Nes

FERLIR hefur skráð 93 grjóthlaðnar refagildrur á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru þessar gildrur fornar og eiga í grunnin rætur að rekja til þess fólks er fyrst byggði landið.  Gildrurnar lögðust að mestu af eftir að byssan kom til sögunnar. Upp frá því voru hlaðin skjól fyrir refaskyttur víðs vegar í hraunum, holtum og hæðum, svonefnd skotbyrgi. Ummerki þeirra má sjá víða enn í dag. Oft var um að ræða fáfarnar hleðslur til skjóls í nágrenni við greni, en einnig lögðu menn á sig að hlaða vegleg byrgi því oftar en ekki lágu grenjaskyttur úti á grenjum svo dögum skipti.

Refagildrur

Refagildrur – yfirlit.

Í Sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1944, er “Refagildru á Látrum” lýst. Hún segir meira en nokkuð annað um hvernig veiðitæknin var frá upphafi vega:”Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi fjarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði. sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal. og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
„ . . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hana. Hún er þessi:

1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi, yfir áminnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar – og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.”
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar, heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það.”

Heimild:
-Sunnudagsblað Þjóðviljans, 5. tbl. 16.02.1944, Refagildran á Látrum, bls. 53.

Refagildra

Refagildra – umfjöllun í Reykjavíkurpóstinum 1847; Fréttir, bls. 27-28.