Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur

Rauðhóll

Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn“. Enn eitt hraunið, „Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.“ Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.

Eldvörp

Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: „Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Eldvörp Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.“
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana. Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Gengið var inni í Óbrennishóla. Ofarlega í þeim austasta virtist vera hlaðið aðhald. Stígur liggur upp úr hólnum efst með stefnu í sunnanverða Eldvarpagígaröðina suðaustan við Rauðhól.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndi, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Klofningar eru löng læna upp úr Klofningahrauni og í gegnum Eldvarpahraun sunnan Rauðhóls. Í örnefnalýsingu fyrir Stað er heitið Klofningar samheiti fyrir hraunið, sbr. „Upp af hraunlægðinni (í Moldarlág austan við Reykjanesklif, en klifin eru tvö á sitt hvorum hábrúnum Berghrauns, Staðarklif að vestanverðu og Reykjanesklif að austanverðu) eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni.“
Eldvörp Í Eldborgarhrauni liggur önnur hrauntunga til suðausturs. Í henni er m.a. Óbrennishólar. Sunnan þessarar hrauntungu er hraun er nefnist Berghraun.
Ætlunin var að ganga áfram upp úr hólunum í Eldvarpahrauni og síðan upp í Rauðhól. Rauðhóll er eini gígurinn í Klofningahrauni. Tekið átti hús á hann. Suðvestan hans eru tvö stór jarðföll. Þar eru sagðar hafa sést hleðslur, sem ætlunin var að kanna. Þá var ætlunin að skoða gígana sunnar í Eldvarpahrauni sem og hin miklu hrauntröð sunnan þeirra. Á leiðinni var ætlunin að finna fyrrnefnd örnefni Mönguketill, Klofningar og Dringull á þessu svæði. Ekki var ætlunin að líta á svonefnt Vatnstæði í Klofningahrauni ofan við Hróabás að þessu sinni.
Yfirleitt voru nöfnin á básum undir Staðarbergi (Sölvabásar eru þar einnig, en austar) þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás. Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju þó svo að vestari mörg Staðar hafi verið í „austanverðan Valagnúp“.
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun)“.
Eldvörp Samkvæmt þessu átti Dringull að vera á vesturmörkum Klofningahrauns og áberandi kennileiti þar. Vestan við Hróarbása er Mölvík og enn vestar Sandvík. Þetta, niður við ströndina, er nefnt hér til að auðveldara er að átta sig á kennileitum uppi í landinu. Beint upp af Hrófabásum, ofan þjóðvegarins er Vatnsstæðið. „Rétt við veginn ofan við Mölvík er smátjörn, nefnt Vatnsstæði eða Mölvíkurvatnsstæði til aðgreiningar frá samnefndum tjörnum við Húsatóftir og Járngerðarstaði.“ Jafnframt segir í örnefnalýsingunni að „norðaustur af Vatnsstæðinu er Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli.“
Ferðin upp í Rauðhól gekk vel, enda að mestu um slétta hraunlænu að fara milli úfnari hrauna. Á leiðinni var gengið framhjá Svinx þeirra Grindvíkinga, en hann gefur hinum egypska frænda sínum lítið eftir í reisn. Suðaustan við Rauðhól er stór kvikuþró og önnur mun stærri suðvestan við hann. Á milli hennar og Rauðhóls er mikil hrauntröð. Allt svæðið var gaumgæft með það fyrir augum að finna framangreindar hleðslur, en án árangurs að þessu sinni. Snjór þakti jörð að mestu og gerði það leitina erfiðari en ella. Fljótlega er ætlunin að fara með Kristjáni Sæmundssyni í Rauðhól og njóta leiðsagnar hans um svæðið.
Gengið var niður um Klofið, en síðan vent til austurs inn í Eldborgahraunið og síðan fljótlega til suðurs, að gígaröð þar niðri í hrauninu. Kristján hafði sagt þessa gíga vera hluta af nýrra Eldvarpagosi, frá 13. öld, en syðstu gígarnir að ofanverðu, austan Rauðhóls, tilheyra því einnig. Sjá mátti göt niður í annars slétt hraunið og smágígaröð. Þá var komið að stærsta gígnum í neðstu röðinni, fallegur gjall- og klepragígur. Sunnan hans er enn einn gígurinn, Mönguketill. Úr honum liggur falleg hrauntröð til suðurs.
Eldvörp Að þessu sinni var gengið til austurs frá stóra gígnum. Austan hans eru nokkrar smávörður við greni. Ljóst er að sum þeirra eiga íbúa því sumsstaðar sáust spor eftir skolla, ýmist tvo og tvo saman eða einn sér, og þá móóttan.
Reynt var að skoða klapparhæðir á leiðinni, en sagan segir að á tilteknu svæði hafi nokkrir Grindvíkngar haft bruggaðstöðu í myndarlegri hraunbólu. Gat hafi verið á þakinu, en undir vatn. Enn ætti að sjást móta fyrir tunnustöfum í bólunni. Hins vegar hafi henni verið lokað með hraunhellum og því torfundin, enda gekk það eftir – að þessu sinni.
Svæðið í heild er einstaklega fallegt og bíður upp á ýmsa möguleika til útivistar. Það eru ekki mörg svæðin við þröskuld Stór-Grindavíkursvæðisins sem og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins er bjóða upp á slíka jarðfræðibirtingu sem þarna er; gígaröð á sprungurein, hraun frá sögulegum tíma, mannvistarleifar frá óskilgreindum tíma (sumir segja frá því fyrir norrænt landnám), óteljandi hraunmyndanir og gerðir hrauna, undirheima og allt annað það sem áhugavert gæti talist á ekki stærra svæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.
-Örnefnalýsing fyrir Stað í Grindavík.

Eldvörp

Eldvörp.

Straumsvík

Hafnarfjarðarbær hefur gefið út upplýsingarit um deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar stækkunnar álvers Alcan í Straumsvík. Það verður að segjast eins og er að framsetningin er hrikaleg á ömurlegri tillögu. Fjölmiðlar hafa brugðist. Enginn þeirra hefur fjallað um það sem skiptir máli, þ.e. deiliskipulagstillöguna sjálfa. Þeir hafa einungis fjallað um stækkun álvers, sem þó er aðeins einn þáttur málsins og alls ekki sá stærsti.

Þorbjarnastaðir

Sennilega hefur engu sveitarfélagi á landinu tekist eins illa upp við jafn þarft viðfangsefni. Að tala um íbúalýðræði í þessu samhengi er bara brandari. Það er í rauninni ekki um neina valkosti að ræða.
Tillaga um stækkun álvers væri ágæt – ein og sér. En að taka nánast öll menningarverðmæti í nágrenni svæðisins og leggja til eyðingu á þeim í nánustu framtíð segir íbúunum meira um hugafar stjórnenda og hlutaðeigandi embættismanna bæjarins en orð fá lýst.
Þorbjarnastöðum, eina heilstæða búsetulandslaginu innan bæjarmarkanna, verður verulega ógnað. Um er að ræða áhugavert svæði, sem ástæða væri til að friðlýsa. Skynsamlegra hefði verið að taka upp tillögu umhverfisnefndar frá árinu 2002 og friðlýsa svæðið Straumssvæðið hverfur nánast allt svo og Óttarsstaðahverfið – undir hafnarmannvirki. Ef einhver sá er annt menningu, sögu, umhverfi og náttúrusvæðisins hefði hugsað sér að samþykkja stækkun álvers á þegar röskuðu svæði þá er þessi hluti tillögunnar til þess fallinn að gera þá sömu fráhverfa slíku.
Ef texti tillögurinnar væri lesinn og tekinn sem slíkur mætti ætla að engu verði raskað. Ef textanum er sleppt og skoðaðar tillögur um framtíðarnotkun svæðisins vestan Straumsvíkur verða skilaboðin allt önnur og hræðilegri.
HáspennumösturStækkun álvers fylgja umhverfislýti. Þau nærtækustu er ásættanleg, en þegar kemur að flutningu orku  að svæðinu og tillögum um hvernig standa á að slíkur, verður umsnúningur í skoðunum þeirra sem fylgjandi eru stækkun. Háspennulínur um svo til allt upplandið verður hræðileg ásýnd, bæði fyrir nálæga íbúa og þeirra sem vilja nýta sér náttúru þess. Ef sérfræðingar í orkurannsóknum hefðu verið jafn duglegir á umliðnum árum og áratugum að leysa flutningsvandamálið og þeir hafa verið við afla orkunnar myndi dæmið líta öðruvísi út í dag. Þá væri væntanlega ekki verið að ræða um háspennulínur og þann náttúruóþrifnað sem þeim fylgir. Ekki ætti heldur að grafa strengi í jörðu. Þá á einfaldlega að leggja ofan á jörðina með þeim hætti að um algera afturkræfni geti verið um að ræða. Lausn þess bíður helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði. Hana má síðan flytja út til annarra landa sem eiga við sama vandamál að glíma – og þá væntanlega græða peninga á því. Græða peninga – það eitt ætti að vera hvetjandi fyrir einhverja.
Í rauninni skiptir litlu hvort álver er lítið eða stórt, nema kannski fyrir álfélagið sjálft – og ríkis- og bæjarsjóð. Það er heildardæmið sem skiptir máli; umhverfismálin, umgengismálin og ígrundaðar framtíðaráætlanir, þ.e. nýtingaráætlun, varðveisluáætlun byggð á raunverulega rökstuddu verðmætamati. Hafa ber í huga að óröskuð náttúra og menningarminjar eru líka verðmæti til lengri tíma litið.
Það hugarfar sem birtist í deiliskipulagstillögunni er áhyggjuefni. Það lýsir ótrúlegu skammsýni og vanþekkingu á hvar verðmætin liggja. Lausnir eiga að vera aðalatriði þeirra viðfangsefna sem hér eru til efnislegrar meðferðar. Þær er ekki að sjá í framangreindum deildiskipulagstillögum Hafnarfjarðarbæjar. Innihald og framsetning tillögunnar er líklega það versta sem hægt var að gera álfélaginu, sem hingað til hefur þjónað bæjarfélaginu vel með sannanlegum hætti. Skynsamlegast væri fyrir bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afturkalla tillöguna og vinna hana betur. Það enn ekki of seint. 

Reynisvatn

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um Reynisvatn: CXVI. „Reynisvatn – [Landsbókasafn 528. 4to með hendi Jóns Árnasonar].
Reynisvatn 2Reynisvatn heitir bær í Mosfellssveit. Hann dregur nafn af stöðuvatni því, sem þar er rétt við túnið, og af manni þeim, sem þar bjó fyrstur og hét Reynir. Reynir bóndi hafði smiðju sína langt frá bænum fyrir handan vatnið, undir svo kölluðum Nónás; varð hann að krækja öðruhvoru megin við vatnið, þegar ekki lá ís á því, til að komast í smiðjuna. En í vatninu var afbragðs silungsveiði. Einu sinni um vetur þegar vatnið var farið að leggja, ætlaði Reynir að stytta sér leið og ríða yfir vatnið til smiðjunnar, en vök var á vatninu og drukknaði hann þar. Dóttir Reynis var stödd úti og sá ófarir föður síns. Henni varð skapbrátt af því hún gat ekki hjálpað honum, og lagði á vatnið, að allur silungur í því skyldi verða að pöddum og hornsílum, og hafa þau ummæli haldizt síðan. En það er frá bóndadóttur að segja, að hún tók til fótanna eptir ummæli sín, hljóp í sömu vökina, sem faðir hennar fórst í, og týndi sér þar.“

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 155-156.

Reynisvatn

Reynisvatn.

Flekkuleiði

Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; „Leita að letusteinum„.

Letursteinar

Letursteinar – yfirlit.

„FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum.

Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir sálmavers sem er klappað á stein við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni.

Þá eru nokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur.

Í fréttatilkynningu frá Ferli kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur. Ef einhver getur upplýst hvar áletranir þessar geta verið eða hefur séð þær er viðkomandi beðinn um að láta Ómar Smára Ármannsson vita (omarsmari@simnet.is), einnig um annað það er málið varðar og kann að þykja merkilegt.“

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, landamerki eða hvaðaneina, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þjóðminjasafnið hefur dregið til sína allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum dýpstu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes – letursteinn.

Á Reykjanesskaganum er að finna a.m.k. 125 þekkta letursteina í mismunandi ásigkomulagi. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskju um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.

Heimild:
-Mbls 20. mars 2002 – Leita að letusteinum.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/658213/

Fuglavík

Fuglavík – elsti ártalssteinninn á Reykjanesskagnum.

Hvítskeggshvammur

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um Hvítskeggshvamm:
CLXXXVI. Hvítskeggshvammur – Eptir handriti Hvitskeggshvammur-1Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861 ( Landsbókasafni 542. 4to.].
Austan til upp af Deildarhálsi, milli hans og Kerlinga, er hvammur einn inn í Geitahlíð, sem kallast Hvítskeggshvammur. Þar upp undan er hnúkur á hlíðinni, sem kallast Æsubúðir. Kynleg sögn er til um uppruna þessara örnefna, og er hún sú, að í fornöld hafi sjór legið yfir öllu láglendi austan fjalls; er það sannað með gömlum sjávarkampi hjá Þurá í Ölfusi. Þá er sagt, að kaupstefna hafi verið í Æsubúðum, og því heiti þar búðir, en ekki er þess getið hvers vegna, þær eru kendar við Æsu, né heldur hver sú Æsa hafi verið. Í hvammi þessum var þá skipalega og hét skipið Hvítskeggur. Er það til sannindamerkis haft, að eptir Herdísarvfkurfjalli upp á hamrabrúninni, þar sem hraun hefur ekki hlaupið yfir, liggi götur í klöppunum líkt og á Hellisheiði, og að festarhringar hafi sézt í klettunum efst í hvamminum.
Aesubudir-1En síðan hefir brekkan og kletturinn í hvamminum hrapað niður, og ætti hringurinn því að vera í urðinni, enda gæti hún falið í sér það , sem stærra væri. — Svo sagði Jón bóndi Árnason í Herdísarvík, fróuir maður og ólyginn, — hann dó gamall og blindur 1855 eða 1856, — að hann hefði talað við þann mann, er sagt var, að hefði séd hringinn í hvamminum, en kvaðst ekki hafa munað eptir að spyrja hann að, hvort það væri satt, fyrr en þeir voru skildir, en þeir sáust ekki optar en í eitt skipti. Er þessi frásögn að mestu leyti eptir honum.

(Jón „ímyndaði sér, að skeð gæti, að tilefni þessara munnmæla um Hvítskeggshvamm, hefði verið í þeim írsku bókum, sem nefndar eru í sögubroti aptan við Knytlingu, eða Íslendingabók Ara“.)

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 310-311.

Æsubúðir

Geitahlíð og Hvítskeggshvammur lengst til hægri.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Flekkuvík

Í Sunnudagblaði Tímans árið 1964 segir Björn Þorsteinsson frá „Upphafi síldveiða við Faxaflóa„:
„Flekkuvík er yzt bæja við Vatnsleysuvíkina. Úr Dalsfirði í Noregi, heimabyggð Ingólfs landnámsmanns, skerst Flekkufjörður, kenndur við bæinn Flekku. Þaðan á Flekka landnámskona að hafa komið. Ingólfur fékk henni bólstað í Flekkudal í Kjós. Þar festi hún ekki yndi og fluttist í víkina, sem við hana er kennd. Þar var gnægð veiðiskapar undan ströndinni og góð lending, en vandrötuð. Flekka mælti svo fyrir andlát sitt, að sig skyldi heygja í túninu gegnt innsiglingunni og aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan kumlið sæist. Þessu hafa menn trúað og sennilega orðið að trú sinni.
flekkusteinn-221Í túninu í Flekkuvík er dálítil þúst, klapparhóll, sem nefnist Flekkuleiði. Á honum liggur hraunhella, letruð rúnum: „Hér hvílir Flekka“. Rúnirnar munu ristar á 17. eða 18. öld til virðingar við verndarvættina Flekku. Enginn man lengur nein deili á húsfreyjunni, sem kastaði fram stökunni:
Anza náði auðarbrík:
„Er minn bóndi, Skellir, róinn.
Fæst oft björg í Flekkuvík fyrir þá, sem stunda sjóinn.“
Í Flekkuvík er tvíbýli og gerðu bændur þar út sinn sexæringinn hvor seint á 19. öld, segir Ágúst Guðmundsson frá Halakoti í endurminningu sínum. Pétur Helgason, ungur formaður á báti frá Flekkuvík, bjargaði fimm mönnum af kili í óveðri undan Keilisnesi. Skipið var frá Vatnsleysu, og fórst þar formaðurinn, Auðun Jónsson, við þriðja mann. „En eftir þann róður fór Pétur aldrei á sjó, og var það skaði mikill með svo vaskan mann“, segir Ágúst. Þetta var 1887, þann 29. marz.
Síld hefur löngum gengið á Faxaflóa, en lítil tök höfðu Íslendingar á því að veiða hana og nýta. Stundum rak hana á f jörur í stórviðrum. Um sumarmál 1863 er sagt, að rekið hafi feikn af síld í Vogum. Á síldarhrönnin við ströndina að hafa náð mönnum í mitt læri.
Árið 1880 fór Ívar Helgason, bróðir Péturs, til Noregs, ásamt tveimur öðrum mönnum, til þess að læra síldveiðar. Hann kom upp með 30 síldarnet og hóf veiðar. Síldina notaði hann einkum í beitu og varð manna aflasælastur. Af Ívari lærðu menn hina nýju veiðitækni. Síldveiðar við Faxaflóa eiga upphaf sitt að rekja til Flekkuvíkur.“

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 13. september 1964, bls. 858-859.
Flekkuvík

Ívarshús

Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir) í garði voru þekkt örnefni hér fyrrum, en ekki lengur.
Kothus-1Á vef Árnastofnunar er m.a. fjallað um örnefnið Darrastaðir og Straglastaðir (Stranglastaðir). Bæði bæjarnöfnin munu fyrrum hafa verið á Rosmhvalanesi.
„Mannsnafnið „Darri“ kemur hugsanlega fyrir í örnefninu Darrastaðir sem getið er um í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (III, bls. 106). Þar er jörð með þessu nafni sögð hafa verið í byggð áður fyrr í Rosmhvalaneshreppi en ekki var vitað um staðsetningu. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Gullbringu- og Kjósarsýslu (2007), bls. 74, segir að Darrastaðir sé eldra heiti á bænum Kothúsi í Leiru á Suðurnesjum. Bæjarheitið Darrabúðir hefur verið til að fornu í Noregi (sbr. E.H. Lind, Norsk-Isländska personbinamn från medeltiden (1920-1921), dálkur 57).
Kothus-2(E.H. Lind (Norsk-Isländska dopnamn og fingerade namn från medeltiden (1905­-1915), dálkur 198) gerir ráð fyrir að mannsnafnið (og viðurnefnið) Darri sé dregið af hvorugkynsorðinu darr sem merkir ʻspjótʼ á sama hátt og nöfnin Spjóti og Sverði eru dregin af orðunum sverð og spjót).
Ekki er ólíklegt að hvorttveggja mannsnafnið og örnefnið dragi nafn sitt af sverðsheitinu darr. Bæði Darra við Aðalvík og Derri er lýst sem hnjúkum eða hyrnum og jafnvel líkt við píramída. Líkingin við spjótsodd er því nærtæk. Darra upp af Rekavík er hins vegar lýst ýmist sem hárri klettaöxl eða heilu fjalli. Hugsanlegt er að nafnið hafi í því tilfelli upphaflega aðeins átt við öxlina og hún þótt líkjast spjótsoddi. Síðar færðist nafnið yfir á allt fjallið í munni þeirra sem bjuggu vestan við það.

Kothus-3

Ýmsar aðrar merkingar darra-orðanna geta líka átt við fjallsheitið, t.d. eitthvað sem er ʻháreistʼ eða ʻmikið með sigʼ. Valgarður Egilsson bendir t.d. á það í kaflanum Strandbyggðir Mið-Norðurlands (Árbók FÍ 2000, bls. 158) að fjallið Lútur (eða Lútin) hafi nafn sem sé andstætt Darra og á þá við að Lútur sé lágreistur (eitthvað sem ʻlýturʼ) en Darri sé væntanlega að sama skapi háreistur (ʻdarralegurʼ).“
Á snara.is má lesa eftirfarandi: „Í bæjarnafninu Darrastaðir, en sést ekki í manntölum eða skírnarskýrslum fyrir 1950. Í þjóðskrá 1982 báru 25 karlar nafnið, þar af 19 sem síðara nafn, en í þjóðskrá 1989 var 51 karl skráður svo, þar af 32 karlar að síðara nafni.“
Í Náttúrufræðingnum 1947 bregður nöfnunum fyrir í umfjöllun um flóðahæð: „Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum oIvarshus-2g hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið. Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.“
Í Frjálsri verslun 1971 má lesa eftirfarandi: „Árið 1550, þegar allar beztu plógjarðir, sem höfðu útróðrarmenn, voru látnar ganga undir Skálholtsstól. Voru Kothúsin þeirra á meðal. Um 1890 keypti faðir hans jörðina, sem þá var orðin konungseign, Kothús munu áður hafa heitið Darrastaðir.

Kothus-4

Ólafur Lárusson, gefur þá skýringu á nafnabreytingunni, að sennilega hafi Darrastaðir farið í eyði, en seinna byggt á tóftunum. Hvenær það gerðist er ekki vitað, en 1550 var Kothúsanafnið komið á jörðina.“
Í Vöku 1929 kemur þetta fyrir: „Það er þannig líkleg tilgáta, að Kothús og Ívarshús í Garði séu gamlar jarðir, er þar voru og hétu Straglastaðir og Darrastaðir. Að lögbýli bera hjáleigunöfn sannar því eigi, að þau nöfn séu gömul. Hitt, að sýnt verður, að mörg þessara býla hafa fengið nöfn þessi tiltölulega seint, er vottur þess, að hjáleigunöfnin tilheyri yfirleitt yngra stigi í byggingarsögu landsins, og það bendir aftur til þess, að hjáleigurnar séu flestar byggðar nokkuð seint. En hvernig stendur á þessum nafnbreytinguin lögbýlanna?

Kothus-5

Ég hygg, að þær hafi oftast stafað af því, að býlin hafa lagzt í auðn í bili. Einkum á þelta við um kot-nöfnin. Það hefir verið tíðkað i alþýðumáli, að nefna rústir „kot“, jafnvel rústir af öðru en býlum, t. d. beitarhúsum og þess háttar.“
Þegar svæðið ofan og suðvestan við Varir var skoðað árið 2012 hitti FERLIR m.a. Guðríði í Kothúsum. Hún er fædd og alin upp á bænum. Sagði hún að fyrrum hafi allnokkur kot verið umhverfis bæinn, 6-7 talsins. Hvert kot hefði haft skika umleikis. Nú væru þessi kot hins vegar horfin, en þó mætti enn sjá leifar Ívarshúss. Sjálft íbúðarhúsið (grænt) hefði verið flutt inn frá Noregi og byggt árið 1896. Efra húsið (hvíta) væri frá árinu 1898.
Aðrar minjar í nágrenninu væru frá því að afi hennar hafði Kothus-6útihús norðvestan við bæinn. Kothúsbrunninn mætti enn sjá skammt vestan við hann, en hann hefði verið byrgður. Áður var ofan á honum kjálki og vinda, enda jafnan gott vatn upp úr honum að hafa. Vindmyllustandur í nágrenninni var minnismerki þess tíma er vindmylla var við hvurn bær í Garði. Þessi vindmylla var öðruvísi en aðrar því spaðinn sneri jafnan undan vindi en ekki upp í hann líkt og aðrar.
Nú hafa minjar eldri kota og bæja verið sléttar út á umræddu svæði svo erfitt er að greina hvar þau hafa verið staðsett nákvæmlega.

Heimildir m.a.:
-http://snara.is/s4.aspx?sw=b%u00e6jarnafn&start=30&action=search
-Náttúrufræðingurinn, 17. árg. 2. tbl (01.06.1947), Ólalur við Faxafen: Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, bls. 62.
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3155283&issId=232905&lang=4
-Frjáls verslun, 31. árg. 1971-71, 9. tbl. (01.09.1971), viðtal við Sevinbjörn Árnason í Kothúsum í Garði, bls. 58.
-Hallgrímur J. Ámundason (júlí 2010).
-http://arnastofnun.is/page/ornefni_darri.
-Vaka, 3. árg. 1929, 3. tbl. (01.12.1929), bls. 363.
-Guðríður í Kothúsum.

Garður

Garður.

Búrfellsgjá

Fjalla-Eyvindur er frægastur útilegumanna á Íslandi.

Hellir í Búrfellsgjá

Hellir í Búrfellsgjá.

Eyvindur er í rauninni ágætt (vont) dæmi um það hvernig yfirvöld þess tíma gerðu fátækan mann, sem hafði alla burði til að geta bjargað sér með heiðvirðum hætti, að varanlegum sakamanni. Athafnir þess, sem var “grunur um þjónað”, varð til þess að Eyvindur Jónsson frá Hlíð í Hrunamannhreppi, elstur systkina (tvíburi) varð að dvelja á fjöllum í 40 ár til að viðhalda “frelsi” sínu. Sú reynsla gerði hann að þeim mikla “Þekkingarbrunni” öræfanna er vegna skammsýni nýttist aldrei öðrum eftirlifandi.  Minnir málatilbúnaður yfirvaldins á 18. öld margt á það sem hefur verið að gerast hér á landi þremur öldum síðar.
Eyvindur fæddist árið 1713 eða ´14. Um aldamótin þau var Ísland ofurselt danskri einveldisstjórn og harðsvírðuðu verzlunarfyrirkomulagi. Aldrei hefur Ísland verið nær því að gefast upp við að halda lífi í þjóð sinni og aldrei hefur sorfið meir að norrænum kynstofni, utan þess er dó á Grænlandi á fimmtándu og sextándu öld. Síðasta hallærisárið af sjö í röð um aldamótin var árið 1701. Þá var fiskileysi um landi mest allt, að kalla mátti dauðan sjó. Um miðjan maí voru 50 menn fallnir úr hor í Þingeyjarsýslu einni og víða urðu menn fallnir úr hor af næringarskorti. Fólk við sjávarsíðuna lifði helzt á sölum og fjallagrösum. Um þetta leiti er talið að dáið hafi  milli níu og tíu þúsund manns hér á landi, en þeir, sem eftir lifðu voru margir hörmulega útleiknir og biðu þess aldrei bætur, sem lagt hafði verið á þá andlega og líkamlega.
“Maður að nafni Geirmundur Bjarnason frá Sviðholti á Álftanesi lá úti upp frá seljum Álftnesinga í þrjár vikur í júní 1704 og lifði eingöngu á súrum og grasi. Sama ár dó skáldið á Stapa á Snæfellsnesi, Guðmundur Bergþórsson, varla hefur hann dáið af of miklum mat eins og nú er eitt algengasta dauðamein hér.”
Enn má sjá ummerki eftir Geirmund í Búrfellsgjá – ef vel er að gáð.
Sjá meira um
Búrfellsgjá.

Heimild m.a.:
– Saga Fjalla-Eyvindar, Guðmundur Guðni Guðmundsson – 1970.

Búrfell

Búrfell.