Reykjanesskaginn býr yfir einstakri fjölbreytni og fegurð, sem nauðsynlegt er að varðveita í nútíð og framtíð. Þrátt fyrir næsta nágrenni við þéttbýlasta svæði landsins, býður svæðið ferðamanninum upp á töfra öræfakyrrðar.

Reykjadalur

Reykjadalur.

Á það ekki síst við dalina norður af Ísólfsskála, hálsana er ganga þvert á skagann, hverasvæðin í Krýsuvík, ósnert Brennisteinsfjöllin fjölmarga hraunhella sem og óteljandi menningarminjar, sem varðveist hafa á svæðinu.
Ef horft er til fjalldalanna ofan Ölfuss, norður af Hveragerði og svæðisins austur af Hengli og Esjufjallanna, er þar um að ræða ómetanleg verðmæti til lengri framtíðar litið. Ljóst er að íbúar landsins svo og ferðamenn, sem hingað munu koma, sækjast fyrst og fremst eftir óspilltri náttúru, skírskotun til forsögu þjóðarinnar og jarðfræðimyndana er eiga sér fáar líkar í heiminum.
Reykjanesskagann, hið forna landnám Ingólfs, ofan þéttbýlismarka, á að friðlýsa.

Eftirfarandi frétt var í RÚV þann 30. okt. 2007; Hengill í henglum?

Reykjadalur

Reykjadalsá.

„Virkjanamál eru einhver heitustu pólitísku mál síðari tíma á Íslandi. Nú er enn eitt slíkt mál í uppsiglingu. Andstæðingar virkjunar vestan við Ölkelduháls á Hengilsvæðinu hafa opnað heimasíðu og hvetja fólk til að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar áður en frestur rennur út 9. nóvember.“
Hér er verið að leita eftir stuðningi landsmanna við varðveislu Ölkeldusvæðisins í sama tilgangi, en það er þó einungis hluti af Reykjanesskaganum – sjá
http://hengill.nu/ – Hér má heyra umrædda frétt RÚV.

Þá var sama dag umfjöllun á mbl.is um nátengt efni; Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu.
„Andstæðingar fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar á Hengilssvæðinu í landi sveitarfélagsins Ölfuss hafa sett á laggirnar heimasíðu þar sem almenningur er hvattur til að gera athugasemdir við virkjunaráætlanirnar. Um er að ræða 135 MWe virkjun Orkuveitu Reykjavíkur við Bitru, rétt vestan við Ölkelduháls.

Reykjadalur

Reykjadalur.

Frummatsskýrsla vegna framkvæmdanna er nú til athugunar hjá Skipulagsstofnun og rennur frestur til að gera athugasemdir við framkvæmdirnar út 9. nóvember. Petra Mazetti, leiðsögumaður og forsprakki síðunnar, segir að tilgangurinn með opnun hennar sé fyrst og fremst sá að vekja athygli almennings á því að til standi að spilla ómetanlegri náttúruperlu í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið með jarðgufuvirkjun. „Við vildum ekki vera of sein með athugasemdirnar í þetta skiptið,“ segir Petra og bendir á að margir séu nú að mótmæla virkjunaráætlunum við Þjórsá, en umhverfismat fyrir svæðið hafi legið fyrir í talsvert langan tíma.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Hafinn er undirskriftasöfnun þar sem skorað er á sveitarstjórnarmenn á Reykjanesi að leita allra leiða til að tryggja að orkuöflun og sala á vatni og rafmagni verði ekki færð í meirihlutaeign einkaaðila og að tryggt verði að sala og dreifing á rafmagni verði til frambúðar verkefni Hitaveitu Suðurnesja. Jafnframt að HS verði í meirihlutaeign sveitarfélaganna.“

Hannes Friðriksson, íbúi í Reykjanesbæ, stendur að undirskrifasöfnun sem fer fram á netinu á vefslóðinni www.askorun2007.is þar sem hann hvetur til vitundar um lýðræðislegra vinnubragða innan orkufyrirtækjageirans með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Hannes segir þar að „í aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga hafi ekki verið í umræðunni að sveitarfélög eða ríki hefðu uppi nein áform um sölu hlutabréfa í HS og þaðan af síður að til greina kæmi að einkavæða fyrirtækið. Í kjölfar á sölu ríkisins hafi farið í gang atburðarás, sem leitt hafi til þeirrar stöðu sem íbúar standi frammi fyrir í dag og við því þurfi að bregðast. Hannes vill meina að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafi misst stjórn á atburðarásinni við sameiningu GGE og REI. Í öllu ferlinu hafi aldrei verið staldrað við og spurt hvað íbúunum væri fyrir bestu. Þeir hafi heldur aldrei verið spurðir og því sé mikilvægt fyrir íbúalýðræðið að þeir segi skoðun sína. Því hafi hann farið af stað með þessa undirskriftasöfnun. Undirskrifasöfnuninni sé ætlað að standa utan við pólítskt dægurþras og sjónarmið íbúanna þurfi að koma fram burtséð frá stjórnmálaskoðunum þeirra.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Hannes segir að ef sameining REI og GGE nái fram að ganga gæti komið upp sú staða að orkulindir og orkuver HS á Reykjanesskaga verði komnar í meirihlutaeign einkaaðila ef ekkert verði að gert. Arsemi þess fjár sem þeir hafa lagt í þessa fjáfestingu verði látin ráða för nema íbúar svæðisins velji að viðhalda óbreyttu ástandi frá því sem nú er. Til þess að svo megi verða verði að senda kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum skýr skilaboð um hver vilji íbúanna sé í þessu máli. Í því felist að þeir verði að staldra við og spyrja sig hvort þeir séu á réttri leið. Það geti ekki verið að menn ætli að sætta sig við eina niðurstöðu í málinu án þess að skoða fleiri kosti í stöðunni.“ Sjá umfjöllunina hér.

Reykjadalur

Reykjadalur – laug.

Um þessar mundir er margt að gerast í andsvörum við hugsanlegri skyndigróðanýtingu ómetanlegra náttúruverðmæta á Reykjanesskaganum. Það er bæði von og trú framsýnna landsmanna að þeir stjórnmálamenn, sem þurfa og eiga að taka ákvarðanir, ekki einungis fyrir daginn í dag heldur og fyrir komandi kynslóðir, taki mið af arðbærri nýtingu verðmætanna til lengri framtíðar.

Reykjadalurinn er eitt fjölfarnasta útivistarsvæði landsins – og eitt af þeim fallegri.

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Breiðagerði

Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17, bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.

Breiðagerði

Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.

Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.

Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir hann m.a. frá Breiðagerði: „Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.“
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppdráttur ÓSÁ.

Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
„Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.

Breiðagerði

Breiðagerði – uppfært túnakort.

Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,“ segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.

Breiðagerði

Breiðagerði – loftmynd með innfellu túnakorti 1919.

Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.“

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:

Breiðagerði

Breiðagerði – útihús.

„Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.“

Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:

Breiðagerði

Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.

„Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.“

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Í skýrslu um „Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd“ árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.

Breiðagerði

Breiðagerðisvör.

Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.

Breiðagerði

Breiðagerði 2022 – loftmynd.

Í „Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
„Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti „þarfanaut“ og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að „reka á eftir“ og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.

Breiðagerði

Breiðagerði – sundvarðan Neðri.

Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.“

A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.

Breiðagerði

Breiðagerði – Sundvarðan Efri.

„Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,“ segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.

Breiðagerði

Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem „garður“!?

Fornigarður

Leó M. Jónsson í Höfnum vakti athygli á eftirfarandi varðandi garðleifar og löggarða: „Ég var að skoða betur hleðslurnar (garðaleifarnar) við Kirkjuhöfn og Sandhöfn í sumar en þær eru að miklu leyti sokknar í sand.
GarðhleðslaVar að pæla í því hvað menn hefðu haft sem viðmið við þessar hleðslur því það vekur athygli manns að mótun garða, þar sem hún er greinanleg, virðist vera lík. Engu er líkara en að hlaðið hafi verið eftir einhvers konar mæli eða móti. Ég rakst á það í bókinni Þjóðhættir, höf. Finnur Jónsson á Kjörseyri, Hrútaf. (bls. 189)  að hér áður fyrr var talað um ,,Löggarð“, t.d. í sambandi við áreið (landamörk). Löggarður var samkvæmt Finni 5 feta breiður í grunninn, 3 fet að ofan og 1,5 alin á hæð (sem á 18-19. öld mun hafa náð meðalmanni í öxl). Ég hef ekki gert mér sérstaka ferð út á Hafnaeyri til að mæla þetta. En það skyldi nú ekki vera að þetta hefðu verið löggarðar? (Sagt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að í gömlum lögum hafi verið til ákvæði um ,,Lögreð“ og að kerling hafi sótt um skilnað með tilvísun í það – svo ýmislegt finnst nú þegar grúskað er).“
Viðbrögð FERLIRs voru eftirfarandi: „Gaman að heyra þetta. Höfum fjallað eitthvað um vegghleðslur og grjótgarða
.

Í Jónsbók er fjallað um löggarða sbr. kap. 22. „Um engi á annars jörðu – Ef maðr á engi á annars manns jörðu, þá skal hinn eigi beita engi þat frá því er sex vikur eru af sumri. En sá er engit á, skal þat fyrst láta vinna, nema hann vili töðu sína fyrr vinna. En ef hann vinnr eigi svá, ok vill þó unnit hafa, þá bæti … þeim er jörð á, ok óheilagt heyit ok engit. Nú á hann engjar í fleiri manna löndum, þá skal hann sitt sumar hvert fyrst slá, ok eigi fyrri heima en þau eru öll slegin. …

Löggarður 5

Kost á maðr at gera löggarð um þetta engi, ef eigi liggja beituteigar hér í annarra manna, fimm aura verðir eða meira, ok grafa í sínu engimarki torf til, ok láta hlið á garði. En ef hann vill grjótgarð hafa, þá brjóti hann ef hann vill í annars manns jörðu grjót upp, ok bæti … skaða, ef af því gerist. Rétt er honum at setja garð þann á jörð hins, á hrjóstr eða hölkn, ef eigi verða innangarðs beituteigar hins fimm aura verðir. En ef hann gerir annan veg, bæti skaða … landsdrottni. Honum er rétt at byrgja aptr garðinn fimmtadaginn er sex vikur eru af sumri. Hann skal hirt hafa hey sitt ór garðinum ok hliðum upp lokit er fjórar vikur eru til vetrar, nema nauðsyn banni. Síðan er óheilagt heyit og engit fyrir þeim, er jörð á undir, þó at hann lúki upp hlið á garðinum.“
Löggarður 8Í kap. 23 segir: „Um löggarð um hey í annars jörðu – Maðr skal gera löggarð um hey sitt í annars landi ok grafa í sínu engimarki torf til, ok svá skal hann gera löggarða í fjallhögum, þó at hann eigi sjálfr jörð undir, ok í engimarki sjálfs síns, ef eigi er lengra frá annars manns landsmarki en tvau hundruð faðma tólfræð. Ef garðr sá fellr eða þrútnar svell upp í hjá, þá skal sá er beit á um garðinn eða svá nær gera orð þeim er hey á í garðinum ok varða búfé sínu við heyi hins. En hann skal til fara um at búa eða brott færa, þegar honum er sagt forfallalaust. Ella er heyit óheilagt við þess búfé er þar á beit svá nær. Sömu leið skal fara, ef snjó leggr at garðinum, nema sjálfr vili frá láta snjóinn. Ef hinn varðar eigi við eða gerir eigi orð sem nú sagði, bæti skaða þann allan sem hans fé gerir … þeim er hey á. Ef maðr lætr engi sitt liggja óslegit þrjú sumur samfleytt, þá er sá eigi skyldr at verja er jörð á, nema hinn segi fyrir fardaga, at hann vill slá engit.
Löggarður 10Nú býr maðr svá nær engi sínu, því er hann á á annars jörðu, at hann vill heiman beita ok slá eigi, þá á hann kost þess, svá at hann skal mann hafa at fé sínu, ok gæta svá at eigi gangi í haga hins eða eng. Ef fé þess manns treðst í garði þeim er beitina á svá nær sem fyrr var tínt, af því at löggarðr var eigi þar sem hann skyldi vera, þá á sá þat allt at bæta er garði skyldi upp halda. Nú er hey fært í hús eða hlöður svá nær beit hins sem fyrr váttar, þá skal svá um búa at búfé hins komist eigi at heyinu. En ef húsit fellr ofan, þá skal beitarmaðr gera þeim orð er á ok verja við fé sínu þar til er hinn kemr til er hey á, eða gera upp sjálfr ella. Nú vill hinn eigi til fara eða hefir eigi byrgt dyrr eða vindauga, ok kemst búfé þar inn, þá ábyrgist hann, ef fé hins treðst þar eða fellr hús á … En ef fen eða vötn eða forað gerða um hey manna, ok er hey þegar óheilagt, er fé kemst yfir.“
Í  kap. 24. segir: “ Um viðarvöxt í engi manns á annars jörðu –    Hverr maðr á engivöxt í sínu engimarki. En ef víðara vex, þá á sá er jörð á undir. Nú vex viðr í engi manns, þar er annarr á jörð undir, ok er rétt at sá rífi upp við þann allan er engit á, ef þat er rifhrís, en sá á viðinn er jörð á undir. Þat er rifhrís er skjótara er at rífa upp en höggva. En þat er höggskógr er skjótara er at höggva en rífa. Nú vex höggskógr í engi því er maðr á á annars jörðu, þá skal sá kaupa, ef hann vill, er jörð á, eptir því sem sex skynsamir menn meta at engit var vert. Skal sá kjósa er engi átti, hvárt hann vill heldr hafa engi jafngott eða aðra aura.
GrjótveggurSá er jörð á undir eignast bæði engit ok svá skóginn, ef hinn vill eigi selja. Nú vill jarðeigandi eigi kaupa, þá eignast hinn bæði engi sitt ok skóginn. Ef engi þat spillist af eggveri er maðr á á annars manns jörðu, þá skal á sömu leið fara sem um þat engi er skógrinn vex á, ok svá þó at fiskivötn komi þar upp. Svá skal virða engit sem vert var áðr spilltist af skógi eða eggveri eða vatni. … Menn eigu at æja eykjum sínum í annars landi á sumar, þar sem eigi hefir fyrr slegit verit. Hverr maðr á gróðr á sinni jörðu.“
Í kap. 25 segir:  „Ef hey rekr á annars jörðu – Ef sjór eða vötn eða veðr rekr hey manna saman, þá skal sá er hey á á annars jörðu kveðja þann skiptis er hey á með honum. Vill hann eigi skipta, … hafi þat hverr af sem dómr dæmir. Þeir menn er þat hey eigu er á annars jörð rekr skulu at frjálsu þurrka heyit þar, en eigi heim færa fyrr en skipt er. Hann má þat ok vinna á jörðu hins, þar er hvárki er akr né eng, at gera löggarð um heyit.
GarðarEf hey rekr á engi hins, þá bæti honum skaða sem metinn verðr. Ef hey rekr í haga manns, ok á sá at gera löggarð um, er hey á, ok svá at þurrka…“
Í kap. 32 segir: „Ef löggarðr er brotinn ok um löggrind ok þjóðveg – En ef maðr skýtr upp grind ok gengr fénaðr í akr eða eng, bæti skaða þann er gerr var … þeim er korn á eða gras. Ok svá ef maðr höggr grindarhæla í sundr, eða veltir steini frá, ef við liggr, ok stendr fyrir því opin. … En ef maðr ríðr eða gengr yfir akr, töðuvöll eða eng, ok vill eigi fara vegu rétta, sá maðr er sekr mörk við þann er lóð á. …”

GrágásGarðar hafa fyrrum áreiðanlega verið hlaðnir skv. tiltekinni forskrift, allt eftir því hvaða hlutverki þeir áttu að þjóna…. Löggarðar voru staðlaðir garðar sem girtu af eignarlönd manna. Þeir áttu að vera hlaðnir þannig að næði meðalmanni í öxl, en við þá hæð hefur bæst dýpt skurðarins sem efnið ver tekið úr beggja megin. Þeir áttu að vera þrjú fet á þykkt að ofan (um 85-90 cm) en fimm að neðan. Ef slíkur garður lá um þjóðbraut þvera varð að vera á honum hlið, faðmur og ein alin til viðbótar að breidd (2,3 m). Í hliðinu átti að vera trégrind á hjörum og skyldi vera unnt að opna hana og láta aftur án þess að stíga af hestbaki. Löggarðar voru því vegleg mannvirki. Þeir áttu augljóslega að hindra för hvers kyns búfjár, og Grágás getur þess að því aðeins megi lögsækja mann fyrir að beita fé sínu á annars landi að löggarður sé á milli. Mikil vinna var að hlaða garðana og eru í Grágás ítarlegar reglur um alla vinnutilhögun.

Heimildir:
-Leó M. Leóson, Höfnum.
-Jónsbók.
-mbl.is  – Árni Einarsson, menningarblað Lesbókar 28. maí 2005.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

 

Garðar

„Í Fornleifaskráninu fyrir Garðahverfi er m.a. getið tveggja dómhringja; á Hausastöðum og við Garða.
Hausastadir-226Um dómhringinn á Hausastöðum segir: „Í Fornleifaskýrslu séra Markúsar Magnússonar árið 1820 segir: „Dómhringar (afmörkuð svæði þar sem dómar voru kveðnir upp). Merki sjást til eins slíks á jörð Garðakirkju, Hausastöðum, gömlum þingstað; hann er kringlóttur, um 30 faðmar að ummáli, en annars er ekkert merkilegt við hann.“ Skv. Örnefnaskrá 1764 var á Hausastöðum „þingstaður fyrir Álftaneshrepp, Hausastaðaþinghá.“ Hann var fluttur að Görðum eftir konungsbréfi 23. feb. 1816 (G.R.G: 104 o.þ.tilv.r.).

Hausastaðir

Hausastaðir og nágrenni – túnakort 1918.

Skv. Sóknarlýsingu 1842 skiptist Hausastaðaþingsókn í Garðakirkjusókn og Bessastaðasókn. Í Garðakirkjusókn voru 32 býli og sátu á þeim 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn.“
Um dómhringinn við Garða segir: „Í lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir: „Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofsstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.“ (Bls. 218). Hinn gamli þingstaður Álftnesinga var þó í dómhring (190-6) á Hausastöðum áður en hann var fluttur að Görðum eftir konungstilskipun 23. feb. 1816.“
Við skoðun á vettvangi kom í ljós….

Heimildaskrá:
-Árni Helgason: „Lýsing Garðaprestakalls 1842“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Rvk. 1937-9. Bls. 197-220.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A160 / Garðaland B153, Bæjatal A500 / B485.
– Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
Markús Magnússon: „Garðar á Álftanesi“. Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823 fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Rvk. 1983. Bls. 241-51.

Garðaholt

Garðaholt – fornleifar.

Kálfatjörn

Eftirfarandi er úr erindi Viktors Guðmundssonar, leiðsögumanns, á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju þann 19. janúar 2006.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – fiskbyrgi.

„Um miðja 19. öld breyttist útgerð í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Áður höfðu þar nær eingöngu verið smáfleytur, tveggja manna för en nú koma stærri skip, sexæringar og áttæringar til sögunar. Þeir sem eignuðust þessi skip fóru að græða á tá og fingri og brátt risu þarna upp nokkrir útvegsmenn sem báru höfuð og herðar yfir fjöldann.“

Í Æskuminningum sínum segir Kristinn P. Briem (barnabarn Guðmundar á Auðnum) svo frá:
„Í prestþjónustubók Kálfatjarnarkirkju fyrir árið 1854 er greint frá fermingu barna. Prestur var séra Jakob Guðmundsson. Þá voru fermdir sjö piltar og sex stúlkur á Kálfatjörn. Eru drengirnir hafðir sér og stúlkurnar sér, og börnunum raðað í bókina eftir kunnáttu. Drengja megin eru þessir þrír piltar efstir:
1. Sæmundur Jónsson, Stapakoti, fæddur 21. ágúst 1840 (síðar bóndi á Minni-Vatnsleysu). Hefur góðar gáfur. Kann og skilur prýðilega. Siðferðisgóður. Les prýðilega.
2. Guðmundur Guðmundsson, Minni-Vatnsleysu, fæddur 30. nóvember 1839, (síðar bóndi á Auðnum). Allgóðar gáfur. Kann vel. Skilur rétt vel. Les dável. Skikkanlegur og ráðsettur unglingur.
3. Guðmundur Ívarsson, Skjaldarkoti, fæddur 21. desember 1838. Allgóðar gáfur. Kann sæmilega. Skilur vel. Les rétt vel. Skikkanlegur.
Auðnar
Þessir þrír piltar urðu síðar mestu aflamenn á Vatnsleysuströnd. Bestir formenn og mestir aflamenn urðu þeir Guðmundarnir. Hvor var öðrum meiri í þessu efni, vil ég ekki leggja dóm á, og líklega mun erfitt að skera úr því. Kristleifur Þorsteinsson, sem reri nokkrar vetrarvertíðir á útvegi Guðmundar á Auðnum, segir að ekki hafi mátt á milli sjá, hvor væri betri formaður Guðmundur Guðmundsson á Auðnum eða Guðmundur Ívarsson frá Skjaldarkoti. Hann segir þá báða mestu aflaklær, en gerir ekki upp á milli þeirra. … Líklega væri réttast að segja að þeir Guðmundarnir hafi verið nokkuð jafnir að formannshæfileikum og ómögulegt að vita með vissu hvor aflaði meira. En í einu þótti Guðmundur á Auðnum standa ýmsum framar. Var það í reglusemi með útveginn og hirðingu veiðarfæra. Sæmundur Jónsson á Minni-Vatnsleysu stóð þeim nöfnum næstur á Vatnsleysuströndinni með aflabrögð en var ekki talinn ná þeim, hvorki með fiskiafla eða formennskuhæfileika.“

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Í bók sinni Þættir af Suðurnesjum segir Ágúst Guðmundsson, sonur Guðmundar Ívarssonar svo frá; „Þeir voru víst með réttu taldir stærstu útgerðarmenn í þessari sveit Guðmundur á Auðnum og Guðmundur Ívarsson og víst var að árlega voru hæstir hlutir hjá þeim og formönnum þeirra. Þó mun Guðmundur Ívarsson oft hafa haft betri hlut, en metnaður mun hafa verið með afla á milli þeirra.“

Nú skal segja nokkur orð um Guðmund Ívarsson, stuðst við bók Ágústar.
„Guðmundur Ívarsson var meðalmaður á hæð og svaraði sér vel, kvikur á fæti og gekk venjulega hart. Hann var svarthærður með kragaskegg. Ennið var í meðallagi hátt, skarpar augnabýr, lítið eitt bogadregnar. Augun dökk og lágu djúpt í höfðinu, beint nef og hækkaði upp að framan, kringluleitur í andliti,en hvítleitur með skarpa og reglulega andlitsdrætti.“
Guðmundur Ívarsson elst upp í Skjaldarkoti, og var oft kendur við þann bæ, flyst síðan að Neðri-Brunnastöðum og hefur búskap þar. Reisir timburhús á Brunnastöðum 1865 talið með fyrstu timburhúsum í hreppnum. Þá er Guðmundur 27 ára.
Hann byrjaði fomennsku 18 ára og gerði út árlega 2-7 skip á vetrarvertíð, sem hann átti sjálfur.Guðmundur Ívarsson átti Valdimar stærsta róðrarskipið, sem þá gekk við Faxaflóa.
Var það teinæringur 42 fet (uþb. 13m) milli stafna og bar 1100 af netfiski uþb 8,5 tonn
Átti hann haffært þilskip (46 tonna) Lovísu hálft á móti Agli Hallgrímssyni Austurkoti.

Viktor Guðmundsson

Viktor Guðmundsson.

Ágúst Guðmundur segir eftirfarandi sögu í bók sinni: „Tvo vetur fór Guðmundur Ívarsson suður á Miðnes með þorrakomu og lá við á Hvalsnesi. Var hann þá á 10-rónu skipi með 18 menn. Þá var fiskað á bera öngla og handfæri á Suðurnesjum. Þarna hélt hann sig fram undir netavertíðina, sem byrjaði í miðgóu, eða 14.mars.
Fyrri veturinn fékk hann mikinn fisk þarna suður frá en seinni veturinn hömluðu ógæftir og stóð í mörkum að honum gæfi heim fyrir netavertíðina.
Á sunnudaginn í miðgóu var í þetta sinn messað á Hvalsnesi. Var þá vestanstormur en brim heldur að lægja. Segir Guðmundur Ívarsson þá við menn sína: Nú skulum við allir ganga til kirkju og mun ég sitja þar kyrr þangað til að prestur hefur blessað yfir söfnuðinn. Þá mun ég ganga út og líta eftir brimi og vindi og gefa ykkur bendingu, ef fært er. Skuluð þið þá allir koma fljótt. – Gekk þetta allt eftir umtali og álítur hann sundið fært, þó að vindur væri hvass. Þeir voru fljótir að búa sig og stóð það á að prestur var að ganga úr kirkju og þeir að komast undir segl. En þegar séra Sigurður kemur á Útskálahlað voru þeir komnir inn á Leirusjó og sagðist hann þó hafa riðið hart. Heyrði ég Sigmund Andrésson segja að það hafi hann mestan gang vitað á skipi þar sem hann hafi verið innan borðs enda voru þeir ekki fullar tvær klst. frá Hvalsnesi inn í Brunnastaðasund. Man ég vel, hve kátir þeir voru yfir því að vera komnir heim, en uggvænleg þótti þeim þá aldan á Suðurnesjasjónum og gangurinn á skipinu. Ekki hafði gefið á sjó næsta hálfan mánuð af Miðnesi. En hér fyrir innan Skagann var metafli í þorskanetin.
Svona var það þá, og svo er það enn að oft er gott að vera fljótur til hugsana og framkvæmda ef það er af viti stofnað og réttri útsjón.“

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Næst ætla ég að segja nokkur orð um Guðmund Guðmundsson í Auðnum (Guðmundur ríki).
Kristin P. Briem lýsir Guðmundi svo: „Guðmudur á Auðnum var vel meðalmaður á hæð, nokkuð þrekinn, beinvaxinn og herðabreiður. Vel vaxinn og fríður sýnum. Svartur á hár og skegg, hafði kragaskegg eins og þá tíðkaðist. Frekar breiðleitur í andliti. Hann var prúður í framkomu og höfðinglegur í sjón, aðgætinn í orðum og vandaði orð sín svo, að vel mátti taka til greina og athyglis það sem hann sagði.“
Guðmundur er barn þegar hann kemur á Minni-Vatnsleysu með móður sinni, þar elst Guðmundur upp og byrjar sýna útgerð. Um 17 ára aldur kaupir Guðmundur sinn fyrsta bát.
Hefur Guðmundur sinn búskap í Miðengi við Vatnsleysur og eykur skipastól sinn.
Árið 1866 flytur Guðmundur að Auðnum, hafði keypt hálfa jörðina ári áður, þá 26 ára gamall.

Ágúst Guðmundsson

Ágúst Guðmundsson á Halakoti.

Þegar best lét gerði Guðmundur út 5 sex-manna för og 2 áttæringa, var sjálfur formaður á öðrum áttæringnum. Guðmundur lét smíða haffært þilskip í Noregi sem hét Auður, (18 tonn). Kostaði skip þetta 7000 kr. sem jafngilti verði 17 sex manna fara.
Árið 1894 fékk Guðmundur heiðurslaun úr styrktarsjóði Kristjáns IX fyrir framkvæmdir á jörðinni. Ekki tókst mér að finna neina sjóferða lýsingu með Guðmundi, hef því eftir stutta frásögn eftir Kristinn P. Briem.
„Einu sinni komum við Guðmundur ríðandi innan úr Reykjavík og var Guðmundur við skál, eins og oftast, þegar hann kom úr kaupstað. Komun við í Hvassahraun til Þórunnar Einarsdóttur, sem þar bjó, en hún var frænka konu Guðmundar. Þegar kaffið var komið á borðið, þá sest Þórunn niður hjá okkur og fer að tala við Guðmund. Hún segir: „Nú er verið að tala um að hætta að flytja inn áfenga drykki. Það verður mikil blessun, ef áfengisbannið kemst á. Þá sér maður þig aldrei drukkinn, Guðmundur minn.“

Guðmundur Guðmundsson

Guðmundur Guðmundsson á Auðnum.

Guðmundur svarar: „Ekki er það nú víst. Áður en bannið skellur á, þá ætla ég að kaupa 10 tunnur af brennivíni og hafa á stokkunum heima.“ Þórunni brá dálítið við þetta og svarar snöggt: „Nei, það veit ég að þú gerir ekki Guðmundur.“ Guðmundur svarar: „Jú, víst geri ég það.“ Féll svo tal um þetta efni niður, en ég þekkti Guðmund nógu vel til þess að vita, að hann mundi aldrei láta sér detta í hug að safna að sér áfengisbirgðum.“
Þá fjallaði Viktor m.a. um samanburð á þessum tveimur heimilum svo sem fjölda í heimili, hjáleigum og hvorir höfðu hag af öðrum. Stikaði hann t.a.m. kirkjugólfið þegar hann lýsti lengd Valdimars og bað Magnús í Halakoti að standa upp þegar hann lýsti Guðmundi Ívarssyni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki var annað að sjá en þarna væri lifandi eftirmynd afa hans komin.

Heimildir m.a.:
-Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
-Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Guðmundur B. Jónsson. Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
-Haukur Aðalsteinsson. Árbók Suðurnesja 1994 og 1998.
-Kristinn P. Briem. Æskuminningar frá Vatnsleysuströnd. Heimdragi. Iðunn Reykjavík 1967.
-Kristleifur Þorsteinsson. Litla skinnið. Nesjaútgáfan Reykjavík 1982.
-Kristleifur Þorsteinsson. Rauðskinna I og II, Sagnaþættir af Vatnsleysuströnd. Bókaútg. Þjóðsaga 1971.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er af leiðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.

Hausastaðir

Hausastaðir og tóft Hausastaðaskóla 2024.

Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, „kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa“. Sé hann kvongaður „skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði“. Hann átti að hafa „gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla“. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.

Hausastaðir

Hausastaðaskóli (t.v.), minnismerki og Hausastaðir.

Um kennsluna var það tekið fram, að „með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar“, þá átti daglega, „kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng“, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og „stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum“, og „aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins“.

Hausastaðir

Hausastaðir 2022.

Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja „alla sálma tíðkanlega hér á landi.“ Og til þess að „lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.“
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann „eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra“.
Börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.

Jón Thorkellis

Jón Thorkellis – minnismerki í Njarðvíkum.

Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að ráðast í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé „afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.“

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í „sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.“ Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.

Hausastaðir

Hausastaðir og minnismerkið um Hausastaðaskóla.

Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.

Hausastaðaskóli

„Í Fornleifaskráningu Garðahverfis má sjá eftirfarandi upplýsingar um Hausastaðaskóla á Álftanesi (Garðahreppi): „Skv. Örnefnaskrá 1964 (A163/B156) og Örnefnalýsingu 1976 (bls. 10) stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði (190-4) í austanverðu Hausastaðatúni.
Hausastadir-223Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunar-maðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari (bls. 357).
Hausastadir-224Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var „að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.“ Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: „Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]“. (A.Ó.B: 117 o.þ.tilv.r.). Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla. Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins. – (G.R.G: 12).“

Heimildir:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. 1996.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A163 / Garðaland B156.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Fuglar

Í bókinni „Miðillinn Hafsteinn Björnsson“ fjallar Elínborg Lárusdóttir um aðkomu Runólfs Runólfssonar (Runka). Þar segir m.a.: „Veturinn 1937-1938 hefir Hafsteinn fasta fundi hjá Einari H. Kvaran. Vera tók þá að birtast. Þegar spurt er, hver þarna sé, er svarað:
 Eg heiti Jón Jónsson eða Maður Mannsson, eða ykkur varðar andskotann ekkert um, hvað ég heiti.
Kvaran spyr, hvað hann vilji.
Hann svarar: Eg er að leita að leggnum mínum, og eg vil hafa legginn minn.
Kvaran spyr aftur, hvar leggurinn muni vera.
Hinn svarar; hann er í sjónum.
Þessi vera heldur svo áfram að koma á fundina og talar alltaf um hið sama, um legginn sinn, og heimtar hann. En hann er ófáanlegur til að segja, hver hann er.
Þegar Lúðvík Guðmundsson, útgerðarmaður í Sandgerði, bætist í hópinn, kemur þessi kynlega vera og talar mikið um, hvað hann hafi verið Flankastaðirlánssamur að hitta Lúðvík.
Lúðvík kannast ekkert við þennan náunga og skilur sízt í, hvað hann vilji sér eiginlega. Sá fullyrðir aftur á móti að Lúðvík viti um legginn sinn. Hann sé í húsi hans í Sandgerði.
Loks krefst Lúðvík að fá að vita hver veran sé, eða þeir sinni þessu ekki. Hún verður öskuill og kemur ekki aftur í langan tíma. Loks brýzt hún í gegnum miðilinn og segir:Â
„Jæja, það er bezt að eg segi þá, hver ég er. Eg heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Eg bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var eg á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Eg kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði eg góðgerðir. Þegar eg ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín. Þá varð eg vondur og sagðist ekkert fara, ef eg fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór eg svo, en eg var blautur og illa á mig kominn.
KólgaGekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar eg var kominn yfir Kambinn, settist eg undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek eg upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna eg. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst eg ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyr nú Lúðvík, hvar hann geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.

Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.
Þegar Lúðvík Guðmundsson keypti húsið í Sandgerði af Lofti Loftssyni, útgerðarmanni, voru þar í húsinu tvær hauskúpur. Sú saga gekk, að einhverju sinni hefði unglingspiltur hent annarri hauskúpunni út í horn með þeim ummælum, að óþarfi væri að hafa þetta bölvað drasl þarna. Nóttina eftir þóttust menn verða varir við tvo menn, annan lítinn, hinn stórar. Gengu þeir að hvílu hvers og eins og athuguðu það, sem þar hvíldu. Staðnæmdust þeir við beð unglingsins, sem hent hafði hauskúpunni. Heyrðu þá félagar hans hljóð mikil og komu honum til hjálpar. Var hann þá blár í framan, illa á sig kominn og mjög hræddur. Segir sögnin, að eftir þetta hafi honum ekki verið vært framar í Sandgerði og hafi hann krökklast þaðan í burtu.
Lúðvík tók hauskúpurnar og lætur þær í glerkassa og setur svo kassann í glugga, sem veit til sjávar.
Lúðvík fór ekkert frekar út í þetta þá. En er Runólfur fullyrtu, að leggurinn sinn væri í húsi hans í andgerði, rifjaðist þetta upp fyrir honum.

Húsið

Eldri menn búsettir í Sandgerði rekur minni til þess, að lærleggur hafi verið þarna á flækingi, en verið settur á milli þilja. þrátt fyrir leit fannst leggurinn ekki. Í  herbergi í norðausturenda hússins bjó maður, sem hét Helgi. Hafði hann heyrt að smiðurinn hafi látið hann milli þils og veggjar. Getur Helgi þess til, að hann muni vera í herberginu, sem hann býr í. Þegar farið var að rífa finnst leggurinn þá þar. Leggurinn var mjög langur, enda gat Runólfur þess, að hann hefði verið þrjár álnir og sex tommur á hæð.“
Að sögn Reynis Sveinssonar í Sandgerði stóð fyrrnefnt hús á Hamrinum svonefnda, sem var neðan við Fræðasetrið. Þar voru tvo lík verbúðarhús, hlið við hlið. Í því syðra var verkun og verbúð uppi. Húsið fjær á myndinni að ofan var rifið 1985 en þar er sagt að hauskúpur/eða
mannabein hafi verið í glugga sem snéri að sjónum.
„Þegar leggurinn var fundinn, tók Lúðvík hann og fór með hann upp í búðina sína, til þess að hann týndist ekki aftur. Lét hann smíða utan um legginn vandaða kistu, og var leggurinn svo kistulagður. Stóð kistan svo í búðinni upp undir ár, og bar ekkert til tíðinda. Voru svo þessar síðustu leifar Runólfs Runólfssonar frá Kólgu eða Klapparholti í Sandgerði jarðsungnar að Útskálum. Fór allt fram eins og við venjulega jarðaför. Eftir athöfnina var drukkð kaffi hjá presti, og fór þetta allt virðulega fram.

Leggurinn

Þegar fundur var næst eftir útförina, kom Runólfur fram og þakkaði fyrir sig. Sagðist hann hafa verið þarna viðstaddur og lýsti útförðinni svo nákvæmlega, að hann taldi upp kökusortirnar, sem voru fram bornar á Útskálum.“
Kólga (Klapparkot) var skammt sunnan Klappar, sem var sunnan Syðri-Flankastaða. Þar eru enn örnefni er minna á kotið, s.s. Kólgutjörn. Klappartún og Klapparfjara.
„Eg fór að kynna mér kirkjubækur Útskálakirkju frá því tímabili, sem Runólfur Runólfsson vísar til. Eg fann nafn hans í bókunum. Árið 1849 er hann til heimilis í Klöpp í Hvalsnessókn. Árið 1859 er hann í Flankastaðakoti með konu sinni, sem heitir Guðrún Bjarnadóttir. Þau eiga eina dóttur, sem heitir Guðrún María. Þetta ber heim við landsmanntalið 1860. Þar er Runólfur Runólfsson í Flankastaðakoti talinn ókvæntur og grashúsmaður. Þar stendur einnig, að hann sé fæddur í Melasókn. Kirkjubækur Melasóknar sýna, að Runólfur er fæddur 25. desember 1828 að Melaleiti í Borgarfirði. Foreldrar: Runólfur Þorsteinsson, vinnumaður á Hafþórsstöðum í Norðurárdal og Guðrún Magnúsdóttir, vinnukona í Melaleiti.
Guðrún Bjarnadóttir er líka talin húskona í kirkjubókunum. Síðar er Runólfur í Klapparkoti (Kólgu), og eru þá börnin orðin þrjú, tveir drengir og ein stúlka. Árið 1879 er hann á sama stað. Þá er Guðrún Bjarnadóttir sennilega dáin. Nafn hennar sézt ekki í kirkjubókunum. Árið eftir er nafn hans líka horfið úr kirkjubókum Útskálakirkju, en í ministerialbók Útskálakirkju stendur eftirfarandi skýrsla:
Útskálakirkja„Þann 16. október 1879 varð Runólfur Runólfsson, húsmaður í Klapparkoti, úti vofveiflega á heimleið úr Keflavík í stórvirðri, rigningu og stormi, allskammt frá bæ sínum, um miðja nótt, meint að hann hrakizt hafi niður í fjöru fyrir sunnan Flankastaðatúngarð, hvar sjór hefir tekið hann, því bein hans fundust löngu seinna sundurliðmuð og fatnaður.“
Þessi sama bók sýnir, að þessar leifar Runólfs Runólfssonar hafa verið jarðsettar 8. janúar 1880, og er hann þá talinn vera 52 ára. Eru þá liðnir tæpir þrír mánuðir, frá því að hann hvarf og þar til hinar sundurlimuðu leifar hans fá legstað í vígðri mold, og þó ekki allar. Leggurinn finnst ekki fyrr en 1940, og eru þá liðin 60 ár frá þessum atburði.
Það, sem gerðist í sambandi við Runólf Runólfsson, varð okkur, sem við það voru riðin, svo eftirminnilegt, að við teljum okkur muna það greinilega.“

Heimild:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn Hafsteinn Björnsson, Reykavík 1946, bls.201-209.

Sandgerðisfjara
Fyrr á öldum varð fólk úti milli bæja á Miðnesi og Miðnesheiði.
Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og Flankastaðirheimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”. Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.
Haukur Ólafsson, FERLIRsfélagi vakti nýlega athygli á eftirfarandi:
Hafsteinn„Mig langar að vekja athygli á annarri frásögn um Runólf Runólfsson, Runka, sem var einn helsti milliliður Hafsteins Björnssonar, miðils, við annan heim.“
Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið. Hann fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað.

Glaumbær

Þau urðu náin leiksystkini um sumarið og alveg uppfrá því eða þangað til að Hafsteinn flutti frá bænum Hátúni. Hann fór margoft innum huldubæinn og alla leið inn í eldhús þar sem að hann þáði flóaða sauðamjólk frá huldukonunni, móður barnanna. Hafsteinn sá þessa konu oft koma heim úr fjarveru frá heimili sínu. Hún kom alltaf úr sömu átt, ofan úr Sæmundarhlíð og bar alltaf bagga á bakinu. Seinna komst Hafsteinn að því að sú var trú manna að miklar huldufólksbyggðir væru efst og syðst í Sæmundarhlíðinni.
Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sáu ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
ÚtskálakirkjaHafsteinn var varð mjög skyggn og flutti oft skilaboð að skyggnilýsingum loknum. Hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.
Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977.
Frásögnina af Runka er að finna í bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson, eftir Elínborgu Lárusdóttur.  Frásögnin er mun lengri en í bókinni segir m.a.: „Jæja, það er best að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Ég bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín.

Lærleggur

Þá varð ég vondur og sagðist ekkert fara, ef ég fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór ég svo, en ég var blautur og illa á mig kominn. Gekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar ég var kominn yfir Kambinn, settist ég undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek ég upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna ég. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst ég ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyrja nú, Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.

Flankastaðir

Flankastaðavör.

Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.“
Í framhaldinu segir svo af leitinni að leggnum, sem fannst að lokum milli þilja í húsí í Sandgerði eftir spennandi leit og var jarðaður með pomp og prakt í Útskálakirkju 1940, eða um 60 árum eftir lát Runólfs.“
Fróðleg og bráðskemmtileg frásögn er felur í sér sönnun um líf eftir þetta líf! 
Heimildir m.a.:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn, Hafsteinn Björnsson
-www.hugi.is

Sandgerðisfjara

Herdísarvík

Leit var gerð að heimaseli Herdísarvíkur í Selvogi. Í Jarðabók Árna og Páls 1703 segir um hjáleigur og selstöður Herdísarvíkur í Selvogi:
herdisarvik-332„Hjáleiga hefur hjer að fornu verið, ekki var henni nafn gefið nema af bænum; hún hefur undir 30 ár í auðn verið og mikill partur grasnautnar, sem hún hafði, spilltur af sandi, þar er nú stekkur heimabóndans.
Tómthús hefur hjer eitt verið til forna, en í auðn legið undir 50 ár.
Selstöðu eigna menn jörðinni í Krýsuvíkurlandi, þar sem enn heitir Herdísarvíkursel. Ekki brúkast hún nú í nokkur ár, heldur önnur í heimalandi.“
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar segir: „Selvegur er slóði, sem liggur út af Gamlavegi upp undir Löngubrekkum, sem eru nokkrir hraunhryggir uppi í hrauninu.  Austur með Selvegi er Selhóll og Selhólsbruni. Þá eru Ingimundarhæðir ofanvert við Selhól og þá Hrísbrekkur þar enn ofar og skiptast í Litlu-Hrísbrekku og Stóru-Hrísbrekku.
herdisarvikursel - heimasel 1En einnig lá Seljavegur beint frá Seljabót í Brunna. Þegar austur var haldið úr Seljabót, var á vinstri hönd Selhóll, en hrauntunga lá niður undir hann og nefnist Selhólsbruni.“
Ólafur Þorvaldsson segir í sinni örnefnalýsingu um Herdísarvík: „
Nyrzt á Seljabót uppi við háa brunabrún, eru nokkrar gamlar húsarústir, og eru það leifar húsa frá þeim tíma, að haft var þarna í seli frá Herdísarvík.
Gamlaveg hefur að mestu verið hætt að fara eftir að rudd hafði verið gata gegnum tvö
brunabelti austan Geitahlíðar, og þar með vegur sá, sem enn er farinn, tekinn sem aðalvegur. Báðir bera þessir vegir merki mikillar umferðar, enda önnur aðalleið úr Árnes- og Rangárvallasýslum sem skreiðarvegur til Suðurnesja. Frá Kolhrauni, sem er löng brunabreiða austur af Seljabótarbruna, liggur gamli vegurinn austur hraunið.
Þá er austarlega kemur herdisarvikursel - heimasel 2á hraunið, ber mest á nokkuð grónum hryggjum eða hæðum, sem liggja frá NV til SA, og eru það Löngubrekkur. Nokkru austar og nær fjalli, þar sem hraunið er hæst og austur af sér, er allstór hóll, Selhóll. Nafn þetta mun hann
hafa hlotið af fornri götu, sem er skammt norður af honum, og hefur verið selgata út á Seljabót, en sést nú orðið óglöggt. Norðaustur af Selhól er dálítill blettur af mjög brunnu hrauni, sem virðist miklu yngra en hraunið þar umhverfis, og heitir þessi brunablettur Selhólshraun. Frá Selhól er stutt heim að Herdísarvík og engin örnefni á þeirri leið.“

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir að Herdísarvíkurhraunið hafði verið gengið fram og til baka og allir hugsanlegir möguleikar sem staðsetning á fyrrnefndri heimaselstöðu var haldið á líklegasta staðinn með framangreint í huga: „hjáleiga þar sem nú er stekkur heimabóndans“. Þegar komið var á vettvang var það nefndur stekkur, nú grasi gróinn, sem bar fyrst fyrir augu. Umhverfið er einnig grasi gróið og í miðju þess hið ágætasta vatnsstæði, bæði kjörnar aðstæður fyrir smákot sem og augsýnilegar leifar þess.
Þessi selstaða Herdísarvíkurbænda var sú fjórhundraðasta, sem FERLIR hefur skráð á Reykjanesskaganum. Eflaust eiga þær eftir að verða mun fleiri – þegar upp verður staðið…

Heimildir:
-Jarðabók Páls og Árna 1703, bls. 467.
-Örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar, I og II (ÖÍ).
-Örnefnalýsing Ólafs Þorvaldssonar (ÖÍ).

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.