendur enn þá, var reist 1857. Hún var endurbyggð og endurvígð 1964 og afhent þjóðminjaverði til varðveizlu.
Útskálakirkja er í Útskálaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún er úr timbri og var reist árið 1861-63 að frumkvæði sóknarprestsins, síra Sigurðar B. Sívertsens.
Víðistaðakirkja í Hafnarfirði var vígð 28. febrúar 1988.
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979

Keflavíkurkirkja

Keflavíkurkirkja.

Keflavíkurkirkja var byggð árið 1914 eins og sjá má framan á kirkjuturni. Hins vegar var kirkjan vígð 1915, hinn 14. febrúar.
Strandarkirkja er sóknarkirkja Selvogs og nú annexía frá Hveragerði. Hún stendur fjarri öllum bæjum, því að engin önnur hús standa nú á Strönd. Öldum saman hefur fólk heitið á Strandarkirkju í tengslum við alls konar erfiðleika í lífi þess og peningar streyma inn vegna áheita. Hún telst því auðugasta kirkja landsins og er velviðhaldið af þeim sökum.
Þjóðsagan segir, að þar heiti Engilsvík, sem kirkjan stendur. Sjómenn í lífsháska hétu að byggja kirkju á ströndinni, ef þeir kæmust lífs af. Þá sáu þeir skært ljós í landi, en það var ekki lengur þar, þegar þeir lentu heilu og höldnu, heldur stóð skínandi vera í flæðarmálinu og tók á móti þeim. Sjómennirnir efndu heit sitt.
Styttan Landsýn eftir Gunnfríði Jónsdóttur (1889-1968) var afhjúpuð við kirkjuna við hátíðlega athöfn á öðrum degi hvítasunnu 1950. Í byrjun 14. aldar getur Jón Espólín þess, að mannskaðar hafi verið stórir af völdum hallæris og a.m.k. 300 manns hafi verið jarðsungnir í Strandarkirkju einni.
Tvær af þessum kirkjum eru friðlýstar, þ.e. Hvalsneskirkja og Útskálakirkja.

Heimildir m.a.:
-nat.is

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Fiskidalsfjall

Hér er til gamans birtur kafli, nr. 32, úr óbirti sögu ungs drengs er ólst upp í sjávarþorpi á Reykjanesskaganum á sjötta tug síðustu aldar. Ameríski herinn hafði bækistöðvar við þorpið og setti það svip sinn á mannlífið. Sögunni fylgir kort af svæðinu, en það verður ekki sýnt hér. Til að leiða lesendur inn í kaflann, sem hér er birtur, er fyrst staldrað við í 31. kafla:

31.
„Drengirnir voru enn að voma á sandinum ofan við Þorpið þegar þeir veittu allt í einu athygli grænleitum pallbíl þar sem honum var ekið eftir veginum að grófriðnu vírnetshliði á girðingunni umhverfis fjarskiptastöð hersins. Ökumaðurinn stöðvaði framan við hliðið og hermaður kom út úr varðskýli þar fyrir innan og opnaði. Þegar bílnum hafði verið ekið inn fyrir var hliðinu umsvifalaust lokað á ný. Bíllinn var stöðvaður framan við bragga skammt innan við varðskýlið. Ökumaðurinn og tveir vopnaðir hermenn, sem verið höfðu farþegar, yfirgáfu hann þar og flýttu sér inn í skúr við endann á bragganum.
 Aftan á bílnum grillti í enda á nokkrum trékössum. Þeir voru að hluta huldir gráum segldúk, en þetta voru samskonar kassar og þeir, sem drengirnir höfðu séð Kanana vera með þegar þeir voru að lauma amerískum bjúgum að Lónsvíkingum eða nota þau í skiptum fyrir eitthvað sem þá vanhagaði um. Lyktin af bjúgunum var svo sterk að hún fylgdi Könunum hvert sem þeir fóru, jafnvel þótt engin bjúgu væru í nánd. Anganin fannst meira segja alla leið niður á Torfu þegar vindur stóð af norðvestri, en það var þó sem betur fer sjaldgæf vindátt á þessum slóðum….

Loftskeytastöðvarsvæðið - núna, alssbert og stípað að lokinni notkun32.
Jón Pétur og Gunnsi voru sammála um að ástæða væri til að líta nánar á kassana á bílpallinum. Ekki var nokkurn mann að sjá á ferli innan við girðinguna. Drengirnir áræddu að rísa upp og gengu hálfbognir að henni. Þeir hikuðu. Á girðingunni voru einhver gul skilti með erlendri áletrun og mynd af rauðri eldingu. Amma hafði sagt Jóni Pétri að koma ekki nálægt vírnetinu því Kananum væri alveg trúandi til að tengja rafmagnsstraum við það. En Jón Pétur vissi betur. Hann hafði sjálfur sannreynt það einu sinni að ekkert rafmagn væri leitt í girðinguna með því að kasta á hana dauðri veiðibjöllu, sem hann hafði fundið þar skammt frá. Hún hafði sennilega drepist við að fljúga á einn víranna sem háu fjarskiptamöstrin voru stöguð niður með.
Til að gæta alls öryggis og hafa vaðið fyrir neðan sig gættu drengirnir þess vel að snerta ekki netið að óþörfu. Það var aldrei að vita nema gamla konan rétt fyrir sér. Hún var ekki vön að segja ósatt. Og það gat ekki verið að ástæðulausu sem hún var að vara við girðingunni.
Vindurinn þyrlaði rykinu upp á malarsvæðinu innan við girðinguna. Lyktin af bjúgunum varð greinilegri.
„Gaman væri nú að geta glatt ömmu með einum svona kassa“, hugsaði Jón Pétur. „Hún hefur ábyggilega aldrei bragðað svona mat blessunin og á sennilega aldrei eftir að gera. Og hvað munaði Kanana svo sem um einn kassa?”
Kaninn virtist eiga nóg af bjúgum. Að minnsta kosti voru þeir alltaf að gefa þær hverjum sem þiggja vildi, út og suður í tíma og ótíma, annað hvort í skiptum fyrir eitthvað annað eða að því er virtist að tilefnislausu. Amma Áslaug hafði þó ekki staðið í verslun við Kanann – einungs látið sér nægja lyktina.
Á meðan Jón Pétur og Gunnsi stóðu þarna hálfbognir utan við girðinguna tókst þeim á skömmum tíma að sannfæra hvorn annan um að ekki yrði hjá því komist að þeir reyndu að ná einum kassanna fyrir innan girðinguna með einhverjum ráðum. Ekki var þorandi að reyna að klifra yfir. Þótt ekki væri straumur á girðingunni þessa stundina væri ekki hægt að útiloka að Kaninn gæti hleypt á hana straumi öðru hvoru. Og það var alveg eins líklegt að hann gerði það ef hann yrði þeirra var. Auk þess var hún það há að vonlaust var fyrir þá að koma kassanum aftur yfir þá leiðina. Og ekki höfðu þeir verkfæri til þess að grafa sig undir girðinguna.
Leifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarDrengirnir fikruðu sig spenntari og spenntari, en hikandi nær hliðinu, vitandi að vörðurinn í skúrnum fyrir innan var vopnaður. Því urðu þeir að fara sérstaklega varlega og láta lítið á sér bera.
Þegar nær dró settust þeir niður í sandinn og hvísluðust á. Þeim fannst þeir vera komnir í einhvers konar leik, sem þeir urðu að ljúka.
Allt í einu birtist vörðurinn í dyragættinni. Drengirnir beygðu sig alveg niður í sandinn.  Vörðurinn stóð þarna nokkra stund, skimaði í kringum sig, horfði yfir að bílnum, reykti, kastaði sígarettunni frá sér og snéri síðan aftur inn. Hann virtist óvopnaður. Drengirnir önduðu léttar. Þeir stóðu upp, hlupu hálfbognir að hliðinu og tóku lauslega í það. Heppnin var vera með þeim. Grindin féll ekki alveg að hliðarstólpanum. Nokkurt bil myndaðist þar á milli ef grindin var spennt frá.
Drengirnir horfðust í augu. Hvor skildi hinn. Jón Pétur tók á sig rögg og smeygði sér hiklaust inn fyrir. Það var hann sem hafði átt hugmyndina og því var sjálfsagt að að hann færi. Gunnsi  beið utan við hliðið og átti að halda því í sundur og vara Jón Pétur við ef vörðurinn eða einhver annar birtist.
Jón Pétur hljóp hljóðlega að pallbílnum og fram með afturhluta hans fjær bragganum. Hann staðnæmdist, en enga hreyfingu var að sjá á svæðinu. Hann greip þéttingsfast í skjólborðið, steig upp í felguna og vó sig upp á afturdekkið. Þaðan náði hann spyrnu til að geta teygt sig í einn kassann og draga hann hægt og varlega að sér. Annar endi kassans hvíldi á skjólborðinu. Jón Pétur lét sig síðan síga niður á jörðina og dró kassann að því búnu til sín.
BLeifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðaryrðin var þyngri en hann hélt. Jón Pétur átti erfitt með að ná nægilega góðu taki á kassanum og missti hann því á jörðina. Við það varð mikill hávaði.
Jón Pétur stóð grafkyrr. Hann þorði ekki að draga andann, húkti bara steinrunninn yfir kassanum. Engin hreyfing. Vindurinn hlaut að hafa dreift hljóðinu.
Jón Pétur tók kassann upp og hraðaði sér hálfboginn með hann að hliðinu. Þar beið Gunnsi eftir honum. Hann spennti sundur hliðið og Jón Pétur henti kassanum út fyrir í gegnum rifuna og fylgdi snarlega á eftir. Þeir gripu síðan undir sinn hvorn endann og hlupu við fót niður tröðina frá fjarskiptamiðstöðinni. En rétt áður en þeir komust í hvarf neðan við sandhæðina og niður á veginn kom varðmaðurinn út úr skúrnum.Â
Varðmaðurinn sá óðara hvers kyns var og hrópaði í ofboði á félaga sína, sem komu strax hlaupandi út. Eftir nokkurt handapat og köll stukku tveir hermannanna upp í bílinn og einn þeirra hentist fallvaltur að hliðinu. Tilburðir þeirra báru ekki með sér að um þrautþjálfaða atvinnuhermenn væri að ræða. Það tók Kanana auk þess nokkurn tíma að koma bílnum í gang og snúa honum við á svæðinu, en að því loknu hófst eftirförin. Vörðurinn stóð utan á skítbrettinu og hélt sér í þakbrúnina, albúinn að stökkva á bráðina ef færi gæfist.
Drengirnir urðu varir við að bílinn stefndi í áttina að þeim. Þeir hertu því hlaupin. Gunnsi dróst aftur úr. Jón Pétur tók þá kassann í fangið. Hann hafði ekki hugsað sér að sleppa herfanginu átakalaust.
Leifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarGunnsi hrópaði að þeir skyldu stytta sér leið yfir kríuvarpið. Þeir beygðu út af veginum, hlupu yfir varpið, stukku í gegnum geil á hlöðnum grjótveggnum í túnfæti Vesturbæjarins og hiklaust áfram yfir túnið í átt að Miðbænum. Það var eins og kölski sjálfur væri að narta í hælana á þeim.
Hermennirnir þurftu að fara veginn og því mun lengri leið. Einn þeirra stökk af bílnum þegar hann nálgaðist hlaðna grjótvegginn í beygju á veginum og hljóp á eftir piltunum yfir túnið. Hinir héldu áfram á bílnum, en fylgdust þó vel með ferðum drengjanna. Til þess að komast inn í Þorpið og niður að bæjunum urðu þeir þó fyrst að krækja vestur fyrir Búðina. Leiðin var seinfarin á þungum herbílnum og á meðan nálguðust drengirnir óðfluga Miðbæ.
Það stóð á endum að um það bil sem Jón Pétur náði að útidyrunum birtist hlaupandi hermaðurinn við húshornið og hinir hermennirnir stöðvuðu bílinn um svipað leyti á hlaðinu. Annar þeirra stökk þegar út og hljóp hröðum skrefum í átt að húsinu. Jón Pétur náði að opna hurðina og var að henda sér inn á ganginn innan við forstofuna þegar einn hermannanna náði lafmóður taki á skyrtu hans með annarri hendinni og náði að grípa í kassann með hinni.
Jón Pétur lamdi og sparkaði frá sér af öllum kröftum og öskraði um leið: „Amma, amma, hann ætlar að drepa mig“, með slíkum látum að halda mætti að verið væri að kreista úr honum síðustu líftóruna. Kaninn sá þá sitt óvænna og sleppti drengnum, en hélt eftir kassanum.
Áslaug kom haltrandi fram. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, var órótt, en róaðist er hún varð þess áskynja að engin virtist hafa meiðst. Mikil rekistefna fylgdi í kjölfarið með hrópum, handafettum og brettum. Kaninn var óðamála, en Áslaug fórnaði höndum. Enginn skildi upp né niður í neinu í fyrstu, en svo skýrðust hlutirnLeifar fjarskiptastöðvarinnar, tæpri hálfri öld síðarir smám saman.
Loks kom í ljós hvers vegna Könunum hafði verið svo mikið í mun að ná í „bjúgun“, sem Jón Pétur og Gunnsi töldu sig hafa náð í. Í kassanum reyndust ekki vera meinlaus matvæli, heldur hættulegar dýnamítstúpur, sem ætlaðar voru til nota í hernaði. Þegar ró hafði komist á hrósuðu allir happi að ekki skyldi hafa farið verr í þetta skiptið.
Drengirnir höfðu læðst inn fyrir og földu sig hræddir inni í herbergi á meðan Áslaug bauð Könunum þremur í kaffi og pönnukökur. Svo gott fannst Könunum meðlætið að þeir gleymdu næstum að taka með sér kassann þegar þeir voru kvöddu gömlu konuna.
Jón Pétur og Gunnsi höfðu ekki þorað að koma út úr herberginu á meðan á veisluhöldunum stóð. Þeir létu lítið á sér bera og áræddu ekki einu sinni að kasta kveðju á gestina þegar þeir fóru.
Um kvöldið þegar Jón Pétur hafði strokið sér í framan, lagstur upp í rúm og dregið sængina skömmustulegur upp fyrir höfuð sér, kom Áslaug og settist á rúmstokkinn hjá honum. Hún strauk með hendinni yfir enni hans og klappaði honum á kinnina.
“Ég veit að þetta var vel meint, gullið mitt”, hvíslaði hún. “Þótt þér finnist gaman að gleðja mig, gömlu konuna, gleður það mig meira að vita af góðum og heiðarlegum dreng á öruggri leið. Litli, ræfillinn minn.  Ég ætla að biðja þig um að taka aldrei það sem aðrir eiga – ekki einu sinni í þeim tilgangi að gleðja aðra. Heyrirðu það, hróið mitt? Heyrirðu það”?
Áslaug taldi ekki ástæðu til að skammast sérstaklega yfir uppátækinu því hún vissi að drengirnir höfðu þegar dregið sinn lærdóm af því.
Þrátt fyrir atburði dagsins sofnaði Jón Pétur sáttur. Hann hafði lofað Áslaugu að láta hjá líða að gera aðra atlögu að ameríska hernum – þótt ekki væri fyrir annað en að halda friðinn.“

Nú, hálfri öld síðar er sagan gerðist, eru ummerki eftir loftskeytastöðina tilnefndu að mestu afmáð af yfirborði jarðar. Enginn vegfarandi, sem á leið um svæðið, gæti látið sér detta í hug að þarna hefði verið eitt af lykilmannvirkjum bandamanna (þess tíma) í baráttunni um heimsyfirráð (Kalda stríðsins). Allt í heiminum er svo hverfult. Líklegt má telja að deilumál dagsins í dag, orkuöflun og möguleg nýting hennar, muni að hálfri öld liðinni verða þess tíma fólki hjóm eitt. Vonandi mun eyðileggingin þó ekki verða í líkingu við þá er varð fyrir (okkar) 50 árum síðan – vonandi höfum við lært eitthvað, þótt ekki sé nema eitt hænuskref sem þurfa þykir – eftirlifandi kynslóðum til góða…