Oddafellssel
Gengið var að Oddafellsseli. Stefnan var tekin til vesturs með norðanverðu Oddafellinu, að seljarústunum í austurjaðri Höskuldarvallahrauns. Keilir, 379 m hátt móbergsfjall, setti svip á landslagið í norðvestri. Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Keilir er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýni er mikið af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar. Nýlegur stígur liggur yfir hraunið, norðan Höskuldarvallastígs, áleiðis að Keili áður en komið er að meginseljarústunum, sem eru á tveimur stöðum undir Oddafellinu.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Austan við Oddafellið eru Höskuldarvellir. Það eru stórir grasvellir milli fellsins og Trölladyngju, u.þ.b. hálfur kílómetri að breidd, en á lengdina eru þeir rúmlega kílómetri, milli Sogalækjar og nyrsta hluta Sóleyjarkrika.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell, sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina. Líklega er hann að rugla saman öðru fjalli mun norðaustar, en sunnan við bæði fjöllin eru til frásagnir af útilegumönnum, sem þar áttu að hafa haldið til. Héldu þeir sig í helli sunnan Selsvalla og síðar í helli í Hrútargjárdyngjuhrauni sunnan við Fjallið eina, sem þar er. Í dag má enn sjá minjar eftir veru þeirra í hellunum, sem eru þó meira í ætt við skúta, eins og við þekkjum þá. Oddafellið er lágt (210 m), en um 3ja km langt. Í austurhlíðum Oddadells nokkuð sunnarlega er jarðhiti.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Tóftir Oddafelssels eru í vestanverðu fellinu, á tveimur stöðum. Selið var frá Minni-Vatnsleysu. Höskuldarvallastígurinn kemur út úr hrauninu sunnan við hústóftirnar, en sunnan hans eru stekkur og rétt. Fjárskjól er undir hraunröndinni milli mannvirkjanna. Hleðsla er í skútanum og má enn finna fjárlyktina (sumir segja anganina) í honum.
Stígurinn í gegnum hraunið er þar sem hraunhaftið er hvað þynnst. Hann liggur síðan norður með Oddafellinu. Skammt norðar liggur hann yfir tvær tóftir. Vestan þeirra er hlaðinn stekkur og aðhald.
Ekki er gott að segja hvar vatnsbólið er, en þó má telja líklegt að vatn hafi verið sótt í Sogaselslækinn, sem runnið hefur í gegnum Höskuldarvelli, en vellirnir eru einmitt að mestu mótaðir eftir framburð hans úr Sogunum og hlíðunum umhverfis.

Oddafellssel

Oddafellssel – uppdráttur ferlir.is.

Margir ganga á Keili. Flestir ganga þá suður Höskuldarvallastíg, yfir nyrðri tóftir Oddafellssel og beygja síðan til vesturs eftir stíg yfir Höskuldarvallahraun. Fæstir finna fyrir eða veita selstóftunum athygli á göngu sinni með Oddafellinu.

Oddafellssel

Oddafellssel – í selstöðum frá örófi alda hefur gróður haldist allt til þessa dags.

Örfáir ganga svo langt suður með fellinu að þeir sjái hleðslurnar syðst í selinu, hvað þá gamla selsstíginn í gegnum hraunið. Samt er auðveldast að ganga yfir það eftir honum.
Öllum er hollt að staldra við hjá tóftunum, hugsa aftur til þess tíma þegar einhverjir forfeður þeirra og -mæður þurftu að hafa fyrir því að ala önn fyrir fénu um sumarið svo féð gæti alið önn fyrir þeim um veturinn. Ef hlutirnir hefðu ekki gengið þannig fyrir sig er aldrei að vita hvort eða hverjir afkomendurnir kynnu að hafa orðið.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í sumum seljanna ofan við Ströndina var selstaðan skemmri vegna vatnsskorts. Má í því sambandi nefna næsta sel norðan við Oddafellssel; Rauðhólssel frá Stóru-Vatnsleysu. Þar gat verið erfitt að nálgast vatn í þurrkatíð og því sjálfhætt. Stundum var ástæðan þó tilgreind önnur en vatnsskortur, s.s. draugagangur. Draugagangurinn var skiljanlegri afsökun en vatnsskorturinn í þá daga og ástæðulaust að efast þegar hann var annars vegar.
Gangan tók 33 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Blóðberg

Blóðberg (fræðiheiti: Thymus praecox) er lítil sígræn fjölær þófaplanta, af sömu ættkvísl og timian, sem vex í þurru mólendi, holtum og sandi um alla Evrópu. Blóðberg er nýtt sem sígræn þekja í garða og í matargerð sem kryddjurt.
Blodberg-3Á Íslandi er blóðberg (ssp. arcticus) mjög algengt um allt land og finnst bæði á láglendi og í fjöllum allt upp í þúsund metra hæð.
Blóðberg er lágvaxinn smárunni með litlum bleikbláum blómum. Blóðberg er mest áberandi í júní og júlí þegar plantan er í blóma og má þá stundum sjá blóðbergsbreiður. Plantan hefur öldum saman verið notuð bæði til heilsubóta og sem krydd. Blóðbergste er til dæmis sagt vera gott við flensu, kvefi og ýmsum meltingarsjúkdómum. Það er gott krydd, til dæmis á grillað lambakjöt og minnir bragðið á tímían sem kallast einnig garðablóðberg á íslensku og er af náskyldri plöntu.
Blodberg-2Björn Halldórsson, prestur í Sauðlauksdal sem var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi, segir um blóðbergið: „Þessi urt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari urt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar upp þembing þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mati. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur í þessu vín vættur og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt. Seyði af þessari urt, sem te drukkið, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofdrukkið höfðu vín að kvöldi. Sé þessari urt stráð á gólf, eða reykt með henni í húsum, ellegar hún seydd í vatni og sama vatni dreift um húsið, flýja þaðan flær.“
Blóðbergið er mest notað gegn flensu og kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að losa um slím. Blóðberg er einnig talið einstaklega gott við flestum meltingarvandamálum s.s maga- og garnabólgu. Blóðberg linar krampa í meltingarfærum og er þá oft notað með öðrum jurtum. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.

Heimildir m.a.:
-heilsubot.is/page/blodberg

Gullkollur

Gullkollur og blóðberg.

-Wikipedia.org

Selvogsgata

Lagt var af stað eftir Selvogsgötu (Suðurfararvegi) til norðurs frá Útvogsskála[vörðu] vestan við Strandarhæð. Varðan er vandlega hlaðin, ferköntuð, enda ætlað að verða ferðafólki áreiðandi leiðarmerki á ferð um þessa gömlu þjóðleið.

Selvogsgatan neðanverð

Ætlunin var að fylgja götunni upp Selvosgheiði, um Strandardal, Hlíðardal, Litla-Leirdal og allt upp að Hvalsskarði í Hvalhnúk. Þaðan var ætlunin að ganga til vesturs með sunnanverðum Austurásum og yfir að Vesturásum þar sem eru gatnamót Stakkavíkurvegar og Hlíðarvegar skammt austar. Af þeim tvennum átti að þessu sinni setja meginstefnuna á fyrrnefnda stíginn, niður í Selsskarð og eftir Selsstíg áleiðis niður að Stakkavík. Til eru greinargóðar lýsingar á stígum þessum og verður helstu kennileita á þeim getið hér á eftir – eftir því sem fætur um þær leiðir liggja. Og auðvitað, líkt og venjulega, urðu nokkrar óvænta, og áður óþekktar, uppgötvanir á leiðinni.
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Gerði neðan StrandarmannahliðsHestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Selvogsgata ofan HlíðardalsLestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.
Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Varða við Selvogsgötu við Litla-LeirdalKökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni og með góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við.

Varða við Stakkavíkurveg millum Ása

Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað.

StakkavíkurvegurTilgangur vörðubyggingarinnar hefur vafalaust verið að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. [Bunan sæla var reyndar þurr í þetta sinnið.]
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum Varða við Stakkavíkurveghér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafa verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll Stakkavíkurvegurdalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.“
Áður hafði FERLIR gengið Selvogsgötu frá Bláfjallavegi um Grindarskörð til suðurs, upp fyrir Hvalsskarð sem og götuna upp að Hvalskarði í tvígang. Í fyrstnefndu ferðinni var „Selvogsgötunni Vestari“ (Stakkavíkurstígnum) fylgt upp að gatnamótum hans og Selvogsgötu Eystri sunnan undan Kerlingarskarði (sjá HÉR). Lóu- og þúfutittlingshreiður voru nokkur skoðuð á leiðinni. Þegar komið var upp undir Hvalskarð var Vestri Hvalhnúk fylgt til vesturs, yfir á Stakkavíkurveg við austanverða Vesturása. Þar liggur gatan ofan frá gróningum neðan við slétt helluhraun (Selvogsgatan Vestari) og niður með austanverðum ásunum. Á skammleiðinni við hornið eru tvær vörður með stuttu millibili. Þaðan fylgir gatan undirhlíðum Vesturása, þ.e. misgengi sunnan þeirra. Suðvestar eru klettaborgir. Liggur gatan millum þeirra og niður með einni þeirra í sneiðing að norðanverðu. Varða er neðar og önnur nokkru sunnar.
Eftir það liðast hún niður á við í gróningum undir Stakkavíkurvegurhlíðum, fyrst í Dýjabrekum, og allt fram á brún Stakkavíkurfjalls, þar sem Selstígur liggur niður heim að bæ. Á nokkurm stöðum er búið að raska götunni vegna girðingarvinnu (beitarhólfið). Er það í rauninni leitt því sumstaðar hefði með svolítilli hugsun einungis þurft að færa girðinguna um nokkra metra til að hlífa götunni svo hún hefði verið óröskuð alla leiðina. Sjálfsagt er þetta all gjört með fullri heimild Fornleifarverndar ríksins.
Þegar komið var niður á Selsskarðsstígsbrúnina var kjörið að rifja upp örnefnalýsingar, bæði af Stakkavíkurveginum og Hlíðarveginum:  „Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið yfir að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakksvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.“ Þá segir ennfremur í annarri örnefnalýsingu: „Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu. Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðar-brekkur.“
Í lýsingu af Stakkavíkurveginum áðurgengna segir í upptalningu örnefnanna: „Stakkavíkurvegur; 1. Stakkavík: Heim við tún byrjaði vegurinn og lá upp. 2. Stakkavíkurhraun:  Í austur neðanvert við Fjárborgina. 3. Flötin: Úr hrauninu lá vegurinn um flöt ofan við Botnavik. 4. Lyngskjöld: Sem er hraunbrekka ofan og austan Flata. 5. Selskarðsstígur: Heitir vegurinn eiginlega heiman frá bæ þá leið sem þegar er lýst upp í 6. Selskarð: Sem er í Stakkavíkurfjallsbrún. 7. Stakkavíkurfjall: Er þá komið upp á Stakkavíkurfjall, eða Fjallið.

Þúfutittlingsegg við Stakkavíkurveg

8. Stakkavíkursel: Spölkorn ofan brína [?] er þetta sel. 9. Leirdalur: Er þar nokkru ofar. 10. Helgadalur: Dalur þessi eða hvammur er þar enn ofar. 11. Langhólar: Þeir eru þar enn ofar og liggja í Hlíðarveg. 12. Brekkurnar: Þær eru nokkrar með sérnöfnum. 13. Dýjabrekkur 3: Þær eru allt upp undir Ása. 14. Dýjabrekkuhóll: Hann er á hægri hönd við Veginn. 15. Ásarnir: Taka svo við og liggja á beggja megin vegar. 16. Svörtu-Ásar: Liggja á vinstri hönd. 17 .Vesturásar: Þar norðar og á vinstri hönd. 18. Austurásar: Beint á mót á hægri hönd. 19. Hvalhnúkur vestari: Hann hefur blasað við alla leiðina. 20. Hvalhnúkatagl: Um það liggur vegurinn og beygir til hægri. 21. Skarðshraun: Inn og austur eftir hrauni þessu, sem mun vera kennt við Grindaskörð. 22. Skarðahraunsvörður: Allur er vegurinn varðaður þessum vörðum. 23. Tvívörður: Upp í þessar vörður sem standa með nokkurra metra millibili. Þar um liggur svo 24. Suðurferðaleið: Sem áður er lýst. 25. Vetrarvegur: Vegur þessi var farinn á vetrum. Þótti hann öruggari en Suðurferðaleiðin.“
Áður en haldið var niður um Selskarð var enn og aftur rifjuð upp sú gata er gangið hafði verið yfir milli Selvogsgötu og Stakkavíkurvegar, þ.e. Hlíðarvegurinn. Í örnefnalýsingu fyrir veginn segir (og er þá miðað við að hann sé genginn heiman frá Hlíð og upp á milli Vesturása og Austurása áleiðis til Hafnarfjarðar: „Hlíðarvegur; l. Hlíðartún: Heiman frá bæ lá vegurinn um túnið. 2. Skjólabrekka: Um brekkur þessa. 3. Hlíðarskarðsstíg: Sem hefst neðst í 4. Hlíðarskarði. Sem eiginlega er gil og er þar bratt upp. 5. Hlíðarfjall: Ofan brúna er Fjallið, Hlíðarfjall. 6. Teigarnir: Uppi á Fjallinu voru teigar þessir. 7. Ytri-Teigar: Voru neðar. Þangað var farið til slægna. 8. Innri-Teigar: Ofar voru þeir á Fjallinu. 9. Langhólar: Þeir teygðu sig austur fyrir veginn.

Við neðanvert Stakkavíkursel

10. Dýjabrekkur: Um þær lá vegurinn. 11. Ásarnir:  Milli Ásanna sameinuðust Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur. 12. Vetrarvegur: Var vegurinn kallaður. 13. Sjávarvörður: Voru vörðurnar kallaðar, þar sem steinn í vörðunni sneri við suðri.“
Ljóst er af framangreindri vinnu að hin forna Selvogsgata er enn glögg millum Útvogsskála við Strandarheiði og Lækjarbotna í Hafnarfirði. Stakkavíkurvegur er að mestu glöggur frá Selskarði upp að Tvívörðum sunnan Kerlingarskarðs og Hlíðarvegur (Vetrarvegur) sést glögglega (enda vel varðaður) frá Tvívörðum að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Sennilega hefur Stakkavíkurvegur verið greiðfærasta lestargatan fyrrum af þessum þremur leiðum að dæma (a.m.k. er hún nú ein sú áhugaverðasta).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 21.3 km.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Konráð Bjarnason, 1993, leiðarlýsing á kaupstaðaleið Selvogsbúa – Selvogsgötunni.
-Örnefnalýsingar fyrir Stakkavík.

Í Selskarði

Fáni
Fáninn er tákn lands og þjóðar. Íslenski fáninn minnir okkur á himinblámann, snæviþakta jökla og eldinn í iðrum jarðar.
Íslenski fáninn hefur þó ekki alltaf litið út eins og hann gerir í dag.

Þegar Jörundur hundadagakonungur tók hér völd árið 1809, gaf hann tilskipun um, að Ísland skyldi hafa sérstakan fána. Segir í augslýsingu Jörundar, að íslenski fáninn skuli vera blár með þremur þorskfiskum í efsta horni.

Fáni

Fáni Jörundar.

Hinn 12. júlí 1809 var slíkur fáni dreginn að húni á Petræusarvöruhúsi í Hafnarstræti í Reykjavík. Fáni þessi leið þó undir lok með Jörundi. Eigi að síður verður þessi fáni að teljast fyrsta hugmyndin um þjóðfána fyrir Ísland.
Ekki er ljóst, hvers vegna Jörundur valdi þjóðfánanum bláan lit. Það kann þó að hafa ráðið miklu hér um, að blátt hafi verið talinn þjóðarlitur Íslendinga og á þessum tíma var merki Íslands þorskur með konungskórónu á strjúpanum á rauðum skildi, og hafði svo verið lengi.

Fáni

Fáni – fálkafáni.

Um 1870 vakti Sigurður Guðmundsson málari athygli á því, að þjóðin ætti fremur að hafa íslenska fálkann heldur en þorskinn í merki sínu. Máli hans var vel tekið. Stúdentar og skólapiltar urðu fljótir til að taka fálkann upp í merki sitt.
Sumarið 1873 var blár fáni með hvítum fálka í fyrsta skipti dreginn að húni á Þingvöllum. Þjóðhátíðarsumarið 1874 voru haldnar samkomur víða um land og var þá víðast flaggað með fálkamerkinu.
Á þessum árum skapast talsvert almennur áhugi fyrir því, að íslenska þjóðin eignist sitt sérstaka tákn eða merki. Þjóðin var óánægð með þorskmerkið og vildi leggja það niður og taka upp fálkamerkið. Kom þetta skýrt í ljós þegar Alþingishúsið var reist árið 1881, en þá var þorskmerkið sett framan á það.

Fáni

Fáni – hvítbláinn.

Árið 1897 skrifaði Einar Benediktsson grein í blaðið Dagskrá, sem hann nefndi „Íslenski fáninn.“ Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum feldi.
Þessi grein hafði mjög mikil áhrif og náði fánagerð þessi þegar almennum vinsældum. Sumarið 1897 var þessi fáni í fyrsta skipti hafður á lofti á þjóðminningunni í Reykjavík.

Fáni

Fáni – fáninn 1918-1944 var með mun skærari litum en nú þekkist.

Ekki voru þó allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Töldu þeir að örðugt gæti reynst að greina þessa fána í sundur á sjó úti.

19. júní 1915, fyrir nákvæmlega 90 árum síðan, var ákveðið að fáninn skuli vera „heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.“ Og þannig er hann enn þann dag í dag.

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/ggg/fani.htm

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli að gefnu tilefni.

Vorrétt

1. Mógrafarhæð.
Ratleikur 2017Mógrafarhæð nefnist öxlin sem gengur suðaustur frá hábungu Ásfjalls í áttina að Bláberjahrygg. Austarlega í hæðinni er skotbyrgi sem breskir hermenn hlóðu sumarið 1940. Þeir stóðu vaktina með riffla en þar var einnig gervifallbyssa úr gildum trjálurk sem leit út eins fallstykki úr lofti.

2. Selhóll.
Við austanvert Hvaleyrarvatn má sjá tættur tveggja selja; Hvaleyrarsels og Ássels. Upp af þeim er Selhöfði og handan þess Seldalur. Sunnan við vatnið eru m.a. leifar stekkjar. Skammt sunnan hans er klifið hraunhveli í annars sléttu Hellnahrauninu. Sunnan í hólnum eru tvö op; tófugreni. Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins og storkin kvikan sígur.

3. Við Stórhöfða.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvaleyri segir m.a.: „Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er falleg réttarhleðsla.

4. Fjárborg.
Ratleikur 2017Fjárborg og fjárhúshleðslur í vestanverðri Heiðmörk. Misvísandi óljósar upplýsingar hafa verið um staðsetningu fjárborgarinnar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni og fært í nálæg fjárhúsin, enda er hún miklu mun eldri.

5. Hellir.
Spottakorn norðan jarðfallsins er hrauntröð sem er hluti gamallar götu. Hún tengdi saman tvær þekktar þjóðleiðir, Selvogsgötu og Kaldárselsleið. Leiðin liggur frá Selvogsgötu norðan Kershellis og Sléttuhlíðarhorns í áttina að þessari grónu hrauntröð. Hún kemur inn á Kaldárselsleið og sameinast henni við Fremstahöfða.

6. Kaðalhellir.
Kaðalhellir er skammt norðvestan við Kaldársel. Börnin í sumarbúðum KFUM og-K leika sér jafnan í hellinum. Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til bæði opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjaðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals.

7. Rauðshellir.
Ratleikur 2017Rauðshellir er vestasti hluti sömu rásar og Fosshellir og 100 m hellir í Helgadal. Hann dregur nafn sitt af lit þeim er einkennir hellinn. Fyrir munnanum eru hleðslur í grónu jarðfalli. Ummerki eru þar eftir selstöðu. Stekkurinn er skammt norðar. Hellir þessi hefur einnig verið nefndur Pólverjahellir. Það nafn er tilkomið vegna þess að fyrrum fóru börnin í Pólunum í Reykjavík í árlega ferð í Helgadal, þ.á.m. í hellinn. Önnur sögn er sú að áhöfn af pólsku skipi í Hafnarfjarðarhöfn hafi gist í hellinum eftir að hafa verið hafnað um gistingu í Hafnarfirði, en sú sögn mun ekki eiga við rök að styðjast.

8. Skúti.
Í skúta þessum undir hrauninu hafa fundist gróðurleifar sem koluðust þegar hraunið rann yfir gróið land. Gróðurleifar sem þessar eru notaður til að aldursgreina hraun sem í þessu tilfelli reyndist vera frá því um  950 og hefur runnið frá Tvíbollum við Grindarskörð.

9. Dauðadalahellar.
Ratleikur 2017Tvíbollahraun og Hellnahraun yngra runnu um 950 e. Kr. Í hraununum norðvestan við Markraka eru Dauðadalahellar, fallegar og jafnvel flóknar hraunrásir. Þarna gætu hafa runnið fyrstu hraunin á Íslandin eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

10. Aukahola.
Landið stendur á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Ummerki þessa mátti sjá í sniðgengi, mikilli sprungu vestan Undirhlíða. Þegar gos varð í Óbrinnishólum og í sprungurein undir hlíðunum náði þunnfljótandi kvikan að fylla gjána að mestu. Þó má enn sjá niður í djúpa gjána þar sem Aðalholan er (17 m djúp) og Aukahola (12 m djúp) skammt sunnar.

11. Snókalönd.
Snókalönd eru tveir hrísvaxnir hólmar sem Bruninn rann ekki yfir á sínum tíma. Nafnið tengist trúlega snókahvönn en orðið snókur þýðir kriki eða rani. Einstigi liggur frá Stórhöfðastíg í Blettina sem er annað nafn yfir þessa hólma.

12. Rétt.
Ratleikur 2017Þorbjarnar- staðir fóru í eyði um 1939. Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis verðmætar vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ í núverandi landi Hafnarfjarðar, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og dó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug núlifandi fólks um gildi og nýtingu þessarra fornminja. Heimaréttin er ein þeirra. Ráðgjafi ratleiksins undanfarin ár, Ómar Smári Ármannsson, er einn af mörgum afkomendum Þorbjarnarstaðahjónanna.

13. Óttarsstaðaborg.
Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

14. Lónakotssel.
ÍRatleikur 2017 Örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir: „Eins og segir í landamerkja- lýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð.“

15. Rauðamelsrétt.
Skammt vestan við Rauðamelskletta er víð hraunsprunga, gróin í botninn. Í henni er heilleg há fyrirhleðsla. Þarna hefur annað hvort verið nátthagi eða gerði. Skammt suðaustan sprungunnar er fallegt, nokkuð stórt skjól með op mót norðvestri. Skammt suður þaðan í Brunabrúninni var Þorbjarnarstaðarétt eða vorréttin, einnig nefnd Rauðamelsrétt, þótt hún væri drjúgan spöl frá melnum. Í réttinni eru tveir dilkar auk almennings.

16. Draughólshraun.

Ratleikur 2017Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilega þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það. Hraunið heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigert apalhraun. Líklega hefur nafngiftin komið til af því að fæla fólk frá því að fara um svæðið af ástæðu, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið umhverfis er Hrútagjárdyngjuhraunið.

17. Kolbeinsshæðarhellir.
Kolbeinshæð er mitt á milli Efrihella og Gjásels. Þar var haglendi sauða árið um kring. Búsmalinn átti öruggt skjól á sumrin í Kolbeinshæðarskjóli og góða vetrarvist í Kolbeinshæðarhelli, sem var með fyrirhleðslu og reft yfir til að verjast austanáttinni.

18. Laufhöfðavarða.
Ratleikur 2017Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina á milli Þorbjarnarstaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar. Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.

19. Straumssel.

Sel frá Straumi þróaðist um tíma í bæ, eitt fárra af u.þ.b. 350 þekktum seljum á Reykjanes- skaganum. Búið var þar með hléum á 19. öld en húsin brunnu í lok aldarinnar. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar og vel greinilegar ásamt hlöðnum görðum umhverfis Seltúnið. Norðan við selið er vatnsból þar sem finna má merkið.

20. Nátthagi.
Nátthaginn skammt suðaustan við Óttarsstaðaselstóftinar er einn sá myndarlegasti á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu; vandlega hlaðnir veggir er umlykja skjólgott jarðfall.

21. Þorbjarnarstaðaborg.
Þessa stóru og heillegu fjárborg hlóðu börn hjónanna frá Þorbjarnastöðum í Hraunum um aldarmótin 1900. Borgin er fallega innhlaðinn að ofan, hringlaga með leiðigörðum út frá dyrum til suðausturs. Inni í borginni er hár beinhlaðinn veggur. Líklegt má telja að topphlaða hafi átt borgina og að veggurinn inni í henni hafi átt að halda undir þakið þegar það lokaðist. Svipuð fjárborg, topphlaðin, er í Djúpadal í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum, Þorkell Árnason, var einmitt frá Guðnabæ í Selvogi og því verið kunnugur þeirri borg.

22. Gjárop.
Gjárop í hraunbrún: Margar djúpar gjár og misgengissprungur er að finna í Hrútagjárdyngjuhrauni. Þar á meðal er sprungurein sem er spölkorn norðvestan við Fjallið eina en meðfram henni lá áður ein af mörgum leiðum um Almenninginn. Gjáin virkar eins og hellisop inn í Hrútagjárdyngjuhraunið séð frá Krýsuvíkurveginum.

23. Efri-Straumsselhellir.
Ratleikur 2017Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina Straum af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann skyldi eftir sig miklar hleðslur víða, m.a. þessar í Efri-Straumsselshelli.

24. Sauðabrekkuskjól.
Sauðabrekkugígar eru falleg gígaröð með fallegum hraunmyndunum. Þar má finna lítið skjól með flóruðu gólfi og glugga með hellu fyrir og litlum þakglugga. Þar er merkið. Á svæðinu eru stórar og djúpar gjár, m.a. Sauðabrekkugjá. Skjólið hefur að öllum líkindum verið nýtt sem „sæluhús“ annars vegar, ferðalanga um Hrauntungustíg, og/eða smala er gættu fjár umhverfis Sauðabrekkuhella, þarna skammt ofar.

25. Húshellir.

Ratleikur 2017Húshellir opnast í grunnu jarðfalli ofarlega í Hrútagjárdyngjuhrauni. Um er að ræða rúmgóða hraunbólu í annars lokaðri rás. Þegar inn er komið má sjá hlaðið hús, sem hellirinn dregur nafn sitt af. Til beggja hliða eru rásir er lokast. Í þeirri til vinstri má sjá forn bein á gólfinu. Sumir vilja meina að þarna hafi útilegumenn haft aðstöðu um tíma, en líklegra er að hún hafi verið gerð af mönnum er eltust við hreindýr, allt frá því að þeim var sleppt á svæðinu árið 1777 þar til það síðasta var skotið árið 1926.

26. Búðarvatnsstæði.
Búðarvatnsstæðið virðist vera mótað af manna höndum og þar er staðið regnvatn sem er varla drykkjarhæft nema í hallæri. Um mitt vatnsstæðið liggur hleðsla sauðfjár- veikigirðingar sem markaði landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga.

27. Urðarás.
Urðarás varð væntanlega til þegar neðanjarðar hraunrás stíflaðist og braut sér leið upp á yfirborðið vegna ógnarþrýstings. Þegar rásin tæmdist féll þakið niður í rásina og myndaði brothring með grjóturð. Oft eru stórir hellar tengdir slíkum jarðfræðifyrirbærum en á þessum slóðum hafa einungis fundist smáhellar.

Sjá má meira um ratleikinn HÉR.

Húshellir

Í Húshelli.

Þverárdalur

Í Þverárdal hefur verið sagt að væri flugvélabrak. Þar áttu að vera leifar af breskri Hawker Hurricane flugvél er farist hafði átt þarna árið 1941. Sögunni fylgdu upplýsingar um að leifar flugvélarinnar væru neðst við fjallsræturnar í vestanverðum dalnum, dreifðar yfir allnokkurt svæði og að erfitt væri að koma auga á það. Aðrir hafa sagt að engar leifar séu þar að finna, allar löngu grafnar undir skriðu.

Hawker Hurricane

Ætlunin var að afla nánari upplýsingar um leifarnar og síðan ganga um dalinn til vettvangsskoðunnar.
Að sögn Karls Hjartarssonar mun óhappið hafa orðið þann 23. september 1941 skv. slysaskráningarskýrslum Breta. Um var að ræða Hurricane I flugvél. Flugmaðurinn fórst þegar flugvélinn skall á hamravegginn í u.þ.b. 1800 fetum. Karl sagðist einhverju sinni hafa leitað ásamt öðrum um allan vestanverðan Þverárdal, en ekkert fundið. Flugvélin átti að hafa lent í bergvegg í u.þ.b. 600 m hæð og brakið fallið niður hlíðina.
Byrjað var á því til gamans sem og af fagurfræðilegum ástæðum að ganga upp Þverárdalinn að austanverðu, með hlíðum Þverfells, vesturhlíða Móskarðshnúka. Þar hallar dalurinn allnokkuð, jafnt og þétt, á fótinn, en þegar komið var inn fyrir dalinn miðjan hallaði hann niður innanvert.
Á vettvangi undir HátindiEfra er bergstandurinn hár og tilkomumikill. Úr honum koma nokkur gil, misstór og mislitótt; ljósbrúnir lækir á annars svörfuðu berginu. Skriður eru innst í dalnum. Þar var gengið niður að Þverá og staðnæmst, skyggnst og gónt upp hlíðar og á snarbratta hamra. Þegar engin verksummerki sáust um aðkomuefni var Þverá fylgt til baka í rólegheitum í von um að finna ummerki eftir flugvélina við árfarveginn. Háar brúnir Hátinds virtust himinháir þar sem staðið var svo til beint undir þeim. Auðvelt var að ganga niður með ánni. Sumsstaðar rennur hún um berar klappir, en annars staðar hefur hún rutt á undan og frá sér malar- og grjótkömbum.
Ekkert bólaði á leifum af umræddri vél, sama hversu vel umhverfið var gaumgæft. Ekkert brak var að sjá í dalnum.
Annar staður gat vel komið til greina – og jafnvel líklegri slysavettvangur, þ.e. Grafardalur – sá næsti að vestanverðu, handan við Grafarkotshálsinn.
Og þá virtist ekki vera um annað að ræða en að halda upp með Grafará og upp í Grafardal með Þverárkotsháls og Hátind (903 m.y.s.) á hægri hönd og Kistufellið (830 m.y.s.) á þá vinstri. Áður var þó ákveðið að staldra við og leita að einhverjum, sem áður hafði gengið um Þverárdalinn og þekkti þar til. Eftir að hafa fundið einn slíkan var aftur lagt af stað inn dalinn, nú upp með honum vestanverðum. Gangan upp eftir tók um 50 mínútur, enda bæði blankalogn og steikjandi sólarhiti.
Á vettvangi undir HátindiSlysstaðurinn í Hátindi hefur haft á sér þjóðsagnakenndan blæ. Einhverjir hafa vitað af slysinu, en örfáir komið á vettvang. Nokkrir hafa leitað að leifum vélarinnar, en ekki fundið. Hefur jafnvel verið álitið að allar leifar flugvélarinnar hafi grafist undir skriðu í fjallshlíðinni. Af ummerkjum að dæma var það þó ekki að sjá. Í breiðri skriðu neðan undir tilkomumiklu ónafngreindu gili voru allnokkrar leifar Hurricaneflugvélarinnar. Skriðan er hins vegar bæði stór og breið svo henni hefur auðveldlega tekist að breiða sig yfir meginhluta vélarinnar á þeim 66 árum, sem liðin voru frá óhappinu. Vel mátti t.a.m. grjótsjá afurðir vetrarins í skriðunni. Þarna var huti vængs, fótabúnaðar, flapsastýrisstangar o.fl. o.fl. Meginleifarnar voru í 1200-1300 f.y.s., en þó var ákveðið að feta skriðuna upp í 1800 fetin. Þar var engar leifar að sjá, enda augljóst ef einhreyfilsflugvél með svo öflugum hreyfli sem hurricane-vélin var með flygi á sléttan bergvegginn myndi fátt vera eftir til stórræðna.
Hawkins Hurricane flugvélarnar, sem fluttar voru hÁ vettvangi undir Hátindiingað til lands, komu í kössum og voru settar saman hér. Þegar meiri þörf var fyrir þær annars staðar voru þær teknar í sundur, settar í kassa og síðan skipað um borð í eitthvert flutningaskipið á leið til Englands.
Saga Hurrican-vélanna er að mörgu leiti merkileg.
Árið 1938 hóf RAF (Konunglegi breski flugherinn) að taka Spitfire Mk. I í notkun. Flugmennirnir tóku strax miklu ástfóstri við vélina, enda var hér um að ræða risastökk fram á við, hvort sem menn höfðu áður flogið Gloster Gladiator eða fyrstu einþekju-orrustuvél RAF; nefndri Hawker Hurricane – en sögu Hurricane-vélarinnar var þó hvergi nærri lokið enn.
Hawker Hurricane var fyrsta einþekja Breta í seinni heimstyrjöldinni. Á næstu mánuðum var smám saman unnið að því að útbúa fleiri orrustuflugsveitir með þessu nýja stolti RAF. Það gekk þó ekki jafn hratt og menn hefðu óskað, enda voru fjárveitingar af skornum skammti og því engin plön um að skipta eldri tegundum alveg út í bráð. Ýmsar smávægilegar endurbætur voru þó gerðar á vélinni, t.d. var upphaflegu loftskrúfunni, tvíblaða Á vettvangi undir Hátindi“fastri” tréskrúfu, skipt út fyrir nýja þríblaða málmskrúfu með breytilegri aðfallsstillingu (variable pitch – constant speed propeller), sem nýtti afl hreyfilsins mun betur, líkt og gert hafði verið við eldri flugvélategundir.
Þegar Seinni heimsstyrjöldin hófst í september 1939, áttu Bretar aðallega þessar Hawker Hurricane, en einnig Boulton-Paul Defiant.
Hawker, aðalhönnuður Sydney Camm’s Hurricane raðarinnar er í rauninni einn vendipunkturinn í sögu flughernaðarins. Flugvélin reyndist vera sú þrautseigasta í baráttunni um Bretland sumarið 1940 – þegar Leifturstríð Nazistanna virtist óstöðvandi. Þessar flugvélar sinntu einnig öðrum hlutverkum á stríðsárunum, allt til enda. Hurricaninn var fyrsta breska einþekjuorrustuvélin, sem fyrr sagði, og fyrsta orrustuvélin til að komast 483 kph (300 mph) í beinu flugi. Upphaflega hafði flugvélin þó verið hönnuð og Á vettvangi undir Hátindiþróuð frá því um miðjan fjórða áratug aldarinnar. Í fyrstu varð niðurstaðan sú að einþekjur væri álitnar óstöðugar og of rótækar til að geta skilað tilætluðum árangri sem orrustuflugvélar. Framtíð henar virtist því ekki álitleg.
Árið 1925 var Camm tilnefndur sem aðalhönnuður „H. G. Hawkers Engineering Company“, fyrirrennara „Hawkers Aircraft Ltd.“ Á því ári hannaði Camm einþekjuorrustuvél og þótt hún væri ekki fullbyggð skyldi hann vel að tvíþekjur gætu aldrei farið hraðar en einþekjur. Tveir vængir orsökuðu einfaldlega meiri dragvind en einn. Kominn var því tími til dramatískra ákvarðana í orrustuflugvélatækninni. Árið 1933, undir stjórn Camms, byrjaði Hawkers-hönnunarliðið að vinna að nýrri einþekju. Formleg ákvörðun um hönnunina var tekin í hernaðarráðuneytinu breska í ágúst 1935. Camm og lið hans völdu vatnskælda 660 hestafla Rolls-Royce Goshawk vél sem afl fyrir hina nýju flugvél. Hún var kölluð „the Fury Monoplane“. Fljótlega vék hann þó fyrir nýrri hreyfli, fyrirrennara hins þjóðkunna „Rolls-Royce Merlin“-hreyfils fyrir valinu. Flugvélin flaug fyrsta sinni 6. nóvember 1935.
Um 600 frumgerðir voru gerðar af flugvélinni fyrir 3. júní 1936. Þetta var ein stærsta framleiðsluáætlun, sem gerð hafði verið á friðartímum. Þann 27. júní var Hurricane- vélin fyrst skírð.
Hurrican-vélarnar spiluðu stórt hlutverk í Seinni heimstyrjöldinni, einkum í Orrustunni um Bretland á tímabilinu júlí og október 1940.
Orrustunni um Bretland lauk snemma í nóvember þegar Skriðan niðurávið - Þveráin neðstGöring skipaði þýska flughernum að varpa sprengjum á breskar borgir að næturlagi. Þá var Hurricane flugvélunum breytt þannig að þær voru búnar búnaði til að geta séð að næturlagi – svo og öflugri hreyfi. Þær voru því sniðnar að því að fljúga í myrkri.
Meira en 4,700 Hurricane-flugvélar voru smíðar í fyrstu – til mismunandi nota. Þær voru ýmist búnar 40 mm fallbyssum undir vængjum, sem flutningavélar eða til skyndiárása á hersveitir á jörðu niðri. Í september 1944 höfðu 12.233 slíkar flugvélar verið smíðaðar, sem segir nokkuð um þörfina og notagildið á þessum árum.
Staðreyndin er að leifarnar undir austurhlíðum Hátinds eru vitnisburður um flugslys á sögulegum tíma. Þótt þær virðast hvorki merkilegar í augum fornhandritasérfræðinga né nútíma sjónvarpsþáttagerðastjórnenda eru þær óneitanlega áþreifanlegur vitnisburður um tvennt; örlög flugmanns (einstaklings með þrár og kenndir) sem og fórnarlambs fjöldans í „laklegri“ stjórnunarmynstri tímabilsins sem og tækniþróun þess tíma, en jafnframt sinnuleysi þeirra er fullnægja eiga nú sögulegri heimildaskráningu og upplýsingu til almennings þessa lands, sem bæði vill njóta útivistar og fræðast. Á vettvangi, undir austurhlíð Tátinds, er a.m.k. hvergi að sjá fróðleik þetta sögulega atvik frá 23. september 1941.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Þverárdalur

Hawker Hurricane.

 

Helgafell

Eitt af sérkennum Reykjanesskagans er móbergsmyndunin. Hún er jafnframt eitt af sérkennum Íslands og um leið einkennandi fyrir bergtegundina hvert sem litið er á hnettinum.
Bergrunndur Íslands - brúnt er móbergshryggjasvæðinÁ síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmynduninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi, s.s. á Reykjanesskaganum (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Á síðustu ísöld voru einungis ystu nes Skagans án íss síðustu aldir skeiðisins. Bergmyndunin ber þess glögg merki þar sem móbergið er annars vegar. Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé einmitt móbergið.
Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Myndun móbergsfjallsHafnarfjörð, Hengill, Bláfjöll og hryggirnir á Reykjanesskaga; Fagradals-, Vesturáss-, Austuráss- og Geitahlíðar. Slíkir móbergshryggir myndast í sprungugosi undir jökli eða í sjó. Móbergið sjálft er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
„Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Skoðum nánar jarðmyndanir á ísöld. Venja er að skipta íslenskum jarðmyndunum frá ísöld í tvennt. Annars vegar eru jarðmyndanir frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen sem eru 2,7 – 0,8 Má gamlar og teljast til fyrri hluta ísaldar. Hins vegar er um að ræða yngri jarðmyndanir frá síðari hluta ísaldar en þær eru 700.000 – 10.000 þúsund ára gamlar. Skilin markast af upphafi núverandi segulskeiðs fyrir 700.000 árum. Báðar myndanirnar hafa orðið til á hliðstæðan hátt og eru því líkar í flestu nema hvað aldurinn segir misjafnlega til sín.

Veðrun í móbergi

Munur jarðmyndana frá síð-plíósen og fyrri hluta pleistósen (þ.e. fyrri hluta ísaldar) annars vegar og jarðmyndana frá síðpleistósen (seinni hluta ísaldar) hins vegar felst því í aldri en ekki gerð. Stapar og móbergshryggir sjást ekki í eldri mynduninni því hraunin runnu aðeins að rótum þeirra en þöktu þá ekki. Jöklarnir jöfnuðu þá síðar við jörðu og dreifðu þeim sem jökulruðningi. Hin tignarlegu móbergsfjöll sem við sjáum í landslaginu nú eru því að öllum líkindum mynduð á seinustu jökulskeiðum og líklega flest á því allra seinasta.
Í Esjunni hefur 1650 m þykkur jarðlagastafli verið mældur og kortlagður og nær hann frá upphafi ísaldar (2,5 Má) þar til fyrir um 1,8 milljónum ára. Setlög og gosberg mynduð á ísöld eru um 1/3 af þessum jarðlagastafla.
Upphleðsla jarðlaga frá ísöld sjást vel í Esjunni. Þar má sjá annars vegar hvernig hraunlög runnin frá eldstöðvakerfum á hlýskeiðum hlóðust upp og mynduðu samfelldan stafla berglaga og hins vegar hvernig gos undir jökli hrúguðu upp móbergsmyndunum. Á meðan þessu fór fram rak eldstöðvakerfin út af gosbeltinu en ný og yngri kerfi tóku við innar á beltinu. Frá þeim runnu hraun sem kaffærðu smám saman eldri myndanir en þær eru misjafnlega mikið rofnar eftir jökla fyrri jökulskeiða. Hraunin fergðu líka eldri jarðlög þannig að halli þeirra inn að gosbeltinu óx stöðugt. Elstu og neðstu berglögunum hallar því mest en þeim yngstu minnst. Að síðustu mótuðu jöklar margra jökulskeiða landslag Esjunnar í núverandi mynd.
Síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10 þúsund árum og er talið að það hafi staðið í 60 þúsund ár. Allar jökulminjar fjarri núverandi jöklum eru ummerki þessa jökulskeiðs. Það er einkum út frá þessum jökulminjum sem menn reyna að gera sér grein fyrir þykkt, stærð og skriðstefnu jökulskjaldarins sem lá yfir meginhluta landsins.
Vitneskja um þykkt meginjökulsins fæst einkum með rannsóknum á hæstu fjöllum. Móbergsstapar hafa sem kunnugt er myndast við gos undir jökli. Hraunþök stapanna bera vitni um þykkt jökulsins á myndunartíma þeirra á sama hátt og Surtseyjarhraunin segja til um sjávarstöðu þegar eyjan var að rísa úr sæ. Eins sýna háir móbergshryggir að þeir náðu aldrei yfirborði jökulsins meðan á gosi og upphleðslu þeirra stóð.
Harðgerður landnámsgróður í móbergslandslagiVíðast hvar á ystu annesjum má sjá jökulminjar sem veita vitneskju um útbreiðslu jökulsins og á sjávarbotni. Þáverandi fjörumörk lágu jafnvel 100 m neðar en nú.
Sem fyrr sagði myndast móberg við ummyndun gjósku sem verður til við gos undir jökli eða vatni. Mikið af gjósku myndaðist við slíkar aðstæður á kuldaskeiðum ísaldar og varð meginhluti hennar að gleri þegar kvikan snöggkólnaði í vatninu. Þetta glerbrotaberg kallast hyaloclastite á erlendum málum. Glerið ummyndast auðveldlega í palagónít, sem er brúnleitt og gefur móberginu lit.
Móbergið getur því varla talist gosberg því að myndun þess gerist eftir að gosið er um garð gengið. Eigi að síður er það tekið fyrir hér með gosmyndunum. Móbergsmyndunin er jafnan notað um bergmyndun landsins frá því fyrir 700 þúsund árum til loka ísaldar. Síðustu rannsóknir benda til þess að bakteríur flýti fyrir ummynduninni.
Berg, sem sandfok mæðir á, máist aðallega þar sem það er mýkst fyrir. Einkum er þetta áberandi í lagskiptu móbergi og sandsteini. Þetta hafa þeir/þau reynt sem markað hafa stafi í móbergshelluna. Að örfáum árum liðnum eru ummerkin horfin. Klappir og steinar á melum slípast einnig á þeirri hliðinni sem veit á móti sandbyljum en á hinni hliðinni þrífast skófir óáreittar. Þetta kallast vindsvörfun. Á melum hjálpast sandfok og frostlyfting að við að mynda þekju úr grófri möl og hindrar hún þá fok fínustu kornanna sem undir liggja. Víða myndast þannig hin náttúrulegustu listaverk – og engin tvö nákvæmlega eins.

Heimild m.a.:
-Jarðfræðiglósur GK.
-Wikipedia.org
-visindavefurinn.is

Móbergsmyndun á Helgafelli - nútímahraunmyndunin fjær í Grindarskörðum

Hvassahraunssel

Gengið var upp frá Óttarsstaðafjárborginni að Alfaraleið, henni fylgt til vesturs, að mótum Lónakotsselsstígs (tvær vörður), honum fylgt spölkorn til suðurs uns komið var að gamalli sauðfjárveikigirðingu á landamörkunum, en þegar varðan á Skorás ofan við Lónakotsselið blasti við í suðaustri var stefnan tekin til suðurs á Hvassahraunssel undir Selásnum.

Hvassahraunssel

Selsvarðan ofan við Hvassahraunssel.

Tvær vörður á honum austanverðum gefa selsstöðuna til kynna. Hún er vestan þeirra. Gangan upp í selið tekur u.þ.b. 40 mín.
Fallegar hleðslur eru víða undir sauðfjárveikigirðingunni. Þótt hún sé fallin sjást enn einstaka staurar, auk þess sem landamerkin eru vörðuð svo til á hverjum hraunhól. Birkikjarrið hefur víða tekið vel við sér og óvíða má sjá reyniviðarhríslur skjóta upp kollinum. Nokkur lóuhreiður urðu sýnileg á leiðinni. Væntanlega er stutt í ungana.
Selsstæðið í Hvassahraunsseli er nokkuð stórt og vel gróið. Það er norðvestan undir Selásnum eða Selhæðunum, eins og þær eru stundum nefndar. Tvennar tóftir eru þar með stuttu millibili. Kvíar eru bæði norðan undir hraunhól í vestanverðu seltúninu og austar undir Selásnum. Vörðurnar stóru gefa til kynna brú yfir langa hraunsprungu í ásnum. Um brúna og ofan við hana mótar vel fyrir mikið genginni fjárgötu. Líklega er hér um svonefnda Skógargötu að ræða, en hún stefnir upp í ætluðu vatnsstæði, sem á að vera þarna í jarðfalli skammt austar.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: „Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar“.

Hvassahraunssel

Tóftir í Hvassahraunsseli.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel frá á 19. öld; þ.e. Hvassahraun og Flekkuvík.
Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð núlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður á Vatnsleysuströnd.
Hvassahraunsselsstígur liggur frá Hvassahrauni og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó erfitt geti reynst að finna hann næst Reykjanessbrautinni. Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur frá Hafnarfirði um Óttarsstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn. Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðamelsstígur eða Óttarsstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargata og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir um vatnsból við Hvassahraunssel og þá „undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það.“

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – stekkur.

Til baka var gengið til norðausturs inn í gróið hraunið og stefnan síðan tekin til norðurs, áleiðis að upphafsstað.
Hraunið er víða stórbrotið á köflum. Bláklukka og ljónslappi léku sér við fífla og blóðberg í sólskininu. Rjúpan var söm við sig.
Þegar gengið er um hraunið, sem rann úr Hrútargjárdyngju fyrir rúmlega 5000 árum, er óhjákvæmilegt að hugurinn reiki aftur til þess tíma er gangandi fór þar um sinna erinda á fornfálegri skóbúnaði en nú er notaður. Mosinn, grasið og lyngið hefur löngum verið þægilegra ágöngu en hraunið, sem víða hefur rifið illilega í leðrið og sært iljarnar. Eflaust hefur fólk er þarna hefur þurft að eltast við fé eða fiðurfénað, haft með sér varaskóbúnað, því skólaus maður (eða kona) langleiðis uppi í hrauninu hefur væntanlega verið í slæmum málum. Mosinn hefur síður slitið skautauinu, þótt hann hafi verið fótalýjandi, en það sem harðara var undir. Harkan hefur verið slitsamari og ennþá erfiðari í þá daga. Ef óvanur nútímamaðurinn missti frá sér skó á þessu svæði var óvíst hvort hann kæmist aftur til byggða.
Hvassahraunsmenn voru iðnir við rjúnaveiðar fyrrum og eru til sagnir af harðfylgi þeirra í þeim efnum. Fótabúnaður, fé og fingurfimar konur komu þar mjög við sögu.

Heimildir m.a.:
-Örnfefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Konungsvegurinn

„Í sumar [2007] eru liðin 100 ár frá Íslandsferð Friðriks VIII Danakonungs ásamt 200 manna fylgdarliði. Aldrei fyrr hafði verið haft jafn mikið við vegna komu erlendra gesta enda sjálfur þjóðhöfðingi Íslendinga á ferð.
Friðrik og félagar höfðu brunch í Djúpadal á leið til Þingvalla. konungur og fylgdarlið hófu ferðina við Lærða skólann ferðina 1. ágúst 1907. Meðalhraðinn var 4,5 km á klukkustund og er það mjög góður hraði sé miðað við stærð hópsins. Upp í Djúpadal voru 15.7 km.
KóngurGísli Sigurðsson skrifaði um Kongungsveginn í árbók FÍ árið 1998. Hann kemur með skemmtilega sýn í framkvæmdina með því að bera kostnaðinn við tekjur landssjóðs.
En von var á Friðrik VIII konungi til landsins í ágúst 1907. Var afráðið að hann færi til Þingvalla, til Geysis og Gullfoss, suður hreppa, að Þjórsártúni og til Reykjavíkur.
“Menn gerðu ráð fyrir því að konungurinn kysi að aka þessa leið í yfirbyggðri léttikerru fremur en að ferðast ríðandi. Það sýnir þó sambandsleysið við hátignina, að aldrei hefur verið spurt beinlínis að þessu”. Þarna sáu menn möguleika á að gera veg frá Þingvöllum að Geysi og út í Hreppa. Því var ráðist í vegaframkvæmdina 1906 og lauk fyrir komu konungs 1907 og hún kölluð Konungsvegurinn. Lög um landsreikning voru samþykkt fyrir árin 1906/07 í einu lagi og var kostnaður við vegabætur 220.257 krónur, stærsti hluti Konungsvegur en heildarútgjöld landssjóðs voru liðlega 3.1 milljón. Því var kostnaðurinn um 14% af ársútgjöldum ríkisins. Þessi framkvæmd er líklega dýrasta vegaframkvæmd sögunnar og í sama stærðarflokki  ríkisábyrgð til Íslenskrar erfðagreiningar sem var til umræðu árið 2002.
KamarUm konungskomuna var gefin út bók, en ekkert var minnst á vagnaveginn dýra. Kóngsvagninn var aðeins notaður til að flytja vistir, tjöld og drykkjarföng en kóngur ferðaðist ríðandi. Ekkert var minnst á dýrasta mannvirki landsins, Konungsveginn í frásögnum fjölmiðla!
Heldur hefur Konungsvegurinn látið á sjá í tímanns rás, enda vart notaður nema af hestafólki, göngufólki og öðrum sem ekki tekur að nefna. Frá vegamótunum við Geitháls liggur Konungsvegurinn eins og beint strik út á Mosfellsheiðina. Væntanega hafa hólar og hæðir þurftt víkja fyrir konungi, enda hefur mönnum ekki þótt rétt að láta konung fara óþarfa sveig á leið sinni. Víða hefur verið lögð mikil vinna í að hlaða undir veginn og eru mjög smekklegar hleðslur víða á leiðinni ef grant er skoðað.
Á leiðinni eru vörður, vörðubrot, haganlega hlaðin ræsi, steinhlaðin  brú og sæluhúsatóftir. Á háheiðinni eru einnig að finna tóftir veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930.

Heimild:
Árbók F.Í. 1998, bls. 73.

Konungsvegur

Konungsvegurinn á Mosfellsheiði.

Lambagras

FERLIR hafði áður skoðað tóftir gamla bæjarins að Elliðakoti, sem eru á ási norðan Nátthagavatns.
ÚtihúsNú var ætlunin að skoða heiðina ofan bæjarins. Ljóst var að fenginni reynslu, þrátt fyrir nokkrar dýrar fornleifaskráningar og -kannanir vegna vega- og virkjunarfram-kvæmda, að hvergi væri þar allra sýnilegra minja getið. Svo virðist sem fornleifafræðingar hafi við þá vinnu valið auðveldasta kostinn; rakið vörður og gamlar þekktar götur, en ekki lagt á sig að fara um svæðið fet fyrir fet, enda bæði erfitt og tímafrekt – og tíminn eru jú peningar þegar slík vinna er annars vegar. En hvers á verkkaupinn að gjalda?
Einkennandi fyrir tóftirnar að Elliðakoti, sem enn standa, eru reglulega tilhöggvnir steinar, allir að svipaðri stærð. Um er að ræða stórt skepnuhús og annað minna, líklega sauðakofa, sem breytt hefur verið í hænsnahús. Íbúðarhúsið hefur staðið á grunni vestan skepnuhússins.
Heimagarðurinn er í brekku á móti suðvestri. Heimtröðin er norðan hans. Gamlir Útihúshleðslugarðar umlykja heimatúnið. Norðaustan í því eru garðar umhverfis matjurtargarð. Sunnan bæjarins, á klapparholti, er snyrtilega hlaðin tóft. Ekki er að sjá að tóftin hafi verið þekjuð eða notuð. Þó gæti hafa verið hlið í henni framanverðri. Þá gæti þana verið um að ræða „sýningarbás“ í vegghleðslu með grjótinu úr námunni, en í holtinu er steinnáma og þar hefur að öllum líkindum mest af grjótinu í skepnuhúsin og önnur hlaðin hús verið sótt. Stafaáletrun er á einum steini útihúsanna.
Bærinn hefur staðið undir lágu hamrabelti. Ofan hans liggur gata um Miðdalsheiði, framhjá Selvatni og áfram upp með Lyklafelli, Draugatjörn og að Kolviðarhól annars vegar og hins vegar áleiðis að Grafningi við Þingvallavatn. Um er að ræða svonefnt nyrðra vegarstæði á þjóðleiðinni austur fyrir fjall, en deilur stóðu um það um 1880 á hvora leiðina ætti að leggja áherslu m.t.t. til samgöngubóta. Þessi leið var ákjósanlegri þar sem hún sneiddi ofan við Fóelluvötn og þær ófærur sem Sandskeiðið var.
VarðaBúið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsnum fram til 1948 eða 1949. brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.
Þegar farið er um þetta svæði er hvergi merkingar að sjá. Engar aðgengilegar upplýsingar er að fá um það. Í fornleifaskýrslum er einungis fjallað um vörður og einstaka tóft, en hvergi svo vitað sé um um býlin sjálf, fólkið og minjarnar. Svæðið í heild er mjög fallegt og ákjósanlegt til útivistar, en sagnfræðilega einangrað. Hvort það er af ásettu ráði eða ekki skal ósagt látið.
TóftirSem fyrr sagði hafði áður verið farið um tóftir Elliðakots. Einnig hafði verið farið um svæðið nærliggjandi neðanvert (sjá HÉR). Að þessu sinni var  haldið um það ofanvert. Sem og búast mátti við voru þar vörður við gamlar leiðir, s.s. Konungsvegina 1907 og 1930 og Austurleiðina um Lyklafell og Hellisskarð. En það sem vakti sérstaka athygli, og virðist af einhverjum óskiljanlegri ástæðu ekki hafa verið skráð, eru útihús frá Elliðakoti. Um er að ræða hlaðin þrískipt samliggjandi hús. Dyr á vestasta rýminu snýr mót vestri og dyraveggurinn stendur enn að mestu, u.þ.b. 160 cm hár þar sem hann er hæstur yfir dyrum. Miðrýmið hefur haft op á mót suðri sem og austasta opið. Þetta mannvirki er að öllum líkindum frá síðustu búsetuárum Elliðakots því veggir hafa að mestu leyti verið byggðir úr timbri en með hlöðnum grunnveggjum. Lambagrasið í nánd gaf tilganginn til kynna. Umhverfis eru án efa um fleiri minjar – ef vel væri að gáð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Hið agnarsmáa