Kjalarnes

Kleifarsel var, skv. heimildum, eitt þriggja selja frá Nesi í Grafningi. Það var í Jórukleif. Hin selin; Klængssel og Vallasel, voru undri Selklettum og nágrenni.
Kleifarsel-01Landnáma getur ýmissa manna sem land námu á svæðinu og er Ingólfur Arnarson þar fyrstur nefndur til sögunnar og spannaði landnám hans land „milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli ok Öxarár, ok öll nes út.“ Þorgrímur bíldr er talin hafa byggt í landnámi Ingólfs, nánar tiltekið öll lönd fyrir ofan Þverá og byggði að Bíldsfjalli. Leysingi Þorgríms Steinröðr nam síðan öll Vatnslönd og bjó að Steinröðarstöðum. Þá skal getið Hrolleifs Einarssonar Ölvissonar sem nam lönd til móts við fyrrnefndan Steinröð fyrir utan Öxará.”
En hvar voru nefndir “Steinröðarstaðir”? Í Árbók fornleifafélagsins 1899 reynir Brynjúlfur Jónsson að svara spurningunni:
II. Steinrauðarstaðir (?); Svo segir í Landn. V. 13. »Hann (Steinröðr) eignaðist öll Vatnslönd, ok bjó á Steinrauðarstöðum«. Nafnið Steinröðarstaðir er nú týnt, og vant að gizka á, hvar bærinn hefir verið. Það eitt er víst, að hann hefir staðið við vatnið, því kringum það nam Steinröður land. Liggur nærri að hugsa, að það sé hann, sem nú ber nafnið Þingvellir, og hafi þar strax verið aðalbærinn við vatnið. Það mun þó ekki hafa verið, því af Íslendingabók má ráða að áður en alþíngi var sett, hafi bærinn Þingvellir heitið: Í Bláskógum. Og þar sem Landn. segir að Hrolleifr »nam lönd til móts við Steinröð öll fyrir utan Laxá ok bjó i Heiðarbæ, þá virðist það benda til að Steinröðarstaðir hafi verið sama megin við vatnið sem Heiðarbær, eða vestan við það.
Kleifarsel-8Á því svæði mundi því helzt að leita rústa Steinröðarstaða. Og fornar rústir eru þar á 3 stöðum, i Nesjalandi:
1. Vatnsbrekka heitir fögur brekka við vatnið í útnorður frá Nesjum. Hún liggur suðaustan i aflöngum ás, sem þar er langs með fjallshlíðinni. Milli ássins og hlíðarinnar er dalmyndað undirlendi, er heitir Nesjakleyf; breikkar það til suðurs, en mjókkar til norðurs unz það þrýtur og verður að einstigi. Er þar gata frá Nesjum til Heiðarbæjar. Vatnsbrekka snýr eigi að Kleyfinni heldur að vatninu. Hún er skógi vaxin ofan til, og kvað öll hafa verið skógi þakin fyrir eigi alllöngu. En nú er talsvert af henni notað til slægna. Hún nemur góðri túnstærð að víðáttu. Syðst er nyrðri brún hennar við vatnið nokkuð há, en lækkar austur með því. Þar eru rústir skamt upp frá vatninu. Vestast er mesta tóftin, nál. 10 fðm. ibng og nær 4 fðm. breið út fyrir veggi. Miðgafl virðist hafa verið um 4 al. frá vesturenda. Þar litlu austar er líkast að dyr hafi verið á suðurhliðvegg, þó verður það eigi ákveðið. Og öll er tóftin svo fornleg og niðursokkin, að gætu þarf til að átta sig á henni. Þó virðist auðsætt, að það sé bæjartóft. Við austur enda hennar er önnur tóft, litil og full af grjóti. Þá er hin þriðja austast og er sú glöggust og nýlegri en hinar. Gæti það verið fjárhústóft, er síðar hefði verið sett t. a. m. í fjóstóftina.

Kleifarsel-2

Þar austan við vottar fyrir leifum af tóft, ef til vill heystæði, og má vera að úr henni hafi verið tekið efni í fjárhússveggina, — því ekki hefir fjárhúsið verið sett þar fyr en bærinn var aflagður, er virðist hafa verið allsnemma. Bak við rústirnar liggur djúp laut er lítur út fyrir að hafa verið ræsi, til að verja húsin fyrir vatnsuppgangi undan brekkunni. Litlu ofar er girðing, aflangt kringlótt, nál. 5X6 fðm. innanmáls. Þar á sjást engar dyr, því hefir það varla verið gjafahringur (»gaddur«), og tilheyrt fjárhúsinu, en líklegra að það hafi verið akur eða hvanngarður, og tilheyrt bænum. Skyldi eg nokkurs geta til um Steinröðarstaði, þá þætti mér líklegast, að þeir hefði verið hér. Vatnsbrekka er fegursti staðurinn sem til er við vatnið, og þar er hægt til skógarhöggs, útbeitar og veiðiskapar, svo að eigi mundi annarstaðar betra.

Kleifarsel-3

2. Setbergsbalar heita uppi undir hlíðinni, þar sem undirlendið er farið að breikka, og eru kenndir við klett einn i hlíðinni þar upp undan, er Setberg heitir. Djúp og mjó laut er milli balanna og hlíðarinnar, og einnig er lægð niður frá bölunum bakvið ásinn, sem Vatnsbrekka er hinum megin í. Á Setbergsbölum eru allmiklar rústir og misgamlar. Hin vestasta er miklu nýlegust, og skal eg láta ósagt, hvort það hefir verið kot eða sel, tel hið fyrra þó líklegra. Hún er 8 fðm. löng og 4 fðm. breið um miðjuna. Dyr eru á miðri suðausturhlið, og þar fyrir innan 2 tóftir, sín til hvorrar handar og hin þriðja beint innúr. Vestast er sérstök tóft, opin mót vestri. Sérstök tóft gengur og suður úr norðausturendanum, líklega fjárrétt. Litlu austar er sú rústin sem fornust sýnist. Hún sést ógjörla nema vel sé að gáð. Hún virðist vera skift í 3 tóftir, og er hin vestasta stutt og breið og eins hin austasta, en miðtóftin löng og mjó. Dyr virðast hafa verið á vesturenda. Enn litlu austar er hin þriðja rúst, lítið glöggvari, 6 fðm. löng og 4 fðm. breið, meðdyr í suðausturhorni og afhlaðna innitóft í norðausturhorni. Fleiri rústir óglöggar, eru þar. Þessi staður er eigi lengra frá Vatnsbrekku en svo, að ganga má á 10 mínútum, og næstum þar uppundan, en örskammt milli vatns og fjalls. Þykir mér því fremur ólíklegt, að hér sé um tvær aðskildar jarðir að ræða, heldur sé alt sama jörðin, Steinröðarstaðir; hafi þar snemma verið tvíbýli og annar bærinn settur uppi á Setbergsbölum. Sá er þar bjó hafi síðar lagt Vatnsbrekkubæinn undir sig og sett þar fjárhús, en bygð haldist lengi á Setbergsbölum, þar til skriða má hafa tekið af vatnsbólið, sem líklega hefir verið í hinni djúpu laut. Nú er hvergi vatnsból hjá Setbergsbölum.
Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899 kemur eftirfarandi fram um rústir í Kleyfardölum: “Kleyfardalur heKleifarsel-5itir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt í kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískipt og eru engar dyr á milliveggjum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 1/2 fðm. breið hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum(?) [týndar tóftir og þó] og síðar orðið, ásamt þeim hjáleiga frá Nesjum.”
Brynjúlfur er hér að lýsa framangreindum tóftum í Jórukleif – fyrir rúmri öld síðan. Tóftir kotsbæjar í Kleyfardölum. Jórukleif heitir eins og kunnugt er eftir Jórunni bóndadóttur úr Sandvíkurhreppi í Flóa, sem ærðist þegar hestur föður hennar beið lægri hlut í hestaati. Hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Svo hljóp hún með lærið yfir Ölfusá og upp Grafning og nam ekki staðar fyrr en uppi í Hengli. Þar settist hún að í Jóruhelli. Af Jórusöðli, hnjúk í Henglafjöllum, fylgdist hún með ferðamönnum bæði sem fóru um Grafning og Dyraveg. Í Jórukleif sat hún svo fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap. Þessu linnti ekki fyrr en Noregskonungur fann upp ráð til að koma henni fyrir kattarnef.
Kleifarsel-6Í heimildum er getið um þrjú sel frá Nesjum; Kleifasel, Klængssel og Vallasel, öll í nánd við Selkletta, Selklif og Selskarð. Hvort um hafi verið að ræða sömu selstöðuna er ekki getið. Klængssel mun hafa verið vestan undir Selklettum, Kleifarsel í Jórukleif og Vallasel þar sem Nesjavallabærinn var síðar reistur suðvestanvert nið Nesjahraun. Selbrúnir eru ofan Torfadalslækjar við Jórugil. Ölvisvatn hafði selstöður í Gamlaseli við Selhól. Krókur hafði og selstöðu í heimalandi við Kaldá, á Seltöngum, líklega í Nýjaseli, sem þar er. Þá var sel á Selflötum frá Úlfljótsvatni. Austar og ofan við Selflatir er Úlfljótsvatns-Selfjall. Norðan þess er Svartagilsflöt. Þar við tjörn er Ingveldarsel, sel frá Úlfljótsvatni.
Selfellin eru fleiri á þessum slóðum. Villingavatns-Selfjall er inn á Hálsinum og Seldalur norðaustan þess, norðvestan Dagmálafells. Í Seldal eiga að vera tóftir tveggja selja, annars vegar Botnasel, sel frá Úlfljótsvatni, og hins vegar frá Villingavatni.
Nesja mun fyrst getið í gjafabréfi frá 1539. Gaf Erlendur Þorvarðarson lögmaður Margréti dóttur sinni jörðina ásamt mörgum öðrum til giftumála. Þá er jarðarinnar getið í Gíslamáldögum vegna þess að þaðan var kirkjusókn að Ölfusvatni.

Kleifarsel-8

Kleifarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Afrétt áttu Nesjar að sögn Jarðabókar Árna og Páls árið 1706 undir Hengli en um afrétti er fjallað síðar. Þá áttu Nesjar samkvæmt sömu heimild fleiri en eina selstöðu: “Selstöður á jörðin í sínu eigin landi, kallaðar Kleifasel, Klængsel og Vallasel.”
Þegar selstaðan í Kleifarseli var skoðuð komu í ljós bæði mun fleiri og mun eldri minjar en ætla mætti í fyrstu. Hafa ber í huga að engin rannsókn hefur farið fram á minjasvæðinu, hvorki hvað varðar aldursgreiningu né nýtingu. Minjasvæðið var dregið upp. Heimildir eru um að skriður hafi hlaupið yfir minjarnar, s.s. brunninn og jafnvel skálann. Sýnilegar minjar gefa þó glögg vísbendingu um a.m.k. tvennt; um er að ræða bæði fornar minjar frá mismunandi tímabilum og svo einni þeirri nýjustu (syðsta tóftin). Síðastnefnda tóftin er greinileg; sjá má glögglega útlit hennar og hleðslur í veggjum. Þá er dyraopið enn greinilegt. Veggir eru grónir og standa vel, um 60 sm breiðir og 90 sm háir. Norðan hennar eru veggir eldri minja, hugsanlega fjós eða skáli (tengist selstöðu). Við hlið hennar norðanverða virðist vera vinnsluaðstaða fyrir afurðir. U.þ.b. 10 metrum norðar eru leifar enn eldri minja, líklega sambærilegra. Þá kemur lægð á milli hóla og ofan á þeim nyrðri er hringlaga gerði, mögulega fjárborg eða jafnvel nátthagi eða hestagerði undir það síðasta. Nú hefur borgin verið rofin með lagningu bílslóða í gegnum hana (sem verður að þykja mjög miður). Fleiri tóftir má greina þarna í brekkunum.
Í einni örnefnalýsingu fyrir Nesjar segir m.a. um þennan stað: “Jórukleif heitir langt klettabelti, sem liggur frá suðvestri til norðausturs. Að norðan endar Jórukleif í Sigríðarkleif, sem er syðst í Heiðarbæjarlandi, skammt norður af Vatnsbrekkum. Gróinn stallur er í Jórukleif, um miðja kleifina, sem heitir Setberg, og undir því er Setbergsból. Þar var búið, var síðast einsetumaður. Þar sést fyrir tóftum og túnskækli, og munu þær minjar hafa verið friðlýstar fyrir mörgum árum. Tóftarbrot eru líka í
Vatnsbrekkum, og mun einnig hafa verið þar býli.” Hér er staðurinn nefndur “Setbergsból”.
Ljóst er að þarna er um að ræða verulega verðmætar fornminjar, sem ekki hefur verið gefið nægilega sanngjörn athygli.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Nesjar í Grafningi
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899, Rannsókn sögustaða í Grafningi í maímán. 1898. Eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 3-5.

Jórutindur

Jórutindur.