Eitt af kraftaverkum Strandakirkju
Í Nýja dagblaðinu árið 1936 er grein eftir J.J. undir fyrirsögninni „Eitt af kraftaverkum Strandarkirkju„:
„Allir Íslendingar kannast við Strandakirkju og á hverju ári senda hundruð manna bænir sínar til hennar, bænir um hjálp í margháttuðum erfiðleikum. Að þessu leyti stendur Strandakirkjujörðin falin í kraftaverkatrú fyrri alda og samtíðarinnar. En Strandakirkja er líka nútíma stofnun, sem metur „staðgreiðslu“ og full skil mikils í öllum viðskiptum. Þess vegna láta þeir sem leita hjálpar hennar, nokkra upphæð í reiðufé fylgja áheitum sínum. Stundum til kirkjunnar sjálfrar, stundum til hinna meira og minna syndugu blaða í höfuðstaðnum.
Ég hefi alveg nýlega heimsótt Strandakirkju og við þá kynningu sannfærzt um mátt hennar og veldi. Þess vegan ætla ég að segja í stuttu máli söguna um eitt af „kraftaverkum“ hennar, eins og sjá má af þeim vegsummerkjum í nálægð kirkjunnar.
Menn segja að upphaf Strandakirkju sé það, að langt aftur í miðöldum hafi skip verið í sjávarháska á hafinu út af Selvognum. Þá hafi skipshöfnin í neyð sinni fest það heit, að hún skyldi gefa fé til að reisa kirkju, þar sem komið yrði að landi, ef skipverjum yrði bjargar auðið. Og á einhvern undursamlegan hátt bjargaðist skipshöfnin gegnum brim og boða upp að Strönd í Selvogi. Önnur kirkja mun þá hafa verið þar í vognum, á stærstu jörðinni í hverfinu. Eftir að Strandakirkja var byggð fyrir gjafafé hinna sjóhröktu manna, voru því tvær kirkjur í Selvogi og tæplega hálfrar stundar gangur milli þeirra. Þannig liðu aldir.
En þegar að því kom, að önnur kirkjan varð að víkja, þá sigraði Strandakirkja sökum hins dularfulla eðlis og uppruna. Þjóðtrúin geymdi minninguna um hin fyrstu tildrög að kirkju á Strönd í Selvogi. Þar hafði orðið kraftaverk, sem bjargaði lífi heillar skipshafnar. Strandakirkja var grundvölluð á kraftaverki og það, sem meira var, þjóðinni virtist að hún héldi áfram að gera kraftaverk. Í mörg hundruð ár hefir þjóðtrúin haldið vörð um helgi þessarar kirkju. Og sá vörður hefir verið svo sterkur og máttugur, að hrós Strandakirkju hefir farið vaxandi, eftir því sem tímar liðu. Áhrif Strandakirkju hafa aldrei verið meiri en nú. Hún er eina kirkjan á landinu, sem er auðug að fé. Hún á gilda sjóði og fögur lönd, og til hennar streyma árlega gjafir svo að skiftir mörgum þúsundum króna.
Þjóðin virðist hafa fengið örugga reynslu fyrir því í margar aldir, að það sé heppilegt að leita skjóls og griða undir verndarvæng þeirrar kirkju, sem hinir hraustu sjómenn reistu fyrir mörgum öldum til minningar um undursamlega frelsun úr heljargreipum. Þannig er vald og máttur Strandakirkju.
Reykjanesskaginn er allur brunninn og fullur af gömlum eldborgum. Úr sumum þessum gígum hefir runnið geysimikið hraun, er myndar mikla sléttu frá ósum Ölfusár og vestur að Selvogi og Herdísarvík. Allt þetta land hefir verið skógi vaxið og grasi gróið til forna. En á miðöldunum og síðan hefir það blásið upp og til skamms tíma var allt þetta mikla landflæmi algerð eyðimörk. Sá gróður, sem eftir lifði, var í stöðugri hættu af búpeningi bændanna í Selvogi og Ölfusi.
En höfuðóvinur byggðarinnar, sandurinn, skoraði sjálfa Strandakirkju á hólm og skeytti ekki um helgi hennar. Sandurinn umlukti bygðina alla sem lá að kirkjunni, Selvogshverfið, í faðmi sínum. Og að síðustu einangraði hann kirkjuna sjálfa. Sandfokið lagði í eyði prestssetrið Strönd, rétt hjá kirkjunni, með mörgum hjáleigum, og myndaði síðan breitt sandbelti frá sjónum og upp til heiða, milli Selvogsbyggðar og Strandakirkju. Að lokum var svo komið, fyrir fáum árum, að oft var illfært í Strandakirkju, eða úr kirkju, heim í Selvog, fyrir sandbyl.
Strandakirkja virtist vera að bíða ósigur. Prestsetur hennar og næstu jarðir voru komnar í eyði. Sjálf stóð hún ein út við hafið, umlukt sandhólum. Byggð hennar var öll í hættu af sandi og virtist geta farið í eyði hvenær sem vera skyldi.
En Strandakirkja var ekki vön að bíða ósigur. Og árið 1928 kom henni óvænt hjálp. Sýslumaður Árnesinga, Magnús Torfason, flutti á Alþingi frumvarp um nokkra réttarlega sérstöðu fyrir Strandakirkju. — Yfirstjórn hennar skyldi heimilt að verja af auði kirkjunnar nokkurri upphæð til að græða sandinn í Strandalandi. Það voru tæpir 400 ha., nálega samfelld eyðimörk.
Málið mætti andstöðu í þinginu frá levitunum og hinum skriftlærðu. Biskup landsins var því andvígur og eins guðfræðikennarinn, sem átti setu á Alþingi. Auk þess margir af hinum fastlaunuðu þjónum.“ – J.J.
Heimild:
-Nýja dagblaðið, 188. tbl. 19.08.1936, Eitt af kraftaverkum Strandarkirkju, J.J. bls. 2.
















