Eiði – selstaða Reykjavíkur?

Reykjavík

Eftirfarandi er hluti greinar Árna Óla í Lesbók Morgunblaðsins 1967 undir yfirskriftinni „Þegar Reykjavík eignaðist Eiði.“

Eidi-222

Eiði 1967.

„Glöggskyggnir fræðimenn telja, að Nes við Seltjörn muni vera fyrsta býlið, sem byggðist úr landi Reykjavíkur. Verða þó ekki fundnar neinar beinar heimildir þar um, því að saga Ness er öll í móðu og mistri fram eftir öldum, eins og saga Reykjavíkur sjálfrar. Þar er varla um annað að ræða en bendingar í fornum máldögum og landamerkjabréfum. En sé þessar bendingar athugaðar rækilega, virðast þær sýna, að Nes sé ekki miklu yngra en Reykjavík, og hefði jafnvel getað heitið landnámsjörð, þó hennar sé ekki getið í Landnámu. Nokkuð eru skiptar skoðanir um, hve stórt skuli telja Seltjarnarnes. Sumir telja, að það takmarkist af línu, sem hugsast dregin milli Kirkjusands ytra og Fossvogs, en aðrir segja að það nái inn að Elliðaám og að línu dreginni úr Blesugróf niður að Fossvogi. Hér skakkar því, að sumir telja lönd Laugarness, Klepps og Bústaða til Seltjarnarness, aðrir ekki. Hér skal ekki lagður neinn dómur á hvort réttara sé, en vegna efnis þessarar greinar er handhægara að fylgja hinum þrengri takmörkunum, og því verður hér miðað við það, að Reykjavík og Nes hafi skipt öllu Seltjarnarnesi á milli sín. Allt bendir til þess, að sú skipting hafi farið fram skömmu eftir að Ingólfur settist að í Reykjavík. Landamerkin lágu þvert yfir nesið þar sem það var lægst og einna mjóst. Þar var Eiðistjörn á landamerkjunum nyrzt og síðan tók við mómýri, sem seinna hlaut nafnið Kaplaskjólsmýri. Og þarna þvert yíir nesið hefir þá verið hlaðinn voldugur landamerkjagarður, svo að Nesland þyrfti ekki að verða fyrir átroðningi af öðrum. Það mun hafa verið forn siður í Noregi að hlaða landamerkjagarða, og elzti landamerkjagarður á Íslandi mun hafa verið þessi garður þvert yfir Seltjarnarnesið. Hann hefir verið bæði hár og þykkur, því að enn sást móta fyrir honum austan við Lambastaði árið 1879. Þessi garður hefir að sjálfsögðu verið hlaðinn þegar eftir að Nesi var úthlutað fremra hluta nessins.

sel - teikning-5

Selshús.

Vera má, að nafnið á vestasta býlinu í Reykjavík geti að vissu leyti borið vitni um aldur hans. Býli þetta hét Sel og hafði verið gefið fyrstu kirkjunni í Reykjavík og talið 10. hndr. að dýrleika Nafnið bendir til þess, að þar hafi upphaflega verið sel frá Reykjavík, en landamerki þess að vestan voru hin sömu og landamerkin milli Reykjavíkur og Ness. Líklegt má telja, að þarna hafi verið fyrsta selstaða Reykjavíkur, og er staðsetning hennar einkennileg að því leyti, að hún skuli vera rétt við landamerkin milli Reykjavíkur og Ness. Gæti það ef til vill bent til þess, að nesinu hefði verið skipt áður en selið var reist og landamerkjagarðurinn þegar verið hlaðinn. „Ekkert verður um það sagt, hvenær selstaða þessi hefir fyrst verið tekin upp, en selið gæti vel verið frá fyrstu tímum byggðarinnar“, segir Ólafur prófessor Lárusson í grein um hvernig Seltjarnarnes byggðist (Byggð og saga bls. 100).
Nú er það vitað, að landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið í búskaparháttum að hafa í seli, og þess vegna er líklegt að Reykjavíkurbóndi hafi fljótlega komið sér upp selstöðu. — Ef þessar tilgátur eru réttar, þá má sjá, að engin fjarstæða er að kalla Nes landnámsjörð, enda þótt hún sé byggð úr landi Reykjavíkur.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla, „Þegar Reykjavík eignaðist Eiði“, 5. febr. 1967, bls. 1.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.