Nærsel

Að minnsta kosti – og einungis – eitt sel, Nessel, er (var) þekkt í Seljadal. En af hverju er þá um fleirtöluorð á dalnum að ræða? Ætti ekki dalurinn þá að heita Seldalur eða Seljardalur, sbr. Selfjall, Selvatn, Selbrekkur eða Seltjörn (Selvatn)!!?? (Margar spurningar hljóta að vakna).

Nærsel

Nærsel.

Nessel er sagt norðan í Seljadal. Það er ofarlega í fallega grónum þverdal, við værukæra lækjarsitru, austarlega í honum norðanverðum, undir suðurbúnum Grímarsfells. Selið er bæði myndarlegt og dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Hins vegar virðist það ekki nægilega umkomumikið og ætlast væri af seli af slíkum „stofni“, þ.e. frá stórbýli á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað má ekki véfengja ábendingar fróðra manna um selstöðuna, en í örnefnaskrám segir einungis (og ótilgreint) að Nes hafi haft í seli í Seljadal. En Seljadalurinn er langur, og auk þess er hans jafnan getið í FLEIRTÖLU, eins og hér verður nánar lýst á eftir.
En hvaða sjálfsagða vísbendingu ætti bæði langur og gróinn dalur, í landnámi Ingólfs – með heila á rennandi um sig miðja og ótal læki allt um kring – að gefa? Hvar voru sérfræðingarnir – og hvar er áhuginn??
Hafa ber í huga að áhugi sérfræðinganna liggur jafnan, og eðlilega, í verkefnum er geta gefið eitthvert „lífsviðurværi“ af sér. Annað, og allt umfram, er áhugafólksins. Afrakstur þess er þó jafnan vanmetinn – ekki síst af sérfræðingunum. En nóg um það í bili.

Nærsel

Nærsel.

Eftir nákvæma skoðun loftmynda af svæðinu vöknuðu grunsemdir um að dalurinn geymdi fleiri sel, bæði í honum suðaustanverðum (á eftir að gaumgæfa betur) sem og miðsvæðis í honum – og er þá Kambsréttin undanskilin. FERLIR hafði áður skoðað Nesselið fyrrnefnda, Kambsréttina og fleiri minjar í ofanverðum SELJADAL. En eitthvað stemmdi ekki alveg við heildarmynd þess tíma, sem um hefur verið fjallað, hvort sem um var að ræða staðsetningu eða stærð. Nesselið er óneitanlega á fallegum, en vandfundnum, stað og æði myndrænt, en samt…
Á leiðinni upp í Seljadal var rætt við húsmóðurina í Þormóðsdal. Þar er nú járnkætt timburhús, greinilega með nýrri viðbætum. Hún sagði eldra húsið hafa verið byggt um 1932. Nafnið Þormóðsdalur næði einungis yfir bæinn og jörðina, en dalurinn allt frá ofanverðu Illagili sunnan í Grímarsfelli, um hið hrikalega Hrafnagil, sléttlendi milli ása, um Kambshól og niður að Hafravatni norðan og vestan Búrfells hafi ávallt allur verið nefndur Seljadalur, enda áin, sem rennur um dalinn, einatt nefnd Seljadalsá (fleirtala+eintala) – alla leiðina.

Nærsel

Nærsel.

Ávallt hafi verið talið að á Þormóðsdalur hafi verið forn jörð og að þar hafi búið einn landnámsmanna. Þormóðsleiði er einn vottur um það [en það er eitt af verkefnum FERLIRs á næstunni að staðsetja það]. Enn vöknuðu spurningar: Hvers vegna er dalurinn í heild nefndur í eintölu þrátt fyrir að um fleiri dali virðist um að ræða? Var hér um að ræða eina af þessum dæmigerðu nafnabreglum er verða jafnan og óhjákvæmilega í gegnum langa tíð (og umbreytingar)?

Húsmóðirin sagði að tóftir hafi áður verið bæði austan við húsið og ofan við það. Hinar síðarnefndu sjást enn. Þegar grafið var fyrir viðbyggingunni austan við húsið fyrir nokkrum árum hafi verið komið niður á ýmislegt fornfálegt. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi verið um að ræða leifar enn eldri bæjar. Ekki er hins vegar með vissu vitað hvar bær Þormóðs hafi verið, en hann gæti hafa verið þarna eða skammt austar, handan gilsins, sem þar er. Tóftir sjást þar enn, en ekki væri vitað til þess að þær hafi verið rannsakaðar sérstaklega, ekki frekar en hugsanlegt bæjarstæði við núverandi íbúðarhús.

Nærsel

Nærsel – loftmynd.

Aðspurð um mögulegar tóftir upp með Seljadalsánni, norðan Silungatjarnar, sagðist húsmóðirin oft hafa gengið upp með ánni, en aldrei orðið vör við slíkar tóftir á þeim stað, sem tilnefndur var. Einu tóftirnar, sem hún kannaðist við, væru hleðslur undir Kambhól og rústir ofarlega í Seljadal [Nessel].
Áður en lagt var af stað höfðu grunsemdirnar verið bornar undir Bjarka Bjarnason, þann er líklega veit manna mest um fyrrum mannanna verk í Mosfellsdal og nágrenni. Hann kannaðist ekki við rústirnar, en taldi þó að þarna einhvers staðar hafði áður verið eitthvert ónefnt kot. Vitað er um rústir Búrfellskots sunnan undir Búrfelli. Auk þess mótar fyrir rústum (mögulegu kotbýli) á sléttu, skurðgröfnu (framræstu) túni allnokkru vestan við meintar rústir (svona mitt á milli Þormóðsdals og þeirra).
Og þá var bara að leggja í lokaáfangann að hinum meintu rústum.

Nærsel

Nærsel.

Á litlum grónum „bleðli“ norðan Seljadalsár (austan við austasta sumarbústaðinn norðan Silungatjarnar, en sunnan Seljadalsár) mótaði fyrir tóftum. Settir höfðu verið girðingastaurar á „bleðilinn“ og hestum greinilega verið beitt á hann um tíma – sem og í tóftirnar báðar. Girðingarstrengir höfðu þó verið fjarlægðir, sem og bikkjurnar. Hið jákvæða var samt sem áður það að bletturinn var nú mun grænni en umhverfið og tóftirnar því greinilegri (og auðveldari til myndatöku). Eflaust hafa þær löngum átt auðvelt með að dyljast þarna á barðinu án nýlegs ágangs.
Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
Neðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.

Nærsel

Nærsel.

Nú var úr svolitlum vanda að velja. Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft „selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft „dagslættir í Viðey“. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða. Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): “ Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….“

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá “fjærsel“? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selsrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu.
Af varfærnislegum ástæðum er niðurstaðan sú að hugsanlega hafi þarna verið um kot að ræða – EN það hafi þá vaxið upp úr fyrrum selstöðu. Hvaðan sú selstaða hefur verið er erfitt um að segja á þessari stundu, en eitt er víst – að Seljadalurinn rís nú loksins undir nafni.
Hafa ber í huga að vangaveltur FERLIRs eru og verða einungis dregnar út frá sýnilegum minjum, sem og útliti þeirra, eins og þær birtast augum sjáandans á vettvangi nútímans – dagsins í dag. Örnefnalýsingar geta hugsanlega staðfest þær, eða jafnvel kveðið á um eitthvað allt annað – fyrrum. Hafa ber þó í huga að áætluð heiti eða staðsetningar örnefna eða rústa geta (og hafa) hnikast til í gegnum tíðina (eins og dæmin sanna) og þannig smám saman orðið aðrar en þær voru.
Rétt er þó jafnan að byggja á fyrirliggjandi bestu og áreiðanlegustu upplýsingum á hverjum tíma, treysta hæfileikum skrásetjarans og vona að þar hafi allt verið eins og best verður á kosið – þá og þegar.
Frábært veður – rigning umhverfis, en himininn opnaði sig með bjartviðri yfir rústasvæðinu. Blómstur

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Sauðabrekkugígar

Gengið var upp frá Krýsuvíkurvegi upp um svonefndan Holtsenda á sýnilegri norðurbrún Dyngnahrauns (Hrútagjárdyngjuhrauns). Þar er varða er sagði fyrrum til um brúnamörkin. Varða þessi sést mjög vel hvaðanæva í ofanverðum Almenningi. Skammt norðaustar ber minna á myndrænni fuglaþúfu.
Holtsendinn er norðausturmörk Hafurbjarnarholts. Neðar er tilkomumikill hraunuppistandsrani.
FjallsgjaAllt hraunsvæðið ofanvert er komið frá Hrútargjárdyngju fyrir um 5000 árum. Þó má sjá í því lítil síðari tíma gos, s.s. frá Sauðabrekkugígaröðinni. Um hefur verið að ræða stutt og lítið sprungureinagos sem bæði hefur gefið af sér litla gjósku og lítil hraun. Hið litla er þó fyrirhafnarinnar virði að berja augum, en hvaðan sem gengið er frá vegi tekur u.þ.b. 2 klst (í rólegheitum) að komast þangað á fæti.
Kapelluhraunið frá 1151 er mest áberandi þegar ekið er suður Krýsuvíkurveg. Áður höfðu runnið þar hraun eftir að dyngjugosunum lauk, í fyrstu sem rauðamelsgjallhaugar upp úr sjó en síðar sem stærri sprungureinagos.
SaudabrekkugigarGosið úr Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð, gaf af sér talsvert þunnfljótandi hraun er náði alla leið niður að ofanverðum Þorbjarnarstöðum, vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram.
Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvík. 

Saudabrekkugja

Upptök þessa hrauns eru líklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.
Á gígsvæði þessu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.
Margar djúpar og gjár og misgengissprungur er að finna í Hrútagjárdyngjuhrauni. Þar á meðal er sprungurein sem er spölkorn norðvestan við Fjallið eina en meðfram henni lá áður ein af mörgum leiðum um Almenninginn. Gjáin, Fjallgjá, virkar eins og hellisop inn í Hrútagjárdyngjuhraunið séð frá Krýsuvíkurveginum. Skemmtilegt er að fylgja henni vestanverðir áleiðis upp að Fjallinu eina, þótt ekki væri fyrir annað en að smyrillinn verpir í gjárbarminum og lætur jafnan öllum illum látum er ókunnugir nálgast hreiðurstæðið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Annars er Fjallgjá austari hluti landsigsmisgengis milli hennar og Sauðabrekkugjár. Vestari snið þetta má sjá í gegnum Smyrlabúð, yfir mót Selgjár og Búrfellsgjár og um Hjallamisgengið í Heiðmörk. Austari sniðið liggur um Fjallsgjá, Helgadal, miðja Búrfellsgjá og Löngubrekkur. Ásýndin er ekki ólík því sem sjá má á Þingvöllum eða milli Hrafnagjár og Aragjánna í Vogaheiðinni.
Gengið var upp í Sauðabrekkugíga. Gígarnir eru skammt norðan Sauðabrekkugjár, en svo nefnist stórbrotin misgengissprunga með áberandi hamraveggjum sem eru hærri að austanverðu. Í lýsingu segir m.a.: „Sauðabrekkugígarnir urðu til við gos allnokkru eftir að Hrútagjárdyngjuhraunið rann. Hrauntungustígurinn liggur því sem næst yfir miðja gígaröðina“. Taka ber þessu með hæfilegum fyrirvara. Augljóst má telja að hraunið hafi runnið eftir Hrútargjárdyngjuhraunsgosið, enda um sprungureinagos að ræða. Þá hefur gosið verið bæði stutt og svolítið sætt, án þess þó að nokkur lifandi maður ætti þess kost að verja það augum fyrir u.þ.b. 1.600 árum. Hluti þess rann til stutt til norðurs og annar til austurs. Það náði að fylla gjá, sem þar er a.m.k. að hluta, en þó ekki alveg (sjá HÉR).

Búðargjá

Búðargjá.

Skv. nýlegum skrifum á gjá ein í Dyngnahrauni að heita Búðargjá. Sú á að fylgir sömu stefnu og misgengissprungan Sauðabrekkugjá. „Þetta er ekki sama sprungureinin sem sést á því að hún er öðruvísi ásýndar. Búðargjá er nokkurnvegin á landamerkjum Hafnarfjarðar- og Krýsuvíkurlands. Nafnið er fornt og talið tengjast Búðarvatnsstæðinu, sem er eigi allfjarri gjánni.“ Hafa ber þó í huga að á eldri landakortum og í örnefnalýsingum ber kennileiti þetta hvergi á góma og virðist því í fljótu bragði vera seinni tíma tilbúningur. En þegar eftirfarandi er skoðað má vera ljóst að um er að ræða gjána suðsuðvestur af Sauðabrekkum (ofan (norðan) Sauðabrekkugjár); Eftirfarandi landamerkjalýsing þar sem nafnið Búðarhólagjá kemur fyrir, en eldra nafn hennar er Búðargjá, var lesin upp á Görðum á manntalsþingi 22. júní 1849 og þinglýst þann dag: „Fyrst milli Garðakirkju fjalllands, úr Steinhúsi suður í Markagil eða Undirhlíðum, þaðan í Hæðstaholt á Dauðadölum á annan veg úr Dauðadölum norður í Húsfell upp í Þríhnúka, þaðan í suðurenda Bláfells á milli afrétta Álftanes- og Seltjarnarneshrepps. Á milli Gullbringu- og Árnessýslu af Bláfjöllum á Kistufell. Á milli Álftaneshrepps og Almenning og Krýsuvíkur landa af Kistufelli niður í syðra horn á Fagradalsbrún, þaðan í Marakkagil, svo í þúfu á Fjallinu Eina. Þaðan í Helguflöt norðan á Búðarhólum. Á milli jarðanna Heimalands og afréttar af Búðarhólum eptir Búðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a:
-Náttúrufræðingurinn 1997-1998,  bls. 174.
-Hraun í nágrenni Straumsvíkur – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson.
-Landamerkjalýsing frá Görðum.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

Hvammsvík

Hvamms er getið í Landnámu, en þar segir: “Hvamm-Þórir nam land á millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref inn gamla um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; sú kvíga hafði horfit Þóri fyrir longu, en sú kvíga fannst í Brynjudal, þar er Refr átti land, ok fjórir tigir nauta með henni, þeirra er oll voru frá henni komin ok höfðu gengit sjálfala úti; því kenndi hvor tveggi sér nautin. En Þórir fell fyrir Ref með átta manna, þá er þeir borðust hjá hólum þeim, er síðan eru kallaðir Þórishólar”.
Hvammsvik-22Í Harðar sögu ok Hólmverja segir frá blóðugum viðskiptum Orms Hvamm-Þórissonar úr Hvammi og fóstbræðranna Geirs Grímssonar og Víga-Harðar Grímkelssonar goða í Geirshólmi, sem stálu af honum tólakistu hans. Segir að þeir hafi skilað henni í naustið að Hvammi og sett undir húfinn á skipi Orms. Ormur er þar talinn meðal héraðshöfðingja og má einnig ráða af sögunni að höfundur hennar hefur talið að Hvammsland hafi þá verið mun stærra en seinna varð, því að Ormur er látinn gefa Bolla þræli sínum land á Bollastöðum, sem er á milli Háls og Valdastaða sunnan undir Reynivallahálsi.
Hvammsvik-23Í Sturlungu er getið Jörundar hins mikla úr Hvammi en hann var með Þorleifi í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og má ráða af samhengi að hann hafi verið fyrirliði manna úr Kjós og Hvalfirði. Eftir bardagann var rænt í Saurbæ og Hvammi og má af því ráða að búið í Hvammi hafi verið með hinum stærri í héraðinu.
Hvammur kemur og fyrir í öðrum rituðum heimildum, svo sem í jarðabókum og í bréfum og máldögum í Íslensku fornbréfasafni.
Elsta heimild um kirkju í Hvammi er í Hítardalsbók frá árinu 1367.  Þar er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn er í Vilchinsbók frá 1397. Kirkjan var helguð heilögum Lúkasi og átti Hvammsey auk sex kúgilda. Þá átti hún smelltan kross, glitað altarisklæði, fornan dúk og litlar klukkur.

Hvammsvik-24

Kirkjan í Hvammi var hálfkirkja, en það þýðir að aðeins var messað þar annað hvern helgan dag. Prestur var ekki í Hvammi heldur kom annar af tveimur prestur á Reynivöllum þangað til að syngja messur og tíðir með reglulegu millibili.
Næst má finna Hvammskirkju nefnda í máldaga frá 1497.
Í vígslumáldaga Stefáns biskups Jónssonar í Skálholti hinn 1. september 1502 um kirkjuna í Hvammi er getið skógartungu í Skorradal, sem kirkjan hefur þá eignast. Var leyfi til gefið að í Hvammskirkju yrðu saman vígð hjón og börn skírð.
Í Gíslamáldaga frá um 1570 segir að kirkjan sé hálfkirkja og eigi m.a. fimm kýr og eitt ásauðar kúgildi, einn gamlan altarisbúning, vænar klukkur, glóðarker, gamlar bækur og einn kaleik.

Hvammsvik-25

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman Jarðabók sína fyrir Kjósarhrepp árið 1705 var hálfkirkja enn að Hvammi en sóknarkirkjan á Reynivöllum. Þjónaði sóknarpresturinn einnig til altaris í Hvammi, en kirkjuvegur er sagður vera örðugur og langur. Dýrleiki allrar jarðarinnar er þá sagður vera 60 hundruð, en af þeim sé hjáleigan Hvammsvík 12 hundruð. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er dýrleika jarðarinnar hins vegar skipt, Hvammur talinn 48 hundruð og Hvammsvík 12 hundruð. Í skýrslu sýslumanns, sem var ein af heimildum Johnsens, er þó Hvammur aðeins talinn vera 40 hundruð og Hvammsvík metin meir sem mismuninum nemur. Þá er sagt frá landkostum eins og þeir voru árið 1802, þegar jarðabók þessi var tekin saman, svo sem æðarvarpi og selveiði að ógleymdum nytjaskóginum í Skorradal í Borgarfirði.
Naglastadir-1Í Jarðabók Árna og Páls, sem tekin var saman réttri öld áður, er sagt um landkosti að torfrista og stunga sé lítt nýtanleg en nóg til af mó og þangi til eldiviðar, selveiði gagnvænleg fyrir heimalandi, rekavon nokkur, nægur skelfiskur en sölvafjara eydd af ísalögum, heimræði jafnan þegar fiskur gengur í Hvalfjörð og lending góð og skipsuppsátur. Túnið sé allt meinþýft og útigangur besti kostur jarðarinnar, en skriður spilli úthögum og engjum, stórviðri valdi skaða nær árlega og sauðfé sé hætt fyrir sjávarflæði. Segir og að í Hvammsey, sem kirkjunni er eignuð, hafi til forna verið gott æðar- og andarvarp, en það sé eyðilagt af lunda.
Tveir bæir eru hér nefndir í landi Hvamms, sem ekki eru til heimildir um aðrar. Þetta eru Naglastaðir, sem þá voru tóftir langt innan landamerkja, og tómthúsið Ásmundarstaðir, sem verið hafði í eyði í meira en tuttugu ár.
Naglastadir-2„Naglastaði“ ætla sumir verið hafa bygt ból í Hvammslandi, og hafa það til marks, að þar hafa fundist kol og eirbrot í jörðu, og líka sjást þar tóftarleifar. Ekkert vita menn til þess annað”. Ekki er vitað hvar á landareigninni þessi hjáleiga var, en þó er þess getið að langt sé “þaðan til  landamerkja mót öðrum jörðum” og að land þetta sé “átölulaus Hvamms eign” um aldur og ævi. Er þess og getið að “tvö ár ein hefur þar selstaða verið brúkuð frá Hvammi”.“
Hvammsvik-26Kirkjan í Hvammi var tekin af með konungsbréfi 17. maí árið 1765.
Búskapur var stundaður á jörðunum fram á áttunda áratug síðustu aldar, en skiki og skiki hafði verið seldur eða leigður undir sumarbústaði.
„Hvammur og Hvammsvík, sem er syðri bærinn, standa við sjó á suðurströnd Hvalfjarðar, á tanga norður í fjörðinn, en suður af þeim gnæfir Reynivallaháls. Milli bæja eru um 200 m. Núverandi bæjarhús, sem reist voru síðast í byrjun fjórða áratugarins, standa sunnan undir hólum sem heita einu nafni Hvammshólar.“
Samkvæmt túnakorti, sem teiknað var árið 1917, voru þá þegar mest öll tún beggja jarða sléttuð. Aðeins hafi verið eftir litlir og þýfðir blettir hér og þar.  Í stríðinu urðu túnin fyrir miklum skemmdum vegna hernaðarumsvifa, en síðan hafa þau verið sléttuð á nýjan leik og stækkuð til suðurs með því að ræsa fram mýrar.
Hvammsvik-35„Hér hefst lýsing Einars Jónssonar á örnefnum í landareign Hvamms og Hvammsvíkur; byrjað er innst, frá mörkum milli Hvamms og Hvítaness. Það er djúpt gil að innanverðu við Skeiðhól, það heitir Markagil og var oft illt yfirferðar á vetrum þegar snjóar voru miklir og að vestanverðu á gilbarminum er stór hóll sem heitir Skeiðhóll, Hann er að mörgu leyti einkennilegur, en sérstaklega fyrir það að sunnan í honum stendur klettur, sem er að mestu leyti sívalur. Hann er  eitthvað á 3 m. á hæð og að mun mjórri að neðan, eða það mætti líkja honum við flösku sem stæði á stútnum. Þessi klettur heitir Steðji.
Að vestan og sunnan við Skeiðhólinn eru að mestu leyti sléttar flatir og þær heita einu nafni Skeiðhólsflatir, en klettarnir fyrir ofan Skeiðhólsklettar, en þegar kemur út á næsta skriðuhrygg, heitir sá hryggur Hæstigeiri og klettarnir þar fyrir ofan Geldingahryggur. Svo kemur nokkurt svæði sem er nokkurn veginn jafnlent að öðru leyti en hallanum.

Hvammsvik-28

Það svæði heitir Lágafell, en klettarnir þar fyrir ofan Flár. Næsti skriðuhryggur fyrir utan heitir Lambahryggur, en gil upp af þessum hrygg heitir Bjarnagi. Svo fyrir utan Lambahrygginn kemur Gjásandur og þar fyrir ofan Gjábekkur og þær ná út að Sauðhól, sem er hár og nokkuð einkennilegur. Við hann var fjárrétt, þar sem réttin stóð var eins og hvilft inn í bergið, og þurfti ekki að hlaða réttina nema á tvo vegu og svo svo var hóllinn svo gott aðhald þegar rekið var inn.
Þá er farið með sjónum. Fyrst næst fyrir norðan Sauðhól er Hvammsvíkurholt og að norðanverðu við það mýrarsund, sem nær heim að Hvammsvíkurtúni, en austast af Hvammsvíkurtúninu heitir Sjávartún, en fyrir vestan bæinn í Hvammsvík, neðst í túninu, er hóll sem heitir Gvendarhóll.

Hvammsvik-29

Fyrir ofan bæinn, uppi í túninu, er hóll, sem heitir Magurhóll og túnið þar fyrir austan heitir Leynir. Svo er nokkuð hár grjóthóll austast í Hvammshólunum, sem heitir Hjallhóll, en hólarnir sem bæirnir standa sunnan undir heita einu nafni Hvammshólar. Svo fyrir norðan þá hóla rís nokkuð hár, einstakur hóll, sem heitir Arnarhóll. Þar sat örnin löngum, því þaðan sá hún glöggt hvernig bezt væri að haga fengsælum  veiðiferðum. En rétt fyrir norðan þennan hól kemur vellisblettur, sem heitir Bátsmýri og þar fyrir norðan er ávalahóll með standbergi sjávarmegin. Sá hóll heitir Bátsmýrarhöfði. Hann hefur þau einkenni, að norðast í berginu eru tveir nokkuð stórir básar, sem ganga svona 2-3 faðma inn í bergið, og þar var hægt að reka að þó nokkrar kindur,ef manni lá á.
Hvammsvik-30Þá er komið norður undir granda sem liggur út í Hvammshöfða. Þar flæðir sjórinn yfir, þegar er hálffallinn sjór, og um há flóð er breitt sund á milli lands og höfða. Í mínu ungdæmi var talsvert varp í þessum höfða. Þar verptu þó nokkrar fuglstegundir, svo sem æður, tjaldur, teista, kría og fleiri fuglar, en suður af höfðanum er eyja, sem heitir Hvammseyja. Þar verpti margt af fugli og þar lá selurinn uppi í tugatali þegar leið á vetur, þegar sól var og góðviðri. Þar fæddi hann oft unga sína og undi lífinu hið bezta, en oft bar hann sig illa þegar ungarnir voru fastir í netum. Þá gerðu mæðurnar margháttaðar tilraunir til að bjarga börnum sínum, en þær tilraunir enduðu stundum með því að mæðurnar urðu fastar sjálfar. Það kom nú ekki oft fyrir, því þær höfðu nokkuð góðan skilning á að forðast hættuna.
Hvammsvik-31Hvammshöfði er einkennileg eyja. Þegar maður kemur norður grandann, blasir við láglendi, beint í norður, en að vestan eru háir hólar. Þaðan er mjög fallegt útsýni. Svo er austur höfðinn líka með háum hólum og þarna er bæði lyng og vellisgróður og yndislega fallegt.
Þá fer ég vestur með sjónum. Upp á meginlandi, fyrir vestan grandann, vestur með sjónum, kemur nokkurt svæði, sem heitir Smáholt, og þar fyrir ofan er mýri, sem heitir Kringlumýri. Þar var mótekja góð á meðan entist. Þá er nes vestur af hólunum, sem heitir Draganes. Þar var lendingarstaður og skiparétt. Þar voru líka fiskbyrgi.

Hvammsvik-32

Að sunnanverðu við Draganesið skerst langur ós inn í landið. Hann er vel skipgengur heim að túni um flóð, en þegar kemur heim undir túnið, kemur mjódd, sem ekki er breiðari en smá árfarvegur. Sú mjódd heitir Mjóiós. Þar fyrir innan kemur annar ós, nokkuð stór, sem heitir Grafarós, en hann er að nokkru leyti tvískiptur, því það gengur vellismói út í hann frá suðaustri. Sá mói heitir Stórimói.
Nú ætla ég að fara út með sjónum, fyrir utan ósinn. Þá kemur vellisflöt sem heitir Orustuflöt. Þar börðust þeir Hvamms-Þórir og Bárður á Þrándarstöðum út af nautgripum, sem Þórir fann, en Bárður taldi sig eiga. Það var kýr, sem Brynja hét og hafði gengið úti og falizt í skóginum. Þegar hún fannst, var hún með hóp af ungviði með sér.
Þar fyrir utan eru hólar sem heita Óshólar, en að sunnanverðu, þar sem ósinn byrjar, er klettur, sem er laus við landið, og flæðir á milli klettsins og lands. Þessi klettur heitir Kirkjuklettur. Fyrir utan Óshólana er mýri, sem heitir Spóamýri.
Nú ætla ég að fara til baka inn undir Sauðhól og lýsa landinu út með fjallinu. Næst fyrir utan Sauðhól Hvammsvik-33er mýri, sem heitir Dýjamýri, og klettarnir þar fyrir ofan Dýjamýrarklettar. Mýrin næst fyrir utan veginn að neðanverðu heitir Aur.
Þá kemur áframhaldandi mýrarfláki sem heitir einu nafni Flói. Með fjallinu, að utanverðu við það sem ég hef þegar lýst, kemur klettahóll, sem heitir Stóra-Setberg. Þar fyrir ofan er hár klettastandur sem heitir Miðmundastandur. Nokkuð utar er annar klettahóll sem heitir Litla-Setberg. Fyrir neðan Setbergin er Setbergsmýri. Niður undan Litla-Setbergi, heldur utar, er holt sem heitir Langholt og mýri þar fyrir ofan Háamýri. Fyrir ofan og utan Háumýri eru klettar sem heita Svörtuklettar og Svörtuklettamýri í kringum þá að ofan. Hlíðin þar fyrir ofan heitir Breiðhillur en að utanverðu við Langholt kemur mýri sem heitir Selveita. Utan við hana, við sjóinn, eru Borgarlaugar og upp af þeim er hóll sem heitir Bullhóll. Þar áttu að hafa heyrst strokkhljóð til forna inni í hólnum.

Hvammsvik-34

Fyrir utan Bullhólslæk, niður við sjóinn, kemur mýri, sem nær út að Hálsmörkum. Hún heitir Lágamýri. Svo kemur smá klettabelti,en fyrir ofan það kemur Breiðamýri, sem nær líka út að mörkum. Fyrir ofan Breiðumýri er klettahóll sem heitir Asklok. Þar átti að hafa heyrzt aski skellt til forna. Þar rétt fyrir utan kemur smá gillæmi sem eru mörk milli Hvamms og Háls.“
Þegar Selveitan var skoðuð kom Naglastaðaselið í ljós. Um er að ræða hringlaga tóftarhól, en í honum mótar ekki fyrir veggjum. Utan í hólnum virðast vera rými.
Þórishólar eru án minja, utan Bessastekks, skeifulaga mannvirkis, undir syðsta hólnum, næsta Spóamýri.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning, Hvammur og Hvammsvík, Fornleifavernd ríksins 1995.
-Örnefnalýsing fyrir Hvamm og Hvammsvík, Einar Jónsson skráði.
-Íslenzk fornrit I, Reykjavík 1993, bls. 56-59.
-Íslenzk fornrit XIII, Reykjavík 1993, bls. 65, 68-70, 79.
-Sturlungasaga I, Reykjavík 1946, bls. 405, 407.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn III, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 218.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn IV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 118.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 375.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 609-610.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn XV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 632.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns XIII, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 85.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 430-434.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847, bls. 101.
-Sveinn Nielsson: Prestatal og Prófasta. Hið íslenska bókmenntatal, Reykjavík 1950.
-Íslenzk fornrit I-,Reykjavík 1993-, bls 56-59.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 431.
-Túnakort af Hvammi og Hvammsvík í Kjós frá 1917, Þjóðskjalasafn Íslands, óprentuð heimild.

Hvammsvík

Hvammsvík – örnefni – ÓSÁ.

Grindarskörð

Ætlunin var að ganga frá Strandarhæð ofan Selvogs og fylgja Selvogsgötunni, Eystri leið, til norðurs, allt niður fyrir Grindarskörð.
Bergmyndin í HerdísarvíkurfjalliVið Strandarhæð er Útvogsskáli (Skálavarða) og Dalhólar austar. Á þeim er Árnavarða. Fornugötur liggja niður að Digruvörðu (götur, sem FERLIR hefur áður fetað um Selvogsheiði). Halda átti áfram framhjá Kökuhól og yfir Katlahraun, um Strandardal framhjá Sælubunu og upp í Hlíðardal þar sem bær Indriða lögmanns átti að hafa staðið á fyrri hluta 17. aldar. Ekki var talið með öllu útilokað að enn mætti sjá móta fyrir tóftum þar, ef vel væri gáð.
Þá var ætlunin að rekja götuna um Litla-Leirdal, framhjá Rituvatnsstæðinu, um Hvalskarð, Stóra-Leirdal, um Grafninga og niður Grindarskörð þar sem gangan endaði ofan við Mosa.
Á leiðinni að upphafsstað ráku þátttakendur augun í sérkennilega risastóra bergmynd í veggjum Herdísarvíkurfjalls; kindarhaus, líkt og Surtla heitin hefði rekið þarna hausinn út úr hamrinum (sjá meira HÉR og HÉR). Margt býr í berginu…
Áður en lagt var stað var farið yfir lýsingu af Suðurfararveginum (Selvogsgötunni).
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar, sem hann tók saman árið 1993.
Selvogsgata - kort“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Hestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Lestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.

Útvogsskáli

Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Kökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni ogmeð góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar Strandarhellirfjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við. Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Útvogsskáli (Skálavarða)Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað. Tilgangur vörðubyggingarinnar hefu vafalaust verið slá að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum.

Selvogsgatan við Kökuhól - vörðubrot fremst

Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum hér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn. Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar haf verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Selvogsgata - loftmyndHestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll dalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.
Lestargatan milli skarða var allgóður lestarvegur með árlegu viðhaldi í ruðningi á árum áður, einnig í skorningunum milli hrauns og hlíðar er Grafningar nefndust. Sumsstaðar var sýnt að gamalt hraun ofan af heiðinni hafði hnigið undir vegferð lestargötunnar. Þarna gæti veri það sem kallað hefur verið Hrauntraðir. Ferð lestarinnar milli skarða miðar vel og er komin um hálftíma ferð frá Stóra-Leirdal norður úr Grafningum og að beygja sunnan við Litla-Kóngsfell. Með beygju þessari mildast vegferðin með snögggrónum lautum, ásamt pollum í dældum. Hér verður þessari vegferð lestarinnar í vesturátt til Grindarskarða en hið einkarfallega hringlaga fell Litla-Kóngsfell á hægri hönd. Það er borglaga gígsfell hæst á suðurbarmi og með grasgeira neðantil. Norðaustur af því er gjá mikil, Stórkonugjá. Það er talið að fjall þetta sá á markalínu Gullbringu- og Árnessýslna með stefnu á Vílfilsfell, enda var Jósepsdalir sunnan þess smalaðar á haustdögum sem afréttarland Selvogshrepps um aldir.

Selvogsgatan

Ekki var nú lestarferð löng vestur að uppgöngu austanmegin Kerlingarskarðs. En rétt austan við uppgönguna fórum við yfir örmjóa apalhrauntungu er runnið hefur niður Skarðahraun. Þar standa Tvívörður við vegferð og frá þeim í beinlínu eru hinar vel hlöðnu vetravegsvörður í stefnu á vesturenda Hvalhnúks Vestri. Þær höfðu þann kost að út úr sérhverri þeirra stóð steinn í átt þeirrar næstu sem var mikið öryggi þegar hin svarta þoka lá yfir Skarðahrauni sem oft var. Nefndust steinar þessir Vegvísir.
Vestan við apalhrauntunguna lá vegurinn upp á Kerlingarskarð í allsnörpum halla, vel ruddur á tímum lestarferðanna sem og vegurinn yfir nefnda hrauntungu. Þá verður að taka fram að girðing sú sem títt er nefnd í nútíma var enn í þekkt á tímum lestarferðanna því hún var uppsett vegna mæðiveikivarna á stríðsáratugnum. Þá verður að minnast þess að hér skárust saman í sömu uppgöngu á Kerlingarskarð, Eystri leið eftir Katlahrauni og Vestri leið upp Selsstíg frá Herdísarvík og Stakkavík. En rétt áður en við beygðum upp á Skarðið blöstu við á vinstri hönd Draugahlíð og framhjá þeim í vestur sér til Eldborgar. En nær nefndri hlíð er að finna leifar af brennisteinsvinnslu Breta á púðurskots- og hernaðarárum þeirra.
Þegar lest okkar er komin á norðurbrún Grindarskarða rétt ofan við Kerlingarskarð blasir við augum víð og fögur sýn allt til þéttbýliskjarna á strönd hins fagurbláa Faxaflóa og til Akrafjalls og Esju í norðri, nær okkur Helgafell og Húsfell. Og enn nær okkur hið mikla helluhraun sem verður illþyrmislega úfið neðan undir Kerlingarskarði. Það er í fyrsta sinn sem nú við 12 ára aldur lít augum hina kvöldfögru strandbyggð Faxaflóans og óraði ekki fyrir því að þar myndi um hálfraraldar skeið æfi minnar renna. Á háskarði höfðum við verið um 5 klukkustundir á ferð úr heimabyggð.
Fyrir niðurgöngu Kerlingarskarðs er litið eftir klyfburði á hestum og gjarðir enn hertar. Við niðurgöngu var sýnt að gatan var vel valin í sveigum og nú vel rudd og vel tókst hinum vönu burðarhestum að spyrna framfótum sínum til móts við aðstæður.  Lestinni farnaðist því vel niður aðalbrattann. En þá tók við úfnasti hlutu Hellnanna. Líklega það sem kallað var Flár. Hér er víðsjál vegferð með bröttum klifum niður í svonefnda Mosa, einnig ótrygg vegferð, þar til mesti hallinn er að baki og við taka sjálfar Hellurnar með vel ruddri og varðaðri hestagötu í beinstefnu á Strandartorfur. Þegar komið var niður Hellurnar sást vel til hinna grösugu Kristjánsdala er liggja norðan undir fjallshlíðum þeim er sveigjast í norðaustur frá Kerlingarskarði í átt að Vífilsfelli.
Selvogsgatan í GrafningumVel gekk lestarferðin niður Hellurnar og við taka lágholt eða hrantungur með grasgeirum og moldarrofum. Hér eru því bithagar og væntanlega þess vegna kallaðir Kaplatótur (þunnar torfur). Af landslagi þessu taka við Strandartorfur sem taldar eru hafa tengst ítökum þeirra höfðingja er sátu Strönd í Selvogi fyrr á öldum.
Lestragatan liggur nú bugðótt yfri allvel gróið, gamalt helluhraun með Húsfellið reista á hægri hönd ó norðausturátt. Austanmegin þess liggur úfið, þykk hraunbreiða og sveigist suður fyrir fellið allt niður undir Mygludali þar sem það 
stöðvast í húm hraunkambi.
Nú er kausptaðalestin komin niður úr gamalgróna hrauninu og niður í hina grösugu Mygludali er teygjast á átt til Búrfellsgjár. Þeir einkennast af nær sokknum hraunhólum niður í grassvörðinn. Hér var gjarnan áð á austurleið og klyfjar stundum teknar ofan en nú talin tímaeyðsla þar sem skammt var til ferðaloka. Þess vegna hélt lestin rakleitt áfram yfir dalina út á rauðamelinn slétta í átt til Valahnúka.
Valahnúkar eru norðaustur af Helgafelli og eru gróðurlausar svartmelhæðir með bergstrýtum uppúr. Norðan þeirra hefur fyrr verið gróið land í átt til Mygludala en er nú uppblásið. Norðan í vestasta Valahnúknum er vinalegur grashvammur er nær upp að helli inn í móberg og nefnist Músarhellir.

Selvogsgatan í Grafningum

Kaupstaðalestin er nú kominm framhjá Valabóli og eftir nokkra hlykki á hestagötunni er hún komin á lágan melás er liggur til norðurs með grösugum brekkuhalla að sunnan sem endar niður í djúpum sérkennilegum dal. Þetta er Helgadalur með vinalegri tjörn vestast er nær upp að gjáarbergvegg. Hestagatan liggur niður brekkuna nyrst ú dalnum og kemur að nefndum bergveggofan við tjörnina. Þar liggur gatan upp hið illfæra klif upp á gjáarbergsbarminn. Þegar upp er komið tekur við slétt greiðfært helluhraun, Slétthraun.
Innan við stundarfjóðung var burðarlestin að komast yfir Séttuhraun sem markaðist vestanvert af Folaldagjá, ljótri sprungu í misháum gjáarvegg er lá í átt til Gjáarréttar í norðaustri. Þar allnokkru norðar Selogslestargötu reis upp allhár bergkambur vestan við gjána og ber nafnið Smyrlabúðir. Þar verptu smyrlar í áraraðir. Þegar burðarlestin var komin norðvestur yfir Folaldagjá tóku við uppblásin melholt og vel grónir lágmóar sunnan þeirra, ásamt kjarrbreiðum og nær bithagi þessi fram í átt til háhæðar Sléttuhlíðar.

Brátt fer hið úfna apalhraun á hægri hönd að láta meira til sín taka en hestagatan fær möguleika til þess að liðast eftir vinalegum grasgeirum sunnan undir hrikalegum hraunjarðrinum á hægri hönd. Endaði þessi sérkennilega vegferð í þríhyrndi grasflöt er teygðist suður á vestrubrún Sléttuhlíðar. Þar lá gatan yfir allgróið hraun í átt til austurenda Setbergshlíðar og lá í hallanum niður að hlíðinni fast að Kershelli. Kershellir opnast til suðurs í er bolli með botngróðri er nær upp að lestargötu þeirra Selvogsmanna. Þar var talið að hraktir vegfarendur hafi leitað skjóls fyrr á tímum, sem og í Músarhelli Valabóla.
Fleiri sigbollar með smáhellum eru sýnilegir á vinstri hönd á leið niður hallan frá Kershelli uns komið er niður á jafnlendið móts við austasta hluta Setbergshlíðar. Þar með hefst síðasti áfangi leiðarinnar eftir vel ruddri hestagötu milli hinar fögru kjarrivöxnu Setbergshlíðar á hægri hönd og Gráhelluhrauns á vinstri hönd en það er gamalgróið hraun, lungi og kjarri vaxið og geymir ótal hraunbolla grasi og skógi vaxna. Þar er einnig að finna minjar um sauðfjárbúskap Setbergsbænda.
Gráhelluhraun nær frá Setbergshlíð suður ap norðausturhlíðum Ásfjalls en það mjókkar og dulúð þess magnast er nær Selvogsgatan ofan Mosadregur byggð og á sín endimörk nyrst undir Hádegisholti (eyktamörk frá Setbergi).
Kaupstaðalestin úr Selvogi hefur nú að baki götuna ljúfu undir hinni fögru Setbergshlíð og slakkan norðvestan hennar og er nú undir nyrsta hluta Hádegisholts.
Þar má sjá hinar tæru bergvatns-uppsprettur sem streyma fram undan nyrsta hluta Gráhelluhrauns og verða að straumhörðum læk er hlykkjast milli hrauntungu og láglendis suðaustur af Setbergstúnjarðri uns hann mætir læk þeim sem rennur úr Urriðakotsvatni og fer síðan niður austan við Kaplakrika til suðausturs. Sameinaðir verða þeir að Hamarskotslæk er rennur til sjávar gegnum Hafnarfjarðarbyggð vestan Hamarsins.
Vegferð lestarinnar liggur frá Lækjarbotunum í átt til Mosahlíðar á vinstri hönd og fram hjá Hvíldarbörðum sem svo voru kölluð vegna þess að fyrri tíma Hafnfirðingar settust þar niður á göngu sinni með hrísbagga sína er ætlaðir voru til eldneytis. Síðar varð þarna hinn endanlegi hvíldarstaður þeirra, Kirkjugarður Hafnafjarðar. Þar rétt neðar komum við að Selvogsgötu sem svo er nefnd vegna hinna fastmótuðu lestarferða Selvogsmanna vor og haust um aldir.
Nú er ljóst að við höfum verið rúma fjóra tíma á leið okkar úr Kerlingarskarði og þar með á tíunda klukkutíma úr Selvogi, að frádreginni áningu í Stóra-Leirdal.“
Enn sést móta fyrir stekknum vestan við Útvogsskálavörðuna. Gatan liggur niður með stekknum og verður æ greinilegri eftir því sem húm fjarlægist gróningana á hæðinni.Í lýsingunni sleppir Konráð hins vegar Skarðsvatnsstæðinu, stuttu áður en komið er að Kerlingarskarði.
Fallnar vörður og vörðubrot eru við þennan kafla Selvogsgötunnar svo til alla leiðina, frá Útvogsskála á Strandarhæð að Mosum undir Grindarskörðum. Upplýsing um tóftir bæjar Indriða lögréttumanns Jónssonar í Hlíðardal er og verður tilefni sérstakra skrifa á vefsíðuna (sjá HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Sjá MYNDIR.
Heimild:
-Konráði Bjarnasyni – 1993.

Lambagras

Búri
Þá var lagt af stað í Búra, enn og aftur. Að þessu sinni var tilgangurinn að þjálfa og undirbúa nýliða til að takast á við væntanlega hellaferð í Goðahraun. Aflóga vegstikur voru gripnar upp á leiðinni. Framlag Vegagerðarinnar til undirheimanna. Ætlunin var færa stikurnar í endurnýjun lífdaga, þ.e. nota þær til merkinga í Búra.
Gengið um fordyri BúraEkið var eftir slóða upp á Búrfell. Fálki tók sig á loft og fleytti vangdýfur til vesturs. Tignarleg sjón. Afturendaleifar á hæsta steini benda til þess að hann eigi sér makahreiður í björgunum neðanverðum. Frá efstu brún Búrfells var fetuð gata norðvestan og niður með fellinu að Ólafskarðsvegi, gengið þvert yfir hann að jarðfallinu, sem geymir op hellisins.
Annars ósnertur mosinn umhverfis geymdi spor þriggja manna – engin spor lágu til baka.
Bakpokar voru geymdir upploftis, hundar bundnir og allt skilið eftir, sem ekki var beinlínis þörf fyrir. Mittismál allra þátttakaenda uppfylltu ströng skilyrði áframhaldsins.
Búraopið er slíkt að skilyrða þarf að gæta; fætur niður, hægri handleggurinn niður og sá vinstri upp, snúningur og niðurdráttur. Með því lagi einu er hægt að komast niður í ískjallarann; fordyri Búra. Þar neðan við var sett upp stika með glitmerki Sparisjóðs Reykjavíkur. Sérstakur styrkur af hans hálfu var afþakkaður vegna áhugaleysis um að koma nýjungum á framfæri við viðskiptavini sína, þ.e. pappírslaus greiðsluseðlaviðskipti í gegnum rafnrænan heimabanka samviskusamlegra viðskiptavina hans. Þörf áminning í myrkrinu.
Gengið um hrunhluta BúraFordyrið klikkar aldrei. Þrátt fyrir að dagar grýlukertanna væru taldir þetta sumarið stóðu klakadrílin enn undir nafni. Leiðin var fetuð milli þeirra – og upp hrunið að handan. Þegar inn fyrir þrengingu þar var komið hélt gangan áfram ofan á fyrrum loftum hins víðganga Búra; þrenging, gengið niður á við, upp á við, þrenging og haldið niður á við. Þarna var sett stika, enda hefur reynslan sýnt að ekki er alltaf auðvelt að finna þröng opið í bakaleiðinni. Úr þeirri áttinni hverfur það í skriðu. Stika var sett við þrenginguna til að koma í veg fyrir að beinagrindur kunni að finnast þar í framtíðinni.
Haldið til vinstri og niður á við. Í bakaleiðinni gleymist þessi sýn gjarnan – því þá þarf að fara til hægri og upp á við. Allt slíkt er mikilvægt að leggja á minnið þegar gengið er um hellarásir. Búrarásin er tiltölulega auðveld, enda ekki um aðrar leiðir að velja, en rétt að nýta  tækifærið til að þjálfa nauðvirkileg neðanjarðarskilningarvitin.
Hér í frá, líkt og áður, þarf að gæta vel að því hvar stigið er niður. Ennisljósin eru nauðsynleg í Búra sem og handlukt að auki.
Búri - að endinguEftir allnokkurt ferðalag um jafnfallið hraun úr loftum er komið að sléttum gólffleti. Lofthæðin er um 20 metrar og breiddin um 12 metrar. Héðan er hægt að fara með veggjum og ganga þvert milli þeirra á sléttu gófinu. Framundan er ein myndarlegasta hraunrás norðan Alpafjalla; jafnsléttir veggir, brúnleitir, alsettir smáum“gaseggjum“. Þá lækkar rásin í tvennum skilningi; annars vegar lækkar lofthæðin og hins vegar lækkar gólfið. Lítill haunfoss er á skilunum. Frá honum er stutt að Svelgnum, um 18 metra djúpum hyl innst í rásinni. Lengra verður ekki farið að sinni án sigbúnaðar. Sjá má leifar festinga sem Björn Hróarsson og félagar notuðu þegar þeir sigu fyrstir manna í Svelginn (sjá stórvirkið „Íslenskir hellar“ eftir BH). Rautt glitmerki Hellarannsóknarfélagsins er við mörkin til marks um endimörk rásarinnar. Stiku var bætt um betur.
Ferðin inn eftir þessari tæplega kílómetralangri hraunrás hafði tekið u.þ.b. 30 mínútur. Ferðin til baka tók svipaðan tíma, með staldri við áhugaverðar hraunmyndanir, þökk sé fyrrum vegstikunum.
Sá, sem ætlar að ferðast um Búra, ætti að gefa sér a.m.k. 3 klst til þeirrar ferðar. Bæði þarf að fara mjög varlega í hrunum, sem varða 3/4 rásarinnar, og þá er að mörgu að hyggja á leiðinni. Góður ljósabúnaður er því og nauðsynlegur.
Þegar komið var upp úr rásinni barst söngur lóunnar á móti þátttakendum, heitkennt sumarloftið og vindurinn hafði þegar lagst til hvílu þetta kvöldið. FRÁBÆRT.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín.

Búri

Búri.

Surtla
Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla, sem var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi. Surtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.
Surtla á KeldnaveggÍ fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.
Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir langan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist. 

Surtla á Keldum

Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.
Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli. Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hangir uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum.

Herdísarvík

Mynd af Surtu greypt í Herdísarvíkurfjall.

Brennisteinsfjöll

Ætlunin var að ganga upp Fagradal og inn í Brennisteinsfjöll. Tilgangurinn var að skoða bæði Kistuhella og Kistufellshella, og jafnvel Eldborgarhella. Í Kistuhrauni eru þekktir á þriðja tug hella eins og KIS-24 (yfir 1000m langur), Snjólfur fullan af dropsteinum, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06 og hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar er margt að skoða. Í Kistufelli eru rúmur tugur hella og það stórir, líkt og KST-05 (Loftgeimur), KST-06 (Kistufellsgeimur), KST-07 (Jökulgeimur) og KST-08 (Ískjallarann). Í Eldborgarhrauni er vitað um á annan tug hella, margir af þeim smáir, en þó einnig stórir s.s. FERLIR(enn ókannaður að hluta) og Lýðveldishellir.
útsýniSvæðið á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … ósnertir litskrúðugir hellar og einstök náttúrufyrirbæri … og því nauðsynlegt að standa vörð um þessa einstöku veröld.
Upp úr Hvammadal var fylgt gömlum stíg upp hraunfoss, sem kemur þar niður hlíðina að sunnanverðu. Þennan stíg var m.a. farið á milli Kaldársels og Krýsuvíkur, en í seinni tíð einkum af rjúpnaveiðimönnum og göngufólki. Þegar upp á brúnina var komið var beygt til vinstri því ætlunin var að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunshellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun.
Á leið upp á brúnina kom í ljós stórt gat niður í u.þ.b. 30 m rás. Neðri hlutinn endar þar sem koma saman gólf og loft. Hafri er í gólfi. Efri hlutinn endar í hruni, en annað minna op er ofar. Eflaust væri hægt að fara lengra inn og áfram undir hraunið með viðeigandi búnaði. Rásin var nefnd Hvammabrúnshellir.

Hvamma

Eftir að gengið hafi verið fyrir gróft apalhraunið ofan brúnarinnar var komið inn á slétt og bert helluhraunið. Að spölkorn genginni var komið var upp á brúnina. Þaðan blasti við hið fallegasta útsýni; Kistufell lengst til vinstri (602 m.y.s), Kistugígarnir í miðið og Eldborg (570 m.y.s.) (Eldborgir) lengst til hægri. Auðvelt var að sjá hvernig landið lá framundan. Handyrtur þátttakandi festi útsýnið á blað, enda ekki hægt að taka mynd af því á eitt myndskeið. Við þessa mikilfenglegu sýn hallaði einn leiðangursmanna sér að öðrum og sagði: „Veistu hvenær þú ert kominn á leiðarenda?'“ „Við dauðann“, svaraði hinn að bragði. „Nei“, ekki alveg, dauðinn er einungis lokaáfanginn. Þú ert loksins kominn á leiðarenda þegar þú getur snert sjóndeildarhringinn. Sjáðu“, sagði hann, og teygði fram höndina mót fjallahringnum þar sem himinn og jörð runnu saman.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Á leiðinni upp eftir komu í ljós nokkur falleg vatnsstæði í grónum bollum grunnra hraunrása. Í einni þeirra voru op inn í sæmilegar rásir. Tekin voru hnit, en rásirnar ekki skoðaðar að þessu sinni.
Þegar komið var undir brúnir Kistu var haldið upp eftir vestanverðum hlíðunum og staðnæmst við op Lýðveldishellis (KIS-30). Hellir þessi er skammt neðan (suðaustan) undir lítilli eldborg austan undir brúnum Háborgar (Eldborgar þeirrar er stendur hæst á brúnum Brennisteinsfjalla, en Eldborgin sjálf er skammt norðar, mjög umfangsmikil, en stendur lágt í hrauninu. Hæst ber norðurbrún hennar). Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson fundu þennan helli árið 1994, þann 17. júní. Þeir voru þá á ferð þarna í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til duttu niður um opið á þessum 200 metra helli. FERLIR leitaði hans á sínum tíma og uppgötvaði þá Þjóðhátíðarhelli Norðamanna (HVM-07), en þann dag bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt frá hvoru öðru, en reyndar í sitt hvoru hrauninu.

17. maíÞá var stefnan tekin á FERLIR suðvestan undir Háborginni. Hellirinn, sem er með þeim litskrúðugri á landinu, var skoðaður hátt og lágt. Í fyrstu virtist hluti neðri rásarinnar hafa hrunið að hluta því hinn fallegi og einstaki grænleiti hraunfoss fannst ekki við fyrstu sín. Þegar reyndari hellamenn fóru síðan um rásirnar og beygðu inn í þær á réttum stöðum kom hann í ljós, á sínum stað og óskemmdur.
Næst var tekið hús á Kistuhellunum nokkur austar. Kistuhraun er suðsuðvestan við Kistufell, nær miðja vegu milli Kistufells og Eldborgar í Brennisteinsfjöllum. Efst á brúnum er mikil hraunbunga sem nefnd hefur verið Kista. Eldstöðin samanstendur einkum af tveim stórum gígum. Gígarnir eru báðir sporöskjulaga og hvor um sig um 150 metrar á lengd. Kringum eldvörpin sem hafa verið virk samtímis hefur hlaðist upp mikil hraunbunga. Svo virðist sem hrauntjörn hafi verið í gígunum um tíma og þá haft afrennsli um hraunhella.
Hraunið leggst ofan á Kistufellshraun í norðri og Hvammahraun í suðri og því yngra en þau enda talið runnið nálægt árinu 1000 eða um það leyti sem íslenskir ráðamenn voru keyptir til þess af norsku hirðinni að taka upp kristna trú og má því með sanni kalla kristnitökuhraun. Hraunið er hér nefnt Kistuhraun í heild sinni en sumstaðar er sá hluti þess sem rann niður af Lönguhlíð ofan Breiðdals nefnt Breiðdalshraun.

JökulgeimirÍ nóvember 2002 héldu Björn Símonarson, James Begley og Jakob Þór Guðbjartsson til hellaleitar í Brennisteinsfjöll. Var gengið í átt að Kistufelli. Í hrauninu milli Kistufells og Eldborgar á Brennisteinsfjöllum skráðu þeir félagar 16 hella. Þeir tilheyra flestir sama kerfi og eru því göt í sama hraunstraumi. Heildarlengd hraunrásarkerfisins er um 600 metrar, þ.e. vegalengdin frá upptökum að þeim stað sem nýrri hraun renna yfir er um 600 metrar. Kerfið er nokkuð flókið og rennur í mörgum samsíða hraunrásum. Rásirna eru frá 10 m á lengd og upp í 1000m. Þarna eru m.a. tveir hellar hlið við hlið (KIS-5) með fallegum flórum. í KIS-07 renna þrjár rásir saman og mynda fallega og stóra rás. Góð lofthæð, rennslisform, fallegir bekkir og gljáandi veggir. Heildarlengd hellisins er um 130 metrar. Um nokkuð flókinn helli er að ræða með nokkrum hellismunnum. Í KIS-09, sem er um 130 metrar á lengd, er um að ræða flókið kerfi sem liggur í a.m.k. tveim samsíða rásum sem tengjast með þröngum göngum. Í hellinum eru fallegir hraunfossar og ísmyndanir. KIS-24 er mikill og glæsilegur hellir með mörgum fallegum göngum. Þunnfljótandi hraunlag hefur slétt út gólfin og myndað þunna skán. Afhellar eru hingað og þangað. Ein rásin liggur þvert á meginrás og úr henni nokkrar aðrar. Fallegir bálkar með veggjum og litadýrð. Gljáfægðir separ í loftum, hraunsúlur og svo mætti lengi telja. Nokkrar 100 metra rásir eru þarna og fjölmargar styttri eða hringrásir. Þarna væri hægt að dvelja klukkustundum, eða jafnvel dögum saman og alltaf finna eitthvað nýtt.

Í BrennisteinsfjallahellumHellirinn er langt í frá fullkannaður en heildarlengd hans hefur verið áætluð 800 metrar. Þá má nefna KIS-27, sem einnig hefur verið nefndur Sá græni. Þessi hellir sem fékk viðurnefnið „Sá græni“ er um 240 metra langur. Niðurfallið er djúpt og í því gróður sem hellirinn dregur nafn sitt af. Þaðan eru um 40 metra löng göng upp eftir rennslisstefnu hraunsins og tvenn göng niðureftir, önnur um 60 metrar og hin um 140 metra löng. Fremur þröngt er víðast í hellinum og á sumum stöðum skiptast göngin í þrenn göng sem sameinast síðan aftur.
Þá var haldið yfir að hraunróti norðaustan hellasvæðis Kistu. Á leiðinni var gengið fram á tvö op. Undir því fyrra var um 100m rás. Hafraður hraunflór var í botninum. Þegar gengið var upp eftir rásinni var hægt að komast upp um op þar. Skammt norðar var lítið gat niður í jörðina og grönn rás. Hún var ekki könnuð að þessu sinni. Hæðin, sem myndar undirstöðu Kistunnar er mun eldra, líklega frá sama tíma og Kistufellið. Gróið er í sauminn svo auðvelt var að fylgja honum upp í Kistuna. Kistan er, eins og fram hefur komið, tvö eldvörp, um 120m hvort. Út frá þeim liggja fallegar hrauntraðir, bæði til suðurs og norðurs.
Í BrennisteinsfjöllumÞegar komið var niður að hinum stóru Kistufellshellum var ákveðið að fara einungis inn í einn þeirra að þessu sinni, Jökulgeimi. Snjór var framan við opið, en þegar inn var komið blasti við hvítt jökulgólfið, grýlukerti úr loftum og fallegir „ísdropsteinar“ á gólfi. Hitastigið inni var rétt um frostmark og það í júlí. Ekki var haldið inn yfir hrunið og inn í rásina að þessu sinni.
Skammt norðvestan við hellasvæðið var myndarlegt vatnsból. Þegar komið var inn á slétt Eldborgarhraunið á nýjan leik með stefnu niður að Fagradalsbrún kom í ljós op. Inn undir þar var u.þ.b. 30m löng rás, alveg heil, sem opnaðist í hinn endann. Botninn er sléttur, hæðin um 2m og breiddin um 5 m. Henni var gefið nafnið Opið. Erfitt er að koma auga á það í annars sléttri hraunhellunni, en við það eru tveir steinar, annar ofan í hinum.

Ferðin niður að Fagradalsbrún gekk vel, sem og niðurgangan. Útsýni er fallegt ofan af brúninni yfir Breiðdal, Undirhlíðar, Háuhnúka, Móskarðshnúka og yfir nánast allt höfðuborgarsvæðið að handan.
Björn Hróarsson hafði fyrir skömmu farið á þær hellaslóðir, sem lýst hefur verið. Hann flaug þangað með þyrlu. Sú ferð tók hann 12 mín. Hann lenti þá við Lýðveldishellinn og varð þar eftir með öllum búnaði. Að því búnu heimsótti hann 18 hella og fann einn nýjan fullan af dropsteinum er hann nefndi Snjólf. Sá hellir fannst ekki í þessari FERLIRsferð.

ÚtsýniVið athugun Björn kom í ljós að Lýðveldishellirinn er í Kistuhrauni en ekki í hraunum Eldborgar. Þá gekk hann á Eldborg, skoðaði gatið við Eldborgina (HVM-19), þá yfir í Þokuslæðing (Áttatíumetrahelli) og þaðan í Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna, í Ferlir og dvaldi þar um stund, þá inn fyrir fimm hellismunna í KIS-24 og þvældist þar lengi … „Báða þessa hella þarf að kortleggja en það kæmi mér ekki á óvart þótt þær væru yfir kílómetri hvor um sig“ … gekk þá upp Kistuhraunið að meintum helli við hraundrýli (KIS-15) en var ekki markvert, gekk þá um eldvörp Kistunnar og fann þar hellinn Snjólf fullan af dropsteinum, þaðan var haldið í hellana vestur frá Kistu og margir þeirra skoðaðir og myndaðir, svo sem þessir og fleiri, KIS-21, KIS-07, KIS-09, KST-07, KST-06, hellirinn KIS-09 er sérlega áhugaverður hellir og þar margt að skoða … „Þá var gengið að Kistufellshellunum … og þar sem annars staðar á svæðinu tókst mér að laga lýsingar verulega“ … dvaldi hvað lengst í KST-05 (Loftgeimur) en einnig í KST-06 (Kistufellsgeim), KST-07 (Jökulgeim) og KST-08 (Ískjallarann) … gekk þaðan að gígnum og síðan töluvert á einhverja vitlausa punkta … og þaðan að götunum sem við tókum punkta á í snjónum (fyrir ári)… með mikilli leit í og með að götunum tveim … þau fundust ekki … og annað gatið sem við tókum punkt af í snjónum var ekki neitt…
Kistufell En hitt alveg geggjað … það er um 7 metra djúp gjóta og mér tókst að klifra þangað niður (og upp aftur) við illan leik … á botni þessarar 7 metra djúpu gjótu sést niður í hellisrás milli tveggja grjóthnullunga sem varna för niður í hellinn … Þarna þarf sem sagt vaska menn með járnkarla …. til að opna niður og um að gera að benda þeim á sem næst verða þarna á ferðinni með járnkarla í hendi að fara niður og færa til grjótið …. hafa þarf þó línu því það er ekki á allra færi að klifra niður og upp úr holunni … þaðan var gengið fram á brún Kerlingargils og niður það við illan leik … enda byrðin mikil og þreytan enn meiri … úrvinda komum við niður að bifreið sem beið okkar neðan Kerlingargils …. þá var klukkan korter yfir eitt eitt eftir miðnætti … og tók ferðin þvi 17 klukkustundir … og mátti ekki lengri vera … en hefði tekið um 20 klukkustundir ef ekki hefði verið notast við þyrlu … en var held ek vel varið … í það minnsta batnaði lýsingin á svæðinu og hellum þess verulega.“
Lokaorðin verða Björns og er óhætt að taka undir sérhvert orð með honum: „Svæðið þarna uppi á Brennisteinsfjöllum (Kistufell, Kista og Eldborg) er ótrúlegur undraheimur … og ósnertur … við þurfum að standa vörð um þessa einstöku veröld.“
Ferðin, sem tók 12 klst, var í einu orði einstök – enda gengið um einstakt svæði. Af því var gengið í 5 klst og 45 mín. Frábært veður.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.

Þorbjarnarfell

Jón Þór Jóhannsson skrifaði eftirfarandi hugleiðingu í Þjóðviljann árið 1990 undir fyrirsögninni „Síðasta geislastoð Pikta„:

Jón Þór Jóhannsson

Jón Þór Jóhannsson.

„Piktar voru keltnesk þjóð sem bjó norðan múrs Hadríans í Skotlandi og í eyjunum þar norður og vestur af. Þjóðin hét svo af völdum rómverskra sagnaritara. Er nafngiftin talin þýða „málaða fólkið“, en það er hvorki víst né hitt að þeir hafi málað sig í raun og veru, því rómverskir sagnaritarar gáfu þjóðum ýmis nöfn. Piktar gerðu stundum bandalag gegn Rómverjum við aðra keltneska þjóð, Skota, en svo nefndu Rómverjar íra.
Piktar gerðu sér á steinöld borgir og standa sumar þeirra enn og nefndu þær „broch“, þ.e. brök, líkar öldruðum súrheysturnum. Í þeim og umhverfis þær bjuggu þeir fram á 3.-4. öld e.Kr.
Piktar á Hjaltlandi komu þó fram með nýjung í byggingalist snemma á 2. öld, svonefnd hjólhýsi („wheel-houses“), svo nefnd vegna þess að þau voru hringlaga með geislastoðum („radial piers“). Þessi hús finnast líka á Suðureyjum frá svipuðum tíma, svo sem í Dun Mor Vaul. Þessi hjólhýsi hverfa aftur á Suðureyjum á tímanum 200-400 e. Kr., en eins og Lainghjónin orða það í nýtútkomnu riti sínu um Kelta á Bretlandseyjum. „Celtic Britain and Ireland“: „Í Hjaltlandi gætu hjólhýsi enn hafa verið í notkun þegar víkingar komu þangað.“

Lindesfarne

Lindesfarne – árás víkinganna á klaustursbúa.

Engin önnur þjóð í veröldinni gerði geislastoðir sem uppistöðu í hús sín. Þær eru piktísk uppfinning og liðu undir lok ásamt Piktunum sjálfum þegar víkingar komu til Hjaltlands rétt fyrir 800.
Í millitíðinni höfðu Rómverjar farið frá Bretlandseyjum, írar gerst kristnir og loks einnig Piktar.

Lindesfarne

Lindesfarne-klaustrið 1814.

Munklífi þróaðist og þeir menn sem íslenskar bækur kalla Papa bjuggu á úteyjum við rýran kost og hafði hver maður sinn kofa. Voru sumir kofarnir hringlaga og aðrir ferningslaga. Á öðrum stöðum voru rík klaustur með veglegum byggingum, svo sem á eynni Lindisfarne.
Eldvörp
Keltnesk kristni var í blóma, en þá hrundi veröldin. Árið 793 réðust víkingar á Lindisferneklaustrið og lögðu það í rúst. Þessi kelfilegu tíðindi bárust um allt og náðu loks rétt á undan víkingunum sjálfum norður tii Hjaltlands, þar sem sátu klerkar af piktísku kyni í hjólhýsum sínum og hugleiddu. Nokkrir þeirra tóku til bragðs að setja klukkur sínar, bagla og guðsorðabækur í kúraka sína og sigldu til hafs. Það var um jólaleytið 793. Þeir ætluðu til Færeyja, en þar áttu þeir griðland. Gerði aftakaveður, hver lægðin gekk yfir af annarri og loks náðu þeir landi, en það var ekki Færeyjar. Þetta reyndist land sem ávallt hafði verið óbyggt, „semper deserta“, eins og þeir orðuðu það seinna við rithöfundinn Dicuilus. Það var nánar tiltekið í Grindavík á Íslandi 1. febrúar 794.
Þeir voru ekki alveg öruggir um sig í þessu ókunna landi, drógu því kúrakana á land og báru á sjálfum sér upp í landið, vestur fyrir Þorbjarnarfell, þar út í hraunið. Þar hlóðu Piktar sína síðustu geislastoð.“

Heimild:
-Þjóðviljinn, 171. tbl. 13.09.1990, Síðasta geislastoð Pikta – Jón Þór Jóhannsson, hugleiðing, bls. 5.

Heimildir:
Lloyd & Jennifer lang 1990: Celtic Britain and Ireland, The Myth of the Dark Ages, Irish Academy Press. Jón Jóhannesson 1956: Íslandssaga I, Ísafoldarprentsmiðja.

Eldvörp

Nýfundið byrgi í Eldvörpum.

 

Urriðakotsfárhellir

Gengið var eftir göngustíg í gegnum Búrfellshraun frá Maríuhellum að Selgjá.
Í leiðinni var m.a. komið Stekkjarréttvið í Þorsteinshelli (Saupahellinum syðri), fornu vel duldu fjárskjóli með miklum hleðslum í. Litið var á fornt fjárhús og gróna fjárborg, sem ekki er getið í örnefnalýsingum, nema ef vera skyldi Fjárhústóftin nyrðri. Í Selgjá höfðu 11 bæir frá Görðum selstöðu fyrrum. Gengið var um gjána og minjarnar skoðaðar. Þá var haldið í Búrfellsgjá (Réttargjá) þar sem Búrfellsréttin (Gjáarrétt) og Gerðið voru skoðuð. Rifjaður var upp aldur og tilurð umhverfisins áður en haldið var aftur að upphafsstað. Ætlunin var að skoða umhverfið út frá minjunum og örnefunum á leiðinni.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Urriðakot segir m.a. um göngusvæðið og nágrenni: „Héðan liggur svo landamerkjalínan í Máríuhella, en Urriðakotshellir heyrði til Urriðakoti. Síðan lá línan suður eftir hraunbrúninni og var þar ekki örnefni utan Sauðahellirinn nyrðri í brúninni móti Kolanefi. Þegar haldið var suður með hraunbrúninni var fyrst fyrir Dyngjuhóll eða Hraunhóll með Dyngjuhólsvörðum. Suðvestan undan hólnum var Dyngjuhólsflöt. Sunnan við tók við Bruninn.
SaudahusÞar út í var Smyrilsklettur og Grásteinn en framhjá honum lá Grásteinsstígur þvert yfir hraunið frá Hraunhorni sem var nokkru sunnar með hraunbrúninni, en sunnar við það var svo Hraunhornsflöt. Hér nokkru sunnar er komið í Stekkinn. Þar var Stekkatúnið, hvammur í hrauninu. Þarna var líka Stekkatúnsrétt eða Gamla réttin sem var í hraunbrúninni nokkru sunnar. En Einbúinn var hraunhóll á hrauninu austur frá Stekknum. Hér framar er komið í Kúadali og liggur Kúadalastígur upp og út í hraunið. Vestur frá Kúadölum er Skotbyrgi gamalt. Þar vestar er hraunhóll mikill og við hann er Fjárhúsréttin nyrðri en austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús. Hér nokkru innar er í hrauninu svokallað Tjarnholtsgreni móts við Mið-Tjarnholt. 

Fjarhustoftin sydri

Spölkorn hér fyrir innan, eða sunnan, liggur Gjárréttarstígurinn upp á hraunið og skáhallt yfir það. Þar er komið að Sauðahellinum syðra. En Sauðahellisvarða er þar rétt hjá. Hér í norðvestur er mikil lægð í hraunið sem nefnist Flatahraun og nær norður á móts við Kolanef. Þar á hrauninu er stór hóll, nefnist Einstakihóll, og liggur Heiðmerkurvegurinn rétt hjá honum og suður eftir. Þegar komið er framhjá Sauðahellisvörðu hallar niður í Selgjána og nefnist þá stígurinn Selgjárstígur. Vestast í Selgjánni er Selgjárhellir. Fjarhustoftin nyrðriSelgjárbyrgin og Selgjárselin eru 33 að tölu í 11 sambyggingum því hér höfðu Álftnesingar í seli lengi eða allt fram á 18. öld.
Saudahellirinn sydriVið Selgjárbarminn nyrðri er svokallaður B-steinn, steinn með bókstafnum B. Á suðurhlið er svo Selgjárbarmurinn syðri. Við syðsta selið liggur stígurinn upp á barminn og er það Selgjárvarðan. Þegar kemur hér spölkorn suður er komið að úfnu hrauni fram undan Svarthömrum, nefnist Kargi. Selstæðið þarna var einnig nefnt Norðurhellar, Norðurhellnasel og barmarnir því kallaðir Norðurhellnaselsbarmur nyrðri og Norðurhellna[sels]barmur syðri. Frá Markavörðu á syðri barmi Norðurhellnagjár lá landamerkjalínan suðvestur í Markastein syðst á Tjarnholtinu syðsta og er þar hornmark. Héðan liggur svo línan frá Markasteinaþúfu um Þverhlíðarþúfu á Þverhlíð og um Flóðahjallatá, en þar var Flóðahjallatávarða, og síðan í Álftartanga sem áður er nefndur. Þrjú eru Tjarnholtin, syðsta er þegar nefnt. Þá er Mið-Tjarnholt og þá Nyrsta-Tjarnholt eða Litla-Tjarnholt. En milli Tjarnholta og Þverhlíðar er Dalurinn syðri eða eins og hann er stundum kallaður, Urriðakotsdalur syðri, og líka var hann nefndur Efri-Flatir. Hér um lá troðningur og niður um holtið nefndist Syðridalatroðningur, hann lá framhjá svonefndum Grjóthól um Grjóthólsflöt niður undan honum, en hér var kallað holtið Milli dala og þá lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn. Hraunið allt austan og ofan Urriðakotsholts nefndist Urriðakotshraun“.

Nordurhellrasel

Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir svæðið segir m.a.: „Hraunbreiðan milli Urriðakotsholts og Vífilsstaðahlíðar nefnist einu nafni Svínahraun, en nyrðri hluti hraunsins, sem er í Vífilsstaðalandi, er nefndur Vífilsstaðahraun, en syðri hlutinn, sem er í Urriðakotslandi er kallaður Urriðakotshraun. Vífilsstaðahlíð, sem er í Vífilsstaðalandi, mun áður hafa verið nefnd Svínahlíð. Í Svínahrauni rétt norðaustan við vegamót Flóttavegar og Heiðmerkurvegar eru Maríuhellar. Þeir eru tveir og eru á mörkum Urriðakots og Vífilsstaða. Hellarnir voru fyrrum notaðir sem fjárhellar. Nyrðri hellirinn var notaður frá Vífilsstöðum, en hinn frá Urriðakoti. Þessir hellar eru oftast kallaðir Vífilsstaðahellar. Suður af hellunum rétt sunnan við Heiðmerkurveginn er stór hraunhóll sem áður var með einni vörðu, en nú með mörgum. Hann kallaði Urrið[a]kotsfólkið Dyngjuhól, en Vífilsstaðafólkið Hádegishól, og var hann eyktamark þaðan. Suðvestur af honum er lítil flöt við hraunjaðarinn, Dyngjuhólsflöt. Suðaustur af Dyngjuhól er hraunið mjög úfið og kallast Bruni.
GjaarrettStórum hluta Brunans hefur verið spillt með efnistöku. Í Brunanum skammt suðvestan við Heiðmerkurveginn er stór, stakur hóll, Einstakihóll.
Nokkru sunnan við Dyngjuhólsflöt gengur smáhorn suðvestur úr hrauninu, sem kallast Hraunhorn. Sunnan við Hraunhornið var flöt, sem nefnd var Hraunhornsflöt. Henni var spillt með byggingaframkvæmdum á stríðsárunum. Norðaustur af Hraunhorni er hár klettur inni í hrauninu, Smyrilsklettur. Þar verpti smyrill. Nokkurn spöl suðaustur af Hraunhorni er vik inn í hraunið, og liggur Grásteinsstígur þar inn í hraunið. Hann dregur nafn af stórum, gráum steini, Grásteini, við stíginn í hrauninu. Skammt sunnan við vikið, sem Grásteinsstígur liggur um, er gömul rétt, sem kölluð var Stekkjartúnsrétt, eða aðeins Stekkjartún.

Gerdid

Við hraunið nokkru suðaustar er önnur rétt nafnlaus, sem byggð var í minni heimildarmanns. Norður af henni er áberandi hóll í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns. Austur og suðaustur af beitarhúsrústunum er hraunið tiltölulega slétt og lægra en umhverfið og nefnist Flatahraun. Flatahraun nær norður á móts við Kolanef í Vífilsstaðahlíð. Í Flatahrauni hefur verið gróðursett töluvert [af] furu og greni. Í norðaustur frá rústum beitarhússins í norðausturbrún hraunsins gegnt Kolanefi í Vífilsstaðahlíð við Kolanefsflöt, sjá örnefnaskrá Vífilsstaða, er lítill hellir, sem nefnist Sauðahellir. Veit op hans að hlíðinni, og eru hlaðnir kampar báðum megin við innganginn. Við hann var sauðum frá Urriðakoti gefið á gadd (á jörðina) allt frá því, að heimildarmaður man fyrst eftir sér til 1933. Heyið var borið heiman frá Urriðakoti í poka á bakinu.
Gerdid-2Úfna hraunið á móts við Svarthamra í Vífilsstaðahlíð kallast Kargi. Suður af Karganum er mikil hrauntröð, Selgjá. Hún er framhald Búrfellsgjár, sem nær upp í Búrfell. Í Selgjá eru rústir af mörgum gömlum byrgjum, og eru sum þeirra í Urriðakotslandi, en flest í Garðakirkjulandi. Við norðausturbarm Selgjár, niðri í gjánni, er svokallaður B-steinn, en svo er nefnd hraunhella, sem rís þar upp á rönd líkt og legsteinn og bókstafurinn B hefur verið höggvinn í. Í neðri (norðvestur) enda Selgjár er Selgjárhellir. Í landamerkjabréfi er Selgjá nefnd Norðurhellagjá. Er það nafn þá dregið af Selgjárhelli og fleiri hellum í norðurenda hrauntraðarinnar, sem hafa þá heitið Norðurhellar. Heimildarmaður kannast ekki við þessi nöfn úr mæltu máli. Örskammt norðvestur af Selgjárhelli er Sauðahellir.
VifilsstadahlidSauðahellirinn er norðan við vörðu við Gjáarréttargötu, en Gjáarréttargatan er vörðuð í gegnum hraunið alla leið austur með Sneiðingum í Vífilsstaðalandi. Þessi hellir mun hafa verið notaður á svipaðan hátt og fyrr nefndur Sauðahellir, en fyrir minni heimildarmanns.
Suðsuðvestur af neðri enda Selgjár er holt vestan við Urriðakotshraun. Nefnist það Syðsta-Tjarnholt. Syðst á holtinu er stór klettur með grasþúfu uppi á. Hann nefnist Markasteinn og er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs.“
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Urriðakot.
-Örnefnalýsing Svans Pálssonar fyrir Urriðakot.

Búrfellsgjá

Gjáarrétt og Gerðið í Búrfellsgjá.