Rauðhóll

Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um “Hraun í nágrenni Straumsvíkur” í Náttúrfræðinginn árið 1998.

Hraun í nágrenni Straumsvíkur
HraunÞegar fjallað er um hraunstrauma þá sem á síðustu árþúsundum hafa runnið í átt til sjávar í Straumsvík og næsta nágrenni er óhjákvæmilegt að sú umfjöllun teygi sig til upptakanna, eldgíganna sjálfra. Af þeim sökum nær umfjöllunin yfir um 200 ferkílómetra svæði, þ.e. ströndina frá Hvaleyrarholti til vesturs að Vatnsleysuvik (Kúagerði) og frá ströndinni suður í Reykjanesfjallgarð milli Grindarskarða og Trölladyngju. Á þessu svæði er fjöldi hrauna og sum sjást ekki á yfirborði, því yngri hraun þekja þau alveg. Þeirra verður aftur á móti vart í borholum, m.a. á athafnasvæði álversins í Straumsvík. Leitast er við að draga upp einfalda mynd af því hvaða leið hraunin hafa runnið og hvernig þau hafa, eitt af öðru, lagt sitt af mörkum til að færa ströndina til núverandi horfs. Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg og þau eru ekki bundin við einstaka hraunstrauma heldur ákveðin svæði. Þannig getur sama hraunið heitið mörgum nöfnum og nöfn geta einnig náð yfir hluta úr mörgum hraunum. Þau nöfn sem hér eru notuð á einstökum hraunum ber ekki að taka sem örnefni heldur sem sérheiti á jarðmyndunum.

Hraun frá fyrri hluta nútíma
HraunÞað tímaskeið jarðsögunnar sem tók við er ísöld lauk, fyrir 10.000 árum, nefnist nútími og varir hann enn. Á þeim tíma runnu hraunstraumar þeir sem almennt kallast hraun f dag (2. mynd). Elst þeirra hrauna sem sjást á yfirborði á þessu svæði er Búrfellshraun en það rann fyrir um 7.300 árum (Guðmundur Kjartansson 1973).

Búrfellshraun

Hraunið rann frá stórum gíg ofan við Hafnarfjörð sem Búrfell heitir og er hann nyrsti gígurinn í Krýsuvíkurrein. Frá Búrfelli rann hraunið til norðvesturs í tveimur meginkvíslum og fór önnur niður í Hafnarfjörð (Hafnarfjarðarhraun) en hin í Arnarnesvog (Gálgahraun). Að líkindum hefur á sama tíma runnið hraun til norðurs frá öðrum gíg, Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram. Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvfk. Upptök þessa hrauns eru lfklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.

Hrútargjárdyngja

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Langmesta hraunið á þessum slóðum er Hrútagjárdyngja. Upptök þess eru nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.

Skúlatúnshraun – Hellnahraunið eldra

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Fyrir um 2.000 árum varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell. Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt tíl sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess.
Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvfkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna. Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá. Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu.

Gervigígar

Þorbjarnastaðarauðamelur

Í Þorbjarnastaðarauðamel.

Á svæðinu eru nokkrir gervigígar sem stinga kollinum upp úr yngri hraunum. Gervigígarnir hafa myndast við það að hraun runnu í sjó og sýna þeir því legu strandarinnar á myndunartímanum. Gervigígunum í nágrenni Straumsvíkur má skipta í þrjá hópa eftir útbreiðslu.
Austast var Rauðhóll við Hvaleyrarholt, sem stóð upp úr Hellnahrauninu eldra, en langt er síðan hóllinn hvarf vegna efnisnáms og þar er nú geil í hraunið. Nokkru sunnar og vestar standa tveir gervigíar upp úrsamahrauni.
Í Selhrauni, skammt suður af kvartmílubrautinni, hefur verið numið töluvert magn af gjalli úr gervigígum sem standa þar upp úr einu af elstu hraununum á svæðinu (Selhraun 4, Helgi Torfason o.fl. 1993).
Skammt suður og vestur af Straumsvík er mikil rauðamalargryfja í Hrútagjárdyngju. Þar var upphaflega rauðamalarbunga upp úr hrauninu, Rauðimelur sem svo var nefndur. Nokkru vestar má sjá í kollinn á allmiklum gjallhól og enn vestar hefur hinn þriðji verið numinn brott.
Í flestum þessara gervigíga hafa fundist skeljar sem þeyst hafa upp úr þeim er hraun rann út yfir setlög við þáverandi strönd. Ekkert er vitað um aldur gíganna annað en að þeir eru örugglega myndaðir eftir ísöld og eru eldri en hraunin sem upp að þeim hafa runnið.

Niðurlag

Hraun

Hraun ofan Straumsvíkur.

Núverandi strönd við Straumsvík er mynduð af þremur hraunum. Elst og vestast eru hraun Hrútagjárdyngju, sem runnu frá stórum dyngjugíg nyrst í Móhálsadal fyrir um 5.000 árum. Vestast er Hellnahraunið eldra, sem er langt að komið, upprunnið í Grindarskörðum í Brennisteinsfjallareininni fyrir um 2.000 árum. Bæði þessi hraun eru helluhraun og fremur auðveld yfirferðar.
Yngsta hraunið er Kapelluhraun, úfið apalhraun, sem rann árið 1151 frá gígum suður undir Vatnsskarði. Það rann til sjávar um lægð sem myndast hafði á mótum Hrútagjárdyngju og Hellnahraunsins eldra. Á síðustu 10.000 árum hafa hraunstraumar smám saman fært ströndina fram sem nemur allt að 2 km.
Eldgos á Reykjanesskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár.
Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240.1 hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Af ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krýsuvíkurrein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hinsvegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.

Helstu heimildir höfunda:
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183. Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989.
-Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87. Helgi Torfason, Árni Hjartarson, Haukur Jóhannesson, Jón Jónsson & Kristján Sæmundsson 1993.
-Berggrunnskort: Elliðavatn 1613 III-SV-B 1:25.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. kortamappa.
-Jón Jónsson 1974. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn 44. 109-119.
-Kristján Eldjárn 1956. Kapelluhraun og Kapellulág. Árbók Fornaleifafélagsins 1955-56. 5-8.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krýsuvíkureldar ll. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg., 3.-4. tbl., 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1960-1961, bls. 171-177.

Hraun

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Ása

Í Þjóðmálum, 2. hefti 01.06.2015, er fjallað um “Ásustrandið 1926” utan við Járngerðarstaði í Grindavík, en það mun hafa verið upphafið að endalokum Duus-verslunar í Keflavík. Enn í dag má sjá ketilinn úr togaranum á fjöru í Stórubót, auk þess enn má bera augum skipsbjölluna sögulegu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.

Duus

Hús Duusverslunar í Keflavík.

“Peter Duus og kona hans, Ásta Tómasdóttir Beck, stofnuðu útgerðar- og verslunarfélagið H.P. DUUS árið 1848. Það var starfrækt í Keflavík til ársins 1920 þegar starfsemin var flutt til Reykjavíkur. Árið 1904 keypti H.P. Duus, eða Duusverslun, tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10. október 1917. Þrátt fyrir erfið skilyrði bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón. Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku.
H.P. Duus lét óhappið ekki slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland en fékk nú nafnið Ása. Hann var var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip.
Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram að því að Ása strandaði á Víkurflúðum undan Malarrifi í desember 1925. Togarinn eyðilagðist á strandstað en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og gerðist þegar kútterinn Ása strandaði við Hvalsnes. Rétt eins og þá var það var talið sérstakt happ að áhöfnin skyldi sleppa ósködduð úr strandi á þessum stað í slæmu veðri.
Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus-verslun. Hún átti í byggingu nýjan togara í Englandi hjá skipasmíðastöðinni Smiths Dock Co. Ltd. Þrátt fyrir að strand Ásu við Malarrif skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og og var nýi togarinn sjósettur í febrúar 1926. Mánuði síðar kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása RE 18, þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni.

ÁsaDuus-verslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips. Það var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta og best búna skip togaraflotans.  Skipið fór í sínu fyrstu veiðiferð á svonefndum Grunnhalla á Selvogsbanka. Þar fékkst fullfermi og upp úr miðnætti 2. apríl 1926 var haldið af stað til Reykjavíkur.
Klukkan að ganga fjögur um morguninn varð fólk í Grindavík þess vart að skip var strandað á Flúðum austan Járngerðarstaðahverfis. Skipverjar sendu belg í land með orðsendingu þess efnis að þeir myndu halda kyrru fyrir í skipinu uns fjaraði út. Með orðsendingunni fengu Grindvíkingar að vita um hvaða skip var um að ræða.
Um hádegisbil lét áhöfn Ásu björgunarhring með línu reka í land. Björgunarmenn drógu síðan togvír á línunni og festu í landi. Áhöfnin sagaði í sundur tunnu og útbjó björgunarstól og einnig bjuggu skipverjar til dragreipi.

Ása

Ketill Ásu í Stórubót – h.m.

Á þessum tímum voru ekki komin björgunartæki sem nú eru til, enda var erfitt að koma á sambandi milli skips og lands. Það var álandsvindur á suðaustan og nokkur stormur en í land var löng leið því að þarna er útgrynni. Fyrst vildi línan festast í botni þar til haft var nógu stutt á milli flotholta á henni, þá fékkst hún til að reka vestur á Stórubót. Á lága sjónum var hægt að fara á bát út á Bótina og ná þannig í belginn. Þá var eftir að bera línuna þangað sem styst var í land frá skipinu en það var í Eystri-Hestaklettinum. Eftir að það hafði tekist var fljótlega gengið frá tækjum svo að hægt væri að draga mennina í land. Það gekk vel og allir björguðust.
Þar sem hér var um nýtt skip að ræða var mikið gert til að ná því út aftur. Meðal annars var fengið til þess danskt björgunarskip, Uffe. Það mun hafa verið í maímánuði sem Uffe byrjaði á björgunarstarfinu og var við það nokkuð fram í júnímánuð. Mestur tíminn mun hafa farið í að létta Ásu og steypa í göt sem komin voru á botninn og einnig að slétta fjöruna sem draga átti skipið eftir.
ÁsaÞegar þessum undirbúningi var lokið var á stórstraumsflóði farið að taka í skipið og var það dregið 2–3 lengdir sínar út. Af einhverri ástæðu var þá hætt að draga skipið þannig út, með afturendann á undan, og farið að snúa því þarna í fjörunni. En þegar skipið var komið nokkurn veginn þversum, þ.e. lá flatt fyrir sjónum, hreyfðist það ekki meira — og þannig var skilið við það litlu seinna. Það hélt margur hlutlaus áhorfandinn að hægara hefði verið að snúa skipinu þegar það hefði verið komið á flot en að gera það meðan það lá í fjörunni.
Fyrstu dagana í júlí gerði storm og brim. Á einu flóðinu hvarf Ása algerlega svo að ekkert sást eftir nema brak í fjörunni og ketillinn þar sem skipið hafði verið. Svo virðist að það verki eins og dínamítsprengja þegar brimsjór fellur ofan í skip með opnar lúgur, krafturinn er svo mikill á sjónum ásamt því að samþjappað loft er inni í skipinu. Jafnvel þótt um járnskip sé að ræða geta þau tæst í sundur undan nokkrum sjóum.
En þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja, eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterk að þótt allt annað hverfi standa þau af sér stórsjóina til áratuga og verða eins konar minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél Ásu RE 18 sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur.

Ása

Ása – bjallan á Bryggjunni.

Vel má gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiferð. Það hafði aldrei verið landað afla úr skipinu en það var að fara í land, sem fyrr segir, með fullfermi úr sinni fyrstu veiðiferð.
Sú saga gekk á sínum tíma manna á meðal að upphaf endaloka Duus-verslunar hafi verið þegar hún hóf byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík árið 1917. Þar sem húsið átti að standa var fyrir hóll. Þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Hún bað stúlkuna að fara til Duus og segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annars staðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt. En hún talaði fyrir daufum eyrum. Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duus-verslunar.
Hvort sem marka má drauminn eður ei reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun upp frá þessu og þrjá skipstapa á nokkrum árum — síðast strand hinnar nýju Ásu — þoldi fyrirtækið ekki.
Eitt af því sem varðveittist í Ásu-strandinu við Grindavík 1926 var skipsbjallan. Líklega hefur Einar Einarsson, útgerðarmaður og stórkaupmaður í Grindavík, eignast bjölluna eftir strandið. Næstyngsti sonur Einars, Hlöðver Einarsson, seldi bjölluna síðar Davíð Sch. Thorsteinssyni iðnrekenda og athafnamanni. Haustið 2014 gaf Davíð Jóhannesi Einarssyni, einum af yfirmönnum Cargolux í Lúxemborg, síðar ræðismanni Íslands í Mónakó, bjölluna, en Jóhannes er yngri sonur Einars Sigurjóns Jóhannessonar sem var fyrsti vélstjóri á Ásu.”
Bjallan framangreinda hangir nú á veitingastaðnum Bryggjunni við höfnina í Grindavík þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.

Heimild:
-Þjóðmál. 2. hefti 01.06.2015 – Ásu-strandið 1926, bls. 52-55.

Ása

Ása – skipsbjallan á Bryggjunni.

Hólmsbúð

Í bók Árna Óla “Strönd og Vogar”,- úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, er fjallað um “Gömlu veiðistöðina” Hólmabúð undir Stapanum vestan Voga.

Strönd og vogar

Strönd og vogar – Árni Óla.

“Ég fór að skoða Hólmabúðir, hina gömlu veiðistöð undir Vogastapa. Með mér var Egill kennari Hallgrímsson, sem fæddur er og upp alinn í Minni-Vogum og þekkir hvern stein og hverja þúfu þar í grenndinni. Hann man og þá tíma, er aldahvörf urðu í útgerðarháttum hér.
Stóru-VogarVið gengum inn fyrir Vogavíkina, þar sem nefnist Vogasandur. Austan megin víkurinnar blasir þá við hin nýja byggð, þorpið, sem er samvaxið gamla bæjahverfinu. En sá er enn munur á þorpinu og gamla hverfinu, að í hverfinu eru stór tún umhverfis hin nýju hús, er reist hafa verið á jörðunum. Yst á tanganum er svo frystihúsið og sjóbúðir, en fram af þeim hafnargarður og bryggja, sem hreppurinn á. Við bryggjuna eru bundnir nokkrir vélbátar. Hér er nýi tíminn að ryðja sér til rúms.
Hér voru áður tvær jarðir, Stóru-Vogar og Minni-Vogar, og fylgdu þeim nokkrar hjáleigur, og em orðnar að sérstökum býlum sumar, en aðrar hafa lagst niður. Hér er Suðurkot og Nýibær, Hábær (er áður hét Tuðra) og Tumakot, Austurkot og Norðurkot. Þessi „kota“-nöfn eru löngu orðin úrelt, því að hér eru engin kot. En sjálft höfuðbólið Stóru-Vogar, sem mun veralandnámsjörðin Kvíguvogar, hefir lengi staðið í eyði og er nú að hruni komið. Þarna var þó einu sinni hæsta timburhúsið í Vogunum. En grunnur þess er óbifanlegur. Það em útveggir steinhúss, sem Jón Magnússon Waage reisti árið 1871 og mun hafa verið fyrsta steinhús, sem íslenskur bóndi lét reisa. Smiðurinn var Sverrir Runólfsson steinhöggvari, og segir í Iðnsögu íslands, að þetta hafi verið eitthvert helsta verk Sverris, og smíðaði hann þó bæði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju. (Í Iðnsögunni er sú villa, að húsið hafi verið reist í Minni-Vogum). Veggir hússins voru tvíhlaðnir úr hraungrýti, sem lagt var í kalk og er veggjaþykktin 1 al. 6”—1 al. 9”. Loft, gólf og þaksúð var úr plægðum borðum og helluþak á húsinu. Sjórinn er alltaf að brjóta bakkann hjá Stóru-Vogum og er kominn alveg heim að húsinu. Nú seinast hefir hann brotið skarð í sjóvarnargarð, sem þar var gerður, svo að undirstaða hússins er í hættu.
Fram af Austurkoti er tjörn á sjávarbakkanum og grandi fyrir framan.
HómabúðÁ þessum granda stóð áður ein af hjáleigunum og hét Eyrarkot, en grandinn Eyrarkotsbakki. Þar var útræði fyrrum. í tjörninni er stór og grasgefinn hólmi og þar verpur fjöldi af kríum. í miðri byggðinni er hár hóll, sem Arahóll nefnist, og stendur á honum varða mikil, sem heitir Aravarða. Undir hólnum er fagur hvammur, og þar á með tímanum að koma skrúðgarður og skemmtigarður þorpsins. Fram undan er svo Vogavíkin, lygn og svipfríð, og í henni speglast Stapinn með grænum geirum, skriðum og klettabeltum. Hann setur og sinn svip á allt umhverfið. Það er fagurt í Vogum, og hvergi hefi ég séð fegurra sólarlag en þar.

Þegar staðið er innan við Vogavíkina, er auðséð, að hér hefir sjórinn brotið mikið land. Er ekki ósennilegt, að í fornöld hafi verið graslendi fyrir botni víkurinnar og út með Stapanum að vestan. En það er þá allt horfið og eftir standa svört sker og tangar. Mestur er Kristjánstangi fyrir miðjum víkurbotninum. Þar stóð einu sinni salthús, og ef til vill hefir verið þar útræði einhvern tíma, en þess sjást nú ekki merki og enginn veit neitt um það að segja. Saltgeymslan hefir ef til vill aðeins verið fyrir Stóru-Voga.
HólmabúðVið höldum nú vestur að Stapa. Á þeirri leið eru réttir þeirra Vogamanna, hlaðnar úr grjóti undir klapparholti nokkru. Þetta eru gömlu réttirnar á Suðurnesjum, og þangað kom fé úr öllum nálægum hreppum og margt fólk, meðan réttadagurinn var einn af hátíðardögum ársins. Skammt fyrir ofan er Suðurnesjavegurinn og liggur upp á Stapann sunnanverðan. Við höldum gamla veginn, sem lá út með Stapanum, og verður þá brátt fyrir okkur dæld eða skarð í Stapann. Þetta er hið alkunna Reiðskarð, þar sem alfaravegurinn lá öldum saman, brattur nokkuð og stundum ófær á vetrum vegna fannkyngi í skarðinu. Utan við skarðið hækkar Stapinn mjög, og með flóði fellur sjór þar upp að honum, svo ekki verður komist nema klöngrast hátt í skriðum. Nú var fjara og leiðin greið. Utan við þessa forvaða er svo komið að Hólmabúðum, sem eru gegnt Vogabæjunum. Hér er enn nokkur undirlendisskák með fram Stapanum. Þar eru háar og grýttar skriður á aðra hönd, með nokkrum grasgeirum á milli, en klettabelti efst í brúnum. Á hina höndina skagar nes út í víkina. Þetta er Hólminn, og hér hefir eflaust verið veiðistöð um margar aldir. Saga þeirrar útgerðar er nú glötuð, nema hvað nokkuð er vitað um sögu Hólmans síðan um 1830—40, að hið svonefnda „anlegg” rís þar upp. En svo nefndu menn í daglegu tali hús þau, er Knudtzon lét reisa þarna, salthús og fisktökuhús. Knudtzon var aldrei kallaður annað en „gróssérinn”.
HólmabúðMjór tangi tengir Hólminn við land. Þar standa skrokkar af tveimur gömlum vélbátum og hallast hvor upp að öðrum í sameiginlegu umkomuleysi. Þetta voru einu sinni glæsilegar fleytur, sem drógu björg í þjóðarbú, en eru nú ekki annað en tvö útslitin hró, sem lokið hafa ætlunarverki sínu. Og á skeri þar rétt fyrir innan er ferlíki nokkurt, hálft í sjó og hálft uppi á skerinu. Þetta er einn af innrásarprjámum þeim, er bandamenn smíðuðu til þess að flytja á herlið sitt til Frakklands 1944.
En hvernig stendur á því, að slíkt fartæki er komið hér inn á Vogavík? Sú er saga til þess, að Óskar heitinn Halldórsson keypti nokkra af þessum stóru prjámum eftir stríðið og lét draga þá hingað. Síðan hafa þeir allir, nema þessi eini, verið notaðir til hafnargerðar á þann hátt, að þeir hafa verið fylltir með steinsteypu og síðan sökkt sem steinkerjum, þar sem hafnargarðar hafa verið gerðir.
Þegar komið er út í Hólminn, er hann nokkuð stór og hringlaga. Má þar sjá leifar af miklum mannvirkjum. Fyrst er þar grunnur undan stóru húsi, sem líklega hefir verið fisktökuhús og íbúðarhús umsjónarmannsins, sem þarna var. Þetta hús hefir verið um 15 metrar á lengd og breitt að því skapi. Þar hjá er grunnur undan öðru húsi, og þar mun hafa verið salthúsið, sem tók 2000 tunnur af salti. Steinstéttir eru umhverfis þessi hús, en hvort það hafa verið gangstéttir, eða ætlaðar til að breiða á þær fisk, verður ekki sagt.

Hólmabúð

Hólmabúð séð af Stapanum.

Fremst á Hólminum eru rústir af grjótbyrgjum, þar sem vertíðarmenn hafa saltað fisk sinn. Hefir sjórinn brotið nokkuð af þessum byrgjum, svo að nú verður eigi séð, hve mörg þau hafa verið, en heillegar tóftir standa eftir af sumum. Þarna eru og leifar af miklum grjótgörðum. Tvö svæði á stærð við meðalkálgarð eru þar afgirt með grjótgörðum, og getur verið, að annað þeirra hafi verið bátaskýli, og hafi menn dregið inn í það báta sína þegar mjög hvasst var, svo að þá tæki ekki upp. Þessi rétt eða skýli hefir verið rétt við lendinguna innan á Hólmi, en svo var önnur lending utan á honum. Seinustu útgerðarmenn þarna, meðan „anleggið“ var, voru bændur úr Kjós, af Kjalarnesi, Seltjarnarnesi og úr Reykjavík. Er talið, að þeir hafi haft þar 18 báta.

Stapabúð

Stapabúð.

Seinasti „útlendingurinn”, sem gerði þarna út, var Haraldur Böðvarsson kaupmaður á Akranesi. Hann eignaðist fyrsta vélbát sinn, „Höfrung“, árið 1908 og gerði hann út í Vestmannaeyjum á vertíð 1909. Þetta var ekki nema 8 tonna bátur, og Haraldi leist ekki á að hafa hann þar. Og eftir að hafa athugað alla staði hér nærlendis, taldi hann Hólmabúðir á Vogavík heppilegasta útgerðarstaðinn fyrir sig. Þar var gott lægi fyrir litla vélbáta innan við Hólminn, og þar mátti draga þá á land, ef þurfa þótti. Að vísu var gamla verstöðin komin í eyði fyrir löngu, en hann reisti þarna dálítið hús í félagi við annan útgerðarmann, og gerði síðan út þar í þrjú ár, eða þar til hann fluttist til Sandgerðis með útveg sinn. Tveir af kunnustu útvegsmönnum við Faxaflóa, Geir Zoega og Haraldur Böðvarsson, byrjuðu því báðir útgerð sína í Vogunum.
Þurrabúð rís fyrst í Hólmi 1830. Bjarni Hannesson hét sá, er þar bjó fyrstur. Hann mun hafa dáið um 1844. Kona hans, Valgerður Þórðardóttir, giftist síðan Guðmundi Eysteinssyni, er verið hafði vinnumaður hjá þeim, og voru þau í Hólmabúðum fram til 1848.
Það er á þessu tímabili, að Knudtzon byrjar „anleggið” þarna. Mun hann hafa haft þar sérstaka afgreiðslumenn, sem ekki hafa dvalist þar nema tíma og tíma. Hólmabúðir munu þá hafa verið orðnar grasbýli. Leggur Knudtzon það undir sig, þegar Guðmundur fór þaðan, og fylgir það síðan stöðinni.

Hólmabúð

Hólmabúð.

Árið 1850 kemur að Hólmabúðum Jón Snorrason dbrm. á Sölvahóli í Reykjavík, og er hann fyrst nefndur verslunarþjónn, en síðar verslunarstjóri. Fær Jón þann vitnisburð, að hann sé „prýðilega að sér og gáfaður dánumaður“. Hann var þarna í sex ár. Næstur honum er Kristján Jónsson, og er hann þar í þrjú ár. Síðan er Guðmundur Magnússon þarna eitt ár.
Árið 1860 koma þau þangað Jón Jónsson prentari, sem kenndur var við Stafn í Reykjavík, og kona hans Sólveig Ottadóttir, Guðmundssonar sýslumanns. Þau eru þar í þrjú ár. Þá tekur við Egill Ásmundsson, en næsta vetur hrapaði hann í Vogastapa og beið bana.
Árið 1864 koma svo Jón Breiðafjörð og Arndís Sigurðardóttir að Hólmabúðum, og var Jón forstjóri stöðvarinnar um 12 ára skeið. Á sama tíma rak hann einnig útgerð fyrir sjálfan sig, og var þarna oft 14 manns í heimili hjá þeim. Vorið 1876 fluttust þau svo að Brunnastöðum, eins og fyrr er getið. Næsti forstjóri Hólmabúða var Stefán Valdimarsson Ottesen, og gegndi hann því starfi fram til 1882. Þá er mjög farið að draga úr útgerð þarna. Eftir það kom þangað Björn nokkur Guðnason og var þar til ársins 1898. Hann hefir sennilega verið seinasti stöðvarstjóri í Hólmi. Seinasti maður, sem þar bjó, hét Elís Pétursson, og var hann þar aðeins árið. Síðan fara engar sögur af stöðinni, og munu húsin hafa verið rifin um aldamót.
[FERLIR barst síðar eftirfarandi tölvupóstur frá Ferne Gudnason, Mirror, Alberta, Canada: “Thank you for the Information on FERLIR about Hólmabúð which mentions my great grandfather, Bjorn Gudnason who was born in 1834 and moved to Canada in August of 1900 and then returned to Iceland in 1916 and died at Narfakot in December 1916. He is buried at Kalfatjornkirkja.
I have been to  Hólmabúð   twice with Viktor Gudmundson from Vogar as a guide.  It is very emotional to stand on the land where one’s ancestors worked and lived. – Thank you.“]

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Á undirlendinu með fram Stapanum eru rústir af tveimur býlum, sem upphaflega voru þurrabúðir, en urðu að grasbýlum. Annað þeirra hét Brekka. Þetta býli reisti Guðmundur Eysteinsson, er hann fór frá Hólmabúðum 1848, og bjó hann þar fram til 1861. Síðan eru þar nokkrir ábúendur skamma hríð, en 1869 flyst þangað Guðmundur Jónsson og bjó þar í full 30 ár og hafði oft húsmennskufólk á vegum sínum. Árið 1899 koma þangað hjónin Pétur Jónsson og Guðlaug Andrésdóttir ásamt sex uppkomnum börnum sínum. Pétur bjó þarna til dauðadags 1916, og var þar þá oft mannmargt. Síðan bjó ekkja hans þar eitt ár, en þá tók við búinu tengdasonur hennar, Magnús Eyjólfsson, og bjó þar fram um 1930, en hafði þó býlið undir miklu lengur. Á Brekku stendur enn stofuveggurinn, hlaðinn forkunnarvel úr grjóti.

Stapakot

Stapabúð.

Kippkomi utar eru rústir hins býlisins, en það hét Stapabúð. Það reisti fyrst Jóhannes nokkur Guðmundsson 1872 og bjó þar tvö ár. Næsti ábúandi, Pétur Andrésson, bjó þar þrjú ár. Þá fluttist þangað ekkja, Herdís Hannesdóttir, ásamt 4 börnum sínum og bjó þar til 1885. Seinustu árin bjó þar á móti henni tengdasonur hennar, Eiríkur Eiríksson, sem var kvæntur Guðlaugu Helgadóttur. Eftir það koma þangað hjón, er bjuggu þar aðeins árið. En síðan flytjast þangað Jón Jónsson og Kristín Illugadóttir og búa þar til ársins 1896. Þegar þau fluttust þaðan, lagðist Stapabúð í eyði, en bóndinn á Brekku mun hafa nytjað tún það, sem þar hafði verið ræktað og mun hafa verið um kýrfóðursvöllur. Á Stapabúð er járnþak baðstofunnar enn uppi hangandi. Hér mótar fyrir gömlum grjótgörðum, og má vera, að sumir af þeim hafi verið gerðir til að þurrka á þeim skreið, því að útræði var hér og á Brekku áður en býlin komu. Hjá Stapabúð eru einnig rústir af saltfiskbyrgjum, en þau hafa ekki verið gerð fyrr en farið var að salta fisk, og saltfiskverkun hófst ekki hér við Faxaflóa fyrr en á árunum 1820—1840. Enn utar með Stapanum eru hinar svonefndu Kerlingabúðir. Þar hefir aldrei verið neitt býli, heldur aðeins sjóbúðir og sést nú lítið af þeim, því að sjór hefir brotið þær að mestu leyti.

Hólmabúð

Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Hérna undir Vogastapa, þar sem nú eru aðeins gamlar rústir, hefir sjálfsagt verið mikil verstöð fyrrum, jafnvel allt frá Hrolleifs dögum, því að hér hefir hagað enn betur til um sjósókn heldur en á Gufuskálum, þar sem Steinunn gamla ákvað að vera skyldi vermannastöð frá Hólmi í Leiru. Vermenn hafa átt hér búðir öldum saman, þó að þeirra sjáist nú engar minjar. Sumar hefir sjórinn tekið, en aðrar hafa breyst með tímanum °g grjótið úr þeim notað í nýjar byggingar. Hér hafa verið góðir lendingarstaðir, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, og sjaldan brást afli undir Stapanum. Eftir að fyrstu, litlu vélbátarnir komu, var gott vetrarlægi fyrir þá innan við Hólminn. En þegar stóru vélbátarnir komu, þá var þar ekki lengur griðastaður, og þá varð að gera höfn og hafnargarð.
Útgerðarhættir breytast og veiðiskapur breytist. Eitt er víst, að róðrarbátaútgerð hefst ekki aftur, og þess vegna eru nú gömlu varirnar og lendingamar til einskis nýtar. En staðhættir breytast ekki að sama skapi, og enn liggur Vogavík vel við útgerð. Sú útgerð verður mjög breytt frá því sem áður var, og jafnvel frá því sem nú er. Og þá minnist ég fyrsta mannsins, sem hafði hug á því að veiða síld í Faxaflóa til söltunar. Hann átti heima hér í Vogunum og var þarna langt á undan sínum tíma. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum, að augu manna hafa opnast fyrir því, að hægt muni að stunda síldveiðar með góðum árangri hér í flóanum. Þar hefir Haraldur Böðvarsson verið brautryðjandi, og get ég ekki stillt mig um að taka hér upp það, sem eftir honum var haft á sjötugsafmæli hans: „Faxasíldin er gullnáma, sem enn hefir ekki verið unnin, nema að nokkru leyti, en enginn vafi er á því, að hún verður drjúg tekjulind fyrir þjóðarbúskapinn í náinni framtíð. Síldina er líklega hægt að veiða flesta mánuði ársins.”
Ég held, að útgerðin í Vogunum eigi eftir að breytast bráðlega, að þar sé ný aldahvörf í aðsigi. Ég held, að Voganir eigi eftir að verða að síldarbæ — stórum síldarbæ.”

Heimild:
-Árni Óla – Strönd og Vogar, úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarssonar, Gömul veiðistöð, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1961, bls. 152-159.

Hólmabúð

Pramminn innan við Hólmabúð. Drónamynd Elg.

Dýrafjörður

Í riti LbhÍ (Landbúnaðarháskóla Íslands) nr. 131 fjallar Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, um sel við Dýrafjörð. Verulega fróðlegt er að bera skrif hans saman við fyrirliggjandi þekkingu FERLIRs á seljum og selstöðum á Reykjanesskaganum; hugtök, vinnubrögð, húsakostur og nýting virðist á báðum svæðum hafa verið með líkum hætti. Í ritgerðinni er samansafn gagnlegra heimilda almennt um sel fyrrum. Þrátt fyrir orðaskrúð fræðimannsins, sem skiptir í stóra samhenginu litlu máli, er, það sem skiptir öllu meira máli, að í ritgerðinni að finna upplýsingar manns er hafði a.m.k. fyrir því í framhaldinu að leita uppi minjarnar á vettvangi og bæði heimfæra þær upp á heimildirnar og lýsa þeim með hliðsjón af sögulegum og landfræðilegum aðstæðum. Þær eiga jafnt um fáu selstöðurnar við Dýrafjörð og þær u.þ.b. 400 er finna má á Reykjanesskaganum.

Dýrafjörður

Forsíða ritgerðarinnar um sel við Dýrafjörð eftir Bjarna Guðmumdsson.

“En frammi á fjöllum háum,
fjarri sævi bláum,
sefur gamalt sel.” – Guðmundur Böðvarsson

Hvað er sel?

Dýrafjörður

Það er viðeigandi að byrja með nokkur hugtök og skilgreiningar á þeim. Styðjast má við Íslenska orðabók. Samkvæmt henni er sel útihús í högum langt frá bæjum þar sem búpeningur er látinn ganga á sumrum. Selstaða er það að hafa búpening í seli og selför ferð í sel en einnig sögulegur réttur jarðarábúanda til að hafa búpening í seli. Selland er land þar sem haft er í seli og selhöfn beitarland sem seli tilheyrir. Þá má nefna þótt ekki komi það við sögu fyrr en síðar að búsgagnið selskrína er ílát sem mjólk var hleypt í skyr, hæfilega stórt til að flytja skyrið heim úr seli. Og hugtökin eru fleiri. Hér munu orðin seljaþorp og seljaþyrping verða notuð um það þegar sel frá fleiri bæjum hafa verið sett á sama stað eða í nábýli. Með sínum hætti áréttar hinn ríkulegi orðaforði tengdur seljum mikilvægi búháttarins á ýmsum tímum þjóðarsögunnar.

DýrafjörðurLengst af skráðum tíma Íslandsbyggðar lifði þjóðin öðru fremur á kvikfjárrækt. Afurðir búfjárins, mjólk, ull og kjöt, voru ásamt fiskmeti þau verðmæti sem daglegt amstur fólks snerist um.
Kvikfjárræktin fólst einkum í nýtingu beitilanda og árstíðabundinni framleiðslu afurða. Landið með gróðri sínum var sú auðlind sem afkoma fólksins í veigamiklum atriðum byggðist á. Fornar hefðir og margvíslegar aðstæður í umhverfi og landslagi mótuðu kvikfjáræktina og þá verkhætti sem við hana var beitt. Einn hátturinn var sá að hafa hluta kvikfjárins í seli fjarri heimabýli. Í norður-evrópsku ljósi er það eldforn aðferð eins og síðar verður sagt frá en er aðferð sem fyrir all löngu var lögð af hérlendis. Enn má þó víða í úthaga ganga fram á minjar þessa búháttar þar sem greinilegar eru rústir gamalla selmannvirkja, rétt eins og Guðmundur Böðvarsson skáld segir í ljóðlínunum sem þessi kafli hófst á. Urmull örnefna vitnar líka um sel og seljabúskap en í þessu tvennu lifir ekki síst minningin um þennan þátt í sögu íslenskrar kvikfjárræktar.
„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“
Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum.
Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga.
Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi Mig dreymir við hrunið heiðarsel:

Mig dreymir við hrunið heiðarsel:
heyri ég söng gegnum opnar dyr,
laufþyt á auðum lágum mel?
Líf manns streymir fram, tíminn er kyr.
Allt sem var lifað og allt sem hvarf
er, það sem verður dvelur fjær
ónuminn heimur, hulið starf;
hús þessa dags stóð reist í gær.
Við göngum í dimmu við litföl log
í ljósi sem geymir um eilífð hvað
sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug
framhjá er enn á sama stað.

Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
DýrafjörðurSeljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu.
Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars Reinton skrifaði um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu, búhátt lagaðan að hinum ýmsu landsháttum og landkostum Noregs og á ýmsum tímum. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden).
Dýrafjörður
Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða.
Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.
Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða.
Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta. Cabouret benti á aðþað var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur-Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.
„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 1919 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.
Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum.
Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda, að: „The ultimate source of wealth and power was pasture, and the correlation between cattle, good grazing, and chieftainship is clear both in the historical and archaeological record.“ Ekkert minna.
DýrafjörðurFornar lýsingar selja hérlendis, svo sem í Laxdæla sögu, selin frá Sælingsdalstungu í Hvammssveit og Vatnshorni í Skorradal, bera með sér að þau hafi verið allmikil mannvirki þótt ekki lægju fjarri heimabæjum. Í Sælingsdalstunguseli var til dæmis sagt vera margt manna er einnig starfaði að heyskap: Selin voru „tvau, svefnsel og búr“, segir í sögunni. Höfundur sögunnar notar þannig heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar.
Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.
Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:
319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.
Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.
320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók. Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .
330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.
146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum…
147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.
177: Engi maður skal fyrir öðrum brenna með heiftugri hendi hús né heyhlaða, sætur, búð né skip. En ef hann brennir og verður að því kunnur og sannur, þá er [178] hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur, og hefir fyrirgert hverjum peningi fjár síns í landi og lausum eyri…
186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.
En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.
186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]
186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] … Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.
Dýrafjörður198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er úr búfjárgangi . . . Nú brennir maður sætur í almenningi, veiðibúð eður andvirki það sem þar er, þá sekist sá er það gerir þrimur mörkum við konung en tvígildi þeim er hann brenndi fyrir það sama aftur jafngott . . .
282: Ef maður brennir hús eður hey, sætur eður búð eður skip heiftugri hendi, þá er hann útlægur og óheilagur og heitir brennuvargur. . . .
284: Nú rænir maður mann sæturgötu eður rekstri, sekur hálfri mörk við konung fyrir vegarán.
284: Ef sætur eru ger í afrétt, þá sem eigi ná lög til, þá eru þau óheilög við broti og bæti skaða og landnám með hverj-[285]um er í þeim afrétt á.
Ákvæðin, sem eru áþekk í lögbókunum tveimur, bera með sér að réttur til selfarar hefur verið afar ríkur og sýnilega tengdur hefðum með fornar rætur.
Ekki mátti setja sel í afrétt eða almenning. Ákvæði Jónsbókar [186] fela í sér eiginlega skyldu til selfarar [. . . Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri. . . Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð]. Sýnilega er gert ráð fyrir að heimahögum sé hlíft í allt að tíu vikur um aðalsprettu- og heyskapartímann; frá Jónsmessu og fram til Höfuðdags. Óneitanlega er Jónsbókarhugtakið grasrán og viðurlög við grasráni í þessu sambandi athyglisvert. Grasið var auðlind sem ekki varð bæði notuð til beitar og slægna. Í sömu átt benda ákvæðin um rán selgötu – ef mönnum var meinað að koma búpeningi sínum í sel/sætur.
Þá eru líka athyglisverð þau ströngu viðurlög sem lágu við spjöllum á selmannvirkjum.
Ákvæði lagabálkanna tveggja sýna með skýrum hætti að löggjafi þessara tíma hefur haft þroskaðan skilning á nýtingu landsins til framleiðslu nauðsynlegra afurða og þýðingu hennar fyrir afkomu þegnanna. Þetta eru ekki einustu dæmin um skilning hinna fornu löggjafa á samspili náttúrulegrar vistar, þarfa fjölskyldnanna og sjálfbæris búhátta þeirra. Athyglisvert er að í Grágás er jafnan talað um sel en Jónsbók um sætur eða setur þótt átt sé við sama fyrirbrigðið.
Aldursmunur er á lögbókunum og hefur þegar verið bent á að hann skýri hugtakamuninn sem að sínum hluta eigi rætur í þróun búháttarins á tímabilinu og þá sérstaklega þróunina er varð í Vestur-Noregi.

Hvað skyldi rannsakað?
Dýrafjörður
Til seljanna gekk ég einkum með búfræðileg sjónarmið í huga og reyndi að horfa samtímis til sem flestra þátta þeirrar framfærsluleiðar og landnýtingar með kvikfjárrækt er seljabúskapur á hinu afmarkaða rannsóknasvæði var.
Að öðru leyti fólst ásetningur minn í eftirtöldum áformum:
1. að kanna ritaðar og munnlegar heimildir um selin á rannsóknasvæðinu og notkun þeirra, 2. að kanna seljarústir á svæðinu og umhverfi þeirra, m. a. með hliðsjón af staðháttum og beitargildi landsins,
3. að athuga seljabúskapinn með hliðsjón af landkostum og landnýtingu á jörðunum. að athuga seljabúskapinn og þróun hans með hliðsjón af ástandi og breytingum á öðrum búnaðar- og samfélagsháttum á svæðinu.
Síðan skyldi leitast við setja niðurstöður rannsókninnar í samhengi við niðurstöður hliðstæðra rannsókna á öðrum stöðum, innlendum og erlendum, og þær almennu kenningar, sem til hafa orðið á grundvelli þeirra, um þennan þátt kvikfjárræktar hér á norðurslóðum.
Þegar gengið var á seljarústirnar voru þær kannaðar, einkum með hliðsjón af staðsetningu, skipulagi og stærð. Gerðar voru yfirborðsmælingar á þeim til uppdráttar og minjar hnitsettar þegar sú tækni varð mér tiltæk. Hins vegar var hvergi grafið í rústir eða minjum undir sverði hreyft enda er það viðfangsefni á hendi fólks með aðra sérþekkingu en ég ræð yfir. Tekinn skal vari fyrir því að yfirborðsathuganir sýni raunverulega gerð mannvirkis sem undir sverði er. Jarðrask, gróður og langvarandi traðk beitarpenings, en seljatóftir hafa sakir grósku löngum dregið hann að sér, getur hafa raskað yfirborðsmyndinni að einhverju marki. Næsta stig rannsóknarinnar gæti því orðið að athuga lögun og gerð áhugaverðustu rústanna nákvæmar, t.d. með jarðsjá eða uppgreftri.
Mjög var misjafnt hve glöggar tóftirnar á selstöðunum voru. Yfirborðsmælingarnar ættu samt að gefa viðunandi og samanburðarhæfar grunnmyndir af rústum flestra selmannvirkjanna. Fullnaðarvitneskja fæst þó aðeins með uppgreftri. Staðhættir voru kannaðir svo sem landslag, gróðurfar og umhverfi hinna einstöku selja. Þá voru teknar ljósmyndir af mælistöðum og svæðum.

Hvar stóðu selin?
Dýrafjörður
Þótt ekki hafi verið gerð nákvæm gróðurgreining á landinu virðist ekki vera um umtalsverðan mun á gróðurtegundum selhaga og heimalanda. Ég get mér þess til að munurinn sé fremur þroskamunur gróðurs tengdur hæð yfir sjó og snjóalögum, eins og þegar hefur verið nefnt: að seinna hafi sprottið frammi á sellöndunum og beitargróður því yngri og næringarríkari en gróður heimalanda þegar fram á selstöðutímann kom. Þar var einnig átt við landrýmið sem heima við var víða af skornum skammti.
DýrafjörðurSú fyrsta og helsta nytsemd af selverum málnytupenings á sumardag og sérlegasti tilgangur þeirra, sem þær brúka, er, að hafa því meiri mjólk og kost af honum sem selstöðurnar eru tíðast betri heimahögunum“, skrifaði sr. Guðlaugur prófastur Sveinsson í Vatnsfirði árið 1786. Hann var einn helsti talsmaður seljabúskapar á endurreisnarárum íslenskra atvinnuhátta á ofanverðri átjándu öld. Og presturinn rakti dæmi um það hvernig landgæðin gátu endurspeglast í nyt búpeningsins:
“Eg hefir sjálfr verit á þeirri jørd í 14 ár [hér mun átt við Kirkjuból í Langadal þar sem sr. Guðlaugur bjó árin 1766-1780], hvar búsmali giørdi þridiúngi minna gagn heima enn í selinu, hvar eg árliga lét mínum peníngi hallda, alloptazt frá Fardøgum til Høfuddags; en viza og heyrdi adra segia, sem þar áðr búit høfdu, at eigi hefdu þeir meir enn frekliga helmíngs gagn af peníngi sínum haft, þá honum gátu eigi í sel komit.”
– „á hvøriu landbúenda velgengni ecki sízt ríðr, sem hér má þarfnaz miólkur, smiørs, skyrs, sýru, feitara sláturs og fleira“ – svo aftur sé gripið til orða sr. Guðlaugs í Vatnsfirði.
Ekki er marktækur munur á meðalvegalengd frá bæ að seli á milli sveitanna, metinni í áætluðum gangtíma; í Þingeyrarhreppi er hún 40 mínútur að meðaltali en 8 mínútum lengri í Mýrahreppi; staðalfrávikin eru svipuð, um 20 mínútur. Skemmst hefur gangan verið 15 mín en lengst um 90 mín, bil hin sömu í báðum sveitum.

Lega seljanna – liður í skipulegri nýtingu landkosta?
Dýrafjörður
Þegar skoðuð er lega selstaðnanna í landi hverrar jarðar virðist koma fram regla um nýtingu gróðurlendis jarðarinnar.
Ekki er hægt að taka fyrir að einstakar tóftir séu frá mismunandi tíma. Á nokkrum seljanna mátti bæði sjá óljósar minjar eldri mannvirkja sem og sýnileg merki um að byggt hafði verið á grunni eldri mannvirkja. Má taka þetta sem merki um fleiri tímaskeið seljasögunnar þar sem menn nýttu augljóslega hleðsluefni úr eldri mannvirkjum á selstöðunum til þess að endurbyggja mannvirkin að þörfum hvers tíma. Það hefur líka verið bent á að búhátturinn hafi ekki verið samfelldur; að hann hafi legið niðri um lengri eða skemmri tíma en síðan tekinn upp að nýju.
Mörg selin liggja þannig að auðvelt hefur verið að sjá til beitilandsins sem væntanlega hefur auðveldað smalanum að líta eftir hjörð sinni, svo hann þyrfti ekki að hnappsetja ærnar „því þá datt úr þeim nytin.“
Við mörg seljanna eru landkostir þannig að ekki sýnist hafa verið auðvelt að stinga eða rista torf í veggi og á þök. Af stærð og fyrirferð tófta er þó ljóst að á mörgum seljanna hefur gríðarlega mikil vinna farið í aðdrætti efnis og veggjahleðslu. Það hefur verið leiguliðum ærin fyrirhöfn að halda mannvirkjunum við svo sem leiguliðum bar að gera – auk viðhalds annarra jarðarhúsa. Stærstu tóftirnar á seljunum gefa í engu eftir tóftum margra jarðarhúsa að stærð. Óneitanlega segir það einnig sína hljóðu sögu um mikilvægi selstaðnanna. Flestar voru seljatóftirnar orðnar það máðar að fátt var ráðið um húsagerð. Á að minnsta kosti tveimur seltóftum mátti þó enn sjá allglögg þakummerki. Ætla má að það sé á þeim sem hvað síðast voru í notkun. Fátt verður annars fullyrt um gerð selhúsanna. Vegna takmarkaðs notkunartíma á hverju ári og það hlýjasta tíma þess er freistandi að geta sér þess til að húsagerðin hafi verið einföld.

Stærð og gerð selhúsanna
Dýrafjörður
Þorvaldur Thoroddsen lýsti algengri húsaskipan íslensku seljanna þannig: Voru selhúsin vanalega þrjú, íveruhús eða svefnsel, eldhús og búr, og mun sá húsafjöldi hafa haldist síðan í fornöld, þó sum selin bæði fyrr og síðar hafi verið fátæklegri.
Einföldust voru selin þegar þau voru hólfuð í tvent. Voru herbergin kölluð útsel og innsel. Í útselinu sem var framar, og maður kom fyrst inn í, var öll eldamennska, en í innselinu svaf fólkið og þar var maturinn geymdur. Í innselið var gengið úr útselinu, en aldrei utan frá. Hjá þeim sem betur máttu sín voru selin í þrem herbergjum. Þá var eldað í miðherberginu, en fólkið svaf í öðru hinna. Vanalega voru tvær stúlkur í selinu og smali. Oft var húsmóðirin sjálf í selinu. Öll sel voru bygð úr torfi og grjóti og óþiljuð.
Sé litið yfir uppdrætti seljanna, er vandséð að eitt form öðrum fremur móti skipulag selhúsanna. Frekast er það kvíin sem tengir selstöðurnar saman.
Frásögn Þorvaldar Thoroddsen um gerð selhúsa má skilja svo að um aðskilin mannvirki hafi verið að ræða. Hagkvæmara gat verið að hafa húsin öll samveggja og jafnvel undir sömu þekju til þess að spara efni og vinnu. Nokkrar seljagrunnmyndanna úr Dýrafirði sýna eimitt slíkt form: Tvær til þrjár tóftir hlaðnar í samstæðu. Telja má víst að þar hafi vist vinnufólks verið samfelld um seljatímann og þá við vinnslu mjólkurinnar og eftir aðstæðum önnur verk, svo sem heyskap. Stærð mannvirkjanna ætti að endurspegla umfang starfseminnar á selinu, bæði í gripafjölda og nauðsynlegum mannafla.
Mjaltakvíar voru sýnilegar á þorra selstaðnanna: “Allar höfðu þær mjög svipað form; aflangar og mjög áþekkar að breidd – um það bil 1,9-2,0 m (sem er nálægt 3 álnum). Hin fasta breidd gerði það að verkum að ærnar röðuðu sér jafnan upp þannig að auðvelt var að mjólka þær. Lengd kvíanna var hins vegar mismunandi en af henni má áætla þann fjölda áa sem rúmast gat í hverri þeirra. Þétt saman má gera ráð fyrir að þrjár afteknar (rúnar) mjólkurær komist á lengdarmetrann og örugglega fimm ær á hverja tvo metra.”

Hvað segja örnefni um selin og selstöðurnar?
Dýrafjörður
„Örnefnin eru minjar um mannlega starfsemi á liðnum tímum. Þau verða aðeins til þar, sem menn hafast eitthvað að“, skrifaði Magnus Olsen.
Fjöldi seljaörnefna, sem tengd eru stöðum og svæðum í nágrenni seljanna, má ætla að geti verið nokkur mælikvarði á það hversu gróinn og umfangsmikill búhátturinn hefur verið á hverri jörð. Þar sem langt er síðan hátturinn var lagður af eða lítið fór fyrir honum má ætla að seljaörnefnin hafi horfið úr munni fólks og/eða að forsenda hafi ekki verið fyrir myndun þeirra. Vissulega getur samfella ábúðar á einstökum jörðum hafa haft áhrif á það hversu vel örnefni bárust á milli ábúenda og kynslóða. Nábýli og mikil umferð fólks um landið vegna nýtingar þess ætti þó að hafa ýtt undir góða varðveislu örnefnanna.
Byggt á örnefnaskrám jarðanna reyndust 2,4% allra örnefna á jörðunum tengjast seli.

En hvað má svo lesa úr örnefnum sjálfum?
Dýrafjörður
Seljaörnefnin í Dýrafirði virðast, rétt eins og í flestum öðrum héruðum, einkum vera tvenns konar: Annars vegar eru það sérstök heiti seljanna sjálfra, sem oftast hafa viðkomandi bæjarnafn að forlið, t. d. Hólasel, Sandasel, Botnssel og Mýrasel. Það geta einnig verið nöfn til aðgreiningar fleiri selja frá sama bæ, sbr. Fornasel, Nýjasel, Gamlasel, Heimrasel, Fremrasel. Hins vegar eru það örnefni staða og svæða í nágrenni selstaðnanna sem einkum hafa verið notuð til staðsetningar í samræðum fólks um land og umhverfi, til dæmis Seljalækur, Seljalágar, Selbali og Seljahvilft.
Úr flokki seljaheitanna virðist einkum mega lesa tvennt: hugsanlegan aldursmun seljanna og staðarmun.
Sel nágrannajarða voru gjarnan sett þannig að stutt væri á milli þeirra.
Það virðist vera einkenni hinna „gömlu“ selja að þau liggja stök í landi viðkomandi jarða og virðast því ekki vitna um seljaþyrpingar. Einhverjar breytingar búhátta eða félagsgerðar virðast hafa orðið sem leiddu til þess að „nýju“ seljunum var valinn annar staður en hinn „forni“. Sérkenni sýnilegra minja fornuseljanna (stærð og lega) gætu bent til þess að þau séu frá tíma stærri og fjölmennari heimila – hugsanlega með rætur allt til landnáms – en að með fjölgandi heimiliseiningum og lækkandi tölu heimilismanna hafi selmannvirkjum nágrannajarða verið þjappað meira saman til samvinnu og selskapar. Vel þekkt er að örnefni benda til sérstakra gæða eða eiginleika landsins.

Niðurlag
Dýrafjörður
Niðurstöður seljaathugann falla hvað snertir nýtingu landsins saman við niðurstöður rannsókna á norrænum seljabúskap og ríma við eldri heimildir um hann. Þótt talið sé að íslenski seljabúskapurinn eigi sér norrænar rætur er ljóst að hann hefur verið lagaður að staðbundnum aðstæðum, svo sem landslagi, eins og fyrri rannsakendur íslenskra selja hafa raunar bent á.
Meðal síðustu selja á Íslandi var selið að Hrauni í Skálavík sem nýtt var sumurin 1952-1954. [Á Reykjanesskaganum lagðist selsbúkapurinn af um 1870.] Það var vinnan sem á hverjum tíma var sá þátturinn er helst takmarkaði rekstur seljanna: Hún var mikil og ekki eftirsóknarverð, sennilega sakir aðstöðu, aðbúnaðar og fásinnis.
Á vertíðum annarra tíma ársins, einkum vor og haust, fóru menn með hliðstæðum hætti til fiskivera sinna. Markmið beggja ferðanna voru hin sömu: Að afla próteins og feitmetis til eigin viðurværis en einnig sem gjaldmiðla til leigugreiðslna og þeirra takmörkuðu viðskipta er stunduð voru. Í seljunum stóð ríki kvenna. Var það ef til vill eitt form þeirrar tíðar er markaði (annabundið) frelsi og jafnrétti kynjanna? Og þá má líka spyrja hvort aflögn seljabúskaparins hafi haft sambærileg áhrif á afkomugrundvöll heimilanna og hvarf þeirra frá notkun verstöðva til einhliða heimræðis hefði haft? Að þeirri spurningu kom þó ekki því þörfin fyrir selför og sauðamjaltir þvarr með gerbreyttum þjóðfélagsháttum.

Heimild:
-Rit LbhÍ r. 131, Sel og selstöður við Dýrafjörð, Bjarni Guðmundsson, prófessor emeritus, 2020, 73 bls.
-http://www.lbhi.is/sites/lbhi.is/files/gogn/vidhengi/rannsoknur/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_loka_sm.pdf
Dýrafjörður

Jarðskjálfti

Stærsti jarðskjálfti á sögulegum tíma á Íslandi er gjarnan talinn vera skjálftinn á Suðurlandi 14. ágúst 1784. Stærð hans hefur verið metin 7,1. Þessi stærð er að sjálfsögðu ekki fengin með mælingum enda komu skjálftamælar ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld síðar. Stærðin er fengin með því að bera áhrif skjálftans saman við áhrif annarra skjálfta á sama svæði sem mælingar eru til á. Það er einkum jarðskjálftinn á Rangárvöllum árið 1912 sem hefur verið notaður í þessum tilgangi. Hann mældist 7 stig að stærð og áhrifasvæði hans var nokkru minna en skjálftans 1784. Ætla má að byggingar hafi verið sambærilegar á Suðurlandi í báðum skjálftunum.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Skjálftinn 1784 átti upptök í Holtum. Þar varð tjónið mest og í nágrenni Eystra-Gíslholtsvatns má finna sprungur sem telja má að hafi orðið til í upptökum skjálftans. Finna má vísbendingar um þetta upptakamisgengi til norðurs og teygir það sig í átt til Skálholts. Þar varð einmitt tilfinnanlegt tjón í skjálftanum. Varð það mönnum tilefni til vangnavelta um að flytja biskupsstólinn og Skálholtsskóla til Reykjavíkur.

Stærstu skjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, fyrrnefndur skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga

Jarðskjálftar

Jarðskálftabelti landsins.

Í kjölfar atburða á Reykjanesskaga hefur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, tekið saman yfirlit yfir jarðskjálftavirkni á svæðinu og byggir þar á nýlegri grein Sveinbjörns Björnssonar o.fl. höfunda.

Að sögn Páls byggja gögn fyrir árið 1900 á samantekt Þorvaldar Thoroddsen, meðan skýrsla Kjartans Ottóssonar er helsta heimildin fyrir tímabilið 1900-1930 og skýrslur Eysteins Tryggvasonar fyrir áratugina 1930-1960. „Frá 1960 er stuðst við lista frá International Seismological Centre, Veðurstofu Íslands og Sveinbirni Björnssyni o.fl. Eftir að mælitæki koma til sögunnar eru skjálftar á listanum einungis tilgreindir ef stærðin er 5 eða meira, eða ef þeir ollu tjóni, tengdust sprunguhreyfingum eða breytingum á hveravirkni.“

Sögulegt yfirlit

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

1151: „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

1211: „Eldur kom upp úr sjó fyrir utan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hina nýju, en hinar horfnar er alla æfi höfðu staðið. Þá varð landskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu og létu margir menn líf sitt. … og féllu ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða.“

1240: „Landskjálftar miklir fyrir sunnan land. Sól rauð. Eldur fyrir Reykjanesi.“ Þetta er talið vera síðasta eldgosið í hviðu slíkra atburða á Reykjanesskaga. Hviðan er talin hafa byrjað stuttu eftir 870 AD og voru flest gosin hraungos (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson, 2013).

1724: Jarðskjálfti í ágústmánuði. Hrapaði bærinn í Herdísarvík og maður fórst við sölvatekju undir Krýsuvíkurbjargi.

1754: Jarðskjálfti í Krýsuvík, og kom þar upp hver, 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.

1785-1886: Jarðskjálftar fundust mörgum sinnum í Reykjavík og nágrenni, en ekki er getið um tjón. Sterkustu skjálftarnir voru 1868.

1879: „Allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar, harðastir voru þeir í nánd við Krýsuvík, sterk baðstofa á Vigdísarvöllum féll og í Nýjabæ við Krýsuvík flýði fólk úr húsum. Um sama leyti hófst eldgos á mararbotni fyrir utan Reykjanes nærri Geirfuglaskeri.“

Jarðskjálftar

Nýleg jarðskálftahrina á Reykjanesskaga.

1887: Jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanes og fundust margir kippir um Suðvesturland. Valahnúkur, sem Reykjanesviti stóð á, klofnaði og féllu úr honum stykki. Leirhverinn Gunna nærri Reykjanesvita breyttist töluvert.

1889: Sterkur jarðskjálfti olli minni háttar tjóni í Reykjavík og nærliggjandi byggðum. Nokkur hús hrundu á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.

1899: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanes og varð tjón á vitanum. Við Gunnuhver opnaðist sprunga og breytingar urðu á hvernum.

1900-1910: Vægir skjálftar fundust oft við Reykjanesvita á þessum árum. Umtalsvert tjón varð í janúar 1905 á Litla Nýjabæ, Vigdísarvöllum og Ísólfsskála.

1919: Reykjanesviti skemmdist í jarðskjálfta sem fannst víða á Reykjanesskaga. Nýr hver myndaðist á Reykjanesi.

1920: Skjálfti varð 14. maí sem líklega átti upptök í Krýsuvík, fannst í Reykjavík. Mældist 5,2 að stærð.

1924: Sterkur jarðskjálfti varð 4. september í Krýsuvík, fannst víða. Nýr hver, Austurengjahver, myndaðist, sprungur opnuðust og grjót hrundi úr fjöllum. Stærðin mældist 5,1.

1924: Í desember varð áköf hrina á Reykjanesi sem olli minni háttar tjóni á vitanum. Stærsti skjálftinn metinn 4,7 stig.

1925-1928: Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi. Vitinn skemmdist 25. október 1926. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.

1929: Hinn 23. júlí varð stærsti skjálfti sem vitað er að hafi orðið á Reykjanesskaga. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi. Stærðin var 6, 3 og skjálftinn fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.

Jarðskjálftar

Vegsummerki eftir jarðskálfta.

1933: Skjálfti sem varð 10. júní fannst víða á Suðvesturlandi. Upptökin voru líklega suður af Keili og vestan Núpshlíðarháls. Rétt við Vigdísarvelli hrundi og mikið rót varð á yfirborði jarðar, sprungur og viðsnúnir steinar. Mælingar erlendis gáfu stærð skjálftans tæplega 6 stig.

1935: Skjálfti 9. október átti upptök á Hellisheiði. Minni háttar tjón varð, en grjót hrundi úr fjöllum og vörður á Hellisheiði féllu á nokkru svæði. Mælingar gefa stærð um 6 stig.

1952: Skjálfti að stærð 5,2 átti upptök nærri Kleifarvatni. Hann fannst víða en olli engu tjóni.

Jarðskálfti

Ummerki jarðskálfta.

1955: Skjálfti ad stærð 5,5, sem varð 1. apríl, átti upptök austarlega á Hellisheiði. Hann fannst víða en olli litlu tjóni.

1967: Kröftug skjálftahrina átti upptök á Reykjanesi 28.-30. september. Miklar breytingar urðu á jarðhitasvæðinu þar og sprungur mynduðust. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,9 en alls urðu 14 skjálftar af stærðinni 4,0 og stærri. Skjálftarnir fundust víða en tjón var óverulegt.

1968: Jarðskjálfti af stærðinni 6,0 varð 5. desember og átti hann upptök í Brennisteinsfjöllum, líklega á Hvalhnúksmisgenginu, líkt og skjálftinn 1929. Brotlausn hans sýnir að hann varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu. Skjálftinn fannst víða og olli minniháttar tjóni í Reykjavík.

Jarðskálfti

Afleiðingar jarðskálfta innanhúss.

1973: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskaga 15.-17. september. Fimm skjálftar voru stærri en 4, þar af þrír stærri en 5, sá stærsti 5,6. Virknin byrjaði í Móhálsadal, austan Djúpavatns og færðist síðan til vesturs, allt vestur að Eldvörpum. Stærsti skjálftinn varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu.

1974: Jarðskjálftahrina varð 8. desember skammt undan ströndinni á Reykjanesi. Fjórir kippir voru á stærðarbilinu 4,0-4,5.

2000: Jarðskjálftinn 17. júní á Suðurlandi hleypti af stað röð skjálfta á flekaskilunum sem liggja um Reykjanesskagann, allt vestur að Núpshlíðarhálsi. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti (5,9) átti upptök undir Kleifarvatni. Vatnsborð Kleifarvatns féll um 4 metra á næstu vikum. Þá voru FERLIRsfélagar á göngu í Sveifluhálsi, en sakaði ekki.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

2003: Jarðskjálfti að stærð 5,0 varð 23. ágúst og átti upptök nálægt Krýsuvík. Honum fylgdu margir smærri eftirskjálftar sem röðuðu sér á N-S línu.

2013: Skjálfti að stærð 5,2 með upptök skammt austan Reykjaness varð 13. október. Ekkert tjón varð en sprungur sem hreyfðust á svæði austan jarðhitasvæðisins gáfu til kynna færslur á vensluðum sniðgengjum með stefnur í norður og aust-norð-austur.

Sjá meira um jarðskjálfta á Íslandi fyrrum.

Heimildir:

-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0skj%C3%A1lftar_%C3%A1_%C3%8Dslandi
-Eysteinn Tryggvason, 1978a. Jarðskjálftar á Íslandi 1930 – 1939. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-21, 92 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1978b. Jarðskjálftar á Íslandi 1940 – 1949. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-22, 51 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1979. Earthquakes in Iceland 1950 – 1959. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-79-06, 90 pp.
-International Seismological Centre, 2014.
-Kjartan Ottósson, 1980. Jarðskjálftar á Íslandi 1900 – 1929. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-80-05, 84 pp .
-Sveinbjörn Björnsson, Páll Einarsson, Helga Tulinius, Ásta Rut Hjartardóttir, 2018. Seismicity of the Reykjanes Peninsula 1971-1976. J. Volcanol. Geothermal Res., https://doi.org/10.1016/j.jvolgeores.2018.04.026.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1899. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 197 bls.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1905. Landskjálftar á Íslandi, II. Jarðskjálftar við Faxaflóa. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn. bls. 201-269.-
Þorvaldur Thoroddsen,1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane, Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Köbenhavn 1925, 18+458 p.
-https://jardvis.hi.is/sogulegt_yfirlit_um_jardskjalftavirkni_reykjanesskaga

Jarðskálftar

Yfirlit yfir styrk jarðskjálfta á Íslandi aftur til 1734.

Jarðskjálfti

Jarðskjálftar á Íslandi verða á brotabelti á flekaskilum. Tvö slík belti eru á landinu: Á Suðurlandi, frá Ölfusi til Landssveitar og á Norðurlandi, kennt við Tjörnes. Öflugustu jarðskjálftar á Íslandi eru um 7 að stærð og geta valdið töluverðu tjóni. Þeir eru tíðir undir brotabeltunum og undir megineldstöðvum.

Ebenezer Henderson

Bók Ebenezers Hendersons um ferðalag hans á Íslandi – útg. 1818.

Enskur ferðamaður var hér á landi í byrjun 19. aldar og skrifaði um ýmislegt áhugavert, sem hann bæði heyrði og bar augum. Skrif hans birtust í framhaldinu í bókinni “Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815″ eftir Ebenezer Henderson, London 1818. Á bls. 235-239 skrifar hann um jarðskjálfta  á Íslandi eftir að hafa fundið fyrir einum slíkum er hann var við Geysi í Haukadal í lok ferðar sinnar um landið.

“Fyrstu jarðskjálftarnir, sem vitað er um, urðu á árunum 1181 og 1812; en við vitum ekki um afleiðingar þeirra. Árið 1211 er fyrst getið um jarðhræringar í neðansjávareldfjalli nálægt Reykjanesi og fjöldi jarðskjálfta fylgdu í kjölfarið og nokkrir létust og hús víða um Ísland hrundur gjörsamlega til grunna. Á árunum 1260 og 1261 varð vart við harða skjálfta í Flatey á Breiðafirði. Árið 1294 skalf jörð í Rangárvallasýslu; Rangá breytti um farveg og margir bæir snerust á hvolf, og í átta daga urðu allir hverir hvítir sem mjólk. Árið 1300 gaus Hegla og miklar jarðhræringar fylgdu í kjölfarið á Suðurlandi og mötg hús hrundu. Skjálftahrina fygldi í kjölfarið átta árum síðar. Þá eyðilöguðust átján bæir og menn og skepnur dóu.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson fæddist 17. nóvember 1784 í litlum bæ í Dunfermline-héraði í Skotlandi og lést 17. maí 1858 skammt þar frá. Bók sem hann skrifaði um dvöl sína á Íslandi 1814-1815 er talin með merkari ferðabókum þar sem öllu er lýst mjög nákvæmlega, einkum jarðfræðitengdum fyrirbærum og hún er skrifuð í Reykjavík að stóru leyti.

Árið 1311 varð skelfilegur jarðskjálfti þar sem ekki færri en fimmtíu og einn bær hrundu og dró fyrir sólu þegar aska og sandur voru ýft upp af eldfjöllum svo ómögulegt var að ferðast frá einum hluta landsins til annars. Árið 1313 eyddust átján hús í miklum jarðskjálfta. Árið 1339 fundust nokkir skjálftar á Suðurlandi, útihýs hrundu og nautgripir lyftust frá jörðu, nokkur fjöll skriði, sprungur og hverir mynduðust. Árið 1370 hrundu tólf bæir í jarðskjálfta í Ölfusi.

Geysir

Mynd af Geysi í bók Ebenezers.

Á árunum 1390 og 1391 urðu fjöldi jarðskjálfta, einkum síðarnefnda árið; fjórtán bæir eyðilögðust í Grímsnesi, Flóa og Ölfusi og fólk grófst undir rústunum. Jörð breyttist; sjóðandi vatn spratt upp, og áhrifa skjálftans fannst alla leið upp á Holtavörðuheiði.
Árið 1552 urðu nokkrir stórir jarðskjálftar, en engar skemmdir urðu á mannvirkjum; og árið 1554 héldu skjáltarnir slíkt áfram að fólk dirfiðist ekki að vera innan dyra í húsum sínum heldur héldu til í tjöldum. Nokkrir jarðskjálftar urðu 1578; og árið 1597 olli skjálfti allmiklum skemmdum á bæjum í Ölfusi. Árið 1614 varð endurtekin skjálftahrina allt haustið og nokkrir bæri hrundu. Um veturinn 1633 eyddust bæri í Ölfusi og áhrifin voru svo mikil að í mörgum kirkjum varð engin þjónusta það sem eftir lifði vetri. Árin 1657 og 1661 urðu nokkuð harðir jarðskjálftar á mismunandi stöðum í Fljótshlíð, suðaustan Heklu, og nokkur hús jöfnuðust við jörðu.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Alvarlegastu jarðskjálftarnir fundust í Ölfusi og í Flóa 28. janúar, 1. apríl og þann 20. árið 1706. Ekki færri en tuttu og fjórir bæir eyðilögðust, fjölmargir urðu fyrir skemmdum og nautgripir drápust. Skjálftunum fylgdu aðrir stórir og smáir um vorið, og voru raktir til heklu og nágrennis.
Líkt og jarðhræringar í Skaptáreldum voru hinar hræðilegustu skráðum í annála Íslands, urðu jarðskjálftarnir sem 14. og 16. ágúst 1784 þeir afdrifaríkustu, sem orðið höfðu fyrir íbúa landsins. Þeir munu hafa orðið á svæði vestan Heklu og fundust um land allt. Í Snæfellssýslu og Ísafirði fundust þeir greinilega. Í Árnessýslu einni hrundu ekki færri en þrjú hundruð og sjötíu og tveir bæir; sextíu og níu gereyðilögðust. Fjöldi húsa er skemmdust í landinu urðu eitt þúsund fjögur hundruð og fimmtíu og níu. Nítján kirkjur skemmdust og fjórar algerlega.
Til viðbótar skemmdum á húsum spilltust hagar, ár breyttu um farvegi og mikil grjóthrun varð í hlíðum fjalla. Margir sjóðandi hverir hurfu og aðrir nýir spruttu upp. Við Geysi nálægt Haukadal birtust ekki ekki færri en þrjátíu og fimm nýir hverir á svæðinu.
Árið 1789 varð enn einn afdrifaríkur jarðskjálfti. Í fyrstu varði hann í u.þ.b. tíu mínútur, en varð síðan viðvarandi af og til það hluta sumarsins. Áhrif skjálftans urðu mest í kringum Þingvallavatn. Botn vatnsins sökk til norðausturs, víða flæddi yfir gamlar leiðir og til suðvesturs og þornaði vatnið upp á allt að fjóra faðma dýpi (haft eftir biskupi Finnssyni).
Árið 1808 reið harður jarðskjálfti yfir sem hafði áhrif á háhitasvæði landsins. Síðasti skjálftinn var í júni 1815, en hann var vægur og fannst einungis í norðurhluta landsins.”

Sjá meira um jarðskjálfta á Reykjanesskaga.

Heimild:
-Iceland; or the Journal of a Resicence in that Island, during the years 1814 and 1815 by Ebenezer Henderson, London 1818, bls. 235-239.

Ebenezer Henderson

Ebenezer Henderson var skoskur guðfræðingur og ritaði gagnmerka bók um ferðir sínar, land og þjóð. Bókinni fylgir kort af Íslandi, gert að fyrirsögn höfundarins af feðgunum Daniel og William Home Lizars. Undirstaðan eru kort af Knoff-gerð, sérstaklega þau sem Jón Eiríksson átti hlut að. Helsta nýmælið á kortinu er að búið er að kippa norðanverðum Vestfjörðum suður fyrir heimskautsbaug. Annars er það í svo litlum mælikvarða að lítið af athugunum Hendersons kemst til skila.

Straumur

Í bókinni “Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loft Guðmundsson er rætt við “Einbúann að Óttarstöðum” – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

“Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri. Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.
Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?
-Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.
-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?
-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég hel mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur. Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…
-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…”.

Heimild:
-“Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Strandarkirkja

Í bók Lofts Guðmundssonar “Á förnum vegi – rætt við samferðamenn” frá árinu 1966 er m.a. fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og styttuna “Landsýn”, sem nú stendur framan við Strandarkirkju í Selvogi:

Gunnfríður Jónsdóttir

Gunnfríður Jónsdóttir.

“Þrjár kirkjur eru kunnustar á hér á landi; tvær á biskupsstólunum fornu, sú þriðja í hálfeyddri byggð á suðurströndinni, við lága vík fyrir opnu hafi. Sú vík á sér fegurst nafn staða hérlendis, sú kirkja dýrlegasta frægð hérlendra guðshúsa – Strandarkirkja við Engilsvík í Selvogi.
Á hól við kirkjuna stendur höggmynd af konu með kross í hendi og horfir yfir víkina. Yfirlætislaust en þróttmikið og hugnæmt listaverk, sem á heima á þessum stað. Fjarri sé mér að reyna að geta þess til hvaða hugsun höfundurinn, Gunnfríður Jónsdóttir, leggi í þetta verk sitt. En þegar ég hef staðið þarna á hólnum og virt fyrir mér konuna með krossinn, finnst mér ósjálfrátt að hún bjóði öllum byrginn í hljóðri ró – briminu, veðrunum, auðninni og einmanaleikanum. En fyrst og fremst hef ég furðað mig á því, að það skuli ekki koma manni neitt á óvart að sjá grásteinskonuna með krossinn standa þarna, heldur sætta sig ósjálfrátt við þá tilfinningu, að hún hafi staðið þarna marga áratugi, kannski öldum saman. Nafnið, sem listakonan hefur valið myndinni, “Landsýn”, styrkir þá tilfinningu. Hún er sammrunnin umhverfinu og sögu þess. Og mér kemur því ekki á óvart svar Gunnfríðar, þegar ég spyr hana um tildrögin að því að hún gerði myndina og að myndin stendur þarna.

Landsýn

Landsýn

-Ég sá fyrst kirkjuna við hafið ofan af Selvogsheiði, og einmanaleiki hennar hafði á mig djúplæg áhrif. Næstu þrjár vikurnar ásótti mig stöðugt þessi sýn – einmanaleiki kirkujunnar við hafið. En hugmyndin að myndinni vaknaði ekki með mér fyrr en nokkru seinna – það var þessi þrúgandi einmanaleiki, sem mér hafði birst ofan af heiðinni, sem lá á mér eins og mara. Svo var það í nóvembermánuði, 1940. Systir mín hafði kroppið upp að Álafossi og ég var alein heima. Þegar hún kom aftur, sagði ég henni að ég hefði verið að vinna að lítilli frummynd á meðan hún var í burtu, sem stæði að einhverju leyti í tengslum við Strandarkirkju. “Jæja, ekkert er það!”, varð systur minni að orði, og svo var ekki frekar á það minnst um hríð.

Landsýn

Landsýn – skjöldur á styttunni.

Ég lauk við frummyndina, sem var tólf sentímetrar á hæð, setti hana undir eldavélina og sat svo við að sauma fram yfir nýár. Þegar kom fram í miðjan janúar, dró ég myndina fram undan eldavélinni og gerði aðra eftir henni, mun stærri. Og enn leið ár, þangað til ég tók rögg á mig og stækkaði hana enn, eins og hún er nú. Sú mynd var á sýningunni í skálanum 1943. Ekki hafði ég þá ákveðið henni neinn framtíðarstað, en einhvernveginn fannst mér að hún ætti að standa á ströndu úti við hafið; helst einhvers staðar á Suðurnesjum og ekki langt frá Strandarkirkju, því sagan um Engilsvík hafði verið mér í huga, þegar myndin varð til.
-Hvað skar svo úr um það, að myndin yrði höggvin í granít og valinn staður, þar sem hún stendur ný?

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – mynd Gunnfríðar.

-Það yrði oflangt mál að segja þá sögu alla. Er þar naut ég meðal annars skilnings og áhuga Guðmundar bónda í Nesi í Selvogi, þess fjölgáfaða mannkostamanns. Og Strandarkirkja leysir vanda sinn; þó að ýmsir erfiðleikar yrðu á framkvæmdum, rættist úr öllu og stundum á óvæntan hátt. Myndin var höggvin í granít í Noregi, og gekk allt samkvæmt áætlun – þangað til granítmyndin var komin hingað á hafnarbakkann og ég hélt að nú væri öllum hindrunum rutt úr vegi. Ekki aldeilis – það kom á daginn, að ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum innflutningi við samningu tollskrárinnar og nú lá myndin í fullt misseri á hafnarbakkanum og enginn þóttist kunna ráð eða eiga með að fella nokkrun úrskurð í því sambandi. Loks spurði ég viðkomandi valdhafa, hvort það væri þá ætlun þeirra að taka myndina eignarnámi. Þá loks mátti Strandarkirkja sín betur en ákvæðin, sem ekki höfðu verið sett í tollskrána.

Heimleið

Heimleið – stytta Gunnfríðar.

-En þá var komið fram á haust. Myndin hafði legið í kössum á hafnarbakkanum frá því í maí um vorið, og ég mátti ekki til þess hugsa, að hún lægi þar enn vetrarlangt. Hafði ég því samband við Selvogsbændur; vissi að mestu önnum þeirra var lokið í bili, en enginn þar hafði hins vegar tíma til neins þegar voraði. Ég spurði þá því hvort þeir vildu ekki vera mér hjálplegir við að koma myndinni upp, ef hún yrði flutt þangað suður eftir. Þeir tóku vel í það. Mér tókst að fá ágætan kranabílstjóra til að flytja myndina suður í Selvoginn – Sigurjón hét hann, prýðilegasti drengur – en við komum þangað ekki fyrr en klukkan sjö um kvöldið, og þá var eftir að taka myndina úr kössunum og koma henni á stallann, og það varð að gera strax, svo að kranabíllinn gæti haldið suður aftur.

Nema hvað myndin var komin upp klukkan níu og mátti ekki heldur tæpara standa, því að þá var komið myrkur. Þeir kunnu að taka til hendinni í þann tíð, Selvogsbændur. Sjálf var ég svo þarna í fimm daga og gekk frá þrepunum – við tíndum hellur í fjörunni og fluttum að í hestvagni og ýmsu var að sinna. Bændurnir reyndust mér einstaklega hjálplegir, boðnir og búnir til alls. Loks var settur hjúpur yfir myndina og hún látin bíða þess að hún yrði afhjúpuð að vori. Sú athöfn fór fram á annan í hvítasunnu, 1950, fjölsótt og var hin ánægjulegasta.

Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.
Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið vísar til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.
Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga.

Gunnfríður sýnir mér grein í hinu kunna tímariti “Scandinavian Review”, 1958, þar sem segir frá Strandarkirkju og “Landsýn”, og fylgir ágæt mynd þaðan, en höfundur fer miklum viðurkenningarorðum um listaverkið. Það leynir sér ekki að Gunnfríði þykir vænt um “Landsýn”. Hún hefur gert tvær aðrar stórar myndir í áþekkum stíl, “Landnámskonu” og “Biskup”, sem enn bíða þess að þeim verði valdir viðeigandi staðir. Loks eru það “Síldarstúlkurnar” – það listaverk væri vel til þess fallið að prýða umhverfið í einhverjum síldarbænum. Núverandi borgarstjóri lét era af þeim afsteypu í bronsi og gaf Stokkhólmsborg. Ein höggmynd eftir Gunnfríði stendur í Tjarnargarðinum, “Á heimleið”, stúlka, sem tyllt hefur sér niður til að varpa mæðinni, og starir fram undan sér eins og hún eigi enn langt heim. Loks hefur Gunnfríður gert “höfuð” af ýmsum nafnkunnum mönnum og konum og þótt vel takast”.

Heimild:
-Á förnum vegi – Loftur Guðmundsson – rætt við samferðamenn, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966 – “Frá Sæunnarstöðum í Selvoginn – rætt við Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara, – Landsýn, bls. 214-217.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

 

Þjóðminjasafnið

Samkvæmt fyrirliggjandi opinberum heimildum er Þjóðminjasafn Íslands miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Þjóðminjasafn

Í Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn. Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur.

Dómirkja

Dómkirkjan.

Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu.

Þjóðminjasafnið

Frá Þjóðminjasafninu.

Nú 70 árum síðar hefur margt gott verið gert, en því miður hefur einnig margt farið úrskeiðis í starfi Þjóðminjasafnsins. Frumkvöðlar safnsins voru áhugasamir um eflingu þess, en núverandi stjórnendur virðast næsta áhugalausir um starfsemina, einkum þjónustuna. Það er a.m.k. reynsla þeirra er til þess hafa þurft að leita. Beiðnum er jafnan svarað með vísan í útfyllingu rafrænna spurnarforma, síðan eru síðan ekki virtar viðlits. Ef eftir svarleysunum er leitað að ærnum tíma liðnum fær beiðandi alls kyns útúrsnúninga og óskiljanlegar afsakanir.

Að mati fulltrúa FERLIRs ætti ríkisvaldið með gildum rökum að skilgreina Þjóðminjasafnið upp á nýtt með áherslu þess sem safngrips í vörslu ríkisins fremur en nútíma þjónustustofnun – sem hún er bara alls ekki.

Dæmi: FERLIR leitaði til Þjóðminjavarðar fyrir nokkrum misserum að gefnu tilefni og óskaði eftir möguleika þess að fá “Hallgrímshelluna”, sem er í geymslum safnsins, aftur í vörðuna þaðan sem hún var fjarlægð á sínum tíma.  Eðlilegra væri að minjar, s.s. letursteinar, væru fremur varðveittir á upprunastað en í geymslum, sem nánasta engir hefðu aðgang að. Vörðurinn vísaði erindinu til starfsmanns. Hann upplýsti að það væri meginmarkmið stofnunarinnar að innkomnir hlutir færu þaðan aldrei aftur út.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Í  upphafi árs 2020 leitaði fulltrúi FERLIRs eftir því að fá að ljósmynda letursteininn í safninu með það fyrir augum að láta gera afsteypu af honum og koma henni síðan fyrir í framangreindri vörðu. Var bent á að fylla út formlega beiðini þessa efnis, sem og var gert. Fram kom að viðbrögð við slíkum beiðnum gæti tekið allt að þrjá mánuði, auk þess sem þrjá mánuði til viðbótar gæti tekið að afgreiða erindin. Þegar engin viðleytni til svara var að sjá eftir sex mánuði leitaði fulltrúinn viðbragða hjá stofnuninni. Svör starfsmannsins verða ekki birt hér, enda honum ekki til framdráttar. Ábending kom m.a. fram að ítreka þyrfti beiðnina því sú fyrri gæti hafa misfarist þar sem margir þyrftu að koma að afgreiðslunni.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Að tíu mánuðum liðum var enn og aftur spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um þann möguleika um að fá að koma í geymslurnar og taka myndirnar án aðkomu starfsfólks. Því var svarað að enginn mætti koma þangað inn vegna Covid-19. Spurði þá hvort starfsmaður safnsins gæti tekið myndirnar og sent beiðanda. Myndir bárust í framhaldinu með þeim orðum að “um svokallaðar vinnumyndir að ræða. Þær eru ekki ætlaðar til birtingar af nokkru tagi. Ef óskað er eftir einhvers konar birtingu af gripum í vörslu safnsins eru myndir teknar af ljósmyndara safnsins og kostnaður þá í samræmi við gjaldskrá myndasafnsins”. Þvílíkt rugl; áhugasamt fólk á sem sagt ekki, undantekningarlaust, möguleika á að fá myndir af gripum safnsins án milligöngu hirðljósmyndara þess með tilheyrandi kostnaði.
Fulltrúi FERLIRs sendi myndirnar til steinsmiðs í Keflavík með það fyrir augum að gera eftirmynd af hellunni og í framhaldinu verður henni vonandi komið fyrir í gömlu vörðunni við Kaupstaðagötuna milli Þórshafnar og Stafness norðan Ósa, áhugasömum vegfarendum til uppfræðslu og ánægju.

Sjá meira um “Hallgrímshelluna” HÉR, HÉR og HÉR.

Hallgrímshella

“Hallgrímshellan” skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins fyrir nokkrum árum. Mynd mbl.is. Í framhaldinu fékk FERLIR breiðsíðu skamma frá fulltrúa þjóðminjasafnsins vegna þess að dirfst hafði að taka ljósmyndir á staðnum með “mögulegum skemmdum á minjunum”; slíkt væri einungis á “færi sérstaks ljósmyndara safnsins, gegn gjaldi”.

Íslandssaga

Í “Íslandssögu til okkar daga” eftir þá Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson er m.a. fjallað um landnám Íslands.

Landnám og menjar

Ísland var nær ósnortið af mönnum og grasbítum, þegar víkinga bar þar að strönd, svo að landnámssaga þess er skráð mannvistarleifum út um holt og hæðir. Jarðvegsmyndun hefur verið ör sökum veðrunar og öskufalls í eldgosum, en á síðustu öldum hefur gosið um fimmta hvert ár einhvers staðar á landinu. Eldsumbrot hafa skilið eftir sig greinanleg lög í jarðveginum. Gjóskulögin skipta jarðveginum þannig eftir aldri og tímasetja fróðleik um lífríkið á liðnum öldum.

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1000.

Allmikið eldgos hefur orðið við Vatnaöldur um 900 og skilið eftir sig í jarðvegi svonefnt landnámslag. (Eftir sama gos má sjá ummerki í ísnum á Grænlandsjökli, sem færa má með nokkurri vissu til ársins 898.) Þegar landnámslagið féll, hefur landið verið lítt byggt og frumgróður þess ríkjandi, en hann breyttist mjög við búsetu manna; birkiskógur hvarf, en bygg, bruggjurtir, arfi og ýmsar aðrar plöntur námu land; og gróður eyddist á jaðarsvæðum, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.
Fornmannagrafir og rústir mannvirkja benda einnig til þess að fáir hafi siglt til Islands fyrr en um 900, enda urðu skip í Norðvestur-Evrópu ekki almennilega hæf til slíkra ferða fyrr en á 9. öld, og fáir áttu erindi til Íslands fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar, þegar víkingar fóru hrakfarir á Bretlandseyjum. Þá urðu ýmsir víkingar að sætta sig við það að hlaupa eftir sauðum og strita við búskap, og landnámsöld hófst á Íslandi.
Hin langa sigling út til Íslands skolaði ránsandann úr víkingunum. Þeir komu fámennir, 20-30 manns á hverju skipi, og héldu sjaldan samfloti á langri siglingu. Þegar þeir náðu höfn á Íslandi, urðu þeir að vera sæmilega prúðir í framgöngu, ef þeim átti að verða líft í landinu.
Landnámið var friðsamlegt; landið er stórt og skiptist í héruð af fljótum og fjallgörðum, svo að menn þurftu ekki að troða hver öðrum um tær fyrstu áratugina. Hvergi er vitað um nein hernaðarmannvirki, hvorki við hafnir, ferjustaði né einstaka bæi, fyrr en löngu síðar.
Heiðnar grafir, um 300 talsins, hafa fornleifafræðingar kannað hér á landi, og teljast þær frá 10. öld, nema gripir úr einni gætu verið frá því um 850 og úr annarri frá upphafi 11. aldar.
Hinir framliðnu hafa verið heldur lágvaxið fólk, meðalhæð karla um 170 sentimetrar (169 eða 171 eftir því hvaða stöðlum er beitt) og kvenna 155 sm eða rúmlega það. Engar stórhöfðingjagrafir og engir kristnir grafreitir hafa fundist á Íslandi frá 10. öld. Grafirnar benda til þess að á fyrsta stigi byggðarinnar hafi íburðarlítill efnahagsjöfnuður ríkt í landinu eins og jafnan í nýbyggðum. Heiðnar grafir á Íslandi eru sem heild líkastar norskum gröfum af fátæklegri gerð frá sama tíma og mundu ekki þykja framandlegar, þótt þær hefðu fundist þar í landi.
Í Eyjafirði og Rangárvallasýslu hafa fundist flestar heiðnar grafir, en mjög fáar í sumum héruðum öðrum. í Skaftafellssýslum og víðar hafa eldgos, stórflóð, sandfok og aðrar hamfarir eytt gröfum eins og öðrum mannanna verkum. Það á þó ekki sérstaklega við um Borgarfjörð eða Breiðafjörð, einhver bestu héruð landsins, þar sem heiðin kuml hafa bæði fundist fá og fátækleg. Heiðnin virðist ekki hafa staðið djúpum rótum víða vestan lands, og þar hafa menn líklega keppst við að smala forfeðrum sínum í kristinna manna reiti eftir kristnitöku, eða gert forna kumlateiga að kirkjugörðum þar sem þeir voru nálægt bæjum. Slíkt kann að hafa verið algengt hér, þar sem svo lítil átök urðu milli kristni og heiðni.

Byggð og nöfn

Skáli

Skáli frá því um 1000.

Örnefni um gjörvallt Ísland vitna um norrænan uppruna þjóðarinnar. Nokkur kenna staði við heiðin goð, flest við Þór: Þórs-höfn, -mörk og -nes. Njarðvíkur eru heiti á fengsælum útgerðarstöðum, og Freysnes bendir til þess að frjósemisguðinn Freyr hafi í árdaga byggðar átt sér vini á Íslandi.
Allmörg örnefni benda þó til Bretlandseyja. Af keltneskum stofni eru bæjarnöfn kennd við Beccan, Ciaran, Nial og Patric: Bekansstaðir, Kjaransvík, Njálsstaðir; en Patreksfjörður á að bera nafn af því að landnámsmaður frá Suðureyjum hét á heilagan Patrek í hafvillu. Valþjófsstaður ber heiti af engilsaxnesku mannsnafni, Walþeow; en Trostansfjörður vísar á mannsnafnið Dorstan (sbr. Tristan), sem er komið úr tungu Pikta, frumbyggja Skotlands. Dímon er heiti á nokkrum fellum og telst dregið af Dímun (tvífell). Írafell, Katanes, Kumbaravogur og Bretavatn eru staðir kenndir við fólk frá Írlandi, Katanesi á Skotlandi (Caithness), Kumbaralandi (Cumberland) og Bretlandi. En fróðlegt væri að vita hvort Breta- og Kumbaranöfnin festust við staði á Íslandi á 10. eða 15. öld.
Fólk af ýmsu þjóðerni hefur sest að hér á landi í árdaga, en þess ber að gæta að norrænir menn á Bretlandseyjum mægðust þar við heimafólk. Þannig komust írskar nafngiftir inn í norrænar ættir, og sú blóðblöndun, sem mannerfðafræðin vitnar um, gat bæði gerst fyrir og eftir landnám.
Í íslenskum bæjarnöfnum felst ýmis fróðleikur um sögu bæjanna. Þau skiptast m.a. í náttúrunöfn og stöðunöfn. Náttúrunöfnin eru dregin af einkennum landslagsins umhverfis bæinn eins og Hólar og Skálholt; Reykjavík var nafn á bæ, sem stóð við vík sem rauk úr. Skarð var heiti á stórbýlum undir fjalli, bæði við Breiðafjörð, í Landsveit og víðar, en -vellir eru aðsópsmiklar jarðir víða um land, svo sem Möðruvellir í Eyjafirði og Stóruvellir á Landi. Þessi nöfn, og fjölmörg önnur sem vísa til landslags (Ás, Múli) eða annarra staðhátta (Ferja, Höfn), bera ekkert aldursmark, enda merking þeirra óbreytt allt frá landnámsöld; af þeim, eða samsetningum þeirra, verður fátt ráðið um aldur jarðanna.
Stöðunöfnin lúta að stöðu bæjarins í sveitinni. Allt til 1800 var hér að störfum frumstætt bændasamfélag, sem baslaði einkum við kvikfjárrækt og barðist við þrotlitla efnahagskreppu eða stóð í návígi við matvælaskort og hungurdauða. Seint á 10. öld tóku landþrengsli að hrjá það og leiddu til Grænlandsferða, en engra breytinga. A 12. öld óx fiskmarkaðurinn innanlands sökum kröfu kirkjunnar um fiskát á föstum. Þá óx byggð við góðar hafnir, sem lágu að fengsælum miðum; þar fjölgaði kotum og smábýlum, sem enduðu mörg nafn sitt á -kot, -gerði, -sel, -búð. Þau eru frá yngra skeiði byggðarsögunnar en náttúrunöfnin, sem geta verið allt frá landnámsöld. Kot er smábýli, sem ýmist er reist í landi eyðijarðar eða byggt úr landi stórbýlis og dregur nafn af því eða landslagi: Akrakot, Klettakot, Urriðakot. Gerði merkir girðingu eða umgirt svæði. Innan þess hafa risið kofar, og þar hafa sest að menn, sem gættu akra og húsdýra; víða urðu þar til hjáleigur og sjálfstæð heimili, og jafnvel höfuðból eins og Hraungerði í Flóa í Árnessýslu, en þar í sveit er hraun náttúrunafn.

Sagnir um upphaf byggðar

Rúnasteinn

Rúnasteinn frá Gotlandi.

Fornleifafræðin, íslenskan, örnefni og jarðvegsrannsóknir eru samkvæða um það að framtakssamt fólk hafi flutt búferlum frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands seint á 9. öld og fyrri hluta 10. aldar, en áður var það eyðieyja. Þar varð til ríkisvaldslaust bændasamfélag, sem sýslaði einkum við kýr, hross og sauði og ræktaði með erfiði bygg til bjórgerðar í veðursælustu sveitunum sunnanlands og vestan. Húsakynni þessa afreksfólks, sem tengdi Atlantshafið við sögusvið Evrópu, eru dável kunn, áhöld þess og farartæki, en einstaklingar birtast á vettvangi í rituðum heimildum.
Nafnið Ísland birtist á rúnaristu frá Timans á Gotlandi sem telst frá fyrri hluta 11. aldar. Ristan segir að félagarnir Ormiga og Úlfar hafi komið til Grikklands, Jórsala, Íslands og Serklands (en svo nefndust lönd Araba). Menn voru orðnir víðförulir í þann tíð. Á engilsaxnesku landabréfi frá svipuðum tíma er dregin aflöng eyja norður af Noregi og nefnd Ísland. Þá er Íslendinga getið í páfabréfum allt frá 1022 og riti Adams af Brimum um sögu Hamborgarbiskupa, sem lokið var skömmu eftir 1070.
Íslendingar komust á atburðaskrár í Evrópu á 11. öld, en 9. og 10. öldin er forsögulegur tími íslenskrar sögu. Í Íslendingabók leitast fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), við að setja íslenskri og norrænni sögu kristið tímatal. Honum veittist það auðvelt um sína daga, en málið varð þjóðsagnakennt, þegar kom aftur á 10. öld. Hann segir: Ísland byggðist fyrst úr Noregi . . . í þann tíð . . . er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Íslendingabók (íslenzk fornrit I, 1968), bls. 4-5. Þetta var þjóðsaga, en við vitum ekki betur. Ari fullyrðir, „að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan”. Þessi 60 ár (870-930) hafa verið nefnd landnámstíð í íslenskri sögu, en menn hafa eflaust flust til landsins eftir þann tíma.

Ingólfur

Ingólfur í Landnámabók.

Landnáma
Landnáma, safnrit um 430 landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur, hefur orðið til að stofni fyrir 1100. Seint á 11. öld var mikið skipulagsstarf unnið í landinu, eignakönnun gerð og menn skyldaðir til að tíunda eignir sínar; þá hefur verið skráður í ýmsum héruðum fróðleikur um landnám og ættir, sem síðar var safnað á bækur. Landnámsmannatalið hvílir á arfsögnum, lærdómi og skáldskap. Þar bregður m.a. fyrir þekkingu á Gamla testamentinu. Landnámssagnir voru hagnýt fræði, því að í landnáminu fólst upphaf eignarréttarins, en söfnun þeirra á bók var einnig metnaðarmál, og allt fram um 1300 voru samdar nýjar gerðir Landnámu til styrktar hefðar- og valdsmönnum. Í einni gerðinni (Melabók) segir í eftirmála, að „vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því að vér séim komnir af þrælum eða illlmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar”.
Þegar Landnáma var upphaflega skráð, vissu menn fátt með sannindum um atburði á 9. og 10. öld og urðu ósammála um margt og þurftu að skrifa því meira sem þekkingin var brotakenndari. Í tvær aldir sýsluðu helstu höfðingjaættirnar við það að eignast Landnámu, en þá urðu skjöl og ríkisvald öruggari bakhjarl í valdabaráttunni en vafasamar sagnir um landnám.
Ættvísi var mikil hagsmunafræði í ríkisvaldslausu landi. Hver ættborinn maður varð að þekkja sem gerst ætt sína og geta svarið af sér þræla og illmenni eða sakafólk, en skyldur og réttindi gátu erfst allt í 5. lið. Allt frá upphafi byggðar hafa íslendingar þekkt grundvallarhugmyndir óðalsréttar, enda lögfestu þeir snemma að aðalbólin eða stærstu jarðirnar skyldu ganga óskiptar beinum erfðum í karllegg ættarinnar.
Hafvillusögn hefur gengið í minni manna á 12. öld, en samkvæmt henni voru ónafngreindir farmenn á leið frá Noregi til Færeyja, þegar þá hrakti útnorður í haf, uns þeir tóku land við Austfirði. Þetta gerðist fyrir för Ingólfs. í annarri gerð sögunnar var þarna á ferð færeyskur maður, Naddodur víkingur. Einhverra hluta vegna átti Naddodur síðar andstreymt í hópi landkönnuða, og sænskur víkingur búsettur á Sjálandi, Garðar Svavarsson, tróð sér fram fyrir hann í heimildum. Garðar á að hafa siglt í kringum landið og haft vetursetu norður á Húsavík við Skjálfanda. Eftir för hans nefndist landið Garðarshólmur að austnorrænum hætti, sbr. Borgundarhólmur. Þrír förunautar Garðars eiga að hafa orðið eftir, þegar hann sigldi burt, og verið fyrsta norræna fólkið, sem settist að á landinu. Af þeim er Náttfari nafngreindur, en með honum þræll og ambátt. Síðar sigldi Uni, sonur Garðars, til Íslands og fór þar erindum Haralds hárfagra að sögn. Hann var drepinn vegna kvennamála, sem urðu efni í Íslendingasögu, sem er glötuð, en hefur í eina tíð stuðlað að sögnum um landkönnuðinn Garðar Svavarsson.
Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, nefndist norskur víkingur. Hann notaði hrafna sem siglingatæki eins og Nói gamli dúfur. Flóki telst hafa siglt til landsins með búfé og skyldulið og ætlaði að setjast þar að. Honum láðist að afla vetrarforða, svo að búsmalinn horféll vorið eftir. Þá flýði Flóki til Noregs og gaf landinu hið kaldranalega nafn Ísland. Flóki á síðar að hafa sest að norður í Fljótum.

Forsendur landnámsins

Gröf

Heiðin gröf.

Á síðasta fjórðungi 9. aldar vegnaði víkingum báglega á Bretlandseyjum og í Noregi. Þá minntust margir þess að hafa heyrt getið um eyju norðvestur í hafi lítt byggða. Óbyggt land norður í Dumbshafi skorti aðdráttarafl hjá fólki, sem átti sér einhverra úrkosta völ. Hér var engu að ræna, engir bændur til að skattleggja og engin verðmæti að finna til útflutnings, hvorki grávöru, tannvöru né dýra málma. Hver sem settist hér að varð að lifa á veiðum, sölvum og fjallagrösum fyrstu árin, meðan búfénu, sem menn urðu að flytja með sér, fjölgaði svo, að einhverja nyt væri af því að hafa. Haffært skip hefur verið milljóna virði á landnámsöld, á við nokkrar bújarðir. Á Íslandi var þá ekki annað að hafa en kjarri vaxið land, gott til beitar, og nokkur hlunnindi í veiðum og viðarreka. Ef skipið dýra átti ekki að fúna í naustum, hafa menn orðið að sigla austur um haf með grjót í kjölfestu fyrstu áratugi landsbyggðarinnar. Landnám á Íslandi var fjárfesting, sem ekki var á færi annarra en milljónunga, en þeir hafa hikað lengi við leiðangurinn, af því að þeir eygðu litla von til þess að hann borgaði sig.
Líklega hefur einhverjum norskum farmönnum hugkvæmst, þegar þrengja tók að þeim á Bretlandseyjum seint á 9. öld, að gera út á Ísland, sigla þangað með fólk og fénað til þess að koma þar upp byggð og markaði. Auðvitað hafa þeir tekið talsvert fyrir snúð sinn, svo að öreigar og þrælar hafa ekki fengið far, nema þrælahaldarar hafi fylgt.
Ungir bændasynir og vonsviknir víkingar hafa verið stofninn í landnámsliðinu. Landnámuhöfundar um 1100 hafa ekki talið, að það hafi þótt nein hetjudáð á víkingaöld að sigla til íslands og hlaupa þar eftir búsmala. Rögnvaldur Mærajarl er látinn segja við Hrollaug son sinn, landnámsmann í Hornafirði: „Hefir þú það skap, er engin styrjöld fylgir. Munu vegir þínir liggja til Íslands.” Svo kom að vegir margra lágu til íslands, en þar urðu menn lengi að sætta sig við að strita í sveita síns andlits. Höfðingjar uxu fyrst úr grasi á Íslandi á 10. öld, og seint á þeirri 11. urðu til á vegum kirkjunnar fyrstu stórhöfðingjarnir, menn sem höfðu milljónatekjur og fundu fremur til sín sem aðalsmenn en bændur.
Landnemarnir sigldu til Íslands í dálitlum hópum, nokkrir tugir manna, ein eða tvær skipshafnir undir forystu karls eða konu, og reyndu að hafa samflot og samstarf um landnám og helguðu sér til eignar landsvæði, sem skiptist í jarðir, þegar búsmalinn óx. Landnemahóparnir voru stéttskiptir, greindust í forystusveit, fylgdarlið og þræla. Forystusveitin hlaut jarðnæðið, varð bændastétt, og á hennar ábyrgð var búskapurinn rekinn. Frumbyggjarnir þurftu að reisa allt frá grunni og lifa nær eingöngu á veiðum, fjörugróðri og grösum, meðan búféð var fátt, en það gekk ört fram, eins og sagnir Landnámu herma. Kýrin Brynja „gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni kominn,” þegar hún fannst í Brynjudal í Hvalfjarðarbotni. Um Hafur-Björn, landnámsmann í Grindavík, segir, að fé hans „tímgaðist svo skjótt . . . að hann varð skjótt vellauðigur”. Landnámið í Grindavík varð ekki fyrr en undir 940, því að Hafur-Björn og bræður hans höfðu flúið þangað undan gosi í Eldgjá 934.
Íslendingar hafa snemma orðið ríkir af ull og fundið góðan markað fyrir ullarvörur erlendis, því að klæði virðast hafa verið dýr á 10. öld. Um 1100 var eyrir silfurs (um 27 g) jafnmikils virði og 48 álnir (alin = 49 sm) vaðmáls af einfaldri gerð. En sex álnir vaðmáls hétu samt „eyrir”, og hafa menn skilið það svo, að á 10. öld hafi vaðmálseyririnn verið jafnmikils virði og eyrir silfurs. Silfur hefur verið ódýrt á Norðurlöndum á víkingaöld sökum framboðs, en vaðmál dýrt; íslenskt klæði hefur þá verið vel þegin vara og íslendingar orðið iðnaðarþjóð þegar á 10. öld. Pá hafa konur verið settar við tóvinnuna, sem var mikið ánauðarverk.

Skáli

Skáli.

Bændabyggð
Þegar landi var náð urðu landnemarnir að reisa sér skýli yfir fólk og fénað, og skýlin urðu að bæjum ef búsetan varð varanleg. Sumir landnemar eiga að hafa varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð, þegar þeir sáu landið rísa úr sæ, og numið þar land sem þær rak á fjöru. Þetta er þjóðsaga. A fjörum lágu víðast hrannir af rekaviði, svo að óhugsandi hefur verið að finna þar einstaka rekabúta.
Byggðin á Íslandi hefur hvergi verið mjög þétt. Hvergi er neitt yfirburðahérað, sem skákar öllum öðrum að landkostum. Við skástu landbúnaðarhéruðin hafa náttúruöflin lítt lagt sig fram að hlaða upp sæmilegar hafnir. Landkostir á Islandi buðu höfðingjum hvergi einveldi í heilum landshluta sem hefði hernaðarlega yfirburði yfir aðra. Menn gátu farið í snöggar árásarferðir hvert á land sem var, en til að hersitja héruð skorti matföng. Með tímanum varð hvert hérað yfirleitt háð einum höfðingja, heimamanni að uppruna, en lítið um landvinninga utanheimahéraðs.
Á fyrstu öldum byggðarinnar teygði hún sig miklu lengra inn í landið og hærra en síðar varð. Á Mývatnsöræfum suður af Sellandafjalli var búið á 10. öld í um 460 m hæð yfir sjávarmál, og einnig á Hraunþúfuklaustri í 410 m hæð og 20 km norður af Hofsjökli. Á Hrunamannaafrétti (350 m y.s.) og í Þjórsárdal tók af byggð í Heklugosi 1104, en í Hrafnkelsdal á Austurlandi (420 m y.s.) hafði hana eytt nokkru áður.
Margt bendir til þess að fólksfjölgun hafi verið mjög ör á fyrstu áratugum byggðarinnar og landið verið numið á tiltölulega skömmum tíma um 900. Það liggur á mörkum hins byggilega heims, svo að hálendisbyggðin hefur oft orðið skammæ, gróður ekki þolað ágang búfjár og breyst víða í auðn. Sagt er að búsmali hafi snemma leitað til fjalla og fólk fylgt á eftir, en ull hélst betur á fé ofan skógarmarka. Undan vetrarríkinu hörfuðu menn víða aftur niður fyrir láglendismörkin, og meginhluti byggðarinnar hefur ávallt staðið neðan 200 m hæðarlínu.
Á landnámstíð er talið að um 40% landsins hafi verið þakin gróðri, en í dag um 20%. Lætur þá nærri, að á hverjum degi í „íslands þúsund ár” hafi fimm til sex hektarar gróðurlendis breyst í auðn. Skógar eyddust þó örar en graslendið. Meðan ísland var „viði vaxið á milli fjalls og fjöru”, ætla menn að um 20% landsins hafi verið skógur og kjarrlendi en nú aðeins 1%, og hefur mikið af skóglendinu eyðst á fyrstu öldum byggðar. Margt gat orðið gróðrinum að tjóni: uppblástur (t.d. á Rangárvöllum og víðar), flóð bæði í sjó og vötnum (m.a. á Markarfljótsaurum og undir Eyjafjöllum, Stóraborg), eldgos (Hekla, Skaftáreldar, hraun á Reykjanesskaga o.v.), framhlaup jökla (í Öræfum og norður á Ströndum), skriðuföll (Skriða í Hörgárdal 1390, Skíðastaðaskriða 1545 o.fl.), og jarðskjálftar hafa hrist gróðurþekjuna af bröttum fjöllum. Frumorsök gróðureyðingarinnar hefur þó oftast verið ofbeit og harðindi, sem hafa fylgt miklum hafís við strendur landsins.
Veðráttan hefur ávallt verið dálitlum breytingum háð, og lítils háttar lækkun á meðalhita ársins hefur oft skipt sköpum fyrir afkomu fólks. Margs konar heimildir veita nokkra hugmynd um árferði á liðnum öldum. Vitneskja um hafískomur og hallæri bendir t.d. til kalds loftslags, og frjókorn í jörðu veita upplýsingar um gróðurbreytingar. Þá má styðjast við erlendar rannsóknir, einkum á ískjörnum úr Grænlandsjökli. Allt ber að sama brunni um það að loftslag hafi verið milt fyrstu aldir Íslandsbyggðar, e.t.v. ámóta og það hefur best orðið á 20. öld, en á 12. og 13. öld hafi kólnað tilfinnanlega.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Harðæri hafa jafnan verið tímabundin, og menn hafa keppt að því í búskap sínum að sigrast á þeim, koma sér í góðærum upp birgðum til mögru áranna. Bændur á vildarjörðum björguðust jafnan bærilega, en harðærin fóru í manngreinarálit og léku kotunga hart, og á jaðarsvæðum byggðarinnar var hættast við að fólk félli úr harðrétti.
Bærinn, heimili bóndans, var neyslueining samfélagsins á Íslandi, og mannfjöldi á heimilinu ákvarðaðist að verulegu leyti af stærð jarðarinnar og kostum til kvikfjárræktar, hve stórum bústofni hún gat framfleytt, aðallega af sauðfé og nautgripum. Öll meginhéruð landsins voru svipuðum kostum búin, svo að þar risu alls staðar stórbýli með tilheyrandi leigujörðum. Korn var ræktað með erfiði sunnan lands og vestan og kostaði þyngd sína í smjöri, en kornyrkja hefur þó verið allmikilvæg búgrein í einstökum sveitum og kornið einkum notað til ölgerðar.

Landnámshöfðingjar
Sagnir herma að höfðingjar, sem réðu fyrir traustu liði frænda og bandamanna, hafi staðið fyrir landnáminu. Margir þeirra voru mótaðir af stórbúskap í Noregi, en fóru þaðan af því að tvísýnt var orðið um höfðingsskapinn. Hagsæld þeirra á Íslandi hvíldi á mannafla og landnýtingu. Leigubúskapur hefur að líkindum hafist strax og kvikfé og mannfjöldi leyfði.
Suðvestanvert Ísland hefur jafnan verið kjarnasvæði til búskapar og stjórnsýslu. Þar fann Ingólfur allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða og tók sér búfestu í Reykjavík. Þar var góð höfn og skipaleið með landi fram sem tengdi byggðina við grannsveitir. Undirlendi var nóg á nesinu, laxár og veiðivötn skammt undan, selalátur og gnægð fiskjar uppi í landsteinum. Eyjar voru fyrir landi til margra hluta nytsamlegar: Viðey og Engey, varpeyjarnar Lundey og Þerney, og Akurey, sjálfvarin fyrir ágangi búfjár, þar sem hægt var að rækta bygg til ölgerðar.
Hvaðan sem landnemarnir voru kynjaðir, voru þeir allir mótaðir af háttum manna á víkingaöld: metnaðarsýki, þrælahaldi og hetjudýrkun, eins og lýst er í Íslendingasögum.

Heimild:
-Íslandssaga til okkar daga, Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Sögufélag, Reykjavík 1991, bls. 17-29.

Þingvellir

Þingvellir 1866.