Elliðavatn – skilti
Á upplýsingaskilti við Elliðavatn má lesa eftirfarandi um „Elliðavatn – Þingnes og Vatnsenda“:
Elliðavatn
Elliðavatn var upphaflega tvö vötn; Vatnsendavatn (í Kópavogi) og Vatnsvatn (í Reykjavík) og tengdust með mjóum ál framan við Þingnes. Á árunum 1924-1928 var miðlunarstífla reist við Elliðavatnsengi og við það nær tvöfaldaðist flatarmál vatnsins (40%). Alls er Elliðavatn nú um 2 km2 að stærð, meðaldýpi þess aðeins um 1 metri og mesta dýpi um 2.3. metrar.
Elliðavatn er í flokki lindarvatna og er vatnasvið þess um 270 km2. Mikill hluti vatns sem streymir inn í það kemur neðanjarðar frá í gegnum lekar hraunmyndanir. Tvær ár renna í Elliðavatn; bugða (Hólsmá) og Suðurá. Ein á rennur úr Elliðavatni og heitir hún Dimma en neðar taka Elliðaár við. Hluti Kópavogs í Elliðavatni og Dimma njóta bæjarverndar (hverfisverndar) Kópavogs og vatnið ásamt vatnasviði Elliðaánna eru auk þess á náttúrminjaskrá.
Þingnes
Þingnes er með merkari stöðum við Elliðavatn og tilheyrir bæði Kópavogi og Reykjavík. Þar er talið að sé elsti þingstaður Íslands eða hið forna Kjalarnesþing sem haldið var áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum um 930. Árið 1938 var Þingnes friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.
Vatnsendi
Vatnsendi var eitt af fjórum lögbýlum sem í dag mynda svokallað heimaland Kópavogs ásamt Hvammkoti (Fífuhvammi), Kópavogi og Digranesi. Vatnsendi er eina býlið af þeim sem enn er í ábúð. Til eru ritaðar heimildir um Vatnsenda allt aftur til ársins 1234. Jörðin á Vatnsenda hefur tekið miklum breytingum á 20. öld Við stíflun Elliðaánna missti Vatnsendi mikið land undir vatn og árið 1947 tók Reykjavíkurborg um helming landsins eignarnámi undir friðland fyrir íbúa Reykjavíkur, það land er nú hluti Heiðmerkur. Á sama tíma fóru ábúendur bæjarins að nytja óræktarland undir sumarbústaðaspildur sem eru undanfari þéttbýlismyndunar við vatnið.