Eldvörp – útilegumannahellir – gat

Eldvörp

Haldið var í Eldvörp.

Eldvörp

Eldvörp.

Þegar þangað var komið var dregin upp loftmynd af svæðinu og farið vandlega yfir hana. Forvitnileg göt var að sjá við einn gíganna í suðri. Áður en lagt var af stað var komið við í Brauðhellinum og skoðaðar hleðslurnar. Hitaveita Suðurnesja hafa gengið snyrtilega frá umhverfi opsins, en þegar framkvæmdir stóðu sem hæst hafði verið gengið óþarflega nærri skútanum. Þá voru skoðaðar hleðslur nokkuð austar við Brauðstíginn. Annað hvort hafa þær verið í tenglsum við fjárhald á svæðinu (hugsanlega útilegumanna) eða refaveiðar (stýringu lágfótu frá hraunbrún, sem þarna er).
Jarðlægur einir er eitt af sérkennum Reykjanessins. Nóg er af honum í Eldvörpum. Einnig tófugras í hraunæðum og jarðföllum.

Eldvörp

Eldvörp.

Klepragíganir mynda svo til beina röð til suðvesturs og eru þeir hverjir öðrum stórbrotnari og fegurri. Þegar stigið er niður í hraunið undir gígunum brotnar það undan fótum, sem sýnir hversu lítið hefur verið farið um svæðið. Að mörgu leyti er það bæði ósnortið og óskoðað. Fallegar hraunæðar eru þarna víða sem og djúp jarðföll. Farið var ofan í nokkur þeirra, en rásirnar voru frekar stuttar. Þó mætti fara lengra ef skriðmönnum væri ekki annt um brækurnar sínar því hraunið í botnrásunum er víða allhrjúft.
Við leit fundust nokkrar rásir yfir 20 metra langar. Og þá gerðist það allt í einu sem svo oft fyrr; lítið gat, hleðsla, rásir upp og niður og inni voru greinilegar mannvistaleifar.

Eldvörp

Mannvistarleifar í helli í Eldvörpum.

Þarna hafði enginn stigið fæti í alllangan tíma. Mosinn á gólfinu var óhreyfður með öllu. Í efri rásinni var steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin var mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, en hún var ekki skoðuð að þessu sinni. Falleg rás. Niðri var góð hraunbóla og inni í henni hleðslur. Hlaðið hafði verið fyrir op og framan við það var skeifulaga hleðsla. Bólan var um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Teknir voru gps-punktar. Ummerki í þessum helli er svipuð og í Brauðhellinum. Hraunhellurnar voru ekki úr hellinum sjálfum. Þær höfðu greinilegar verið færðar þangað og raðað upp í einhverjum tilgangi. Eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær það var notað. Enn ein skrautfjöðurin í hatt Grindvíkinga og enn einn útivistarskoðunarmöguleikinn á Reykjanesskaganum.

Mannvistaleifar

Mannvistarleifar í skúta.

Haldið var í efri Eldvörpin, nú með 8 metra langan stiga meðferðis. Burnirót í mosa og fallegar hraunæðar á leiðinni. Hraunið molnaði undan fæti.

Þegar komið var á staðinn reyndist stiginn því miður of stuttur í annan endann. Þegar dýpið á niðurfallinu var mælt reyndist það vera yfir 5 faðmar. Niðri er rás og hellir. Skessuhár (usne subfloridana – ísl. flétta) óx á börmum. Fléttan er ljósgræn og léku sólargeislarnir við hana á annars dökkum kleprunum.
Farið var niður fyrir gatið og stiganum stungið niður í annað uppsstreymi þar með von um að hægt væri að komast þaðan inn í það efra. Þegar niður var komið reyndist þar vera djúp gjá í rásinni og lá hún inn undir gígana. Sá sem færi þarna niður þyrfti að hafa band um sig til að týnast ekki. Ákveðið var að staldra við og freysta þess að semja við BYKO eða Húsasmiðjuna um að kosta næstu ferð með stiga á þeirra kostnað, a.m.k. 12 metra langan. Forvitnilegt væri að sjá hvað undirniðrið hefur upp á að bjóða. Teknir voru gps-punktar.

Eldvörp

Eldvörp – undirniðrið skoðað.

Gengið var niður sólbakaðan grámosann (gamburmosann). Þurfti þá einn leiðangursmanna endilega að stíga ofan á einu burnirótana sem náð hafði festu á svæðinu. Honum var fyrirgefið því stiginn, sem burðast var með, hafði byrgt útsýnið. Mikilvægt er að gefa gróðrinum á svæðinu þá möguleika, sem hann á skilið eftir harðbýlið og baráttuna við náttúruöflin.
Á bakaleiðinni var komið við í vegavinnubúðunum á Gíghæð og þau skoðuð enn einu sinni. Ætunin var að kíkja ofan í Dolluna, en annars nýtilkominn stiginn hafði verið fjarlægður úr henni. Ekki tók því að setja þarna niður hinn 8 metra langa stiga úr því sem komið var.
Vegavinnubúðirnar á Gíghæð eru sennilega frá því um 1916, en byrjað var á Grindavíkurveginum 1913 og þá á Stapa. Sjá má ummerki eftir vegavinnumennina á u.þ.b. 500 metra millibili frá gatnamótunum.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Njarðvíkursel við Seltjörn (Selvatn) hefur að öllum líkindum verið nýtt fyrir vegagerðamennina – sjá má götu og búðir skammt sunnar, skammt vestan við Hestshelli má sjá hús sem og á Gíghæð. Sunnan hæðarinnar er stígur og hús nálægt honum. Síðustu búðirnar 1918 voru við Hesthúsbrekkuna skammt fyrir ofan Grindavík. Skemmtileg og heilleg mannvirki um ákveðið verklag og mikilvægur þáttur í samgöngusögunni, sem ástæða er til að varðveita.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 2 klst og 12 mín.
Sjá meira um Eldvörp HÉR, HÉR og HÉR, HÉR, HÉR og einkum HÉR. Auk þess HÉR og HÉR.

Eldvörp

Eldvörp – útilegumannahellir.