Þormóðsdalur

Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – fjárborg.

Óljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.
Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – fjárhús.

Í Sturlubók segir m.a. um þetta: „Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fól sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.“
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – fjárhús.

Þótt nafn Þormóðsdals hafi fyrrum tengst gulum geisla hefur nafnið í nútíma einkum tengst samlitum málmi. Og enn er hafin leit að gulli í Þormóðsdal.
„Forsaga þessarar leitar hófst fyrir tæpum 20 árum síðan þegar ÍSOR, sem þá var hluti Orkustofnunar, hóf skipulega leit að gulli. Ástæða gullleitarinnar voru niðurstöður rannsókna um að gull félli út við sérstakar aðstæður í jarðhitakerfum, og ekkert sem mælti því í mót að slíkt ætti einnig við hér. Fyrsti áfangi leitarinnar tók um þrjú ár, og var farið víða um land. Snemma kom í ljós að Þormóðsdalur, rétt austan Hafravatns, bar af öðrum stöðum hvað varðar magn gulls í bergi. Árið 1997 fór gullleit aftur af stað, og var stofnað fyrirtækið Melmi og fengust fjárfestar í gegnum verðbréfamarkaðinn í Kanada. Leit var haldið áfram og meðal annars voru gerðar viðamiklar yfirborðsrannsóknir í Þormóðsdal og boraðar 9 rannsóknarholur til að kanna útbreiðslu gullríka kvarsgangsins. Þegar rannsókn lauk kom annað hlé, enda áhuginn minni, að hluta til vegna afar lágs gullverðs.

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur – varða.

Nú er gullverð enn á ný komið í sögulegt hámark, og hefur ekki verið hærra síðan 1984, og hefur áhugi leitaraðila aukist mikið. Hafa tekist samningar við félag í Bretlandi um að fjármagna enn frekari gullleit í samstarfi við fyrirtækið Melmi. Verður áhersla fyrst lögð á að kortleggja mun betur með borunum kvarsganginn áðurnefnda, og meta rúmmál hans og hæfni til námuvinnslu. Enn fremur eru uppi áform um að hefja enn frekari leit að gulli á svæðum á Vestur-, Norður- og Suðurlandi.“

Þormóðsdalur tilheyrir nú Mosfellsbæ. Í landi bæjarins má víða finna fornminjar og af þeim hafa fjórar verið friðlýstar af Þjóðminjasafni Íslands. Þær eru rústirnar á Blikastaðanesi, Sámsstaðarústir í Hrafnhólum, leifar tveggja fjárborga skammt fyrir ofan Gljúfrastein og Hafravatnsrétt við austurenda Hafravatns. Auk þessara merku friðlýstu minja má nefna hólana tvo eða fornmannaleiðin: Hraðaleiði á landamærum Hraðastaða og Mosfells og Þormóðsleiði í Seljadal. Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.

Guðmundur Einarsson

Guðmundur Einarsson.

Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
„Að vestan ræður Hafravatn mörkum, að sunnan Seljadalsá og árförin inn í Leirdal. Lýsi ég örnefnum frá vesturmörkum.
Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.

Mosfellsbær

Kambsrétt.

Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás.
Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.“
Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi.

Nærsel„Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.“
Þrátt fyrir leit að leiðinu fannst það ekki svo öruggt mætti teljast. Bæði hefur svæðinu sunnan við bæinn verið raskað með vegagerð og athafnasvæði, auk tún- og trjáræktar. Mun gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, eitt sinn hafa skimað eftir leinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði, líkt og gert var við Járngerðarleiðið í Grindavík á sínum tíma. A.m.k. eru engin (eða nær því engin) ummerki eftir það sjáanleg nú – og er það skaði. Þar með er a.m.k. ein minjaperla Mosfellsbúa, sem fyrr er getið, horfin vegna gátleysis.
Á brún austan við Þormóðsdal eru leifar lítillar tóftar. Þegar nýi vegurinn var lagður hefur verið krukkað utan í syðsta hluta hennar. Tóftin er þrískipt; tvö rými og gerði vestast. Fróðlegt væri að komast að því hvað þessi tóft hefur haft að geyma, en a.m.k. austasti hluti hennar er nokkuð heillegur að sjá.
„Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir [á honum eru tóftir]; vestan undir Gapa er Gapamýri.
Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall. [Sukkar eru ofar og austar}. Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum.“

Nessel

Nessel.

Sauðahús þetta er mjög stórt. Vel sést enn móta fyrir útlínum þess. Aftan (norðan) við það er hlaða eða heygarður. Sunnan við húsið mótar fyrir gerði. Skammt norðaustan við tóftina er næstum jarðlæg fjárborg eða fyrrum hús á lágum grónum hól. Mannvirki þetta hefur allt verið úr torfi, líkt og mannvirkið er áður var lýst á melhólnum suðvestan við bæinn. Enn má þó sjá móta fyrir stærð þess og lögun. Það hefur eflaust tengst sauðahúsinu, en virðist þó eldra af ummerkjum að dæma. Kannski sauðahúsið hafi orðið til þarna vegna borgarinnar.

Ofar er varða á klapparholti. Norðan hennar sést móta fyrir tóft í valllendi. Hún er að mestu jarðlæg og erfitt er að áætla notkunargildi hennar.
„Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.“
Hér er um að ræða tóftir, sem FERLIR fann nýlega eftir loftmynd. Við skoðun komu í ljós tvo mannvirki, er benda til þess að hafi verið sel. Ef ekki hefði komið til uppbit hrossa á þessu svæði hefðu tóftirnar að öllum líkindum horfið í landslagið, eins og þær hafa gert um langan aldur.
Kambsrétt„Skammt fyrir norðan Hesthól er brattur hóll, sem Kambhóll heitir. Sunnan undir Kambhól er fjárrétt, er Kambsrétt heitir. Var hún notuð sem vorrétt. Við Kambsrétt er fallega gerður vegarspotti, sem var gerður fyrir konungskomuna 1874. Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá í Seljadal; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar fyrir seltóftum.“ Hér er Nessel talið hafa verið frá Gufunesi, en í örnefnalýsingu Ness er það talið hafa verið frá Nesi á Seltjarnarnesi. Reyndar er einungis sagt að Nes hafi haft selstöðu í Seljadal, en telja má líklegt að enn eigi eftir að finnast tóftir selja í dalnum – við nánari leit. (Enn á eftir að gaumgæfa suður- og austurhluta dalsins). Þá er ekki vitað með vissu hvaða bæ Nærsel hafi tilheyrt, en það er jú í Seljadal.
Vekjandi athygli á ógætilegri vegagerð í nálægð má vel sjá á veginum í gegnum Kambsréttina miðja hversu lítið hugsunarháttur vegagerðarhönnuða hefur lítið breyst í langan tíma, eða allt frá tímum fyrstu vegargerðar hér á landi allt að því til dagsins í dag. Á allra síðustu árum virðist þó vera farið að rofa svolítið til í þessum efnum – til hins betra.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

FERLIR skoðaði nýlega Kambsréttina sem og Nesselið, auk tófta tveggja annarra selja í Seldalnum.
Að lokum segir í örnefnalýsingu Tryggva að „suðvestur af Nesseli er hár hóll með klettaborgum að ofan, sem Hulduhóll heitir. Norðan við Nessel er hár melhryggur, sem Torfadalshryggur heitir. Norðaustur af Nesseli, uppi í Grímannsfelli, er áberandi urð, er Skollaurð heitir; þar er tófugreni. Nálægt miðju Grímannsfelli að sunnan er Illagil. Nær það hátt upp í fellið og er með öllu ófært yfirferðar; er tófugreni skammt frá efri enda gilsins.“
Sem fyrr segir verður eitt af verkefnum FERLIRs að skoða sunnanverðan Seljadalinn m.t.t. hugsanlegra tófta þar. Fjallað er og um gullvinnslu í Þormóðsdal HÉR.

Heimildir m.a.:
-isor.is
-mosfellsbaer.is
-Sturlubók.
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.

Járnbrautarteina

Grafningur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1933 er fjallað um „Nokkur byggðanöfn„, þ.á.m. örnefnið „Grafning“:

Grafningur

Grafningur – herforingjaráðskort 1903.

„Orðið grafningur er talið hafa tvær merkingar í íslenzku máli. Það getur fyrst og fremst merkt þann verknað, að grafast eftir einhverju. Þessa merkingu er orðið talið hafa á þeim eina stað í fornritunum, þar sem það kemur fyrir og er ekki staðarnafn, í Stjórn, þar sem talað er um »djúpan grafning gátu«, (sbr. orðabækur Fritzners, Claesby-Vigfússons og Björns Halldórssonar við orðið Grafningur).

En orðið getur líka merkt það, sem niður er grafið eða út er grafið, (sbr. þýðinguna í orðabók Sigfúsar Blöndals: »Gröfter og Jordfald, hullet Jordsmon, ru og revnet Jordbund«). Þegar orðið kemur fyrir í staðarnöfnum má gera ráð fyrir, að það sé þessarar síðarnefndu merkingar, að það merki stað, sem er niðurgrafinn.

Grafningur

Grafningur – Atlaskort.

Eins og kunnugt er heitir byggðarlag eitt í Árnessýslu Grafningur. Er það nú á tímum sérstakur hreppur, Grafningshreppur, en var áður hluti af Ölfushreppi. Eftir merkingu nafnsins mætti búast við, að sveit þessi væri sérstaklega niðurgrafin eða aðkreppt, að hún væri djúpur og þröngur dalur eða því um líkt. En þessu er ekki þannig varið. Sveitin er engin heild hvað landslag snertir. Hún skiptist í rauninni í tvær byggðir, hina neðri, sem liggur upp með Soginu að vestan, og hina efri, er liggur fyrir suðvesturendanum á Þingvallavatni. Hver þeirra hefir sinn svip og landslagið er fjölbreytilegt í báðum, þar skiptast á sléttlendi og ásar og fell með smádölum á milli, og báðar mega byggðirnar fremur kallast opnar en aðkreptar, enda er útsýn þar á mörgum stöðum bæði frjáls og víð. Sveitin virðist því ekki bera nafn þetta með réttu.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – kort.

Nafnið Grafningur er fyrst nefnt í Harðar sögu, 19. kap. Þar segir frá því, er þeir, Indriði Þorvaldsson á Indriðastöðum í Skorradal og Ormur veturtaksmaður hans, ferðuðust sunnan af Vikarsskeiði, þar sem Ormur hafði brotið skip sitt, og vestur að Indriðastöðum. Segir þar m. a. svo frá ferðum þeirra: »Þeir riðu allir sunnan hjá Bakkárholti um Grafning ok Bildsfell ok svá hjá Úlfljótsvatni ok þaðan til Ölfusvatns. Næst er Grafningur nefndur í bréfi frá 1448. Þar kvittar Jón nokkur Oddsson Steinmóð ábóta í Viðey um greiðslu »sem hann var mier skyldvgur firir jordena aa sydra halse firir ofan Grafning«. Þessar tvær heimildir skýra það að minni hyggju hvernig á nafni byggðarinnar stendur.

Grafningur

Grafningsháls – gömul þjóðleið.

Frá Bakkárholti í Ölfusi og upp að Ölfusvatni er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að fara austur fyrir Ingólfsfjall, hjá Kögunarhól, og upp með fjallinu að austan, hjá Tannastöðum og Alviðru, og síðan upp eftir vestan Sogsins. Hin er sú, að fara leiðina, sem nú heitir Grafningsháls, þ. e. í gegnum skarðið, sem er á milli Ingólfsfjalls og Bjarnarfells upp af bænum í Hvammi í Ölfusi. Síðarnefnda leiðin er miklu beinni og styttri og auk þess hefir hún verið miklu greiðfærari fyrr á tímum, því þar hefir mátt fá nokkurn veginn þurrar götur upp með ánum, Bakkaá (Bakkárholtsá) og Gljúfurá, frá Bakkárholti og upp að skarðinu. Þessi leið hefir sjálfsagt verið alfaraleiðin úr þessum hluta Ölfusins upp á bæina fyrir ofan Ingólfsfjall, allt þar til, að akvegur var lagður austur fyrir fjallið. Höfundur Harðar sögu hefir því eflaust haft þessa leið í huga, er hann lýsti ferð þeirra lndriða. Á þeirri leið fóru þeir Indriði og Ormur »um Grafning«. Hér getur verið um tvent að ræða, annaðhvort er Grafningur nafn á byggð, sem þeir fóru um, eða á stað, sem þeir fóru um eða hjá.

Grafningur

Grafningsháls – þjóðleiðin fyrrum.

Fyrri skilningurinn mun hafa verið lagður í nafnið hingað til. Í registrunum við sumar útgáfur Harðar sögu er Grafningur á þessum stað í sögunni talinn vera »sveit í Árnesþingi«. Kálund hefir einnig litið þannig á, en hann telur þó, að Grafningur sé í sögunni aðeins nafn á neðri hluta sveitarinnar, byggðinni, sem liggur upp með Soginu. En þessi skýring fær ekki staðist, jafnvel ekki með þeirri takmörkun, sem Kálund gerir. Grafningur sögunnar var á þeim kafla af leið þeirra Indriða, sem var á milli Bakkárholts og Bíldsfells.

Bíldsfell er eins og kunnugt er fell og samnefndur bær, nálægt því í miðjum neðri hluta sveitarinnar. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Bíldsfell. Hafi það verið byggðarnafn hefir það því verið miklu yfirgripsminna en það er nú á tímum, ekki einu sinni náð yfir allan neðri hluta sveitarinnar, heldur aðeins yfir byggðina, sem er fyrir neðan Bíldsfell, en það er ekki líklegt, að þeir fáu bæir, sem þar eru og eru dreifðir og strjálir, hafi nokkurn tíma heitið sérstöku byggðarnafni fyrir sig. —

Bíldsfell

Bíldsfelll – séð til norðausturs.

Þetta bendir til þess, að Grafningur sé ekki byggðarnafn í sögunni, heldur nafn á einhverjum stað, sem hefir verið á leiðinni frá Bakkárholti og upp að Bíldsfelli. Bréfið frá 1448 virðist einnig taka öll tvímæli af um, að svo hafi þetta verið. Samkvæmt bréfinu er Syðri-Háls, »fyrir ofan Grafning«. Syðri-Háls, sem nú heitir Litli-Háls, er syðsti, neðsti, bærinn í byggðinni Grafningi. Grafningur sögunnar var fyrir neðan Litla-Háls og því í rauninni fyrir neðan byggðina Grafning. Hann er því einhver staður á milli Bakkárholts og Litla-Háls, og á þeirri leið getur varla verið um annan stað að ræða, sem borið hafi slíkt nafn, en sjálft skarðið, sem vegurinn liggur um. Litli-Háls er líka rétt fyrir ofan skarðið, svo að það á vel við, að segja um hann, að hann sé »fyrir ofan Grafning«, ef skarðið hefir heitið því nafni.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – AMC-kort.

Í fyrstu virðist þannig aðeins skarðið hafa heitið Grafningur, en seinna fékk öll byggðin fyrir ofan skarðið þetta nafn. Það virðist vera augljóst, að byggðinni hefir verið gefið þetta nafn neðan að, úr Ölfusinu. Ölfusingar hafa talað um að fara »upp um Grafning« eða »upp í Grafning«, þegar þeir áttu leið upp á bæina fyrir ofan fjallið, og þeir hafa þá í fyrstu átt við leiðina, sem þeir fóru, skarðið milli fellanna, en seinna hefir nafnið á leiðinni festst við byggðina, sem leiðin lá til, við þann hluta hreppsins allan, sem farið var til í gegnum skarðið. Á 16. öld hefir þessi breyting verið komin á og byggðin búin að fá Grafningsnafnið. Er talað um Úlfljótsvatn »í Grafningi« í bréfi frá dögum Stefáns biskups (1491—1518) og í bréfi frá 15241). Nesjar »í Grafningi« eru nefndir 1539 og Tunga »í Grafningi« 1545.

Álftavatn

Álftavatn og nágrenni.

Sjálft skarðið, leiðin milli fellanna, hefir verið nefnt Grafningsháls, í öllu falli síðan snemma á 18. öld. Hálfdán Jónsson á Reykjum nefnir veginn því nafni í lýsingu sinni á Ölfushreppi 1703, og segir svo: »Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpi-Grafningur, Æðargil Bjarnarfell, Kaldbak etc.«. Bjarnarfell og Kaldbakur eru fellin sitt hvoru megin við skarðið. Æðargil er gil, sem kemur ofan úr Bjarnarfelli. Hvort nafnið Djúpi-Grafningur þekkist enn, veit ég ekki, en mér þykir líklegast, að það hafi verið nafn á sjálfu skarðinu. Ef svo er, hefir Grafningsnafnið enn loðað við skarðið snemma á 18. öld, en viðbótinni Djúpi- gæti hafa verið aukið við nafnið til þess, að greina það frá byggðarnafninu Grafningur, sem þá hefir verið búið að fá fulla festu.

Með þessu vona ég, að það sé sýnt, að þetta litla skarð á milli fellanna hefir orðið til þess, að gefa allri byggðinni, neðan frá Litlahálsi og alla leið upp að Nesjum við suðvesturhornið á Þingvallavatni, þetta nafn, sem gefur svo ranga hugmynd um landslag hennar.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01. 1933, Nokkur byggðanöfn, bls. 108-111.

Grafningur

Gamli þjóðvegurinn um Grafningsháls. Nýrri að baki.

Snorri
Skýringin á yfirskriftinnni III við Snorra er sú að um er að ræða þriðju ferðina í hellinn eftir að hann fannst árið 2003.
Snorri

Snorri – loftmynd.

Áður höfðu nokkrar ferðir verið farnar um hraunssvæðið við leit að hellinum (jarðfallinu) uns hann fannst loks í einni þeirra. Nú hefur hellirinn verið kortlagður með „nýmóðins“ mælitækjum útlendinga. Það, að það þurfi tækjabúnað útlendinga til að mæla helli hér á landi, ætti að segja nokkuð til um stuðning hlutaðeigandi aðila við slíkar mælingar sem og rannsóknir á „hellaríkasta“ svæði veraldar. Með líkindareikningum má áætla að einungis 1/10 hluti hella hér á landi sé mönnum kunnir. Hérlend stjórnvöld hafa hins vegar verið afar værukær við að styðja leit að hellum – eins merkileg og eftirtektarverð jarðfræðifyrirbrigði og þau annars eru. T.a.m. fannst nýlega einn stærsti hraunhellir landsins, einungis fyrir þrautseigju og viljafestu nokkurra manna, og það í örskotsfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. En hvers vegna og til hvers ætti að upplýsa aðra um návist hans?
Lagt var upp frá Sýslusteini á suðurmörkum Árnessýslu og Gullbringusýslu. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krísuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Sýslusteinn

Sýslusteinn: Steinninn.

Sýslusteinar eru víðar á landinu, s.s. á sýslumörkum við Núpshlíðarveg, sýslumörkum við Þvottárveg í Krossanesi og sýslumörk við Gígju. Í sögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir um lokin að „svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.“
Um landamerki Kópavogs segir m.a. að „svo upp eftir farvegi Lyklafellsárinnar að sýslumörkum Árnessýslu, en sýslumörk fara þarna eftir beinni línu úr Sýsluþúfu á Mosfellsheiði í Sýslustein. Sýslusteinn er nú talinn vera steinn, ekki mjög stór, á holtinu skammt sunnan Lyklafellsár um 30 m frá árbakkanum á móts við ármót Engjadalskvíslar og kvíslar sem kemur norðaustan af Mosfellsheiði um 1,5 km suðaustan Lyklafells. (Sbr. samning og landamerkjabréf dags. hinn 23. janúar 1991.)“.

Snorri

Inngangur Snorra.

Smalinn Snorri á Vogsósum benti FERLIR á að stórt jarðfall væri í hrauninu ofan við Geitahlíð. Hann hafði séð það eitt sinn er hann hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á jarðfallið, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.
Þegar FERLIR kom loks að jarðfallinu hafði steinboginn fallið niður í það, en hann hefur að öllum líkindum verið nokkuð stór. Gríðarlegt gat er inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir eru sléttir og virtist rásin vera nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”.

Snorri

Snorri – dropsteinar.

Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð. Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu.
Eystri rásin í jarðfallinu liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Í apríl 2004 hélt hópur FERLIRs og HRFÍ félaga í Snorra. Tilgangur ferðarinnar var að skoða djásnið og kortleggja, en helgina áður hafði Björn Hróarsson orðið fyrstur til að skoða hellinn. Hann fór þangað með aðstoð hálfstiga og klifraði upp í rásina. Samkvæmt kortlagningu er mjög líklegt að yfirborðsrásin hafi á einhverjum tímapunkti tengst meginrás hellisins (Hellirinn er nokkuð heillegur og aðeins eru nokkur meiriháttar hrun. Hellirinn lokast með hruni, og var reynt án árangurs að komast fram hjá því. Heildarlengd hellisins gæti verið um 300 metrar en rásin innan við hraunfossinn er um 200 metra löng og meðalþvermál hennar um fjórir metrar.

Snorri

Í Snorra.

Þegar Snorri hafði verið skoðaður fyrsta sinni af fagfólki varð fulltrúa HERFÍs að orði; „MEGAflott“. Síðan hefur ekki dregið úr flottheitunum, nema síður sé.
Nú var stefnan enn og aftur tekin á Snorra. Rúmlega tólf metra langur stigi, að jafnaði nýttur í Grindavík, var með í för, sá hinn sami og kom við sögu er Snorri var sigraður fyrsta sinni. Án hans urðu kynnin við þargreinda undirheima ekki endurnýjuð. Þoka var í fjöllunum og mosahraunið alls ekki auðratað.
Þegar komið var að Snorra þessu sinni blasti við geysistórt jarðfallið, sem fyrr segir. Niður í því eru mjög stórar rásir. Efri rásin er hrunin skammt eftir að inn er komið. Neðri rásin er stórgrýtt, beygir og þrengist eftir u.þ.b. 15 metra, uns hún lokast alveg. Loftið þar er mjög laust í sér.
Í jarðfallinu var allnokkur snjór, en enginn þar sem opið er niður í kjallarann.

Snorri

Snorri – hraunstrá.

Undir efri rásinni í Snorra er stór skálalaga kjallari, u.þ.b. 10 metra hár. Hann fannst eftir að aðframkomnir FERLIRsfélagar, sem fundið höfðu jarðfallið, neituðu að gefast upp við svo búið. Eftir að hafa fært til steina í jarðfallinu með miklu erfiði var hægt er að komast niður í kjallarann. Efst á vegg í kjallaranum er op, ca. tveir metrar að ummáli í hátt í tíu metra hæð. Út um opið virðist koma storknaður þunnfljótandi hraunfoss, en annars eru veggir kjallarans alþaktir glerkenndum smáhraungúlpum.
Enn og aftur var stiginn dreginn niður í kjallarann og reistur við vegginn. Þegar upp í gatið er komið sést hraunfossinn. Haldið var upp eftir rásinni, sem liggur að mestu upp á við. Mestu þrengslin eru fremst, en eftir það er leiðin allgreiðfær. Við tekur stór og mikil rás. Að þessu sinni náði þokan inn í rásina. Nokkur hrun eru á gólfi, sem fyrr segir, en víðast hvar er botninn sléttur. Dropsteinar er með veggjum og sumir allt að 30 cm háir. Hraunshrá liggja niður úr loftinu, sum nokkuð löng. Á einum stað má sjá „gullsalla“ í loftsprungu.

Snorri

Snorri – þrívíddarmæling. Inngangurinn efst.

Líklegt má telja að þakið sé ekki mjög þykkt eftir að upp í meginrásina er komið. Nokkuð draup úr því eftir rigningu næturinnar.
Aðkoman að Snorra, erfiðleikarnir við að komast upp í rásina og ferðalagið í gegnum hana er eftirmynnilegt. Þar eiga dropsteinar og hraunstrá ekki síst hluta að máli.
Með í þessari för var Snorri Þórarinsson, bóndi á Vogsósum, sá er hafði sagt FERLIRsfélögum frá jarðfallinu á sínum tíma. Ekki var annað að sjá en Snorri væri bara stoltur af nafna sínum.

Snorri

Unnið að inngöngu í Snorra.

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna að bók um sögu staðarins.

 Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um  staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl. Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli með vísan til megintilgangs sumarbúðanna á sínum tíma.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir áhugasamir slógust í hópinn.
Veður var frábært.

Áletrun

Áletrun í Kaldárseli.

Þórshamar

Jóhann Pétursson bjó um tíma í Þórshamri á Þórkötlustaðanesi í Grindavík. Að sögn heimamanna, sem muna þá tíma, virtist hann rammur að afli, en undarlegur í háttum. Orðrómur gekk m.a. um að hann hafi sést standa ofan sjávarkambsins mót strekkingsvindi og hvitfyssandi ölduróti, formælandi og baðandi út öllum öngum. Í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar „Frá liðnum tímum og líðandi“ er áhugavert viðtal við Jóhann þar sem hann minnist m.a. veru sinnar á Nesinu.

Jóhann Pétursson

Jóhann var bókasafnari og lengi vitavörður í Hornbjargsvita. Hann hafði óslökkvandi ást á bókum, enda ber viðtalið yfirskriftina „Ég vil að góðar bækur séu vel klæddar, eins og konur, sem ég elska“. Jóhann fæddist í Stykkishólmi árið sem Katla gaus, frostaveturinn mikla árið 1918, og ólst upp í Öxney á Breiðafirði. Hann hélt suður 1946 eða 1947, að eigin sögn, til að höndla með bækur. Þá skrifaði hann og bækur, auk þess sem hann keypti fornbókaverslun og hafði það fyrir atvinnu fram til 1960. Þá hélt hann sem vitavörður norður á Hornbjarg, þó með viðkomu í Grindavík, þar sem hann var næstu 25 árin. Hér verður gripið niður í viðtalið þar sem segir frá sögufrægu viðstaldri hans í Grindavík.
„En áður en leið þín lá vestur, varstu um tíma í Grindavík. Varð þá ekki skipsskaði á Reykjanesi, sá hinn sami og Hannes Sigfússon skrifaði síðar um skáldsöguna „Strandið“. Og varst þú ekki þar?
-Jú, það er rétt, þá var ég í Grindavík. Strandið varð á Reykjanestá, mig minnir að þetta hafi gest árið 1949. Ég fór þangað ásamt fleirum, til að taka þátt í björguninni. Skipið sem strandaði, var u.þ.b. 10.000 olíuskip. Það hét Clam. Vélin í því hafði bilað og dráttarbátur sótti það til Reyjavíkur, því ætlunin var, að sögn, að draga það til útlanda. En þegar skipið og dráttarbáturinn voru út af Reykjanei, þá slitnaði dráttartaugin. Það var ekki hvassviðri, þannig að hugsanlega hafa menn verið ákveðnir í því að láta skipið stranda. Hvað um það, skipið rak upp að klettum, þar sem var svo aðdjúpt, að maður gat gengið út á skipið á planka. Ég var fyrstur til að fara út í skipið.
Það var merkileg reynsla á margan hátt. Ég man eftir því, að fjandi margir hásetar fórust þarna. Það var ekki veðrinu að kenna. Skipstjórinn lét Clam á strandsstað utan við Reykjanessetja út bátana, en þeir brotnuðu meira og minna, ýmist uppi við skipssíðuna eða í brimgarðinum. Við vorum að reyna að draga mennina upp, einn og einn, sem komst lifandi að klettunum. Hannes vinur minn skáld, Sigfússon, náði í hárið á einum, en var svo hræddu um, að hann drægi sig niður í sjóinn, að hann sleppti honum. Þar með var sá dauður, en Hannes hljóp burt. Ég man ekki hverrar þjóðar yfirmennirnir á þessu skipi voru, en Evrópumenn voru þeir alla vega ekki, sennilega Bretar. Hásetarnir voru hins vegar Kínverjar.
Það rak mikil verðmæti úr skipsflakinu. Júlli Dan. í Grindavík var fenginn frá tryggingarfélaginu, til að hirða allt og keyra það suður. Meðal annars rak frystiklefa, fullan af dýrmætum matvælum fyrir sextíu manna áhöfn. Þessu var öllu stolið og flestu öðru, sem bjargað varð. Þetta atvik var sambland af harmleik og skepnuskap.
ÞórshamarSumir vilja meina, að þú hafir bjargað líkamsleifum drukknaðra sjómanna og að eitthvað hafi dregist að koma þeim til greftrunar. Hvað er hæft í því?
-Já, það er nokkuð til í þessu. Það rak þó nokkuð af líkum Kínverja fyrir höfðann, þar sem þau höfnuðu í vík, að sunnanverðu við nesið. Víkin er svolítið klettótt og því var erfitt að draga líkin á land. Ég man eftir því, að Hannes hafði náð taki á einu líki en missti það. Þegar það skall í sjóinn, snerist það við og andlitið blasti við mér. Þetta var dálítið óhugnanlegt, allt saman. Ég fór með líkin niður í Grindavík og vildi láta grafa þau. En því var eiginlega neitað að koma þessum dýrum í gröfina. Þó var nú endanleg útkoma sú, að þarna voru mennirnir grafnir.
Varðst þú þá að geyma líkin, meðan stóð í stappi að fá þá grafna?
-Nei, ég fór með þau í frystihúsið og þar voru þau látin vera á borðum í ákveðnu herbergi. Nú, en þarna í frystihúsinu var frystiklefi, þar sem mikið var fryst af matvælum fyrir þorpsbúa.
Sú saga komst á kreik, að ég hefði geymt líkin í Þórshamar í dagþessum klefa, innan um matvælin. Og þær voru fleiri, sögurnar, sem gengu af þessu tilefni. Ein var sú, að draugagangur hefði verið í húsinu hjá mér. Samkvæmt þessari kjaftasögu átti ég að trúa því, að draugar fældust lík. Þess vegna hefði ég tekið hauslausan Kinverja og komið honum fyrir heima hjá mér, sem draugafælu. Nei, það vatnar ekki skáldagáfuna í fólk, þegar Gróa á Leiti gengur lausum hala.
En hvað varst þú að gera í Grindavík, þegar þessir atburðir urðu?
-Það var þannig, að ég hafði keypt hús þarna í Grindavík, Þórshamar hét það. Sannleikurinn er sá, að ég fór þangað til að gera upp áhrif móður minnar á mig, en þau voru mikil. Hún var mikil trúkona, en ég efaðist í þeim efnum. Að minnsta kosti var mín trú ekki jafnstaðföst og hennar. Þetta var því ekki aðeins uppgjör við móður mína, heldur einnig við sjálft almættið. Og það gekk svo mikið á í þessu uppgjöri, að stundum æddi ég um gólf, steytti hnefa til himins og bókstaflega öskraði á Guð.
Svona haga sér nú varla aðrir en trúmenn, eða hvað?
Þórkötlustaðahverfi og Bótinn og Þórkötlustaðanes fjær-Þetta er fjandi lúmsk spurning, segir Jóhann og verður nokkuð hugsi, áður en hann heldur áfram. – Trúmaður og trúmaður. Trúa á hvern andskotann? Já, eins og ég sagði, móðir mín var ákaflega mikil trúmanneskja og hafði eflaust mikil áhrif á mig sem barn. Og einhvern veginn mótaði þetta mig. En svo mikið er víst, að þegar ég keypti húsið þarna í Grindavík og bjó þar um tíma, þá háði ég baráttu um þetta upp á líf og dauða. Eiginlega kom ég mikið heilli maður út úr þessu. En þetta var mikil tilfinningaleg og sálræn barátta.
Lendir nokkur maður í slíkri baráttu, nema trú hans sé nokkuð sterk?
-Nei, nei, svarar Jóhann. – Það er einfalt mál. Samt er þetta, að trúa sterkt, nokkuð tvírætt. Móðir mín mótaði mína trú og þessi trú varð dálítið mögnuð fyrir áhrif frá henni. En hvort trú mín var sterk út frá þeirri forsendu einni eða hinu, að hún væri algjörlega meðfædd sannfæring, það er ég ekki viss um.
Varð ekki nokkuð sögulegur endir á búsetu þinni í Grindavík?Innsiglingamerki við Þórshamar - skammt frá reykhúsinu (mynd af því mun birtast hér innan skamms)
-Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Þetta hús, sem ég keypti þarna, Þórshamar, var steinhús. Það var þannig, að eitt haustið ætlaði ég að breyta því. Það var veggur á milli stofunnar og eldhússins. Og á miðjum þessum vegg var skorsteinn. Ég ætlaði að stækka stofuna, með því að brjóta niður þennan vegg. En þegar ég hafði brotið hann öðrum megin við skorsteininn og var rétt byrjaður hinum megin, þá sá ég, að veggurinn féll. Í einhverju ofboði gat ég kastað mér áfram, í átt að útvegg. Í stökkinu skall veggurinn á mér, en það sem bjargaði mér, var það, að á miðju gólfinu var stór steinhrúga. Veggurinn brotnaði á þessari hlrúgu, og það mildaði höggið á mig. Engu að síður hryggbrotnaði ég og fótbrotnaði.
Þarna lá ég eins og djöfulsins aumingi. Þó gat ég skriðið út að holu, sem var uppi við reykhús, sem fylgdi húsinu. Það er nú svona útúrdúr, en ég var stundum að reykja fyrir kerlingar þarna, bæði kjöt og fisk. En ég kunni ekkert með þetta að fara og eyðilagði allan mat fyrir þeim. Nú, nú, en hvað með það, þarna í holunni lá ég í hálfan annan sólarhring í snjókomu og frosti. Ástandið var meira að segja svo bölvað, að í holunni var pollur með ófrosinni vatnsdrullu. Og ofan í þessum polli lá ég með mölbrotna ristina, sem fossblæddi úr.
Sá, sem fann mig, var hundur. Ég var næstum meðvitundarlaus, þegar ég raknaði úr rotinu við það, að hann sleikti á mér andlitið. Ég heyrði, að karl einn var að kalla í hundinn. Mér tókst að gefa frá mér hljóð, þannig að karlinn kom. Ég man bara, að hann ákallaði Guð. Síðan man ég ekki annað en það, að ég var borinn inn á spítala. Ég átti lengi í þessu og enn þann dag í dag er hryggurinn á mér eins og hálfgert S í laginu. Já, það er margt, sem maður hefur orðið að skríða upp úr um dagana, segir Jóhann Pétursson.
Nú er Grindavík ekki ýkja langt frá Reykjavík, vildi það ekki brenna við, að ungskáld þess tíma litu við hjá þér?
-Jú, heldur betur. En það er ástæðulaust að fjalla sérstaklega um það. Þó sakar ekki að geta þess, að Stefán Hörður, sá öðlingsmaður, dvaldi hjá mér. Og fyrstu nútímaljóðabók sína, „Svartálfadans“, skrifaði hann nær alveg þarna suður frá hjá mér.“ Þórkötlustaðanesviti
Síðar, þar sem sagt er frá samveru þeirra við að gæta fornbókaverslunarinnar Bókavörðunnar fyrir Braga Kristjónsson við Vesturgötu, berst samtalið aftur að dvölinni í Grindavík: „Ég hafði orð á því við Jóhann, að mér hafi þótt lýsingar hans á uppgjörinu við Guð almáttugan, suður í Grindavík, heldur í stórbrotnara lagi. Hann skilur það.
-En svona er nú lífið, segir hann. – Ég veit svei mér þá ekki, hvort mér var alveg sjálfrátt, þarna suður í Grindavík.
Það er þá ef til vill eitthvað til í því, sem sumir segja, að þú sér ekki með öllu mjalla? spyr ég hreint út, enda þætti víst sumum tilefni til, vegna soddan lýsingar á samskiptum við æðri máttarvöld.
-Ég hef aldrei verið það, svarar Jóhann að bragði. – Það er ósköp einfalt mál. Og ég er orðinn svo gamall, að það breytist ekkert úr því sem komið er. Ég lifi og starfa við sama fábjánaháttinn og ég hef alltaf gert.
Heldurðu að þetta sé þér áskapað, eða hefurðu stuðlað að þessu sjálfur?
-Það er hvort tveggja í senn. Mér er að vissu leyti áskapað þetta, en svo hef ég stuðlað að því sjálfur, að svo miklu leyti, sem mér hefur verið það kleift. Enda vill svo til, að þetta mannlega líf er bjánaskapur frá upphafi til enda, 98% er vitleysa og afgangurinn bull.
Þú ert sem sagt ekki hrifinn af því, sem fínt þykir í dag og sumir kalla „normalitet“?
-Svarið lætur ekki á sér standa. – Nei, en ég hef svo sem hvergi rekist á það. Ég rekst aðallega á menn, sem virðast yfirmáta gáfaðir en reynast svo algjörir fábjánar. Og mér líkar það vel, enda er ég hvort tveggja sjálfur.“
Í minni fólks hefur Jóhann jafnan verið tengdur Þórkötlustaðanesvitanum (Hópsnesvitanum) þar sem hann á að hafa verið vitavörður. Ekki er ólíklegt að ætla að svo hafi verið um skeið því sá v
iti var byggður árið 1928 og þarfnaðist umsjónar. Í framangreindu viðtali við Jóhann er ekki að sjá að hann hafi þjónustað vitann, en einmitt af þeirri sjálfsögu ástæðu gæti hafa gleymst að geta þess!

Loftur Jónsson

Loftur Jónsson.

Við framangreinda frásögn vildi Loftur Lónsson í Grindavík bæta eftirfarandi: „Í bókinni  er ekki farið alveg rétt með staðreyndir, Þarna er sagt, að olíuskipið Clam hafi strandað 1949. Hið rétta er að það strandaði 28. febr. 1950 samkv. Morgunblaðinu 1. mars sama ár.  Ennfremur er rétt að geta þess að Jóhann Pétursson var aldrei vitavörður við Hópsnesvita. Á þeim tíma, sem hann var í Þórshamri, er líklegt að vitavörður hafi verið Guðmundur Benónýsson, Þórkötlustöðum.  Allavega var hann fyrsti vitavörður við vitann og Árni Magnússon, Túni (Víkurbraut 32) tók við af honum. Ég efast um að rétt sé, að lík þeirra sem drukknuðu hafi verið geymd í Hraðfr.húsi Grindavíkur. Þau voru örugglega flutt beint inn í Fossvogskapellu. Jón Guðlaugsson frá Skálholti var þá vörubílsstjóri hjá Verslun Einars í Garðhúsum. Hann hefur sagt mér, að eitt sinn þegar hann fór með lík á pallinum inn í Fossvog, að þá stoppaði hann við bensínsölu, sem var efst á Kópavogshálsinum til að taka bensín. Þá kom þar að fullorðinn Kópavogsbúi. Hann ávarpaði Jón og spurði hvaða ferðalag væri á honum. Jón sagðist koma frá Grindavík. „Jæja, eru þeir ekki að fiska vel í Grindavík eins og venjulega“. Hann steig því næst upp á dekk bílsins og kíkti undir seglið, sem var kyrfilega bundið yfir pallinn. Aumingja manninum varð svo mikið um, þegar hann sá hvað var undir seglinu að hann hröklaðist öfugur frá bílnum, spurði einskis frekar og fór þegjandi í burtu.
Þess má geta í lokin, að talið er að flestir þeirra sem dóu við strandið hafi kafnað við það, að svartolía, sem dráttarbáturinn dældi í sjóinn, hafi fyllt vit þeirra sem lentu í sjónum. Það var þykkur, stór flekkur af svartolíu við skipið.“

Heimild:
-Pjetur Hafstein Lárusson – Frá liðnum tímum og líðandi – 2002, bls. 55-82.

Öldurót utar á Bótinni utan við Þórshamar - Ísólfsskáli fjær

Garður

Farin var kynnisferð um Sveitarfélagið Garð undir leiðsögn Ásgeirs Hjálmarssonar.

Prestsvarða

Prestsvarðan.

Í Garðinum var m.a. gengið að Prestsvörðunni ofan við Leiru, sagði frá mannlífinu þar, Gufuskálar kynntir til sögunnar sem og Ellustekkur, komið við í Kisturgerði, bent á hinar 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðskaga, kíkt inn í keramikfabrikuna, fornmannleiðið barið augum og letursteinninn þar, staldrað við Skagagarðinn og minjasafnið á Garðskaga skoðað.
Í Sandgerði var m.a. saga Skagagarðsins rakin, atburðirnir að Kirkjubóli, bæði er varðaði Jón Gerekkson og Kristján skrifara í framhaldi af aftöku Jóns Arnasonar, biskups, kumlin á Hafurbjarnarstöðum kynnt, Vikivakakvöld á Flankastöðum.

Sandgerði

Sáðgerði (Efra-Sandgerði).

Efra-Sandgerði er elsta uppistandandi hús í bænum – 1883.  Komið var við í Fræðasetrinu, einstök hús einblínd, fjallað um uppbyggingu miðbæjarins, Sandgerðisvita 1908 og viðbót ofan á hann 1944, komið við í kertagerð og keramikgalleríum, Sandgerðishverfin sjö tíunduð (Kirkjubólshverfið, Flankastaðahverfið, Sandgerðishverfið, Býjaskerjahverfið, Fuglavíkurhverfið, sagt frá skipssköðum og mannfórnum til sjós, Hvalsneshverfið og Stafneshverfið), komið við í Hvalsneskirkju og saga kirkjunnar rakin, haldið að Stafnesi og saga þess sögð ásamt lýsingum á umhverfi Básenda, Gálga, Þórshafnar og Ósabotna. Þá var sagt frá Hvalsnesgötunni til Keflavíkur, villum fólks á Miðnesheiðinni og helstu mannvirkjum á henni, svo eittvað sé nefnt.

Saga Garðs

Garður

Garður.

Byggðarlag á nyrsta odda Reykjanesskagans, þó aðeins með austurströndinni sem veit inn að Faxaflóa. Garðurinn nær frá Rafnkelsstaðabergi að innanverðu og út á Skagatá þar sem vitinn stendur. Í daglegu tali er honum skipt í inn- og út-Garð en milli þeirra er Gerðahverfið. Þar er allstór þéttbýliskjarni er tók að myndast skömmu eftir síðustu aldarmót. T.d. má telja 14 varir milli Rafnkelsstaða og Garðaskaga, s.s. Kópu og Vararós.Garðurinn er í Sveitarfélaginu Garði. Mörkin liggja frá Garðskagatá um Skálareykjar að flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Garðurinn dregur nafn af Skagagarði.

Garðskagi

Garðskagi – skipsströnd; skilti.

Það var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar.
Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.

Árnarétt

Árnarétt.

Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.

Gerðaskóli er einn elsti skóli á landinu en hann var stofnaður 1872 af séra Sigurði Sívertsen.
Stúkan framför var stofnuð1889 og reistu félagar hennar samkomuhúsið í Garði. Kvenfélag var stofnað í Garðinum 1917. Ungmennafélagið Garðar var stofnað 1932 en það hefur ekki verið starfandi um langa hríð. Íþróttafélagið Víðir var stofnað 1936. Verkalýðsfélagið í Garðinum var stofnað 1937. Tónlistafélag Gerðahrepps var stofnað 1979.

Garðskagaviti

Ysti hluti skagans sem gengur til norðurs af vestanverðu Reykjanesi.

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Viti var fyrst reistur á Garðskagatá 1897 en áður hafði verið þar leiðarmerki, varða frá 1847, með ljóskeri frá 1884. Nýr viti var byggður 1944. Gamli vitinn var notaður sem flugathugunarstöð á vegum Náttúrufræðarstofnunar Íslands á árunum 1962-1978.

Sunnudaginn 17. ágúst sl. var haldið upp á 100 ára afmæli Garðskagavita. Siglingastofnun og Gerðahreppur stóðu sameiginlega að því að bjóða almenningi að koma og skoða vitana og Byggðasafn Gerðahrepps.

Garðskagaviti

Garðskagaviti nýrri.

Gefinn var út bæklingur af þessu tilefni um vitana og í honum er einnig umfjöllun um byggðasafnið. Talið er að um 600-700 manns hafi komið þennan dag út á Garðskaga í ágætu veðri. Slysavarnarfélagskonur buðu gestum upp á kaffi og meðlæti í vitavarðarhúsinu. Aðsókn var fram úr björtustu vonum aðstandenda.

Starfsmenn Siglingastofnunar eru nýlega búnir að gera upp eldri vitann. Einnig er búið að helluleggja göngustíga á svæðinu. Svæðið er því allt til fyrirmyndar og Garðskagavita sómi sýndur á aldarafmælinu.

Útskálakirkja

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Kirkjan að Útskálum var reist árið 1861 að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.

Aðrir staðir áhugaverðir staðir:
-Kistugerði
-Draughóll
-Fornmannaleiði
-Gufuskálar
-Vatnagarður
-Leiran
-Prestsvarða
-Skagagarðurinn

http://www.gerdahreppur.is

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Kristján Sæmundsson

Eftirfarandi grein Páls Imslands, „Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa – sprungumyndunarsaga„, birtist í Náttúrufræðingnum árið 1985:

Berggrunnur-ökort

„Kenningin um landrek og tilurð jarðskorpu á gliðnandi plötumótum, gerir betur grein fyrir myndun, þróun og ástandi íslensku jarðskorpunnar en nokkurt annað tiltækt hugmyndakerfi. Það sem hér verður útlistað um almennt jarðfræðilegt ástand og þróun skorpunnar á Suðvesturlandi er gert innan ramma plötukenningarinnar, sem er óneitanlega frjóasta og notadrýgsta heildarmynd, sem jarðfræðin hefur átt. Á fáum stöðum á jörðinni tala merkin ljósar á máli þessarar kenningar en einmitt hérlendis. Samhengið í jarðfræðilegri þróun er tiltölulega auðsætt hér, þó flókið sé, og samband „strúktúra“ og þeirra ferla, sem eru orsök þeirra, liggur ljósar fyrir en almennt gerist. Veldur því bæði, að landið er í hraðri myndun og eins hitt, að það er gróðursnautt, svo opnur eru yfirleitt mjög góðar í berggrunninn. Það er vegna þessa, sem Ísland gegnir gjarnan lykilhlutverki í jarðfræðilegum rannsóknum, er beinast að skilningi á jörðinni í heild.

Reykjanes

Reykjanes – Brú milli heimsálfa. Landrek.

Íslenska jarðskorpan verður til í rek- og gosbeltinu. Á Suðvesturlandi liggur þetta belti um Reykjanesskagann og Hellisheiðar-Þingvallasvæðið í átt til Langjökuls. Framhald þess til suðurs er sjálfur Reykjaneshryggurinn. Flói og Ölfus liggja á nýmynduðum vesturjaðri Evrópuplötunnar, er rekur til austurs með u.þ.b. 1 cm hraða á ári að meðaltali. Höfuðborgarsvæðið liggur hins vegar á nýmynduðum austurjaðri Ameríkuplötunnar, vestan við rekbeltið, og rekur með líkum hraða til vesturs (Leó Kristjánsson 1979). Landið verður því eldra, sem lengra kemur frá rekbeltinu.
Nýtt land er ætíð að myndast í rekbeltunum. Það verður til, þar sem spennuástand í jarðskorpunni veldur því, að landið brotnar upp og myndar langar sprungnar ræmur eða spildur, sprungusveima. Þeir eru virkastir inn til miðjunnar, en jaðrar þeirra og endar eru venjulega minna sprungnir og eins er þar heildartilfærslan á sprungunum minni.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Myndun nýrrar jarðskorpu í sprungusveimnum á sér stað samfara gliðnuninni. Það gerist á þann hátt að bergkvika neðan úr möttli jarðar streymir upp í sprungurnar og storknar þar eða vellur að hluta út yfir umhverfið í eldgosum. Þessi nýmyndun jarðskorpu á sér ekki stað á einni ákveðinni sprungu, heldur dreifist hún á nokkrar þyrpingar sprungna, sprungusveimana. Á milli sjálfra sprungusveimanna er oftast minna um alla virkni. Stærð sprungusveima og afstaða þeirra hvers til annars er breytileg svo og framleiðslumynstur þeirra og e.t.v. „lífslengd“.
Á Reykjanesskaganum liggja sprungusveimarnir skástígt og að allverulegu leyti samsíða. Annars staðar á landinu hliðrast þeir meira til á langveginn, svo að samsíða spildur þeirra eru tiltölulega styttri. Hver sprungusveimur þekkist á yfirborði af þrem gerðum sprungna: misgengjum, gjám og gossprungum. Misgengin mynda stalla í landslaginu og um þau hliðrast jarðlögin, sem þau skera, mest í lóðrétta stefnu. Misgengin hafa tilhneigingu til að mynda ákveðinn sigdal (graben) um miðbikið, þar sem virknin er mest. Þingvallalægðin er gott dæmi þar um. Rof og önnur eyðingaröfl hafa tilhneigingu til þess að brjóta niður og jafna út misgengisstallana jafnótt og þeir myndast.
SprungusveimarÁsamt jöklum hefur rennandi vatn tilhneigingu til þess að grafa landið í samræmi við gamalt sprungumynstur. Misgengin og gjárnar geta því orðið stýrandi þáttur í landslagsmótun í eldri  berglögum. Opnu gjárnar myndast eingöngu á gliðnunarsvæðum. Um dýpi þeirra er lítið vitað. Með tímanum hafa roföflin og eldvirknin tilhneigingu til þess að fylla gjárnar. Gígaraðir myndast yfir gossprungum, þar sem kvikan berst til yfirborðsins. Hlaðast þar upp gígar, sem hraun renna frá. Á meðan jöklar lágu yfir gosbeltunum á kuldaskeiðum ísaldarinnar, hindruðu þeir hraunrennsli með þeim afleiðingum, að gosefnin hrúguðust nær öll upp yfir gosrásunum. Þá urðu til móbergshryggir, þar sem annars hefðu orðið gígaraðir. Móbergsfjöll eru áberandi í landslaginu austan og sunnan höfuðborgarsvæðisins, enda er það land að mestu leyti orðið til á síðasta hluta ísaldarinnar og þar af leiðandi lítið rofið.

Reykjanesskagi

Reykjaneskagi – jarðfræðikort ISOR.

Um líf- eða virknitíma sprungusveimanna er fremur lítið af haldgóðri þekkingu til staðar, enn sem komið er. Flest bendir þó til þess, að líflengd þeirra séu takmörk sett í raun. Framan af framleiða þeir tiltölulega frumstætt berg og eingöngu basískt að samsetningu. Á sama tíma virðist einnig sprunguvirknin vera mest og e.t.v. ná lengst út til enda og jaðra. Er líður á, hefur virkni sprungusveimanna tilhneigingu til þess að safnast inn á miðsvæði þeirra. Þar myndast háhitasvæði, eldvirknin eykst þar hlutfallslega jafnframt því sem bergkvikan verður þróaðri að samsetningu. Eldgosin verða tíðari en gjarnan minni í hvert sinn. Ennfremur virðist sprunguvirknin fara minnkandi. Jarðfræðingar segja að megineldstöð verði til á sprungusveimnum. Þegar líður svo á þróun þessara megineldstöðva dregur aftur úr virkni þeirra og að lokum deyja þær út. Í flestum tilfellum deyr megineldstöð út samtímis því að nýr sprungusveimur verður til í nágrenninu; eitt kerfi (sprungusveimur-megineldstöð) deyr út og annað hliðstætt kerfi tekur við hlutverkinu.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort.

Hinn útdauða sprungusveim ásamt tilheyrandi megineldstöð rekur þá í heilu lagi út úr gosbeltinu til annarrar hvorrar áttarinnar, eftir því hvorum megin nýi sprungusveimurinn myndast. Eyðingaröflin byrja að brjóta megineldstöðina niður og ef til vill kaffærist hún að einhverju marki í gosefnum frá nýja sprungusveimnum.
Í þeirri þróunarsögu jarðskorpunnar, við sunnanverðan Faxaflóa, sem hér verður gerð grein fyrir, koma sjö sprungusveimar við sögu. Af þeim eru tveir útdauðir en fimm virkir. Hinir dauðu voru virkir á árkvarter og eru kenndir við Kjalarnes og Stardal. Á báðum þróuðust samnefndar megineldstöðvar. Hér er því bæði rætt um Kjalarnessprungusveiminn og Kjalarnesmegineldstöðina o.s.frv. Kjalarnesmegineldstöðin var virk á tímabilinu frá 2.8-2.1 miljón ára síðan en Stardalsmegineldstöðin á tímabilinu frá 2.1-1.6 miljón ára (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Fyrstu merki megineldstöðvanna koma í ljós, þegar alllangt er liðið á þróunarskeið.

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Virku sprungusveimarnir fimm eru kenndir við stærstu jarðhitasvæðin, sem á þeim finnast, Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes. Hengilssprungusveimurinn hefur þegar þróast í megineldstöð, en mjög nýlega. Það er hins vegar skilgreiningaratriði, hvort megineldstöð er til staðar á hinum sprungusveimunum enn sem komið er. Þeir bera sum merki dæmigerðra megineldstöðva, en vantar önnur. Þeir eru því allir ungir. Upphafs þeirra er að leita í sjó undan gamalli suðurströnd höfuðborgarsvæðisins seint á ísöld; að öllum líkindum fyrir minna en 700 þúsund árum.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Um jarðfræði höfuðborgarsvæðisins hefur ýmislegt verið ritað og er vitnað til þess helsta í köflunum, sem á eftir fylgja. Jarðfræðileg kortlagning svæðisins var gerð af þeim Tómasi Tiyggvasyni og Jóni Jónssyni (1958). Er það kort í mælikvarðanum 1:40.000 og sýnir fyrst og fremst lausu jarðlögin ofan á berggrunninum, sem þó er mjög víða sýnilegur í gegn um lausu þekjuna.

Jarðlögum við sunnanverðan Faxaflóa má skipta upp í nokkrar ákveðnar stórar einingar. Hér er notast við fjórar myndanir. Dreifing þeirra er sýnd á Tertíera myndunin er elst. Hún er gerð að mestu úr blágrýtishraunlögum og er mynduð áður en þeir sprungusveimar, sem hér er fjallað um, urðu virkir.  Árkvartera myndunin liggur ofan á tertíera berginu. Hún er gerð úr hraunlögum og móbergi að mestu leyti. Hún varð til í þeim tveimur útdauðu sprungusveimum, Kjalarnes- og Stardals-sveimunum, sem að ofan getur og virkir voru á fyrri hluta kvarters. Á báðum þróaðist megineldstöð með háhitakerfi og þróuðum bergtegundum (Ingvar B. Friðleifsson 1973).

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Nútímamyndunin er gerð úr móbergi frá síðasta jökulskeiði og hraunum, sem runnin eru eftir að ísöld lauk. Þetta berg hefur myndast í sprungusveimunum fimm, sem kenndir eru við Hengil, Brennisteinsfjöll, Krýsuvík, Svartsengi og Reykjanes, en þeir eru allir virkir enn og framleiða nú jarðskorpu á sunnanverðu svæðinu. Þeir hafa ekki náð þroskastigi háþróaðra megineldstöðva. Grágrýtismyndunin er gerð úr grágrýtishraunum frá síðustu hlýskeiðum ísaldarinnar. Þessi hraun liggja á milli árkvarteru og nútíma myndananna. Þau verða ekki talin tilheyra ákveðnum sprungusveimum. Þau eru yfirleitt talin vera upp komin í dyngjum, en upptök eða gígasvæði þeirra flestra eru enn óþekkt.

Hengill

Hengill.

Á þeim tíma, er forverar Hengilssprungusveimsins voru virkir og jarðskorpan á höfuðborgarsvæðinu var að myndast, var Reykjanesskaginn ekki til sem slíkur, eftir því sem best verður séð. Suðurströndin lá norðar en nú er. Hún hefur að sjálfsögðu verið eitthvað breytileg frá einni tíð til annarrar vegna ýmissa breytiþátta, svo sem: Uppbyggingar af völdum eldvirkninnar, niðurbrots af völdum sjávar og jökla, sem langtímum voru á svæðinu, og síðast en ekki síst vegna breytinga á jafnvægisástandi í jarðskorpunni af „ísóstasískum“ toga. Við getum til einföldunar áætlað að lengst af hafi ströndin legið til austurs eða suðausturs frá svæðinu milli Hafnarfjarðar og Grafarvogs. Sprungusveimar þeir sem nú finnast á Reykjanesskaganum voru ekki orðnir virkir og framhald rek- og gosbeltisins til suðurs var neðan sjávarmáls. Afraksturinn af virkni þeirra sprungusveima, sem þá voru virkir neðansjávar, sést ekki á þurrlendi í dag og virðist ekki skipta verulegu máli fyrir endurröðun atburða í þessari þróunarsögu.

Esja

Esjan á Kjalarnesi.

Elsta berg við Faxaflóa er frá tertíer. Það finnst ekki sunnar á yfirborði en á norðurströnd Hvalfjarðar. Úr því er t.d. Akrafjall. Þetta berg er myndað í sprungusveimum, sem ekki verða til umfjöllunar hér. Á því hvílir það berg, sem myndar berggrunninn á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu. Meginhluti þess bergs, sem nú finnst á yfirborði, myndaðist í árkvarteru sprungusveimunum tveimur. Það finnst í Esju og þeim fjallabálki, sem henni tengist. Það er því myndað í nyrðri hluta kerfanna. Botn Faxaflóa
úti fyrir höfuðborgarsvæðinu er einnig gerður úr bergi frá Kjalarneskerfinu, þ.e.a.s. suðurhluta þess. Ofan sjávarmáls sést í þetta berg, þar sem það hverfur undir grágrýtið í Viðey, Kleppsskafti, Geldinganesi og fleiri stöðum. Einnig kemur það fram ofarlega í borholum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið (Ragna Karlsdóttir 1973). Tiltölulega meira berg er sýnilegt úr suðurhluta Stardalskerfisins, enda er kerfið yngra og minna rofið. Það finnst í fjöllunum vestan Mosfellsheiðar. Í Seljadal og sunnan Úlfarsár hverfur það undir grágrýtið. Lítið er vitað um það, hvernig þessi árkvarteru jarðlög enda í staflanum undir grágrýtinu. Mörk árkvarteru myndunarinnar og grágrýtisins hlýtur eiginlega á flestum stöðum að vera strand-mislægi. Hver heildarþykkt ákvarteru myndunarinnar er liggur ekki ljóst fyrir, en neðri mörk hennar eru mótin við tertíera bergið. Á yfirborði finnst það fyrst norðan Hvalfjarðar. Ummyndað og holufyllt árkvartert berg kemur fyrir í borholum um allt höfuðborgarsvæðið.

Reykjanes

Reykjanestáin – jarðfræðikort.

Fræðileg samstilling jarðlaga og uppröðun þróunarsögunnar innan þessarar myndunar, er að því er virðist töluvert erfið í smáatriðum. Bergið í þessari árkvarteru myndun er mestmegnis allvel holufyllt basalthraunlög og basískt móberg, enda var landið ýmist hulið jöklum eða ísfrítt á myndunarskeiðinu. Slæðingur af súru bergi finnst, einkum úr Stardalsmegineldstöðinni. Það kemur fyrir í Móskarðshnjúkum og Grímmannsfelli (sjá Helga Torfason 1974). Innskotsberg er einnig töluvert áberandi í þessum jarðlagastafla. Er þar bæði um að ræða ganga og minniháttar óregluleg innskot eins og til dæmis í Þverfelli og umhverfis Stardal (Ingvar B. Friðleifsson 1973). Gangarnir mynda kerfi með sömu stefnu og sprungukerfin hafa, enda eru þeir storknuð kvika, sem leitaði inn í sprungukerfið. Ofan á árkvarteru myndunina leggst grágrýtið. Núverandi þekja þess teygir sig frá Þingvallavatni í sjó fram, sitt hvorum megin við Mosfellssveitarfjöllin. Það finnst á öllum nesjum og eyjum frá Hvaleyri til Brimness. Það finnst í ásum og holtum á höfuðborgarsvæðinu, frá Ásfjalli í suðri til Keldnaholts og Reynisvatnsáss í norðri. Það er einkennisberg flatlendisins ofan Lækjarbotna, umhverfis Sandskeið og á Mosfellsheiði.

Vogastapi

Stapinn.

Stór og mikill fláki af sama bergi finnst sunnar við Faxaflóa og myndar þar Vogastapa, Miðnesheiði og Garðaskaga. Hvort þetta syðra svæði tengist hinu nyrðra beint um botn flóans úti fyrir Vatnsleysuströnd er óljóst. Það gæti eins verið stök myndun. Heildarþykkt grágrýtisins á svæðinu er óþekkt en í borholum reynist það víða allþykkt (Jens Tómasson o.fl. 1977). Þrátt fyrir rofið yfirborð sjást víða um 40 m af því á yfirborði í einu hrauni. Sem jarðlagamyndun með millilögum er það varla undir 150—200 m. Þó grágrýtið sé myndað á tiltölulega stuttu tímaskeiði, þá fer aldur þess almennt lækkandi eftir því sem austar dregur. Neðstu og elstu hlutar grágrýtismyndunarinnar finnast vestur við sjó, í Reykjavík, á Álftanesi og Brimnesi, o.s.frv. Efst og yngst er grágrýtið austur á Mosfellsheiði. Grágrýtið er yfirleitt fremur grófkorna bergtegund. Það er basalt eins og blágrýtið í eldri myndunum og flestöll yngri hraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Dyngjur þær, sem myndast hafa eftir að ísöld lauk, eru margar gerðar úr bergi, sem mjög líkist grágrýti hlýskeiðshraunanna frá síðkvarter. Auk þess er ýmislegt annað líkt með dyngjunum og þessum hraunum. Yfirleitt telja því jarðfræðingar að síðkvartera grágrýtið á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar víðar, sé komið úr dyngjum. Dyngjulögunin er þó í flestum tilvikum horfin svo og sjálfir gígarnir. Upptök grágrýtisins eru því yfirleitt óþekkt. Það hefur vegna þessa (líkrar berggerðar og samsetningar og horfinna flestra upprunalegra yfirborðseinkenna) reynst mjög erfitt að deila grágrýtinu upp í einstök hraun, þrátt fyrir nokkrar tilraunir.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Grágrýtið var fyrr á tímum gjarnan afgreitt sem ein stór myndun komin úr Borgarhólum á Mosfellsheiði (Aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983 og Þorleifur Einarsson 1968), en nú á síðari árum hefur sýnt sig (sbr. Jón Jónsson 1972), að þetta er of mikil einföldun. Að hluta til hefur hún verið leiðrétt með því að greina grágrýtisflákann upp í smærri myndanir (Ragna Karlsdóttir 1973; Árni Hjartarson 1980; Kristján Sæmundsson 1981), þó öll kurl séu langt frá því komin til grafar. Nokkuð bendir til þess, að enn eimi eftir af upprunalegu landslagi í grágrýtinu, þrátt fyrir jökulrof og sjávarágang. Grágrýtið er víða enn mjög þykkt, jafnvel svo að skiptir nokkrum tugum metra. Sú skoðun hefur því komið fram, að upptakasvæði sumra
grágrýtiseininganna sé að finna í námunda við þykkustu hluta þess (sbr. Jón Jónsson 1978). Enn sem komið er, er þó ekki gengið úr skugga um þetta. Ef satt er, bendir þetta til þess að upptök grágrýtisins séu ekki eins tengd sprungusveimum og upptök annarra hrauna.

Sveifluháls

Sveifluháls – móbergsfjallgarður.

Árkvarteru kerfin tvö, sem að ofan er lýst, voru virk á tímabilinu frá 2.8 – 1.6 miljón ára. Grágrýtið, sem ofan á jarðmyndanir þeirra leggst, er allt rétt segulmagnað (Leó Kristjánsson 1982, munnlegar upplýsingar), þ.e.a.s. með sömu segulstefnu og ríkir á svæðinu í dag. Grágrýtið hefur því runnið sem hraun á þeim tíma, sem liðinn er frá síðustu segulumpólun, fyrir 700 þúsund árum, eða á síðkvarter.
Nútímabergið eru hraun, sem runnin eru eftir að ísöld lauk og móberg frá síðasta hluta ísaldar. Móbergið er að mestu leyti frá síðasta jökulskeiði. Það er því yngra en grágrýtið. Móbergið finnst í stökum fjöllum og fellum, löngum fjallgörðum og jafnvel flóknum fjallaklösum, sem hraunin hafa lagst upp að eða runnið umhverfis. Hraunin eru komin úr fáeinum nútímadyngjum og eldborgum en fyrst og fremst úr gígaröðum, sem raðast samsíða á sprungusveimana.

Reykjanesskagi

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Það er ekki vani jarðfræðinga, að tala um nútímaberg, nema það sé myndað eftir að ísöld lauk, þ.e.a.s. á nútíma. Hér er þessi hefð þó brotin, vegna þess að hvort tveggja bergið, móberg síðasta jökulskeiðs og nútímahraunin, eru mynduð í sömu sprungusveimunum, þeim sem ennþá eru virkir á nútíma og fyrr eru taldir upp. Þó þetta berg skiptist í tvær ólíkar berggerðir og önnur þeirra (móbergið) sé eldri, þá er það allt ættað úr sömu einingunum (virku sprungusveimunum). Báðar berggerðirnar eiga því
saman sem „stratigrafísk“ og tímaleg eining.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sprungureinar; Jón Jónsson.

Nútímabergið liggur ofan á grágrýtinu. Mörk grágrýtisins og móbergsins eru ekki víða áberandi, en hraunaþekjan leggst sýnilega ofan á grágrýtið á stórum svæðum. Á höfuðborgarsvæðinu er þetta áberandi frá Hafnarfirði austur um og upp undir Draugahlíðar (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980). Þetta er í suðurjaðri þess, sem venjulega er kallað höfuðborgarsvæði, og því má segja, að þessi yngsta myndun sé hvergi mjög þykk á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Þegar suður fyrir það kemur, verður hún hins vegar nær einráð og víða mjög þykk. Jafnframt dýpkar yfirleitt á eldri myndununum. Báðar berggerðir þessarar myndunar eru mjög gropnar, einkum hraunin.
Þau eru jafnvel gropnari en grágrýtið í sumum tilvikum. Því veldur bæði lágur aldur þeirra og myndunarmáti. Vatn hripar því auðveldlega niður í myndunina, enda rennur hvorki á né lækur til sjávar á milli Lækjarins í Hafnarfirði og Ölfusár.

Stardalur

Stardalur og Móskarðshnúkar.

Ekki verður séð að aldursmunur sé á einstökum sprungusveimum innan myndunarinnar. Uppbygging er mest og land stendur hæst á Hengilssveimnum, sem er lengst inn til landsins. Uppbyggingin er hins vegar minnst og land stendur lægst á Reykjanessveimnum, sem nær lengst út til sjávarins. Hlutfallslega virðist móberg vera mest inni á Hengilssveimnum, en minnst úti á Reykjanessveimnum. Þetta gæti bent til þess, að Hengilssveimurinn væri ef til vill eitthvað eldri. Það er þó líklegra að öll þessi einkenni spegli fremur afkastagetu sprungusveimanna og mismikla virkni en verulegan aldursmun.
Eins og fyrr er sagt myndaðist elsti hluti jarðskorpunnar á höfuðborgarsvæðinu í sprungusveimnum og megineldstöðinni, sem kennd eru við Kjalarnes og voru virk í upphafi kvartertímans og fram undir 2.1 miljón ára. Sambærilegt kerfi, Stardalskerfið, hafði við endalok hins kerfisins verið í uppsiglingu um tíma. Stardalssprungusveimurinn óx þá að virkni og hrakti Kjalarnesmegineldstöðina út úr gosbeltinu. Þá dó Kjalarnesmegineldstöðin út, en Stardalsprungusveimurinn þróast sjálfur í megineldstöð.

Stardalshnúkur

Stardalshnúkur.

Stardalsmegineldstöðin dó svo út fyrir 1.6 miljón árum og hefur síðan verið að fjarlægjast gosbeltið og rofna niður. Núna rekur hana til vesturs undan virkni Hengilssprungusveimsins. Hann er þó yngri en 0.7 miljónir ára samkvæmt segulstefnudreifingu (Kristján Sæmundsson 1967; Leó Kristjánsson og Ágúst Guðmundsson 1980). Það getur því vart verið, að hann einn eigi sök á færslu Stardalsskerfisins vestur á bóginn. Líklegast er, að á tímabilinu á milli u. þ. b. 1.8 miljón ára og þess að Hengilssveimurinn tók við gliðnunarhlutverkinu, hafi verið virkur sprungusveimur, sem nú ætti að finnast útdauður á milli Hengils og Stardals. Ekki hefur þó slíkt kerfi fundist, en sá möguleiki er fyrir hendi, að það sé til staðar undir hinni miklu grágrýtisþekju á Mosfellsheiði og nágrenni.

Sprungur

Hraunsprungur.

Annar möguleiki er reyndar sá, að af einhverjum ástæðum hafi ekkert slíkt sprungukerfi myndast á þessum tíma og að grágrýtið sjálft sé eins konar staðgengill þess, þannig að afleiðingin af tregu reki og lítilli virkni um langan tíma hafi að lokum verið tiltölulega þétt hrina stórra dyngjugosa, sem framleiddu grágrýtið. Á tímum þessara árkvarteru kerfa myndaðist jarðskorpa, sem nú finnst ofan sjávarmáls um norðanvert höfuðborgarsvæðið og á botni Faxaflóa undan ströndum þess. Sunnanvert höfuðborgarsvæðið var undir sjó eða við ströndina og Reykjanesskaginn sem slíkur var ekki enn orðinn til. Þegar leið að lokum kvartertímans hófust hin miklu dyngjugos, sem lögðu til grágrýtið. Þau virðast flest hafa átt sér stað á þurru landi og íslausu og hraunin hafa runnið út að ströndinni og lagst meðfram henni í eins konar kraga. Sum þessara gosa gætu jafnvel hafa byrjað á grunnsævi og myndað eyjar, sem ýmist tengdust ströndinni eða ekki. Hér er helst skírskotað til grágrýtisflákans á Rosmhvalanesi og Vogastapa og ef til vill á Krýsuvíkurheiði.

Reykjanes

Nútímahraun á Reykjanesskaga.

Nágrennið við sjávarsíðuna er meðal annars sterklega gefið til kynna af algengum brotabergsmyndunum í botni margra grágrýtiseininganna um allt svæðið (sbr. Ragna Karlsdóttir 1973; Jón Jónsson 1978; Árni Hjartarson 1980 og Kristján Sæmundsson 1981). Að loknu gostímabili grágrýtisdyngjanna gekk kuldaskeið í garð og jökull lagðist yfir svæðið. Þar sem nú er Reykjanesskagi var orðið grunnsævi og land ef til vill að hluta til risið úr sæ. Eldgos á sprungum hófust undir íshettunni og móbergsfjöllin urðu til. Þetta er fyrsta virknin, sem þekkt er á sprungusveimum Reykjanesskagans. Mikil virkni hófst á þessum sprungusveimum og hélt hún sleitulaust áfram eftir að kuldaskeiðinu lauk og nútími gekk í garð. Þetta sést glöggt af þeim aragrúa hrauna, sem eru á skaganum, mjög áberandi höggun (með misgengjum og gjám) og mörgum háhitasvæðum (Jón Jónsson 1978), ákafri jarðskálftavirkni (Páll Einarsson 1977) og síðast en ekki síst á þykkt hraunlagaog móbergsstaflans eins og hann birtist í borholum innan sprungusveimanna (Sveinbjörn Björnsson o.fl. 1971 og Stefán Arnórsson o.fl. 1975), þar sem sigið er mest.

Sprungur

Hrafnagjá – misgengi.

Hinn lági aldur sprungusveimanna á Reykjanesskaga er ennfremur gefinn til kynna af sprungumynstrinu í grágrýtinu. Það er ósprungið eða lítt sprungið víða, en hins vegar mjög brotið í beinu framhaldi af sprungusveimum Reykjanesskagans.
Sprungurnar í árkvartera berginu undir grágrýtinu hverfa innundir grágrýtið og virðast ekki hafa nein áhrif á það sjálft (sbr. Kjartan Thors 1969). Hreyfingum á þeim er því lokið, þegar grágrýtishraunin renna, en hefjast e.t.v. aftur síðar. Sprungusveimarnir, frá Hengli í austri til Reykjaness í vestri, eru nýmyndunarsvæði jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa.
Höfuðborgarsvæðið liggur utan gosbeltisins, þar sem jarðskorpan myndast í dag. Það er að mestu leyti þakið grágrýtinu, sem er á milli gömlu útdauðu sprungusveimanna og hinna virku. Grágrýtið rann á sínum tíma út yfir sprungið land gömlu sprungusveimanna. Það virðist sjálft ekki hafa myndast á sprungusveimum eða í beinum tengslum við sprungusveima og er því óbrotín og ósprungin myndun við lok myndunarskeiðsins.

Eldgos

Eldgos ofan Grindavíkur 2024.

Þegar virknin hefst á sprungusveimum Reykjanesskagans leggst berg þeirra ofan á grágrýtið. Vegna afstöðu nýju sprungusveimanna teygja sprungur þeirra sig inn í gamla jarðlagastaflann. Þá fyrst brotnar grágrýtið upp og eflaust nær þessi sprunguvirkni inn í árkvartera jarðlagastaflann líka. Grágrýtið sjálft er mest sprungið á vestanverðri Mosfellsheiði, í beinu framhaldi af sprungusveim Brennisteinsfjallanna og umhverfis Elliðavatn,
í beinu framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum. Framhald Reykjanessprungusveimsins til norðausturs stefnir beint á Reykjavík. Sprungurnar hverfa í sjó á Vatnsleysuströnd, en þær hafa ekki fundist á landi á Álftanesi eða í Reykjavík. Grágrýtið á þessum stöðum er því að mestu óbrotið, að því er virðist.

Grágrýti

Grágrýti.

Erfitt er þó að fá af þessu óyggjandi mynd, vegna þess hversu byggt land er orðið í Reykjavík og sprungukort voru ekki gerð í tíma, eins og nú er farið að gera á framtíðarsvæðum byggðar á höfuðborgarsvæðinu (sbr. Halldór Torfason 1982). Árkvartera bergið undir grágrýtinu er hins vegar brotið, en þau brot tilheyra Kjalarnessprungusveimnum, eins og fyrr segir. Hvort líkur eru á að sprunguvirkni Reykjanessprungusveimsins nái til Reykjavíkur í framtíðinni, er háð því á hvaða stigi Reykjanessprungusveimurinn er. Sé hann enn vaxandi að virkni er ekki útilokað að hann eigi eftir að brjóta Reykjavíkurgrágrýtið á sama hátt og Krýsuvíkursprungusveimurinn hefur brotið grágrýtið umhverfis Elliðavatn og Rauðavatn, og Brennisteinsfjallasveimurinn hefur brotið grágrýtið á vestanverðri Mosfellsheiði. Sé hann á hinn bóginn í hámarki virkni sinnar eða farinn að dala, verður að sama skapi að teljast ólíklegt að hann brjóti nokkurn tíma Reykjavíkurgrágrýtið. Um breytingar á virkni Reykjanessprungusveimsins í framtíðinni er mjög erfitt að segja nokkuð ákveðið. Til þess vitum við of lítið um smáatriðin í þróun sprungusveima, raunverulegan „líftíma“ þeirra, aldur Reykjanessprungusveimsins o.fl. Um aldur hreyfinganna nyrst á

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Krýsuvíkursprungusveimnum er þó hægt að fá nokkra vitneskju og skal hér rakið gleggsta dæmið. Grágrýtið er brotið í framhaldi af Krýsuvíkursprungusveimnum norður fyrir Rauðavatn. Ofan á þetta grágrýti leggjast nokkur tiltölulega ung hraun. Tvö þeirra verða hér til verulegrar hjálpar, þar sem þau renna bæði þvert á sprungukerfið og bæði hafa verið aldursákvörðuð. Annað þeirra er Búrfellshraun upp af Hafnarfirði. Samkvæmt aldursákvörðun með geislakoli rann þetta hraun fyrir um það bil 7200 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Vestur af Búrfelli skera nokkur misgengi, þ.á.m. Hjallamisgengið, taum af þessu hrauni. Tilfærslan á Hjallamisgenginu er mest í grágrýtinu norðan við hrauntauminn, um 65 m, en við aðalbrotið er tilfærslan á Búrfellshrauninu aðeins um 7 m (sbr. Jón Jónsson 1965). Misgengið er því að stofni til eldra en 7200 ára, en hefur eftir þann tíma hreyfst um 7 m. Einum 6—7 km norðar rann hraun í gegnum sundið á milli Skyggnis og Seláss niður eftir Elliðaárdalnum. Hraun þetta er komið upp í Leitum austan Bláfjalla og hefur runnið norður undir Kolviðarhól, svo niður á Sandskeið, um Lækjarbotna og Elliðaárdal til sjávar í Elliðavogi (Þorleifur Einarsson 1961). Samkvæmt geislakolsaldursákvörðun á mó undan hrauninu í Elliðavogi, þeirri fyrstu á íslensku efni, rann þetta hraun fyrir um það bil 5300 árum (Hospers 1953 og Jóhannes Áskelsson 1953).

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Samskonar aldursákvörðun á birkikolum undan hrauninu í Elliðaárdal, gerð síðar (Jón Jónsson 1971), gefur heldur lægri aldur, eða um 4600 ár, sem er líklega nær hinu rétta. Hraun þetta er óbrotið í sundinu við Skyggni, þar sem það liggur 4 – 5 m þykkt ofan á 2 m af lausum jarðlögum (Gestur Gíslason og Páll Imsland 1971). Austurbrún Selássins norðan sundsins er misgengisstallur á sama misgengja- og sprungusveim og Hjallamisgengið. Fleiri misgengi á þessum sprungusveim liggja norður um svæðið austan Elliðavatns og skera þar grágrýtið beggja vegna Leitahraunsins, án þess að nokkurra brota verði vart í hrauninu (sbr. Jón Jónsson 1965). Það verður því að teljast nær fullvíst, að ekki hafi orðið hreyfing á þessum misgengjasveim norðan Elliðavatns síðustu 4600 árin, þó ljóst sé, að 6 – 7 km sunnar hafi orðið allt að 7 m misgengi á brotum á sama sprungusveim einhvern tíma á síðustu 7200 árum.

Leiti

Í Leitarhrauni. Leiti framundan.

Leitahraun er hins vegar brotið austur við Vatnaöldur (Jón Jónsson 1982, munnl. upplýsingar), þar sem Brennisteinsfjallasprungusveimurinn sker það. Verið getur að brotavirkni á öllum norðurhluta Krýsuvíkursprungusveimsins hafi dáið út á tímabilinu milli 7200 og 4600 ára. Hitt er líklegra, að áhrifa brotavirkninnar gæti minna eftir því, sem norðar dregur og 7 m misgengið við Búrfellsgjá deyi út áður en það nær norður að Skyggni. Í síðara tilvikinu segir aldur hraunanna ekkert til um lágmarksaldur síðustu misgengjahreyfinga á brotum. Krýsuvíkursveimurinn hefur sem sagt ekki náð að brjóta og hreyfa grágrýtið í Reynisvatnsheiði á síðustu 4600 árum. Ekki liggur fyrir næg vitneskja um eðli og hegðun sprungusveima til þess að draga megi af þessu mjög ákveðna vitneskju um framtíðarhorfur.

Grindavík

Grindavík – gjár, sprungur og misgengi.

Yfirleitt virðist sem 5000 ár á milli atburða á sprungusveimum rekbeltanna sé mjög langt hlé, en hér er þess að gæta, að um er að ræða ysta jaðar sprungusveimsins, svo langt frá hámarki virkninnar sem komist verður. Hvenær á „lífsferli“ sprungusveims slíkir jaðrar eru virkastir er ekki vitað með neinni vissu.
Grunnvatnsstreymi allt, ekki síst í jarðhitakerfunum í landinu, er yfirleitt talið standa í mjög nánum tengslum við sprungukerfin. Árkvarteru sprungukerfin hafa þannig, að því er virðist, afgerandi áhrif á lághitasvæðin í Reykjavík og Mosfellssveit. Virku sprungusveimarnir stjórna hins vegar rennsli vatns og gufu í háhitasvæðunum á Reykjanesi, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Hengli.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Kaldavatnsrennslið á sér stað grynnra og ungar sprungur í grágrýtinu og ungu hraununum stjórna rennsli þess á Elliðavatns-Heiðmerkursvæðinu að einhverju leyti. Vegna þess hversu hátt í jarðskorpunni kaldavatnsstraumurinn á sér stað og þeirrar staðreyndar, að þar eru jarðlög, grágrýti, móberg og hraun, mjög opin að innri byggingu, er kalda vatnið minna háð sprungum um rennsli en heita vatnið, sem streymir dýpra og í þéttara bergi.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, Páll Imsland: Úr þróunarsögu jarðskorpunnar við sunnanverðan Faxaflóa, sprungumyndunarsaga, 54. árg. 1985, 2. tbl., bls. 63-75.

Jarðfræði

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði þess vegna mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.

Stampar

Stampagígaröðin.

Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.
Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana.
Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.

Flekaskil

Eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.

Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Háibjalli

Háibjalli.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.

Wegener

Prof. Dr. Alfred Wegener, ca. 1924-1930.

Svo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar.
Bruin-26Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.
Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749.

Bruin-25

Misgengi á Reykjanesi.

Kershellir

 Að sögn Friðþófs Einarssonar, bónda á Setbergi, er Kershellir nafnið á fyrrum selshelli Setbergsmanna. Að sögn móður hans, Elísabetar Reykdal, notaði afi Friðþjófs, Jóhannes Reykdal, hellinn sem fjárhús eftir aldarmótin 1900 uns hann byggði hús undir féð uppi á Húsatúni þar skammt frá.

Kershellir

Kershellir – varðan ofan við opið.

Þegar hætt var að nota Húsatúnsfjárhúsið var féð fært í nýrra hús í Fjárhúsholti, skammt austan við bæinn á Setbergi. Ofan við Kershelli er Hvatshellir í stóru jarðfalli. Hann opnaðist í jarðskjálfta á 19. öld. Nafnið Kershellir hefur í seinni tíð færst yfir á Hvatshelli.
Kershellir, sem er á landamerkjum, er tvískiptur; nyrðri helmingur hans tilheyrði Setbergi og sá syðri Hamarskoti.
Hvatshellir gengur suður úr niðurfalli sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún þess. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri.

Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906 og varð forsíðufrétt í blaðinu Þjóðhvelli (1906), en þar segir:

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

„Fjórir piltar, ungir og röskir: Helgi Jónasson, Matthías Ólafsson, Sigurbjörn Þorkelsson (allir þrír starfsmenn Edinborgarverslunar hér í bænum) og Skafti Davíðsson trésmiður, höfðu myndað með sér félag í vor, er heitir Hvatur, í því augnamiði, að temja sér göngulag og styrkja með því líkamann. Hafa þeir því á sunnudögum gengið upp í landið til að njóta fríska loftsins og fegurðar náttúrunnar. Í einum slíkum leiðangri fyrir skömmu, fundu þeir hellir einn uppi í Hafnarfjarðarhrauni, stóran og fallegan – miklu stærri en helli þann í Þingvallahrauni, er kenndur er við enska manninn, Hall Caine, af því að hann fann hann ekki.-

Hvatshellir

Í Hvatshelli.

Þennan nýfundna hellir hafa piltarnir skírt Hvatshelli, eftir félagi sínu, og var vel til fundið. – Lengd hellis þessa, frá enda í enda, kvað vera 300 fet; afhellar eru margir út úr aðalhellinum, hver inn af öðrum, og kvað innsti hellirinn vera þeirra lang-fallegastur. Hvelfing hans er t.d. snilldarvel löguð. Merki þess þykjast menn sjá, að menn hafi komið í hellir þennan áður fyrir löngu.
Árangur af þessari ferð piltanna hefur orðið merkilegur mjög, og hlýtur að vera þeim og öðrum til gleði, – eiga þeir þökk skilið fyrir fundinn. – Að minnsta kosti hefði slíkur fundur sem þessi þótt matur hér í Víkinni, hefði finnandinn verið einhver nafnkenndur útlendingur eða Lord eða eitthvað því um líkt og verið innundir hjá ritstjóranum.“

Fjárhús

Fjárhúsið í Húsatúni.

Jarðfræðikort

Gengið var um svæðið ofan við Voga á Vatnsleysuströnd – ofan Reykjanesbrautar. Ekki var ætlunin að skoða hinar fjölmörgu minjar á svæðinu heldur að skoða þau merkilegu jarðfræðifyrirbæri, sem þar eru; flekaskilin (landrekið/höggunina) og misgengin.

Háibjalli

Háibjalli.

Eins og kunnugt er stendur landið á Reykjaneshryggnum, sem er úthafshryggur, á mótum tveggja jarðskorpufleka, Evrasíuflekans í austri og Ameríkuflekans í vestri. Flekana rekur um 1 cm í hvora átt á ári að meðaltali. Nýlega hefur verið reynt að gefa fólki kost á að kynnast þessu með einföldum hætti þar sem “brúnni á milli heimsálfa” hefur verið komið fyrir yfir eina gjána ofan við Stóru-Sandvík. Brúna hefði einnig mátt setja upp yfir eina gjána á Vogaheiði eða hvar sem er annars staðar á svæðinu.

Háibjalli

Háibjalli – skáli.

Eldvirkni er að mestu bundin við flekaskilin sem liggja þvert yfir landið, frá Reykjanesi í suðvestri að Tjörnesi í norðaustri, en einnig á jaðargosbeltum. Fyrir vikið finnast yngstu jarðmyndanirnar á sömu svæðum og framleiðni gosefna er þar mest, þótt þess sjáist ekki endilega merki í Vogaheiðinni að undanskildum Þráinsskyldi. Merkin eru hins vegar gleggri beggja vegna. Jarðskorpuflekarnir fljóta á deigu möttulefni sem líkja má við það þegar ísjakar fljóta á vatni.
Með „landrekskenningunni“ er venjulega átt við þá kenningu sem þýski jarðeðlisfræðingurinn Alfred Wegener (1870-1930) setti fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa árið 1915. Annað afbrigði kenningarinnar kom fram 1964 og nefnist „botnskriðskenningin“ og loks þriðja afbrigðið 1968, „flekakenningin“.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Meginmunurinn á upphaflegu kenningunni og hinum síðari er sá, að í bók sinni (1915 og síðar) gerði Wegener ráð fyrir því að meginlöndin fljóti í hafsbotnsskorpunni, sem sé stöðug, en meginlöndin hreyfist (reki) um hana. Samkvæmt síðari kenningunum berast meginlöndin með hafsbotninum, sem er á hreyfingu.
Wegener reyndi að skýra kenningu sína um hreyfingu meginlandsflekanna um hnöttinn. Í fyrsta lagi benti hann á hve vel Suður-Ameríka og Afríka falla saman, líkt og kubbar í púsluspili. Í annan stað sýndi Wegener fram á það að ýmsar jarðmyndanir frá mismunandi tímum falla saman, eða halda áfram, sitt hvoru megin við höfin, til dæmis fornar ísaldarmenjar í Suður-Afríku og á Suðurskautslandinu. Í þriðja lagi mátti skýra útbreiðslu ýmissa dýrategunda, sem nú eru aðskildar af breiðum höfum, með því að löndin hefðu fyrrum legið saman. Og í fjórða lagi gerði hann, ásamt veðurfarsfræðingnum Köppen, tengdaföður sínum, mikla samantekt á útbreiðslu ýmissa loftslagsbundinna jarðmyndana í jarðsögunni.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel við Háabjalla.

En allt kom fyrir ekki, því engum tókst að benda á krafta sem væru nógu öflugir til að flytja meginlöndin. Árið 1960 setti bandaríkjamaðurinn Harry Hess (1906-1968) fram þá tilgátu, studda góðum rökum, að það séu hafsbotnarnir sem hreyfist: Þeir myndist við gliðnun á miðhafshryggjum en eyðist í djúpsjávarrennum. Kraftarnir sem hreyfa meginlöndin eru því iðustreymi í jarðmöttlinum. Meginlandsflekarnir dragast ýmist eða fjarlægjast hvern annan. Dæmi um fleka, sem dragast að hvorum öðrum eru afleiðingar flóðbylgjunnar í Indlandshafi á annan dag jóla 2004. Hér á landi eru flekarnir að fjarlægjast eins áður hefur komið fram.
FlekaskilSvo undarlega vill til að sumarið 1912 ferðaðist Wegener ríðandi frá Akureyri um Dyngjufjöll, Kverkfjöll og Brúarjökul suður í Esjufjöll og til baka aftur — nefnilega þvert yfir íslenska sprungubeltið, sem er talandi dæmi um gliðnun skorpuflekanna. Ekki er ólíklegt að hann hafi og skoðað hinar augljósu ummerki þessa á Reykjanesskaganum og á Þingvöllum.
Reykjanesskaginn er allur mjög sprunginn. Á liðnum öldum hafa miklar jarðskorpuhreyfingar átt sér stað á skaganum. Þessar hreyfingar eiga sér enn stað og munu einnig eiga sér stað í framtíðinni.
Stöðug og hæg hreyfing í jarðskorpunni veldur spennu í bergi. Spennan getur orðið svo mikil að bergið þolir hana ekki lengur og berglögin bresta og þá verða jarðskjálftar. Sprungubarmarnir sem koma fram við hreyfinguna kippast þá yfirleitt til í gagnstæðar áttir og standa mishátt. Sprungur sem myndast á þennan hátt nefnast misgengi. Á Íslandi eru misgengi og gjár með SV-NA stefnu algengastar sunnanlands en hins vegar er S-N stefna ríkjandi norðanlands. Dæmi þess má einnig sjá syðst á Reykjanesskaganum, s.s. í Þorbirni.

Háibjalli

Háibjalli – skilti.

Á Háabjalla, sem er ákjósanlegt skoðunarsvæði fyrir þá, sem hafa áhuga á að skoða misgengi. Á svæðinu eru misgengisþrep sem liggja hvert upp af öðru. Samtals eru þau 4 eða fimm á Vogasvæðinu, Stapinn þar með talinn. Brúnir mynda nokkrar stórar og dálítið óreglulegar brotalínur. Fyrir austan meginbrotalínuna hefur landið sigið og margbrotnað upp. Hreyfingin er stöðug á þessu svæði og benda mælingar til þess að höggunin nemi að jafnaði um 2.8 millimetrum á ári eða 28 cm á einni öld. Frá Háabjalla má vel sjá hvernig brotabeltið á flekaskilunum hefur færst til beggja átta og sigið. Gjárnar, Hrafnagjá að norðanverðu og Huldugjá, Klifgjá, Aragjár og aðrar slíkar að sunnanverðu gliðna og ekki er óraunhæft að ætla að á þessu svæði geti glóandi hraun hvenær sem er fundið sér leið upp á yfirborðið.
Þátttakendur gengu af einhverjum ástæðum mun hraðar til baka.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mínútur.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=749

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjanesskagans.