Í samantekt FERLIRs um Selatanga, hinu fornu verstöð, má sjá ýmsan fróðleik.
Krýsuvíkur- og Ísólfsskálabændur, auk leiguliða Skálholtsbænda reru frá Selatöngum. Sagnir eru og um að Skálholtsstóll, sem átti m.a. veruleg ítök í Grindavík sem og annars stað á sunnanverðum Skaganum, hafi gert langtíma út frá Töngunum. Sagt er að síðast hafi verið róið þaðan árið 1884, en vitað er að bæði róður og selveiðar voru stundaðar nokkur ár eftir það. Síðar var oft lent á Selatöngum, ef lending var ófær annars staðar, meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Járngerðarstöðum, Hrauni og víðar.
Við Dágon, klett í fjörunni á Selatöngum, eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Dágon er nú minnstur og austastur þriggja kletta neðan við vestustu sjóbúðina. Neðan Dágons, við lágfjöruborð, er LM (landamerki Krýsuvíkur og Ísólfsskála) markað í klöppina. Ögmundarhraun (rann 1151) umlykur Selatanga. Þar sjást enn miklar og heillegar rústir verbúðarmannvirkja, hlöðnum úr hraungrýti. M.a. má sjá þar tóftir sjóbúða, hlaðin fiskbyrgi þar sem hertur fiskur var geymdur, og fiskgarða þar sem fiskurinn var þurrkaður þegar gaf. (Jón benti FERLIRsfélögum á áletrunina).
Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella, en talið er að þeir hafi verið notaðir sem byrgi. Vestan við Selatanga er hellir (Mölunarkór) sem sagður er hafa verið notaður til „eldamennsku“ – mötuneyti þess tíma, og Smíðahellir er vermenn notuðu til smíða í landlegum. Einnig má sjá þarna a.m.k. fjórar hlaðnar refagildrur frá síðustu öld.
Á Selatöngum gekk afturgangan Tanga-Tómas ljósum logum, svo hatrömm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu á drauga. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Selatöngum og nágrenni, einkum þegar skyggja tekur.
Hér má lesa meira um Selatanga:
Núverandi minjar á Selatöngum eru líkast til innan við tveggja alda gamlar. Þær hafa eflaust tekið allnokkrum breytingum frá því að verstöðin var fyrst notuð sem slík. Eldri minjar hefur sjórinn náð að afmá með landbroti. Á Selatöngum má enn sjá greinilega tóftir tveggja búða (vestustu búðarinnar og austustu búðarinnar), auk þess sem sést móta fyrir útlínum þeirrar þriðju miðsvæðis. Þar eru og a.m.k. þrjú verkunarhús þar sem gert var fyrst að fiski, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, þurrkreitir, brunnur, smiðja, skútar með fyrirhleðslum, hesthús, Nótarhellir (þar sem dregið var fyrir sel), Mölunarkór eða Sögunarkór og Smíðahellir, auk gamalla gatna og hlaðinna refagildra.
Vestan við Selatanga er hið merkilega náttúrufyrirbrigði „Ketillinn“ í Katlahrauni. Skammt norðan hans er hlaðið fjárskjól þeirra Vigdísarvallamanna. Talið er að verstöðin á Selatöngum hafi lagst af um 1880. Sumardag einn árið 2002 var gengið um Selatanga með Jóni Guðmundssyni2 frá Ísólfsskála, sem man eftir minjunum eins og þær voru eftir að verstöðin var yfirgefin. Hann kom m.a. með föður sínum í vestustu sjóbúðina árið 1926 er Skálabóndi gerði enn út frá Töngunum. Afi Jóns, Guðmundur Hannesson, reri frá Selatöngum með sonum sínum, Brandi og Hjálmari, á sumrin á árunum 1880 til 1884. Reru þeir á bát, sem þar var og héldu þá til í búðinni. Guðmundur bjó þá á Vigdísarvöllum.
Jón minnist þess vel að reki var reiddur frá Selatöngum að Ísólfsskála eftir vestari Rekagötunni, sem enn mótar vel fyrir og liggur í gegnum Ketilinn og áleiðis heim að Skála. Leiðin er vörðuð að hluta og víða sjást í klöppinni för eftir hófa og fætur liðinna alda. Austari Rekagatan liggur til norðausturs vestan Vestari-Látra. Rekagöturnar voru einnig nefndar Tangagötur eða Lestargötur, allt eftir notkun og tilgangi á hverjum tíma.
Í ferð með Jóni Guðmundssyni frá Skála var tækifærið notað og svæðið rissað upp eftir lýsingu hans. Fylgir uppdrátturinn þessum skrifum. Sennilega er þetta eina heillega rissið, sem dregið hefur verið upp af þessu útveri, einu heillega sem enn er eftir á Reykjanesskaga.
Jón vísaði m.a. á það helsta, sem kemur við sögu hér á eftir, s.s. smiðjuna, skútana, lendinguna og Dágon (landamerkjastein Ísólfsskála og Krýsuvíkur, en verstöðin er að mestu innan landamerkja síðarnefndu jarðarinnar).
Á sléttri klöpp neðan við Dágon eru klappaðir stafirnir LM (landamerki). Þá benti hann á lendinguna, skiptivöllinn o.fl. (sjá uppdráttinn). Ljóst er að ströndin hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu áratugum og þarf að meta aðstæður á staðnum með tilliti til þess. Sjórinn hefur nú að mestu brotið skiptivöllinn sem og Dágon. Einnig hefur hann brotið niður byrgi og búðir næst ströndinni. Til merkis um það hefur miðverkunarhúsið syðst á Töngunum látið mikið á sjá á skömmum tíma. Fyrir ári síðan var það að mestu heilt, en sjórinn hefur nú brotið niður suðurhlið þess. Jón taldi almennan misskilning ríkja um hlaðna fjárbyrgið norðan við Ketilinn. Sumir hafa talið það mjög fornt, en það var í raun hlaðið af föðurbræðrum hans frá Vigdísarvöllum skömmu fyrir 1884. Ástæðan var sú að fé þeirra Vígdísarvallamanna leitaði tíðum niður í fjöruna og þeir áttu í erfiðleikum með að reka það hina löngu leið til baka. Því hafði verið hlaðið fyrir skútann, fénu til skjóls.
„Austan við Hraunnef [þar sem leiðin er hálfnuð út á Selatanga er] er Veiðibjöllunef. Austan við Veiðibjöllunef kemur Mölvík og þar upp af Mölvík austan til heitir Katlahraun. Austast í Katlahrauni er Nótarhellir og gengur í sjó fram. Fyrir austan Nótarhelli er sandfjara og síðan taka við Selatangar,“ segir í örnefnaskrá Ísólfsskála. „Nokkuð austan við bæinn á Ísólfsskála, sem svarar klukkutíma gang, gengur tangi fram í sjóinn. Hann heitir Selatangar,“ segir í örnefnaskrá AG um Ísólfsskála. Friðlýstar minjar: „Verbúðartóftir, fiskbyrgi, fiskigarðar og önnur gömul mannvirki í henni fornu verstöð á Selatöngum.“
Á Selatöngum var aldrei föst búseta, heldur einungis útver með nokkrum verbúðum. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurmanna, en Krýsuvík fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul þula sem telur 73 (aðrir segja 82) menn við róðra í Krýsuvík. Ástæðan fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafði orðið mötustuttur í verinu. Líklegt er að bæði Krýsuvíkurbændur og Vigdísarvallabændur hafi gengið til skips, en ekki haldið til í verinu.
Þótt aldrei væri stórt útver á Selatöngum eru þó þar talsverðar verminjar. Þaðan var seinast róið 1884 skv. fróðleik á upplýsingaskilti við bílastæðið. Jón Guðmundsson frá Skála segir það reyndar ekki rétt. Skálabændur hafi t.d. róið frá vestustu sjóbúðinni árið 1913. Guðrún Ólafsdóttir lýsir rústunum svo í skýrslu frá 1993: „Þarna eru nú minjar um verbúðir, fiskbyrgi og garðhleðslur sem eru að mestu horfnar. Rústirnar eru margar og er hægt að telja þær upp undir 20, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar.“
Snemma á öldum breytast búskapar- og viðskiptahættir landsmanna á þá lund, að sjávarfangið verður þeim æ mikilsverðara og samtímis fjölgar þeim stöðum, þar sem ýtt er á flot til fiskjar.
Fiskur varð hluti af verslun og viðskiptum. Sá staður, sem menn komu saman til fiskveiða, hefur heitið ýmsum nöfnum og mismunandi aðstaða varðandi veiðarnar hafa ráðið þeim nafngiftum. Orðið ver, í merkingunni veiðistöð, hefur líklegast tíðkast í málinu frá fyrstu tíð, þótt það komi ekki fyrir nema eitt sinn í þeirri merkingu í íslenskum fornritum. Á síðmiðöldum er hins vegar orðið algengt að nefna veiðistöð ver, og virðist þá jafnan átt við stað, þar sem menn hafa búið sérstaklega um sig til fiskveiða. Orðið verstaða er einnig haft í sömu merkingu og ennfremur orðið fiskver, er virðist hafa verið fremur algengt á miðöldum.
Aðeins er tvívegis getið um útver í íslenskum fornritum og jafnoft í Fornbréfasafni, en sú vitneskja þarf ekki að gefa til kynna litla tíðni þess orðs í málinu. Eftir að miðöldum sleppir eru orðin verstöð og útver oftast notuð yfir þá staði, þar sem menn dvöldust við fiskveiðar. Orðið veiðistöð var og býsna algengt fyrr og síðar, en þó einkum á 17. og 18. öld. Meðan landsmenn sóttu til veiða á opnum bátum var aðstaðan til þess einkum með þrennu móti, og mætti einkenna verstöðvarnar með hliðsjón af því. Að róa úr heimavör var heimræði. Oft hagaði svo til, einkum þar sem margbýlt var, að nokkrir bátar höfðu sameiginlega lendingu eða skipstöðu, og mætti því kalla slíka veiðistöð heimver. Gagnstætt því var útverið, en þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman og á þá staði, sem stutt var á miðin og heppilegt að sitja fyrir fiskigöngum á vissum tímum árs. Misjafnlega margir bátar voru saman komnir á hverjum stað, og voru áhafnir þeirra um kyrrt, meðan á veiðum stóð, enda höfðu þeir þar íveru, ýmist verbúðir eða tjöld. Sjósókn úr útveri var nefnt útræði, en þeir, sem því sinntu, voru ýmist vermenn, útversmenn eða útróðramenn.
Þegar sagt var um menn, að þeir reru út var einkum átt við þá, er fiskinn stunduðu úr útveri. Skammt austan við Hólmasundið, neðan Húshólma, skammt austan við Selatanga, eru Seltangar. Höfundur vill ekki útiloka með öllu að hægt sé að rekja Selatanganafnið (Seltangar – m.a. örnefni austan Hólmasunds) til gamallar selstöðu á Töngunum því þarna eru grónir botnar, fjörubeit og ferskt vatn. Hafa ber í huga að kunnugt er um a.m.k. 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaga og færðust þær til og frá á einum tíma til annars. Bendir það til þess að þrátt fyrir mikla áherslu á fiskveiðar hafi búskapur víða verið stundaður.
Heimildir benda til þess að svo til hver gróðurblettur á annars gróðurlitlum Reykjanesskaganum hafi löngum verið nýttur til beitar, jafnvel svo að sumstaðar var ofbeitt. Ekki er með óyggjandi hætti kunnugt um ummerki eftir aðra selstöðu frá Ísólfsskála, en nafnið Selskál undir Fagradalsdalsfjalli bendir til að þar hafi einhvern tímann verið selstaða. Hlaðinn stekkur er þar a.m.k. í hraunkanti sunnan Einbúa. Selatanganafnið bendir þó fremur til þess að þarna hafi selur verið fyrrum, mjög líklega heimasel. Jón benti á að austur af austustu búðinni væri vík, sem heitir Vestari-Selalátur eða Vestari-Látur. Þar er og lón, sem heitir Selalón.
Næsta vík fyrir austan heitir Eystri-Selalátur. Austan hennar er Selhella, sem skagar þar alllangt fram í sjó. Jón sagðist muna eftir því er Selhellan og Látrin voru full af sel. Þar hafi hann eitt sinn talið 60-70 seli á landi. Selurinn var veiddur og spikið notað í bræðing saman við lýsið. Það kom í veg fyrir að tólgin storknaði. Þótti hún mikil hollusta. Heimver – útver – viðleguver Þeir staðir, sem með einhverjum hætti eru tengdir fiskveiðum, hafa frá öndverðu verið margir.
Til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra í Krýsuvík. Ástæða fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú, að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu:
Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein.
Guðmunda fimm og Þorstein,
þá Þorvald, Gunnlaug.
Freystein, Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Eyvind, tvo Þórða þar.
Vilhjálmur Gesti verður jafn
Vernharður, tveir Bjarnar,
Gissura tvo, Gísla, Runólf,
Grím, Ketil, Stíg, Egil.
Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf,
Björn og Hildibrand til.
Magnúsar tveir og Markúsar
með þeim Hannes, tveir Sigurðar.
Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn
þar sezt hann Narfa hjá.
Á Selatöngum sjóróðramenn sjálfur Guð annist þá.
Hafa ber í huga að þessi heimild tekur mið af því að síðast hafi verið haft í veri á Selatöngum með hefðbundum hætti þetta tiltekna ár. Á Selatöngum sér enn fyrir tóftum nokkurra verbúða og er ein mjög glögg. Dyr hafa verið á gaflinum, sem snýr til sjávar. Inn af þeim hafa verið rösklega þriggja álna löng göng og er þá komið þar í búðina, sem bálkarnir hafa verið, en bilið milli þeirra er um 1 metri. Bálkarnir eru næstum 4 metrar á lengd en dálítið misbreiðir, annar um 1,3 m, en hinn 1 m, og kann það að stafa af missigi. Búð þessi hefur rúmað átta menn. Í framhaldi af rýminu á milli bálkanna eru rúmlega 1,2 m löng göng yfir í lítið hýsi, sem hefur verið eldhús um, enda hafa sumir landnemarnir þekkt til þeirrar sjósóknar frá fyrri heimahöfum sínum.
Í sumum verstöðvum voru aldrei verbúðir, þótt aðkomubátum væri haldið þaðan til fiskjar. Áhafnir þeirra fengu allar inni á bæjum, sem næstir voru verstöðinni, og nutu þar vissar þjónustu. Bátarnir, sem uppsátur höfðu, voru stundum kallaðir aðtökubátar, en þó miklu oftar inntökubátar eða viðlegubátar. Má sem dæmi nefna Þórkötlustaðanesið. Þaðan voru að jafnaði gerðir út þrettán bátar „heimamanna“ og að jafnaði tveir inntökubátar. Á Járngerðarstöðum voru þeir jafnan 11-13 og tveir inntökubátar. Í Staðarhverfi voru 5-7 bátar og tveir inntökubátar. Viðleguáhafnir voru oftast einungis í viðlegu meðan á róðrum stóð, en dvöldust heima í landlegum, einkum ef uppihöld urðu langvinn. Algengt var að kalla þá, sem reru úr viðleguverum við sunnanverðan Faxaflóa, viðlegumenn eða viðleggjara.
Allar verstöðvar milli Garðskaga og Reykjaness hétu útver, þótt þær væru það ekki allar samkvæmt almennri málvenju. Ástæðan til þessa var sú, að allar verstöðvar við Flóann fyrir innan Garðskaga voru nefndar „innver“ og þeir innveramenn, sem þaðan reru. Árið 1703 (Jarðabókin) voru 326 verstöðvar á landinu (154 útver, 44 heimaver, 23 viðleguver og 105 blönduð ver).
Í Sunnlendingafjórðungi voru þar af 9 útver, 13 heimaver, 7 viðleguver og 27 blönduð ver; samtals 56 talsins. Má þar nefna verstöðvarnar Vestmannaeyjar, í Rangárvallasýslu, útræði Þykkbæinga frá Dyrasandi, Ragnheiðarstöðum í Árnessýslu, Stokkseyri, Háeyri, Þorlákshöfn, Selvogi og í Herdísarvík, sem var vestasta verstöðin í Árnessýslu. Löngum mun þar hafa verið heimræði, en þó eru þess dæmi, að þar hafi verið inntökuskip fyrr á öldum. Síðast á 19. öld reru þaðan a.m.k. 8 bátar, en verbúðir voru fjórar. Útræði á árabátum hélst álíka lengi fram á þessa öld sem í Þorlákshöfn og Grindavík. Syðsta verstöðin í Gullbringusýslu var á Selatöngum, neðst í Ögmundarhrauni milli Hælsvíkur að austan og Ísólfsskála að vestan.
Í sumum fjölmennustu verstöðvunum var bæði skortu á vatni og eldiviði. Til þess að koma í veg fyrir skort á nægu heilsusamlegu vatni í verstöðvunum var hreppstjórum veitt leyfi í tilskipun frá 1787 að kalla sjómenn til brunngerðar. Þeim, sem ekki hlýddu því boði, mátti hegna. Brunnurinn á Selatöngum er skammt vestan við vestustu búðina. Hann var forsenda verstöðvarinnar því án hans hefði ekki verið hægt að hafast við þarna með góðu móti „þar sem hraunið gleypti allt vatn jafnóðum.“ Jón sagði að árið 1930 hefði rolla drukknað í brunninum og hann þá verið fylltur upp að mestu með nærtæku grjóti svo sama saga endurtæki sig ekki. Jón sagði brunninn hafa verið u.þ.b. mannhæða djúpan og þar hefði alltaf verið hægt að nálgast ferskvatn. Sjávarfalla gætir í brunninum. Þar sem ferska vatnið er léttara en salta flýtur það ofan á.
Tjarnir eru innan við brunninn, en þær tæmast þegar fjarar út. Einnig myndast tjarnir ofan við austustu byrgin í votviðrum. Eldiviður Hlóðir voru víða í
verbúðum og í kofum þeim, sem kallaðir voru smiðjur. En þar sem var eiginleg smiðja varð ekki komist hjá að nota viðarkol. Þau varð vitanlega að flytja í verstöðina og stundum langar leiðir. Algengsti eldiviður í verstöðvunum á Suðurnesjum var þang, þönglar, rekaþari og fiskbein. Víða var þó leitað fanga. Að Vogum og Njarðvíkum fluttu menn með sér mó á vertíðarskipunum. Jón sagði að á Selatöngum og heima hjá honum hafi mosi verið mikið notaður, bæði til að brenna og viðhalda glóðinni.
Smiðjan á Selatöngum er norðan við austustu búðina. Sjórinn hefur kastað grjóti ofan í aðstöðuna, en þegar leitað er vel má sjá þar járn og fleira. Hlóðirnar hafa verið hægra megin þegar inn er komið og sjást enn glögglega. Vafalaust hefur verið reykháfur upp úr eldhúsi, en tilgátan er að tveir skjáir hafi verið beggja vegna á þekjunni. Í ferð með Jóni um Selatanga voru búðirnar skoðaðar. Benti hann á bálkana í þeim og ónana, sem enn eru sýnilegir. Hann sagði vestustu búðina hafa verið tvö hús. Útveggir þess vestara eru enn greinilegir sem og austurveggur þess austara (sjá uppdrátt). Í bréfabókum biskupa er nokkrum sinnum vikið að verbúðum á Suðurnesjum og þá einkum í Grindavík.
Þann 4. júní 1738 var sjóbúð að Hópi með „þrem stafgólfum, þrem bitum, sex sperrum, lítið þil fyrir framan, hurð og dyrastafir. Húsið er sterkt og stæðilegt….
“Árið 1724 var reist sjóbúð í Ísólfsskála. Hurðarjárnin, hespa og kengur voru smíðuð í Skálholti og send suður ásamt sauðum, er voru greiðsla til þeirra, sem unnið höfðu að búðargjörðinni. Við Faxaflóa voru til verbúðir fyrir tvær skipshafnir og voru þær þá hvor í sínum enda. Andspænis dyrum var eldhúsið eins og lítil útbygging. Á síðasta ársfjórðungi 19. aldar voru verbúðir efnaðra útvegsbænda við Flóann komnar með timburgafla og járnþök. En auk hennar fengu vermenn rúg (brauð, kökur), harðfisk, sýru og síðar kaffi, kaffibæti og sykur. Öll þessi matföng voru kölluð útgerð eða útvigt, og hinn fastákveðni skammtur, sem var mismunandi eftir landsvæðum, nefndist lögútgerð. Hún var ýmist miðuð við heila vertíð, mánuð, þrjár vikur, hálfan mánuð eða einungis viku.
Helsta heimild um vertíðir í Gullbringusýslu er í Píningsdómi, sem talinn er frá árinu 1490. Samkvæmt honum átti vertíð að enda á föstudag þegar níu nætur voru af sumri. Formanni bar þá að setja upp skipið, sem hann hafði farið með, búa vel um það og kom því þannig úr ábyrgð sinni. Sá, sem hafði fyrirmæli að engu, var sekur um fjögur mörk til konungsins. Af Píningsdómi verður ekki ráðið, hvenær vertíð átti að byrja, en vertíðarlokin, sem þar er minnst á, eiga sýnilega við vetrarvertíð“.
Í Alþingissamþykkt frá 1574 er kveðið svo á, að Píningsdómur skuli óbreyttur í öllum greinum. Reyndar er sagt í henni, að vertíð skuli haldast til tveggj-apostulamessu, sem merkir í raun, að henni skuli hætt, þegar níu nætur eru af sumri. Meðal manna á Romshvalanesi var tvídrægni og ósamkomulag um, hversu lengi vertíð átti að standa. Sumir töldu, að hún ætti að haldast til tveggja-postulamessu (1. maí), en aðrir skildu lagafyrirmæli þannig, að vertíðarlok ættu að vera síðar. Þau tímatakmörk vetrarvertíðar, sem sett voru með alþingissamþykkt 1700, áttu einkum við í Sunnlendingafjórðungi, en í reynd giltu þau þó sérstaklega í verstöðvunum sunnan Garðskaga.
Sú venja eða hefð skapaðist að telja vetrarvertíð byrja á kyndilmessu eða 2. febrúar. Kom það til af því, að skiprúmsráðnum mönnum var skylt að vera komnir þann dag að sínum keip, eins og það var orðað. Var það skilyrði eðlilegt, þar sem vertíð átti að hefjast 3. febrúar.
Í heimild frá ofanverðri 18. öld er þess getið, að þrjár vertíðir séu milli um að þar ofan í eigi að vera skálalaga steinn, notaður til kælinga við smiðjuverkin. Þarna mótuðu menn ýmislegt það er þurfa þótti, s.s. öngla, keipi, ífærur og annað sem með þurfti í verstöðinni. Á Selatöngum var hins vegar nóg af rekaviði. Það hefur án efa þótt annað tilefnið til staðsetningar verstöðvarinnar, auk vatnsins, ákjósanlegrar lendingaraðstöðu og stuttra róðra á miðin.
Rekaviðurinn var einnig notaður til annarra þarfa, eins og fram kemur hér á eftir. Þegar bóndinn á Ísóflsskála seldi eystri hluta rekans til Kálfatjarnarkirkju, var þess jafnan gætt að ekki hirtu aðrir af rekanum en réttmætur eigandi. Vermenn stálust þó í landlegum til að nýta sér a.m.k. hluta rekans (sjá síðar). Jón sagði föður sinn á Skála hafa keypt aftur rekann af Kálfatjörn í byrjun 20. aldar. Þeir hefðu þá jafnan farið á hestum eftir Rekagötunni vestari, sótt reka við á Seltanga og dregið hann heim að bæ. Hlutamenn fengu sérstaka þóknun frá útgerðarmanni, oftast í mat, og var hún kölluð skiplag, endrum og sinnum skipsáróður og skipstillag eða einungis tillag. Skiplagið var algengt á Suðurlandi. Óvíst er, hvenær skiplag kemur fyrst til sögunnar, en um miðja 16. öld þekkist það, en þá reyndar með öðrum hætti en síðar varð. Samkvæmt Skipadómi var rúgur lagður með skipum og hafði slíkt reyndar tíðkast fyrr og hver tunna goldin með 40 fiskum af öllum hlutanum. Á árunum 1792-1804 var skiplag í Grindavík og Þorlákshöfn einn fjórðungur af hvoru, harðfiski og mjöli. Menn, sem ráðnir voru upp á kaup, fengu ekkert skiplag, aðeins hlutarmenn. Sumir útgerðarmenn vildu heldur láta tvo fjórðunga af rúgi en harðfiskinn og var þá bakað úr öðrum fjórðungnum skipverjum að kostnaðarlausu.
Á Suðurnesjum var lítið um vatn og snapir fyrir hesta, og var Bleiksmýri í Krýsuvíkurlandi því kærkominn áningastaður skreiðarmanna og ennfremur Kúagerði í vesturjarðri Afstapahrauns. Þar var talin hálfnuð leið úr Keflavík og Grindavík.
Úr verstöðvunum var einnig farið með fisk sjóleiðina. Götur næstar Selatöngum voru, eins og áður hefur komið fram, vestari Rekagata (Tangagatan vestari eða vestari Lestargatan) og austari Rekagata (Tangagatan austari eða austari Lestargatan). Enn má sjá móta fyrir þeim á mosavöxnu helluhrauninu, ef vel er að gáð. Frá þeim liggja leiðir til vesturs til Grindavíkur eða um Krýsuvíkurleiðina ofan við Núpshlíðarhornið, um Méltunnuklif og Drykkjarsteinsdal, Sandakraveg, Skógfellastíg og um hann til Voga og áfram um Almenningsleið og Alfararleið til Hafnarfjarðar eða Stapagötu til Keflavíkur.
Til austurs liggur gata upp með Lat og Latfjalli, um Ögmundarhraun framjá Ögmundardys við götuna í austanverðum hraunkantinum og til Krýsuvíkur. Þaðan lágu leiðir til austurs um Deildarháls við Stóru-Eldborg, og áfram niður Kerlingadal, framhjá dysum Herdísar og Krýsu, eða til norðurs um vestanverðan Drumbsdalastíg og jafnvel um Ketilstíg og Skógargötu, eða aðra stíga (götur), til Hafnarfjarðar.
Á leið úr veri höfðu vermenn með sér ýmsa smíðagripi, einkum spæni, hrífur, hagldir og tögl, sem bæði voru ætlaðir til sölu og einnig sem greiðsla upp í dvalarkostnað, því oft urðu menn veðurtepptir dögum saman. Gripi þessa gerðu þeir m.a. í landlegum. Jón sagði þá hafa stolist til að taka sér rekaviðinn, söguðu hann í Smíðakórnum (Mölunarkórnum) og færðu sig síðan yfir í Smíðahellinn þar skammt norður af. Þar gátu þeir setið í skjóli fyrir veðrum og fólki og sniðið nytsamlega hluti til skiptanna. Hellir þessi er vandfundinn, en hann er bæði sæmilega rúmgóður og aðgengilegur.
Lokadagur vetrarvertíðar á Suðurlandi var 11. maí. Skylt var formanni að landa skipi sínu í síðasta lagi á hádegi þann dag. Ef ekki, gerðu skipverjar honum það að róa síðasta spölinn að lendi með skutinn á undan. Þótti það honum sérstök háðung. Lokadagsgleði var viðhöfð í verstöðum á Suðurlandi og við Faxaflóa. Aðalreglan varðandi hinar vertíðirnar var sú, að vorvertíð stóð frá 12. maí til Jónsmessu (24. júní), en haustvertíð frá
Mikjálmessu (29. sept.) og til Þorkláksmessu á vetri (23. des).
Skv. Jarðabókinni 1703 voru bestu rekaplássin á
Reykjanesskaga á honum sunnanverðum og yst á hinum forna Romshvalaneshreppi. Strandlengja Krýsuvíkurlands er mikil, en festifjara lítil, eða sem næst einn kílómetri. Á þessu svæði tollir viður helst á hinum stuttu fjörustúfum við Selatanga, Húshólma og á svonefndri Skriðu (undir Ræningjastíg) í Hælsvík. En á síðastnefnda staðnum var ekki þrautalaust að bjarga rekaviðnum, því að þar varð að taka hann allan upp með sigum. Neðsti hluti Ræningjastígs er nú horfinn.
Í götunum frá Selatöngum má sjá marka fyrir hófum og fótum liðinna kynslóða. En þau för eru einnig eftir rekatrén, sem hestarnir drógu í heimdrætti. Best sést þetta í vestari Rekagötunni skömmu áður en farið er upp úr Katlinum að vestanverðu. Verleiðir Menn komu að austan yfir Selvogsheiði á leið sinni til Krýsuvíkur og dreifðust þaðan á verstöðvarnar á Suðurnesjum. Var það nefnt að fara suður syðra. Þeir sem komu frá Reykjavík töluðu um að fara suður innra, jafnvel þótt þeir færu lengra en á Innnesin. Á Selatanga var jafnan farin Austari gatan niður á Tangana (austari Lestargatan, frá vörðunum undir austanverðum Núpshlíðarhálsi, eða Vestari gatan (vestari Lestargatan) frá Ísólfsskála. Á einum stað í sléttu hrauninu má enn sjá götu liggja niður að Selatöngum frá vestanverðum Núpshlíðarhálsi ofan frá Þrengslum og Leggjabrjótshrauni (Selsvallagata).
Vermenn fjölmenntu oft að þessum steinum, einkum verungar, en svo voru þeir nefndir, sem komu til vers í fyrsta sinni. Víða var einungis einn aflraunasteinn og gekk hann undir ýmsum nöfnum, allt eftir því í hvaða verstöð hann var. Fiskur Skreið var og er enn algengt heiti á harðfiski. Hennar er nokkrum sinnum getið í Íslendingasögum og Sturlungu. Hún var stundum nefndur „skarpur fiskur,“ sbr. Fornbréfasafnið, en þar er hún fyrst nefnd um 1200. Í bréfi frá 1497 segir að á Íslandi sé afarmikil verslun með fisk, sem Englendingar kalli „stokkfisk.“56 Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin „plattfiskur“, en á máli landsmanna „malflattur.“
Þegar kom að því að þurrka fiskinn eftir að gert hafði verið að honum, var hann þveginn og himnudreginn – svarta himnan í þunnildinu fjarlægð; síðan breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn en upp að næturlagi. Honum var þráfaldlega snúið. Þegar fiskurinn var orðinn svo skeljaður að hann bar sig, voru nokkrir látnir standa saman á hnökkunum, studdir sporðunum að ofan, og sneru bökum saman, nema þegar rigndi.
Margir laghentir menn voru í verbúðunum. Þeir fluttu með
sér smíðatól, tálguhnífa og nafa.
Ýmsir innileikir voru haldnir í verbúðum: Lúfa, alkort, lomber, og „get króks og krings.“ Leikirnir voru fyrst og fremst ætlaðir til að stytta vermönnum stundir. Glímt var víða í verbúðum; vermannaglíma. Við Járngerðarstaði í Grindavík var t.d. til Helguvöllur þar sem menn reyndu með glímubrögð. Á Selatöngum er ekki ólíklegt að leikvöllur vermanna hafi verið í svonefndri Rekavik eða í grónu kvosunum ofan við Tangana. Þar sunnan við sést móta fyrir hlöðnum hring og eru í honum þrír steinar. Ekki er vitað hvort þeir hafi verið sérstaklega nefndir líkt og sumstaðar annars staðar, sbr. Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði á Djúpalónssandi, eða Alsterkur, Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði á Hvallátrum.
Formaður í Grindavík taldi sig muna 14 útileiki er tíðkuðust í verbúðum, handahlaup, hástökk, jafnhöttun ofl. ofl. Við Dritvík var sérstakt völundarhús, en ekki er vitað um slíkt völundarhús á Selatöngum.
Séra Sigurður B. Sívertsen, segir í Suðurnesjaannál sínum um Básenda: „Fiskbyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga úr einhlöðnu grjóti hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskur verið hengdur á rár og hertur.“ Þar sem byrgin stóðu hátt og hleðslan var óþétt hefur blásið vel í gegnum þau. Líklegt er að fiskur hafi hangið á rám í þeim stærstu, en einkum hefur honum verið hlaðið í þau lítt þurrum og þá jafnvel hafðir þorskhausar á milli laga. Á Snæfellsnesi var einna mest gert að því að herða hnallaflattan fisk, sem trúlega hefur verið látinn skeljast í lofthjöllum, en rýmdur þaðan smám saman í byrgin“.
Um aldur byrgjanna verður ekki fullyrt; giskað er á að þau séu frá 14. öld.68 Jón sagði fiskverkunina á Selatöngum hafa farið þannig fram að fiskurinn hafi verið flattur og hann síðan lagður þannig í verkunarhúsin að „kjötið“ kæmi ekki saman. Þannig hafi honum verið staflað nokkuð þétt. Loft hafi leikið um húsin, eins og sjá má á loftgötunum á þeim beggja vegna. Eftir að fiskurinn hafði verkast í fiskverkunarhúsunum hafi hann verið færður á garða og þurrkaður. Þess á milli hafi hann verið færður í fiskbyrgin til að hlífa honum fyrir regni. Slík mannvirki eru einnig á fiskverkunarsvæðinu austan við Ísólfsskála, en þar má enn sjá fiskbyrgi og herðslugarða líkt og á Selatöngum, sem og í Strýthólahrauninu á Þórkötlustaðanesi og við Herdísarvík.
Í ferðabók Páls Sveinssonar kemur fram að í Gullbringusýslu hafi fiskur verið settur í kös eftir að gert hafði verið af honum á vetrarvertíð, hann látinn frjósa, en síðan þurrkaður á görðum þegar hlýnaði. Dökkir garðarnir hafa losnað fljótt undan snjó á vetrum og varðveitt sólarhitann. Dæmi eru um að fiskslóg hafi verið borið á hraun. Gerðið austan Herdísavíkur var t.a.m. grætt upp með slógi. Ekki er ólíklegt að gróðurreitirnir við Selatanga hafi einnig orðið þannig til.
Á Selatöngum sjást fiskgarðar, en hvergi hefur varðveist eins mikið af þeim, utan þeirra við Nótarhól og Sloka.
Sagan af Tanga-Tómasi kemur fyrir í sögninni „Selatangar“ í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929. Hún er svona (með innskotum vegna mismununar í hinum ýmsu frásögnum af sömu atburðum): „Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og görðum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum..“
Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini.“
Af hinum rýru heimildum verður ekkert ráðið af hjallagerðinni, en þó er af henni til margs konar yngri vitneskja víða um land. Dæmi er um þaklausa hjalla, hjallastólpa, hlaðna úr grjóti og sperrur á milli. Ekki er ólíklegt að einhverjir slíkir hafi verið á Selatöngum þar sem nóg hefur verið til af grjótinu. Jón minnist þó þess ekki að hafa séð þar ummerki eftir hjalla.
Á Reykjanesskaganum má enn sjá a.m.k. 140 hlaðnar refagildrur. Flestar eru þær líkast til frá 18. og 19. öld. Fjórar þeirra eru við Selatanga. Talið að Gvendur á Skála hafi hlaðið þær gildrur. Á uppdrættinum má sjá staðsetningu þeirra. Þær eru allar vestan við Tangana. Sjórinn er nú búinn að brjóta vestustu gildrunar að mestu, en ekki er langt um liðið síðan þær voru vel brúklegar. Enn má þó sjá útlínur þeirra. Heillegasta gildran er á hábrúninni ofan við Nótahellinn. Í henni eru fellihellurnar enn til staðar. Gæta þarf þess að ganga vel um þessi mannvirki sem og önnur á Selatöngum. Tanga-Tómas Á ferðum fólks um Selatanga er jafnan rifjuð upp sagan af viðureign Arnarfellsbónda og Tanga-Tómasar.
Einu sinni varð Beinteinn á Arnarfelli heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina.
[Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig.] Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum kemur fram að Beinteinn frá „Vigdísarvöllum“ hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð.] Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi.“ Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð. Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina. Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan“.
Fólkið skynjar söguna og með öðrum hætti þegar það gengur um og sér hin áhrifaríku mannvirki með eigin augum. Ekki er vitað til þess að sérstakar fornleifarannsóknir (þ.e. uppgröftur) hafi farið fram á Selatöngum. Tvær sjóbúðatóftir eru enn vel sýnilegar, þ.e. vestast og austast á verbúðarsvæðinu. Sú þriðja er orðin ógreinileg. Þá eru a.m.k. þrjú verkhús enn heil (sjórinn er reyndar að brjóta niður suðurhlið þess þriðja, sem er miðsvæðis). Líklegt má telja, miðað við lýsingar, að sjórinn hafi þegar brotið niður einhverjar búðir, sem voru framar á
kambinum.
Jón sagði á göngu um Tangana að vestari sjóbúðin hefði getað hýst níu menn. Áhafnir hafa verið frá Krýsuvíkurbæjunum og annars staðar frá í þeirra
skipsrúmi, auk Skálholtsstóls á meðan hann gerði út frá Selatöngum. Ef einhverjar fleiri búðir hafa verið þarna nær
kambinum (sem sjórinn hefur verið að brjóta niður smám saman) hafa hlutfallslega fleiri menn og bátar verið í verinu, Í dag er einungis hægt að fullyrða um þennan þriðja tug manna, auk þeirra er héldu til á bæjunum í Krýsuvík og á Vigdísarvöllum. Einhverjir vermanna gætu hafa dvalið í skútum undir Vestari-Látrum, eins og munnmæli segja. Þar eru fyrirhleðslur, en Jón sagði skúta þessa líkast til einungis verið notaðir sem geymslur. Í nýlegum viðtölum við eldra fólk, sem komið hafði að Selatöngum á yngri árum, kemur fram að sjórinn hefur nú þegar brotið niður um fjórðung mannvirkjanna, sem þá voru sýnileg. Ekki er óvarlegt að áætla að fleiri munu fara sömu leið á næstu árum.
Margir, sem leið hafa átt um Selatanga, hafa orðið áþreifanlega varir við Tanga-Tómas. Í ferðum um Tangana kemur varla fyrir að hann láti ferðalanga óáreitta. Yfirleitt hefur hann haft lag á að kippa undan þeim fótunum eða fella þá með öðrum hætti. Ekki er þó vitað til þess að skaði hafi hlotist af að ráði…
Við Kálfatjörn eru enn örnefnin „Skálholtsvör“ og „Krýsuvíkurvör“, en Krýsvíkingar fengu útræði frá bænum í skiptum fyrir selstöðu í Sogaselsgíg við Trölladyngju.
Ómar Smári Ármannsson tók saman.