Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.

Jónsbúð

Gengið var frá Arnarfelli í Krýsuvík til austurs yfir Krýsuvíkurheiði. Farið var yfir gróið þýfi, stigið yfir Eystrilæk og ekki staðnæmst fyrir en við stóra tóft efst á heiðinni; Jónsvörðuhús eða Jónsbúð, eins og hún er stundum nefnd. Þá var haldið yfir að öðru húsi skammt sunnar, þar sem heiðin tekur að halla undan áleiðis niður að Krýsuvíkurbjargi. Það hús er hlaðið og er nokkuð heillegt.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Ætlunin var m.a. að skoða svæðið austan Arnarfells, en eins og kunnugt er staðnæmdust skreiðarlestirnar á leiðinni austur frá Grindavík við Arnarvatn suðaustan við fellið. Stóra tóftin efst á Krýsuvíkurheiði var fjárhús eða sauðakofi. Ekki er vitað hvernig nafnið á hana, Jónsbúð eða Jónsvörðuhús, er til komið. Elstu menn segjast hafa heyrt af því að þar hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum.

Skammt suðaustar, þegar fer að halla undan á heiðinni til suðurs er heillegt hlaðið skjól og auk þess og vandlega hlaðið hús þar skammt sunnar.

Krýsuvíkurheiði

Tóft í Krýsuvíkurheiði.

Dyr vísa til suðurs. Ekki er vitað til hvers það var notað. Þó er ekki óraunhæft að ætla að þar hafi Magnús, eða einhver annar á undan honum, haft afdrep. Líklegast er að þarna hafi verið afdrep manna. Stigið er ofan í það af þröskuldi og hefur gluggi verið á norðurstafni. Útsýni er þarna yfir neðanverða heiðina, Litlahraun þar sem fyrir eru allnokkrar minjar, s.s. fjárskjól, hústóft, rétt o.fl. og niður að Sundvörðunni á Krýsuvíkurbjargi.
Þarna gæti líka hafa verið útstöð Arnarfellsbónda hér áður fyrr eða hús hlaðið af refaskyttum, sem voru við veiðar ofan við bjargið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær um 1930.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði. En þó er ekki svo langt síðan að svæðið varð mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn gafst hann aldrei upp, heldur þraukaði þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður var nefndur Magnús Ólafsson.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

“Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið”, sagði hann eitt sinn í viðtali við Árna Óla, “en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var ég ánægður.”
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.
Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sá ekki á Magnúsi að hann hafði gugnað neitt við einveruna. Þó fór svo að lokum að einnig Magnús varð að yfirgefa sveitina. Síðan hefur sauðkindin ráðið þar ríkjum eða allt fram til þess. Nú er svo komið að einnig hún verður að víkja af svæðinu og verða færð í sérstakt beitahólf á og vestan við Núpshlíðarháls.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Krýsuvíkurheiði

Hús á Krýsuvíkurheiði.

Villingavatn

Þorgeir Magnússon, fæddur að Villingavatni 27. 3. 1896, og bjó þar frá 1925 til 1948. Þar bjó áður faðir hans, Magnús Magnússon, fæddur að Villingavatni 1. 6. 1858, frá 1887 til 1925. Þar áður Magnús Gíslason, fæddur að Villingavatni 21. 7. 1813 frá 1850 til l887. Þar áður Gísli Gíslason, fæddur á Þúfu í Ölfusi 9.10. 1774, frá 1804 til 1850.

Villingavatn

Þorgeir Magnússon. Myndin er tekin við  Krýsuvíkurkirkju.

Í örnefnalýsingu Þorgeirs af Villingavatni sem hann skráði árið 1970 getur hann um helstu örnefni og minjar á landareigninni. Þar segir m.a.:
„Að norðan: Þingvallavatn frá Sogskjafti (þar sem vatnið fellur í jarðgöngin hjá Steingrímsstöð) að Villingavatnsárós.
Að vestan: Villingavatnsá, frá því að gatan liggur yfir hana, fyrir neðan Tröllháls út í Laxárdal og eftir henni til ósa við Þingvallavatn. Þegar kemur út að Tröllhálsi eru mörkin eftir götunni sem farin er þegar farið er fram í Ölfus, í grjóthól í Votumýri og er það horn-mark, og einnig landamerki milli Ölfus- og Grafningshreppa.
Að sunnan: Bein stefna um Villingavatnsselfjall í Efjumýrarþúfu, sem er hornmark sem 6 jarðir liggja að, Villingavatn, Úlfljótsvatn, Hlíð, Stóriháls, í Grafningi, og Gljúfur og Sogn í Ölfusi. Þetta eru afar forn mörk.
Að austan: Þau mörk eru frá 1850, og eru milli Úlfljótsvatns og Villingavatns, og eru úr Efjumýrarþúfu um há Botnahnúk, Dagmálafjall, Úlfljótsvatnsselfjall, Náttmálahnúkur, vesturbrún Hlíðarkinnar um Gildruhól í Hagavíkurþúfu, í há Skinnhúfuberg og þaðan í stefnu á Kálfstinda niðrí Þingvallavatn, (rétt vestan við niðurfallið í Steingrímsstöð).

Villingavatn

Villingavatn um 1960.

Þegar jörðunum Úlfljótsvatni og Villingavatni var skift árið 1850, fékk Villingavatn veiðiítak í Úlfljótsvatni, frá Straumsnesi að Sauðatanga, og bátsuppsátur á Kænunefi. En það nef eyðilagðist þegar Ljósifoss var virkjaður og vatnsborð Úlfljótsvatns var hækkað.“
Í örnefnalýsingunni getur Þorgeir m.a. um Villingavatnssel í Seldal, Gamlasel í Gamla-selgili og Ingvaldarsel ofan Svartagils (í landi Úlfljótsvatns).

Villingavatn

Villingavatn – túnakort 1918.

Í fornleifaskráningu um „Fornleifar í Grafningi“ frá árinu 1998 segir m.a. um Villingavatn:

Villingavatn
20 hdr. 1706, c. 1500. Úlfljótsvatnskirkjujörð. Fyrst getið 1397, DI IV, 93. 13.6.1703 telja eigendur að jörðunni Úlfljótsvatni … sextíu hundruð að dýrleika, hvar með fylgir kirkjueignin Villingavatn, tuttugu hundruð að dýrleika, en hefur verið þessi kirkjueign sett fyrir xc til arfaskipta í fastaeign, hvað enn nú stendur sem fyrri. JÁM XIV, 62.

14.6.1703 telur Magnús Magnússon ’20c af Úlfljótsvatni, bóndaeign, heyra mér …. Kirkjujörð, …

Villingavatn

Villingavatn um 1960.

heitir Villingavatn, að dýrleika 10c að aftekturn. Tilheyrir mér hún hálf. Landskuld til mín, x aurar, gelst í landarum. Kirkjukúgildi 6, þar af eftir 3 betalast prestinum 6 fjórðungar smjörs eða í landaurum, peningum eður þvílíku.’ JÁM XIV, 63 nm.
„Allstór fjallajörð. Liggur móti norðaustri og á land frá Þingvallavatni og út í Ölfusmörk.“ SB III, 266, 1918: Tún 5,7 ha. Matjurtagarðar 695 m2. 1839: „heyskapur gnægur, útbeit og silungsveiði, hættujörð af graflækjum.“ SSÁ, 182. 1977: Tún 39,7 ha.

Villingavatn

Villingavatn – Hringatjarnir neðst og Villingavatn efst.

„Víða góð skjól og beitiland gott þar til mýið var drepið 1959. Þurrlend móajörð með melum á milli upp til fjallsins en mýrarsund nær bænum og kringum tjörnina. Valllendisblettir eru víða.“ SB III, 266. Flest túnjarðarinnar sléttuð með stórvirkum vinnuvélum um og eftir 1970.
Bæjarhóllinn var við heimreiðina þar sem hún beygir til norðurs, um 40 metra austur af núverandi íbúðarhúsi. Slétt tún, sléttað eftir 1970.

Skinnhúfuhellir

Villingavatn

Skinnhúfuhellir – einstigi.

Skinnhúfuhellir er austast í á Langapalli. Þangað var áður fyrr fært eftir mjóu einstigi í miðju berginu, en nú hefur brotnað úr því á kafla svo það má heita ófært á fæti. Í örnefnalýsingu Úlfljótsvatns stendur: Þjóðsagnir segja, að í Skinnhúfuhelli hafi búið tröllkona, Skinnhúfa að nafni, og karl hennar, sem Símon hét, hafi búið í öðrum helli, sem við hann er kenndur.

Símonarhellir
„Símonarhellir: Í berginu við vesturendann á Langapalli.“ segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Úlfljótsvatns stendur: Þjóðsagnir segja, að í Skinnhúfuhelli hafi búið tröllkona, Skinnhúfa að nafni, og karl hennar, sem Símon hét, hafi búið í öðrum helli, sem við hann er kenndur. Sá hellir er vestan í Skinnhúfubergi, en sá hellir er í Villingavatnslandi. Svo segir í örnefnalýsingu.

Villingavatn

Villingavatn – Símonarhellir.

Í sagnaþáttum og þjóðsögum sem Guðni Jónsson safnaði er sagt frá Símoni og Elínu skinnhúfu, sem hafi verið uppi skömmu eftir miðja 18.öld, bæði fátæklingar og hafi ætlað að leggjast út. Í Símonarhelli fannst þýfi sem Símon hafði stolið af húsbændum sínum á Villingavatni. „Annar hellir [en Skinnhúfuhellir] er vestan til í hlíðinni, hafður fyrir fjárhelli frá Villingavatni.“ Ekki skráð 1998. Í Símonarhellir er grjóthleðslur, en engar slíkar eru í Skinnhúfuhelli.

Fjárhellir – fjárskýli

Villingavatn

Villingavatn – fjárhellir (-skjól).

„Frá Símonarhelli útað fjárhellinum er kallaði í daglegu tali með Björgunum […]. Fjárhellir: Í daglegu tali nefndur Hellirinn. Tekur 120 fjár með heykumli“, segir í örnefnalýsingu. „Fjárhellir er við Þingvallavatn, notaður frá ómunatíð.“ Hellirinn er upp í bergið, um það bil 80 metra suður af bökkum Þingvallavatns, um 2 km norðaustur af bæ.
Frá hellinum niður að vatnsbakkanum er hallandi túnbali. Í hellisopinu eru trésperrur sem afmarka opið. Austan við það hefur verið hlaðið milli tveggja stórra bjarga og gæti það verið heykuml, er að mestu fallið ofan í tóftina en hún hefur verið 10×4 að utanmáli og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar.

Lambagarður

Villingavatn

Villingavatn – örnefni og minjar; ÓSÁ.

„Lambagarður: Hlaðinn varnargarður, frá vatni upp í berg“, segir í örnefnalýsingu. Um það bil 50 metra austur af fjárhellinum er hlaðinn garður út í Þingvallavatn, um 2 km norðaustur af bæ. Grýtt, brött og gróin hlíð frá bergi út í vatn. Garðurinn er 45 metra langur og 1 metra breiður og er hleðsluhæð mest 0,4 metrar en hleðslur eru nokkuð signar.

Tjörnin (Villingavatn)
„Lækurinn: Afrennsli úr Tjörninni, rann norður mýrarsund og engjar og útí Þingvallavatn. Í tíð Magnúsar Magnússonar [ábúandi 1887-1925] var grafinn skurður meðfram Helluholti, Gíslaþúfu og Stekkásmóa norður í Rás, þetta var gert til þess að ná vatninu til áveitu á engjarnar, og tókst vel, en eftir það var alltaf talað um gamla og nýja læk. Nú mun sú áveita vera aflögð.“ segir í örnefnalýsingu. Í mýrinni eru nú tveir vélgrafnir skurðir og einnig náttúrulegir farvegir eða handgrafnir skurðir. Sundurgrafinn þýfður mói.

Heykuml – tóft

Villingavatn

Villingavatn – heykuml á Einbúa.

Um 40-50 metra suðaustur af Einbúanum og 100 metra austur af Hringatjörnum er Einbúakumlið. Þýfður melur, blettur í annars uppblásinni urðinni. Heytóftin er vel heilleg, opnast til norðurs. Hún er alls 6×4 að utanmáli en 4×2 að innanmáli. Hleðslur eru enn vel greinilegar, alls 5 umför þar sem suðausturveggurinn er hæstur.

Stekkur (heimasel)

Skinnhúfuhellir

Skinnhúfuhellir.

„Stekkás: Nokkuð hár ás fyrir vestan engjarnar og norðan Hellholts.[…] Stekkurinn: Sunnan í Stekkásnum, síðasti stekkurinn sem notaður segir í örnefnalýsingu. Stekkjartóftin er um 50 metra norður af norður enda Tjarnarinnar (Villingavatns), um 100 metra vestur af Villingavatnsánni.
Stekkurinn er byggður utan í stóran jarðfastan stein á sléttur grónum bala í annars grýttri, blásinni og þýfðri brekku. 2 hólf eru greinileg, að norðaustanverðu hefur aðeins verið grafið inn í brekkuna og hlaðið undir og milli 2 steina. Hólfið er um 3 á breidd en bæði 2 og 4 var.“

Fjárborg (Borgin)

Villingavatn

Villingavatn – tóft ofan við Björgin, vestan vaðsins yfir Sogin. Sennilega birgðageymsla Skólholtsstaðar við Kjóaveginn.

„Borgin: Gömul fjárborg á Borgarholti.“ segir í örnefnalýsingu. Borgarholtið var á túninu sem nú er norðan og austan við tjörnina, þar sem nú er braggi. Borgin var sunnan við braggann. Slétt tún.

Gamli-garður
„Gamli garður: Garðlag liggur yfir Grenásinn vestanverðan frá Tjörninni suður í Úlfljótsvatn. Þetta hefur verið mjög mikið mannvirki, því það sem enn sést, er breitt um sig, og bendir til þess að garðurinn hafi verið breiður og mikill, engar sagnir eru tengdar við þennan garð svo vitað sé.“ segir í örnefnalýsingu. Vesturendi hans er nokkuð ofan við Gamlastekk, 017, og svo liggur garðurinn til norðvesturyfir ásinn og út í Úlfljótsvatn, við Fjárhöfða. Ásinn er gróinn í hlíðunum og blásinn og grýttur að ofan. Garðurinn er alls um 1,2 km langur og 1,3 á breidd en hleðsluhæð er mest 0,5. Nokkuð rof er í garðinn, og svo liggur vegaslóði í gegnum hann efst á ásnum. Garðurinn hefur sennilega verið nær 1,5 km í upphafi.

Gildruhóll

Villingavatn

Villingavatn – refagildra á Gildruhól.

„Gildruhóll: Grjót- og klapparhóll fyrir sunnan Grenás, í mörkum milli Villingavatns og Úlfljótsvatns.“ segir í örnefnalýsingu. „Hóllinn er á landamörkunum, girðing liggur við hann. Grjót og klapparhóll. Ekki er að sjá gildrutóft þarna og man heimildarmaður ekki eftir að svo hafi verið“.
Leifar gildrunnar má sjá syðst á Gildruhól.

Gamlastekkatún
„Gamlastekkatún: Grasbrekka fyrir ofan [Litlaflóðs-] mýrina, og sést móta fyrir stekknum.“ segir í örnefnalýsingu. Brekka þessi er austur af tjörninni (Villingavatni), og var stekkurinn sunnan við miðja tjörn á vatnsbakkanum. Mikið þýfi á austurbakka tjarnarinnar. Heimildarmaður telur enn sjást til stekkjarins, en skrásetjari gat ekki greint hann í stórþýfinu.

Stöðulhús

Villingavatn

Villingavatn – stöðulhús/Gamla réttin.

„Stöðulhús: Fyrir sunnan túnið, við veginn, þar sem réttin er. Gamla réttin.“ segir í örnefnalýsingu. Fyrir sunnan túnið, milli túnsins og Grjóthólsins. Réttin og húsið standa um 2 metrum suðaustan við heimreiðina um 6 metrum norðar en afleggjarinn af þjóðveginum heim að Villingavatni. Tóftin af húsinu er 2×6-7 að innamáli en 15xll að utanmáli og hleðsluhæð mest 0,5m, opnast til norðausturs. Hleðslugrjót greinilegt að innanverðu, oft sjást 3-4 umför. Réttin kemur til suðvesturs út úr tóftinni og beygir síðan til norðausturs og síðan til norðurs eftir heimreiðinni þangað til hún hverfur inn í hana. Gætu verið fleiri tóftir sunnan við réttina.

Stekkjarflatir

Villingavatn

Villingavatn – fjárborg efst í Gamla-selsgili.

„Stekkjarflatir: Stórar valllendisflatir, vegurinn liggur yfir þær austast, og ná þær alla leið út að Klifberagili að suðvestan og Hádegismóum að norðv.“ segir í örnefnalýsingu. Á Stekkjarflötum er nú tún suður af þjóðveginum, 360, austan við afleggjarann heim að Villingavatni. Sjást smá mishæðir í túninu en erfitt að geta sér til um hvar stekkurinnn var nákvæmlega.

Selnef
„Selnefið: Melnef sem nær útí ána, suðvestur af Keldumýri.“ segir í örnefnalýsingu. „Um 150 metra suðvestur af Grafarmýrinni er Selnefnið. Þýfður blautur mór. Heimildamaður man ekki eftir að hafa séð né heyrt um tóftir þarna.“
Villingavatnsáin kemur þarna niður úr Gamla-selgili. Gamlasel er ofarlega í gilinu.

Gamlasel

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

„Gamla Selgil: Gilið sem liggur eftir miðjum [Sel-] dalnum. […] Dagmálafjall: Fell fyrir austan Seldal, í mörkum. Eyktarmörk frá Gamlaseli sem var í Gamlaselgilinu suður undir Botnaflöt, eins og enn sér merki.“ segir í örnefnalýsingu. „Villingavatn átti sel í Seldal á vallendisflöt sem snýr móti suðri, rétt við götuna, sem liggur úr Seldal upp í Laxárdal. Skúti er í Seldal í gilinu sem kemur úr Laxárdal, og var hann notaður sem geymsla fyrir mjólkurmatinn. Sunnan við selið kemur lækur úr Litla-Laxárdal.“ segir í Sunnlenskum byggðum. Seltóftin er við gilið þar sem lækurinn úr Litla Laxárdal kemur niður, um 40 metra suðaustur af akveginum upp í Laxárdal. Þýfður vallendismói er milli selsins og götunnar.

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

Aðeins sést ein nokkur óglögg tóft, tvíhólfa. Hún opnast til suðurs og er hólfið sem opnast 2,5×1,5 að innanmáli. 2 metrum sunnan við opið mótar fyrir öðru hólfi en það er aðeins lxl að innanmáli. Að utanmáli er tóftin 7,5×4 m og eru hleðslur útflattar mest 0,2 á hæð.

Hlíðarskarð
„Hlíðarskarð: Þar sem gatan liggur út á Selflatir. – Hlíðarskarð heitir skarðið fyrir norðan Selflatimar.[…] Um Hlíðarskarð eru götuslóðar, sem nú eru fáfarnir, síðan vegurinn kom fyrir neðan Háfell og Skógarnef.“ segir í örnefnalýsingu. Greinilegur götuslóði, má sjá hann liggja í gegnum tóftina undir Náttmálahnjúknum.

Villingavatnssel

Villingavatn

Villingavatn – Villingavatnssel.

„Villingavatn átti sel í Seldal á vallendisflöt sem snýr móti suðri, rétt við götuna, sem liggur úr Seldal upp í Laxárdal. Skúti, 3×3 m, er í Seldal í gilinu sem kemur úr Laxárdal, og var hann notaður sem geymsla fyrir mjólkurmatinn. Sunnan við selið kemur lækur úr Litla-Laxárdal.“ segir í Sunnlenskum byggðum. Þýfður vallendismói er milli selsins og götunnar, vegurinn upp í Seldal liggur samhliða götunum.
„Innst í Seldalnum að vestanverðu, alveg við árbakkan eru 3 tóftin sem eru sennilega af seli á þýfðum vallendisbala. Allt svæðið er 12x12m og er hleðsluhæð mest 0,4m. Stærsta tóftin er nokkur greinileg, alls 3 hólf í henni. „

Heimildir:
-Fornleifar í Grafningi, Orri Vésteinsson & Sædís Gunnarsdóttir, Reykjavík 1998.
-Þorgeir Magnússon, örnefnalýsing fyrir Villingavatn 1970.

Villingavatn

Villingavatn – fjárhellir; áletrun.

Kapelluhraun

Gengið var frá íþróttahúsinu á Ásvöllum yfir að Rauðhól, síðan um Hellnahraunin yfir að Kapelluhrauni og hraunið skoðað milli iðnaðarsvæðisins og gasstöðvar Álversins. Þar er lægð í hrauninu, Leynir, sléttari en umhverfið og ef vel er að gáð má sjá þar mannvistarleifar á nokkrum stöðum.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Rauðhóll er, eða öllu heldur var, sunnan undir Hvaleyrarholti. Þar stóð áður lítill hóll, úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Líklega var hér um gervigíg að ræða en þeir myndast þegar hraun rennur yfir votlendi og það tekur í sig gufuna, tætist í sundur og verður að gjalli og rauðamöl. Á tímabili var tekið mikið af rauðamöl úr honum í vegi. Síðan var gryfjan notuð sem sorphaugar. Núna er lítið eða ekkert eftir af honum. Í stað hans er malargryfjan, en í miðjunni hefur verið skilinn eftir smá stabbi. Ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls. Bergið í hólleifunum var fremur fínkornótt með plagióklasdílum og örsmáir ólivíndílar komu fyrir en sáust varla með berum augum.

Rauðhóll

Rauðhóll við Hafnarfjörð – uppdráttur GK.

Varðandi aldur Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Rauðhóll hafði að geyma merkilegar jarðsöguheimildir. Dýpst í malargryfjunni var svokölluð barnamold sem var allt að ½ metri að þykkt. Moldin er mjúk, þjál og ljósgulbrún að lit meðan hún var vot, en varð stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef hún var sett undir smásjá kom í ljós að hún var næstum því eingöngu úr örsmáum kísilþörungaskeljum.

Rannsóknir hafa sýnt að þarna hafi verið tjörn áður en hóllinn varð til. Næst kom fínn sandur morandi af skeljum og skeljabrotum af sjódýrum. Skeljar finnast þarna vegna þess að hraunið sem gígurinn er í hefur runnið yfir setlög á strönd.

Rauðhóll

Rauðhóll í dag.

Á eftir skeljasandinum lá frekar þunnt lag af fínni brúnni sandhellu sem var miklu fastari í sér og þar voru engar skeljar að finna.
Þegar gengið er yfir nokkuð slétt Hellnahraunið er ljóst að þar er ekki einungis um eitt hraun að ræða.
Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Nýja Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.

Leynir

Skjól í Leyni.

Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sama tíma og sömu hrinu og á því 1000 ára afmæli einmitt þetta ár, en haldið verður upp á 1000 ára afmæli kristintökunnar núna í sumar.
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151. Hraunið er komið úr stuttri gígaröð er opnaðist undir Undirhlíðum. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja.

Kapella

Kapellan 2022.

Í hrauninu ofan við álverið er hlaðin rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu, en hún er í raun líka eftirlíking af hinni fornu kapellu, sem var eyðilögð þegar hraunið var fjarlægt á sínum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkölustaðir – meintur skáli.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Rauðhólssel

Gengið var frá Höskuldarvallavegi, til suðurs með gígum og yfir að Rauðhól, að Rauðhólsseli. Að því búnu var gengið um norðanverðan Þráinsskjöld að Þórustaðastíg og skoðuð ummerki í heiðinni norðan Keilis.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur.

Eins og svo víða á Reykjanesskaganum hafa sammsýnir menn dundað við að krafla utan af fallegum hraungígum og eldvörpum. Þannig hefur smám saman verið grafið utan af fallegum mosavöxnum hraunhól stutt sunnan við veginn upp að Höskuldarvöllum. Stígur liggur með austanverðum hólnum, áleiðis yfir að Rauðhól. Norðvestan við hólinn, undir hraunbakka Þráinsskjaldarhrauns, eru tóftir Rauðhólssels. Minni-Vatnsleysa hafði selstöðu undir Oddafelli, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Stóra-Vatnsleysa hafði hins vegar í seli undir Rauðhól þar sem heitir Rauðhólssel. Þar voru hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp með Rauðhól, ofan hraunskila, en nýrra hraun hefur runnið að því eldra að austanverðu. Stíg var fylgt áleiðis að Keili, en þegar komið var á Þórustaðastíg var honum fylgt áleiðis niður heiðina.
Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keili og Keilisbörn og færði Litla Keili næstum í kaf. Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.

Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Gengið var vestur fyrir Keili og skoðuð gömul gata, sem þar liggur á ská upp heiðina. Gatan liggur austur með sunnanverðu fjallinu, en þegar komið er vestar niður í heiðina virðist gatan hverfa í gróðureyðinguna.
Skammt norðar var Kolhóll sem og Stóri-Kolhóll. Gengið var að honum og síðan beygt var frá honum til norðurs og gengið yfir hraunið að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Hvalsneskirkja

Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um „Hafnir á Suðurnesjum„. Seinni hluti – útvarpaður 28. apríl 1973.

„…Og við göngum yfir túnið og í átt til sjávar að dálítilli húsaþyrpingu sem stendur fremst á sjávarklöppunum. Og hér eru rústirnar að hinu forna Kotvogi. Það er lítið eftir hér nema rústirnar, Kotvoguren allt ber þess vott að hér hafi verið stórbýli, fallegar hleðslur og grónar þekjur. Stærstu húsin, timburhúsin, sem hér voru, eru þó horfi. Einhverju sinni hefur nú verið búsældarlegra hér, séra Jón?“
„Já, það má nú segja. Ég vil byrja með því að tala um elsta Ketil, sem var hér óðalsbóndi í Kotvogi. Hann var fæddur 1793. Hann var giftur Herdísi Steingrímsdóttur frá Álftanesi. Með hann átti hann son, Ketil og Jón. Seinni kona Ketils hét Anna Jónsdóttir og var hann þriðji maður hennar. Fyrsti maður hennar var Hákon Vilhjálmsson, lögréttumaður. Annar maður hennar var Halldór Gunnarsson, hrepsstjóri og síðasti maður hennar var Ketill elsti. Ketill Jónsson var indæll maður, skemmtilegur maður, glaðsinna, útvegsbóndi eins og þeir voru allir. Hann auðgaðist, ekki síst eftir að hann giftist Önnu. Þá fóru þeir að vinna fyrir hann bæði Vilhjálmur Hákonarson, sem þá var stjúpsonur hans, og Ketill sem hann átti með fyrri konu sinni.

Hvalsneskirkja

Þetta voru báðir miklir menn og ágætir formenn. Hann dó 1869. Sonur, elsti Ketill, hét Ketill Ketilsson. Hann var fæddur 1823. Hann dó 1902. Þessi miðketill var ágætur formaður, mikill söngmaður og t.d. Finnur á Kjörseyri og fleiri nafnkunnir menn sögðu hann hefi haft fallegustu karlmannsrödd sem hann hafði heyrt. Þessi Ketill bjó fyrst á Hvalsnesi og byggði þar timburkirkju. Honum líkaði hún ekki og lét rífa hana. Þá byggði hann steinkirkju þá sem stendur þar enn og mun lengi standa. Hún er tákn um höfðingsskap hans og stórhug. Mér er sagt, ég veit það ekki, að hún hafi kosta 3000 ríksidali. Hann byggði hana að mestu leyti sjálfur. Reikninga hef ég hvergi séð um þessa kirkju.
JamestownÞað er sagt eftir Katli Ketilssyni, eftir að hann hafði byggt Hvalsneskirkju, hefði honum orðið allt til fjár. Hann var nær orðinn öreigi við byggingu kirkjunnar, en eftir það hafi honum orð allt til láns og allt til peninga sem hann snerti. Hann varð ákaflega ríkur maður. Kona hans hét Vilborg Eiríksdóttir frá Litlalandi í Ölfusi. Það er til rómatísk saga er hann fór austur til að ná í hana og biðja hennar. Hann kom að Litlalandi í útsinnings rudda og krapahryðjum og það var stúlka úti á engjum sem var að raka ljá. Hún var í skinnstakk. Það var köld tíð. Hann fór til hennar, heilsaði henni og spurði hvað hún héti. Hún sagðist heita Vilborg. Hann spurði hvort faðir hennar væri heima. Hann fór síðan heim á bæinn. Þar tók Eiríkur á Litlalandi á móti honum vel, bauð honum til stofu og veittar velgjörðir. Þar gengu um beina tvær dætur Eiríks, voru þá búnar að búa sig upp á.

Skinnstakkur

Sagan segir að Ketill hafi spurt Eirík hvort hann ætti ekki fleiri dætur. Þá eyddi Eiríkur því. Ketill bar upp bónorð sitt. Þá vildi gamli maðurinn halda eldri dætur sína fram, en Ketill vildi biðja sér Vilborgu. Hann fékk hennar. Vilborg þessi var lítil kona, fíngerð með hvítt hár, elskuleg. Bestu kökupartar sem ég fékk á æfinni fékk ég frá henni. Ketill gaf henni 200 ríksidali í morgungjöf. Það þótti nú dálaglegur skildingur á þeim tíma. Þá fluttist hann að Kotvogi og byggði upp þennan mikla bæ. Þá rak hér skip. Jamestown, hlaðið úrvalstimbri. Það fór frá Bostin og átti að fara til Liverpool, átti að byggja þar járnbræðslu. en það lenti nú hér í Ósunum í stað þess að fara til Liverpool. Úr því byggði Ketill m.a. bæ sinn hér í Kotvogi, úr úrvals rauðavið, kvistalausum.
Þá voru hér 16 hús, allt í allt. Hér var geysilegur fjöldi af vermönnum. Ketill gerði út á árunum 1870-1880 tvo teinæringa og Þangeinn áttærin. Það voru 19 manns á einum teinræðing og 14 manns á áttæringi. Þetta voru 50 sjómenn alls, fyrir utan heimilsfólk. Þau hjónin eignuðust 6 börn, Ketil, sem var elsti sonur þeirra, fæddur 1860. Hann var bóndi hér í Kotvogi. Hann tók við af föður sínum. Hann giftist föðursystir minni, Hildi Jónsdóttir prests í Stórholti Dalasýslu. Þau ólu mig upp. Ég er fóstursonur þeirra.
Hér var róið á vertíð. heyskapur var aldrei mikill, tvær kýr og á annað hundrað fjár – allt byggðist á sjósókn. Róið var allan ársins hring nema kannski á sumrin. Á haustin var skorið þang, áll og blaðka borið upp á tún og látið rigna og rifjað eins og hey og flutt heim. Skornir voru svona 300 hestar á hverju hausti.
Það var náttúrulega á haustin, þegar ekki var róið, allskonar veiðarfæri gerð; línur og svo netin bætt og lóðarásar og netaásar og steinaásar lagaðir.
HallgrímurSvo var lesið, aðallega Vídalínspostula. Svo var Hallgrímur, Passíusálmar, lesnir á föstunni og á kvöldvökum á vetur þegar ekki var róið var alltaf vanur maður látinn lesa Þjóðsögur Jóns Árnasonar, Njálu, Grettissögu og Eyrbyggju. Kristín Gísladóttir hét kona sem las Guðsorð og gerði það snilldarlega, en það voru alltaf karlmenn sem lásu sögur..
Þegar Ketill, fósturfaðir minn, tók við var þetta ósköp líkt.“
„Þetta virðist hafa verið fremur fast skorðað samfélag hér á tiltölulega þröngum bletti. Var engin stéttarmunur hér áberandi…?“
„Hér voru ríkismenn og hér var fátækt fólk, en það var svo einkennilegt að á þessum árum fór þetta ákaflega saman. Þetta var allt rólegt og gott og ég held að bæði fóstri menn og aðrir menn hafi hjálpað oft. Ef einhver gat leyst úr vandkvæðum þá var það gert. Mér fannst fólkið hér í Höfnum ákaflega gott fólk og friðsælt. Ef eitthvað kom upp þá hjaðnaði það yfirleitt niður fljótt.
Hérna kom Símon Dalaskáld. Það rann upp úr honum kveðskapurinn. Hann sagði t.d. við eina vinnukonuna: „Helst vildi ég nú lúra hjá þér í nótt og fá hlýju frá þér. Ég held að ég yrði miklu betra skáld á eftir.“ Það var ekki látið eftir honum. Vinnukonan varð ókvæða við og vildi ekkert með hann hafa.
HvalsnesSvo var Guðmundur [Gvendur] dúllari. Hann kom og dúllaði. Það var ákaflega einkennlega persóna. Hann kvað m.a. dúllaði þetta lag m.a.: „Margt er skrýtið í náttúrunnar ríki, eins og t.d. með spóann – að hann skuli geta lifað eins og manni sýnist hann nú hafa mjóar fætur“.
„Hvað er þetta dúll? Hvað var að dúlla?“.
Minnsmerki um Stjána bláa„Hann stakk fingrinum upp í vinstri hlustina og hristi hann svo, hristi hendina svona: „dú, dú, dú, dúddúddúúú.“ Hann dúllaði og seldi þetta, ég held að það hafi verið fyrir 5 aura fyrir lagið. Hann ferðaðist og hafði mikla ánægju af þessu.
Og svo var það versti förumaðurinn. Það var Guðmundur kíkir. Það var ekki gott með blessaðan karlinn því það fylgdi fötunum hans svo illur yndi. Hann kom hingað oft, sagði að tekið væri svo vel á móti sér, aumingja karlinn.
Ég man eftir að Stjáni blái kom hingað oft, settist hér í baðstofuna og fór að leika við okkur krakkana. Hann tók með tveimur fingrum annað hvort í kinnina eða hnén og þá æpti ég. „Það er ekki gott með meyjarholdin þegar þau eru svona mjúk“, sagði hann þá. Hann var grínisti og barngóður, en ef hann fékk sér í staupinu þá náttúrulega gat hann verið mjög harðskeyttur. Þá hljóp í hann svokallaður grunnstingull og hann var ekki við alþýðuskap. Ef hann þurfti að slást var hann bæði snarhendur, handviss, fljótur, bæði að gefa högg og tögl. Það var ekki fyrir neinn að eiga við hann því hann var bæði karlmannlega liðugur og handviss.“
Hafnir„Við göngum stéttina hér í Kotvogi og yfirgefum rústirnar, göngum hér yfir vel sprottið túnið. Hér erum við komnir upp á aðalgötun aftur, að litlu húsi. Þú kannt nú skil á þessu, séra Jón?“.
„Þetta eru Hólshús. Hér var einn grásbýlisbóndinn áður. Hann hét Gunnlaugur og konan hans hét Fríður.“
„Við höldum áfram spölkorn til suðurs eftir mjóum stígnum hér á grasi grónu túninu og komum að…“
„…Garðhúsum. Þegar ég var að alast upp hér var bóndi hér Magnús Gunnlaugsson og konan hét Guðný Þórðardóttir. Magnús þessi var lítil maður en þrekinn. Hann var ágætur sjómaður og formaður um langa tíð. Merkilegast fannst mér hvað hann var mikill listamaður við sláttinn. Það var hreinasta listaverk að sjá hann slá. Hann sagði að það væri einkamál og tilfinningamál að brýna ljáinn, fara þyrfti að fara með ljáinn eins og lifandi skepnu. Hann gat dansað ágætlega, en hann var eins og flestir menn hér, sívinnandi.“
Kotvogur„Þá erum við komnir á leiðarenda, við enda byggðarinnar. Hér eru fáeinar rústir og hús í kringum okkur og skulum við biðja Jón að segja okkur deili á þeim.“
„Hér rétt fyrir aftan okkur voru Ragnheiðarstaðir. Þar bjó Guðmundur Salómonsson og kona hans Sigurlaug Þórðardóttir. Hann var ákafalega mikið karlmenni og besti maður sem hægt var að fá í skipsrúm, hafði ákaflega mikla krafta, skyldi alla sjávarhætti. Hann var auk þess merkur maður af öðru, hann vart.d. einn besti skinnklæðasaumari í þátíð, þekkti þetta eins og fingurnar á sér. Hann var meðhjálpari í Kirkjuvogskirkju alla tíð meðan hans naut við. Mér er minnistætt hversu vel hann gat lesið bænina, bæði á undan og eftir messu. Stundum var það eftir jól að krakkar komu til hans í kirkjuna þegar hann var að taka til að hann gaf þeim kertastubbana.“
„Þá höfum við lokið göngunni um Hafnir og ekki annað eftir en að þakka fyrir sig og kveðja séra Jón Thorarensen, sem gengið hefur hér með okkur um götu bernsku sinnar.“
Sjá einnig fyrri hlutann.

Heimild:
-ruv.is – Jökull Jakobsson gengur með Sr. Jóni Thorarensen um Hafnir á Suðurnesjum. Seinni hluti frá 28. apríl 1973.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Grindavík

Eftirfarandi frásögn um „Grindavík“ birtist í Alþýðublaðinu 22. mars árið 1964:

„Sunnan á Reykjanesskaganum er Nestota, tvínefnd, heitir Hópsnes vestan megin og Þórkötlunes austan megin“.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind er þörf ábending því Hópsnesið nær að Svartakletti u.þ.b. 60 metrum vestan við vitann skv. örnefna- og landamerkjalýsingum á Þórkötlustaðarnesi, með stefnu í Sundhnúk. Þórkötlustaðanesið er skv. framangreindu allt austanvert Nesið með línu í öxl Húsafjalls ofan Hrauns. Höfuðstöðvar 4X4 eru t.d. nyrst á Þórkötlustaðanesi, í óskiptu landi Þórkötlustaðabænda.
Í Náttúrufræðingnum 1973 skrifar Jón Jónsson um sama efni: „Gígaröðin í Sundhnúkum gaus fyrir 2400 árum, en þá varð Þórkötlustaðanes til og Grindavík skapaðist.

Gjáhóll

Gjáhóll og Gjáhólsgjá.

Gígaröð þessi er um 8 km löng og á þeirri sprungugrein hefur áður gosið“. Athyglisverðasta náttúrumyndunin á Nesinu er Gjáin (Gjáhólsgjá). Búið er að fylla hana upp með sorpi Grindvíkinga norðan Gjáhóls. Í Gjánni við hólinn var bækistöð hersins á stríðsárunum. Sunnan hólsins er Gjáin, hin forna hrauntraöð, óröskuð. Hún endar við Vatnsgjána á landamerkum Þórkötlustaða og Hóps. Um Gjána liggur nú merktur slóði.
Bara svona til svolítils fróðleiks fyrir fáfróða.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.