Dysjar hinna dæmdu III – Þorgauts-/Þorgarðsdys
Í uppgraftarskýrslu um „Dysjar hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi„, sem fram fór árið 2019, má t.d. lesa eftirfarandi:
Útdráttur
Grafið var í meinta dys, Þorgautsdys/Þorgarðsdys, á Arnarnesi í Garðabæ í júlí 2019. Uppgröfturinn var hluti af rannsóknarverkefninu „Dysjar hinna dæmdu“. Markmið uppgraftarins var að ganga úr skugga um hvort um dys væri að ræða. Eftir að grjóthrúgan var afhjúpuð og grafnar í hana fjórar könnunarholur sem náðu niður á jökulruðning var ljóst að í henni voru engar mannsvistarleifar. Því var ályktað að ekki væri um dys að ræða heldur geti grjóthrúgan hafa verið landamerki eða orðið til við túnhreinsun og að þjóðsaga hafi spunnist út frá henni.
Forsaga rannsóknar
„Markmið verkefnisins er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi frá 1550–1830 hérlendis. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita beina eða dysja á þeim. Með því að grafa upp suma þeirra má varpa frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Loks verða aftökurnar settar í sögulegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Dysin sem hér er fjallað um hefur ýmist verið kölluð Þorgarðsdys og Þorgautsdys en talið var að þar væri dysjaður afbrotamaður sem tekinn var af lífi á Kópavogsþingi.
Dysin er nefnd í Landamerkjalýsingu fyrir þjóðjörðinni Arnarnesi í Garðahreppi sem Gísli Sigurðsson skráði. Þar er einnig vitnað í Landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar segir: „Inn með Nesinu að norðan liggur að því Kópavogur. Inn með nesinu eru nokkrir stórir steinar í fjörunni, nefnast Bæjarsteinar, af hverju sem það nú er. Nokkru þar fyrir innan, spöl uppi í holtinu, er Gvendarbrunnur, lind sem Guðmundur biskup góði á að hafa vígt. Frá brunninum rennur Brunnlækurinn til sjávar. Þar enn innar með fjöru er svo Arnarneskot, Arnarnes gamla eða Arnarnes litla. Ofan til við það er dys, nefnist Þorgautsdys. Þar var réttaður þjófur, og gekk hann mjög aftur og var lengi á ferli í Seltjarnar- og Álftaneshreppum.“
Gísli telur að Þorgautur, sá sem dysin hefur gjarnan verið kennd við, hafi verið þjófur sem var réttaður. Nafnið Þorgautur kemur þó hvorki fram í Alþingisbókum né Annálum Íslands 1400-1800 í tengslum við aftökur. Hins vegar er vitað að fjölda dauðadóma, fyrir hin ýmsu brot, var framfylgt á Kópavogsþingi og því ekki ólíklegt að dysjar sakamanna sé að finna á þessu svæði. Ekki langt frá dysinni sem hér um ræðir gróf Guðmundur Ólafsson upp svokallaða Hjónadys árið 1988 og fann þar beinagrindur karls og konu sem greinilega höfðu verið tekin af lífi (Guðmundur Ólafsson 1996). Raunar eru fleiri meintar dysjar afbrotamanna í Kópavogi og nefnir Gísli Sigurðsson tvær dysjar auk Þorgautsdysjar, þ.e. Kulhesdys og Þormóðsdys: „Þarna liggur um holtið Hafnarfjarðarvegurinn. Á háholtinu vestan hans er stór þúfa, og liggur alfaraleiðin rétt hjá. Hér er Þormóðsleiði eða Þormóðsdys. Enn vestar er svo Kulhesleiði eða Kulhesdys. Þormóður var dæmdur á Kópavogsþingi til lífláts fyrir þjófnað, en Kulhes, þýzkur maður, dæmdur þar fyrir mannvíg. Vó mann, íslenzkan, á Bessastöðum.“
Í grein sinni „Nokkrar Kópavogsminjar“, sem birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1929, tekur Matthías Þórðarson Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen tali árið 1926 en hún var fædd árið 1855 í Kópavogi og uppalin þar til 19 ára aldurs (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 29).
Þuríður nefnir áðurnefnda dys og kennir hana við mann að nafni Þorgarður sem getið er um í þjóðsögum. Matthías veltir fleiri tilgátum fyrir sér en telur í öllu falli líklegast að hún sé dys afbrotamanns: „Neðar [en Kulhesdys], á norðanverðum hálsinum. Kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388-91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá að sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi.
Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaksmál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita.“ (Matthías Þórðarson, 1929, bls. 30).
Þorgautsdys/Þorgarðsdys er auk þess skráð í skýrslunni Fornleifaskráning Arnarnes í Garðabæ frá árinu 2018 eftir Ragnheiði Traustadóttur. Þar er oft vitnað í báðar fyrrnefndar ummfjallanir. Í skráningarskýrslunni eftir Ragnheiði segir einnig að Guðmundur Ólafsson hafi skráð staðinn árið 1983 fyrir Þjóðminjasafn Íslands og talið að um Þorgarðsdys væri að ræða. Skýrsla um skráningu Guðmundar var aldrei gefin út en gögnin nýttust við skráninguna árið 2018. Ragnheiður skráði Þorgautsdys/Þorgarðsdys sem dys eða legstað og sagði hana líklegri til að vera dys en hinar tvær, Þormóðsdys og Kulhesdys, vegna þess að staðsetning þeirra í fyrri skráningu virðist vera tóft og fuglaþúfa.“
Niðurstaða
„Eftir að komist var niður á jökulruðning í öllum fjórum holunum sem grafnar voru í grjóthrúguna, án þess að leifar dysjaðrar manneskju hefðu fundist, var áætlað að hér væri ekki um dys að ræða. Þrátt fyrir að það hafi verið örlítil vonbrigði er það áhugaverð útkoma.
Þessi grjóthrúga hefur verið talin vera dys síðan vel fyrir aldamótin 1900, ef marka má frásögn Þuríðar Guðmundsdóttur Matthíansen: „Vert er að nefna það að fyrir nokkrum árum síðan var lagður hjólastígur yfir Arnarneshæðina og niður í Kópavog en hann var sveigður fram hjá dysinni. Ef til vill getur þessi grjóthrúga hafa myndast eftir túnhreinsun og út frá henni spunnist þjóðsaga um Þorgaut/Þorgarð. Venjan var að landamerki eins og vörður væru nálægt þjóðleiðum og að ferðalangar bættu við grjóti í þær á leið sinni fram hjá. Það sama átti við um dysjar sem hafðar voru nálægt alfaraleið til áminningar og viðvörunar. Því getur verið að upphaflega hafi hrúgan verið landamerki eða myndast eftir túnhreinsun og síðan hafi steinum verið bætt á af ferðalöngum árum saman og þannig orðið til þessi stóra sennilega hrúga.“
[Framangreind niðurstaða þarf ekki að koma svo mikið á óvart; nánast engin kum eða dysjar, sem getið er í lýsingum Íslandsbyggðar hvað fyrrum landnámsmenn varðar, hafa átt við rök að styðjast hingað til].
Heimild:
-Dysjar Hinna dæmdu – uppgröftur á Þorgauts-/Þorgarðsdys á Arnarnesi, Reykjavík 2019.