Bessastaðir

Einar Laxness skrifar í  Sögu árið 1977 um „Konungsgarðinn á Bessastöðum„; „Plan og Prospect af Bessesteds kongsgaard“, árið 1720:
Bessastadir 1789„Bessastaðir á Álftanesi komust í eigu Noregskonungs á miðri 13. öld, þegar eignir Snorra Sturlusonar voru gerðar upptækar eftir dráp hans. Á miðri 14. öld mun staðurinn hafa orðið það, sem síðar var nefnt „konungsgarður“, þ. e. embættisaðsetur æðsta erlenda fulltrúa konungs á Íslandi, hirðstjóra, síðar höfuðsmanns, eða umboðsmanns hans, svonefnds fógeta. Íslenzkir menn, sem höfðu hirðstjóravöld, sátu á höfuðbólum sínum.
Eftir einveldistöku í Danmörku 1661 og erfðahyllingu í Kópavogi 1662 urðu breytingar í stjórnsýslu á Íslandi, sem komust í framkvæmd á árunum 1683—88. Þá var í stað höfuðsmanns skipaður landfógeti 1683 til að annast fjármál og verzlun og stiftamtmaður (stiftbefalingsmaður) 1684 til að annast æðstu stjórn Íslandsmála í umboði konungs. Þar sem embætti stiftamtmanns var í upphafi einungis tignarstaða, sem í var skipaður Ulrik Christian Gyldenlove, 5 ára gamall launsonur Kristjáns konungs V., var sérstakur fulltrúi hans, amtmaður, skipaður 1688 með búsetu á Íslandi og skyldi annast dómsmál og kirkjumál. Þessir tveir embættismenn, landfógeti og amtmaður, áttu báðir að hafa aðsetur í konungsgarði á Bessastöðum. Má því gera ráð fyrir, að þar hafi löngum verið veglegri húsakynni en annars staðar á landinu.
bessastadir 19. oldUm 1720 var svo komið, að konungsgarður var í mjög bágbornu ástandi. Það staðfestir sú lýsing, sem Peder Raben stiftamtmaður hefur komið á framfæri við konung í gegnum rentukammer í Kaupmannahöfn, en amtmaður var þá Niels Fuhrmann og landfógeti Cornelius Wulf. Í skjölum rentukammers frá þessum árum er að finna uppdrátt af Bessastöðum, — „plan og prospect af Bessesteds kongsgaard“, — sem sýnir glögglega húsaskipan á þessum tíma á staðnum. Í hinum dönsku skýringum við uppdráttinn eru öll uppistandandi íveruhús, svo og kirkja, sögð „brostfældig“, þ.e. hrörleg, svo að þau eru næsta ónothæf. Ennfremur er þarna að finna teikningu af nýrri byggingu, sem gerð er tillaga um að reisa. Þessar myndir, sem ekki hafa birzt áður, fylgja hér með, lesendum Sögu til fróðleiks um það, hvernig konungsgarður á Bessastöðum leit út á öndverðri 18. öld. Þær eru varðveittar á Þjóðskjalasafni.
bessastadir nuAfleiðing umkvartana stiftamtmanns um slæmt ástand húsa á Bessastöðum, leiddi einungis til þess, að reist var nýtt timburhús á árunum 1721—25 (fyrir rúmlega 1000 ríkisdali); um það bil tveimur áratugum síðar var ástand þess orðið svo slæmt, að þar fóru fram endurbætur (fyrir um 1500 rd.) 1748—52. Ekki voru þær endurbætur til frambúðar, því að 1760 var ákveðið að reisa nýtt hús úr steini fyrir amtmann einan, þar sem landfógeti (Skúli Magnússon) hafði fengið byggða Viðey og stjórnin látið reisa þar stórhýsi (1752—54). Þannig reis hin nýja Bessastaðastofa á árunum 1761—66, sem hýsti amtmann og frá 1770 stiftamtmann til 1805, þegar latínuskólinn var þangað fluttur, en stiftamtmaður hvarf til Reykjavíkur; þessi Bessastaðastofa stendur enn, nú sem forsetasetur.
Kirkjan á Bessastöðum, sem sést á uppdrættinum, mun reist um 1620 og hlaut gagngerðar endurbætur síðar á 17. öld. 1720 er henni lýst, eins og öðrum staðarhúsum, sem „brastfældig“. Samt stóð þessi kirkja uppi lengi enn, því að nýju steinkirkjunni, sem ákveðið var að reisa 1773, var ekki lokið fyrr en upp úr 1790, og í raun ekki fullgerð fyrr en um 1820. Er það sú kirkja, sem enn stendur.

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Skýringar á dönsku, sem fylgja uppdrætti af konungsgarði
á Bessastöðum 1720 (stafrétt):
A. Amptmandens Huus, som hand boer udi, er bögt af Tömmer og Deler, er Gammelt og megit bröstfeldig.
B. og C er tuende öde Pladser huor paa har Staaet huuse til forne Amptmanden tilhörte.
D. huus for Amptmandens Folk, Opbögt af Jord og Steen, mens formedelst dets Bröstfeldighed, bliver neppe halfdeelen nötted.
E. et huus huor udi har veret en mölle tilforne huuset er böggit af Steen og Jord, dog Saaledis forfaldet at det snart af ingen nottis.
F. Landfogdens huus huor udi hand Boer er bogit af Jord og Tömmer, er gammelt og megit bröstfeldig.

Bessastaðir

Bessastaður 1722.

G. Kaldis St. Nicolay Kierke er bogt af Tre og Deler, megit forfalden og bröstfaldig.
h. Indgangen till Kongsgaarden.
i. Dören paa Amptmandens huus.
k. Dören till Möllehuuset.
1. Dören till Amptmandens Folkes huus.
m. Dören till Landfogdens huus.
n. Denn Store kierke Dör.
o. Een liden dör paa Kierken.
p. Een liden opkastning af Jord, om kring Kierken, som giör Kirkegaarden.
q. Tuende—Jordhöyer, saaledis opkasted Jefnsides af huerandre, med en gang imellem dem lige for Kierke Dören.“

Heimild:
-Saga, 15. árg. 1977, Einar Laxnes, bls. 223-226.

Bessastaðir

Bessastaðir – kort 1770.

Gránuhellir

Gengið var um Brunatorfur (Brunntorfur/Brundtorfur) með það fyrir augum að koma við í nálægum seljum, Fornaseli og Gjáseli, og reyna að endurfinna Gránuhelli; fornt fjárskjól, sem getið er um í örnefnalýsingu.
GjaselFERLIR fann hellinn fyrir nokkrum árum, en týndi honum síðan aftur. Mjög erfitt er að staðsetja opið, einkum þegar allt er gróið að sumri til, en því auðveldara að vetrarlagi. Landslagið þarna er keimlíkt; mosa- og kjarrvaxnir hraunhólar og – hryggir. Hlaðinn gangur er framan við opið á hellinum og inni er rými fyrir u.þ.b. þrjátíu kindur. Birkihríslur eru við opið og þekja þær innganginn að hluta.
Síðan hefur verið farið tíu sinnum á vettvang með það að markmiði að reyna að staðsetja opið, en án árangurs.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a. um selin: „Suður og upp frá lautinni, sem fyrr var nefnd, er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir. Suðvestur héðan var Litlaholt og lá milli Straumssels og Hafurbjarnarholts, en um Hafurbjarnar-holtsvörðu lá landamerkjalínan…

Granuhellir-2

Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.“
Hér er augljóslega um nokkra misvíxlun að ræða. Í fyrsta lagi er nöfnum seljanna ruglað saman, nema hér sé um sannnefni að ræða og aðrar lýsingar séu rangar. Sannanlega lítur Gjáselið út fyrir að vera eldra en Fornasel af ummerkjum að dæma. Litlaholt er suðvestur af Gjáseli en ekki Fornaseli. Rústir kvía eru norðan undan núverandi Gjáseli, en slíkar eru sunnan við Fornasel. Ef tekið er mið af því að Gjásel hafi verið Fornasel ætti Gránuhellir suður og upp af selinu (Fornaseli skv. örnefnalýsingu). Ekki er loku fyrir það skotið að hellir kunni að leynast suður af Fornaseli og að Gránuhellir, sem fannst og leitað var að nú, kunni að vera gleymdur fjárhellir.

Gjasel-3

Ummerki við hann benda frekar til þess. Leitað hefur verið að meintum helli suður af Fornaseli, en hann ekki fundist (fram að þessu a.m.k. hvað sem síðar verður). Mjög erfitt er að finna skjólin í hrauninu vegna þess hversu smáholt eru mörg og sprungin og jarðföll víða.
Eftir u.þ.b. tveggja klst. leit sunnan og vestan við Gjásel, fannst „Gránuhellir“ loks vestnorðvestur af því. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af hlaðna ganginum niður í hellinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði.

Gránuskúti

Í Gránuhelli.

 

Garðar

Stefán Júlíusson skrifaði í Alþýðublaðið árið 1958 um „Garða á Álftanesi„:
„Fyrir nokkru var ég beðinn að tala á samkomu í, félagsheimilinu á Garðaholti, og var þess helzt óskað, að ég segði eitthvað frá Görðum á Álftanesi. Eg varð við þeim tilmælum og flutti þar óskrifaða og sundurlausa pistla um staðinn eftir prentuðum heimildum. Nú hef ég hripað inntakið í rabbi þessu Gardakirkja-21niður og birtist það hér. Aðeins vil ég taka það skýrt fram, að ég er enginn fræðimaður, og því ber ekki að líta á þetta sem ritgerð, heldur er hér á ferðinni leikmannsþáttur um merkan stað. —
Garðar á Álftanesi hafa löngum verið ein mesta jörð á Innnesjum, og í margar aldir þótti Garðaprestakall eitt af vildarbrauðum hér á landi. Vafalaust hefur það verið að miklu leyti vegna útræðis, en útræði hefur verið frá Görðum, Álftanesi og Hafnarfirði svo lengi sem sögur herma; Garðar, ásamt býlunum í kring, mynda heilt byggðarhverfi, sem ávallt er kallað Garðahverfi. Þessi býli eru öll gamlar hjáleigur frá Görðum, og hafa þau verið milli tíu og tuttugu. En ýmis önnur býli í Garðahreppi voru einnig eign Garðakirkju, enda lítur helzt út fyrir, að kirkjan hafi um eitt skeið átt mestan hluta hreppsins.
Garðar á Álftanesi eru ekki nefndir í Landnámu, en um landnám á þessum slóðum segir svo: „Ásbjörn hét maður Özurarson, bróðurson Ingólfs. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.“ Um Ásbjörn segir ekki meira í Landnámu, en minnzt er þar á, að einn afkomandi hans hafi búið á Seltjarnarnesi. Ekki er líklegt, að Ingólfur Arnarson hafi gefið svo nánum frænda sínum, sem Ásbjörn var, lélegt land, jafnvel þó hann hafi kosið að hafa hann nálægt sér. Þótt hraun hafi þá verið í upplandi Ásbjarnar eigi síður en nú, hefur „Álftanes allt“ verið hlunnindaland, ekki sízt fyrir sjósóknara. Og öll holtin beggja vegna Hafnarfjarðarhrauns og eins Garðaholt, hafa þá verið viði vaxin.
Gardakirkja - 22Það furðulega í þessum fræðum er, að Skúlastaðir fyrirfinnast hvergi í landnámi Ásbjarnar
Özurarsonar. Hefur þetta verið mönnum ráðgáta löngum, og ýmsum getum hefur verið að því leitt, hver hafi verið landnámsjörðin. Hafa ýmsir viljað halda Bessastöðum fram, en aðrir hallast að minni jörðum og ómerkari. Allt frá því ég fór að leiða hugann að þessum efnum, hefur mér þótt einsætt, að Garðar væru landnámsjörðin. Þetta var aðeins leikmannstilgáta, dregin af aðstæðum og landslagi, en aldrei hef ég getað sleppt þessari hugmynd, þótt ýmsir hafi statt og stöðugt haldið öðru fram. Sú gáta verður aftur á móti aldrei ráðin, hvernig Skúlastaðir háfa breytzt í Garða, ef hér er þá ekki um einskæra villu að ræða í Landnámu. Vera má einnig,að bærinn hafi verið nefndur svo um skeið, og þá einmitt á þeim tíma, er höfundur Landnámu þekkti til.
Eg átti margar ferðir hjá Görðum í uppvexti mínum á leið „fram á Álftanes“, en ég ólst upp í hrauninu nálægt miðju vegar milli Hafnarfjarðar og Garða. Aldrei taldi ég þá Garða vera á Álftanesi, því að innnesið var almennt talið byrja vestan Álamýrar og Selskarðs.
Hins vegar sá ég þetta í bókum og þótti skrýtið. En þótt vegur Bessastaða væri þá þegar orðinn meiri, en Garðar að setja ofan, fannst mér alltaf meira til Garða koma. Mér þótti sennilegt, að einmitt þar hefði frændi Ingólfs, landnámsmaðurinn Ásbjörn Özurarson, viljað búa, Staðurinn blasir við sól og firði, að baki bungumyndað holt, skógi vaxið á landnámstíð; víðsýnt er og fagurt heima á staðnum, sér inn til fjalla, út á flóann og „fram á nes“. Þetta var kjörið bæjarstæði landnámsmanns. Auk þess eru Garðar svo að segja í miðju landnámi Ásbjarnar, en Álftanesið hlýtur að hafa talizt byggilegasta skákin í því. Og nafngiftin, Garðar á Álftanesi, virtist einmitt benda til þess, að höfuðbólið ætti nesið allt.
Eitthvað á þessa lund voru æskuhugmyndir mínar um Garða sem landnámsjörðina, en nú hefur merkur fræðimaður í þessum efnum, Magnús Már Lárusson prófessor, í rauninni tekið af skarið. Hann segir svo í grein, sem hann reit í síðasta jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar: „Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar — „.
Fram til ársins 1891 var allt það land, sem nú er Bessastaða hreppur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, einn hreppur, og hét hann Álftnesheppur. Náði hann þannig yfir allt landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frá Hvassahrauni að Hraunsholtslæk, og þó heldur betur, því að enn eru býlin Vífilsstaðir, Hofsstaðir og Arnarnes í Garðahreppi. Hafa þessi býli vafalaust fallið undir Garðakirkju síðar. Þegar Álftaneshreppi var skipt árið 1891 í Garða- og Bessastaðahrepp, hef ur verið farið að líta á Bessastaðahrepp einan sem Álftanes, og þannig er það í rauninhi kallað nú, en hið forna Álftanes hefur verið milli Hafnarfjarðarbotns og Arnarvogs, eða vestan vegarins, þar sem hann liggur frá Hafnarfirði að Silfurtúni. Eins verður ekki fram hjá því gengið, að Bessastaðakirkja hefur jafnan verið útkirkja frá Görðum, en í Görðum hafa margir höfuðklerkar setið öld fram af öld.
Gardakirkja-23Hér verður ekki á nokkurn hátt leitazt við að rekja sögu Garða á Álftanesi. Samt langar mig til að stikla hér á stóru í persónusögu staðarins, þó aðeins eftir prentuðum heimildum, enda nægir það til að sýna, hvert höfuðból og merkiskirkju staður jörðin hefur verið frá öndverðu.
Garðar á Álftanesi munu aðeins vera nefndir í einni Íslendingasögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem gerist um miðja 10. öld. Þar er sagt, að Þormóður búi í Görðum á Álftanesi. „Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar frá Borg.“ Hrafnkatla mun yfirleitt talin skáldsaga, skrifuð á ofanverðri 13. öld, en samt verður það ljóst af þessu, að höfundi hefur fundizt sjálfsagt, að í Görðum byggju merkismenn, sem tengdir voru sjálfum Mýramönnum.
Í Sturlungu er Garða á Álftanesi að minnsta kosti tvívegis getið. Í Þórðar sögu kakala stendur svo: „Þenna vetur var Þórður Bjarnarson í Görðum með Einari Ormssyni, frænda sínum. Hann hafði verit með Órækju í Reykjaholti at drápa Klængs Bjarnarsonar. Ormr Bjarnarson reið við tólfta mann í Garða til Einars. Komu þeir þar síð um kveldit í þann tíma, er þeir Einarr ok Þórður ætluðu at ganga til baðs. Tóku þeir Ormr Þórð þar höndum. Leiddu þeir hann þá inn til stofu. Þórðr varð við alla vega sem bezt ok bauð fyrir sig allt þat, er honum sómdi. En þá er hann sá, at Ormr vildi ekki annat hafa en líf hans, þá beiddist hann prestfundar. Ok svá var gert. Eftir þat var hann leiddr í ytri stofuna. Lagðist Þórðr þá niðropinn ok bað þá hyggja at, hvárt honum blöskraði nökkut. Ormr fekk þá mann til at höggva hann. Sá hét Einarr munkr. Eftir þat reið Ormr heim austr á Breiðabólstað.“
Þessi atburður gerðist árið 1243. Af frásögninni má fá ýmsar upplýsingar um staðinn. Bóndinn, Einar Ormsson, er Svínfellingur að ætt, afkomandi Flosi Þórðarsonar, eða Brennu-Flosa. Voru þeir Svínfellingar mikils háttar menn, enda ein merkasta ætt á Sturlungaöld. Er því fullvíst, að Garðar hafa verið stórbýli, er svo ættgöfugur maður bjó þar. Þá kemur fram að kirkja er á staðnum, og þar er prestur. Ekki er líklegt, að kirkjan hafi verið nýreist, enda má gera ráð fyrir, að kirkja hafi mjög fljótlega verið reist á þessu forna höfuðbóli. Hins vegar er bóndinn ekki prestur, heldur hefur hann prest, en það var stórbændasiður á fyrstu öldum kristninnar á landi hér. Á öðrum stað í Sturlungu, Íslendingabók, stendur svo: „Gizurr jarl reið suðr á Kjalarnes ok gisti í Görðum á Álftanesi at Einars bónda Ormssonar. Var honum þar vel fagnat ok var þar nokkurar nætr.“
Þessi atburður gerðist árið 1264. Eru nú liðin tuttugu ár frá því, sem um getur í fyrri tilvitnunni, og enn er Einar Ormsson bóndi í Görðum. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, að hann hefur verið stórbóndi, því að varla hefur Gizur jarl gist nema á höfuðbólum. Ekki er þess getið, hvernig Einar fékk Garða til ábúðar, enda skiptir það ekki máli fyrir það efni, sem verið er að leitast við að draga hér fram: Garðar á Álftanesi voru; mikið höfuðból á Sturlungaöld.

gardakirkja-24

Vera má, að ætt Ásbjarnar landnámsmanns hafi skipt á Görðum og annarri jörð, t.d. á Seltjarnarnesi, nema Einar hafi verið kvæntur inn í ættina eða tengdur henni á annan hátt. Garða ef ekki mikið getið í prentuðum heimildum á næstu öldum, en þó koma þeir allmikið við sögu í deilumálum Staða-Árna biskups Þorlákssonar við leikmenn á ofanverðri 3. öld. Þessar deilur voru sem kunnugt er um það, hvort kirkjan skyldi eiga jörðina, þar sem, hún stóð, og aðrar jarðir, sem undir kirkjustaðinn lágu. Í Árna biskups sögu eru Garðar ávallt kallaðir Garðastaður, og eru þeir nefndir í sömu andrá og merkustu kirkjustaðir landsins á þeirri tíð. Settust leikmenn og klerkar á jörðina á víxl, eftir því hvorum veitti betur, Árna biskupi eða foringja leikmanna, Hrafni Oddssyni. Þessir atburðir hafa gerzt eftir daga Einars bónda Ormssonar. Gera má fastlega ráð fyrir því, að prestur hafi verið ábúandi í Görðum frá því staðamálum lauk fyrir 1300 til ársins 1928. En átökin um Garða síðast á 13. öld benda til þess, að kirkjan hafi þá þegar átt nokkurn hluta jarðarinnar og fleiri jarðir í kring. Og upp úr þessu tóku kennimenn að gerast héraðshöfðingjar og stórbændur.
Um siðaskiptin situr í Görðum sr. Einar Ólafsson, umboðs maður Skálholtsbiskups, þ.e. síðasta kaþólska biskupsins, Ögmundar Eálssonar, og hins fyrsta lúterska, Gizurar Einarssonar. Þá átti Skálholtskirkja orðið víða ítök, enda segir Magnús Már Lárusson prófessor í fyrrnefndri grein, að Skálholtskirkja hafi eignazt nokkrar minni jarðanna í Álftaneshreppi þegar um 1200. Einar Ólafsson var fyrst prestur í Nesi við Seltjörn, síðan í Laugarnesi, en fluttist þá að Görðum og var þar prestur í 21 ár, eða þar til hann gerðist ráðsmaður í Skálholti árið 1552. Það er eftirtakanlegt, að hann sækir að Görðum frá Nesi og Laugarnesi, en báðar þessar jarðir voru vildar setur fyrr á tímum.
Eftir siðaskipti sitja margir frægir klerkar Garðastað, og verða nú heimildir auðugri. Hér verður þó aðeins hlaupið á nokkrum staksteinum, ella yrði of langt að rekja. Fyrst skal getið tveggja nafnkunnra feðga, sr. Þorkels Arngrímssonar og Jóns biskups Vídalíns. Sr. Þorkell var sonur Arngríms lærða Jónssonar, sem einna frægastur var Íslendinga á sinni tíð, vegna vináttu við og embætti fyrir Guðbrand biskup Þorláksson og varnar- og kynnisrit hans á latínu um Ísland og Íslendinga. Var sr. Þorkell fyrsti lærði íslenzki læknirinn, en hann var prestur í Görðum frá 1658 til dauðadags 1677. Nam hann læknisfræði í Kaupmannahöfn og Noregi og e.t.v. víðar og fékkst nokkuð við lækningar. Um hann hefur Vilmundur landlæknir Jónsson skrifað merka bók, Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar, sem Háskóli Íslands mun hafa tekið gilda sem doktorsritgerð, en landlæknir hirti ekki að verja, Sr. Þorkell átti þrjá syni, sem allir voru miklir lærdóms- og merkismenn, og allir fæddir í Görðum.
Þeir gardakirkja-26voru: Þórður, sem fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði, síðar rektor í Skálholti, en mikið orð fór af lækningum hans, Jón biskup Vídalín og Arngrímur, rektor í Danmörk, sem dó ungur. Þeir foræður voru allir miklir gáfu- og atgervismenn og skáld góð, en ekki að sama skapi gæfumenn; voru þeir drykkfelldir nokkuð, og Þórður læknir þó mest, en svo var faðir þeirra einnig. Jón Vídalín var prestur í Görðum í þrjú ár, en var þó löngum aðstoðarmaður biskups í Skálholti, enda fór hann frá Görðum í Skálholt árið 1698. Í Ferðabók Sveins Pálssonar segir svo á einum stað (október 1791): „Eftir skamma dvöl á Bessastöðum fór ég að Görðum. Þar (þ.e í Görðum), á Bessastöðum, í Nesi hjá Birni lyfsala og í Reykjavík hjá Scheel fangaverði eru beztir matjurtagarðar og þessar slóðir. (Markús) prófastur Magnússon í Görðum hefur meira að segja fengið flestalla bændur í sóknum sínum til að gera kálgarða, og sjá þeir sér auðvitað hag í því. Hann er áreiðanlega beztur búhöldur hér sunnan lands — án þess þó, að embættisrekstur hans bíði nokkurt tjón við það. -Meðal annars hefur að hans ráðum verið gert hið fyrsta helluþak á Íslandi í hina nýreistu kirkju í Görðum, og eru hellurnar lagðar ofan á timbursúðina. Hyggjast menn að fylgja því dæmi hans við kirkjurnar á Bessastöðum og í Reykjavík, sem nú eru í smíðum.“
Enn segir í Ferðabók Sveins: „Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár. Óskandi væri, að sem flestir fylgdu dæmi þessa ágæta manns.“
Markús Magnússon var prestur og prófastur í Görðum frá 1780 til dauðadags árið 1825, vígður þangað aðstoðarprestur Guðlaugs prófasts Þorgeirssonar, sem var prestur í Görðum 1746—1781, og varð sr. Markús tengdasonur hans. Sr. Guðlaugur var hinn mesti merkismaður. klerkur góður og biskupsefni. Hann rak draugana af höndum Garðhverfinga og kom þeim í Stíflishóla, eins og frá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (bls. 264, I).
gardakirkja-27Sr. Markús Magnússon var hinn ágætasti maður, eins og Sveinn Pálsson segir, og lærður vel. Um hann segir Páll Eggert Ólason í íslenzkum æviskrám: „Hann var auðmaður, enda mjög hjálpsamur sóknarmönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðinn að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum. Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst of þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar í kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.
Alla 19. öld sitja höfuðklerkar í Görðum, fyrst sr. Markús til ársins 1825, þá Árni stiftprófastur Helgason 1825—1858, er hann lét af prestsskap, en bjó þó áfram í Görðum. Eftir hann varð prestur í Görðum sr., Helgi Hálfdánarson, sálmaskáld og síðar forstöðumaður prestaskólans. Hann var til ársins 1867, er sr. Þórarinn Böðvarsson kom að Görðum, en hann var þar prestur til dauðadags 1895.
Sr. Árni Helgason var hinn mesti lærdómsmaður, eins og alkunnugt er, kennari með afbrigðum, tvisvar biskup í forföllum og fékk biskupsnafnbót.
Um hann eru margar skemmtilegar sögur. Svo segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl sinni: „Eg gekk til prestsins að Görðum með hinum börnum af nesinu og var náttúrulega efstur. Faðir minn var gamall lærisveinn séra Árna, og voru þeir virkta-vinir, enda báru allir virðingu fyrir stiptprófastinum, og oft kom ég til hans. Séra Árni var einhver hinn tignarlegasti maður, sem ég hef séð, og mynd hans er mér ógleymanleg. Hann var alltaf jafnrólegur, aldrei daufur, hann var í því jafnvægi lífsins, sem mjög fáir ná; hann drakk stundum, en aldrei svo mikið að nokkuð yrði að fundið. Hann var einhver hinn fullkomnasti maður, sem hugsast getur, stór Og höfðinglegur. Stundum var hann meinyrtur og glettinn í orðum, einkum ef hann var lítið kenndur. Einhverju sinni komu þeir til hans Jón Þorleifsson og Steingrímur Thorsteinsson; þair voru þá í skóla og voru vinir. Þeir komu að Görðum um sunnudag, en ekki fyrr en messa var úti. Jón Þorleifsson fór þá að biðja prófastinn fyrirgefningar af að þeir kæmu svo seint. Þá sagði séra Árni: ,,Það er fyrirgefið, og þó þið hefðuð aldrei komið.“ — Séra Matthías Jochumsson kom þangað og fór að tala um þýzka heimspeki, en séra Árni mun ekki hafa þótt mikið til koma. Séra Matthías var þá prestur í Móum á Kjalarnesi. Eftir að hann hafði látið heimspekisdæluna ganga, þá þegir séra Árni um stund og segir loksins: „Fiskast mikið af hrokkelsum á Kjalarnesi núna?“ – „.
Helgi Hálfdánarson var prestur í Görðum, þar til hann gerðist kennari við prestaskólann 1867. Hann var þingmaður, meðan hann sat í Görðum og mikils virtur alla tíð, enda lærdóms- og gáfumaður.
Þórarinn Böðvarsson var um margt öndvegismaður, og ekki sízt eftir að hann hann kom að Görðum. Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu öll ár sín í Görðum nema tvö og mikill búsýslumaður.

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

Hina kunnu og velþegnu bók sína, Lestrarbók handa alþýðu, sem almennt var nefnd Alþýðubók sr. Þórarins, gaf hann út árið 1874, eða 6 árum eftir að hann kom að Görðum. Árið 1882 stofnaði hann gagnfræðaskólann í Flensborg til minningar um Böðvar son sinn, en nokkru áður hafði hann stofnað þar barnaskóla. Var Jón sonur prófasts, síðar fræðslumálastjóri, fyrsti skólastjóri í Flensborg. Þá er ótalið það framtak sr. Þórarins, sem mest snertir kirkjustaðinn í Görðum. Árið 1880 lét hann reisa í Görðum veglega steinkirkiu. Var hún úr höggnu grjóti úr Garðaholti og eftir nær áttatíu ár standa veggir ófallnir. Um það bil öld hafði nú liðið frá því, að Markús prófastur Magnússon byggði upp kirkjuna í Görðum, sem á sinni tíð þótti til fyrirmyndar,
eins og Sveinn Pálsson tekur fram. Kirkja sr. Þórarins er síðasta Garðakirkjan, og sjálfur ætlaði hann ekki í fyrstu að reisa hana þar. Á hans dögum var Hafarfjörður óðum að stækka, og þegar sr. Þórarni þótti nauðsynlegt að byggja nýja kirkju fyrir Garðasókn, fannst honum eðlilegt, að hún yrði byggð í Hafnarfirði. Þá voru íbúar Hafnarfjarðar um fjögur hundruð og Fjörðurinn að sjálfsögðu stæsta byggðin í sókninni. En Hafnfirðingar töldu sig ekki hafa bolmagn til að byggja kirkju, þótt sr. Þórarinn byði þeim fjárhagslega aðstoð, og því var kirkjan enn reist í Görðum. Hafnfirðingar höfðu alla tíð átt kirkjusókn að Görðum, en það er um þriggja og hálfs kílómetra leið. Að vísu var fyrr á öldum kirkja á Hvaleyri, annexía frá Görðum, en hún mun aðeins hafa verið fyrir Hvaleyrartorfuna, en þar var fjölbýlt áður. Þessi kirkja var lítil og lengst af hálfkirkja, þ.e. messað þar aðeins örsjaldan á ári. Hér má og geta þess, að á 16. öld var þýzk kirkja í Hafnarfirði, en hún var ekki fyrir Íslendinga, heldur þýzka kaupmenn og starfsfólk þeirra.
Hafnfirðingar reistu þjóðkirkju sína árið 1914, og er hún arftaki hinnar fornfrægu Garðakirkju, enda brauðið enn kallað Garðaprestakall. Gripir úr kirkjunni í Görðum voru þá fluttir í Hafnarfjarðarkirkju. Samt voru enn unnin ýmis prestsverk í Garðakirkju lengi: eftir þetta, allt fram yfir 1930, en mest yoru það greftranir. En nokkru síðar féll kirkjan og var rifin, svo að eftir standa naktir steinveggirnir. Nú hefur Kvenfélag Garðahrepps tekið sér fyrir hendur að endurreisa kirkjuna í Görðum. Eru framkvæmdir þegar hafnar. Verður ekki annað sagt en þetta sé hið mesta myndarframtak. Endurreist Garðakirkja væru verðugur varði um forna frægð staðarins.
Tveir prestar sátu í Görðuni, eftir sr. Þórarin Böðvarsson, báðir hinir merkustu menn, sr. Jens Pálsson 1896—1912 og sr. Árni Björnsson frá 1913 til 1928, er hann fluttist til Hafnarfjarðar.
— En hann hafði fengið leyfi safnaðarins til að sitja áfram. í Görðum, þótt kirkjan væri flutt til Hafnarfjarðar. Báðir voru þessir Garðaprestar prófastar í Kjalarnesprófastsdæmi, eins og flestir fyrirrennarar þeirra höfðu verið, Eftir að sr. Árni var flutt ur til Hafnarfjarðar, fékk Guðmundur Björnsson ábúð á jörðinni, og er hann enn bóndi í Görðum.
gardakirkja-28Eins og ég gat um í upphafi, hefur sjósókn frá Görðum, úr Hafnarfirði og af Álftanesi vafa laust rennt sterkustum stoðum undir mikilleik staðarins.
Magnús Már Lárusson prófessor telur í áðurnefndri grein, að ekki hafi verið fluttur fiskur út af þessum slóðum, að minnsta kosti ekki að ráði, heldur hafi hann mest farið á innlendan markað, og þá aðallega austur í sveitir. En hverfin kringum Garða, á Hvaleyri og Álftanesi, og seinna í Hafnarfirði, hafa myndazt vegna sjósóknar og landbúnaðar jöfnum höndum. Fólk hefur verið nægjusamt og rólegt á þessum slóðum, og sama ættin búið öld fram af öld á sömu torfu. Þannig voru mínir ættfeður í móðurætt leiguliðar og fiskimenn Garðakirkju svo langt aftur, sem rakið verður. Bjuggu þeir á ýmsum kotum í Garðahverfi, og hefur sá elzti, sem um getur í heimildum, verið landseti þeirra feðga Þorkels Arngrímssonar og Jóns Vídalíns á 17. öld. Mætti vel vera, að ættin hafi verið á torfunni frá landnámstíð. En þótt sjávarfang væri drjúgur þáttur í auðlegð Garða fyrr meir, var búskapur þar þó jafnan mikill, enda er töluvert undirlendi í Garðahverfi. Og í Görðum er getið um akuryrkju fram yfir aldamótin 1400. Land hefur minnkað fyrir neðan Garða, sjór brotið bakkana og eytt. Þannig eru tvö býlin, þar sem forfeður mínir bjuggu, Bakki og Sjávargata, horfin úr sögunni vegna sjávargangs. Einnig hefur sjórinn brotið mikið land milli Garðahverfis og þess hluta nessins, sem nú er í daglegu tali kallað Álftanes. Ekki er heldur vafi á því, að hin víðlendu holt hafa blásið upp.
Hér lýkur þessum pistlum mínum um hinn forna Garðastað, og geta þeir vart kallazt annað og meira en haldahófslegar hremsur, eins konar reytingur af reyfinu um þá jörð, sem ég hef frá barnæsku talið vera hið forna höfuðból Ásbjarnar Özurarsonar. Þótt Garðar sjálfir megi nú muna sinn fífil fegri, eru þó í fornu landi þeirra aðsetur forseta lýðveldisins, Bessastaðir á aðra hönd, en þriðji stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður, á hina.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, bls. 6-8.

Garðar

Garðar.

Hafnir

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði örnefnalýsingu fyrir Hafnahrepp. Hann var fæddur 12/8 1899 í Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu, og flytur að Merkinesi í Höfnum 1934. Heimildarmenn Vilhjálms Hinriks voru Guðmundur sál. Jósefsson, Staðarhóli, hreppstjóri og manna kunnugastur meðfram Ósum; Magnús Gunnlaugsson, Garðhúsum; Þorsteinn Árnason, Kirkjuvogi; allir látnir; og Ólafur Ketilsson, Kalmanstjörn, einnig látinn.

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson

Vilhjálmur Hinrik Ívarsson í Merkinesi.

Hér verður fjallað um ströndina utan við Hafnir frá Eyjatanga að mörkum Merkiness. Auk þess verður fjallað um húsin í höfnum skv. örnefnalýsingu Hinriks Ívarssonar frá árinu 1978.

„Glöggt má sjá elju manna og tilraunir að hefta landbrot sjávarins, því víða má sjá grjóthleðslur fyrir vikum, en en allt hefur komið fyrir ekki.
Þá kemur breið vík, sem takmarkast af löngum sand- og malartanga og heitir hann Eyjartangi. Svo sem 150 metra frá landi liggur eyja frá austri til vesturs með gróðri. Eyju þessa áttu allir grasbýlismenn í Kirkjuvogshverfi. Þar var talsvert æðarvarp, sem var nytjað. (Eftir að minkurinn flæddi yfir, hefur þetta horfið að mestu.) Milli lands og eyjar þessarar liggur áll, sem fær er smærri skipum inn á Ósana um flóð, en sæta verður föllum, því strangur straumur verður þarna með fullu út- eða innfalli. Eyjan ber ekkert sérheiti – nema ef vera kynni Varpey. (Þannig nefnir Jón Víðis hana á mælingakorti af Ósum 1918.) Yzt á Eyjartanga er sundmerki Kirkjuvogssunds, hátt tré með rauðum þríhyrning. Vestan Eyjartanga er nokkuð breitt bogadregið vik, Stóra-Bót. Vestan hennar gengur löng klöpp þvert út í ósinn. Hún heitir Innri-Langaklöpp. Gegnt henni norðan við ósinn er skerjaklasi, sem fer í kaf um flóð. Er það kallað einu nafni Veggir, (líka Eggjar).

Hafnir

Á Hafnavegi 1952.

Þá tekur við mjótt vik, Svartaklettsbót, en vestan hennar er stór, nokkuð há sprungin klöpp, sem er umflotin um flóð. Hún heitir Svartaklöpp sumir Svartiklettur. Lítið vestar gengur löng, lág klöpp til norðvesturs. Hún heitir Ytri-Langaklöpp. Eftir þessari klöpp liggur hafnargarður öflugur með skjólvegg á vestari brún (allt sleipt), en beygir svo í horn til norðausturs. Móti enda þeirrar álmu garðsins er einstakt, kúpulagað sker, sem fer í kaf með hálfföllnu að. Á skeri þessu er stöng með rauðu varúðarmerki. Frá garðinum að skeri þessu munu vera um 100 metrar (nánar síðar). Vestan hafnargarðsins er talsvert sandvik nafnlaust, en afmarkast af löngum klapparana að vestan, sem heitir Þvottaklettar, og er þá komið að Kirkjuvogsvör. Þaðan hafa gengið opin skip til fiskveiða frá aldaöðli, en er nú með öllu lögð niður, eftir að aðstaða batnaði við hafnargerðina.

Örnefni með ströndinni frá Kirkjuvogsvör að hreppsmarki í Valahnjúksmöl á Reykjanesi

Hafnir

Hafnir – loftmynd 1954.

Þvert fyrir Kirkjuvogsvör liggur hátt sker, umflotið í stórstraumsflóði og fer þá í kaf. Það liggur frá norðaustri til suðvesturs og heitir Kirkjusker. Norður úr því gengur annað sker miklu lægra og heitir Flatasker. Suðvestan við Kotvog skagar stór, nokkuð há klöpp, Háaklöpp, og þar norður af Kotvogsklettar. Þá tekur við sjávarkambur, kallaður Garðhúsmöl. Þar, skammt sunnar, skagar rani fram í sjóinn, sem heitir Snoppa, og dálítið sunnar önnur klöpp, heitir hún Trollaraklöpp. Nafngift þessi gerist eftir síðustu aldamót (líklega 1912-14; vantar nákvæma heimild). Einn morgun, er fólk kom á fætur, sá það ljós fyrir neðan túnið í Réttarhúsum, og er að var gáð, stóð þar togari með öllum ljósum, stóð þar á réttum kili um háflóð. Sjór var frekar kyrr, en dimmviðri. Með útfallinu gengu skipsmenn þurrum fótum í land.
Skömmu síðar gerði mikið hafrót, og brotnaði skipið niður, en sumt var rifið. Skip þetta hét Grænland og var þýzkt – fyrsta ferð þess til veiða.

Hafnir

Frá Höfnum – Kotvogur t.v. og Kirkjuvogur t.h.

Þá tekur við lítið malarvik, sem heitir Bás. Næsta örnefni er Haugsendamöl, dálítið breitt malarvik niður undan Haugsendakampi. Svo sem 200 metrum frá ströndinni til suðvesturs er aflangt, nokkuð hátt sker frá austri til vesturs. Það heitir Markasker. Það er landamerki milli Kirkjuvogsjarða og Merkiness.

Merkines

Merkines (Steinunn Marteinsdóttir).

Aðeins suðvestar skagar langur, mjór klapparani til vesturs, ca. 600 m langur, með smáskorum yfir þvert og fer lækkandi allt í sjó fram. Þessi tangi heitir Hlein.
Skömmu eftir síðustu aldamót, 1908, vildi til það hörmulega slys, að togari strandaði í svartabyl að kvöldlagi rétt norðan nefndrar hleinar, en veður var í uppgangi á suðvestan. Um björgun var ekki að ræða, hvorki frá sjó né landi, og fórust þar allir menn. Þegar sá, er þetta ritar, kom fyrst í Hafnir, 1924, sást enn ofan á ketil skipsins um stórstraumsfjöru, og fram á þennan dag ber við, að kolamolar finnast í fjörunni. Sunnan við Hlein er lítið sandvik, Hleinarvik. Dálítið sunnar er vik inn í klappirnar. Það heitir Mönguhola. Munnmæli segja, að einsetukona hafi verið í Merkinesi (samanber síðar Möngusel), sem hélt kindum sínum þar til fjörubeitar.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir

Frá Höfnum.

Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri. Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri. Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

KalmannstjörnFrá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar. Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.
Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á. Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).
Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu. Verður næsta hús Höfn, þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll).
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét Búðabakki. Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.

Hafnir

Kirkjuvogur og Kotvogur 1873.

Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.

Hafnarétt

Hafnarétt.

Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.
Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús. Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Nú eru þrjú hús ótalin á vinstri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð. Lítið eitt fjær veginum Nýlenda og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.

Hafnir

Hafnir – Kotvogur.

Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson. Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus. Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir jafnaðar út.
Þar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið. Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“

Heimild:
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir – Merkinesi í Höfnum,17/4 1978, Vilhjálmur Hinrik Ívarsson.

Hafnir

Kirkjuvogskirkja 1970.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Nokkrir þekktir móbergstindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur.

Á SveifluhálsiMóberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnir jöklarnir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ.
Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Á SveifluhálsiSurtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.

Í Eimreiðinni árið 1900 birtist grein eftir Þorvald Thoroddsen um móberg á Íslandi. Hér kemur úrdráttur úr greininni er tekur einkum mið af jarðfræði Reykjanesskagans:
Á Sveifluhálsi„Í síðasta hefti Eimreiðarinnar hefir herra cand. mag. Helgi Pétursson skrifað grein, sem hann kallar »Nýjungar í jarðfræði Íslands«, og er aðalefni ritgjörðarinnar hugleiðingar um myndun móbergsins á Íslandi. Með því að grein þessi er stutt og höf. hefir farið nokkuð fljótt yfir sögu, leyfi ég mér að rita nokkur orð til skýringar. Þó get ég ekki, í alþýðlegu tímariti, skrifað eins ýtarlega um þetta mál, eins og þarf, ef það á að skýrast fullkomlega frá öllum hliðum.
Eins og flestum mun kunnugt, nær móberg og þussaberg yfir afarmikið svæði á Íslandi og tekur yfir alt miðbik landsins, að sunnan frá Faxaflóa austur fyrir Öræfasveit, að norðan frá Fnjóskadal austur í Þistilfjörð. Móbergið myndar þannig belti yfir landið þvert; það er mjög mismunandi að gerð og afarþykt, nokkur þúsund fet Á Sveifluhálsisumstaðar. Allir aðrir hlutar landsins eru aðallega myndaðir úr blágrýti (basalti) í þykkum hamrabeltum, sem bezt sjást í dalafjöllum og við sjóinn. Þessi blágrýtislög hallast víðast inn á við, inn undir móbergsbeltið. Í blágrýtis-héruðunum eru víða smáblettir af móbergi, og sumstaðar eru allþykk móbergs- og þussabergslög milli blágrýtislaga, og það sumstaðar djúpt í fjöllum, svo mörg hundruð feta blágrýtisberg liggur ofan á móberginu. Þó eru þessi móbergs-millilög tiltölulega lítil í samanburði við móbergið um miðbik landsins; þar eru aftur blágrýtislög innan um, en þeirra gætir minna, af því móbergið er þar í meirihluta. Af þessu sést, að móbergið er myndað á ýmsum tímum, þó miðbeltið sé auðsjáanlega yngra en hinar stóru blágrýtismyndanir.
Á SveifluhálsiÞetta er líka eðlilegt. Ísland er því nær alt myndað af eldgosum; blágrýtið er gamalt hraun, móbergið eldfjallaaska og gjall og sérhvert eldgos framleiðir hvorttveggja; bráðið hraungrjót rennur úr gígunum og mulið grjót kastast í loft upp, dettur niður og myndar móbergslög. Við öll eldfjöll um víða veröld eru hraun og móbergslög á víxl, en það er mismunandi og komið undir atvikum af hverju er meira á hverjum stað. Í Utah og víðar sunnan og vestan til í Bandarikjum eru 2000 feta þykkar móbergsmyndanir, er ná yfir afarstórt svæði, og móbergs- og hraunlög sjást um alla jörðina, þar sem eldgos hafa orðið, sum ný, sum frá ýmsum tímabilum jarðsögunnar.

Á Sveifluhálsi

Móberg kalla Íslendingar berg það, sem í útlöndum heitir »tuff«, en þussaberg það, sem menn annarsstaðar kalla »breccia«. Í móberginu eru yfirleitt sömu steinefni eins og í blágrýtinu, smámulin og orðin að dusti, en gleraðir og eldbrunnir hraunmolar innan um, stundum vikur, gjall og steinkúlur (bombur), alt þetta rusl loðir saman og er orðið að linu eða hörðu bergi; stundum er móbergið lagskift, stundum er engin skifting sjáanleg. Í hinu íslenzka móbergi eru óteljandi korn af gulleitu eða mórauðu steingleri, sem kallað er »palagonit< og af svörtu gleri (tachylyt); oft er þetta alt bráðið saman við öskuna og gjallið, og alt orðið einn eldbrunninn sori. Þussabergið er samsett af sömu efnum eins og móbergið, en í því eru stórir hraunsteinar á víð og dreif, hornóttir og ólögulegir. Í móberginu eru mjög víða uppskotnir gangar, hraunæðar með ótal greinum, sem hafa brotist gegnum bergið og kvíslast innan um það; í því eru enn fremur blágrýtislög, hnúðar og kleppar með skásettum og hringsettum (koncentriskum) súlum með bráðnu steingleri utan á; sumstaðar er svo mikið af þessu í móberginu, að blágrýtið verður aðalefnið, en móbergið að eins þunt tengiefni, svo sem t. d. í Botnsssúlum, og þar er ísnúið dólerít ofan á, og eins er í mörgum öðrum fjöllum um alt móbergssvæðið. Móbergið ber svo augljóslega með sér, að það er myndað af eldi, að ég gat ekki hugsað mér, að það dyldist nokkrum manni, sem skoðað hefir eitthvert móbergsfell. Ég varð því alveg hissa er ég sá, að höf. byrjar ritgjörð sína með því sannanalaust að fullyrða, að móbergið á Íslandi sé að miklu leyti fornar jökulurðir. Annað mál er það, að vel getur verið, að jökulurðir séu milli Á Sveifluhálsimóbergslaga og hraunlaga; á það munum vér síðar minnast. Um miðbik Íslands, í móbergshéruðunum, eru víðáttumikil grágrýtishraun (dólerít) af svipaðri gerð eins og grjótið í holtunum kringum Reykjavík, þau eru rispuð og ísnúin og auðséð, að jöklar hafa gengið yfir þau; hraun þessi hafa flest hagað sér eftir landslagi því, sem nú er, og runnið sumstaðar ofan dali (t. d. Flókadal), niður af Mosfellsheiði, kringum fellin í Mosfellssveit og í sjó fram, niður hlíðar og skörð á Reykjanesfjallgarði og Snæfellsnesfjallgarði. Það liggur í augum uppi, að þessi miklu hraun hafa ekki runnið öll í einu, heldur en aðrar nýrri hraunbreiður, enda sést það víða, að breytingar hafa orðið á landslagi frá því fyrstu dóleríthraunin runnu, en litlar eftir að hin síðustu mynduðust; það er t. d. algengt að dóleríthamrar eru í efstu brúnum þverbrattra fjalla, en ekkert dóleríthraun fyrir neðan, og hlýtur því mikið að hafa breytst síðan þau hraun mynduðust. Þetta sést á mörgum ritgjörðum mínum og jarðfræðisuppdráttum.
H. P. virðist ætla, að ég haldi öll dóleríthraun jafngömul, en slíkt hefir mér aldrei dottið í hug. Eftir að hin eldri dóleríthraun runnu hafa allvíða myndast ofan á þeim þykk móbergslög, t. d. við Laxárdal hjá Mývatni, við Kálfstinda og víðar; en langoftast liggja þó dóleríthraunin ofan á móberginu.
í móberginu eru hér og hvar hnullungalög (Conglomerat) með vatns- eða jökulnúnu grjóti, leir og sandi; þó þau séu víða allþykk, eru þau þó þunn og hverfandi í samanburði við móbergið alt. Slík hnullungalög hefi ég fundið kringum Suðurlandsundirlendið, við Mýrar, á Snæfellsnesi, á Vestfjörðum og víðar.

Á Sveifluhálsi

Móbergsmyndanirnar íslenzku eru mjög margbrotnar og eflaust myndaðar á ýmsan hátt og á ýmsum tímum, og vita jarðffæðingar enn nauðalítið um það, hvernig þær eru til orðnar; til þess þarf enn langar og miklar rannsóknir og samvinnu milli jarðffæðinga af ýmsu tægi; til þess þarf eldfjallafróða menn, jökulfróða og bergfræðinga; að rannsaka þetta alt til hlítar er einskis eins manns meðfæri. Þó er móbergið aðeins einn lítill liður í jarðfræði Íslands.
Á ferðum mínum varð ég að fást við margbrotin störf, kanna öræfi, landslag og fjallahæðir, undirbúa jarðfræðisuppdrætti, rannsaka jökla, eldfjöll, hraun og hveri, blágrýti, líparít, móberg, surtarbrand, sævarmenjar o. m. fl., til þess að fá yfirlit yfir þetta alt saman og búa svo í haginn fyrir eftirkomendurna. Rannsókn jarðlagaskipunar í hinum einstöku fjöllum tekur mikinn tíma, og gat
ég því miklu sjaldnar, en ég vildi, fengist við slíkt; þetta verður að bíða betri tíma og vona ég, að aðrir taki fyrir sig að kanna einstök svæði og einstaka liði í jarðfræði Íslands, eins og H. P. nú er byrjaður á, þar sem hann sérstaklega hefir lagt fyrir sig rannsókn jökulurða og ísmenja. Á þann hátt getum vér á endanum fengið fullkomna þekkingu um myndun og byggingu vors víðáttumikla og hrjóstruga föðurlands. Athuganir mínar um móbergið og aðrar jarðmyndanir Íslands hefi ég skrásett í ýmsum ritgjörðum, en sjaldan dregið ályktanir af þeim, nema þegar þær hafa verið mjög margar af sama tægi, því annars áleit ég, að þær hefðu ekki nægilegt sönnunarafl, fyr en fleiri bættust við.

Á Sveifluhálsi

Hér er ekki rúm til þess að geta um ýms málefni, er snerta jarðfræði móbergsins; en svo mikið er víst, að aldur ýmsra móbergslaga er mismunandi og að það er til orðið á öllum tímabilum, frá   því   snemma á hinum »tertíera« tíma fram á vora daga; en varla er enn byrjað að greiða sundur hinar einstöku deildir. Sumstaðar hefir eflaust myndast móberg og hraun milli ísalda. Það væri undarlegt, ef eldfjöll þá hefðu hætt að gjósa, og eins meðan jökull lá yfir öllu eða mestöllu landi, og hefir aska sú blandast saman við frammokstur jöklanna. I öðrum löndum hafa menn fundið rök fyrir nokkrum ístímabilum með tiltölulega hlýju loftslagi á milli, og svo hefir eflaust líka verið á Íslandi, enda hefir enginn efast um það.

Í framangreindri grein Helga Péturssonar „Nýjungar í jarðfræði Íslands“ í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.: „Helzta nýjungin er skjótt aö segja sú, að móbergið á Íslandi er að nokkru leyti, eða ef til vill að miklu leyti, fornar jökulurðir, nú orðnar að einum  steini  og  talsvert umbreyttar á ýmsan hátt. Oss hefur kent verið um móbergið, að það hafi í upphafi verið eldfjallaaska, en innanum ýmislega lagaðir basaltmolar og hraunmolar«. Að því er mér skilst, hafa þó verið miklir erfiðleikar á að skýra nánar, hvernig sumt móberg hafi farið að myndast við gos. En ýms einkenni þessara móbergstegunda, sem erfiðleikana gera, verða auðskilin, þegar það er séð, að þetta grjót er í raun réttri undan jöklum, og má rekja þetta ýtarlega, þó að ekki verði það hér gert.

Á Sveifluhálsi

Frá tveim hliðum má skoða þetta mál. Að öðru leytinu sjáum vér, að bergtegund ein er alls annars eðlis, en talið hefur verið, og skal lítið farið út í það hér. En um hitt ætla ég að fara nokkrum orðum, hvers vér getum orðið vísari af þessari bergtegund, þegar hún er rétt þýdd.
Vitringur einn hefur komist svo að orði, að atburðirnir semji sína eigin sögu um leið og þeir verða, og á það ekki sízt heima í sögu jarðarinnar; hraunin segja frá eldgosum, einkennilega skafið og rispað grjót frá skriðjöklum o. s. frv. Hlutverk jarðfræðinganna er nú bæði að taka sem bezt eftir, hvernig jörðin fer að skrásetja sögu sína, og eins að finna og þýða rétt þau skjöl og skilríki, sem til eru.
Þar sem er móbergsmyndanin íslenzka, má nú svo að orði komast, að vér höfum auðugt skjalasafn, er lýtur að ýmsum atburðum í jarðsögu landsins, ekki ómerkum. En lykilinn að þessu safni hefur vantað, og þar af leiðandi hlýtur því yfirliti yfir jarðfræði íslands, sem fengist hefur enn sem komið er, að vera talsvert áfátt, ámóta og vera mundi þekkingu vorri á sögu þjóðarinnar, ef sagnfræðingarnir hefðu ekki haft neina vitneskju um Sturlungaöldina t. a. m. Nú er þessi lykill fundinn, og þó að lítið sé að gert um rannsóknir á þessu skjalasafni enn, þá er samt svo mikið séð, að stórum verðum vér að breyta skoðunum vorum á íarðfræði lands vors, og að ísland er ólíkt öllum öðrum löndum — að því er ég bezt veit —, hvað ísaldarmenjarnar snertir.

Á Sveifluhálsi

Enginn þeirra jarðfræðinga, sem ferðast hafa á Íslandi, minnist á, að hann hafi séð ísnúna steina í móberginu; en í tölu þessara manna hafa þó verið nafnkendir ísaldarfræðingar eins og t.a.m. dr. K. Keilhack frá Berlín. En Keilhack virðist hafa komist lengst í áttina að þessari uppgötvun, eins og nú skal greina. Keilhack fann fyrstur eitthvað af þessu hnullungabergi 1883 og getur þess, að sér hafi þótt það mjög sviplíkt íslenzkum jökulurðum. Ekki leyfir hann sér þó að ætla, að þetta séu jökulurðir mjög fornar, heldur álítur hann, að hnullungaberg þetta sé árgrjót frá tertieröldinni. Dr. Thóroddsen rannsakar þessi svæði 10 árum seinna en Keilhack, og ber þeim á milli um aldur þessara laga:
»Þessi jarðmyndun hefir myndast af rennandi vatni og er ekki ólíklegt, að hér á landi, sem í öðrum löndum, hafi úrkoma verið mjög mikil rétt á undan ísöldinni; af því varð vatnsrennsli miklu meira en áður og þá hafa hnullungalög þessi orðið til«. (Thóroddsen: s. st).
Ég hef ekki séð þetta hnullungaberg og þori því ekki að segja neitt með vissu um, hvað það muni vera; en síðan í sumar eð var, er ég fann ísnúna steina í móberginu, hefur mér dottið í hug, að eitthvað muni búa undir þeirri líkingu, er Keilhack sýndist vera milli þessa hnullungabergs og jökulurða, og að því muni ef till vill vera ísnúnir steinar. En ef svo væri, og hefði Keilhack komið auga á þessa steina, væri líklega margt óskráð af því, sem nú má lesa um jarðfræði íslands, eða á annan veg ritað.
Á SveifluhálsiÍ einu af síðustu ritum þess manns, sem vér eigum fyrst og fremst að þakka það, sem vér vitum um jarðfræði Íslands, stendur, að hann — og þá auðvitað heldur ekki aðrir — »hafi hvergi fundið jökulurðir eða ísrákaðar klappir undir ísnúnu hraununum«.
(Thóroddsen: Explorations in Iceland during the years 1881 — 98. From »The Geographical Journal« for March and May 1899, bls. 23).
Ég nefni þetta atriði vegna þess, að á því byggir dr. Thóroddsen mikilsvarðandi ályktanir í jarðfræði landsins. »Hraun þessi, sem runnið hafa rétt fyrir ísöld, sýna bezt, að aðallögun yfirborðsins hefur þá verið svipuð eins og nú, og flestir dalir myndaðir áður en ísöldin gekk yfir«. (Thóroddsen: Jarðskjálftar o. s. frv., bls. 13). Og á líkum ástæðum byggjast þessi orð: »Seint á »tertiera« tímabilinu er líklegt, að Suðurlandsundirlendið hafi myndast« (s. st, bls. 21).
Á SveifluhálsiÞað er enginn efi á því, að grjótið í fjöllunum, sem að Suðurlands-undirlendinu liggja, brotunum úr hálendinu, er forðum náði frá Reykjanessfjallgarði austur undir Eyjafjöll (Thóroddsen), er eldra heldur en undirlendið sjálft. Nú er það eins víst og að hraun hafa runnið úr Heklu, að ýms af þessum fjöllum eru að nokkru leyti bygð upp af hörðnuðum jökulurðum. Má nefna Hellisheiði, Hagafjall og Búrfell. Með öðrum orðum: Suðurlandsundirlendið, langstærsta dældin á landi voru, er ekki eldra en ísöldin.
En undirlendið er heldur ekki yngra en ísöldiu; hraun, sem hafa runnið ofan á það, eru fáguð og rispuð af jöklum. Hraun þessi geta ekki hafa runnið meðan land alt var undir ís, og verður þá niðurstaðan sú, að Suðurlandsundirlendið sé til orðið milli »ísalda«.
Á SveifluhálsiSíðan dóleríthraunin runnu hafa ekki orðið stórvægilegar breytingar á landslagi (Thóroddsen), en þareð landið hefur stórum breyzt eftir þá ísöld, sem fór á undan dólerítgosunum, liggur sú ályktun beint við, að sá tími, sem landið var >íslaust«, — en var alhulið jöklum áður og síðan, — hafi verið miklu lengri en sá tími, sem liðinn er frá því, að jöklarnir hurfu af Suðurlandsundirlendinu síðast.
Er þetta mjög vægt í farið. Því að nokkrar, eða jafnvel miklar, líkur eru til, að fyrir þetta »millijöklatímabil« hafi landið bæði verið stærra, en það er nú, og landslag mjög ólíkt. Þar sem svo er til orða tekið, að landið hafi verið »íslaust«, þá verður að geta þess, að engin sönnun er fengin fyrir því, að að alls ekki hafi verið jöklar til á Íslandi á þessu tímabili; en öll líkindi eru til, að miklu minna hafi verið um jökla, en nú er á landinu.
Þetta byggist á því, að ísnúin Norlingahálsdóleríthraun liggja sumstaðar inn undir Vatnajökul, að því er dr. Thóroddsen segir; en þessi ísnúnu hraun, sem, eins og rannsóknir Thóroddsens hafa sýnt, taka yfir svo stór svæði á landinu, eru ekki runnin fyrir ísöld, heldur milli »ísalda«, eins og áður er að vikið.
Það er alkunnugt jarðfræðingum, að Suðurlandsundirlendið hefur verið í sjó, um það er jökullinn (þ. e. síðasti jökullinn) var að hverfa og síðar. En hitt hafa menn ekki haft neina vitneskju um, að sjór hefur gengið upp á undirlendið áður en þessi síðasti jökull kom yfir.
Hingað til hafa náttúrufræðingar, eins og við er að búast, einkum veitt eftirtekt eldfjallamyndunum lands vors. Vonandi er að upp frá þessu snúi menn sér ekki síður að ísaldamenjunum, sem landið er að nokkru leyti hlaðið úr, og er það nú þegar séð, að slík athugun muni geta kent oss ýmislegt merkilegt um myndunarsögu Íslands — og líklega stærri svæða.“

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-Eimreiðin, Þorvaldur Thoroddsen, 3. tbl. 01.09.1900, bls. 161-169.
-Eimreiðin, Helgi Pétursson, 2. tbl. 01.01.1900, bls. 52-60.

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

Reykjanes

Í Alþýðublaðinu árið 1926 er fjallað um vegi og vegagerð á Reykjanesi:
„Umhverfis Reykjanessvita eru, eins og mörgum er kunnugt, mestmegnis hraun og sandar. Reykjanesvegir-221Götutroðningarnir þangað úr Grindavík og Höfnum hafa og lengi lélegir verið. Nú hefir Ólafi Sveinssyni vitaverði tekist að fá 500 kr. af fjallvegafé til að ryðja veg til Grindavíkur, og hafa orðið ótrúlega mikil not af þeim krónum í höndum hans. Hann hefir í sumar gert akfæran veg eftir sandinum austur á móts við vík þá, er Mölvík heitir. Var þar áður talin hálfnuð leið að Stað í Grindavík, en ruddi kaflinn er nú allmiklu styttri, því að hann er ólíku beinni en gamla gatan og liggur miklu lengra frá sjó. Því er honum og óhætt fyrir sjávarágangi, þar sem sjór flæðir í hafróti á köflum yfir gömlu götuna. Þó hefir ólafur enn eigi notað nema 300 kr., en býst við að koma brautinni nokkuð austur í Grindavíkurhraunið fyrir þær 200 kr., sem eftir eru, — austur fyrir svo nefnda Hróabása. Er ólíkt að ferðast ríðandi eftir rudda kaflanum eða hinum, sem óruddur er, ellegar gömlu götunni- vestur frá Mölvík, svo sem þeir, er ferðast þar um, geta komist að raun um.
Reykjanesvegir-222Þeir, sem fara út á Reykjanes nú næstu daga Grindavíkurleiðina, ættu að skygnast eftir brautinni þegar aðalhrauninu lýkur. Hún er lengra upp til heiðarinnar en gamla gatan, en blasir við í nokkrum fjarska. Er hestum fært þangað upp eftir frá Mölvíkinni, ef gætni er við höfð, þó að ógreitt sé, eins og víða á þeim slóðum, og ekki verra en sums staðar eftir gömlu götunni. Ólafur býst við, að geta gert veg að Stað í Grindavík, svo að fær sé bifreiðum, fyrir 2 þúsund krónur, þ. e. 1500 kr. í viðbót við þá fjárveitingu, sem þegar er fengin. Væri það mikið hagræði ferðamönnum, sem fara til Reykjaness, og þeir eru talsvert margir, að komast alla leiðina í bifreið í stað þess að verða að ganga langa leið eða fá hesta og ferðast á þeim eftir ógreiðum hrauntroðningi.

Reykjanesvegur

Vagnvegurinn millum Reykjaness og Grindavíkur forðum.

Sá hlutinn, sem nær er Grindavík, er næstum óslitið hraun, og því er seinlegra og erfiðara að ryðja þar braut en eftir sandinum, þó að miklu grjóti hafi orðið að ryðja þar burtu; en Ólafur Sveinsson hefir sýnt, að honum er trúandi bæði fyrir verkinu og peningunum. Alt of seinlegt er að draga vegarbótina í fjögur ár, með einna 500 kr. fjárveitingu á ári. Þær 1500 kr., sem eftir eru, þurfa að fást að vori, svo að brautin verði fær alla leiðina haustið 1927. Það eitt er hagkvæmt í þessu máli. —

Reykjanes

Reykjanesvegur áleiðis að Kerlingabás.

Enn fremur hefir Ólafur Sveinsson gert akfæra braut frá vitavarðarhúsinu út að svo nefndum Kerlingarbási, sem er nálægt sjávarklettinum Karli —, og niður í básinn, og lagað þar svo til við sjóinn, að þar má lenda báti. Hygst hann að nota básinn fyrir vör. Annar lendingarstaður, sem áður hefir verið lagður vegur að, — á Kistu —, er miklu lengra burtu, og einnig hagar svo til, að Ól. Sv. býst við, að oft megi lenda á öðrum þeim stað, þótt ófært sé á hinum.“

Heimild:
-Alþýðublaðið 20. ágúst 1926, bls. 2.

Reykjanesvegir

Gamli-Reykjanesvegurinn til Grindavík; loftmynd 1954.

Garðahverfi

Í skýrslu Þjóðminjasafnsins árið 2004 um fornleifaskráningu í Garðahverfi 2003 má m.a. lesa eftirfarandi um Bakka:
„Bakki er talinn meðal jarða í eigu Garðakirkju í máldögum frá 1397 og 1477, hann er nefndur í Jarðaskrá kirkjunnar 1565, þá byggður Jóni Jónssyni og í Gíslamáldaga 1570. Þegar Jarðabók var gerð 1703 var þetta lögbýli í kirkjueign, ábúandi Jón Pétursson með fimm í heimili en Guðlaugur Grímsson hreppstjóri hefur eftir Manntalinu að dæma tekið við af honum sama ár, heimilismenn sjö talsins. Þá er einnig tilgreindur Þorsteinn Pétursson, húsmaður um þrítugt með konu og lítið barn.  Í Manntali 1801 bjó á Bakka Einar Bjarnason ásamt konu sinni Rannveigu Sigmundsdóttur, 14 ára syni, Guðmundi, og 10 ára fóstursyni, Jóni. Hjá fjölskyldunni voru vinnukonan Guðrún og Bergsveinn Gardahverfi - fornleifar Vnokkur sem var vanfær og að hluta á framfærslu hreppsins en lifði þó einnig á eigin handverki. Sjálfstætt bjuggu jarðnæðislausu hjónin, Bjarni Einarsson húsmaður og fiskari, trúlega sonur óndans, og Ingibjörg Narfadóttir. Þegar Manntal var tekið fimmtán árum síðar voru þessar fjölskyldur á brott en Guðmundur Einarsson orðinn vefari og vinnumaður hjá nýjum hreppstjóra á Hausastöðum. Á Bakka voru komin hjónin Árni Ketilsson og  Kristjana Ólafsdóttir, áður þjónustufólk hjá prests-hjónunum í Görðum. Auk þess að vera sjálfstæður bóndi var Árni nú orðinn meðhjálpari séra Markúsar í Görðum. Þau Kristjana áttu þrjár dætur og einn son á aldrinum 1-18 ára og höfðu inn vinnumann, Gísla Jónsson sem áður var á Hausastöðum. Auk þess sáu þau fyrir Sigríði Magnúsdóttur, 62 ára niðursetningi og voru alls átta í heimili.  Enn höfðu orðið ábúendaskipti árið 1845 en þá var þar Brandur Jakobsson grasbóndi ásamt þremur börnum sínum, vinnukonu og vinnumanni, niðursetningi og gamalli konu, Hallfríði Ófeigsdóttur sem var „sjálfrar sinnar“. Annar var Jón Höskuldsson úr Pálshúsum, lóðs og fiskari sem e.t.v. hefur verið búsettur í ónefndri þurrabúð við Bakkabryggju. Í Jarðatali tveimur árum síðar var ábúandi aðeins einn og jörðin áfram kirkjueign,  hún er nefnd í Jarðabók 1861  og í Fasteignabókum, enn undir kirkjunni 1932.  1942-44 var hins vegar ekki lengur búið á jörðinni  og í dag liggur hún undir Pálshús.
Bakki-221Til forna og fram um 1565 fylgdi Bakka Garðamýri og var landskuld þá fjórar vættir fiska og vallarsláttur, leigukúgildi tvö og mannslán um vertíð auk annarra kvaða sem héldust áfram. Séra Þorkell Arngrímsson lagði hins vegar mýrina til Garðastaðar, lækkaði landskuldina og tók burt annað kúgildið og mannslánið. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld 80 álnir og galst með þremur fiskavættum og vallarslætti. Jón Pétursson bóndi lagði við til húsabótar með styrk séra Ólafs Péturssonar sem einnig uppyngdi hið eina kúgildi jarðarinnar. Fyrir það fékk presturinn smjör eða fisk en hálfar leigur féllu niður þar eð verkamenn voru í fæði á Bakka. Jón átti í kvikfénaði fjórar kýr, jafnmargar ær, tvevetra sauð og sjö veturgamla, þrjú lömb, tíu gimbrar, hest og tvö hross. Jörðin fóðraði þrjár kýr og hefur fóður m.a. verið sótt í Bakkavik, smástararblett sem skv. Örnefnalýsingu frá 1976-7 er „fast vestan við Bakkahrygg […]“, en hann  liggur að Garðamýri. Kvaðir voru dagsláttur, hríshestur sóttur í skóg kirkjunnar eða almenning og hestlán nýtt til að færa heim eldivið og til ferða innansveitar einn eða tvo daga. Heimræði var allt árið, lending í Bakkavör og inntökuskip þegar vel fiskaðist.

Bakki-222

Túnakort 1918.

Sölvafjara hafði eyðilagst vegna ísa og fjárbeitar en fjörugrös mátti tína að gagni og hrognkelsafjara var nokkur. Skv. Örnefnaskrá frá 1964 voru „hrognkelsaveiðar miklar“ í svonefndum Bakkaþara. Jörðin hafði móskurð í Dysjamýri en brenndi einnig þöngla til eldis. Árið 1847 var dýrleiki hennar enn óviss, landskuld 60 álnir og kúgildi eitt en 1861 taldist hún 10,6 ný hundruð. 1932 var hún metin á 35 hundruð kr. en þá hafði kúgildum fjölgað í þrjú, sauðir voru 20 og hrossið eitt. Úr 1100 m² görðum fengust 12 tunnur matjurta og hlunnindi voru áfram hin sömu. Jörðin var nytjuð frá kaupstaðnum og hey af henni flutt þangað. Tíu árum síðar var fasteignamatið 47 hundruð kr.
Bakkatún lá undir skemmdum vegna sjávarágangs en var 2 ha þegar kom fram á 20. öld. Bærinn var margfluttur undan sjó gegnum aldirnar og eru rústir þess sem síðast stóð nú að hverfa. Bakkafjörur og Bakkakambur hét neðan túnsins en norðan megin var Garðamýri og þar fyrir handan Garðar. Að vestan eru Pálshús og næst sjónum Dysjar.
Bakki-223Á Túnakorti árið 1918 má sjá tvær byggingar í bæjarstæðinu á Bakka alveg niður við sjó og er sú stærri líklega bærinn. Í Örnefnaskrá 1964 er nefndur Bakkahryggur „er lá eftir vesturtúni Pálshúsa […] heiman frá bæ allt niður undir Bakka […] Bærinn stóð á Bakka og hafði verið marg oft færður undan sjó og eru nú rústir hans að falla niður í fjöruna.“ Bakkatún heitir „tún býlisins, sem sjór brýtur stöðugt til skemmda“. Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Niður af íbúðarhúsinu í Pálshúsum er u.þ.b 200 m langur hryggur niður að sjó. Hann heitir Bakkahryggur. Neðst á honum stóð bærinn á Bakka. Sjórinn brýtur nú stöðugt landið þarna, og er bakkinn niður í fjöruna víða ein til tvær mannhæðir. Bakki er löngu kominn í eyði og liggur undir Pálshúsum. Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er.“ Skv. fornleifaskráningu 1984 var Bakki „frammi á sjávarbakkanum í vestur frá Pálshúsum […] heimatúnið að baki (til austurs) sjávarbakkinn beint fram af“.
Túnakortið sýnir þrjú aflöng og samföst torfhús, miðhúsið minna en hin. Þau eru með standþili og snúa í norðvestur. Þessi hús stóðu skv. Fasteignabók enn árið 1932 (bls. 23) en þau eru ekki lengur sýnileg. Þarna er hins vegar tóft hlöðu sem byggð var ofan í þar sem bærinn stóð, um 8,5 x 7 m að utanmáli, þvermál að innan 3,5. Hún er með grjóthlöðnum hringlaga veggjum, göflum og bárujárnsþaki og virðist ögn niðurgrafin.
bakki-224Í Örnefnalýsingu 1976-7 segir: „Fjárhús og hlaða frá Pálshúsum eru nú á Bakka. Gamli bærinn á Bakka stóð fast vestan við, þar sem hlaðan er. Bretar byggðu þar tvö loftvarnarbyrgi á stríðsárunum, og eru þau nú að fara í sjó.“ Í Fornleifaskráningu 1984 segir að jarðhús hafi verið byggt ofan í eitt þessara byrgja „en þau voru mörg hér frammi á bakkanum, með skotgröfum á milli. Sumt er brotið af ofan í flæðarmál, annað á leiðinni þangað. Mikið brýtur hér af landi að sögn heimamanna í Pálshúsum.
Um Bakkastekk segir m.a.: Í Örnefnaskrá 1964 segir: „Norður frá Bala er hraunsnef lítið“, Mónef. „Nokkru norðar þar sem Garðavegurinn liggur út af hrauninu, er“ Hvítaflöt, „vel gróin þúfnakargi. […] Nokkru norðar með hraunbrúninni gengur enn hraunsnef fram í mýrina“, Oddsnef eða Hraunsnef. „Norðar tekur við hraunsnef stærst af þessum hraunsnefjum“, Bakkastekksnef, „Þar austan við var stekkur frá Bakka, sér enn.“
bakki-225Í Örnefnalýsingu 1976 segir að Mónef gangi fram í Dysjamýri, en Hvítaflöt sé gróið hraunnef á vinstri hönd, þar sem vegurinn til Hafnarfjarðar  liggur upp á“ Garðahraun. „Næsta nef þar fyrir ofan er Oddsnef. (Ath.: G.S. segir, að Oddsnef hafi stundum verið kallað Hraunsnef, en ekki kannast Guðmann [Magnússon á Dysjum] við það nafn). Þar sem hraunið skerst lengst út í Dysjamýri, fyrir innan Oddsnef, heitir Bakkastekksnef. Norðaustan í því eru tóftir af Bakkastekk.“ Skv. Fornleifaskráningu 1984 er Bakkastekkur í skjólgóðum bolla sem opnast til norðurs „í hraunjaðrinum sunnan við austurenda nýræktar í Dysjamýri“. Hann er hringlaga, gerður úr þurri grjóthleðslu. Veggjaþykkt er um 1-1,1 m og er veggurinn vestan megin í hraunbrúninni. Þvermál að innan er um 5,6 en þvert á 5,3. Um 1,4-1,5 m breitt hlið er á stekknum austan megin og liggur aðhaldshleðsla úr grjóti frá því 16,5 m til austurs. Stekkurinn var ekki í notkun í tíð Tryggva Gunnarssonar núverandi ábúanda í Grjóta.
Um Bakkarétt segir: „Samkvæmt fornleifaskráningu 1984 er rétt: „…uppi af hraunnefninu suður af Dysjamýri. Í austur 65° frá Bala. Sléttlent og grösugt, hraunnibbur standa uppúr. Réttin er grjóthlaðin, óreglulega ferhyrnd, þó með rúnuðum hornum. Hlið er á móti hvoru öðru, sem vísa í suðaustur og norðvestur. Þessi rétt var notuð til skamms tíma samkvæmt upplýsingum. [Ekki kemur fram hver er heimildarmaður.] Við vettvangskönnun 2002 stóð réttin enn.“

Heimild:
-Þjóminjasafn Íslands árið 2004 – fornleifaskráning fyrir Garðahverfi 2003, bls. 10-16.

Bakki

Bakki við Bakka.

Hafnarfjörður

„Lítið er til af ritheimildum sem varða gamla bæinn Steina við Hamarsgerði í Hafnarfirði og ekki er til túnakort. Þetta stafar sjálfsagt af því að bærinn var lítill með takmörkuð umsvif. Talið er að bærinn hafi verið byggður 1887 eftir að búsetu í Sjóbúðarbæjunum var hætt.  Eldra nafnið á honum er Steinsstaðir.
Steinsstadir-221Fyrsti ábúandi hét Guðmundur Grímsson, fæddur 1828, og bjó hann á Steinum 1887-1904.  Hann mun hafa flust frá Hafnarfirði 1904 og dáið á Neðra-Apavatni 1908. Síðasti ábúandi mun hafa verið Jón Guðmundsson sem fór frá Steinum 1915. Brunabótamat gert árið 1917 greinir frá því að íbúðarhúsið sé notað sem geymsla.
Í óútgefnu riti Gísla Sigurðssonar kemur fram að útveggir og þak bæjarins standi enn. Í afsalsbréfi er sagt að hann sé “7×10 álnir að ummáli. Veggir utan hlaðnir úr höggnu grjóti. Þak og stafnar járnvarið. Allur þiljaður innan með ¾ panelborðum. Bænum var skipt í þrennt. Auk þess gangur. Allt innan dyra málað, tvær fylningshurðir og tvö gluggafög, múrpípa og tvö eldfæri. Bærinn var virtur á 1010, 25 kr. Lóðin á kr.2686,00 og var 5372 ferálnir að stærð. Bærinn var með lágum veggjum og háu risi. Skúr var á suð-vesturhlið og náði þakið upp í miðja þekjuna á bænum. Norður sneru dyrnar. Til vinstri handar er inn var komið voru dyrnar í bæinn, en þar var lítill gangur og dyr í hvorn enda” (Gísli Sigurðsson: bls. 422).
steinsstadir-uppdratturLeifar Steina liggja nú um 3 m NV við núverandi íbúðarhús við Hamarsgerði 17. Veggirnir eru um 6×5 m að utan. Þeir hafa verið steyptir utan um steina, steypa er enn á hálfum innanverðum austurvegg og á vestri vegg sunnan inngangs. Vegghæð er ca. 1.10-1.20 m. Tveir veggir standa uppi, en steinhleðslur marka grunninn í NV og SA enda hússins. Mikið af lausum steinum er inni í húsinu, mest næst veggjunum. Viður er í innanverðum NA vegg að norðan, efst á veggnum.
Utan við húsið að suðvestan er jarðvegurinn upphækkaður svo að þar myndast lítill hóll.  Á honum er meira af illgresi en grasi, og mikið af steinum.  Norðaustan og austan við húsið er einnig illgresi og steinar umhverfis, en ekki þó sýnilega upphækkað.
Leifar útihúss eru ca. 12 m vestan við norðurhorn núverandi íbúðarhúss. Þetta er hár og mjög brattur hóll, um 1.20 m á hæð og um 4 m að ummáli. Tvær syllur eru innan í honum efst; önnur grunn og flöt, en sú fyrir austan um 15 cm dýpri með steinum í botninum.  Þröng rás er út úr henni að norðaustan í gegnum vegginn.

Hafnarfjörður

Steinar/Steinsstaðir – loftmynd 1954.

Svæðið hefur verið raskað þegar nágrannahúsið að Hamarsbraut 14 var byggt og möl og frágangi hrúgað þar ofan á.
Garður er sunnan við steinhúsið, um metri að breidd og ca. 20-25 cm hár. Rennur niður bratta brekku þar sem hann hverfur inn í tré. Næst er hægt að sjá 2 m bút af honum um 10 m NNA við steinhúsið áður en hann hverfur aftur undir tré.
Steinbærinn við Hamarsbraut 17 og fjós og garður sem honum fylgdu eru svo raskaðir auk þess sem hann stendur í miðri íbúðabyggð og er ekki hluti af fornu menningarlandslagi, að ekki þykir nein ástæða til að varðveita hann eða byggja hann upp. Engar heimildir eru heldur til um bæinn sem er hægt að styðjast við ef ráðist yrði í endurgerð. Hann er ekki ýkja gamall, reistur seint á 19. öld, en minjagildi hans varð að engu árið 1998, þegar hann var rifinn.“

Heimild:
-Steinsstaðir í Hafnarfirði/Hamarsbraut 17, fornleifaskráning vegna deildiskipulags, Byggðasafn Skagafjarðar – 2005.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður  um 1920 – Suðurbærinn.

Seltún

Ólafur Grímur Björnsson skrifaði um ferðir Sir George Mackenzie um Reykjanesskagann og nágrenni árið 1810 í Náttúrufræðinginn 2007:

Mackanzie

Mackanzie – málverkið eftir Sir Henry Raeburn.

„Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), 7. barónett af Coul, kom til Íslands 1810 ásamt félögum sínum, Henry Holland (1788-1873), nýútskrifuðum lækni frá Edinborgarháskóla, Richard Bright (1789-1858), en hann var þá nýbyrjaður í læknisfræðinámi þar, og Ólafi Loftssyni, sem numið hafði læknisfræði hjá Tómasi Klog landlækni. Ólafur hafði verið læknir á Suðureyjum (The Hebrides) og meginlandi Skotlands og síðan haldið áfram læknisnámi í Edinborg. Hann var í senn túlkur og leiðsögumaður í ferðinni, en stundum höfðu þeir að auki aðra innlenda fylgdarmenn.
Erindið var að ferðast um Ísland, kynnast landi og þjóð og þó sérstaklega jarðfræði landsins eða eins og Sir George orðaði það, ferðin „… was undertaken chiefly in consequence of the geological theories which agitated the learned in Edinburgh at the time, and with the hope of my being able, by observations made in a volcanic country, to settle some of the points in dispute“.

Seltún

Málverk í bókinni af hverunum í Seltúni í Krýsuvík.

Hér átti Mackenzie við deilur neptúnista og plútónista um myndun yfirborðs jarðar. Neptúnistar héldu því fram að yfirborðsbergiðværi botnfall úr sjó (setlagakenningin) og voru þeir ýmist nefndir eftir sjávarguðinum Neptúnusi eða Werneristar eftir upphafsmanni kermingarinnar, Þjóðverjanum Abraham Gottlob Werner (1750-1817).

Aðrir töldu að bergið væri mótað af eldi sem brotist hefði út á yfirborði jarðar (eldmótunarkenningin). Þeir voru kallaðir plútonistar eftir guði undirheima, en einnig Huttonistar eftir Skotanum James Hutton (1722-1797) sem hélt fram kenningunni og hafði búið í Edinborg á þessum tíma.
Til Íslands fengu félagarnir far frá Straumnesi í Orkneyjum 25. apríl með skipinu Elbe og komu til Reykjavíkur 7. maí. Þeir dvöldu á landinu til 19. ágúst, höfðu aðsetur í Reykjavík (1. mynd) og fóru þrjár meiriháttar könnunarferðir þaðan.
Henry Holland hélt dagbók um ferðirnar.
KrýsuvíkFyrst var Reykjanesskagi kannaður. Lagt var af stað gangandi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 21. maí. Frá Hafnarfirði brugðu þeir sér af leið og heimsóttu Bessastaði. Þá lá leiðin til Helgafells að skoða helli, en svo seinir voru þeir fyrir að gista varð í tjaldi við Kaldá. Þaðan fóru þeir til Krýsuvíkur þar sem hverasvæðið var athugað og sýni tekin, en hverirnir voru það merkilegasta sem þeir höfðu þá séð í ferðinni. Næst var haldið til Grindavíkur og þaðan til Keflavíkur. Þeir slepptu Reykjanesi vegna veðurs en ætlunin hafði verið að skoða hveri þar líka. Til baka gengu þeir um Vatnsleysuströnd og Hvassahraun til Reykjavíkur, því hesta notuðu þeir ekki í þessari ferð nema undir farangur (2. mynd).
MackenzieNæsti leiðangur var um Vesturland. Þann 15. júní lögðu þeir af stað sjóleiðina upp á Kjalarnes en hestar voru sendir landleiðina. Riðið var inn Hvalfjörð en á móts við Saurbæ létu þeir ferja sig yfir fjörðinn. Á Innra-Hólmi var gist í þrjár nætur hjá Magnúsi Stephensen, gengið á Akrafjall og safnað sýnum. Til Borgarfjarðar fóru þeir um Skarðsheiði og gistu á Hvanneyri.
Áfram héldu þeir vestur á Mýrar og Snæfellsnes; gististaðir voru á Svignaskarði, Staðarhrauni, Rauðamel, Miklaholti og Staðarstað og vöndust þeir á að gista í kirkjum, komust svo að Búðum. Hjá Stapa fóru þeir yfir Kambsheiði til Ólafsvíkur. Holland, Bright og Ólafur gengu á Snæfellsjökul ásamt tveimur fylgdarmönnum, en komust ekki á hæsta hnjúkinn.

Richard Bright

Richard Bright.

Leiðangurinn hélt svo för sinni áfram og fylgdi norðurströnd Snæfellsness til Stykkishólms, en í Stykkishólmi voru fyrirmenn, faktorinn Bogi Benedictsen og læknirinn Oddur Hjaltalín. Holland ræddi lengi á latínu við kollega sinn Odd og sagði hann vera vel að sér í læknisfræði.” Áfram héldu þeir og söfnuðu plöntu- og steinasýnum og þar á meðal sýnum úr Drápuhlíðarfjalli.
Þeir áttu náttstað í kirkjum á Narfeyri og í Snóksdal og fóru þaðan um Bröttubrekku í Hvamm í Norðurárdal og gistu í kirkjunni. Leiðin lá að Síðumúla, en yfir Hvítá komust þeir ekki fyrr en niður við Hvítárbakka og héldu þá til Hvanneyrar. Þeir hittu Stefán Stephensen amtmann, sem Holland hældi umfram bróður hans, etasráðið á Innra-Hólmi. Holland og Mackenzie fóru í Reykholt og skoðuðu hveri, en mest dáðust þeir að Deildartunguhver í bakaleiðinni, stærð hans og hegðun.
Næst var að halda aftur að Innra Hólmi, en þar geymdu þeir steinasafn sitt úr Akrafjalli, og sjóleiðina fóru þeir til Reykjavíkur og höfðu verið mánuð í burtu.

Henry Holland

Henry Holland.

Þriðja og síðasta ferðin var um Suðurland. Hópurinn komst af stað til Þingvalla 24. júlí, fór í Skálholt og að Geysi og Heklu og gekk á fjallið.
Lengst komust þeir austur að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þar á hjáleigu, Nikulásarhúsum, bjuggu foreldrar Ólafs, Loftur Ámundason hreppstjóri og Ingibjörg Ólafsdóttir. Nú fréttu þeir að skipið sem þeir ætluðu með væri væntanlegt bráðlega til Reykjavíkur, og þeir hröðuðu sér í Odda, fóru á Sandhólaferju yfir Þjórsá til Eyrarbakka, um Þrengslin til Reykjavíkur og náðu í tæka tíð briggskipinu Floru, sem flutti Bretana til Skotlands. Þorvaldur Thoroddsen hefur ritað um jarðfræðilegan árangur þessarar ferðar í Landfræðissögn sinni.
Um Íslandsferðina sömdu Mackenzie, Holland og Bright ritið Travels in the Island of lceland during the Summer of the Year MDCCCX, gefið út og prentað í Edinborg árið 1811 (október). Þessi bók er xvii + 491 bls. í stóru broti (quarto), myndskreytt af höfundum og sumar myndanna eru í lit. Aftast er samanbrotið kort af þeim hluta Íslands sem þeir ferðuðust um og sýnir ferðaleiðir þeirra. Sir George ritaði ferðalýsinguna en studdist við dagbækur Hollands. Einnig ritaði hann um steinafræði, landbúnað og verslun Íslendinga.

Reykjavík 1810

Mynd af Reykjavík 1810 í bókinni.

Henry Holland er höfundur kaflans um sögu og bókmenntir þjóðarinnar, skólahald og menntun í landinu, lög og stjórnmál, trú og sjúkdóma. Í bókinni er kafli sem Richard Bright samdi um dýra- og grasafræði Íslands og þar er líka registur um íslenskar jurtir eftir náttúrufræðinginn William Jackson Hooker og veðurathugunartöflur.
Bókin er vandað verk og var dýr (kostaði 2 pund, 12 shillinga og 6 pence eintakið), en samt seldist hún upp á 6 mánuðum og var strax gefin út aftur í Edinborg 1812 (apríl), allnokkuð endurskoðuð. Vinsamlegur ritdómur birtist þá (1812) í Edinburgh Review og langur úrdráttur og ritdómur í Dansk Litteratur Tidende sama ár. Enn endurskoðaðri og stytt útgáfa, tveggja dálka, prentuð með smáu letri án mynda, kom út í Edinborg 1842 og nefndist ritið þá aðeins Travels in Iceland. Það var síðan endurprentað þar árið 1851.

Seltún

Mynd frá hverasvæðinu í Seltúni í bókinni.

Sir Henry Raeburn (1756-1823) var líklegast þekktasti portrettmálari Skotlands á sínum tíma, kallaður „the Scottish Reynolds“. Það málverk sem hér um ræðir málaði Sir Henry á árunum 1811-1813, að því er talið er, en áður hafði hann málað aðalsmanninn á unglingsaldri, eða um 1795. Málverkið sem hér er kynnt var á sýningu Royal Academy 1813 og var meðal verka á sýningu helgaðri Raeburn árið 1876. Síðast var það sýnt 1997 hjá Lane Fine Art í London.
George Steuart Mackenzie var einkasonur Sir Alexanders MacKenzie, 6. barónetts af Coul, og Katharine (f. Ramsay). George tók við barónett-titli að föður sínum látnum árið 1796. Sir George er líklegast þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á að demantar eru úr kolefni, og segir sagan að þá hafi hann brennt gimsteina móður sinnar í tilraunaskyni.

Mackenzie

Mynd af Íslendingum í bókinni.

Sir George var kosinn félagi í Royal Society í Edinborg, yngstur allra sem teknir hafa verið í það félag (hann var einnig félagi í Royal Society í London eins og áður var nefnt). Hann tók þátt í samkeppni 1839-1840 um gerð fyrsta frímerkisins og ritaði meðal margs annars um landbúnað í héruðunum Ross og Cromarty. Hann var sannfærður um að Skosku hálöndin væru betur sett með sauðfé en án þess. Sir George Steuart Mackenzie, Bart, var tvíkvæntur; fyrri eiginkona hans var Mary (McLeod, d. 1835) og eignuðust þau sjö syni og þrjár dætur. Seinni kona hans var Katharine (Jardine) og með henni átti hann einn son. Sir George lét byggja ættarsetrið Coul House, sem stendur enn.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2007, Ólafur Grímur Björnsson, Sir George Steuart Mackenzie, Bart, bls. 41-49.

Mackenzie

Kort í bókinni af ferðum Mackenzie og félaga 1810.

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.“
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.“ Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur „Staður“.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.