Eldgos

Það er kominn tími á eldgos„, sagði Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfæðingur hjá ISOR í viðtali Guðna Einarssonar blaðamanns mbl.is, þann 5. mars árið 2021. “ Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi, að mati Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings hjá ÍSOR – Íslenskum orkurannsóknum.“

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Eldgos hófst síðan í Geldingadölum á Fagardalsfjalli þann 19. sama mánaðar. Gosið var upphaf hrinu eldgosa, fyrst í fjallinu og nágrenni og síðan ofan Grindavíkur, á svonefndri Sundhnúksgígaröð. Þegar þetta er skrifað í lok sept 2025 hafa hrinurnar orðið tólf talsins, þar af níu á Sundhnúksgígaröðinni.
Hér verða af þessu tilefni rifjað upp nefnt viðtal sem og tvö önnur sambærileg við sérfræðinga á sviði jarðfræðirannsókna í aðdraganda eldgosahrinunnar.

Eldgos við Fagradalsfjall hófst, sem fyrr segir, þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall 2022.

Þann 3. ágúst árið 2022, rúmum tíu mánuðum eftir að eldgosinu við Fagradalsfjall lauk opnaðist um 300 metra löng sprunga við norðanverða Meradali, við norðurenda hrauns sem rann 2021, og nálægt Meradalahnjúkum. Jarðskjálftahrina var vikurnar áður og 3 dögum áður var skjálfti upp á 5,5 nálægt Grindavík. Sprungan sem opnaðist var lengri og gosið öflugra en í síðasta gosi þegar það hófst. Hún þéttist í nokkur gosop og einn aðalgíg fyrstu vikuna. Gosið stóð í um 18 daga.

Sundhnúkseldar eru eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis. Kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023 og stór kvikugangur myndaðist í nóvember.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin 2020.

Nú hafa orðið níu sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur.

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja Grindavíkurbæ, Svartsengisvirkjun og aðra innviði.

Eldgos

Yfirlit Sundhnúkagígagosanna fram til 16.07.2025.

Í visir.is þann 5. október 2018 hafði Kristín Ólafsdóttir skrifað; „Reykjanesskagi „kominn á tíma“ og búast má við eldgosi hvenær sem er“ eftir viðtal við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing.

„Eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga, að sögn Þorvalds Þórðarsonar, eldfjallafræðings, sem rannsakað hefur náttúruvá á svæðinu undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsfólki sínu. Þorvaldur segir mikilvægt að hægt sé að bregðast við og meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi. Viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.

Eldgos

Eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur unnið að reiknilíkani vegna jarðvár á Reykjanesi undanfarin þrjú ár og fékk hópurinn nýlega viðbótarstyrk frá Evrópusambandinu til áframhaldandi starfa. Þorvaldur hefur unnið að verkefninu frá upphafi, ásamt Ármanni Höskuldssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur og hópi meistaranema. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingar rýna í gögn. Taldar eru verulegar líkur á því að eldgos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð.

Þorvaldur segir í samtali við Vísi að verkefnið felist fyrst og fremst í því að setja saman svokallaða „verkfærakistu“ fyrir eldgosavá. Þannig verði jarðfræðileg gögn notuð til að leggja mat á vána á ákveðnum svæðum. Hópurinn hefur einblínt á Reykjanesskagann og vinnur að því að meta hvar á svæðinu er líklegast að gjósi.

„Þó svo það geti orðið eldgos á Reykjanesskaga þá er ekki þar með sagt að það muni endilega gjósa hvar sem er. Það eru meiri líkur á að það gjósi á ákveðnum stöðum sem tengjast jarðfræðilegu uppbyggingu svæðisins, eldstöðvakerfum og þar sem síðast kom upp gos,“ segir Þórarinn. Úrvinnslu gagnanna er svo hægt að nota á marga vegu, til að mynda við skipulag á byggð.

„Og að sjálfsögðu getur þetta líka hjálpað okkur við að undirbúa okkur betur undir það hvernig á að bregðast við eldgosum.“

Reykjanesskagi

Kort af vesturhluta Reykjanesskaga sem sýnir heit svæði (rauð) þar sem mestar líkur eru taldar á eldsuppkomu í náinni framtíð. Einnig eru sýndir helstu byggðarkjarnar svæðisins (Heimild: MS-ritgerð Þóru B. Andrésdóttur, 2018).

Þá hefur verið unnið að gerð svokallaðra hermilíkana sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraun flæðir í tilteknu gosi, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að búa til viðbragðsáætlun í samræmi við þessar upplýsingar. Þorvaldur segir hópinn vilja koma á fót vefsíðu, þar sem upplýsingarnar og gögnin yrðu aðgengileg opinberum aðilum á borð við Almannavarnir, Veðurstofuna og fulltrúa sveitarfélaga.

Vinna hópsins á Reykjanesskaga er að nokkru leyti almenns eðlis en ýmislegt hefur þó komið í ljós um eldvirkni og jarðhræringar á svæðinu. Þorvaldur segir til dæmis að verulegar líkur séu á því að hraungos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð. Ákveðnir staðir á Reykjanesi eru þó líklegri í því samhengi en aðrir.
„Þeir staðir sem við teljum vera heitasta, miðað við þau gögn sem við höfum notað, eru staðir þar sem hafa orðið gos nýlega. Við höfum skoðað tvö tímabil. Annars vegar sögulega tímann og svo förum við þrjú þúsund ár aftur í tímann,“ segir Þorvaldur.
Heitu svæðin á sögulegum tíma eru að sögn Þorvaldar alveg úti á Reykjanesi, þ.e. „hælnum“ á Reykjanesskaga, en þar voru til dæmis gos á 9. og 13. öld. Þá eru heit svæði við Svartsengi, í Krýsuvík, nánar tiltekið í Ögmundarhrauni og Kapelluhrauni, og í Bláfjöllum.

Eldgos

Gos á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Kort frá Þorvaldi sem sýnir eldsupptök á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Tölurnar gefa til kynna gosárið. Eldar í sjó undan Reykjanesi eru líklegir til þess að mynda sprengigos sem getur dreift gjósku og eldfjallagösum yfir stóran hluta Reykjanesskagans.

„Jarðhræringar á svæðinu allra síðustu ár hafa verið mest úti í sjó, út af Reykjanesi. Þá getum við fengið sprengigos, eða öskumyndandi gos. Slíkt gos gerði líka á þrettándu öld og bjó til gjóskulag sem heitir Miðaldalag og nær frá Reykjanesi og upp í Hvalfjörð, og ríflega það, og fór yfir Reykjavík.“

Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og hefur töluverð eldvirkni verið á svæðinu á nútíma. Virknin er lotubundin og gengur yfir á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það gæti byrjað að gjósa eftir 50 ár – eða á morgun.

„Í flestum tilfellum eru þetta hraungos og þau virðast koma í ákveðnum hrinum sem við köllum elda. Þessir eldar standa yfir í um tíu til þrjátíu ár og í þeim eru nokkur gos.

Þorvaldur Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Þetta er ekki samfelld virkni heldur er kannski pása í hundrað ár og svo byrjar aftur að gjósa. Þessar syrpur, þ.e. hrinur af eldum, þær virðast ganga yfir í bylgjum og koma á sirka átta hundruð til þúsund ára fresti og standa þá yfir í um fjögur hundruð ár,“ segir Þorvaldur.

Langt er síðan síðasta eldahrina varð á Reykjanesskaga og því er gert ráð fyrir að von sé á gosi á svæðinu í náinni framtíð, hugtak sem þó ber að fara gætilega með í jarðvísindum.

„Besta leiðin til að útskýra það, og svo geta menn dregið sínar ályktanir, er að það eru um átta hundruð ár síðan síðustu eldar voru á Reykjanesskaga.

Eldgos

Reykjanesbraut – Skaginn er þakinn hrauni (Brunntjörn/Urtartjörn við Straum).

Og svona hrinur koma á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það má því alveg búast við eldgosi. Við vitum ekki nákvæmlega tímann en það virðist vera, miðað við það sem við þekkjum, að þá er Reykjanesskaginn „kominn á tíma“, eins og sagt er. Það geta náttúrulega liðið 50 ár þangað til næsta gos kemur en það gæti líka orðið á morgun.“

„Við yrðum sennilega vör við óróa á svæðinu, skjálfta og annað, kannski vikum eða mánuðum áður en eitthvað skeður. En þegar kemur að gosi þá er nú sennilega ekki meiri viðvörun en upp í sólarhring, og hugsanlega styttra. Þegar við vitum að það er að koma gos, og að það verður á tilteknum stað, þá eru það einhverjir klukkutímar sem við höfum til að vinna með. Þá þurfum við að geta okkur til um hvernig gos það verður og nota hermilíkanið til að segja fyrir um hvert hraunið eða askan fer, og bregðast þá við samkvæmt því.“

Eldgos

Hraunflæði á Sundhnúkagígaröðinni 2024.

„Þegar hraungos byrjar þá er oft mestur gangur á þeim í byrjun, þá flæða hraunin hraðast og þau geta farið nokkra kílómetra á klukkustund og eyðileggja allt sem fyrir þeim verður. Ef þetta kemur mjög nálægt byggð eða mannvirkjum þar sem fólk er þá þarf að koma því burtu einn tveir og þrír, þú hleypur ekkert undan þessu,“ segir Þorvaldur.

„Ef verður öskufall, hvort sem það afmarkast við ysta hluta Reykjanesskagans eða nær alla leið til Reykjavíkur, þá myndi það loka flugvöllum í einhvern tíma. Gjóskufall getur valdið skaða og óþægindum, bæði skaða á innviðum og svo er óþægilegt fyrir fólk að anda því að sér. Verulegt gjóskufall er yfirleitt fyrstu klukkutímana eða dagana, en svo kemur brennisteinsmengunin og hún getur verið viðvarandi. Það fer eftir lengd gossins og hún getur þess vegna verið til staðar í vikur og mánuði ef gosið stendur það lengi.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Byggð á Reykjanesskaga er nær öll nálægt eldstöðvakerfum á svæðinu, og það er einkum þess vegna sem gos á umræddum slóðum gætu reynst hættuleg. Þorvaldur segir þó ákveðin byggðalög berskjaldaðri en önnur í þessu samhengi.
„Þau eru öll náttúrulega mjög nálægt en þau sem eru berskjölduðust fyrir þessu eru kannski Grindavík og Þorlákshöfn. Svo eru Vogarnir, Keflavík og Reykjanesbær. Það fer líka eftir því hvort við erum að tala um hraun, ösku eða brennisteinsmengun en þessir bæir eru allir í þessari línu, svo og Reykjavíkursvæðið.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – rauðlituð nútímahraun. Þorvaldur útskýrir jarðfræðina fyrir áhorfendum í sjónvarpi.

Þorvaldur ítrekar jafnframt að höfuðborgarsvæðið sé ekki undanskilið í umræðu um hættu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga.
„Mín skilaboð eru að það er miklu betra að læra að lifa með þessu og vera undirbúinn heldur en að vera að velta því fyrir sér hvar er öruggast að búa. Því við þurfum alltaf að bregðast við þessu hvort eð er.“

Úlla Árdal ræddi við Pál Einarsson, jarðeðilsfræðing, í RÚV þann 27. janúar 2020 undir yfirskriftinni „Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga„.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeldisfræðingur.

„Jarðeðlisfræðingur segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á Reykjanesskaga til þess að hafa gos.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Skaginn liggi á flekamótum og síðasta eldgos þar hafi verið árið 1240. Frá þeim tíma hafi flekarnir færst í sundur sem útskýrir hvers vegna Reykjavík og svæðið í kring hafi sigið: „Vegna þess að flekarnir eru að færast í sundur, þá þarf náttúrulega að fylla í gatið og það er það sem eldgosin gera. Ef ekki er fyllt í gatið þá síga flekaskilin. Þess vegna sígur landið í Reykjavík og þess vegna verðum við fyrir æ verri sjávarflóðum eftir því sem tíminn líður.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fólk hugsar misjafnlega til eldgosa, í aðra röndina sé þetta skelfilegt en í hina sé eldgos vinsæl alþýðuskemmtun. Eldgos hafi ákveðið skemmtanagildi en á móti séum við minnt á það annað slagið að þetta er ekkert grín.“

Páll segir tvo staði á landinu þar sem mögulegt sé að gjósi í þéttbýli. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Reykjavík sé í sjálfu sér ekki innan hættumarka en gjósi á flekaskilunum séu byggðarlög í næsta nágrenni í hættu. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á skaganum til þess að hafa gos.“

Eldgos

Gosvirkni á Reykjanesskaga 800-1240 (M.ÁS.).

Í fyrstnefnda viðtali Guðna Einarssonar á mbl.is við Magnús Á Sigurgeirsson undir fyrirsögninni „Það er kominn tími á eldgos„, fjórtán dögum áður en fyrsta eldgosahrinan hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli, segir: „Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi. Ef það fer að gjósa þá er líklegt að það verði byrjun á löngu eldgosaskeiði,“ sagði Magnús. Kvikugangurinn sem nú er fylgst með við Fagradalsfjall tilheyrir eldstöðvakerfi sem kennt er við fjallið. Magnús segir að á því svæði hafi ekki verið mikil eldvirkni en samt séu merki um eldgamlar gossprungur frá því snemma á nútíma utan í fjallinu.
Hann skrifaði yfirlitsgrein um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga, 800-1240 e.Kr. sem birtist á heimasíðu ÍSOR (sem því miður virðist hafa horfið við endurnýjun vefsíðunnar). Með henni birtist kortið sem sýnir hvar hraun runnu á þessu gosskeiði.

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Magnús segir að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi sem raðast í stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Vestast er Reykjaneskerfið, svo eru til austurs Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill. Hann segir að þessi kerfi séu nokkuð sjálfstæð en eldvirknin færist á milli þeirra. Hvert gosskeið getur náð yfir nokkrar aldir með áratuga löngum hléum á milli eldgosa. „Það er kominn rétti tíminn fyrir eldgos. Það hafa liðið um eitt þúsund ár á milli gosskeiða og það er nánast nákvæmlega sá tími núna frá því síðasta,“ sagði Magnús. Hann hefði giskað á að ný eldgosavirknin hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu eða í Krýsuvíkurkerfinu. Það hafi gerst á síðustu gosskeiðum. Síðan færðist hún vestur eftir Reykjanesskaganum.
„Það er ekki byrjað eldgos,“ sagði Magnús um miðjan dag í gær. „Gosvirknin gæti byrjað í Krýsuvíkursveimnum eða hann farið af stað stuttu eftir að þetta byrjar við Fagradalsfjall, ef það gerist. Það er ekki langt þarna á milli,“ sagði Magnús.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Mögulega geta eldgos á Reykjanesi valdið tjóni á mannvirkjum eins og t.d. í Grindavík, í Svartsengi eða á Reykjanesi. Eldgos í sjó hafa fylgt eldvirkni á Reykjanesi og frá þeim komið aska sem hefur borist yfir land. Hún gæti haft áhrif á flugumferð en Magnús telur ólíklegt að hraungos muni gera það.
„Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk, en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni,“ skrifar Magnús í greininni á isor.is.
ReykjanesskagiSíðasta gosskeið hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og Krýsuvíkurkerfinu. Aftur gaus í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Svo gaus í Krýsuvíkurkerfinu líklega 1151. Reykjaneseldar sem stóðu yfir 1210-1240 marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs, skrifar Magnús. Yngra-Stampahraun rann frá 4 km langri gígaröð líklega 1211. Sprungugos hófst í Svartsengiskerfinu um 20 árum eftir Yngra-Stampagosið og á árunum 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Ekki hafa orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 54. tbl. 05.03.2021, Það er kominn tími á eldgos, Guðni Einarsson, bls. 6.
-https://www.visir.is/g/20181327521d/reykjanesskagi-kominn-a-tima-og-buast-ma-vid-eldgosi-hvenaer-sem-er
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/timi-kominn-a-eldgos-a-reykjanesskaga

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Garðakirkja

„Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna.“
Steinnáman var í Garðaholti ofan við kirkjuna og sjást ummerki hennar enn.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Á vefsíðu Garðakirkju má lesa eftirfarandi fróðleik:
„Garðakirkja í Görðum á Álftanesi er sóknarkirkja Garðasóknar. Kirkja hefur staðið í Görðum frá fornu fari. Garðakirkja var frá upphafi Péturskirkja en algengt var, er menn fóru að reisa kirkjur hér á landi eftir kristnitöku, að þeir helguðu kirkjur sínar Pétri postula. Máldagar greina frá, að Bessastaðakirkja sé í fyrstu talin Maríukirkja og síðar Nikulásarkirkja, og bendir það til þess, að Garðakirkja sé eldri. Í Vilkins-máldaga frá 1397, þar sem skráðar eru allar eignir kirkna í Skálholts- biskupsdæmi, vekur það sérstaka athygli, að eignir Garðakirkju eru þá þegar orðnar ótrúlega miklar, og það svo, að landaeignir hennar munu ekki hafa aukist svo neinu næmi eftir það.

Garðaholt

Garðaholt – steinnáman; loftmynd.

Í þessu felst skýr ábending um háan aldur hennar, því svo miklar eignir hlóðust ekki á kirkjur yfirleitt nema þá á all löngum tíma. Sterk rök virðast því hníga að því, að Garðar séu hin forna landnámsjörð Ásbjarnar Össurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarsonar, og jafnframt með elstu kirkjustöðum þessa lands.

Í Görðum er fæddur séra Jón Þorkelsson Vídalín (1666-1720), sem var biskup í Skálholti 1698-1720. Jón biskup Vídalín samdi “Guðrækilegar predikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll” og gaf út í húspostillu sinni, sem prentuð var fyrst á Hólum í Hjaltadal 1718-20.

Vídalínspostilla

Vídalínspostilla.

Árið 1995 var Vídalínspostilla gefin út í fimmtánda sinn, og hefur sú bók lengst, ásamt Passíusálmunum, dugað íslensku þjóðinni til guðrækilegrar iðkunar, allt þar til að húslestrar lögðust af eftir að Ríkisútvarpið tók til starfa og útvarpsmessur hófust árið 1930.

Árið 1875 vísiterar Dr. Pétur Pétursson biskup í Görðum. Þá stóð þar gömul timburkirkja í miðjum gamla hluta kirkjugarðsins og svo hrörleg orðin, að hún verður ekki talin nothæf öllu lengur að dómi biskups. Séra Þórarinn Böðvarsson, sóknarprestur í Görðum og prófastur í Kjalarnesprófastdæmi, hvatti til þess, að kirkjan yrði endurreist en ágreiningur varð um hvort byggja skyldi í Görðum eða í Hafnarfirði og náðist ekki samkomulag. Séra Þórarinn lét því árið 1879 byggja nýja kirkju í Görðum á eigin kostnað. Hann velur kirkjunni nýjan stað ofar og hærra en aðrar Garðakirkjur höfðu áður staðið og ákvað, að þessi nýja kirkja yrði gjörð af steini og var grjót til hennar tekið úr holtinu fyrir ofan kirkjuna.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson prestur; 1825-1895.

Þórarinn leggur allan sinn metnað í það, að kirkjan verði svo vönduð og vegleg sem verða má. Til marks um hve vel var vandað til alls, sem að kirkjusmíðinni laut, má geta þess, að þegar Garðakirkja var rifin, nær 60 árum síðar, sást hvergi ryðblettur á þakjárni hennar, og hafði þakið þó aldrei verið málað.

Kirkjuhúsið var hlaðið úr tilhöggnum steini, eins og fyrr er sagt.. Blámálað hvolfþak var í ferhyrndum reitum með gylltri stjörnu í hverjum reit og þótti kirkjan eitt glæsilegasta guðshús landsins á þeim tíma. Ekki hefur fundist skráð hvenær kirkjan var vígð, en trúlega var það á annan í hvítasunnu 1880.

Eftir vígslu nýrrar kirkju í Hafnarfirði hinn 20. desember 1914 er Garðakirkja lögð af sem sóknarkirkja, en kirkjulegar athafnir fóru þó fram í Garðakirkju eftir það, enda sat sóknarpresturinn, séra Árni Björnsson, prestsetrið að Görðum og flutti ekki til Hafnarfjarðar fyrr en um haustið 1928.

Garðaholt

Garðaholt og nágrenni 1903 – herforingjaráðskort.

Séra Árni kom að Görðum frá Reynistað í Skagafirði árið 1913. Hann varð prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi 1916. og þjónaði Garðaprestakalli til dauðadags 26. mars 1932.

Útfarir fóru fram öðru hverju frá Garðakirkju þegar jarðsett var í Garðakirkjugarði, einnig eftir að kirkjan var seld í nóvember 1917. og fór síðasta athöfnin fram í maí 1937.
Eftir byggingu Hafnarfjarðarkirkju var söfnuðurinn í fjárþröng. Á aðalsafnaðarfundi 31. október 1915 var smþykkt einróma að selja Garðakirkju og í apríl næsta ár er auglýst eftir tilboðum. Þrjú tilboð bárust og voru opnuð á sóknarnefndarfundi 10. maí. Hæsta tilboðið reyndist sautján hundruð krónur. Horfið var frá því að taka nokkru tilboði þar eð fundinum barst eindregin ósk frá herra Þórhalli Bjarnarsyni biskupi, sem lofaði í þess stað tvö þúsund króna láni úr almennum kirkjusjóði með veði í Garðakirkju. Sú orðsending fylgdi frá biskupi, “að hann mætti ekki til þess hugsa að hið fornmerka kirkjuhús væri niður rifið, og það því fremur, sem Garðakirkja væri minnisvarði þjóðhöfðingjans, Þórarins heitins Böðvarssonar, sem hafði byggt hana og lagt til hennar mjög stóran skerf úr eigin vasa”.

Garðar

Garðar og Garðakirkja 1910.

Á safnaðarfundi 29. október 1916 eru á ný flutt eindregin tilmæli frá Þórhalli biskupi um, að frestað yrði enn að selja Garðakirkju. Biskup hafði þá sótt um heimild stjórnarráðsins um að Garðakirkja yrði keypt af Thorchillisjóði er síðar kæmi þar upp “barnauppeldisstofnun”. Áður en stjórnarráðið svaraði þessu erindi lést biskup hinn 15. desember 1916. Hinn 21. maí 1917 ritar sóknarnefnd eftirmanni hans, herra Jóni Helgasyni biskupi langt bréf með beiðni um að málið yrði tekið upp að nýju en sú málaleitan bar engan árangur. Loks kemur að því, að Garðakirkja er auglýst til sölu öðru sinni. Hinn 11. nóvember 1917 eru tvö tilboð opnuð, hið hærra kr. 2.000 og er báðum tilboðum hafnað. Á fundinn voru komnir þeir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson og tjá sóknarnefnd að þeir og átta menn aðrir hafi bundist samtökum um að kaupa Garðakirkju, svo að hún yrði ekki rifin niður, og var tilboð þeirra kr. 2.800.

Garðakirkja

Garðakirkja 1938.

Sóknarnefnd samþykkti tilboð þeirra. Þeir aðrir, sem að kaupunum á Garðakirkju stóðu, voru: Carl Proppé, Christian Zimsen, Gunnar Egilsson, Jes Zimsen, Jón Einarsson, dr. Jón Þorkelsson, Sigurgeir Gíslason og Þórarinn Egilsson.
Árið 1938 var Garðakirkja orðin mjög illa farin og turn hennar að falli kominn. Hvorki þeir, sem eftir lifðu af eigendum hennar né sóknarnefnd töldu sér fært að gera á kirkjunni bráðnauðsynlegar endurbætur og fór svo að kirkjan var rifin næsta ár.

Svo var komið um miðja tuttugustu öldina að eftir stóð af Garðakirkju tóftin ein, þak- og gluggalaus og hinir hlöðnu steinveggir Þórarins Böðvarssonar óvarðir fyrir veðri og vindum. Kom jafnvel til tals að brjóta þá niður og flytja grjótið í fyllingu í Hafnarfjarðarhöfn.

Garðakirkja

Garðakirkja 1953.

Því menningarslysi varð þó forðað og komu konurnar í nýstofnuðu kvenfélagi Garðahrepps þar til sögunnar og ákváðu að hefjast handa og endurreisa Garðakirkju. Þær máttu ekki til þess hugsa, að þessi forni og merki kirkjustaður legðist af. Garðar höfðu skipað virðingarsess í íslenskri kirkjusögu um aldir. Meðal fyrstu verkefna Kvenfélags Garðahrepps var endurreisn Garðakirkju. Á fundi félagsins hinn 6. október 1953 voru þrjár konur, þær Úlfhildur Kristjánsdóttir, Dysjum, Ásta G. Björnsson, Reynihlíð og Ólafía Eyjólfsdóttir, Hausastöðum, kosnar í nefnd til að vinna að þessu mikla áhugamáli. Á fundi 11. október 1955 var ákveðið að bæta tveimur konum í nefndina og hlutu kosningu Sigurlaug Jakobsdóttir í Hraunsholti og Helga Sveinsdóttir í Görðum.

Garðakirkja

Garðakirkja 1960.

Á aðalfundi Kvenfélags Garðahrepps 2. febrúar 1954 var lagt fram svohljóðandi afsalsbréf fyrir kirkjunni, eða því sem eftir stóð af henni. “Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju ánafnar Kvenfélagi Garðahrepps fullan eignar- og umráðarétt á veggjum Garðakirkju.” Á sóknarnefndarfundi í Hafnarfirði hinn 25. júní 1956 leggur prófasturinn, séra Garðar Þorsteinsson, fram beiðni Kvenfélags Garðahrepps um að fá að sjá um endurreisn Garðakirkju. Fenginn var arkitekt, Ragnar Emilsson til þess að teikna endurgerð kirkjunnar. Hann jók við turni vestan við hina hlöðnu veggi, sem fyrir voru.

Garðakirkja

Garðakirkja 1966 – endurvígsluárið.

Í turninum var kyndiklefi í kjallara, anddyri með litlu skrúðhúsi og snyrtingu á fyrstu hæð, á annari hæð er söngloft, þ.e. aðstaða fyrir kirkjukór, og á þeirri hæð var byggður söngpallur inn í kirkjuna. Af sönglofti liggur hringstigi upp á milliloft þar sem geymdir eru fermingarkyrtlar o.fl. Af milliloftinu liggur svo hringstiginn áfram upp á klukknaloft, þar sem kirkjuklukkurnar eru, efst í risinu.“

Byggingarmeistari var Sigurlinni Pétursson. Hann lét flytja líparít frá Drápuhlíðarfjalli við Stykkishólm, steypti líparítið í hellur, sem hann lagði síðan um kirkjugólfið. Kvenfélagskonurnar unnu að byggingu kirkjunnar með óbilandi atorku og dugnaði á næstu árum og var Garðakirkja reist úr rústum fyrir þeirra atbeina og endurvígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.

Heimild:
-https://gardasokn.is/gardakirkja/

Garðakirkja

Garðakirkja – lágmynd Kristjönu Sampers; gjöf Kvennafélags Garðabæjar til kirkjunnar 1996. Þar með var talið að hún hafi endanlega verið endurbyggð.

Kflavíkurflugvöllur

Í Samvinnunni árið 1946 fjallar Arnaldur Jónsson um „Flugvöllinn á Reykjanesi„, þ.e. Meeksflugvöll á Keflavíkurheiði.

Suðurnes

Suðurnes – kort.

Reyndar er um meinvillu eða þekkingaleysi á staðháttum að ræða að staðsetja flugvöllinn á „Reykjanesi“ því hann er á Keflavíkurheiði, þ.e. á „Reykjanesskaga“, í landi er hafði tilheyrt ábúendum í Njarðvíkurhreppi og Gerðarhreppi. Hér um sömu meinvilluna að ræða þegar Grindavík er talið til „Suðurnesja“. Sama bábiljan endurspeglast í nýjustu auglýsingum Reykjanesbæjar um „Safnahelgi á Suðurnesjum„. En hvað um það – hér kemur frásögn Arnaldar:

Flugvöllurinn á Reykjanesi

Samvinnan

Samvinnan 1946 – forsíða.

Flestir Íslendingar munu hafa heyrt getið hins mikla flugvallar, er Bandaríkjamenn létu gera á Reykjanesskaga, en færri munu hins vegar hafa gert sér grein fyrir hvers konar risamannvirki þetta er.
Í stuttu mali má segja, að flugleiðir úr öllum áttum mætist á þesssum flugvelli. Með öðrum orðum, á flugvellinum eru krossgötur Norður-Atlantshafsins. Þegar minnzt er á flugvöllinn sjá flestir í huga sér steinsteyptar brautir, sem notaðar eru til að láta flugvélar lenda á eða hefja sig til flugs, en flugvöllur er í sjálfu sér miklu meira. Um flugvöllinn við Keflavík má segja, að hann sé ein stórkostleg vélasamstæða, þar sem hundruð sérfróðra manna vaka yfir hverjum hlut nótt og dag. Hvergi má vera autt rúm, til þesss að hið mikla tákn geti gegnt því hlutverki sínu á hvaða tíma sólarhrings, sem er, að taka við flugvélum, sem koma svífandi utan úr himingeimnum úr öllum áttum eða leggja þaðan til flugs til fjarlœgra landa handan við höfin. Við skulum nú litast um á flugvellinum og í nágrenni hans.

Völlurinn og umhverfi hans

Varnarsvæði

Varnarsvæðið – uppdrátturinn fylgir umfjölluninni til skýringa.

Flugvöllurinn liggur á Keflavíkurheiði. Ná sumar brautirnar nálega þvert yfir Reykjanesskagann, milli Keflavíkur og Hafna. Brautirnar eru 4, og skerast þær allar nær öðrum endanum, nokkru utan við miðju. Vísa brautarendarnir í allar höfuðáttir, svo að unnt er fyrir flugvélar að lenda og taka sig upp á vellinum í hvaða vindátt, sem er. Er þetta einn höfuðkostur flugvallarins, en auk þess er þarna mjög rúmgott, lítið um fjöll í næsta nágrenni og því auðvelt fyrir flugvélar að ná eðlilegri hæð, án þess að tefla í nokkra tvísýnu.
Lengd hverrar brautar er geisimikil. Til samanburðar fyrir þá, sem þekkja flugvöllinn við Reykjavík, munu brautir þessa vallar vera að minnsta kosti helmingi lengri. Utan með því svæði, sem sjálfar rennibrautirnar liggja á, eru flugvélavegir í hálfhring kringum völlinn. Báðum megin við þennan veg eru upphlaðnar tóftir fyrir um 80 flugvélar af stærstu gerð og auk þesss allmargar tóftir fyrir minni vélar. Þessar tóftir munu aðallega hafa verið gerðar fyrir styrjaldarþarfir, þegar fjöldi risaflugvéla var geymdur á vellinum vikum saman í margs konar tilgangi, en auk þess er mjög hentugt að hafa þessi byrgi, hvenær sem þörf er á að geyma margar flugvélar á vellinum, t. d. fyrir nætursakir. Sjálfar eru rennibrautirnar steinsteyptar og ofan á steininn hefur verið sett mjúkt malbikslag. Undirstaða vallarins er traust — hin aldagömlu brunahraun Reykjanesskaga.

Í „turninum“

Varnarsvæði

Varnarsvæðið á Miðnesheiði – einstök hverfi (campar).

„Turninn“ er eins konar heili þesssa mikla mannvirkis. Þaðan er allri umferð á vellinum stjórnað. Frá honum er haft samband við veður og loftskeytastöðvar vallarins. Þaðan er enn fremur haft stöðugt þráðlaust samþand við flugvélar, sem eru á leiðum sínum einhvers staðar í loftinu. Sumar eru vestur á Atlantshafi, á miðri leið milli Íslands og Ameríku, aðrar eru suður við Skotland og enn aðrar austur við Noregsstrendur. Flugvélunum eru gefnar leiðbeiningar um veður og önnur flugskilyrði, og jafnframt fá þeir, sem í „turninum“ vinna, vitneskju um, hvernig flugvélunum gengur, í hvaða hæð þær fljúga og hvernig veðrið er á þeirra slóðum.
Mest af þeim byggingum, sem tilheyra þessum hluta flugvallarins, eru neðanjarðar, aðeins „turninn“ sjálfur er ofanjarðar. Í þessari byggingu eru margbrotnar vélar sem tugir sérfræðinga vinna við allan sólarhringinn.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn.

Í miðri turnbyggingunni er talsvert stór salur. Á veggjunum hanga stór landabréf. Sum eru af Íslandi, þar sem svæðið kringum Reykjavík er sérstaklega merkt, en það er raunverulega það veðursvæði, sem sérstaklega kemur flugvellinum við. Einnig eru þar veðurkort af norðanverðu Atlantshafi, og sýna þau Jægðir þær, sem daglega eru að sveima á hafinu hér fyrir vestan og austan landið.
Að öðru leyti er þessi salur notaður til að gefa flugmönnum, sem leggja frá vellinum, leiðbeinigar. Áður en þeir leggja af stað, safnast þeir saman í þessum sal. Þeir skoða veðurkortin og setja sig inn í veðurskilyrðin. Síðan eru þeim gefnar fyrirskipanir um, í hvaða hæð þeir eigi að fljúga. Er þeim gefin mismunandi hæð, sem þeir verða að halda sig í alla leiðina, til hvað lands, sem þeir kunna að fara. Er þetta gert til að forðast árekstrarhættu á leiðunum. Að öðru leyti eru þeim gefnar fyrirskipanir og upplýsingar, sem allar miða að sem mestu öryggi flugvéla og farþega á leiðinni.

Veðurstöðin

Keflavíkurflugvöllur

Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna undirrituðu samning haustið 1946 sem kvað á um um brottför Bandaríkjahers, sem þá taldi einungis um 1.000 menn sem störfuðu við rekstur Keflavíkurflugvallar. Samningnum sem jafnan er nefndur Keflavíkursamningurinn veitti Bandaríkjastjórn heimild til þess að nota flugvöllinn til millilendingar herflugvéla á leiðinni til og frá Evrópu í tengslum við hersetuna í Þýskalandi. Flugvellirnir og önnur mannvirki urðu eign Íslendinga eins og til stóð en Bandaríkjastjórn stóð áfram straum af rekstrarkostnaði flugvallarins sem hlaut nafnið Keflavíkurflugvöllur.

Ekkert er eins mikilvægt fyrir flugmanninn og nákvæmar upplýsingar um veður á þeim leiðum, sem hann flýgur. Veðrið er hans aðal glímunautur, hvort sem flogið er að nóttu eða degi, yfir haf eða land. Af þessum sökum hafa allir fullkomnir flugvellir á að skipa færustu mönnum í veðurfræði, sem vinna til skiptis nótt og dag. Meeks-flugvöllurinn hefur díjög fullkomna veðurstöð. Þar eru tugir veðurfræðinga að störfum nætur og daga að reikna út og fylgjast með hinu breytilega og dutlungasama veðri Norður-Atlantshafsins og í næsta nágrenni flugvallarins. Veðurstöðin er í stöðugu sambandi við „turninn,“ sem eins og áður er sagt, sendir stöðugar fregnir um veður og veðurhorfur til ótölulega margra flugvéla, flugvalla og veðurstöðva á ströndum meginlandanna beggja megin Atlantshafsins. Er þessi þáttur í rekstri hins mikla flugvallarmannvirkis einn sá mikilvægasti, enda krefst hann mikils fjölda sérfræðinga og stöðugrar árvekni

Miðunarstöðvar

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur og umráðasvæði hersins frá einum tíma til annars.

Við flugvöllinn eru tvær mjög fullkomnar miðunarstöðvar, sem eru þáttur í hinu margbrotna leiðsögukerfi flugvallarins. Einnig við þessar stöðvar vinna eingöngu sérfræðingar. Verður að vera þar á varðbergi allan sólarhringinn.
Starfræksla þessara tækja er mjög mikilvæg ekki síður en annarra þátta þess margbrotna vélakerfis, sem tilheyrir flugvellinum. Mjög er algengt nú orðið að fljúga fyrir ofan veður og ský. Það hjálpar þó ekki, Þegar lenda skal á flugvellinum. Þessar stöðvar eru því ómissandi á flugvellinum til að hjálpa flugmönnum til að finna völlinn og rennibrautirnar. Stundum er skýjahæðin lítil og skammt niður í gegnum dimmviðrið, niður á völlinn. Í öðrum tilfellum er skýjahæðin mikil og erfitt að komast í höfn. Verða Þá mennirnir, sem stjórna miðunarstöðvunum, að vera þeim vanda vaxnir að leiða flugvélarnar farsællega gegnum dimmviðrið inn á flughöfnina. Það er í alla staði ábyrgðarmikið starf. Getur þar oft verið Urn hf eða dauða að tefla.

Viðgerðarverkstœðin

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugskýli.

Þær byggingar, sem hæst ber á flugvellinum, eru hin risavöxnu verkstæði, þar sem fullkomnustu tæki eru til að gera við flugvélar og allt, sem þeim tilheyrir. Verkstæði þessi eru tvö, og vinna tugir manna í hvoru fyrir sig. Eru þeir allir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Þar á meðal eru vélaviðgerðarmenn, menn, sem gera við móttöku- og loftskeytatæki og sérfræðingar í mörgum öðrum greinum. Öryggi loftflutninganna hvílir ekki hvað sízt á starfsmönnum þessarar deildar vallarins. Mikið er undir því komið, að vélar og skeytatæki flugvélanna séu í öruggu lagi. Á því byggist líf og afkoma flugáhafnar og farþega.

Rauðu-Krossstöðvarnar
KeflavíkurflugvöllurVilji svo illa til, að eitthvað beri út af hjá flugvél, er annað hvort er að lenda eða að hefja sig til flugs, er nauðsynlegt að vera við slíkum óhöppum búinn, þótt þau komi nú sjaldan fyrir. Fyrir þessu er líka vel séð á flugvellinum. Á stað, þar sem komast má svo að segja að hvaða rennibraut vallarins, sem er, á broti úr mínútu, hefur hjálparstöð vallarins bækistöð sína. Þar eru læknar og hjúkrunarkonur til taks allan sólarhringinn. Enn fremur sjúkrabifreiðar með sérstaklega æfðum mönnum, sem hafa mikla leikni í því, að komast örskjótt á slysstaðinn. Þetta er mjög nauðsynlegt af þeim sökum, að slík slys ber venjulega að höndum með ofsahraða, og eina lífsvonin getur
oft verið sú, að unnt sé að koma þeim, sem í slysinu hafa lent, til hjálpar um leið og það á sér stað. Eins og áður er sagt, eru slíkir atburðir orðnir mjög fátíðir nú, en fullkimin flughöfn lætur á ekkert skorta til að gera öryggið fyrir loftfarendur sem mest að öllu leyti.

Birgðastöðvar

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – A.T.C.

Hin stóru flugvélabákn, sem fljúga yfir heimshöfin, þurfa auðvitað mikið eldsneyti. Það segir sig hins vegar sjálft, að því meira eldsneyti sem flugvélin hefur meðferðis, því minna getur hún flutt af öðrum þunga. Flugvöllurinn við Keflavík hefur ómetanlega þýðingu í þessum efnum. Vegna þess, að unt er að koma við á íslandi og taka þar forða á leiðinni yfir heimshöfin, geta flugvélarnar flutt fleiri farþega og meiri farangur, og um leið verður flugið ódýrara. En það þýðir hins vegar, að alltaf verður að vera mikið af birgðum við völlinn fyrir flugvélarnar. Hver flugvél, sem þangað kemur, tekur meiri eða minni birgðir. Það þarf því mjög mikið starfslið við birgðadeild vallarins eina saman, eins og allar hinar deildirnar. Sumir þeirra eru sérfræðingar, sem hafa mikla æfingu í að fara með olíur og hina risavöxnu „tanka,“ sem tilheyra vellinum, en aðrir, sem við þetta vinna, eru verkamenn.

Lýsing vallarins og viðhald

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur.

Vegna hinnar miklu úrkomu, sem er yfirleitt á þeim slóðum, sem völlurinn er á, er viðhald vallarins vinnufrekt.
Komið hefur verið upp grjótnámu mikilli við völlinn. Er þar malað grjót og haft tilbúið annað það efni, sem þarf til að endurbæta malbikslagið á vellinum. Hvergi má vera hola eða misfella svo nokkru nemi á rennibrautunum. Slíkt getur orsakað óhöpp og jafnvel stórslys.
Nauðsynlegt er að hafa fullkomna lýsingu á vellinum fyrir þær flugvélar, sem koma og fara að næturlagi. Er völlurinn að nokkru leyti lýstur með ljósum á jörðu, en auk þess með mjög sterkum kastljósum. Þarf að sjálfsögðu sérfræðinga við kastljósin.

Ferðamannaþjónustan

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur við verklok Bandaríkjahers 1943.

Enn er ótalinn mjök mikilvægur þáttur í starfrækslu flugvallarins, en það er sú almenna þjónusta, sem nauðsynleg er fyrir ferðamenn, er þangað koma á öllum tímum sólarhringsins. Sú þjónusta er mannfrek og krefst mikils tilkostnaðar, ef hún á að vera viðunandi. Skal ekki farið lengra út í þá sálma að sinni.
Það ætti hins vegar öllum að vera ljóst af þeim atriðum, sem hér hefur verið drepið lauslega á að framan, að hin mikla flughöfn við Keflavík er ekkert venjulegt fyrirtæki á íslenzkan mælikvarða og þótt víðar væri leitað. Það er haft eftir manni, sem mjög var kunnugur rekstri vallarins, að ekki væri unnt að reka völlinn, svo í lagi væri á friðartímum, með minna en 600—700 manns. Það mun láta nærri, að svo sé. Flest af þessum mönnum eru sérfræðingar í sinni grein. Að sjálfsögðu verður svo að vera. Það má hvergi vera veila í hinu stórfenglega flugvallarbákni, ef það á að geta verið hlutverki sínu vaxið í framtíðinni, að vera eins konar vegamót Norður-Atlantshafsins.“

Heimild:
-Samvinnan, 2. tbl. 01.02.1946, Flugvöllurinn á Reykjanesi, Arnaldur Jónsson, bls. 40-42.

Meeks-flugvöllur

Meeks-flugvöllur og Patterson – AMSkort.

Þingvellir

Í Morgunblaðinu árið 2018 má finna skrif Einars Á.E. Sæmundsen um „Þingvelli, friðun og fullveldi„. Þingvellir skipa sérstakan sess í hjarta íslensku þjóðarinnar. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fjallar hér um mikilvægi staðarins í sjálfstæðisbaráttunni.

Einar E.Á. Sæmundsen

Einar E.Á. Sæmundsen.

„Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Með stofnun Alþingis um árið 930 urðu Þingvellir að einum mikilvægasta samkomustað landsins. Eftir að formlegu þinghaldi lauk árið 1798 urðu Þingvellir að hljóðum stað utan alfaraleiða.
[Reyndar er þetta ekki alveg rétt. Saga Íslendinga endurspeglast hvergi betur en í minjum þeim sem skilgreina má sem leifar liðinna kynslóða um land allt, frá upphafi byggðar til vorra daga. Að skilgreina Þingvelli sem miðdepil alls athafna- og mannlífs í landinu í gegnum tíðina verður að teljast svolitla þröngsýni].
Kröfur um aukna sjálfstjórn til handa Íslendingum og heimsóknir erlendra ferðamanna færðu Þingvöllum nýtt hlutverk í samfélaginu að loknu þinghaldi. Erlendir ferðamenn, sem komu til Þingvalla, undruðust og dáðust að landslagi og söguminjum um leið og þeir fengu fyrirgreiðslu hjá presti og fólki hans á Þingvöllum. Lýsingar ferðamanna rötuðu á ferðabækur og komu Þingvöllum á kortið sem fyrsta ferðamannastað landsins.

Kristján VIII

Kristján VIII Danakonungur.

Á sama tíma náðu straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu til Íslendinga. Við það fengu Þingvellir táknrænt hlutverk í þjóðlífinu þar sem saga Alþingis á þjóðveldisöld var sett fram í ræðum og ritum. Fjölnismenn settu fram kröfur um að endurvekja Alþingi á Þingvöllum. Úr varð þó með konungsúrskurði Kristjáns VIII, um stofnun þings á Íslandi, að endurnýjað Alþingi kom saman í húsi Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí 1845. Þrátt fyrir það urðu Þingvellir að mikilvægum fundarstað þar sem kjörnir fulltrúar mættu til hvatningarfunda allt til ársins 1907, til knýja á um meiri réttindi Íslendingum til handa. Þingvellir festust í sessi sem mikilvægur staður til að fagna merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar eins og afhendingu stjórnarskrárinnar 1874 á völlunum skammt norðan við Öxará. Á síðari hluta 19. aldar fjölgaði gestum á Þingvöllum og var því gistihúsið Valhöll reist skömmu fyrir aldamótin norðanvert á þingstaðnum forna.

Þingvellir 1907

Heimsókn Friðriks VIII til Þingvalla 1907.

Heimsókn Friðriks VIII konungs til Íslands í ágúst 1907 var stórviðburður sem hafði mikil áhrif vegna allra þeirra framkvæmda sem fylgdu heimsókninni víða um land en einnig vegna þess samningaferlis sem hófst í kjölfar konungsheimsóknarinnar og átti eftir að leiða til fullveldis Íslands 1918. Heimsókn konungs var ekki án gagnrýni. Árið 1907 birtist fyrsta skrif þar sem fjallað var um nauðsyn þess að friða Þingvelli og aðra staði. Í grein sinni „Um verndun fagurra staða og merkra náttúruminja“ í Skírni fjallaði Matthías Þórðarson fornminjavörður um nauðsyn þess að friða merka staði landsins og ritar:

Þingvellir

Almannagjá.

„Fyrst og fremst má nefna Almannagjá alla og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará,– er ekki getur kallast sögustaður alt eða talist til fornmenja“.
Síðar í grein sinni nefnir hann að vegagerð hafi spillt Almannagjá og söguminjum þar. Hann fjallaði um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum. En vegurinn var kominn um Almannagjá og greiddi leið gesta til Þingvalla. Fleiri ferðamenn komu og vinsældir Þingvalla jukust jafnt og þétt. Fyrsti helgaráfangastaður ferðamanna utan Reykjavíkur var orðinn að veruleika en slæm umgengni varð viðvarandi.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá frá vestri til austurs.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson kennari grein í Eimreiðina sem ýtti hugmyndum um friðun Þingvalla úr vör. Honum blöskraði umgengnin og ritaði: „Náttúrufegurð og sögufrægð Þingvalla gæti ekki verið höfð í jafnlitlum metum hjá neinni menningarþjóð, eins og raun er á, nema Íslendingum einum.“
Guðmundur hafði kynnt sér hugmyndir um þjóðgarða erlendis og lýsti þeim: „Þjóðgarðarnir eru friðhelgir reitir. Engum er leyft að deyða þar nokkra skepnu, né skemma jurtagróðurinn. Náttúran fær algerlega að njóta sín, óspilt af hálfu mannsins og alidýra hans. Þjóðgarðar þessir eru flestir þjóðeignir og opinberir skemtistaðir almennings, – „til gagns ok gleði fyrir þjóðina“, eins og komist er að orði um þjóðgarðinn fræga í Bandaríkjunum.“

Þingvellir

Þingvellir við Öxará ásamt „allra þjóða gestum“.

Niðurstaða Guðmundar var skýr en hann ritaði að „Þingvellir við Öxará væri sá staður, sem framar öllum öðrum stöðum hér á landi ætti skilið að vera gjörður að þjóðgarði Íslands.“
Í grein sinni lýsti hann ýmsum hugmyndum varðandi framtíðarnýtingu svæðisins, mögulega stærð og hvaða áhrif friðunin myndi hafa. Í lokin nefnir hann að til að varðveita Þingvelli sem best á 1.000 ára afmæli Alþingis árið 1930, sem þó voru enn 17 ár í, væri best að friðlýsa svæðið sem þjóðgarð.
Greinin vakti athygli og var gagnrýnd. En fræjum var sáð með þessari hugvekju Guðmundar og á næstu árum fóru fram umræður um framtíð Þingvalla og hugmyndir um þjóðgarð.

Þingvellir

Þingvellir 1944.

Sumarið 1918 voru samningaviðræður á lokastigi um fullveldi Íslands. Sunnudag einn í júlí gerði samninganefnd Dana og Íslendinga um fullveldissamninginn hlé á vinnu sinni og fór í dagsferð til Þingvalla. Þrátt fyrir kalsalegt veður gengu þeir um vellina og virtu fyrir sér söguminjar staðarins og nutu veitinga í Konungshúsinu skammt neðan við Öxarárfoss. Var glatt á hjalla og komið seint til baka til Reykjavíkur.
Líklega má telja að þessi einfalda heimsókn samninganefndarinnar til Þingvalla hafi verið eina beina tenging Þingvalla við samningagerðina um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku sem tók gildi 1. desember 1918. Þrátt fyrir það var saga og ímynd Þingvalla alltaf Íslendingum hvatning til að vinna að sjálfstæði Íslands áratugina á undan.
Rúmum aldarfjórðungi síðar, þann 17. júní 1944, urðu Þingvellir meginvettvangur stærsta atburðar í nútímasögu Íslands þegar sambandinu við Danmörku var slitið og stofnað sjálfstætt lýðveldi á Lögbergi að viðstöddu fjölmenni.“

Heimild:
-Morgunblaðið 01.12.2018, „Þingvellir, friðun og fullveldi, Einar Á.E. Sæmundsen, bls. 16.

Þingvellir

Þingvellir – íslenski ríkisfáninn að húni á Lögbergi.

Hálogaland

Við göngustíg skammt vestan gatnamóta Skeiðarvogs og Gnoðarvogs er skilti um „Íþróttahúsið Hálogaland„. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Hálogaland

Hálogaland 1963.

„Fyrsta húsið sem hét Hálogaland var íbúðarhús byggt 1930 þar sem nú er bílastæði á milli blokkanna Sólheima 25 og 27. Á þeim tíma, fyrir seinni heimsstyrjöldina, var þetta svæði austan þéttbýlis Reykjavíkur og sóttust einstaklingar sem vildu stunda ræktun og búrekstur eftir að búa þar. Húsið brann árið 1972.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Árið 1940 var hluti Laugardals og nærliggjandi svæða leigður hernámsliði Breta og síðar Bandaríkjamanna. Þar risu heilu braggahverfin og einnig stór skáli sem setuliðið notaði sem íþróttahús, bíó og samkomusal. Skálinn var nefndur Andrews Memorial Field House í minningu Frank M. Andrews hershöfðingja sem fórst í flugslysi við Fagradalsfjall 1943. Í daglegu tali var skálinn kallaður Hálogaland. Skálinn var vígður í nóvember 1943.

Hálogaland

Loftmynd frá 1960. Á henni má sjá bæði íþróttahúsið Hálogaland og húsið Hálogaland sem stendur milli blokkanna í
Sólheimum 25 og 27.

Íþróttahúsið Hálogaland stóð hér, þar sem nú eru gatnamót Skeiðarvogs og Gnoðarvogs. Á stríðsárunum stunduðu hermenn þar körfubolta og aðrar íþróttir og lánuðu húsið einnig íslenskum íþróttafélögum. Jafnframt voru haldnar í húsinu ýmsar samkomur. Í september 1944 hélt söng- og leikkonan Marlene Dietrich til að mynda tónleika fyrir bandaríska hermenn og gesti þeirra í húsinu og einnig mun gamanleikarinn Bob Hope hafa komið hér fram á skemmtun um svipað leyti.
Í styrjaldarlok keypti Íþróttabandalag Reykjavíkur skálann af setuliðinu og var hann eftir það kallaður Hálogaland. Húsið varð nú miðstöð handknattleiks í landinu og vettvangur allra helstu kappleikja innahúss fram á 7. áratuginn, þegar Laugardalshöll tók við því hlutverki. Á tímabili var Hálogaland einnig íþróttahús Vogaskóla og notað undir guðsþjónustur fyrir Langholtssöfnuð.
Skálinn var rifinn árið 1970.“

Hálogaland

Loftmynd af Reykjavík árið 1946, séð til vesturs frá Elliðavogi. Fremst er braggahverfið Camp Monmouth og þar fyrir ofan, vestar, Hálogalandskampur, þar sem íþróttahúsið stóð.

Sléttuhlíð

Sumarið 1925 úthlutaði fasteignanefnd Hafnarfjarðar fyrstu lóðunum fyrir sumarbústaði í Sléttuhlíð ofan bæjarins, þeim Jóni G. Vigfússyni og Magnúsi Böðvarssyni með skógrækt á svæðinu að markmiði.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð fyrir 100 árum – bústaður Jóns Gests.

Um svipað leyti hófst skógræktin á svæðinu. Með henni hófst ræktun og uppgræðsla í annars niðurbitnum hlíðunum sem var því að miklu leyti ógróin þegar fyrstu bústaðirnir risu, en eitthvað var um kjarrlendi í hraunhvammi í norðurenda hlíðarinnar. Árið 1941 voru girðingar settar upp sem hjálpuðu mikið til við uppvöxt gróðurs þar sem fjárbeit var enn almenn.
Kringum 1940 fjölgaði eftirspurn eftir landi fyrir sumarhús og var þá úthlutað nokkrum lóðum. Árið 1950 bættust einnig nokkur sumarhús við eftir að vatsnveitan var leidd í stokk.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust 2025.

Á svæðinu er einnig að finna gróðurspildur, kallaðar Landnemaspildur sem hefur verið úthlutað til einstaklinga eða félagasamtaka sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur haft umsjón með.
Þarna hefur í áranna rás vaxið upp myndarlegt skógræktarsvæði með tilheyrandi sumarhúsbyggð. Landnemaspilduum umhverfis var fyrst úhlutað árið 1979 og svo aftur um 1990 og má í dags sjá dæmi um árangurinn.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – haust 2025.

Skipulögð skógrækt í Sléttuhlíð hófst (skrifað 2025) fyrir sléttum 100 árum. Skv. því eru að lögum allar fyrrum mannvistaleifarnar á svæðinu frá þeim tíma orðnar að fornleifum. Í dag er öll hlíðin skógi vaxin og haustlitirnir, sem endurspegla nú upphafsins, er bæði táknmál vonar og fyrirheitar. Hvergi er fegurrðin meiri í umdæmi Hafnarfjarðar á haustin – og þótt lengra væri leitað. Mörg mannanna handverk má sjá í hlíðunum, sem aldrei hafa verið skráðar á blað sem slíkar.
Sjá meira um Sléttuhlíð HÉR og HÉR  – og auk þess MYNDIR.

Sléttuhlíð

Sléttuhlíð – bústaður Jóns gests 2025.

Vífilsstaðahlíð

Í hundrað ára afmælisblaði Vífilsstaðaspítala árið 2010 er m.a. fjallað um vörðuna „Gunnhildi“ á Vífilssstaðahlíð. Varðan er skammt frá steyptu skotbyrgi frá stríðsárunum sem þar er.

Gunnhildur

Gunnhildur.

„Vistfólk á Vífilsstöðum hlóðu þessa vörðu í Vífilsstaðahlíð fyrir ofan Vífilsstaðavatn og nefndu Gunnhildi. Skýring á nafngiftinni er ekki einhlýt en varðan var notuð sem eins konar hreystipróf. Gæti sjúklingurinn gengið óstuddur að Gunnhildi þótti ljóst að hann væri á batavegi.
Garðabær hefur komið upp fræðsluskilti í námunda við Gunnhildi fyrir fólk sem leggur leið sína í Vífilsstaðahlíð til að njóta útsýnis þar.
Skammt frá vörðunni er skotbyrgi frá síðari heimsstyrjöldinni. Á tímaili kölluðu fáfróðir eða gamansamir menn vörðuna „Gunhill“, en sú nafngift lagðist fljótlega af aftur.“
Varðan hefur verið „hlaðin“ smám saman á fyrri hluta síðustu aldar. Reyndar getur Gunnhildur varla talist til vörðu því hún er miklu fremur grjóthrúga, líkri dys, sem í hefur verið kastað steinum í gegnum tíðina.

Heimild:
-Vífilsstaðir, Sagan í 100 ár 1910-2010, Gunnhildur í Vífilsstaðahlíð, bls. 30.

Gunnhildur

Gunnhildur – Vífilsstaðaspítali fjær.

Vífilsstaðavatn

Við vestanvert Vífilsstaðavatn eru fjögur skilti; upplýsingaskilti, fiskaskilti, fuglaskilti og blómaskilti. Á hinu fyrstnefnda má lesa eftirfarandi:

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – friðlýsing.

„Vífilsstaðavatn og nágrenni var friðlýst sem friðland 2. nóvember 2007. Markmiðið með friðlýsingunni er að friða og vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að auka útivistargildi svæðisins. Með friðlýsingunni er almenningi tryggður réttur til að njóta ósnortinnar náttúru til framtíðar.

Lífríki friðlandsins
Friðlandið er um 188 hektarar að stærð og þar af er vatnið 27 hekarar. Fá vötn á Íslandi hafa jafn fjölskrúðugt lífríki og Vífilsstaðavatn. Lindarvatnið er hreint og ómengað. Hér hefur náttúran fengið að þróast nánast óáreitt. Seiðum hefur aldrei verið sleppt í vatnið.

Fiskar
Í vatninu er meðal annars bleikja, urriði, áll og hornsíli. Hornsílin í vatninu eru óvenju smávaxin, flest minni en 5 cm. Árið 2002 fundust kviðgaddalaus hornsíli í vatninu. Þau eru einstök í íslenskri náttúru og hafa einungis fundist á örfáum stöðum í heiminum. Hornsílin í Vífilstaðavatni varpa nýju ljósi á þróunarsögu hryggdýra.

Fuglar

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – fuglaskilti.

Álft, grágæs og ýmsar endur, eins og skúfönd, stokkönd og toppönd, setja mikinn svip á vatnið frá vori fram á haust og hinn skrautlegi flórgoði verpir hér. Sinfónía sumarsins er síðan fullkomnuð af mófuglum í kjarrinu og mólendinu kringum vatnið þar sem mest ber á þúfutittlingi, skógarþresti og hrossagauki. Til að tryggja náttúrlegt jafnvægi er mikilvægt að gefa fuglum ekki brauð eða annað fóður. Þannig er einnig dregið úr hættu á ofauðgun og því að óæsklegir fuglar laðist að vatninu.
Á varptíma 15. apríl til 15. ágúst er öll umferð utan stíga óheimil í friðlandinu.

Gróður

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – gróðurskilti.

Gróðurfar er fjölbreytt, mólendis- og mýrargróður ásamt fjölbreyttum trjágróðri.

Nafnið Vífilsstaðavatn?
Vífill var leysingi Ingólfs Arnarssonar, landnámsmanns, annar tveggja þræla sem fann öndvegissúlur hans og fékk Vífill frelsi fyrir. Hann byggði bæ sinn að Vífilsstöðum.

Gunnhildur í Vífilsstaðahlíð
Gunnhildur er varða sem berklasjúklingar hlóðu uppi á Vífilsstaðahlíð. Það var talið mikið batamerki ef berklasjúklingar á Vífilsstöðum komust upp að vörðunni án þess að hósta upp blóði. Slóðin upp að Gunnhildi er kölluð Heilsustígur.
Skammt frá vörðunni er skotbyrgi frá síðari heimstyrjöldinni. Útsýnisskilti er í námunda við Gunnhildi, þaðan er víðsýnt í um 100 m hæð yfir sjó.

Trjálundurinn Bakki

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – fiskaskilti.

Bakki tengist sögu berklasjúklinga á Vífilsstöðum. Hörður Ólafsson, sjúklingur á Hælinu, fékk leyfi til að girða af reit í hlíðinni norðaustan við VVífilsstaðavatn. Afkomendur Harðar eiga nú Bakka sem er opinn göngufólki til að njóta fjölbreyttra trjátegunda og ekki síst fuglalífs svo sem stara sem koma í flokkum til næturdvalar.

Umgengni
Útivistarstígurinn umhverfis vatnið er um 2.6 km langur og tekur um 40 mínútur að ganga hann. Göngum vel um náttúruna og vinnum ekki spjöll á henni né skiljum eftir rusl. Óheimilt er að spilla náttúrlegu gróðurfari, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum og öðrum náttúrminjum í friðlandinu. Kveikið ekki elda né á grillum.

Hundar

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – örnefni.

Samkvæmt samþykkt um hundahald skulu hundar alltaf vera í taumi og ávallt skal fjarlægja saur eftir hunda.
Öll umferð hunda er bönnuð í friðlandinu á varptíma frá 15. apríl til 15. ágúst.

Umferð vélknúinna ökutækja í friðlandinu er aðeins leyfð á vegum vegna þjónustu við friðlandið. Allar siglingar eru óheimilar á friðlýstu vatniu. Engin tjaldstæði eru í friðlandinu. Veiði er heimil í Vífilsstaðavatni á tímabilinu 1. apríl til 15. september. Veiðileyfi fæst með veiðikortinu.

Vífilsstaðavatn

Vífilsstaðavatn – upplýsingaskilti.

Þingvellir

Árstíðirnar eiga sérhver sínar dásemdir.

Þingvellir

Þingvellir – haustlitir.

Veturinn getur á stundum verið hálfleiðinlegur, en á eflaust sína vandfundni kosti. Vorið byrjar jafnan með birtingu lífssteinanna undan klakabrynju vetrarins sem og opinberun vetrarblómsins í takti við ris sólarinnar. Sumarið gefur og jafnan tilefni til nýrra uppgötvana í stöðugum litablómatilbrigðum þess dásamlega landslags er okkur hefur verið gefið – og er öllum ætlað.

Þingvellir

Þingvellir – haustlitir.

Haustlitaferð á Þingvelli í lok september eða í byrjun októbermánaðar ár hvert ætti í raun að vera hverjum sæmilegum náttúruunnanda áhugavert viðfangsfeni.
FERLIRsfélagar hafa regluglega lagt leið sína á Þingvöll á nefndum árstíma og jafnan notið litatilbrigði náttúrunnar – líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum á myndavefsíðu www.ferlir.is

Þingvellir

Þingvellir – haustlitir.

Krýsuvík

Gengið var upp á Bæjarfell og skoðaðar einstakar jarðmyndanir, en í viðræðum við Jón Jónsson, jarðfræðing, á heimili hans fyrir skömmu sýndi hann hvar þær var að finna. Norðan undir Bæjarfelli, skammt vestan varnargarðs, má sjá tótt af húsi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjárskjól í Bæjarfelli.

Komið var við í fjárhellinum sunnan í fellinu og gengið eftir garðinum að Arnarfelli. Skoðaður var Arnarfellsbærinn og haldið umhverfis fellið. Norðan þess var gengið fram á stekk, sem ekki var áður vitað um.
Þá var haldið til Grindavíkur og leitað að Dýrfinnuhelli. Hann fannst vestan Skipsstígs norðvestan Lágafells. Um er að ræða fallegan, stóran, rúmgóðan skúta, en lágan.

Skipsstígur

Skúti vegagerðarmanna við Skipsstíg.

Skammt frá er hellisskúti þar sem hlaðið hefur verið fyrir vestara opið. Greinilegt er að vegagerðarmenn hafa notað skútann eftir að Dýrfinna hafði flúið í hraunið undan Tyrkjunum á sínum tíma. Skipsstígurinn hefur einhverra hluta vegna verið uppgerður sem vagnfær á u.þ.b. 300 metra kafla, einmitt á þessum stað. Hann hefur verið breikkaður og hlaðinn upp eins og honum hafi þá verið eitthvert ákveðið framtíðarhlutverk í samgöngusögunni. Grindjánar geta aðspurðir ekki útskýrt þessar framkvæmdir. Líklegt má telja að vegaframkvæmdin hafi verið í tengslum við atvinnubótavinnuna skömmu eftir aldamótin 1900.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – vegavinnubúðir á Gígæð.

Þá hafi Grindvíkingar viljað sníða samgöngukerfið að hestvagninum eða jafnvel tilkomu sjálfrennireiðarinnar, en verið horfið frá því einhverra hluta vegna. Kannski vegna fjárframlags ríksins, sem kom til nýja (Gamla) vegarins árið 1913 og síðan var lagður frá Stapanum til Grindavíkur á árunum 1914 til 1918.

Haldið var inn í hraunið og svo merkilega vildi til að  þá fannst eftirfarandi, sem ekki var vitað að væri til á svæðinu; hátt upphlaðið skjól eða aðhald.

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur – skjól í hrauninu gegnt Svartsengi.

Á öðrum stað hlaðið hús undir kletti og á fjórða staðnum hlaðnir skjólgarðar. Líklega tengist þetta hlöðnu húsunum, sem fundust fyrir skömmu, en þau eru á milli annarra mannvirkja, sem fundist hafa að undanförnu. Frá því fyrsta til þess síðasta, eru um 5-6 km. Ákveðið hefur verið að fara skoða svæðið kerfisbundið á næstunni þegar frost er í jörðu, en þá er auðveldast að ganga um mosahraunin. Leita þarf nánari fróðleiks um hugsanleg mannvirki á þessu svæði. (Um var að ræða upphafið að leitinni að vegavinnubyrgjunum við Gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1914-1918).
Frábært útivistarveður, logn, sól og hlýindi.

Dýrfinnuhellir

Dýrfinnuhellir.