Byrjað var við Stóru-Voga (eftir stutta heimsókn til allrafróðleikara í Vogum, Viktors og JóGu). Í Jarðabókinni 1703 segir að jarðadýrleiki sé óviss. “Hrolllaugur sem fékk Vatnsleysustrandarhrepp hjá Eyvindi landámsmanni bjó í Kvíguvogum. Kvíguvogar er getið í Sturlungu. “Í máldaga í Kvíguvogum frá árinu 1367, segir að 18.4.1434 hafi jörðin verið seld fyrir 60 hundruð.

Árið 1703 er þess getið að Snorrastaðir, forn eyðihjáleiga, hafi verið lögð undir jörðina. Hjáleigur jarðarinnar árið 1703 voru Eyrarkot, Gata og Syðsta hjáleiga í byggð. Eyðihjáleigur voru Tjarnarkot, Valgarðshjáleiga, Garðhús, Móakot, Halakot og Krunakot [Bræðrapartur]. Seint á 18., öld er getið um hjáleigu sem nýtt var sem lambhús. Hjáleigur í byggð 1847 voru Eyrarkot, Tumakot, Suðurkot og Tjarnarkot. Nýibær, Stapabúð, Brekka, Steinsholt, Klöpp, Garðbær, og Hábær voru afbýli byggð á 19. öld. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900 en saga þess er rakin annars staðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónsson um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Upprunalegt nafn bæjarins er Kvíguvogar”, eins og segir í örnefnalýsingu fyrir Voga.
Einnig er heimild um útkirkju í Stóru-Vogum, sbr.: “Upphaflega voru þrjár kirkjur á Ströndinni, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkjan á Kálfatjörn.” Einnig[1367]: “lxv. Mariu kirkia og hinz heilaga Thorlaks Biskups j kuiguvogum a xc j heimalande. vj ær. ij saude tuævetra. les Vilchinsbok; Hítardalsbók 1397: a .xc. j Heimalandi p ortio Ecclesiæ vmm iiij ar .iiij. merkur þau sem Andries Magnusson a ad svara. Þar skal takast heimatiiund heimamanna.” Árið 1598 er þarna “hálfkirkja”.
Um Minni-Voga segir í Jarðabókinni 1703: “Konungseign. (1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska). Hjáleigur í eyði 1703: Eyrarkot og Hólshjáleiga ásamt tómthúsinu Renslutóft.” Norðurkot var hjáleiga í byggð 1847. Óljósar sagnir eru um býli nefnt Hólkot, en engar upplýsingar hafa varðveist um það. Mýrarhús, Austurkot, Helgabær, Mörk og Grænaborg voru afbýli sem byggðust í landi Minni-Voga eftir 1847. Þéttbýli tók að myndast í landi Stóru- og Minni-Voga í kringum aldamótin 1900, en saga þess er rakin annars staðar, svo sem í bók Guðmundar Björgvins Jónsson um Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi.”
Hábæjarbrunni er einnig lýst í örnefnaskrám: “Hábær stendur í Hábæjartúni en heima frá bæ liggur Hábæjarstígur í Hábæjarvör. Rétt hjá bænum var Hábæjarbrunnur.” Brunnurinn fannst ekki við leit. Vogaskóli hefur verið byggður þarna skammt frá, auk þess sem svæðinu hefur verið raskað verulega frá því sem var. Hábæjarstígur er t.a.m. horfinn.
Vogarétta er einnig getið í örnefnaskrám. Um þær segir m.a.: “Ofan Moldu eru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar- Rosmhvalanes- Hafnar- og Grindavíkurfjárbændur. Innan réttanna er hóll, kallast Sandhóll, þar má sjá rústir nokkrar.” Vogaréttir voru þar sem nú er fiskeldisstöð vestan Voga. Þegar það var reist á seinni árum var öllu umbylt á svæðinu, þ.á.m. það em eftir var af réttinni. Áður hafði megnið af grjótinu úr henni var tekið í hafnargerð í Vogum á sínum tíma. Allar minjar um Vogaréttina eru því horfnar. Sesselja Guðmundsdóttir man vel eftir henni sem krakki. “Það var mikið sport að fara þangað með nesti.”

Loks má geta Stóru-Vogabrunnar. Um hann segir í nefndum örenfaskrám: “Heiman frá bæ lá Stóru-Vogastígur niður í Stóru-Vogavör við Stóru-Vogatanga. Upp af Vörinni var Stóru-Voganaust og Stóru-Vogasjóhús. Milli sjávar og bæjar var Stóru-Vogabrunnur.” Í dag hefur verið hlaðinn sjóvarnargarður með ströndinni. Tiltölulega stutt er milli hans og bæjarhólsins. Engan brunn er þar lengur að sjá, enda Ægir eflaust gengið mjög á landið þarna á umliðnum árum.
Â Í skránum er einnig getið um verbúð frá Stóru-Vogum, sbr. “Og frá þeim Ós eiga Minni-Vogar fjörur suður að gömlum lendingarstað, er kallast Búðavör”. Á öðrum stað segir: “Hér tala við Austurkotsfjörur allt um Búðarvör eða Lendingarstaðinn gamla. Þar upp af var Búðin eða Verbúðin en austan til við Mýrarhús var Búðartjörnin.” Að sögn heimildarmanns, Ásu Árnadóttur, voru sjóbúðir og útgerðarminjar vestan og norðan við Búðartjörn. Allar minjar vestan tjarnarinnar hafa verið eyðilagðar með háum sjóvarnargarði en engar minjar voru sjáanlega sunnan tjarnar, verbúðirnar voru um 90 metra norðvestur af Mýrarhúsum 010. Vestan tjarnar er sjóvarnargarður, en norðan Búðartjarnar eru mjög blautt mýrlendi og ef þar hafa verið byggingar hafa þær sennilega horfið.”
Austan réttarinnar má sjá hleðslugarða á klapparhrygg, hlaðið gerði skammt norðar og hlaðið byrgi utar á tanga. Allt hefur þetta sennilega tilheyrt Gænuborg fyrrum. Ofar er hleðsla, að því er virðist af niðurgengnum brunni”. Lýsing af honum fylgir næstu FERLIRferð.
Ofar (sunnar) má enn sjá varðaða leið milli Voga og Vatnsleysu (Kálfatjarnar). Einstaka varða stendur enn óhögguð, en aðrar eru nú orðnar jarðlægar – blessaðar.
Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.