Einar Kr. Einarsson – Gatan mín IV
Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3.febrúar 1973.
„Þú hefur rakið fyrir okkur, Einar, helstu stórviðburði hér í byggðalaginu sem þú mannst eftir, þá sem ollu aldarhvörfum, síma, útvarpi, vegakerfinu og öðru. En ef við víkjum nú að daglegri önn fólksins hér. Þar sem við erum staddir horfum við yfir víkina. Þar er heldur tómlegt um að lítast þessa stundina. Örlar varla á steini, eins og þeir segja hérna í Grindavík. Einhvern tímann hefur sjálfsagt verið líflegra um að litast hér ef við horfum aftur í tímann?“
„Já, það er sléttur sær hérna í dag og ef við horfum hérna yfir Víkurnar örlar hvergi við stein og alls staðar hægt að lenda, en því verður ekki neitað að sjórinn hefur gefið mikið, Grindvíkingum og þjóðinni allri, en hann hefur líka heimt sína fórnir, sína tolla. Og hér á þessu svæði hafa örlög ráðist á mjög skammri stundu.
Það breyttust mikið aðstæðurnar eftir að Slysavarnarfélag Íslands kom til sögunnar og með þeim tækjum sem það bjó björgunarsveitunum með því það var oft mjög erfitt að ná sambandi úr landi við strandmenninna. Björgunarsveitin Þorbjörn var stofnuð 29. janúar 1928 og u.þ.b. fjórum mánuðum seinna þá gekk hún undir sína eldvígslu því þá bjargaði hún af frönskum togara sem strandaði hér austur af Hrauni að ég held 38 mönnum. Það gekk ákaflega fljótt og vel og örskömmum tíma eftir að síðasti maðurinn var dreginn í land dróst skipið út af skerinu níður í mikið dýpi og sást varla á það meira.
Nú þegar við lítum hérna niður í víkina fyrir framan okkur og vestur með landinu þá hefur þessi strönd margar sögur að geyma og sumar þungar. Mér dettur t.d. í hug þegar færeyska skútan Anna fra Tofte fórst hér. Það var 4. apríl 1924. Þá voru menn hér á gangi hér við sjóinn og urðu varir við rekald í fjörunni, spýtnabrak, tuskur, flattan fisk og það leyndi sér ekki að skip hafði farist. Og þegar að nánar var að gætt fundust strax hér lík þetta fyrsta kvöld. Og hér nokkru vestar með ströndinni þar var svo úti í brimgarðinu skipsflak sem reyndist vera af færeyskri skútu, sem hét Anna frá Tofte í Færeyjum.
Þarna fórust allir mennirnir, nóttina áður, án þess að nokkur hefði hugmynd um. Næstu daga var gengið á fjörur og þeir dánu fluttir til byggða eftir því sem þá rak. Það var ákaflega þungt yfir þessa daga. Og svo fór að gefa á sjóinn aftur næstu daga og menn tóku upp sína fyrri hætti og tóku að róa á sjónn. Ég man eftir því einn morgun þá vakti pabbi sálugi mig og sagði mér að ég yrði að fara út með fjörum og leita hvort finndust ekki fleiri lík. Sjálfur þyrfti hann að fara austur í Járngerðarstaðahverfi í síma. Ég færðist undan þessu. Eg var ungur og var ekki í sjálfu sér ekki laus við líkhræðslu, sem margir voru á þeim árum. Hann sagði að þetta yrði að ske áður en færi að falla að. Það þýddi þá ekki annað að hlýða. Þórhallur bróðir minn skyldi fara með mér, hann var yngri en ég. Nú svo fórum við af stað og gengum hér út með kampana og vorum komnir út undir strandið og ég var farinn að hlakka yfir því að líklega skyldum við engan finna í þessari ferð. En þá allt í einu var mér litið neðst niður í fjöruna í stórgrýttum kampi. Þar stóð mannsfótur, nakinn mannsfótur, upp úr klettunum.
Ég sá að ekki var um annað að ræða en að reyna að koma hinum dána upp undan sjó, fórum þarna niður eftir. Þá lá líkið þarna í djúpri holu, fóturinn stóð aðeins upp úr eins og hann væri að veifa okkur að koma og bjarga sér. Eftir töluverða erfiðleika náðum við hinum dauða upp úr gjótunni. Hann var fatalaus, hafði verið stór maður, feitur, var alveg heill, en það var svöðusár á enninu. Nú, við höfðum varla orku til að koma honum undan sjónum. Loksins tókst okkur það þannig að ég stóð klofvega yfir honum og spennti greipar undir bak hans og þannig gat ég dröslað honum áfram, en Þórhallur hélt undir fæturnar. Svo þetta gekk vel og á meðan á þessu stóð fann ég ekki neitt til geigs. Þegar upp á fjöruborðið lögðum við hann til eins og við höfðum vit á og nú var mér horfin öll hræðsla, sneri við honum baki og ætlaði að halda áfram út með fjörunni. En um leið og ég sneri við honum þá greip mig ótti og ég tók strikið upp frá fjörunni, upp í heiði og beint heim. Og fram eftir sumri fór ég ekki meira þarna úteftir á þessar slóðir. Svona var geigur í ungum og þungt yfir öllum þegar svona ömurleg strönd áttu sér stað.
Nú, hér í nefinu fyrir framan okkur strandaði 1924, það var sama árið, fjórum mánuðum fyrr en Anna fra Tofte strandaði, þýskur togari í þessu nefi. „Sludup“ hét hann. Hann var koma beint frá Þýskalandi og var að fara á fiskimiðin. Þetta var hans fyrsta landkenning að hann sigldi hér á fullri ferð á háflóði upp í malarkambinn þarna. hann var léttur, það voru aðeins kol og salt í honum. Að vísu voru þá flugbjarglínutækin ekki til. En þegar fór bara að bresta út var togarinn á þurru. Og ég man það að skipsmenn renndu út stiga og gengu þurrum fótum í land. Og lá vel á öllum. Þessi togari flutti hins vegar Staðhverfingum og Grindvíkingum mikið af kolum og ýmsu fleiru og þetta strand var í sjálfu sér ekki neitt harmað því að það meiddist enginn, og skipsmennirnir virtust mjög ánægðir þegar þeir komu í land því það var svo farið með þá austur í Járngerðarstaðahverfið…“
„Skipstjórinn líka kannski?“
„Og skipstjórinn, ja, það sá maður ekki annað.
Skipstjórinn líka, segir þú. Mér er skipstjórinn dálítið minnisstæður. Hann var ákaflega feitur maður, mjög feitur maður. Og vegna þess að kampurinn er nú dálítið ósléttur þá varð að brúa leiðina yfir kampinn með timburbrú til að koma honum upp á græn grös. Og skipstjórinn líka, segir þú. Það var nefnilega haft á orði hér í Grindavík, að þegar hann var að yfirgefa landið og var u.þ.b. kominn um borð í Reykjavík í skip sem átti að flytja hann til Englands þá hafði hann haldið ræðu og rómaði þar með stórkostlegum orðum hve afburðafórnfýsi og kjark Grindvíkingar hefðu sýnt við að bjarga þeim í land við þessar kringumstæður, en Grindvíkingar muna ekki eftir því að auðveldara hefði verið um mannbjörg úr standi en í þessu tilviki því eins og ég sagði áðan, það var rennt út stiga og þeir gengu á ilskóm í land.
En það voru nú ekki öll ströndin sem voru svona þægileg. 1933 var hér hörmulegt, aðeins hér utan við háan malarkambinn, heitir Alnbogi. Þar standaði Skúli fógeti. Af honum var bjargað 24 mönnum en 13 fórust. Það stóð þannig á að um nóttina var mjög vont veður, kafaldsbylur, það sást ekki út úr augunum og snjóaði mikið og hvassviðri. Það var eftir lágnætti var kallað í Loftskeytastöðina í Reykjavík, frá Skúla fógeta, að hann væri strandaður og hann gaf út staðinn nálægt Grindavík, en ekki nánar. Það urðu einhverjar tafir að ná til Grindavíkur um síma, en þó tókst það von bráðar. Strax lagði þó samt af stað vegnara þessar tafa björgunarsveit frá Reykjavík, en hún komst mjög skammt á leið vegna illvirðist og þess hvað snjórinn var orðinn mikill. Von bráðar náðist svo í björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík og hún var nú fljót að tygja sig, fór af stað hér út með fjörum, en sendi samt til vonar og vara tvo menn hér austur með fjörum ef kynni að vera að skipið hafi strandað austan við þorpið.
Þeir urðu að sjálfsögðu að bera tækin. Veðrið var mjög slæmt og snjórinn mikill. Það tafðist fyrir þeim nokkuð að finna hið strandaða skip. Þeir voru komnir hér útundan Staðarberg, snéru þar við aftur og komu þá von bráðar á strandstaðinn, en þá var klukkan víst að ganga fimm um morguninn. Aðkoman þarna var ákaflega ömurleg. Það var hátt í sjó og miðjan af skipunu var alveg í kafi og brúin var að mestu leyti í kafi, en hópur manna stóð upp af kvalbaknum og tveir menn höfðu komist í „afturlamtinn“. Björgunarsveitin kom svo fyrir sínum tækjum og ég held að það hafi verið í öðru skoti sem lukkaðist að ná sambandi við þá sem á hvalbaknum voru og á mjög skömmum tíma tókst að bjarga þeim öllum til lands. Þá voru 13 menn dánir. Það er víst staðreynd að það dó enginn eftir að björgunarsveitin kom á vettvang. Og þeir sem komust á hvalbakinn björguðust allir. Hinir fóru á kaf með skipinu. Þeim var minnistætt sem að stóðu að þessari björgun að hvað eftir annað gengu holskeflur yfir hvalbakinn á Skúla fógeta og á eftir sáu þeir stundum mann og mann hanga utan á hvalbaknum en alltaf tókst þeim sjálfum og félögum þeirra að tosa þeim aftur inn yfir grindurnar. Nú, þá voru þeir eftir þessir tveir á „afurvanftinum“, afturmastrinu, þá varð að bíða við eftir að féll meira út og þá tókst þeim tveimur, af miklum dugnaði, að komsat millum stórsjóanna fram á hvalbakinn og þá var þeim bjargað fljótlega er þeir voru komnir þangað.
Svona gekk það til með Skúla fógeta, en það kom öllum saman um, sem þarna voru á strandstað, að ýmsir af hásetunum á Skúla hafi sýnt alveg afburða þrek og dug að bjarga sér og félögum sínum úr þessum háska – og ég hef heyrt, og það mun vera rétt, að meðan þeir dokuðu við eftir að þeir kæmust þessir tveir úr afturmastrinu, að þá hafi tveir af þeim sem búið var að bjarga í land heimtað að þeir væru dregnir út aftur um borð með heitt kaffi handa þeim og aðstoða ef þá þeir væru orðnir mjög miður sín þegar að því að þeir ættu að fara í björgunarstól. Þetta var Skúli fógeti.
Ef við förum svo hér áfram, nokkuð vestar, vestur fyrir Háleyjar, þá strandaði þar botnvörpungurinn Jón Baldvinsson. Það var 31. mars 1955. Þar var 42 mönnum bjargað. Björgunarsveitin, eins og hún hefur alltaf verið, mjög fljót á vettvang. Og enda þótt bera þurfti tækin alllanga leið þá var þar margt manna sem fylgdi þeim að það gekk greiðlega og aðstaða til að bjarga af Jóni Baldvinssyni var góð því hann hafði farið þarna upp undir berg.
Fyrir neðan þetta berg var stórgrýtisurð, hins vegar var veltubrim og stórsjóir lömdu þarna á skipinu og gengu mikið yfir það. En á örskömmum tíma tókst að draga alla þessa 42 menn í land og það var gott, að það gekk greiðlega, því þótt Jón Baldvinsson væri ákaflega traust og gott skip og sjóunum heppnaðist ekki að brjóta það niður á lítilli stundu að þá voru brimskaflarnir búnir að velta togaranum um hvolf örskömmu stundu eftir að mennirnir voru komnir í land og það var áreiðanlegt að flugbjörgunartækin komu þarna að góðu haldi því ekki er að vita hvernig gengi tækist að koma línu fyrir borð m.v. þau tækis sem þá voru fyri hendi.
Nú, við skulum færa okkur aðeins vestar, og þó aðeins vestur fyrir Litlavitan, þar strandaði olíuskip, Clam held að ég hafi heitið, líklega eitthvert stærsta skip sem strandað hefur hér á Íslandi, það var um 10.000 tonn að stærð. Það var nú búið að lenda í einhverjum ævintýrum inn á Reykjavíkurhöfn, hafði slitnað þar upp og rekið að landi. Það voru fengnir dráttarbátar, einn eða fleiri, ég held frá frá Englandi, og það náðist á flot aftur og síðan skyldi draga það frá Reykjavík til Englands.
Það var komið hérna fyrir Reykjanesið í svona suðvestan brælu, ekki slæmu veðri, en svona töluverðri brælu, þá slitnaði dráttartaugin og það rak að landi. Strax var kallað á Slysavarnarfélag Íslands og það tilkynni björgunarsveitinni hvað var um að vera og hún lagði af stað hingað út á Reykjanes, en ilu heilli þá strandaði skipið nokkrum mínútum áður en hana bar að. Það strandaði undan lágu bergi og það voru auðvitað töluverðir sjóir sem skullu þar á því og svo óheppilega tókst til að það þurstu strax menn í tvo björgunarbáta. Okkur var sagt að yfirmenn skipsins hefðu lagt alveg brátt bann við því að þeir færu í björgunarbátana en þeir hefðu ekkert ráðið við það. En þegar bátarnir voru orðnir fullir, þessir tveir, nokkurn veginn samtímis, þá hvoldi þeim þarna í sjónum, en á sjónum var mikil olíubrák (það var búið að dæla olíu sjóinn), og þeir drukknuðu þarna allir sem í bátanna komust nema þrír eða fjórir menn sem sjórinn kastaði upp í bergsillurnar eða urðina þarna fyrir neðan og eftir einum þeirra varð að síga.
Nú, í sömu mund bar svo björgunarsveitina þarna að, í sama mund bara hana að, og þá fengust þeir ekki meira, skipsmenn að fara í báta og siðan var þeim bjargað mjög fljótlega. Aðstaðan gat ekki verið betri. Þetta stóra skip, þilfarið á því bar jafnhátt berginu, því bergið þarna var mjög átt, og ekki nema 30-40 metrar á milli. Og svo voru þeir teknir í land. Það voru Englendingar og Kínverjar á þessu skipi og mér var sagt að jafnmargir sem fórust af hvoru þjóðerni. Þarna var 24 mönnum bjargað, ég held af 54. Þetta tókst ákaflega hörmulega til að það skyldi ekki öllum verið bjargað því að svo einkennilega vildi til að þetta skip brotnaði svo seint og bar svo hátt yfir sjó að það hefði verið hægt að lifa góðu lífi þarna um borð í skipinu allt fram vorið og og fram á næsta haust, en nú sést ekkert meira til þessa skips.
Nú, svo man ég eftir, á þessu tímabili, þremur mótorbátum sem strandað hafa á þessu svæði, bara á þessari 10-12 km strandlínu. Ég man eftir mótorbát úr Hafnarfirði, Búðarklettur hét hann. Hann strandaði þarna í vondu veðri. Skipverjarnir björguðust, en það höfðu verið með honum tveir farþegar, veit ekki hvernig á ferðum þeirra stóð – þeir fórust.
Öðlingur, lítil bátur af Stokkseyri. Hann rak þarna upp, en var mannlaus. Hann hafði verið yfirgefinn undan Stokkseyri í vondu veðri. Hann rak svo mannlaus hérna með ströndinni og hann brotnaði undir Hrafnkelstaðabergi. Nú, bátur úr Vestmannaeyjum, hann var að veiðum grunnt undan Háleyjum og það kviknaði í bátnum. Þeir gátu ekki slökkt eldinn og þeir gátu stímað honum upp í land og það björguðust allir á honum.
Síðasta opna skipið sem fórst héðan úr Staðarhverfinu. Það var vetrarvertíðin 1915. Það var tvíróið þennan dag. Vestan bræla, gekk á með éljum. Og þessi bátur fór út með seinni róðum til að leggja þorskanet. Menn sáu til hans þar sem hann var undir seglum. Nokkru seinna gerði hvasst vestan él – og hann sást ekki meira. Það hefur verið víst verið 11 manna áhöfn með þessu bát. Þar fórust þrír bræður, synir Árna Jónssonar sem bjó hér í Staðarhverfinu þá.
Nú, hér hafa, eins og gefur að skilja, þegar maður horfir út á þessa eyðulegu hafnlausu strönd, að þá hafi oft orðið hrakningar, erfiðleikar, í gamla daga þegar einungis var hægt að treysta á árar og segl, kannski var róðið í góðu veðri. Það gat brimað hér á nokkrum mínútum, þannig að það var algerlega ófært var að komast í gegnum sundin… Það gat orðið erfitt – jafnvel upp á líf og dauða. Þótt landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum gat brimað hér á nokkrum mínútum… Eins og gefur að skilja, þegar maður horfir yfir þessa hafnlausu strönd, þegar treysta þarf á árar og segl, kannski var róið á góðu veðri, að brimað var hér á nokkrum mínútum og ófært þannig að komast í gegnum sundin. Þá gat verið hér erfitt.
Norðanáttir, þótt, landtaka væri jafnan góð hér í norðanáttum, gátu orðið hrakningsveður mikil. „Man eg hrakningsveður mikil 1916. Þá reru hér allir í mjög góðu veðri, rennisléttum sjó og hægur andvara af norðan en þá skall á norðanveður eins og hendi væri veifað. Og ég held að einn bátur úr Grindavík, hverfunum þremur, hafi náð heimahöfn.
Hinir lentu allir í hrakningum og náðu landi hingað og þangað í þessum víkum, nema fjórir. Þá hrakti vestur fyrir Litlavita og þá tók röstin við þeim og stórviðri af norðan og það er nú ekki efnilegt þegar þannig er komið. Þá vildi þannig til að austan við Reykjanesið var staddur kútter úr Reykjavík. Ester hét þessi skúta. Skipstjóri á henni var Guðbjartur Ólafsson sem síðar var forseti Slysavarnarfélags Íslands í mörg ár. þegar veðrið skall á var hann staddur hér austan við röstuina og þótti ekki árennilegt að leggja í hana því hann var búinn að fiska mikið og dokaði eitthvað við. Hann var var við og sá þá sem hraktir voru og hann bjargaði þeim öllum, fjórum skipshöfnum, yfir 40 manns og ég held að það hafi verið mikið afrek því sjálft skipið var ekki nema 100 tonn. Næstu dagar voru erfiðir hjá Grindvíkingum, en fjórum dögum síðar sigldi skútan Ester inn á víkina og skilaði öllum af sér heilum og frískum. Ég efast um að nokkur maður hafi af Grindvíkingum verið blessaður meira en þessi skipstjóri.“
„Þessi sífellda nálægð við dauðann og baráttan fyrir daglegu brauði hefur sett mark sitt á lífsviðhorf fólksins og hugsunarhátt.“
„Það er ekki ólíklegt. Sérstaklega held ég að þetta hafi verið erfit fyrir kvenfólkið, fyrir mæðurnar. Ég held að þetta hafi horft öðruvísi við frá bæjardyrum sjómannsins, sem sótti sjóinn. Hafið laðar, hafið heillar og hraustir menn hafa geð til þess að stýra í stóru, en ég held að þetta hafi oft verið erfitt fyrir mæðurnar sérstaklega sem horfðu á eftir sonum sínum út á sjóinn við þessar aðstæður sem hér voru. Það er ekki hægt að neita því að það var mikið umkomuleysi í skammdeginu að róa á árabáti úr vör út á hafið og hlýtur að hafa valdið þeim áhyggjum sem gerðu sér grein fyrir hvað öll sund gátu lokast fljótlega. Þegar útlitið var sem erfiðast þá héldu þessar konur sig ekki innan um aðra, fóru einförum, en háðu sína baráttu við sinn drottinn. Nú hafa aðstæður breyst til hins betra, stórkostlega. Bátarnir eru orðnir stórir, þetta eru sjóborgir, og ef farið er með gát þá sýnist manni mikið öryggi vera á ferðinni. Þeir stærstu eru vel út búnir og geta tekið land hvar sem er, þetta eru orðin hafskip og aðbúnaður um borð er allt annar, menn hafa heitan mat, eldhús, sjónvarp og heitt bað svo mikil breyting er orðin á.
Héðan eru nú allir lifandi menn horfnir. Síðasti ábúandinn hér var Gamalíal Jónsson. Hann dó 1964.
Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Einari Kr. Einarssyni um Staðarhverfi í Grindavík. Fjórði þáttur. Frá 3. febrúar 1973.