Hraunsfjara

Eftirfarandi frásögn af „Síðasta strandinu í Grindavík“ birtist í Faxa 1947:
„Á þrettándakvöld sl. barst hið alþjóðlega neyðarkall — S O S — á öldum ljósvakans að eyrum þeirra dyggu þjóna, sem hlusta nótt og nýtan dag eftir þörfum þeirra, er afskektastir eru allra og oft í lois-222bráðri hættu — sjómannanna, sem oft og og einatt eiga líf sitt undir því einu komið að hlustað sé í lítil og veikbyggð tæki annað hvort í landi eða á öðrum skipum, sem betur eru sett. Menn þeir, sem annast tæki þessi, eru venjulega sérmenntaðir loftskeytamenn. Oft hafa þeir verið litnir öfundar- og stundum jafnvel fyrirlitningaraugum utan af dekkinu, sökum þess að þeir geta starfsins vegna gjarna verið vel til fara jafnvel fínir, eru venjulega inni í dúnhita og geta skemmt sér að músik og ýmsu öðru, þó að aðrir þræli í náttmyrkri og vetrarhörkum við ömurlegustu skilyrði.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Stétt loftskeytamanna hefur þó getið sér frægðarorð og bjargað mörgum mannslífum. Í þetta sinn var það brezki botnvörpungurinn Lois, sem var í nauðum staddur. Hann var að koma frá Englandi og hefur sjálfsagt ætlað vestur fyrir land, á hin auðugu fiskimið, sem mjög eru sótt af erlendum fiskiskipum. En dimmviðri var á og hríð annað slagið. Auk þess kann að vera að áttavitinn hafi truflazt af segulmagni fjallanna í Reykjanessfjallgarðinum, en slíkt hefur oft komið fyrir áður. En hvernig sem á því stóð, þá stóð skipið allt í einu í stórgrýttri fjörunni. Brimið ólmaðist óskaplega og stormurinn stundi við Festarfjall.

Selatangar

Við Selatanga.

Í skeyti því, er skipstjórinn sendi Slysavarnarfélagi Íslands, hélt hann sig vera 15 mílum vestan við Selvogsvita. Þá hefðu þeir lent á Selatöngum, sem eru alllangt frá mannabyggðum og auk þess er landtaka þar mun verri, svo að hæpið hefði verið að nokkur skipsmannanna hefði haldið lífi, ef staðarákvörðunin hefði reynzt rétt. Reyndin var sú að skipið var 4 mílum vestar, eða vestanhallt í Hrólfsvík, sem er nokkur hundruð metrum austan við Hraun í Grindavík. Það reyndist þeirra lán í óláninu.
Um svipað leyti og skeytið barst til Slysavarnarfélags Íslands varð strandsins vart frá Hrauni.

Þorbjörn

Þorbjörn – merki.

Var þegar í stað hringt til Sigurðar Þorleifssonar, formanns Slysavarnarfélagsins „Þorbjörn“ í Grindavík, en það var um kl. 9,30 um kvöldið og honum tilkynnt strandið. Þegar var hafizt handa um að hóa mannskap saman og koma björgunartækjum á strandstaðinn. Gekk þetta hvorttveggja mjög greiðlega og um kl. 10 var komið á strandstaðinn og undirbúningur að björgunarstarfinu hafinn. Skipið lá þá þversum í brimgarðinum um 100 m. frá flæðarmáli. SSA-stormur var og mjög mikið brim, svo að skipið barðist harkalega við stórgrýti og flúðir. Fljótlega mun hafa laskazt sú hliðin, er að landi sneri, og daginn eftír er menn komust um borð var síðan sem sagt úr.

Fljótlega tókst að koma á sambandi milli skips og björgunarsveitarinnar. Árni G. Magnússon, skytta sveitarinnar, hæfði með fyrsta skoti. „Rakettan“ flaug gegnum loftið með granna línu í eftirdragi.

Hraun

Hraun.

Skyttan hæfði skipið miðskipa undir loftnetið, eða svo haganlega, sem á varð kosið. Skipverjar drógu nú til sín sverari línur, dráttartaugar og líflínu, sem þeir komu fyrir í framreiðanum. Síðan hófst hin vasklega björgun. Tugum saman stóðu Grindvíkingar á ströndinni og unnu sem einn maður með hröðum og vissum handtökum. Hver maður á sínum stað og sigurverkið var í fullum gangi. Björgunarstóllinn var dreginn út til skipsins og þaðan kom hann með hvern skipverjann á fætur öðrum. Sökum þess hve skipið valt mikið varð að hafa líftaugina fremur slaka, svo að strandmennirnir drógust í sjóinn á leið til lands. Flestir þeirra voru þó allbrattir er í land kom. Einn þeirra hafði þó fengið taugaáfall og nokkra fleiri varð að styðja að bíl, sem flutti þá heim að Hrauni, en þar var kominn Karl G. Magnússon héraðslæknir.

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Klukkan 11,30 voru allir skipverjarnir komnir á land, nema skipstjórinn, sem var þá staddur í „brúnni“. Allt að 10 mínútur var beðið eftir honum. Þegar hann loks fór fram á þilfarið virtist hann hrasa en komst þó um síðir að vantinum Og upp á borðstokkinn og mun hafa ætlað að teygja sig eftir stólnum, en þá reið ólag undir skipið og stríkkaði við það á líflínunni, svo að skipstjórinn tapaði jafnvægi og féll í hafið — líkið rak að landi eftir tvo eða þrjá daga. Strandmennirnir 15, sem björguðust, dvöldu að Hrauni hjá bræðrunum Gísla og Magnúsi Hafliðasonum um einn sólarhring við góða aðhlynningu.

Lois

Unnið að björgn áhafnar Lois.

Allflestir karlmenn úr Grindavík voru komnir á strandstaðinn og telur Sigurður Þorleifsson, að þessi vel heppnaða björgun sé árangur ákaflega góðra samtaka og skipulags við framkvæmd þessa ábyrgðarmikla starfs — þar sem hvert handtak getur verið lífsábyrgð.
Slysavarnarsveitin „Þorbjörn“ telur nú um 200 félagsmenn og konur. Sveitin er löngu landfræg fyrir frækilegar bjarganir úr sjávarháska. Grindvíkingar hafa vanizt hörðum fangbrögðum Ægis. Þrálátt og þróttmikið brimið hefur þjálfað þetta lið í einbeitingu mannlegs máttar til varnar og sóknar gegn hamslausri náttúrunni, þegar hún vill gerast ágeng við líf eða limi.
Það er sigurfögnuður hjá þjóðinni allri, þegar slík afreksverk eru unnin.
J.T.

Heimild:
-Faxi – 7. árg. 1947, bls. 1-2.

Hraun

Hraun.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn var friðlýstur 18. nóv. 2024.

Alþingisgarðurin

Alþingisgarðurinn – Ráðherra undirritar friðlýsingu Alþingisgarðsins. F.v. Pétur H. Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Birgir Ármannsson forseti Alþingis.

Garðurinn við Alþingishúsið er fallegur og friðsæll sem er að mestu umkringdur háum steinvegg. Garðurinn er því fremur falinn og fyrir vikið fásóttari en ella en hann hefur verið opinn fyrir almenning síðan 1950. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.

Skömmu eftir að smíði Alþingishússins lauk 1884 var ákveðið að gera garð í lóðinni sunnan við húsið að frumkvæði Árna Thorsteinssonar landfógeta.
Plöntur voru fengnar víða að, innan lands sem utan. Víðitegundin þingvíðir var flutt inn til landsins og er hún nefnd eftir garðinum.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – brjósmynd af Tryggva Gunnarssyni.

Tryggvi Gunnarsson alþingismaður sinnti garðinum síðari hluta ævi sinnar og er brjóstmynd af Tryggva að finna í garðinum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði friðlýsinguna vegna Alþingisgarðsins við Kirkjustræti. Friðlýsingin tekur til garðsins í þeirri mynd sem hann hefur varðveist.

Alþingisgarðurinn er elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi. Framkvæmdir stóðu yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins lá fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.

Friðlýsingin er gerð að tillögu Minjastofnunar Íslands og er í samræmi við ákvæði laga um menningarminjar, nánar tiltekið 18. gr. sem fjallar um friðlýsingu húsa og mannvirkja eða hluta þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn.

Friðlýsingin tekur til Alþingisgarðsins við Kirkjustræti 14 í þeirri mynd sem hann hefur varðveist, skipan stíga, beða, trjágróðurs og tegundaflóru innan hvers reits, minnisvarða, hleðslna og yfirborðsefna og hlaðinna veggja umhverfis garðinn. Garðurinn er 901,8 fermetrar að stærð, lengd hans er 33,1 metrar og breidd 27,2 metrar, og miðast útmörk friðlýsingarinnar við það. Vikið er frá því að hafa 100 m friðhelgunarsvæði umhverfis útmörk garðsins, sbr. 22. gr. laga um menningarminjar.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn friðlýstur 18. nóv. 2024.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mér mikil ánægja að staðfesta tillögu Minjastofnunar um friðlýsingu Alþingisgarðsins. Garðurinn markaði tímamót í íslenskri garðsögu og upphafsmaður hans Tryggvi Gunnarsson sinnti garðinum einstaklega vel, jafnvel á efri árum. Í Alþingisgarðinum fyrirfinnast enn ýmsar tegundir plantna, sumar horfnar þaðan eins og Þingvíðirinn sem nefndur er eftir garðinum, en margar þrífast þar enn enda hefur garðinum alltaf verið vel sinnt. Skipulag garðsins hefur ekki mikið breyst frá þarsíðustu öld. Í honum má líka sjá handverk í formi hleðslna og hlaðinna veggja. Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra.

Alþingishúsið 1881

Alþingishúsið 1881.

Alþingisgarðurinn er táknrænn fyrir margra hluta sakir og gildi hans afar mikið á landsvísu. En mest um vert er að allan tímann hefur hann verið opinn almenningi og er Alþingisgarðurinn því garður okkar allra,“ segir ráðherrann.
Í tilkynningu um friðlýsinguna kemur fram að Alþingisgarðurinn sé elsti og best varðveitti almenningsgarður við opinbera byggingu á Íslandi.
Framkvæmdir hafi staðið yfir frá 1893 til 1894 en hönnun garðsins hafi legið fyrir í upphafi, sem markaði tímamót í íslenskri garðsögu.
Viðstödd friðlýsinguna voru, auk ráðherra, forseti Alþingis og fulltrúar Alþingis, Minjastofnunar og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 1920.

Á Alþingi árið 1893 kom fram tillaga um hvernig verja skyldi fjármunum sem safnast höfðu í þinghúss­byggingarsjóðinn frá 1867. Áður hafði komið fram hugmynd um að nota sjóðinn til að skreyta húsið að innan en nú kom fram tillaga um að veita úr honum til skipulags lóðar og garðyrkju við húsið. Urðu miklar umræður um tillöguna á þinginu og miðluðu þingmenn þar af reynslu sinni af garðyrkju, t.d. Árni Thorsteinson landfógeti og forseti efri deildar sem Landfógetagarðurinn (Hressingarskála­garðurinn) er kenndur við.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – Tryggvi Gunnarsson við vökvun garðsins.

Alþingi samþykkti að lokum að verja 1.500 krónum til framkvæmda í garðinum og fá þingforseta umsjón verksins. Mun þar með hafa verið tekin ákvörðun um fyrsta opinbera skrúðgarðinn á Íslandi. Benedikt Sveinsson, forseti sameinaðs þings, fól Tryggva Gunnarssyni að sjá um framkvæmdir í garðinum. Tillöguuppdrættir Árna Thorsteinsonar að garðinum eru varðveittir í Þjóðskjalasafninu en uppdráttur, sem farið var eftir, er í skjalasafni Seðlabankans og á honum rithönd Tryggva Gunnarssonar. Tryggvi var smiður að mennt og lærði einnig búvísindi á Norðurlöndum og er ekki ólíklegt að hann sé höfundurinn að skipulagi garðsins. Garðurinn er enn nánast óbreyttur frá upphaflegu skipulagi.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2020.

Tryggvi hófst handa við að láta skipta um jarðveg í garðstæðinu og ræsa það fram. Einnig keypti hann mykju og tað til áburðar og pantaði plöntur innan lands og utan. Kostnaðarsamast var að girða garðinn og var Ólafur Sigurðsson steinhöggvari fenginn til að hlaða garðveggina. Veggurinn sem snýr að Dómkirkjunni er vandaður og prýða hann steinsúlur með hnúð. Suður- og vesturveggirnir eru einfaldari og frágangurinn grófari enda voru þeir á lóðamörkum en sneru ekki að opnum svæðum eins og nú. Slökkvitækjaskúr Reykjavíkurbæjar stóð að hluta á lóð Alþingis og var rifinn þegar garðvinnan hófst.

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn – þingvíðir.

Tryggvi fékk plöntur víða að, víði og birki úr Fnjóskadal, ilmreyr úr Hörgárdal, reynivið úr Nauthúsagili undir Vestur-Eyjafjöllum, birki úr Hafnarfjarðarhrauni og mjaðarjurt úr Gufunesi. Árni Thorsteinson og Schierbeck landlæknir voru Tryggva einnig innan handar með plöntur og fræ í garðinn. Víðitegund, sem Tryggvi flutti til landsins, dregur íslenskt heiti sitt af garðinum og er kölluð þingvíðir. Ekki er talið að neitt af upprunalegu trjánum standi enn í garðinum.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Kostnaður við framkvæmdir í garðinum varð meiri en á horfðist og var sumarið 1894 kominn í 2.839 krónur. Hafði Tryggvi lagt út fyrir því sem á vantaði þegar 1.500 króna fjárveitingin var þrotin. Á þinginu 1894 var samþykkt að verja rúmlega 1.000 krónum sem eftir stóðu í þinghúss­byggingarsjóðinum til að gera upp reikninga og veita 1.200 krónur úr landssjóði til að ljúka verkinu.

Næstu ár eyddi Tryggvi ómældum tíma í vinnu í Alþingisgarðinum og var ósk hans að verða jarðsettur þar. Var orðið við henni, garðurinn vígður sem heimagrafreitur og hvílir Tryggvi syðst í garðinum undir steinhæð með íslenskum blómum og grösum. Á leiðinu er brjóstmynd af Tryggva eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Sjá meira um Alþingisgarðinn HÉR.

Heimildir:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/11/18/Althingisgardurinn-fridlystur/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/althingisgardurinn_fridlystur/
-https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/tiufrettir/30763/aga0t1/althingisgardurinn-fridlystur
-https://www.althingi.is/um-althingi/fraedslu–og-kynningarefni/um-althingishusid/
-https://fila.is/wp-content/uploads/2019/07/Vi%C3%B0auki-3-Al%C3%BEingisgardurinn-Karl-G.-Athugun.-Copy.pdf

Alþingisgarðurinn

Alþingisgarðurinn 2022.

Bessastaðir

„Fornleifauppgrefti á Bessastöðum, vegna framkvæmda sem þar eiga að fara fram, er nú senn að ljúka (18. september, 1991). Verkið hefur staðið í tvö ár með hléum og hafa fundist leifar um mannvist undir gjóskulagi frá því seint á 9.öld. Fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Guðmundur Ólafsson hafa stýrt rannsóknunum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Fornleifarannsóknir hófust á Bessastöðum árið 1987 þegar verkamenn sem unnu við viðgerðir á gólfi Bessastaðastofu komu niður á húsarústir. Leiddi rannsókn í ljós að hér væri um konungsgarð að ræða, þ.e.a.s. bústað æðsta embættismanns konungs, og voru rústirnar varðveittar í kjallara Bessastaðastofu þar sem þær eru almenningi til sýnis.

Bessastaðir

Bessastaðir – fyrirhuguð uppbygging.

Tveimur árum seinna var ákveðið að endurbyggja staðinn en í kjölfar þeirrar ákvörðunar var Þjóðminjasafninu falið að rannsaka þann hluta lóðarinnar sem yrði fyrir hnjaski vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Hafa þessar rannsóknir að sögn Sigurðar Bergsteinssonar staðið með hléum frá árinu 1989 en þeim lýkur sennilega eftir tvo til þrjá mánuði. Sigurður segir að komið hafi verið niður á rústir alls staðar þar sem borið hefði verið niður. Væru þær elstu frá því snemma á miðöldum (10.öld) en leifar hefðu fundist allt til dagsins í dag.

Bessastaðir

Þá sagði hann að leifar eftir mannvist hefðu fundist undir svokölluð landnámslagi sem er gjóskulag frá því seint á 9. öld. Væri um að ræða móösku og torfusnepla en hvorki hefðu fundist hlutir né leifar af byggingum. Af þeim sökum væri ekki hægt að slá neinu föstu um búsetu fólks á staðnum enda væri ekki getið um landnámsbæ á Bessastöðum í Landnámu. Leifar hafa fundist undir landnámslagi í Suðurgötu í Reykjavík og Vestmannaeyjum.

Bessastaðir

Undir Bessastaðastofu.

Í samtali við Sigurð kom fram að fáir hlutir hefðu fundist í rústunum. Þó nefndi hann sem dæmi að fundist hefði snældusnúður frá því á miðöldum og fjögur sáför (stór matarílát grafin í gólf). Árið 1987 fundust á Bessastöðum meðalaglös frá því á 18. öld þegar Apótek Íslands var staðsett þar um tíma. Leifar frá skólahaldi hafa einnig fundist á Bessastöðum, meðal annars skriftarspjöld skólapilta.“

Heimildir:
-MBL miðvikudaginn 18. september, 1991 – Innlendar fréttir -Bessastaðir: Leifar um mannvist frá því á 9. öld. Sigurður Bergsteinsson.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Kúastígur

Gengið var af tengivegi línuvegarins í Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar skammt austan við Voga, að Kánabyrgi og Viðauka, um Heljarstíg á Hrafnagjá, að Huldum, um Kúastíg á Hrafnagjá og eftir henni að Axarhól, þaðan að Hvíthólum og að upphafsstað.

Vogaheiði

Sel í Vogaheiði

Áður en gengið var að Kánabyrgi var litið á hlaðna refagildru í heiðinni, milli línuvegarins og Reykjanesbrautar, skammt austan tengivegarins. Hún lítur út eins og varða, nema að þessi varða er ekki á hæð eða við stíg, heldur í lægð, en slíkt er sjaldan varða siður. Þegar fallhellan, sem snýr mót suðri, er tekin frá opinu sést gildran vel. Það voru Brunnastaðabræður (Stakkavíkurbræður) sem bentu FERLIR á gildru þessa.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Kánabyrgi er skammt austar, norðan línuvegarins. Þar er hóll eða há klettaborg þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir ‘þrjótur, slæpingi; seppi“. En þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Gengið var eftir Heljarstíg, sem er einstigi yfir Hrafnagjá spölkorn suðvestan við Kánabyrgi. Þar er tæp gata og djúpar gjár til beggja handa.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

Þegar farið var til smölunar frá Kánabyrgi lá leiðin upp heiðina og um Huldur. Svæðið ber einnig örnefnið Margur brestur, sem þýðir líklega “margir eru brestirnir” því þarna eru víða sprungur er leyna á sér.
Ofar í heiðinni er Inghóll, með gamalli vörðu á, sem sagður er á eða við mörk Brunnastaða og Voga á Huldum. Hóllinn er fast ofan við Litlu-Aragjá. Fast neðan við hólinn og gjána eru Inghólslágar.
Viðaukur, Viðuggur eða Viðauðgur skammt austan Vogaafleggjarans skammt ofar er annað hvort heiti á nokkuð áberandi hólum þarna í heiðinni, sem standa rétt vestan við Línuvegsafleggjarann eða margstofna klöpp fast ofan við hólana. Klöppin er með rismikilli og fallegri vörðu á og stendur hún um 100 m neðan Hrafnagjár. Sumir ætla að varðan sé landamerkjavarða Brunnastaða og Voga.

Kánabyrgi

Kánabyrgi.

Nafnið Viðaukur er sérkennilegt og vel má ætla að það sé rétta útgáfan af örnefninu og að það sé komið til vegna þess að einhver bóndinn hafi bætt við sig landi, þ.e. “aukið við” land sitt.
Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.
Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána. Við Kúastíginn er tófugreni.
Efri gjárbarmi Hrafnagjár var fylgt til vesturs að Axarhól. Hann er nokkuð brattur og sprunginn eftir endilöngu og má líkja sprungunni við axarfar og af því dregur hóllinn trúlega nafn sitt. Norðan við Axarhóla eru Hvíthólar. Á leiðinni að þeim var komið við í Þóruseli, sem er suðvestan hólanna.

Hvíthólavarða

Hvíthólavarða.

Hvíthólavarða er á þeim, 70-80 cm á kant og traustbyggð. Varðan er áberandi kennileiti ofan við Vogana. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvar Þórusel hafi verið nákvæmlega, enda landið nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en á því átti að hafa staðið höfuðból með “átján hurðir á hjörum”. Engar rústir eru sjáanlegar þarna. Önnur tilgáta er að Þórusel hafi verið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Refagildra

Gengið var frá Brunnastaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni, um Brunnastaðasund að Hausthús, Vorhús og Hvamm, að Grænuborg ofan við Djúpavog og áfram með ströndinni í Voga.

Bieringstangi

Frá Efri-Brunnastöðum var gengið yfir að Skjaldarkoti, austasta kotinu í hverfinu. Skjaldarkot er nú í eigu Eggerts Kristmundssonar á Efri-Brunnastöðum. Ýmis óvenjuleg nöfn prýða staði á Ströndinni og ofan við hana. Má í því sambandi nefna orðið Kánabyrgi, sem er hóll eða há klettaborg skammt ofan Reykjanesbrautar, þar sem talið er að leitarmenn hafi safnast saman áður en skipt var í göngur. Orðið káni er til á 18. öld, sjaldgæft orð sem merkir „þrjótur, slæpingi; seppi“. Þarna hefur hóllinn sennilega heitið Gangnabyrgi, en latmæli breytt því í Kánabyrgi.

Töðugerði

Töðugerði.

Gengið var vestur með ströndinni, framjá Naustakoti ofan við Brunnastaðasund og yfir að Halakoti. Vestar var gengið um Bieringstanga og gengið fram hjá bænum Töðugerði. Þar var tíbýli fyrir aldamótin 1900; Suður og Norðurbær. Hann lagðist í eyði rétt eftir aldamótin. Komið var við tóftir bæjarins Grund á Bieringstanga. Á tanganum var mikil útgerð áður fyrr, þar var mikil sjóbúð og salthús. Í fjörunni er letursteinn. Á honum virtist vera eitthvert fangamark hoggið þar í klöpp, ómögulegt reyndist að lesa það.

Halakot

Halakot.

Frá Bieringstanga var haldið að Vorhúsum þar var tvíbýlt; Austur og Vesturbær. Við Vorhús er fallegur brunnur. Á Klapparholti þar skammt fyrir ofan var sjóbúð.
Gengið var að Hausthúsum og rústirnar þar barðar augum og svo áfram að Hvammi. Þar hafa verið tveir brunnar. Í Djúpavogi eru hverfamörk Brunnastaðahverfis og Voga.

Komið var við að Grænuborg. Grænaborg var byggð árið 1881, húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti. Þarna hafði áður verið bær er Hólakot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um hann.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólakot, því sagnir voru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar. Líklega hefur Ari þekkt þessa sögu og flutt til hússtæðið og nefnd húsið Grænuborg en ekki Hólakot. Tveim árum síðar eða 1883 brann svo Grænaborg, allir komust af nema ein vinnukona er brann inni. Grænaborg var ekki byggð upp aftur fyrr en 1916 og endurbætt 1932. Þar brann svo aftur í árslok 2002.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Frá Grænuborg er ágætt útsýni upp hraunin í Vogaheiði og upp á Þráinskjöld. Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjaldarhrauni, er talið hafa runnið til sjávar fyrir um 9000 árum. Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar. Hún er 15 km löng milli Hvassahrauns og Kvíguvogastapa. Líkast til er nafnið dregið af danska orðinu „vandløse”, sem þýðir lauslega lindasvæði, en mikið ferskvatn kemur upp meðfram ströndinni úr beljandi móðum undir hrauninu, þótt ekkert slíkt sé að hafa inn til landsins.

Grænaborg

Í Landnámu er getið um að Steinunn gamla hafi þegið Rosmhvalanes af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, þar með alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíkuvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíkuvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi.
Gengið var með ströndinni áleiðis í Voga. Byggðahverfið er ört vaxandi kauptún við Vogavík.

Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð úr var Stóru-Vogar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stöpplabryggja og fiskhús reist. Síðan hefur bæði ýmislegt orðið þar til framfara, en annað hefur farið miður, s.s. almennt viðhorf gagnvart sögu og minjum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Þinghóll

Árið 1996 birtist í Lesbók grein um morð við Skötufoss í Elliðaám árið 1704. Sakborningarnir, Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir voru teknir af lífi á Kópavogsþingi sama ár. „Fornleifarannsókn var gerð á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk 1988 og eru hér leiddar líkur að því að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.

Þinghóll

Þinghóll.

Fyrir nokkru var ágæt frásögn í Lesbók Morgunblaðsins eftir Helga M. Sigurðsson um gamalt morðmál frá 1704. Tildrög málsins voru þau að Sæmundur Þórarinsson, sem bjó í Árbæ ásamt 44 ára gamalli konu sinni, Steinunni Guðmundsdóttur, móti Sigurði Arasyni, 26 ára gömlum manni, og móður hans, fannst þann 22. september 1704 látinn í Elliðaá. Skömmu síðar vaknaði grunur um að hann hefði verið myrtur og við yfirheyrslur hjá Paul Beyer landfógeta játaði Sigurður að hafa myrt Sæmund að undirlagi Steinunnar. Þau Steinunn voru tekin af lífi á Kópavogsþingi sama ár. Henni var drekkt í Kópavogslæk og hann var hálshöggvinn. Í Vallaannál er þess jafnframt getið að höfuð Sigurðar hafi verið sett á stöng við gröf hans. Mál þeirra hefur orðið kveikja að draugasögu í nokkrum gerðum og er afturgangan ýmist nefnd Selsmóri, Sviðholtsdraugur eða Þorgarður.

Kópavogur

Kópavogur – herforingjaráðskort.

Í niðurlagi fyrrnefndrar Lesbókargreinar segir að annað sé ekki vitað um afdrif þeirra Steinunnar og Sigurðar en talið að grafir þeirra hafi fundist við vegagerð á fyrri hluta aldarinnar. Verður hér reynt að bæta nokkru við þá frásögn.
Munnmæli og sagnir um dysjar þeirra sem teknir voru af lífi á Kópavogsþingi hafa jafnan fylgt svæðinu og sést enn móta fyrir dys við gamla veginn sem liggur frá Kópavogslæk upp Arnarnesið sunnan læksins.
Frásagnir um beinafundi sem taldir hafa verið úr sakamannadysjum hafa einnig minnt á aftökurnar. Nokkrum sinnum hafa t.d. mannabein fundist í grennd við Gálgakletta í Garðabæjarhrauni. Þá er, eins og áður er getið, til frásögn um að vegagerðarmenn hafi árið 1938 fundið höfuðkúpu með miklu hári við Kópavogslæk og aðra beinagrind höfuðlausa. Þessi bein munu hafa verið sett aftur á sinn stað, en ekki var fundarstaðurinn staðsettur neitt nánar.

Kópavogur

Þinghóll – dysjar.

Í þessari grein, sem er stytt útgáfa greinar sem birtast mun í næsta hefti tímaritsins Landnám Ingólfs, er sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var á svonefndum Hjónadysjum við Kópavogslæk vorið 1988 í sambandi við breikkun Hafnarfjarðarvegar. Leitt er að því líkum að þar hafi fundist jarðneskar leifar Steinunnar og Sigurðar.
Fyrir rannsókn sást dálítil þúst í krikanum milli Hafnarfjarðarvegar og Fífuhvammsvegar sem talin var vera dys. Fyrirsjáanlegt var að nýi vegurinn hlyti að fara yfir hana að hluta eða öllu leyti. Auk greinarhöfundar unnu fornleifafræðingarnir Sigurður Bergsteinsson og Lise Bertelsen við rannsóknina.
hjonadysjar-1Við rannsókn komu fyrst í ljós tvær smásteinahrúgur rétt undir yfirborði, um 3 x 1,5 m að ummáli hvor um sig, og var um 1 m á milli þeirra. Hér voru greinilega fundnar tvær grafir sem í upphafi höfðu verið þaktar steinhnullungum. Í efri lögunum voru margar smávölur sem vegfarendur hafa kastað í dysina um leið og þeir áttu leið framhjá, en samkvæmt gamalli þjóðtrú var það talið geta komið í veg fyrir óhöpp að henda þremur steinum í dys þegar farið var framhjá henni í fyrsta sinn.

Arnarnes

Litla-Arnarnes- bæjarstæði.

Undir neðsta steinalaginu var beinagrind og vantaði á hana höfuðkúpu og þrjá hálsliði. Hendur lágu yfir magann. Fætur voru krosslagðir. Gröfin, sem lá frá norðvestri til suðausturs, var 1,62 m löng og um 0,7 m þar sem hún var breiðust, mjókkaði til austurs og var um 0,4 m breið til fóta. Hún hafði upphaflega verið grafin niður um hálfan metra.

Fyrstu dauðadómar sem heimildir eru til um frá Kópavogsþingi, og sem jafnframt eru elstu rituðu heimildir um þingstaðinn, er frægur tylftardómur frá 1. júní 1523 yfir Týla Péturssyni. Týli sem var fyrrverandi hirðstjóri á Bessastöðum, hafði tvívegis snúið aftur til Bessastaða, tekið hirðstjórann Hannes Eggertsson til fanga um skeið, rænt fé úr Bessastaðakirkju og sköttum konungs. Eftir að hann hafði verið tekinn fastur og dæmdur var hann leiddur „austur yfir Bessastaði“ þar sem hann var hálshöggvinn ásamt syni sínum, þar sem kallaðist Týlshóll síðan.
hjonadysjar-2Greinarhöfundi er ekki kunnugt um legu Týlshóls. Af orðalagi heimilda má ætla að hann hafi verið í túni austan Bessastaða, en þar er ekkert slíkt örnefni varðveitt. Líklegra má telja að þeir feðgar hafi verið teknir af lífi á Kópavogsþingstað og dysjaðir þar. Hinrik Kules var þýskur maður sem dæmdur var til dauða og tekinn af lífi á Kópavogsþingstað, þann 23. febrúar árið 1582, fyrir að hafa drepið Bjarna Eiríksson á Bessastöðum á jólanótt. Talið hefur verið að Kules hafi verið dysjaður efst á Arnarneshæð, vestan við gamla veginn og mun þar lengi hafa mótað fyrir gróinni dys. Árið 1664, þann 25. janúar, var Þórður Þórðarson dæmdur til dauða í Kópavogi fyrir þjófnað á verslunarvarningi. Systir hans Guðrún kærði dóminn á Alþingi 1665. Í athugasemd með afskrift af dómnum sem færður er í alþingisbók 1666 kemur fram að Þórður hafi verið hengdur.
Í desember 1677 voru maður og kona dæmd fyrir sams konar afbrot. Árið 1703 voru tveir flökkuþjófar dæmdir til dauða og hengdir. Að lokum er þess getið að Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir hafi verið dæmd og tekin af lífi á Kópavogsþingi árið 1704.
Ekki hef ég fundið fleiri heimildir um dauðadóma sem framfylgt hefur verið á Kópavogsþingstað en þessa 10 einstaklinga sem hér voru taldir upp að framan.
Kópavogsþingstaður var fluttur til Reykjavíkur árið 1753 og þá er hlutverki hans lokið. Eftir því sem næst verður komist virðast að minnsta kosti 4 karlmenn hafa verið hálshöggnir og 4 hengdir á þeim tíma sem þingstaðurinn var í notkun. Ein kona virðist hafa verið hengd og einni var drekkt.
Enda þótt það komi ekki fram af fornleifafræðilegum rökum, má telja líklegast að konunni hafi verið drekkt í Kópavogslæk.
Breikkun Hafnarfjarðarvegar við Kópavogslæk og rannsókn á dysjunum þar hefur orðið til þess að rifja upp fornt sakamál.

Heimild:
-Laugardaginn 23. mars, 1996 – Lesbók Morgunblaðsins, bls. 6-7, eftir Guðmund Ólafsson.

Kópavogur

Kópavegur – Þinghóll og nágrenni skv. fornleifaskráningu Kópavogs.

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnesskjól

Í Hraunsnesi.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan „inn“ í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Vogaréttin

Vogaréttin ofan Réttartanga vestan Voga var um tíma lögrétt fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurbændur. Réttin sést glögglega á loftmyndum frá árinu 1954. Eftir það á tilteknu tímabli virðist hún hafa horfið af yfirborðinu, án nokkurra athugasemda.

Vogarétt

Vogaréttin um 1950.

Í örnefnaslýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir: „Upp af Moldu voru Vogaréttir. Voru þar lögréttir fyrir Strandar-, Rosmhvalanes-, Hafna- og Grindavíkurfjárbændur.“

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir: „Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin.“

Skammt norðvestar á tanganum má enn sjá leifar enn eldri réttar í fjöruborðinu og dregur tanginn mjög líklega nafn af henni. Sjórinn hefur sópað henni burt að mestu.

Vogarétt

Vogaréttin – mynd Sigurðar Inga Jónssonar, sem staðsetur réttina fyrrverandi af nákvæmni.

Í leit að upplýsingum um Vogaréttina svaraði Sigurður Ingi Jónsson: „Ég reyndi að stilla saman gömlu loftmyndinni og annarri frá 2019 og fæ ekki betur séð en að malbikað hafi verið yfir réttina (sjá mynd)“.

Vogarétt

Vogarétt. – Hér er mynd af leifum Vogaréttarinnar gömlu suður á Flötunum milli Voga og Stapans. Myndin er af skátamóti þar í júlí 1971 og græna hertjaldið er í almenningnum og svo sést móta fyrir dilkunum nær okkur sem línum í jarðveginum og svo virðist vera hleðsla við klettana hér næst, enda var réttin byggð utan í klettahól. Grjótið var tekið á sínum tíma í hafnargerð í Vogum (SG).

Sesselja Guðmundsdóttir bætti við: „Já, byggingar Vogalax fóru yfir hana ca. 1983. Búið var að taka grjótið úr henni í hafnargerð að mig minnir. Nýja réttin á Ströndinni var byggð og tekin í notkun 1956“ [ofan við Hlöðunes].
Meira um „Hlöðunesréttina“ (Strandarréttina/Vogaréttina) síðar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Voga.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Voga.

Vogaréttin

Vogaréttin – loftmynd frá 1954 (t.v.) og loftmynd frá 2021.

Þorbjarnastaðarauðimelur

Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum ofan við Straum að Þorbjarnarstöðum. Gamall vegur liggur frá Keflavíkurveginum að þessum gamla bæ í Hraunum.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði.

Þar sem Keflavíkurvegurinn kemur niður og yfir tjarnirnar ofan við Straumsvík (gegnt Gerði) má enn sjá minjar hinnar fyrstu vegagerðar sjálfrennireiðarinnnar er tengdi saman byggðalög hér á landi. Einnig má sjá veglegar veghleðslur yfir gjár og jarðföll í gegnum hraunið vestan við Rauðamel, en eftir það má segja að hið gamla handbragð hinna gömlu vegargerðarmanna á Keflavíkurveginum hverfi. Þetta er því dýrmætur vegspotti þegar horft er til verndunar þessara tegunda minja.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Þeir eða þau okkar, sem fyrir alvöru spá og spegulera í gömlum minjum, spyrja sig iðurlega spurninga s.s.: a) hvað eru raunverulegar fornminjar?, b) fyrir hverja eru fornminjarnar? og c) hverjir eiga forminjarnar? Segja má að fornminjar séu áþreifnanleg mannanna verk er tengja okkur nútímafólkið við fortíðina, þ.e. forfeður okkar. Þess vegna eru fornminjarnar fyrir okkur, afkomendur þessa fólks. Og það erum við, sem eigum fornminjarnar. Þær eru okkar verðmætu tengsl við fortíðina. Sú staðreynd að framtíðin byggist á fortíðinni gera minjarnar ómetanlegar nútíðinni.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Gengið var um þvottastíginn að tóttum Þorbjarnastaða (fóru í eyði um 1939). Tóftir Þorbjarnastaða eru ekki einungis meðal verðmæta vegna þess að þær eru einu ummerkin eftir hinn dæmigerða íslenska torfbæ, heldur og vegna þess að þær segja sögu þess fólks, sem þar lifði og bjó. Tóftirnar eru einnig, því miður, ágætt dæmi um þörfina á auknum áhuga og dug fulltrúa fólksins í bænum um gildi og nýtingu fornminja. Nóg um það í bili.

Gengið var frá heimaréttinni, framhjá bæjarstæðinu, hinum dæmigerða íslenska torfbæ með burstum mót suðvestri og matjurtargarði framan við, yfir heimatúnsgarðhleðslurnar og yfir Alfaraleiðina og að Þorbjarnastaðaréttinni, stundum nefnd stekkurinn, undir hraunhól nokkru sunnan við bæinn, austan Miðdegishóls, eyktarmarks frá bænum. Um er að ræða stóra hlaðna rúningsrétt. Í henni er heilleg lambakró, sem bendir til þess að hún hafi verið notuð sem stekkur.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Alfaraleiðinni var fylgt spölkorn til norðurs, að Gerði. Gengið var ofan við tjarnirnar. Þar sjást mannvistarleifar, s.s. hlaðin bryggja til ullar og fatalafraþvotta. Vatn leysir þar undan hrauninu. Frá tóftum bæjarins var sveigt til vinstri þar til komið er á Gerðisstíg, sem er merktur með lágum stikum. Stígurinn liggur um Hólaskarð milli Hólanna, sem eru á hægri hönd, og lágrar hraunhæðar á vinstri hönd með strýtumyndaðri vörðu. Leiðin liggur um Stekkjatúnið í áttina að Seljahrauni. Þar breytir stígurinn um nafn og nefnist Seljahraunsstígur þar sem hann liggur í gegnum þunna, illfæra hraunspýju sem hefur tafið för manna og búfjár áður en slóðin var rudd í gegnum hrauntunguna. Gengið er samsíða vestari brún Kapelluhrauns í áttina að línuveginum og farið yfir hann í áttina að Rauðamelsklettum.

Efri-Hellar

Efri-Hellar; hraunkarl.

Gengið er framhjá Neðri-Hellum, ágætum fjárskjólum með hleðslum fyrir. Handan þeirra er námasvæði þar sem Þorbjarnarstaðarauðamelur stóð áður fyrr. Nú er ekkert sem minnir á Rauðamelshóla eins og þetta kennileiti var stundum nefnt. Náman er sem flakandi sár í landinu og umgengnin engum til sóma.

Stígurinn liggur áfram til suðausturs í áttina að Rauðamelsrétt. Auðveldast er einfaldast að taka stefnuna á hús Skotveiðifélags Hafnarfjarðar sem stendur á brún Kapelluhrauns, sem kallast reyndar Bruninn þegar hingað er komið. Vestan hússins gengur lítill hraunrani fram úr Brunanum út á Flárnar. Í þröngum krika norðan ranans stendur lítil fallega hlaðin rétt úr hraungrjóti.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Brún Kapelluhrauns var fylgt til suðurs uns komið var að Efri-hellum, gamlir fjárhellar. Við hraunina gnæfir hraundrangur í mannsmynd. Hann minnir á að við hellana hefur löngum þótt reimt. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Þar hefur einnig þótt reimt, einkum fyrrum. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.

Gengið var til vesturs frá hliði við Krýsuvíkurveg að skógræktarsvæði SR skammt sunnan við rallykrossbrautina.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Eftir u.þ.b. 10 mín. göngu eftir ruddri braut var beygt til suðurs inn á rudda braut áleiðis að Brunntorfum. Hægra megin við enda hennar, á mosahraunkantinum, er Þorbjarnarstaðafjárborgin, hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Með borginni að utanverðu liggja steinar sem og í hrúgum allt í kring. Hana hefur greinilega átt að hlaða hærra en þegar skilið var við hana fyrir rúmlega einni öld.

Vorrétt

Vorréttin.

Stafnes

Eftirfarandi frásögn séra Gísla Brynjólfssonar um „Básendaför á björtum degi“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978:
Miðnesið fyrr og nú
Basendar-220„Þennan dag er hópur á ferð um Suðurnes, eða þann hluta þeirra, sem áður hét Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur = rostungur) og náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjólgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.
Fyrir tveim öldum
Basendar-223Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á björtum degi þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. — Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt“ varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.

Verzlunarsvæðið
Basendar-224Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði aö undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó ekki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.

Fámennur staður
Basendar-225Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.

Handa mús og maur
Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum“. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Basendar-227Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum. Þrír fræðimenn Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar. Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.“
Basendar-229Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið“. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja.
Basendar-231Lýsing V.G. – Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn. fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. —
Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum.
Lýsing M.Þ. – Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.“ — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stóísvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.

Nöfnin og náttúran
Basendar-233Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.

Búseta á Básendum
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vunnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.

Basendar-235

Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.

Básendaflóð
Basendar-239Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga“ mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúövíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki“ og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.

Ræningjarnir dönsku
Stafnes-226Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja.
Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker: Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för, en betri samt en björg að sækja í Básenda vör. Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað.
Og allir kannast við kvæði Gríms „Bátsenda þundarinn“ um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó“.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks: Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt en — skörungur var hann í gerð og yfir rummungum reiddi hann hátt réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Brynjólfsson – Básendaför á björtum degi, 9. júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.